Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019

Flugfélög sem stíga inn í gat, útsýni yfir fjöll og ganga í gegnum árekstra

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

1.

„Mjög gott útsýni er úr eigninni m.a. Esjunni, Snæfellsjökli og Keili.“

Fasteignaauglýsing á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 30.3.2019.            

Athugasemd: Betur fer á því að segja að útsýni sé til Esjunnar. Einu sinni stóð í fasteignaauglýsingu að útsýni væri yfir Esjuna. Þá hlýtur húsið að hafa verið ansi hátt. 

Víða í Breiðholti er útsýni yfir Reykjavík og jafnvel til Snæfellsjökuls og Akrafjalls.Úr stofuglugganum heima hjá mér er gott útsýni yfir Elliðavatn, Heiðmörk og allt til Vífilsfells og Bláfjalla, þó ekki yfir þau.

Skrýtið að kalla íbúð eign, í þessu tilfelli er engin ástæða til þess. Miklu sölulegra að tala um íbúð. Allir vita að íbúð er eign en ekki eru allar eignir íbúðir.

Tillaga: Mjög gott útsýni er úr íbúðinni m.a. til Esjunnar, Snæfellsjökuls og Keilis.

2.

„… segir að ólíklegt sé að erlend flugfélög stígi inn í það gat sem myndast við gjaldþrot flugfélagsins WOW air hvað varðar framboð á flugleiðum til styttri tíma.

Fasteignaauglýsing á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 30.3.2019.            

Athugasemd: Ekki nóg með að ráðherra, þingmenn og aðrir „stígi til hliðar“, „stígi niður“ eða upp heldur eru nú flugfélög farin að stíga inn í göt.

Hver fann upp á orðalaginu að „stíga inn í gat“? Hér gatar blaðamaðurinn.

Wow skildi ekki eftir sig gat nema ef til vill í óeiginlegri merkingu, en þá verður viðmælandi og blaðamaður að vita hvenær samlíkingunni sé lokið. 

Útilokað er að segja að í kjölfar verkfalla fljóti atvinnuleysi … eða þar syndi einhver með launahækkun! Eða að manni sé laus höndin og tími sé kominn að festa hana. Eða að söngvarinn hafi verið klappaður upp á efri hæð og þar hafi hann tekið aukalag. Eigum við nokkuð að halda áfram með svona vitleysu?

Orðtök og samlíkingar eru ágætar en sá sem skrifar verður að kunna á þeim skil.

Orðalagið „hvað varðar“ er einfaldlega bjánalegt. Mikilvægt er að sá sem höfundur lesi skrif sín yfir á gagnrýnan hátt, lagi og bæti. Svona er ekki lesendum bjóðandi.

Tillaga: … segir að ólíklegt sé að erlend flugfélög bjóði til skamms tíma upp á sömu flugleiðir Wow air var með.

3.

„Vantar húsfélagið þitt aðstoð við aðalfund og gerð ársreikninga.

Auglýsing á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 31.3.2019.            

Athugasemd: Fyrir um viku (ekki síðan) varð fyrirtæki það á að birta heilsíðuauglýsingu með þágufallsvillu: „

Vantar húsfélaginu þínu …

Nú birtir sama fyrirtæki heilsíðuauglýsingu sem er villulaus. Þegjandi og hljóðalaust var auglýsingin lagfærð. Þetta er til fyrirmyndar.

Tillaga: Tilvitnunin er rétt.

4.

Þegar Guðlaug hafði ítrekað gengið í gegnum árekstra

Viðtal á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 31.3.2019.           

Athugasemd: Hvernig er hægt að gagna í gegnum árekstra? Líklegast á viðmælandinn við að hann hafi oft lent í áföllum. Fleirtalan bendir þó til þess að lýsingarorðið ítrekað og jafnvel atviksorðið oft séu óþörf.

Blaðamanni ber skylda til að lagfæra orðalag viðmælandans. Að öðrum kosti dreifir hann vitleysu sem er fjarri því að vera markmið fjölmiðla.

Lýsingarorðið ítrekað er ofnotað, orð sem er óskaplega vinsælt en auðveldlega hægt að nota önnur. Fyrir alla muni reynum að sýna fjölbreytni í málfari og stíl.

Í viðtalinu stendur:

Í gegnum tíðina hef ég alls ekki synt með straumnum … 

Oft kemur það eins og þruma úr heiðskírum læk þegar fólk fer rangt með orðtök. Maður flýtur með straumnum, lætur berast með straumnum eða fylgir straumnum. Erfitt er hins vegar að synda á móti straumnum og þeir vita sem reynt hafa að það er einnig erfitt að synda með straumnum. Um þessi orðtök má lesa í bókinni Mergur málsins (blaðsíðu 620).

Viðmælandinn á ábyggilega við að hann hafi ekki bundið bagga sína sömu hnútum og aðrir (Mergur málsins, blaðsíða 24).

Tillaga: Þegar Guðlaug hafði lent í áföllum

5.

Fyrir um ári síðan gengu börnin mín í gegnum mikið áfall, en börnin mín þrjú …

Viðtal á blaðsíðu 22 í Morgunblaðinu 31.3.2019.           

Athugasemd: Les blaðamaður aldrei yfir það sem hann skrifar eða er hann blindur á nástöðuna? 

Orðalagið að ganga í gegnum (d. gå igennem) er oftar en ekki óþarft.

Danir segja:

  For et år siden … 

Hins vegar segjum við á íslensku: 

Fyrir ári (ekki síðan) …

Á malid.is segir:

Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.

Þetta eiga allir að vita.

Tillaga: Fyrir ári urðu börnin mín fyrir miklu áfalli þegar þau …


Marklaust orðagjálfur, kæruleysi og hroðvirkni

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Dóm­ari mun skipa skipta­stjóra yfir búið. Heim­ild­ir mbl.is herma að vegna um­fangs gjaldþrots­ins verði að minnsta kosti tveir skipta­stjór­ar skipaðir yfir búið.“

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Tvítekningin er óþörf, kallast nástaða, sem eyðileggur stíll og yfirbragð fréttarinnar. Auðvelt er að laga eins og sjá má hér fyrir neðan.

Tillaga: Dóm­ari mun skipa skipta­stjóra yfir búið. Heim­ild­ir mbl.is herma að vegna um­fangs gjaldþrots­ins verði þeir að minnsta kosti tveir.

2.

Tvær óþekkt­ar flug­vél­ar komu inn í loft­rýmis­eft­ir­lits­svæði Atlants­hafs­banda­lags­ins seint í gær­kvöldi …

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Af hverju er þetta kallað „loftrýmiseftirlitssvæði“, fjórsamsett orð? Er ekki hægt að stytta það og fell út tvo fyrstu liðina?

Annars er loftrými ansi furðulegt orð. Í Íðorðabankanum á malid.is er orðið skilgreint svo:

Hluti andrúmsloftsins sem afmarkast af ákveðnu svæði á yfirborði jarðar og tiltekinni hæð. 

[skýring] Loftrými er skipulagseining á vegum stjórnvalda þar sem ýmist er veitt flugstjórnarþjónusta eða ekki. 

[enska] airspace.

Líklega svarar þetta fyrri spurningunni. Enska orðið „airspace“ er afar stutt og hnitmiðað, ólíkt „loftrýmiseftirlitssvæði“ sem er svo langt að við liggur að mann þrjóti erindið (örendið) í framburðinum. Enska orðið er ekkert annað en „loftsvæði“ eða „loftrými“.

Tillaga: Tvær óþekkt­ar flug­vél­ar komu inn á eft­ir­lits­svæði Atlants­hafs­banda­lags­ins seint í gær­kvöldi …

3.

Nýlega varð grjóthrun úr klettabeltinu ofan við Stein sem fór niður hlíðina fyrir neðan hann á miklum hraða.

Tölvupóstur frá savetravel.is.            

Athugasemd: Þessi málsgrein er ferlega mikið klúður … og órökrétt í þokkabót. Þessi svokallaði „Steinn“ undir Þverfellshorni í Esju er á að giska miðja vegu frá Einarsmýri og upp á brún. 

Almennt hrynur grjót á miklum hraða, veltur þó á brattanum. Þetta vita allir. Þar að auki geta skriðuföll verið stórhættuleg, vart þarf að taka það fram.

Þverfellshorn er bratt og brattast er í hömrunum en þar fyrir neðan er líka afar bratt. Grjót sem hrynur þaðan er strax komið á mikla ferð löngu áður en það kemur að „Steini“.

Tillaga: Nýlega féll grjót úr hamrabeltinu í Þverfellshorni.

4.

Solskjær segir það vera ánægjulegt að fjölskyldan geti loksins byrjað að nota húsið almennilega einum tólf árum eftir að það var byrjað að byggja það.

Frétt á visir.is.             

Athugasemd: Margir blaðamenn og fleiri skrifarar freistast til að lengja mál sitt með gagnslausu orðagjálfri. Ofangreind málgrein er dæmi um slíkt.

Einum tólf árum“ er gagnslaust málalenging, segir ekki neitt. Þetta orðalag er einna helst þekkt í talmáli. 

Eftir að það var byrjað að byggja það“, þetta er annar óþarfinn. Nástaðan hefði átt að vara blaðamanninn við, það er að segja ef hann hefði lesið skrifin yfir.

Hvernig „notar“ fólk hús? Jú, það býr í því.

Hér er svo önnur spurning: Hvernig notar fólk hús „almennilega“? Tja ... nú vefst manni tunga um höfuð. Eru ekki „almennileg“ not af húsi með því að búa í því.? Spyr sá sem ekki veit.

Betri og fyllri frétt um hús Solskjærs og búferlaflutninga hans má til dæmis lesa hér.

