Karlar eru heilladísir, einstaklingar í tökum og stofnun biðlar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Tvítekning, upptugga

Víkverja þykir sláttuorf „skrýtið orð", og skal enginn lá honum það. Finnst honum þetta líkt því og menn tali "um ökubíl, skotbyssu eða námsskóla". Trúlega nota samt engir þess konar samsetningar. 

Á erlendum málum eru slík orð nefnd "tutologi", en nefnist tvítekning á íslenzku. Er þá átt við, að sama hugtak sé endurtekið með samheiti eða öðru orðalagi. Stundum er þetta nefnt upptugga, og þykir aldrei vandað mál. 

Glöggt dæmi um endurtekningu er það, þegar talað er um strætisvagnabílstjóra , enda þótt aldrei sé talað um strætisvagnabíl, heldur strætisvagn. Í því sambandi er eðlilegt mál að tala um strætisvagnstjóra eða aðeins vagnstjóra, því að vagn og bíll táknar sama hugtakið. Því fer illa að nota bæði orðin í sömu andránni. - J.A.J.

Pistill í Morgunblaðinu árið 1998. 

 

1.

„Rúta hafnaði utan vegar undir Ingólfsfjalli.“

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Skrýtið hvernig löggu-, slysa og óhappafréttir eru komnar með fyrsta veðrétt í ákveðnum orðum eða orðasamböndum svo úr verður einhvers konar stofnanamál 

Ökutæki lendir fyrir slysni út af vegi og þá er alltaf sagt og skrifað að það hafi hafnað utan vegar. 

Skriffinnskan lætur ekki að sér hæða. Blaðamenn ritskoða sjálfa sig svo harkalega að fjölbreytnin verður engin, stíllinn steindauður. Látið er sem sagnorð eins og að lenda, renna, falla, aka, enda eða álíka séu ekki til og þess í stað alltaf notað sögnin að hafna.

Í fréttum er aldrei sagt frá því að skip eða bátar hafi hafnað uppi í fjöru. Þó er það ekki endilega vegna þess að blaðamenn viti að sögnin að hafna getur þýtt að lenda. Forðum voru víða lendingar og það voru ekki alltaf hafnir.

Já, skriffinnskueinokunin minnir á kanselístílinn sem frægur er af endemum (ekki eindæmum, sem er allt annað).

Löggan telur sig eiga fyrsta veðrétt í orðasambandinu að vista í fangaklefa. Blaðmenn trúa því að þetta sé óumbreytanlegt löggumál.

Í gamla daga, þegar ég var í sumarlöggunni, og síðar í blaðmennsku voru þeir sem brutu lög á einhvern hátt oft settir inn, lokaðir inni, settir í fangelsi eða fangaklefa, varðhald og svo framvegis og allir vissu hvað var átt við þó enginn hafi verið vistaður.

Enn síðar kom hámenntað en óskrifandi fólk til starfa hjá löggunni og þá var tekið upp á því að vista óprúttið fólk í geymslum, auðvitað gegn vilja þess. Fyrir suma er þetta erfiðari vist en framsóknarvist og ekki um neitt lík leikskólavist, og fjarri því að vera neitt líkt vist í sveit eða að vista tölvugögn.

Sögnin að hafna getur haft margar merkingar sem ekki má gleyma þó löggumálið sé að taka yfir. Á malid.is segir:

    1. hafna s. ‘vísa frá, taka ekki við, neita; forðast’ ...
    2. hafna s. ‘lenda’, h. sig ‘taka höfn, leggjast við landfestar’. Sjá höfn (1).
    3. hafna s. (18. öld) ‘gera barnshafandi’; hafnast s. ‘taka við fangi’. Sjá höfn (3).