Tillaga: Solskjær segir það vera ánægjulegt að fjölskyldan geti loksins búið í húsinu tólf árum eftir að að það var byggt.

5.

Var þetta gert til öryggis á meðan lögregla vann að því að tryggja vettvang sem er nálægt unglingadeild skólans.

Frétt á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 29.3.2019.           

Athugasemd: Hvaða tryggingafélög tryggja vettvang. Líklega gera þau það öll, nefna má „heimilisvettvang“, „sumarbústaðavettvang“ en varla glæpavettvang. Munum að vettvangur er aðeins til í eintölu.

Lögguorðalagið að tryggja vettvang er bein þýðing úr ensku enda er tíðum sagt í amrískum löggumyndum:

To secured the perimeter.

Sögnin að tryggja getur þýtt margt, ekki aðeins að vátryggja, líka að gæta að öryggi. Í fjallamennsku tryggja menn sig, festa sig til dæmis við berg svo þeir falli ekki missi þeir fót- eða handfestu. 

Einhæfni löggumálsins er mikið. Svæði sem lögreglan vinnur á og gætir öryggis fólk er alltaf kallaður vettvangur (e. scene) sem er gott og gilt orð, en einhæfnin maður lifandi. 

Tillaga: Var þetta gert til öryggis á meðan lögregla gætti öryggis en svæðið er nálægt unglingadeild skólans.

6.

… en fólkið er staðsett í flótta­manna­búðum í Ken­ía.“

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hefði ofangreind setning breyst eitthvað ef lýsingarorðinu staðsettur væri sleppt? Held ekki. Þetta orð er ofnotað í íslenskum fjölmiðlum.

Tillaga: … en fólkið er í flóttamannabúðum í Kenía.

7.

Besti markvörðurinn sem Gylfi hefur mætt um hvor sé betri Alisson eða Ederson.

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Fyrirsögnin skilst ekki hversu oft sem hún er lesin. Útilokað er að lagfæra hana því ekkert vit er í henni.

Í fréttinni segir:

Ederson og Alisson eiga báðir mikinn þátt í góðu gengi liðanna og það mun örugglega mæða mikið á þeim báðum á lokasprettinum.

Hvað er hér átt við? Er mæðan sú að þeir hafi staðið sig vel með liðum sínum eða mun mikið hvíla á þeim í síðustu leikjum mótsins? 

Gylfi valdi ellefu mann liði með erfiðustu andstæðingunum …

Hér er kæruleysið alls ráðandi. Blaðamaðurinn les ekki yfir það sem hann hefur skrifað og sýnir þannig okkur neytendum, lesendum, mikla ókurteisi og dónaskap.

BBC Sport fékk Heurelho Gomes til dæma um það hvor landa hans sé betri markvörður. 

Þetta er skemmd málsgrein, kæruleysislega skrifað, enginn yfirlestur. „Til dæma um“ dugar ekki, inn á milli vantar „að“, til að dæma ...

Betur hefði farið á því að segja að maðurinn hafi átt að meta hvor væri betri markvörður. Þeim sem er umhugað um stíl og málfar gerir greinarmun á sögnunum að dæma og meta.

Hann sé því ekki mikið á milli þeirra en er samt á því að Alisson Becker sé betri markvörður í dag.

Enn skilst ekkert af því sem blaðamaðurinn skrifar, þetta er algjörlega óskiljanlegt. Svona er „fréttin“ öll, illa samin, hroðvirknisleg og sundurlaus.

Tillaga: Engin tillaga gerð.


Wow-leg tíðindi og ekkert annað að frétta

Wow var í fréttunum. Allur heimurinn stóð á öndinni og fylgdist með. Ríkisútvarpið, Ríkissjónvarpið, Bylgjan og fleiri miðlar fluttu beinar lýsingar af nauðlendingunni. Engu líkar var en að Beyonce eða álíka „celeb“ hefði brotið nögl. 

Allt féll í skuggann af hinum válegu atburðum. Glæpir stöðvuðust, Brexit frestaðist, Trump hætti að tísta, Kínverjar hættu að þróa Huawei, Rússar hættu að endurvinna almenn tíðindi, gulvestungar hengdu upp vestin sín, Palestínumenn gerðu hlé á mótmælum, Ísraelar hættu að skjóta á mótmælendur og sjálfur nýtti ég tækifærið og fór til tannlæknis.

Vonir standa nú til þess að almenningur á Íslandi fái nú fréttir af gangi kjaraviðræðna, beinar útsendingar af verkfallsvörslu, sögur af Trump, fréttir af Brexit og annað fréttnæmt í veröldinni sem heldur vonandi áfram að snúast um öxul sinn.

Verra er ef formaður Samfylkingarinnar hafi skipt um peysu en Ríkisútvarpið ekki náð að gera atburðinum skil í beinni.

„Má vera að við getum sagt einhverjar aðrar fréttir í fréttatímanum,“ sagði fréttamaðurinn dimmraddaði.


Valréttir, rakið með öldum, spes og til þriggja ára frambúðar ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Mót eða móti

Hvort er réttara: að steypa e-ð/allt í sama mót – eða móti með i-i? 

Stutt leit sýnir að flestum er mót tamara. 

Í Merg málsins er það hins vegar móti og rökstutt með því að um sé að ræða kyrrstöðu. Maður mótar (steypir) e-ð í móti (formi). En oft vægir vit fyrir venju.

Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 26.3.2019.

1.

„New York Giants var hins vegar tilbúið að láta þennan vandræðagemling fara fyrir tvo varnarleikmenn og tvo valrétti.“

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Skilja má ofangreinda málsgrein svo að leikmaður í bandarískum fótbolta hafi verið seldur og fyrir tvo varnarleikmenn og … og hér vandast málið. 

Tveir valréttir? Hvað þýðir það. Fékk félagið sem seldi manninn tvær máltíðir á veitingastað að eigin vali?

Tillaga: Engin gerð.

2.

„Takk fyrir svörun þína.“

Forhannað svar frá Hagstofu Íslands.           

Athugasemd: Ég hef í nokkur ár verið á skrá hjá Hagstofu Íslands og fengið þaðan fréttir og upplýsingar í tölvupósti. Hef lengi tekið eftir því að þegar ég fæ loks póstinn hefur efni hans þegar verið gerð skil í fjölmiðlum. Sá þar af leiðandi ekki ástæðu til að marglesa það sama og sagði skráningunni upp í gær.

Eins og fleiri fyrirtæki og stofnanir þykist Hagstofan vita hvers vegna maður vilji ekki lengur fá póstinn. Hægt er að velja um fimm kosti; vil ekki fá tölvupóst, skráði mig aldrei á póstlistann, tölvupóstarnir eru óviðeigandi, tölvupóstarnir eru ruslpóstur og bera að tilkynna. Síðasti kosturinn er þessi: „Annað (færðu inn ástæður að neðan“. Og ég gerði það samviskusamlega með ofangreindum rökum og ýtti á „enter“. Þá kom upp þetta: 

Takk fyrr svörun þína.

Svona skrifa aungvir nema „kontóristar“ sem mæla dags daglega á einhverri stofnanamállýsku. Þetta er ekki beinlínis rangt en hver notar nafnorðið svörun en ekki svar? Doldið fyndið, ekki satt. Hins vegar þori ég að veðja að enginn skoðar hvers vegna einhver hættir á tölvupóstlista Hagstofunnar.

Tillaga: Takk fyrir svarið.

3.

„… kom í gær að dauðu folaldi í grjótagarðinum á Granda. Talið er að það hafi rakið þangað með öldum.“

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Tvennt er rangt í seinni setningunni. Sögnin að reka hefur hvergi þessa mynd sem þarna er birt. Rétt mynd er rekið sem er lýsingarháttur þátíðar í hvorugkyni. Svo er það hitt, að eitthvað hafi rekið með öldum. Þetta er bara vitleysa.

Í fréttinni er sagt frá folaldshræi sem fannst í grjóthleðslu vestur á Granda í Reykjavík. Ýmislegt er ámælisvert í þessari örstuttu frétt sem er aðeins 11 línur:

Við fundum það í gær í steinveggnum þarna. 

Af myndunum að dæma er þetta ekki steinveggur heldur grjóthleðsla. Og blaðamaðurinn heldur áfram:

Ég myndi halda að þetta hefði troðist með öldunum, …

Viðmælandinn segir þetta en blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að laga orðalagið eins og honum ber. Líklega er átt við að brimið hafi lamið hræið inn á milli grjóthnullunganna.

Þetta var mjög spes.

Hvað þýðir spes? Orðið finnst að vísu í Íslenskri nútímamálsorðabók á malid.is sem merkir að það þekkist en er alls ekki viðurkenning á þegnrétti í málinu. 

Ekki þarf annað en að „gúgla“ orðið og þá sést að það er mikið notað. Í þeirri stöðu sem það er hér að ofan er „spes“ lýsingarorð en það getur samt hvorki stigbreyst eða fallbeygst. Hvers vegna? Jú, orðið fellur ekki að íslensku máli.

Líklega er orðið dregið af enska orðinu „special“. Í setningunni hér að ofan mætti nota í staðinn lýsingarorðið sérstakur eða jafnvel skrýtið.

Annars er fróðlegt að lesa það hvað segir um spes í Íslenskri orðsifjabók á malid.is en athugið það er ekki sama „spes“ og í frétt DV: 

spes kv. (19. öld) stað- og ættbundið viðurnefni (um frekar stórvaxið fólk); spesarlegur l. ‘með slíku ættarmóti’. Viðurnefnið líkl. þannig tilkomið að sá sem fyrstur bar það fór oft með vísu um 

Spes er varð kona Þorsteins drómundar. En nafn hennar er líkl. s.o. og lat. spes <von>.