Nafnorðið höfn:

    1. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘skipalægi’ […] Upphafl. merk. í höfn líkl. ‘umluktur staður, geymir’ e.þ.u.l. 
    2. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘haglendi, beit; (hefðunnin) eign,…’
    3. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘fóstur’; … eiginl. s.o. og höfn (2), sbr. barnshafandi.
    4. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘atferli, hegðun; döngun’; sbr. nno. hovn ‘döngun, vellíðan’. Eiginl. s.o. og höfn (2) (< *haÆ&#128;eÌ&#132;ni-), sbr. að hafast og hafast að. Af sama toga er -höfn í samsetn. eins og athöfn, áhöfn og skipshöfn.
    5. höfn, †hoÌ¢fn kv. ‘kápa, skikkja’; sbr. einnig yfirhöfn kv. …

Hér hefur verið tæpt á einhæfri málnotkun í fréttum sem leiðir til þess að þær verða hverri annarri lík og oft furðulega fjarri raunheimum. Ástæðan er einföld. Svo ótalmargir hafa ekki alist upp við bóklestur, orðaforði þeirra er lítill og einhæfur. Slíkt fólk á að láta aðra skrifa fyrir sig.

Tillaga: Rúta ók út af veginum undir Ingólfsfjalli.

2.

Hinn 51 árs gamli Steven King var dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangelsi.“

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Gott er til þess að vita að blaðamaðurinn sem skrifaði þetta kunni ágætlega ensku. Hins vegar er hann lakari í íslensku, sem er miður.

Heimildin gæti verið þessi:

The 51-year-old Steven King, of Siddeley Avenue, Coventry, was sentenced to seven years and four months.

Á vísi stendur þetta:

Hinn 51 árs gamli Steven King var dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangelsi
Hinn 54 ára gamli Paul Rolston var dæmdur í sex ára og fjögurra mánaða fangelsi.
Hinn 42 ára gamli Daniel Malone fékk þriggja ára og þriggja mánaða fangelsisdóm.

Svona er ekki gert á íslensku. Einar Örn Thorlacius skrifaði um ákveðna greininn á vef Eiðs Guðnasonar, Mola (vefurinn er enn opinn, í honum er að finna mikinn fróðleik):

Það skiptir hins vegar fleira máli í málnotkun en „rétt“ og „rangt.“ Málsmekkur skiptir líka máli. Hann er auðvitað mismunandi á milli málnotenda.

Ef við tökum fyrst ákveðna greininn þá býr íslenska við þann hrylling (t.d. öfugt við ensku) að vera með viðskeyttan greini. Við bætist síðan að íslenskan er mikið beygingamál. Útkoman er ekkert sérlega góð. Við þennan vanda má einfaldlega losna með því að stilla notkun ákveðins greinis í hóf. …

Mér finnst hins vegar notkun ákveðins greinis vera að aukast mikið í íslensku til lítillar prýði fyrir málið.

Ástæðan fyrir því að notkun ákveðins greinis fer vaxandi er uppgjöf. Margir kunna ensku prýðilega en hafa hvorki skilning né þekkingu á íslensku máli. Þegar slíkir eru blaðamenn stefnir allt í eina átt.

Svo virðist sem að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki tekið upp neina gæðastefnu í málfari og stíl. Afleiðingin eru skemmdar fréttir.

Í ofangreindri tilvitnun á Vísi er ákveðna greininum ofaukið. Í ensku hefur hann víðtækari merkingu en í íslensku. Þar af leiðandi er hjákátlegt að sjá misnotkunina, að blaðamenn og aðrir skrifarar haldi að sama gildi um hann á báðum tungumálunum.

Jafnvel enskumælandi skrifa ekki eins og blaðamaðurinn, þeir eru óhræddir við fjölbreytnina. Þetta má greinilega sjá ef enski linkurinn hér að ofan er opnaður og greinin lesin.

Tillaga: Steven King, 51 árs, var dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangelsi.

3.

Fjór­ar heilla­dís­ir frá Breiðdals­vík verða meðal áhorf­enda …

Frétt á mbl.is. .            

Athugasemd: Hvernig er hægt að kalla fjóra karlmenn heilladísir? Nei, þetta er ekkert grín. 

Stílbrot kallast það þegar frásögn gjörbreytist vegna ósjálfráðra mistaka eða vankunnáttu höfundar. Síðast var hér sagt frá orðasambandinu að gefa hesti lausan tauminn. Það væri alvarlegt stílbrot að segja að hesturinn hafi þá fengið frjálsar hendur um leiðarval.

Stundum getur höfundur náð fram tilætluðum áhrifum með stílbroti. Hér er skemmtilegt dæmi: 

Eyru mín fýsir að hlýða á mjúka og blæfagra rödd þína, augu mín girnast að virða fyrir mér fegurð þína og tign, og kjaftinn á mér langar til að tilbiðja þig í orðum.  

Frekar ólíklegt er að stílbrot blaðamannsins sé meðvitað. Sé svo er hann ábyggilega að hæðast að „heilldísarkörlunum“. 

Á íþróttadeild Moggans er það líklega talið „íþróttamál“ að kalla karlkyns stuðningsmenn heilladísir rétt eins og að þar eru leikmenn liða  iðulega nefndir „lærisveinar“ þjálfarans.

Á malid.is segir um merkingu á kvenkynsorðinu heilladís:

kvenkyns vera sem færir manni gæfu

Má vera að ekki sé allt rétt sem í orðabókum stendur. Hins vegar þarf skýr rök fyrir því að fjórir miðaldra karlar geti verið heilladísir.

Blaðamaður með fullri meðvitund og þokkalega lesinn í íslenskum bókmenntum hefði ábyggilega flett upp í orðabók og komið auga á hlýlega orðið heillakarl. Á malid.is segir um það:

Oftast með greini; hlýlegt ávarp við karlmann; til hamingju með afmælið, heillakarlinn minn

Með þessu er málið leyst. Vandinn er hins vegar þessi: Hvernig er hægt að fá þann sem hefur rýran orðaforða til að skrifa vandað mál?

Tillaga: Fjór­ir heillakarlar frá Breiðdals­vík verða meðal áhorf­enda …

4.

Dyra­verðir á skemmti­stað í miðborg­inni óskuðu eft­ir aðstoð lög­regl­unn­ar um hálf­fjög­ur­leytið í nótt, en þá voru þeir með ein­stak­ling í tök­um.

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Væri „einstaklingurinn“ í tökum hjá ljósmyndara er ekkert athugunarvert við málsgreinina. Þar eru teknar ljósmyndir, ljósmyndatökur eru tíðar og ein eða fleiri fyrirsæta í tökum. 

Í gamla daga, þegar ég, væskilslegur strákur rétt kominn yfir tvítugt, var í sumarlöggunni, voru misyndismenn handteknir, teknir fastir. Fyrir kom að almennir borgarar gripu inn í og héldu bófum þangað til lögreglan kom og tók við þeim. Þá hét þetta borgaraleg handtaka.

Síðar, þegar ég starfaði sem blaðamaður skrifað ég og fleiri um störf lögreglunnar. Þá voru menn handteknir. Aldrei datt okkur í hug að skrifa að „einstaklingar“ eða „manneskjur“ hafi verið settir inn.

Í dag vita yngri blaðamenn vart í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, má vera að þeir skilji ekki að bæði karlar og konur eru af tegundinni menn. Líklega halda þeir að það sé brot á jafnréttislögum að gera ekki greinarmun á kynjunum. Þó teljast þeir blaðamenn og skiptir kynið engu máli.

Löggan á erfitt með skriftir rétt eins og íþróttablaðamenn. Báðar stéttirnar búa til eigin mállýsku og halda í einfeldni sinni að ekkert sé að því að gjörbreyta merkingum orða. Löggumál líkist æ meir hallærislegum „stofnanaskrifum“ þar sem nafnorðavæðingin er ráðandi.

Blaðamenn taka oft við fréttatilkynningum frá löggunni og birta, yfirleitt gagnrýnislaust, vegna þess að það er fljótlegast. Þetta kallast kranablaðamennska og er ekki hrós.

Tillaga: Dyra­verðir á skemmti­stað í miðborg­inni óskuðu eft­ir aðstoð lög­regl­unn­ar um hálf­ fjög­ur í nótt, en þá voru þeir með mann í haldi.

5.

„Vantar húsfélaginu þínu aðstoð við aðalfund og gerð ársreiknings?“

Auglýsing á bls. 25 í Morgunblaðinu 23.3.2019.           

ÞágufallsauglýsingAthugasemd: Með stríðsletri stendur þetta i auglýsingu á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu. Um leið og blaðið kom út var farið að ræða um þágufallssýkina í henni á samfélagsmiðlunum. 