Þorsteinn drómundur var hálfbróðir Grettis og fór til Miklagarðs (sem nú nefnist Instanbul) til að hefna hans. Þar drap hann Þorbjörn öngul Þórðarson,Grettis, banamann Gréttis. Þorsteinn var ríkur og þótti virðingarmaður hinn mesti. 

Í Grettis sögu segir:

Þeir sögðu er næstir stóðu að sá hefði verið harður í haus og sýndi hver öðrum. Af þessu þóttist Þorsteinn vita hver Öngull var og beiddist að sjá saxið sem aðrir. Lét Öngull það til reiðu því að flestir lofuðu hreysti hans og framgöngu. Hann hugði að þessi mundi svo gera en hann vissi öngva von að Þorsteinn væri þar eða frændur Grettis.

Tók Drómundur nú við saxinu og jafnskjótt reiddi hann það upp og hjó til Önguls. Kom það högg í höfuðið og varð svo mikið að í jöxlum nam staðar. Féll Þorbjörn öngull ærulaus dauður til jarðar.

Þetta er hrikaleg myndræn frásögn. Takið eftir orðalaginu hann féll „ærulaus dauður til jarðar“. Óvenjuleg hlutdrægni með beinum orðum í fornriti. Ekki er síðri lýsingin á því er Spes kynnist Þorsteini. Af þeim er undurfögur og rómantísk saga sem er frekar óvenjuleg í fornritunum. Á vef Snerpu má lesa Grettis sögu og fleiri fornrit. Í 86. kafla byrjar þáttur Spesu og Þorsteins.

Tillaga: Talið er að það hafi rekið þangað. 

4.

Manchester United grein­ir frá því á vef sín­um að Norðmaður­inn Ole Gunn­ar Solskjær hafi verið ráðinn knatt­spyrn­u­stjóri fé­lags­ins til fram­búðar og er samn­ing­ur hans til þriggja ára.

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hér fer ekki saman að maðurinn hafi verið ráðinn til frambúðar og að hann sé ráðinn til þriggja ára. Öðru hvoru er ofaukið.

Á malid.is segir:

Orðið frambúð merkir: ending, framtíðarnot. Að eitthvað sé til frambúðar merkir því að eitthvað sé varanlegt. Athuga að frambúð merkir annað en framtíð.

Kjörnir fulltrúar á þingi og í sveitarstjórnum eru ráðnir til fjögurra ára og kjörtímabil forseta Íslands er fjögur ár. Þessi störf eru bersýnilega ekki til frambúðar.

Tillaga: Manchester United grein­ir frá því á vef sín­um að Norðmaður­inn Ole Gunn­ar Solskjær hafi verið ráðinn knatt­spyrn­u­stjóri fé­lags­ins og er samn­ing­ur hans til þriggja ára. 


Karlar eru heilladísir, einstaklingar í tökum og stofnun biðlar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Tvítekning, upptugga

Víkverja þykir sláttuorf „skrýtið orð", og skal enginn lá honum það. Finnst honum þetta líkt því og menn tali "um ökubíl, skotbyssu eða námsskóla". Trúlega nota samt engir þess konar samsetningar. 

Á erlendum málum eru slík orð nefnd "tutologi", en nefnist tvítekning á íslenzku. Er þá átt við, að sama hugtak sé endurtekið með samheiti eða öðru orðalagi. Stundum er þetta nefnt upptugga, og þykir aldrei vandað mál. 

Glöggt dæmi um endurtekningu er það, þegar talað er um strætisvagnabílstjóra , enda þótt aldrei sé talað um strætisvagnabíl, heldur strætisvagn. Í því sambandi er eðlilegt mál að tala um strætisvagnstjóra eða aðeins vagnstjóra, því að vagn og bíll táknar sama hugtakið. Því fer illa að nota bæði orðin í sömu andránni. - J.A.J.

Pistill í Morgunblaðinu árið 1998. 

 

1.

„Rúta hafnaði utan vegar undir Ingólfsfjalli.“

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Skrýtið hvernig löggu-, slysa og óhappafréttir eru komnar með fyrsta veðrétt í ákveðnum orðum eða orðasamböndum svo úr verður einhvers konar stofnanamál 

Ökutæki lendir fyrir slysni út af vegi og þá er alltaf sagt og skrifað að það hafi hafnað utan vegar. 

Skriffinnskan lætur ekki að sér hæða. Blaðamenn ritskoða sjálfa sig svo harkalega að fjölbreytnin verður engin, stíllinn steindauður. Látið er sem sagnorð eins og að lenda, renna, falla, aka, enda eða álíka séu ekki til og þess í stað alltaf notað sögnin að hafna.

Í fréttum er aldrei sagt frá því að skip eða bátar hafi hafnað uppi í fjöru. Þó er það ekki endilega vegna þess að blaðamenn viti að sögnin að hafna getur þýtt að lenda. Forðum voru víða lendingar og það voru ekki alltaf hafnir.

Já, skriffinnskueinokunin minnir á kanselístílinn sem frægur er af endemum (ekki eindæmum, sem er allt annað).

Löggan telur sig eiga fyrsta veðrétt í orðasambandinu að vista í fangaklefa. Blaðmenn trúa því að þetta sé óumbreytanlegt löggumál.

Í gamla daga, þegar ég var í sumarlöggunni, og síðar í blaðmennsku voru þeir sem brutu lög á einhvern hátt oft settir inn, lokaðir inni, settir í fangelsi eða fangaklefa, varðhald og svo framvegis og allir vissu hvað var átt við þó enginn hafi verið vistaður.

Enn síðar kom hámenntað en óskrifandi fólk til starfa hjá löggunni og þá var tekið upp á því að vista óprúttið fólk í geymslum, auðvitað gegn vilja þess. Fyrir suma er þetta erfiðari vist en framsóknarvist og ekki um neitt lík leikskólavist, og fjarri því að vera neitt líkt vist í sveit eða að vista tölvugögn.

Sögnin að hafna getur haft margar merkingar sem ekki má gleyma þó löggumálið sé að taka yfir. Á malid.is segir:

    1. hafna s. ‘vísa frá, taka ekki við, neita; forðast’ ...
    2. hafna s. ‘lenda’, h. sig ‘taka höfn, leggjast við landfestar’. Sjá höfn (1).
    3. hafna s. (18. öld) ‘gera barnshafandi’; hafnast s. ‘taka við fangi’. Sjá höfn (3).

Nafnorðið höfn:

    1. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘skipalægi’ […] Upphafl. merk. í höfn líkl. ‘umluktur staður, geymir’ e.þ.u.l. 
    2. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘haglendi, beit; (hefðunnin) eign,…’
    3. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘fóstur’; … eiginl. s.o. og höfn (2), sbr. barnshafandi.
    4. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘atferli, hegðun; döngun’; sbr. nno. hovn ‘döngun, vellíðan’. Eiginl. s.o. og höfn (2) (< *haÆ&#128;eÌ&#132;ni-), sbr. að hafast og hafast að. Af sama toga er -höfn í samsetn. eins og athöfn, áhöfn og skipshöfn.
    5. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘kápa, skikkja’; sbr. einnig yfirhöfn kv. …

Hér hefur verið tæpt á einhæfri málnotkun í fréttum sem leiðir til þess að þær verða hverri annarri lík og oft furðulega fjarri raunheimum. Ástæðan er einföld. Svo ótalmargir hafa ekki alist upp við bóklestur, orðaforði þeirra er lítill og einhæfur. Slíkt fólk á að láta aðra skrifa fyrir sig.

Tillaga: Rúta ók út af veginum undir Ingólfsfjalli.

2.

Hinn 51 árs gamli Steven King var dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangelsi.“

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Gott er til þess að vita að blaðamaðurinn sem skrifaði þetta kunni ágætlega ensku. Hins vegar er hann lakari í íslensku, sem er miður.

Heimildin gæti verið þessi:

The 51-year-old Steven King, of Siddeley Avenue, Coventry, was sentenced to seven years and four months.

Á vísi stendur þetta:

Hinn 51 árs gamli Steven King var dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangelsi
Hinn 54 ára gamli Paul Rolston var dæmdur í sex ára og fjögurra mánaða fangelsi.
Hinn 42 ára gamli Daniel Malone fékk þriggja ára og þriggja mánaða fangelsisdóm.

Svona er ekki gert á íslensku. Einar Örn Thorlacius skrifaði um ákveðna greininn á vef Eiðs Guðnasonar, Mola (vefurinn er enn opinn, í honum er að finna mikinn fróðleik):

Það skiptir hins vegar fleira máli í málnotkun en „rétt“ og „rangt.“ Málsmekkur skiptir líka máli. Hann er auðvitað mismunandi á milli málnotenda.

Ef við tökum fyrst ákveðna greininn þá býr íslenska við þann hrylling (t.d. öfugt við ensku) að vera með viðskeyttan greini. Við bætist síðan að íslenskan er mikið beygingamál. Útkoman er ekkert sérlega góð. Við þennan vanda má einfaldlega losna með því að stilla notkun ákveðins greinis í hóf. …

Mér finnst hins vegar notkun ákveðins greinis vera að aukast mikið í íslensku til lítillar prýði fyrir málið.

Ástæðan fyrir því að notkun ákveðins greinis fer vaxandi er uppgjöf. Margir kunna ensku prýðilega en hafa hvorki skilning né þekkingu á íslensku máli. Þegar slíkir eru blaðamenn stefnir allt í eina átt.

Svo virðist sem að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki tekið upp neina gæðastefnu í málfari og stíl. Afleiðingin eru skemmdar fréttir.

Í ofangreindri tilvitnun á Vísi er ákveðna greininum ofaukið. Í ensku hefur hann víðtækari merkingu en í íslensku. Þar af leiðandi er hjákátlegt að sjá misnotkunina, að blaðamenn og aðrir skrifarar haldi að sama gildi um hann á báðum tungumálunum.

Jafnvel enskumælandi skrifa ekki eins og blaðamaðurinn, þeir eru óhræddir við fjölbreytnina. Þetta má greinilega sjá ef enski linkurinn hér að ofan er opnaður og greinin lesin.

Tillaga: Steven King, 51 árs, var dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangelsi.

3.

Fjór­ar heilla­dís­ir frá Breiðdals­vík verða meðal áhorf­enda …

Frétt á mbl.is. .            

Athugasemd: Hvernig er hægt að kalla fjóra karlmenn heilladísir? Nei, þetta er ekkert grín. 

Stílbrot kallast það þegar frásögn gjörbreytist vegna ósjálfráðra mistaka eða vankunnáttu höfundar. Síðast var hér sagt frá orðasambandinu að gefa hesti lausan tauminn. Það væri alvarlegt stílbrot að segja að hesturinn hafi þá fengið frjálsar hendur um leiðarval.

Stundum getur höfundur náð fram tilætluðum áhrifum með stílbroti. Hér er skemmtilegt dæmi: 

Eyru mín fýsir að hlýða á mjúka og blæfagra rödd þína, augu mín girnast að virða fyrir mér fegurð þína og tign, og kjaftinn á mér langar til að tilbiðja þig í orðum.  

Frekar ólíklegt er að stílbrot blaðamannsins sé meðvitað. Sé svo er hann ábyggilega að hæðast að „heilldísarkörlunum“. 

Á íþróttadeild Moggans er það líklega talið „íþróttamál“ að kalla karlkyns stuðningsmenn heilladísir rétt eins og að þar eru leikmenn liða  iðulega nefndir „lærisveinar“ þjálfarans.

Á malid.is segir um merkingu á kvenkynsorðinu heilladís:

kvenkyns vera sem færir manni gæfu

Má vera að ekki sé allt rétt sem í orðabókum stendur. Hins vegar þarf skýr rök fyrir því að fjórir miðaldra karlar geti verið heilladísir.

Blaðamaður með fullri meðvitund og þokkalega lesinn í íslenskum bókmenntum hefði ábyggilega flett upp í orðabók og komið auga á hlýlega orðið heillakarl. Á malid.is segir um það:

Oftast með greini; hlýlegt ávarp við karlmann; til hamingju með afmælið, heillakarlinn minn

Með þessu er málið leyst. Vandinn er hins vegar þessi: Hvernig er hægt að fá þann sem hefur rýran orðaforða til að skrifa vandað mál?

Tillaga: Fjór­ir heillakarlar frá Breiðdals­vík verða meðal áhorf­enda …

4.

Dyra­verðir á skemmti­stað í miðborg­inni óskuðu eft­ir aðstoð lög­regl­unn­ar um hálf­fjög­ur­leytið í nótt, en þá voru þeir með ein­stak­ling í tök­um.

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Væri „einstaklingurinn“ í tökum hjá ljósmyndara er ekkert athugunarvert við málsgreinina. Þar eru teknar ljósmyndir, ljósmyndatökur eru tíðar og ein eða fleiri fyrirsæta í tökum. 

Í gamla daga, þegar ég, væskilslegur strákur rétt kominn yfir tvítugt, var í sumarlöggunni, voru misyndismenn handteknir, teknir fastir. Fyrir kom að almennir borgarar gripu inn í og héldu bófum þangað til lögreglan kom og tók við þeim. Þá hét þetta borgaraleg handtaka.

Síðar, þegar ég starfaði sem blaðamaður skrifað ég og fleiri um störf lögreglunnar. Þá voru menn handteknir. Aldrei datt okkur í hug að skrifa að „einstaklingar“ eða „manneskjur“ hafi verið settir inn.

Í dag vita yngri blaðamenn vart í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, má vera að þeir skilji ekki að bæði karlar og konur eru af tegundinni menn. Líklega halda þeir að það sé brot á jafnréttislögum að gera ekki greinarmun á kynjunum. Þó teljast þeir blaðamenn og skiptir kynið engu máli.

Löggan á erfitt með skriftir rétt eins og íþróttablaðamenn. Báðar stéttirnar búa til eigin mállýsku og halda í einfeldni sinni að ekkert sé að því að gjörbreyta merkingum orða. Löggumál líkist æ meir hallærislegum „stofnanaskrifum“ þar sem nafnorðavæðingin er ráðandi.

Blaðamenn taka oft við fréttatilkynningum frá löggunni og birta, yfirleitt gagnrýnislaust, vegna þess að það er fljótlegast. Þetta kallast kranablaðamennska og er ekki hrós.

Tillaga: Dyra­verðir á skemmti­stað í miðborg­inni óskuðu eft­ir aðstoð lög­regl­unn­ar um hálf­ fjög­ur í nótt, en þá voru þeir með mann í haldi.

5.

„Vantar húsfélaginu þínu aðstoð við aðalfund og gerð ársreiknings?“

Auglýsing á bls. 25 í Morgunblaðinu 23.3.2019.           

ÞágufallsauglýsingAthugasemd: Með stríðsletri stendur þetta i auglýsingu á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu. Um leið og blaðið kom út var farið að ræða um þágufallssýkina í henni á samfélagsmiðlunum. 

Einhver sagði í öðru blaði þennan sama dag að allt umtal væri gott. Nei, í markaðsfræðunum telst það ekki svo og er hægt að færa mörg rök fyrir því. Slæmt umtal skaðar vegna þess að slæmar fréttir berast miklu hraðar en þær góðu.

Hins vegar er hægt að takmarka skaðann, en það er allt annað mál og ekki hér til umræðu.

Sagorð stjórna föllum, um það verður ekki deilt. Margir telja þágufallssýki ekki alvarlegt mál. Það má vel vera en sögnin að vanta krefst þess að nafnorðið sé í þolfalli. Því verður ekki breytt.

Tillaga: Vantar húsfélagið þitt aðstoð við aðalfund og gerð ársreiknings.

6.

Hann var und­ir áhrif­um fíkni­efna og fram­vísaði stór­um hníf við af­skipti lög­reglu.

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Málfarið í löggufréttum fjölmiðla er stundum spaugilegt, en um leið doldið sorglegt. Dæmi um þetta er ofangreind málsgrein. Veit ekki hvernig í ósköpunum hægt er að komast svona að orði; framvísa og við afskipti. Sá sem skrifaði er eitthvað úti að aka.

Í stað hnífs hefði mátt standa vegabréf og í stað afskipta gæti komið eftirlit. Þá væri eitthvað vit í þessu. Annars geta lesendur ímyndað sér sviðsetninguna með þeim Geir og Grana í Spaugstofunni í „viðskiptum“ við dóparann.

Síðar í fréttinni segir:

Þegar lög­regla kom á vett­vang reynd­ist ofurölvi maður vera bú­inn að brjóta rúðu og var skor­inn á hendi. 

Þessi bannsetti vettvangur tröllríður öllum löggufréttum, orðinu má langoftast sleppa, fréttum að skaðlausu. Og ekki leysa vettvanginn af hólmi með „á staðinn“, það er númer tvö á bannsetta listanum.

Svo er það þetta orðalag: reyndist ... vera búinn að brjóta. Ekki flækja málið. Þegar löggan kom hafði maðurinn brotið rúðuna. Er eitthvað flókið eða er þetta of „ólöggulegt mál“.

Löggan og blaðamenn eru blind á nástöðu, þessar tvítekningar eru í fréttinni:

Maður­inn var flutt­ur með sjúkra­bif­reið á slysa­deild til aðhlynningar og verður lík­lega vistaður í fanga­geymslu eft­ir aðhlynn­ingu þar. Maður­inn er er­lend­ur ferðamaður og er ekki vitað hvar hann gist­ir. 

Ég veðja á að hann gisti í fangelsinu. Nei, hann var vistaður í geymslu á lögreglustöð. Enn og aftur kemur fyrir þetta orðalag að vista í fangageymslu. Má ekki orða þetta á annan hátt eða er löggumálið svo staðlað að ekki megi bregða út af því?

Aðhlynning kemur þarna tvisvar fyrir í sömu málsgreininni. Höfundurinn hefði auðveldlega getað skrifað sig framhjá því.

Orðaröðin flækist fyrir löggunni og blaðamönnum:

Einn var flutt­ur á slysa­deild eft­ir tveggja bíla árekst­ur í hverfi 111 í gær­kvöldi vegna eymsla í hendi. 

Hvað merkir einn? Varla hestur, hann hefur ekki hendur. Api hefur hendur. Hvað er hverfi 111? Það er ekki til, hins vegar vita margir um póstnúmerið 111.

Maður var fluttur á slysadeild vegna eymsla í hendi … og svo framvegis. Raunar kemur það ekki málinu við hver meiðslin voru því eymsli eru sjaldnast meiriháttar.

Tillaga: Hann var undir áhrifum fíkniefna og var með á sér stóran hníf sem lögreglan tók af honum.

7.

Biðla til bæja um pláss.

Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu   22.3.2018.         

Athugasemd: Enn og aftur sprettur fram í dagsljósið blaðamaður sem veit ekki hvað sögnin að biðla merkir. Snautlegt að kallast blaðamaður og bera ekki skynbragð á íslenskt mál. 

Í fréttinni er sagt að Útlendingastofnun „biðli“ til sveitarfélaga um að gera þjónustusamninga vegna útlendinga sem sækja um alþjóðlega vernd.