Einhver sagði í öðru blaði þennan sama dag að allt umtal væri gott. Nei, í markaðsfræðunum telst það ekki svo og er hægt að færa mörg rök fyrir því. Slæmt umtal skaðar vegna þess að slæmar fréttir berast miklu hraðar en þær góðu.

Hins vegar er hægt að takmarka skaðann, en það er allt annað mál og ekki hér til umræðu.

Sagorð stjórna föllum, um það verður ekki deilt. Margir telja þágufallssýki ekki alvarlegt mál. Það má vel vera en sögnin að vanta krefst þess að nafnorðið sé í þolfalli. Því verður ekki breytt.

Tillaga: Vantar húsfélagið þitt aðstoð við aðalfund og gerð ársreiknings.

6.

Hann var und­ir áhrif­um fíkni­efna og fram­vísaði stór­um hníf við af­skipti lög­reglu.

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Málfarið í löggufréttum fjölmiðla er stundum spaugilegt, en um leið doldið sorglegt. Dæmi um þetta er ofangreind málsgrein. Veit ekki hvernig í ósköpunum hægt er að komast svona að orði; framvísa og við afskipti. Sá sem skrifaði er eitthvað úti að aka.

Í stað hnífs hefði mátt standa vegabréf og í stað afskipta gæti komið eftirlit. Þá væri eitthvað vit í þessu. Annars geta lesendur ímyndað sér sviðsetninguna með þeim Geir og Grana í Spaugstofunni í „viðskiptum“ við dóparann.

Síðar í fréttinni segir:

Þegar lög­regla kom á vett­vang reynd­ist ofurölvi maður vera bú­inn að brjóta rúðu og var skor­inn á hendi. 

Þessi bannsetti vettvangur tröllríður öllum löggufréttum, orðinu má langoftast sleppa, fréttum að skaðlausu. Og ekki leysa vettvanginn af hólmi með „á staðinn“, það er númer tvö á bannsetta listanum.

Svo er það þetta orðalag: reyndist ... vera búinn að brjóta. Ekki flækja málið. Þegar löggan kom hafði maðurinn brotið rúðuna. Er eitthvað flókið eða er þetta of „ólöggulegt mál“.

Löggan og blaðamenn eru blind á nástöðu, þessar tvítekningar eru í fréttinni:

Maður­inn var flutt­ur með sjúkra­bif­reið á slysa­deild til aðhlynningar og verður lík­lega vistaður í fanga­geymslu eft­ir aðhlynn­ingu þar. Maður­inn er er­lend­ur ferðamaður og er ekki vitað hvar hann gist­ir. 

Ég veðja á að hann gisti í fangelsinu. Nei, hann var vistaður í geymslu á lögreglustöð. Enn og aftur kemur fyrir þetta orðalag að vista í fangageymslu. Má ekki orða þetta á annan hátt eða er löggumálið svo staðlað að ekki megi bregða út af því?

Aðhlynning kemur þarna tvisvar fyrir í sömu málsgreininni. Höfundurinn hefði auðveldlega getað skrifað sig framhjá því.

Orðaröðin flækist fyrir löggunni og blaðamönnum:

Einn var flutt­ur á slysa­deild eft­ir tveggja bíla árekst­ur í hverfi 111 í gær­kvöldi vegna eymsla í hendi. 

Hvað merkir einn? Varla hestur, hann hefur ekki hendur. Api hefur hendur. Hvað er hverfi 111? Það er ekki til, hins vegar vita margir um póstnúmerið 111.

Maður var fluttur á slysadeild vegna eymsla í hendi … og svo framvegis. Raunar kemur það ekki málinu við hver meiðslin voru því eymsli eru sjaldnast meiriháttar.

Tillaga: Hann var undir áhrifum fíkniefna og var með á sér stóran hníf sem lögreglan tók af honum.

7.

Biðla til bæja um pláss.

Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu   22.3.2018.         

Athugasemd: Enn og aftur sprettur fram í dagsljósið blaðamaður sem veit ekki hvað sögnin að biðla merkir. Snautlegt að kallast blaðamaður og bera ekki skynbragð á íslenskt mál. 

Í fréttinni er sagt að Útlendingastofnun „biðli“ til sveitarfélaga um að gera þjónustusamninga vegna útlendinga sem sækja um alþjóðlega vernd.