Sá sem biðlar er biðill. Hann biður um hönd konu, vill giftast henni. Aftur á móti er sjaldgæft er að sá sem biður sé biðill. Útlendingastofnun biðlar ekki frekar en önnur fyrirtæki eða stofnanir. Sjá hér og hér og hér.

Sögnin að biðla kemur tvisvar fyrir í fréttinni, þó er hún ekki er löng. Blaðamaðurinn semur níu línur í eindálki auk fyrirsagnar.

Rangt mál er algengt fjölmiðlum, segja má að þeir dreifi skemmdum fréttum. Ekki er hægt að kalla það annað þegar merkingum orða er breytt, annað hvort vegna þekkingarleysis eða af ásetningi. Matvælaframleiðandi sem sendir frá sér skemmda vöru fær á baukinn hjá yfirvöldum og raunar líka í fjölmiðlum.

Dæmi eru um að fjölmiðlar hafi gert útaf við matvælafyrirtæki vegna skemmdrar vöru en hver hefur eftirlit með fjölmiðlum?

Má „fjórða valdið“ endalaust framleiða og dæla yfir landsmenn skemmdum fréttum?

Tillaga: Biðja til bæja um pláss.


Lausi taumurinn, biðla til guðs og erindi eða örendi,

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Fótbolti eða knattspyrna

Þegar fótboltaleikur fluttist hingað til Íslands, báðu menn lærðan málhreinsunarmann að búa til íslenzkt orð yfir þennan leik, og þannig var orðinu knattspyrna nauðgað inn í málið.

Í þessum leik er ekki leikið með knött, heldur hlut, sem fer ágætlega á að haldi heitinu bolti. Knöttur er gagnþéttur og þungur, það heyrir hver maður með óspillta heyrn á hljómi orðsins; bolti er léttur, það er loft innan í honum, það er líka auðheyrt á hljómi orðsins.

Og í þennan bolta er ekki spyrnt, heldur sparkað – það er ekki spyrnt í hlut nema hann veiti viðnám. Fótbolti er því ágætt orð. Vonandi á máltilfinning þjóðarinnar eftir að útrýma orðinu knattspyrna...

Kristján Albertsson í Skírni 1939. Birt á Vísindavefnum.

1.

„Voru eigendur verslana í nágrenninu sagðir ævareiðir þar sem mótmælendum var gefinn laus taumur til þess að brjóta og bramla.“

Frétt á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 19.3.2019.           

Athugasemd: Góð regla er að nota ekki málshætti eða orðtök nema kunna á þeim skil. Betra er að sleppa þeim frekar en að eiga á hættu að fara rangt með.

Í þessu tilviki passar orðtakið ekki og málsgreinin missir merkingu sína.

Taumur er „sá hluti  beislisins sem haldið er í“, segir í íslenskri nútímamálsorðabók. 

Reiðmaðurinn stjórnar hestinum með taumnum. Þegar taumurinn er lagður niður, er laus, fær hesturinn að stjórna ferðinni sjálfur. Hér væri algjört stílbrot að segja að hesturinn hafi fengið „frjálsar hendur“ til að gera það sem honum sýnist.

Jafnmikil stílleysa er að segja að mótmælendum hafi verið gefinn laus taumurinn vegna þess að það gefur til kynna að einhver, líklega lögreglan, hafi fylgst náið með, rétt eins og reiðmaðurinn sem gaf hestinum lausan tauminn.

Samkvæmt fréttinni missti lögreglan stjórn á mótmælendum og tóku sumir upp á því að ræna fyrirtæki. Afleiðingin af öllu þessu varð enda sú að lögreglustjórinn var rekinn. Þetta gerðist í París (ekki segja; „átti sér stað“ í París).

Tillaga: Eigendur verslana í nágrenninu voru sagðir ævareiðir þar sem mótmælendum gátu brotið allt og bramlað enda lögreglan fjarri.

2.

„Hrósaði fyrst og síðast leikmönnum fyrir að stíga upp í samræmi við gildi félagsins og berjast fyrir hver annan.“

Grein á blaðsíðu 12 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 20.3.2019.           

Athugasemd: Þetta er óskiljaleg málsgrein í annars góðum pistli. Í ágætri bók segir að Jesú hafi stigið upp til himna. Allir skilja hvað átt er við. Vart hafa leikmennirnir farið að dæmi hans. Líklegast er þó að þeir hafi stigið upp á stól, upp á tröppu á leið sinni á næstu hæð eða eitthvað svoleiðis.

Furðuleg er sú árátta margra mætra manna að skrifa ensku með íslenskum orðum. Slíkt var framandi og illskiljanlegt en þykir nú svalt og flott, merki um að menn hafi komið til útlanda.

Við hin, þessi heimsku í upprunalegri merkingu þess orðs, hváum því við erum engu nær. Nokkrar líkur eru þá á því að einhver sem horft hefur á amrískar sakamálamyndir manni sig upp (ekki segja „stígi upp“) og spyrji trúr enskunni:

„Did they really step up or are you just kidding?“

Þetta síðasta er greinilega útidúr.

Tillaga: Hrósaði fyrst og síðast leikmönnum fyrir að taka sig á, berjast í samræmi við gildi félagsins, hjálpast að.

3.

Skömmu áður en flugvélin brotlenti þagði flugstjórinn, sem var frá Indlandi, en flugmaðurinn, sem var frá Indónesíu, biðlaði til guðs.

Frétt á visir.is.            

Athugasemd: Þetta er ekki góð málsgrein, auðvelt er að laga hana. Líklega hefur indverski flugstjórinn þagnað þó ekki sé rangt að segja að hann hafi þagað, ekki sagt neitt, hætt að tala. 

Indónesíski flugmaðurinn biðlaði ekki til guðs. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina veit ekki hvað orðið þýðir.

Í malid.is segir að biðla merkir að biðja um hönd stúlku, sá sem biðlar er biðill. Þetta vita auðvitað allir sem alist hafa upp við lestur bóka og því ósjálfrátt safnað drjúgum orðaforða. Nánar er fjallað um sögnina að biðla hér og einni í þessum pistli.

Í stað tvítekningarinnar, nástöðunnar; „sem var frá“, hefði blaðamaðurinn átt að orða það svo að flugstjórinn væri indverskur og flugmaðurinn indónesískur. Lýsingarorðin sem dregin eru að landaheitum eru oft þægileg í notkun.

Heimild fréttarinnar er Reuters fréttamiðlunin. Þar er fréttin miklu ítarlegri. Tilvitnunin hér að ofan er úr þessari málsgrein frá Reuters fréttamiðuninni:

The Indian-born captain was silent at the end, all three sources said, while the Indonesian first officer said „Allahu Akbar”, or “God is greatest”, a common Arabic phrase in the majority-Muslim country that can be used to express excitement, shock, praise or distress.

Tveir æðrulausir menn, annar þegir og hinn ákallar Guð.

Tillaga: Skömmu áður en flugvélin brotlenti þagnaði indverski flugstjórinn en indónesíski flugmaðurinn bað til guðs.

4.

28 ára ástralskur þjóðernisöfgamaður, sem skaut 50 manns til bana í moskum í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi, …

Frétt á blaðsíðu 34 í Morgunblaðinu 21.3.2019.           

Athugasemd: Þrautreyndur blaðamaður Moggans byrjar málsgrein á tölustöfum. Hvergi í heiminum, að minnsta kosti ekki í vestrænum fjölmiðlum, tíðkast slíkt. Þetta hefur margoft verið nefnt á þessum vettvangi.

Hér er ágæt skýring á fyrirbrigðinu:

A number is an abstract concept while a numeral is a symbol used to express that number. “Three,” “3” and “III” are all symbols used to express the same number (or the concept of “threeness”). 

One could say that the difference between a number and its numerals is like the difference between a person and her name.

Ég hef áður nefnt þetta en núna ákvað ég að koma með erlendar tilvísanir til að sýna að þetta á ekki aðeins við íslensku. Hér er önnur tilvísun valin af handahófi í orðasafni Google frænda.

You should avoid beginning a sentence with a number that is not written out. If a sentence begins with a year, write "The year“ before writing out the year in numbers.

Getur það verið rétt hjá mér að fleiri og fleiri blaðamenn og skrifarar séu farnir að byrja setningar á tölustöfum? Sé svo er það slæm þróun. Tölustafir stinga oft í augun á prenti.

Tillaga: Tuttugu og átta ára ástralskur þjóðernisöfgamaður, sem skaut …

5.

„Auðvitað er Jón Gnarr rétti maðurinn til að hefja á loft fána fáránleikans í leikhúsinu, taka upp þráðinn þar sem Ionesco þraut erindið.

Leiklistargagnrýni á blaðsíðu 55 í Morgunblaðinu 21.3.2019.           

Athugasemd: Gagnrýnandinn er eflaust að snúa á lesendur. Sumir þeirra kunna að segja að þarna eigi að standa örendi. Hvort tveggja er rétt. Á malid.is segir:

erindi, erendi, †ørendi, †eyrendi h. ‘boðskapur, skilaboð; verkefni, hlutverk; málaleitan; fyrirlestur; vísa (í kvæði)’; sbr. fær. ørindi, nno. ærend, sæ. ärende, d. ærende; sbr. fe. æÌ&#132;rende ‘boðskapur, sýslan’, 

Erindi í tilvitnuninni er hins vegar allt annað en skilaboð eða sýslan, þó það sé nátengt. Í Íslenskri orðsifjabók á malid.is segir:

1 örendi, †ørendi h. † ‘erindagerð, skilaboð,…’.

2 örendi, †ørendi h. † ‘sú stund sem unnt er að halda niðri í sér andanum, bil milli að- og útöndunar’; eiginl. ‘útöndun’. Af ör- (4) og andi (1). Sjá örendur.

Örendi er sem sagt augnablikið á milli að- og útöndunar. Hvað gerist þá þegar einhvern þrýtur örendið eða erindið.

Gísli Jónsson, íslenskukennari, sagði í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 16.9.1989 og byrjar á því að vitna í Snorra Eddu:

„Þór lítur á hornið og sýnist ekki mikið, og er þó heldur langt. En hann er mjög þyrstur, tekur að drekka og svelgur allstórum og hyggur að eigi skal þurfa að lúta oftar að sinni í hornið. En er hann þraut erindið og hann laut úr horninu og sér hvað leið drykknum, og líst honum svo sem all-lítill munur mun vera að nú sé lægra í horninu en áður.“ [Hversu mikið sem Þór reyndi að drekka það sem var í horninu tókst honum það aldrei, reyndi þrisvar. innskot SS]

þrjóta erindi (eldra örendi) merkir þarna að geta ekki lengur andað frá sér, þurfa að anda að sér og neyðast þar með til þess að hætta að drekka.

Orðið örendi var skrifað nokkuð mismunandi fyrrmeir. Í þeirri merkingu, sem hér um ræðir, er það náttúrlega skylt lýsingarorðinu örendur = dauður. Ég held að ör sé þarna neitunarforskeyti og örendur því í raun sama sem andlaus, hættur að anda.

Sögnin að þrjóta (þraut, þrutum, þrotinn; 2. hljóðskiptaröð) er þrásinnis ópersónuleg með þolfalli: mig þrýtur eitthvað = mig skortir eitthvað, ég hef mist eitthvað, sbr. hluta úr ágætu kvæði Sigurðar Þórarinssonar náttúrufræðings.

Þar við mig þrýtur minni,
þaðan af veit ei par,
að við eigruðum út á stræti
ætlandi á kvennafar …

Frekari málalengingar eru hér með óþarfar. Hins vegar hefði höfundur málsgreinarinnar að skaðlausu mátt nota eldri útgáfuna, örendi, vegna þess að erindi hefur aðra merkingu í dag en á tímum Snorra. Hins vegar er það dálítið svalt að nota erindi, athygli lesandans vaknar.

Dálítið athyglisvert er að velta fyrir sér að örendi sé bilið milli að- og útöndunar. 

Á Breiðafirði og víðar það kallaður liggjandi bilið milli að- og útfalls. Þar siglu menn strauma á liggjandanum sem var hættuminna.

Eitthvað er það kallað þegar storminn lægir, lægðamiðjan gengur yfir, og svo hvessir aftur af annarri átt.

Loks má nefna að að í heita pottinum þagna stundum allir óvænt. Vera má vera að einhverjir hugsi sig um (sem er alltaf jákvætt). Nokkrum augnablikum síðar, hefst orrahríðin aftur. Þetta getur kallast kjaftstopp.

Tillaga: Engin tillaga gerð enda ekkert að málsgreininni.


Fullyrðing getur verið þvert á sannleikann

Sveitarfélög geta hvorki verið hamingjusöm né óhamingjusöm. Hins vegar má gera ráð fyrir því að Grindvíkingar mælist hamingjusamari en íbúar annarra sveitarfélaga, aðrir eru þó síst óhamingjusamari þó einkun þeirra sé lakari.

Ekki gengur að fullyrða Eyjamenn óhamingjusömustu íbúa landsins. Tæplega 10% þeirra telja sig ekki hamingjusama en „aðeins“ 3% Grindvíkinga. Þýðir þetta að heildin, allir íbúar í Vestmannaeyjum, sé óhamingjusamari en þeir í Grindavík? Nei, hér er of mikið fullyrt, langt umfram niðurstöðu skoðanakönnunarinnar.

Mæling á hamingju er afar vandasöm þó ekki sé nema vegna þess að erfitt er að gera greinamun á hamingju eða gleði, dagsforminu. Þá er oft auðvelt að ruglast og telja það óhamingju þegar eitthvað bjátar á í dag en næsta dag muna hugsanlega fáir hvað olli. Oft þarf fjarlægð til að sjá hvort hamingja hafi ríkt. Líti maður yfir farinn veg sést oft skýrar hvernig líðanin var. Hugsanlega er best að mæla hamingjuna yfir lengri tíma en enn dag.

Um daginn var fullyrt að Ísland væri „spilltasta“ þjóðin á Norðurlöndunum. Auðvitað er það ekki rétt þó svo að mælingar í könnun hafi sýnt að samkvæmt ákveðnum forsendumsé staðan í hinum löndunum skárri.

Í úrslitum í 4000 m hlaupi á Ólympíuleikunum keppa hugsanlega sextán menn. Sá sem lendir í sextánda sæti er ekki lélegasti hlauparinn. Hinir voru betri í þessu hlaupi. Gleymum því ekki að fjöldi manna komst ekki í úrslitahlaupið vegna þess að tími þeirra var lakari, þeir féllu úr leik í undanúrslitum.

Valnefnd um dómara í Landsrétt tilnefndu á Excel-skjali fimmtán manns sem hún taldi hæfa til að gegna stöðu dómara. Litlu munaði á milli manna og þar af leiðandi er vart hægt að fullyrða að sá sem var í fimmtánda sæti á listanum yrði lélegri dómari en sá í fyrsta sæti.

Fullyrðing er ákaflega vafasöm enda eru málin oft ekki einföld. Þess vegna eru Eyjamenn ekki óhamingjusamastir landsmanna. Ísland er ekki spilltasta Norðurlandaþjóðin, hlauparinn í sextánda sæti er ekki lélegri en hinir og fimmtán dómarar voru metnir hæfir, enginn var sagður lélegri en hinir.

Fullyrðing bitnar svo æði oft á sannleikanum.


mbl.is Grindvíkingar hamingjusamastir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nefnifallssýki, skammstafanir og auðkenni

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Nafnorðastíll

Í nafnorðastíl eru innihaldsríkustu orðin í setningu nafnorð en frekar valin sagnorð sem hafa almenna merkingu.

Ef valin eru sagnorð sem hafa nákvæma eða sértæka merkingu þá verða setningar líflegri og kraftmeiri. Dæmi: 

Ísabella tók ákvörðun um að kaupa bílinn. > Ísabella ákvað að kaupa bílinn. 
Aukning sölunnar varð mikil. > Salan jókst mikið.

Málvísir, handbók um málfræði handa grunnskólum. Góð bók sem ætti að vera á borðum allra áhugamanna um íslenskt mál, ekki síst blaðamanna.

1.

Þórarinn þykir þó leitt að sjá Eyþóri gerð skil á afar neikvæðan máta …“

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Skaði er að því að blaðmenn hafi ekki skilning á fallbeygingu nafnorða og sérnafna. Þórarinn er þarna í röngu falli, ætti að vera þágufalli. Nafnið beygist svona:

ef. Þórarinn
þf. Þórarin
þgf.Þórarni
ef. Þórarins

Blaðamaðurinn framleiðir skemmda frétt, hann er haldinn nefnifallssýki en skilur ekki heldur hvað nástaða er:

… Eyþóri Þorlákssyni í vinsæla söngleiknum Elly sem hefur verið sýnd við fádæma vinsældir í Borgarleikhúsinu undanfarin tvö ár.

Mikilvægt er að lesa frétt yfir áður en henni er skilað út á vefinn. Það hefur blaðamaðurinn ekki gert eða, sem er verra, hann hefur ekki skilning á málinu. Söngleikurinn Elly hefur verið sýndur.

Og það er fleira aðfinnsluvert í fréttinni:

Þessi lýsing sé ekki rétt og Þórarinn telur sig í góðri stöðu til að leggja mat á sannleiksgildi lýsingarinnar þar sem hann þekkti Eyþór náið í meira en hálfa öld.

Þessi málsgrein er klúður. Ruglingsleg frásögn, tafs og ekki hjálpar nástaðan. Betra hefði verið að orða þetta svona:

Þórarinn telur lýsinguna á Eyþóri ranga, hann þekkti manninn og viti að lýsingin er röng.

Eftirfarandi er ekki vel orðað:

Eyþór hafi líka meðal annars verið fyrstur Íslendinga …

Þetta er slæmt klúður, stílleysið er algjört. Sé atviksorðinu líka sleppt verður setningin skárri.

Tillaga: Þórarni þykir þó leitt að sjá Eyþóri gerð skil á afar neikvæðan máta …

2.

R. e-n til e-s

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Skammstafanir eru oftast ljótar. Þetta er mín skoðun. Sú kenning er uppi að þær hafi komið til í prentuðu máli svo hægt sé að spara pláss í blýsetningu. Sú tækni er úrelt því nú þarf aldrei að spara pláss, aðrar leiðir eru betri. Ég hallast að þessari kenningu.

Áður fyrr var talið að stytta mætti algeng orð eða orðasambönd og gat munað nokkru þegar góðir setjarar vildu ekki láta málsgrein enda á örorðum og punkti í nýrri línu (á, æ, að, til og svo framvegis (ekki „o.s.frv.“).

Samfellda hugsun á að tjá í setningu eða málsgrein, helst án þess að punktur eða tölustafir brjóti hana upp. Undantekningar eru dagsetningar, ártöl og hugsanlega stærri tölur.

Einstaklega stíllaust og hjákátlegt er að lesa svona:

Hérna gekk 1 maður hverja 1 klukkustund nema um kl. 6 þá voru þeir 7.

Aldrei að byrja setningu á tölustaf eins og hér sést og forðast nástöðu:

    1. Apríl tíðkast aprílgöbb í 4 fjölmiðlum og 3 vefsíðum.

Hægt er að spinna upp klúðurslega frásögn með skammstöfunum, dæmi (þetta er spaug):

Sr. Jón las skv. venju bls. 2 og síðan e.k. frásögn frá u.þ.b. 10 f.Kr. í a.m.k 1/2 klst. 7 mín. og 2 sek. eða u.þ.b. til kl. 12.