Sá sem biðlar er biðill. Hann biður um hönd konu, vill giftast henni. Aftur á móti er sjaldgæft er að sá sem biður sé biðill. Útlendingastofnun biðlar ekki frekar en önnur fyrirtæki eða stofnanir. Sjá hér og hér og hér.

Sögnin að biðla kemur tvisvar fyrir í fréttinni, þó er hún ekki er löng. Blaðamaðurinn semur níu línur í eindálki auk fyrirsagnar.

Rangt mál er algengt fjölmiðlum, segja má að þeir dreifi skemmdum fréttum. Ekki er hægt að kalla það annað þegar merkingum orða er breytt, annað hvort vegna þekkingarleysis eða af ásetningi. Matvælaframleiðandi sem sendir frá sér skemmda vöru fær á baukinn hjá yfirvöldum og raunar líka í fjölmiðlum.

Dæmi eru um að fjölmiðlar hafi gert útaf við matvælafyrirtæki vegna skemmdrar vöru en hver hefur eftirlit með fjölmiðlum?

Má „fjórða valdið“ endalaust framleiða og dæla yfir landsmenn skemmdum fréttum?

Tillaga: Biðja til bæja um pláss.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Sigurður, þakka ágætan pistil. En þú mættir endurskoða aðfinnslur þínar við notkun blaðamanna á so. biðla.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þú agnúast út í þessa notkun, sem fræðimenn og orðabókarmenn hafa lagt blessun sína yfir.

http://islenskordabok.arnastofnun.is/islob?ord=5455&

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.3.2019 kl. 16:41

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll,

Vissi af þessu í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Í orðabók menningarsjóðs stendur  segir: 

    • Biðla: biðja (stúlku), biðja um hönd stúlku.

    Í Íslenskri orðsifjabók á malid.is segir:

      • biðill k. &#145;sá sem biður sér konu; korgögn ofan á kaffibolla&#146;; sbr. fær. biðil, nno. bidel, bêl, fsæ. biþil, fd. bedel, fe. bedol, fhþ. bitil &#145;biðill, biðjandi&#146;; biðla s. &#145;biðja stúlku, biðja um e-ð&#146;, sbr. nno. bidla, bela, d. bejle. Sk. biðja (s.þ.). Um viðliðinn í biðill, sjá -ill.

      Rétt er að ég hef agnúast talsvert út í misnotkun á orðinu. Vissi þó um þetta í Íslenskri nútímamálsorðabók.

      Öllum á að vera ljóst hvernig orðið kemur til.

      Þakka fyrir ábendinguna, ætla hennar vegna að ráðfæra mig við mér fróðari menn. Læt vita síðar.

      S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.3.2019 kl. 17:04

      3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

      Málfræðingur sem ég talaði við í dag bað mig vinsamlegast að muna eftir uppruna orða, siðum og hefð. Þrátt fyrir að sögnin að biðla sé nefnd í Íslenskri nútímamálsorðabók í öðru sambandi en að biðja konu þýðir ekki að það sé viðurkennd breyting á merkingu.

      S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.3.2019 kl. 23:26

      4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

      Í orðabók Sigfúsar Blöndal er sögnin útskýrð á þennan hátt:

      biðla (a) til, bejle, gaa paa frierfødder, göre Kur til 

      Af því má ráða, að merkingin einskorðaðist aldrei við kvonbænir.  Og hvað sem meiningarmun líður þá á að virða mismunandi notkun orða. Yfirleitt er málnotkun mjög mismunandi milli landshluta og ástæðurnar margar. Söfnun orða og ritstjórnir orðabóka eru enginn hæstiréttur um málnotkun. Ég man eftir útvarpsþáttunum um íslenzkt mál á Gufunni í gamla daga. Þar var tilgangurinn ekki að kenna rétta málnotkun heldur safna upplýsingum um hve útbreidd mismunandi málnotkun var. Þannig á að varðveita málið að mínu mati.  Rás 1 mætti alveg dusta rykið af þeim þáttum ef þeir eru ennþá til á segulböndum.

      Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.3.2019 kl. 04:50

      Bæta við athugasemd

      Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

      Innskráning

      Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

      Hafðu samband