Þetta er auðvitað ólæsilegt og frekar óskemmtilegt. Á svipaðan hátt verður manni um og ó þegar fyrir augu ber svona skýringar á malid.is (þetta er ekki spaug):

2 reka, †vreka (st.)s. ‘hrekja burt eða á undan sér, vísa burt; slá, hamra járn; starfrækja; þvinga, neyða: r. e-n til e-s; hefna: r. e-s; óp. hrekjast (fyrir straumi, vindi)’; sbr. fær. og nno. reka í svipaðri merk., sæ. vräka ‘kasta burt, hafna’, fsæ. räka ‘hrekja á braut’, sæ. máll. räka ‘berast fyrir straumi; flækjast um’; sbr. ennfremur fe. wrecan ‘hrekja burt, hefna,…’, fhþ. rehhan, fsax. wrekan ‘hegna, hefna,…’, gotn. wrikan ‘ofsækja’. Líkl. í ætt við lat. urgeÌ&#132;re ‘þrengja að, knýja, ýta á’, fi. vrájati ‘ráfar, reikar’ og e.t.v. fsl. vragÅ­ ‘fjandmaður’, lith. varÌ&#131;gas ‘neyð, eymd’; af ie. *u̯reg- (*u̯erg-) ‘þjarma, þrýsta að, knýja, ofsækja’ (ath. að baltn. og slavn. orðin gætu eins verið í ætt við vargur og virgill). Sum merkingartilbrigði so. reka í norr. gætu stafað frá föllnum forskeytum, sbr. t.d. reka ‘hrekja burt’ e.t.v. < *fra-wrekan, sbr. fe. forwrecan; ‘hefna’ < *uzwrekan, sbr. fe. aÌ&#132;wrecan (s.m.). Sjá rek (1 og 2), -reka (1), rekald, reki, rekinn (1 og 2), rekja (4), rekning(u)r (1 og 2), rekstur (2) og rakstur (1), rétt kv., rétt(u)r (3), rækindi, rækja (3) og rækur (1); ath. rökn (1) og raukn (1).

Er ekki hægt að gera betur í svona afbragðsgóðum vef? Í tilvitnuninni er mikill fróðleikur og því betra að lesa hægt og rólega til að allt skiljist. Greinaskil eru yfirleitt gott hjálpartæki en ekki notuð.

Tillaga: Reka einhvern til einhvers.

3.

„Í sam­ræmi við vinnu­regl­ur banda­lags­ins flugu tvær orr­ustuþotur ít­alska flug­hers­ins til móts við vél­arn­ar til að auðkenna þær.“

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hvað er nú þetta? Ekki var það svo að óþekktu vélarnar þyrftu auðkenningar við heldur var ætlunin sú að bera kennsl á þær.

Nafnorðið auðkenni merkir það sem greinir eitt frá öðru, sérkenni eða einkenni af einhverju tagi. Jurtir hafa auðkenni sem greinir þær frá hverri annarri.

Auðkenni lögreglumanna er fatnaðurinn sem þeir klæðast (leynilöggan er undantekning). Auðkenni fjallamannsins er til dæmis gönguskórnir sem síst af öllu eru samkvæmisklæðnaður.

Þá er það sagnorðið, að auðkenna. Á malid.is segir um orðið:

setja sérstakt mark á (e-ð) til aðgreiningar eða einkennis

eiganda hunds er skylt að auðkenna hund sinn
allar götur bæjarins eru auðkenndar með skilti
ég auðkenndi nokkur atriði textans með gulum lit

Hér ætti að vera ljóst að ítalski flugherinn ætlaði sér ekki að „aukenna“  flugvélarnar. Það hefði hefði verið alvarlegt mál því þær reyndust vera rússneskar. 

Líklegast er að blaðamaðurinn hafi látið enska nafnorðið „identification“ og sagnorðið „to identify“ rugla sig í ríminu. Hvorugt þeirra dugar hér.

Mjög mikilvægt er að blaðamaður hafi góð tök á íslensku því ábyrgðin er mikil. Röng orðanotkun í fjölmiðlum ruglar lesendur og þá er hættan sú að sumir skilji hreinlega ekki þegar orðin eru notuð í réttu samhengi.

Þegar ofangreint hafði verið skrifað birtist frétt um sama mál á visir.is og orðalagið er svipað. Í henni segir að ætlunin hafi að auðkenna óþekktu flugvélarnar.

Af þessu má draga þá ályktun að orðalagið er ekki komið frá blaðamönnunum sem skrifuðu fréttirnar heldur frá Landhelgisgæslunni. Þar þurfa þeir að taka sig á sem skrifa fréttatilkynningar, þetta er einfaldlega óboðlegt.

Blaðamenn Morgunblaðsins og Vísis hefðu að sjálfsögðu átt að umorða textann áður en hann var birtur. „Kranablaðamennska“ er ekki meðmæli fyrir fjölmiðil. Þeir eiga að vita betur en hugsunarleysið er algjört.

Tillaga: Í sam­ræmi við vinnu­regl­ur banda­lags­ins flugu tvær orr­ustuþotur ít­alska flug­hers­ins til móts við vél­arn­ar til að bera kennsl á þær.


Óþekktir yfirburðir, eftirköst og drasla til

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Þýða er ekki þíða

Sé maður ekki alveg smekklaus finnst manni sögnin að affrysta ljót en sögnin að þíða falleg. 

Í stað þess að „affrysta“ mat skulum við þíða hann. Hann þiðnar þá, í stað þess að „affrystast“ (affrjósa?) og verður þiðinn í stað þess að verða „affrosinn“ (affreðinn?). 

En þíðum hann alltaf með í-i.

Málið á blaðsíðu 52 í Morgunblaðinu 14.3.2019.

 

1.

„Þingið hefur nú tvisvar fellt með óþekktum yfirburðum „eina samninginn sem völ er á“.“

Leiðari Morgunblaðsins 14.3.2019          

Athugasemd: Þetta er skrýtið. Höfundur er að segja frá vandræðum bresku ríkisstjórnarinnar vegna Brexit, brottför landsins úr ESB. Breski forsætisráðherrann á í miklum vandræðum í þinginu. Hann segir að samningurinn hafi verið felldur með „óþekktum yfirburðum“.

Hvað er óþekkt? Atkvæðagreiðslan í breska þinginu þann 10. mars fór þannig að 391 greiddi atkvæði gegn og 242 með. Ekkert er þarna óþekkt nema óþekktin í þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem greiddu ekki atkvæði eins og ríkisstjórnin vildi.

Þegar leiðarahöfundur talar um „óþekkta“ yfirburði á hann við að þeir hafi verið meiri en áður hafa þekkst. Orðalagið er út ensku. Enskumælandi segja: „Something is unheard of“. Við tölum á annan veg hér á landi nema ætlunin sé að útbreiða „ísl-ensku“. Ekki má samt nota lýsingarorðið „óheyrilegur“ í þessu sambandi.

Það sem er óþekkt er ekki þekkt. Danmörk sigraði Ísland með fjórtán mörkum gegn tveimur og er fátítt að lið vinni með slíkum yfirburðum í fótbolta (ekki „óþekktum“ yfirburðum).

Tillaga: Þingið hefur nú tvisvar fellt „eina samninginn sem völ er á“ með meiri yfirburðum en þekkst hafa í atkvæðagreiðslum í breska þinginu.

2.

Eftirköst Christchurch-árásarinnar rétt að byrja.“

Frétt á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 18.02.2019.         

Athugasemd: Hér eru stuttar vangaveltur um merkingu fyrirsagnarinnar, sérstaklega nafnorðsins eftirköst. Er ekki alveg viss um hvort blaðamaðurinn átti sig á orðinu. Af efni fréttarinnar má ráða að ekki er víst að eftirköstin séu öll slæm.

Í hugum flestra merkir orðið neikvæðar afleiðingar. Til dæmis er hausverkur oft eftirköst of mikillar áfengisdrykkju. Setji ég dísil á bensínbíl verður hann ógangfær, það eru slæm eftirköst. 

Sá sem kaupir lottómiða myndi aldrei orðað það sem svo að vinningurinn sé eftirköst kaupanna. Ekki heldur eru það eftirköst að fá afslátt við kaup á vöru.

Að þessu sögðu væri skárra að nota orðið afleiðingar. Til dæmis telja margir að takmarkanir á byssueign séu nauðsynleg aðgerð en aðrir eru ósammála.

Tillaga: Afleiðingar árásanna í Christchurch eru margvíslegar.

3.

Hann draslar til – rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.“

Frétt á dv.is.         

Athugasemd: Sögnin að drasla er alþekkt. Þegar einhver draslar þarf hinn sami eða aðrir að taka til. Þannig gerast hlutirnir á bestu heimilum, vinnustöðum og jafnvel úti í sjálfri náttúrunni. Annars er þetta skemmtileg frétt á DV, fjallar um unglinginn sem á að vísa út af heimilinu því hann draslar svo mikið. Og unglingurinn er köttur.

Stundum renna sama orð og orðasambönd. Sá sem tekur til segist gera það vegna þess að einhver „draslaði til“. Þetta síðasta er auðvitað bull. 

Á malid.is segir: 

‘draga með erfiðismunum, róta e-u til; slarka, svalla’ … so. drasla virðist auk þess nafnleidd af *drasil-, sbr. drösla af drösull (2) (s.þ.). Sjá drasa og dræsa.

Gaman er að sjá þarna tenginguna við drösul, þá glaðnar yfir mörgum. Á malid.is segir um það orð:

‘hestur; †hestsheiti’. Uppruni óljós. Orðið hefur verið tengt við gr. (lesb.) thérsos ‘hugrekki’, sbr. gotn. gadaursan ‘dirfast’. Vafasamt. E.t.v. fremur sk. drösla og eiginl. s.o. og drösull (2). 

Ýmsir hafa haft það á móti þessari ættfærslu að hestsheitið hljóti að vera hrósyrði, en slíku er valt að treysta, nöfn af þessu tagi eru oft tvíhverf og heitið hefur e.t.v. í upphafi merkt taumhest, beislisfák eða jafnvel staðan hest.

Má vera að Jónas Hallgrímsson hafi ekki haft gæðing í huga er hann orti:

Drottinn leiði drösulinn minn,
drjúgur verður síðasti áfanginn.

Þetta er auðvitað úr ljóðinu Sprengisandur. Furðulegt er annars hvað mann rekur langt í spjalli um orð. 

Tillaga: Hann draslar, rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.

 


Grani er genginn aftur, aldrei gráðugri, gleymd er Geirríður

Í þenna tíma kom út Geirríður, systir Geirröðar á Eyri, og gaf hann henni bústað í Borgardal fyrir innan Álftafjörð. Hún lét setja skála sinn á þjóðbraut þvera og skyldu allir menn ríða þar í gegnum. Þar stóð jafnan borð og matur á, gefinn hverjum er hafa vildi. Af slíku þótti hún hið mesta göfugkvendi.

Svo segir í Eyrbyggju. Frá upphafi Íslandsbyggðar var öllum heimil för um landið og hefur það verið lengst af síðan, þó með lítils háttar takmörkunum.

Frá örófi alda hefur stærð jarða miðast fyrst og fremst við þau hagnýtu not sem hafa mátti af þeim og þá eingöngu til búskapar. Utan heimajarða hafa menn átt ítök í skógum til eldviðar eða kolagerða, stærri svæða sem afrétti, en um eignir var aldrei um að ræða því hver hefði viljað eiga stærri lönd en hann réði við að annast og hver hefði getað selt slík lönd. Varla hefur nokkur maður átt heiðarnar, fjöllin, miðhálendið og jöklanna svo eitthvað sé nefnt. 

Getur einhver haldið því fram að eigandi einfaldrar bújarðar eigi hreinlega fjallið fyrir ofan bæinn? Fjall sem er ekkert annað en fljúgandi björg og skriður þar sem varla sést stingandi strá né nokkur maður eða skepna hafi farið um.

Það er án efa ekkert annað en forn lygisaga að jörðin Reykjahlíð sé svo landmikil að hún eigi land allt suður að þeirri mörkum þeirrar bújarðar er áður var nefnd Skaftafell en er nú hluti af samnefndum þjóðgarði? 

Menn hafa frá upphafi landnáms á Íslandi deilt um lönd og landamerki og það er ekki nýtt að landeigendur grípi til margvíslegra ráða til að „stækka" jarðir sínar. Ár, lækir og sprænur hafa breytt um farveg, jafnvel þornað upp. Jöklar hafa gengið fram og eyðilagt lönd og hundruðum ára síðar hörfað. Hver á nú það land sem áður var hulið jökli? Stækkar land aðliggjandi jarða við það eitt að jökullinn hörfar eða verður til eitthvert tómarúm?

Hvar er steinninn stóri sem áður markaði línu til austurs í fossinn og hvort á að miða við fossinn eða miðja ána en ekki þennan eða hinn bakkann? Jú, steinninn þekkist ekki lengur og fossinn og áin eru löngu horfin og til hvaða ráða má þá grípa ef upp sprettur deila? 

Ef til vill munar einhverjir eftir röksemdum lögmanns Austur-Eyjafjallahrepps sem þá hét, er ráðist var með gjafsókn dómsmálaráðuneytisins að ferðafélaginu Útivist fyrir það eitt að endurbyggja ónýtan skála efst á Fimmvörðuhálsi, í 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Í málflutningi lögmannsins sem nú er umboðsmaður Alþingis var því haldið fram að skálinn stæði innan landamerkja tiltekinnar jarðar sem þó var eitt þúsund metrum neðar og í 18 km fjarlægð. Hvernig það gat gerst að jörð gæti átt „land" þar sem jökull hafði verið í hundruð ára fékkst aldrei útskýrt. Auðvitað var hreppurinn gerður afturreka með bull sitt.

Landeigendur bera oft fyrir sig þinglýsingar á landamerkjum. Á móti má spyrja hversu góð og ábyggileg gögn þinglýsingar eru, sérstaklega fornar? Dæmi eru til að hér áður fyrr hafi verið þinglýst bréfum sem gamalt fólk hafði handskrifað á bréfsnifsi um landamerki bújarða sinna, byggt á minni eða sögusögnum og yfirleitt óvottfest. Þannig gögn og fleiri af því tagi geta auðvitað ekki staðist og skiptir engu hversu gamlar þinglýsingarnar eru,

Menn hafa eðlilega leitað gagna í fornbréfasöfnum um landamerki en grunur leikur jafnvel á að þaðan hafi gögn verið numin á brott til þess eins að koma í veg fyrir að sönnunargögn finnist um deilumál.

Hugsanlega hefði fjármálaráðuneytið getað staðið öðru vísi að kröfum sínum í þjóðlendumálunum, en það er fjarri öllu lagi, að ráðuneytið hefði átt að láta hagsmuni landeigenda ráða ferðinni. Það eru meiri hagsmunir í húfi en landeigenda, og því er sú krafa eðlileg, að landeigendur fari aðeins með það land, sem þeir geti fært sönnur á að þeir eigi, - á því byggist eignarétturinn. Það er ekki eignaréttur né heldur er það sanngjarnt að Alþingi samþykki viðbótarlandnám mörgum öldum eftir að landnámi lauk.

Breytingar á landnotkun hafa orðið gríðarlegar á undanförnum árum. Nám ýmiskonar er orðið mjög ábatasamt, virkjanir, ferðaþjónusta, vegalagning, uppgræðsla og fleira og fleira má upp telja. Í þessu sambandi man ég eftir óbilgjarnri kröfu fyrrverandi eigenda jarðarinnar Fells sem töldu sig eiga Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul. Þeir gerðu einu sinni kröfu til þess að öllum myndatökum við Lónið væri hætt nema til kæmi greiðslur til þeirra!

Hver á Heimaklett í Vestmannaeyjum, Hamarinn í Vatnajökli eða Heljarkamb og Morinsheiði? Er til þinglýstur eigandi að Stapafelli undir Jökli, Sátu, Skyrtunnu og Kerlingunni í Kerlingarskarði. Hver á Tröllkallinn eða Böllinn við Ballarvað í Tungnaá? Og hver skyldi nú eiga Móskarðshnúka?

Þjóðlendulögin eru of mikilvæg til þess að þrýstihópur landeigenda megi fá nokkru ráðið um framgang þeirra. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá munu þeir girða lönd, ganga á rétt ferðamanna og heimt toll.

Hins vegar skipir nú mestu máli hver sé réttur okkar hinna, okkar landlausu landsmanna. Eigum við að láta hirða af okkur þau rétt sem landsmenn hafa haft haft sátt um á Íslandi frá upphafi byggðar? Eigum við að sætta okkur við það að meintir landeigendur girði lönd sín rétt eins og gert er uppi á Hellisheiði þar sem girðing hefur verið reist yfir forna þjóðleið.

Vera má að sumir landeigendur beri hag náttúrunnar sér fyrir brjósti. Það var þó ekki fyrr en fyrir um tuttugu árum að landeigendur fóru að sjá tekjuvon vegna fjölgunar ferðamanna. Fram að þeim tíma voru margar jarðir aðeins byrði á eigendum þeirra. Nú vilja fleiri og fleiri loka aðgangi að náttúruminjum, rukka fyrir aðganginn, og jafnvel eru þeir til sem vilja meina för fólks um óbyggði og ónýtt svæði nema gegn greiðslu.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir:

Á Stað á Ölduhrygg (Staðastað) bjó í gamla daga bóndi sá, er Grani hét; var hann bæði ágjarn og auðugur. Alfaravegurinn lá um landeign hans eptir endilaungum Ölduhrygg sem nú er kallað Staðarholt, og verður enn í dag að fara um þennan veg, er ferðast er vestur undir Jökul eða þaðan inn á Mýrar eða í Dali, enda er vegur sá mjög fjölfarinn, bæði til kauptúnanna Ólafsvíkur og Búða, og til skreiðarkaupa vestur i „pláss", sem kallað er, en það er Hjallasandur, Keflavík, Ólafsvik, og Brimilsvellir.

Grani bóndi þóttist nú geta náð miklu fé, ef hann tollaði veginn; byggði hann því afar mikinn torfgarð neðan frá sjó og upp í Langavatn (Staðarvatn). Hlið hafði hann á garðinum, þar sem vegurinn er, en veitti eingum fararleyfi, nema þeim, er greiddu Granatoll. Óljóst er með öllu, hve hár hann hefir verið, en illa undu menn tollgreiðslu þessari, enda launuðu þeir Grana bónda hana "því einhvern morgun fanst hann dauður hangandi við annan dyrastafinn í garðshliðinu.

Hefir sá vegur aldrei verið tollaður síðan. Það er auðséð á garðrúst þeirri, sem eptir er, að hann hefir verið ákaflega hár og þykkur, og leingd hans hér um bil 300-400 faðmar.

Segja má með sanni að nú sé Grani genginn aftur og illa magnaður. Gleymd er Geirríður í Borgardal.

 

 


mbl.is Segja ráðherra skapa ófremdarástand
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband