Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018
»Lögreglumállýskan« hjá blaða- og fréttamönnum
31.8.2018 | 17:02
Morgunblaðið sýndi mér á vinsemd að birta grein mína um málfar í blaði dagsins. Hér er hún:
Þegar mönnum er mikið niðri fyrir er landið oft kallað »bananalýðveldi«. Uppnefni eru vissulega slæmur siður og ekki til eftirbreytni en eitthvað verður það að kallast þegar þannig látæði grípur fólk.
Ég er doldið áhugasamur um fjölmiðla, sæki í fréttir en verð því miður oft fyrir vonbrigðum, sérstaklega vegna þess að ekki er allt fréttir sem birt er sem slíkar og margar athyglisverðar fréttir líða fyrir framsetningu þeirra, sérstaklega ef málfarið slæmt.
Á undanförnum áratugum hefur verið reynt að þvinga fram breytingar á íslensku máli. Þetta er gert með því að hætta að nota orð sem þó eru langt frá síðasta söludegi ef svo má að orði komast. Reynt að að breyta merkingu annarra orða sem engu að síður eru fullkomlega nothæf. Í staðinn eru einhverjir garmar brúkaðir sem virka sennilegir á prenti. Enginn hefur neitt við þetta að athuga því enn skilst innihaldið þokkalega.
Hér er fyrst og fremst átt við orðlag sem hefur á sér yfirbragð stofnanamáls þar sem nafnorðin ráða ríkjum en sagnirnar lúta í lægra haldi. Þetta sést best í svokölluðum »lögreglufréttum«. Í þeim rembast blaðamenn við að skrifa skrýtilega formbundið mál sem hugsanlega á að líkast einhvers konar kansellístíl en skekkir um leið og skælir eðlilegan stíl og gerir frásögn tilgerðalega og ljóta.
Stjórnendur fjölmiðla eru líklega svo önnum kafnir að þeir mega ekki vera að því að skoða smáatriði eins og málfar í fréttum.
Hér eru nokkur dæmi um »lögreglumállýsku« sem ég hef safnað úr fjölmiðlum mér til dundurs. Vel kann að vera að einhverjir geti kæst yfir svona »gullkornum« en víst er að öðrum finnist þetta frekar »tragí-kómískt«, svo maður leyfi sér að sletta til að sýnast.
Sumt af þessu í gæsalöppunum eru garmar, orð og frasar sem blaða- og fréttamenn nota óhóflega en ætti að geymast í læstum hirslum fjarri óvitum.
- Af og til er ítrekað
- Aftur og afturer ítrekað
- Árekstur er umferðaróhapp
- Atburður er það sem á sér stað
- Barsmíðar eru líkamsárás
- Bílekið á ljósastaur telst umferðaróhapp
- Bíll er ökutæki
- Bíllsem hefur oltið er umferðaróhapp
- Bílstjóri er ökumaður
- Dópaður náungi er undir áhrifum fíkniefna
- Fangelser fangageymsla
- Fangelsaður maður meðan verið er að rannsaka mál er í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna
- Fangi er líklega vistmaður, það er vistaður í fangaklefa
- Fáir eru einhverjir
- Fulli kallinn er maður (líka kelling) undir áhrifum áfengis
- Fulli kallinn er ölvaður maður (á við bæði kynin)
- Fyllerí í miðbænum er áfengisneysla í miðborginni
- Fögur sýn er sjónarspil
- Grunaður er sá sem hefur fengið stöðu grunaðs manns
- Hjálparsveit er viðbragðsaðili
- Hvassviðr er mikill vindur
- Logn er lítill vindur
- Lögregla er viðbragðsaðili
- Margsinnis er ítrekað
- Nokkrir eru einhverjir
- Oft er ítrekað
- Rok er mikill vindur
- Sá sem er laminn hefur orðið fyrir líkamsárás
- Sá sem stungið er í steininn er vistaður í fangageymslu
- Samkvæmt lögreglunni er samkvæmt dagbók lögreglunnar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Standa með sjálfum sér, lögreglumállýska og lærisveinar þjálfarans
28.8.2018 | 10:56
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
MaCain var maður sem stóð með sjálfum sér.
Hádegisfréttir Ríkisútvarpsins 26.08.2018.
Athugasemd: Þetta er furðulegt orðasamband sem hefur náð hefur nokkurri fótfestu í íslensku en uppruninn er í ensku máli. Ofangreint verður eitthvað svo máttlaust og afkáralegt á íslensku, gufulegt ef svo má að orði komast.
Við þekkjum orðasambandið að standa með einhverjum sem merkir að styðja, styrkja, vera í liði með og svo framvegis. Í gamla daga lékum við strákarnir fótbolta hvar sem autt svæði fannst. Stundum völdu einstaklingar samherja sína en fyrir kom að við stóðum saman gegn öðrum. Útilokað hefði verið fyrir nokkurn mann að velja sig sjálfan í lið með sjálfum sér, það er tæknilega ómögulegt rétt eins og að vera ekki með sjálfum sér í liði.
Í yfirfærðri merkingu tökum við til dæmis afstöðu með eða á móti hvalveiðum. Margir hafa rök á móti Hvalárvirkjun, aðrir með henni.
Afstaðan birtist með stuðningi í orði, ekki endilega í verki, við hlaupum ekki til og stöndum einhvers staðar eins og fótboltastrákur sem ákveður á vera í hinu eða þessu liðinu.
Að þessu sögðu er útlokað að brúka yfirfærðu merkinguna á þann veg að ég standi með sjálfum mér. Sé það vonlaust í verki er það jafn vonlaust huglægt séð.
Svona er íslenskan. Allt annað gildir um ensku og varast ber að blanda þessum tveimur tungumálum bókstaflega saman. Það sem sagt er á voru máli á ekki alltaf við á ensku og öfugt. Til dæmis er ekki hægt að þýða þetta orðrétt á skiljanlega ensku: Hver er sjálfum sér næstur. Nei, það gengur ekki öðru vísi en að umorða. Sama á við margt í ensku sem við viljum þýða á íslensku.
She followed her dreams, er oft sagt á ensku. Hversu asnalegt er ekki að orða þetta þannig að hún hafi elt drauma sína? Smekklegra er að segja að hún hafi látið drauma sína rætast.
Enskir segja stand up for yourself og stand by yourself. Þeir sem ekki hafa safnað sér vænum íslenskum orðaforða þýða þetta af vanþekkingu sinni svo: Standa upp fyrir sjálfum sér og standa með sjálfum sér. Ágæti lesandi, þetta er ekki hægt, hvorki í raun né heldur gagnast svona ólystilegt tal á huglægan hátt.
Miklu betra er að vera staðfastur, eindreginn, traustur, áreiðanlegur, jafnvel staðlyndur. Einlyndur var sá maður kallaður sem var fastur fyrir, ákveðinn og áreiðanlegur.
Sé einhverjum lýst þannig á ensku he stands by himself má nota ofangreind orð að vildi í íslenskri þýðingu og missir hún þá einskis, þvert á móti verður hún áreiðanleg en ekki gufuleg.
Tillaga: MaCain var eindreginn maður í skoðunum.
2.
Einn hefur stöðu grunaðs manns í málinu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Maður skaut á fjölda fólks í Jacksonville í Flórída. Sem sagt, einn maður er grunaður um verknaðinn. Blaðamaður á að segja fréttir á einföldu máli. Ofangreind tilvitnun er tilraun til að búa til lögreglulegt orðalag. Furðulegt. Nánar um það síðar.
Önnur dæmi um slíkt er að vista einhvern í fangageymslu í stað þess að segja að hann hafi verið settur í fangelsi eða fangageymslu.
Geta blaðamenn ekki druslast til að skrifa á eðlilegu máli? Nei, þeir tileinka sér stofnanamál, lögreglumállýsku.
Tillaga: Einn er grunaður um skotárásina.
3.
Lærisveinar Heimis töpuðu í vítaspyrnukeppni.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Leikmenn í fótboltaliði eru ekki lærisveinar þjálfarans. Ekki frekar en fréttamaðurinn sem skrifað þetta sé lærisveinn fréttastjórans eða útvarpsstjórans.
Hér er markvisst verið að reyna að breyta íslenskunni, stela fínu orði og breyta merkingu þess. Íþróttablaðamenn og íþróttafréttamenn standa einna helst í þessu enda erum sumir þeirra með afar takmarkaðan orðaforða og lítinn skilning á málfari. Þeir eru af kynslóð sem var ekki haldið að bóklestri frá barnæsku. Þeim veitt ekkert af því að setjast á skólabekk, gerast lærisveinar í orðsins fyllstu merkingu.
Tillaga: HB, lið Heimis Guðjónssonar tapaði í vítaspyrnukeppni.
4.
Sá sem olli tjóninu er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Einhvers konar umferðaróhapp varð í miðbæ Reykjavikur um miðja nótt. Ekki er sagt frá því hvað umferðaróhapp merkir. Verði bíll bensínlaus hlýtur það að teljast umferðaróhapp, sama er ef springur á dekki, öryggi slær út og annað framljósið slokknar og svo framvegis.
Þögn fréttamanns Ríkisútvarpsins um óhappið er hávær, hlustendur eða lesendur vita ekkert hvað gerðist. Hann lætur þó vita að ökumaðurinn hafi hugsanlega verið fullur. Hins vegar má ekki segja það berum orðum heldur þarf að nota lögreglulegt orðalag.
Líklega er uppruninn í fréttatilkynningu frá lögreglunni eða dagbók hennar. Löggan kann ekki að skrifa og óvíst hvort hún kann að lesa, að minnsta kosti rennur frá henni málfarslegt malbik og blaða- og fréttamenn birta ruglið athugasemdalaust.
Tillaga: Ökumaðurinn var talinn fullur og var stungið í steininn.
5.
Samkvæmt lögreglu sendi hún vinkonu sinni skilaboð klukkutíma þar sem hún bað um hjálp.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Erfitt er að lýsa fjölmiðlinum visir.is. Nokkrir góðir blaðamenn starfa þar og eru til fyrirmyndar hvað málfar í fréttum varðar. Aðrir eru fljótfærir, jafnvel óvandaðir.
Ofangreind tilvitnun er dæmi um hið síðarnefnda. Blaðamaðurinn les ekki yfir það sem hann skrifar, kollegar hans lesa ekki yfir fréttir hvers annars og fréttastjóri og ritstjóri virðast meðvitundalausir eða uppteknir við allt annað en vinnuna sína. Fyrir þeim er magn mikilvægara en gæði. Afleiðingin eru skemmdar fréttir. Sorglegt.
Tillaga: Óljós hvað blaðamaður er á við.
6.
Hann var einn á ferð og fannst innst í svonefndu Jökulgili sem gengur inn af Landmannalaugum í átt að Torfajökli.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Furðuskrif frá Landsbjörgu vekja athygli og ekki síður að blaðamenn skuli endurtaka þau athugasemdalaust. Aldrei nokkurn tímann hafa örnefni hér á landi verið sögð svonefnd. Jökulgil er gamalt og gróið örnefni sem flestir ættu þekkja.
Algjör óþarfi er af Mogganum og raunar líka Ríkisútvarpinu að bergmála vitleysuna úr fréttatilkynningu Landsbjargar. Flestir vita að landafræði virðist ekki sterkasta hlið samtakanna, það hefur margoft sýnt sig í fréttatilkynningum frá samtökunum. Þær eru ekki vel skrifaðar og málfarið stundum slæmt.
Landsbjörg hefur brugðist við gagnrýni á ónákvæmni í fréttatilkynningum með því að greina lítið sem ekkert um staðhætti í leitum. Í stað þess að bæta sig er bara hætt við allt saman. Fyrir vikið vita lesendur Moggans og Ríkisútvarpsins sáralítið sem er nú ekki til fyrirmyndar né í samræmi við upplýsingastefnu nútíma fjölmiðlunar.
Ekki falla allir fjölmiðlar í þessa gryfju því visir.is segir einfaldlega frá því að maður hafa fundist í Jökulgili. Gott hjá Vísi ...
Þess má geta að frá Landmannalaugum, inn eftir Jökulgili og að Hattveri eru rúmir tíu kílómetrar. Gilið er einstaklega fallegt og eftir því rennur Jökulgilskvísl, mikið vatnsfall. Til beggja hliða eru falleg líparítfjöll og eru litirnir ótrúlega fjölbreytilegir. Fátt er fegurra í íslenskri náttúru en Jökulgil, Hattver og raunar allt svæðið norðan Torfajökuls.
Tillaga: Hann var einn á ferð og fannst innst í Jökulgili sem gengur inn af Landmannalaugum í átt að Torfajökli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lifa lífstíl, bleik súkkulöð og minna fólk
24.8.2018 | 10:42
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
Ensk íslenska
Ef verðið fellur um einhver 3 prósent hlýtur hver venjulegur lesandi að verða spenntur: hvaða 3 prósent?
Nema hann sé svo glöggur að sjá í gegnum enskuna og þýða sjálfkrafa: um svo sem 3 prósent; um ein 3 prósent; um svo mikið sem 3 prósent o.s.frv. eftir því hvað hann heldur að meint hafi verið.
Málið á bls. 58 í Morgunblaðinu 23.08.2018.
1.
Það er búið að vera ansi þreytandi að fylgjast með Norðurlandabúum á Instagram að lifa lífsstíl sem venjulega er takmarkaður við fólk sem býr á suðlægari slóðum.
Víkverji á bls. 41 í Morgunblaðinu 18.08.2018.
Athugasemd: Orðasambandið að lifa lífstíl gengur ekki upp. Ótrúlegt að höfundi Víkverja skuli sjást yfir þetta.
Tillaga: Þreytandi að fylgjast með Norðurlandabúum á Instagram sem notið hafa aðstæðna sem er þekktari meðal fólks á suðlægari slóðum.
2.
Ásgeir Kolbeins elskar bleikt súkkulaði.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér áður fyrr elskaði fólk hvert annað, maka sinn og jafnvel viðhaldið sitt og gerir hugsanlega enn. Sumir elskuðu landið sitt eins og Guðmund Magnússon skáld sem ritaði undir höfundarnafninu Jón Trausti. Hann orti Íslandsvísur, stórfagurt kvæði sem sungið er með lagi Bjarna Þorsteinssonar og gæti verið þjóðsöngur Íslendinga. Fyrsta erindið er svona:
Ég vil elska mitt land,
ég vil auðga mitt land,
ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.
Ég vil leita´ að þess þörf,
ég vil létta þess störf,
ég vil láta það sjá margan hamingjudag.
Í dag elska menn allan andskotann ef svo má að orði komast. Fólk elskar tyggjó, bílinn sinn, símann, hestinn, skóna, sokkanna, þvottavélina, bollann, kött, páfagauk, hund, hest, hamstur, lamblæri, veganfæði kók, koníak, viskí, bjór og er þó aðeins fátt eitt nefnd af elskulegum hlutum, dýrum, mat fatnaði en fjölmargt vantar. Og svo er tilnefndur maður sem heitir Ásgeir Kolbeins sem sumir þekkja en aðrir ekki. Hann ku elska bleikt súkkulaði. Í minn æsku þótti okkur krökkunum súkkulaði gott, við elskuðum það ekki en þráðum fátt heitar. Þá var súkkulaðið bara brúnt, annað þekktist ekki.
Um daginn var öllum silkihúfum landsins boðið í partí til að smakka á bleiku súkkulaði frá þeim bræðrum Nóa og Síríusi. Af svipbrigðum fallega fólksins á myndunum, en þær birtust á vefmiðli Moggans, finnst öllum ókeypis súkkulaði gasalega gott. Öllum nema honum Ágeiri. Hann eeeelskar bleeeeik súkkulöð enda kallaður smekkmaður í fréttinni.
Ekki er gott að segja hvers vegna smekkmaðurinn er svona elskur að bleika gottinu, það kemur ekki fram enda er þetta svokölluðu skrýtnifrétt. Blaðamanni og ljósmyndara er boðið í partí með fallega fólkinu og allir fá ókeypis gott. Gaman, gaman.
Við hin sem þurfum að borga fyrir bleik súkkulöð finnst alveg rosalega gaman að sjá fallega fólkið í sínu fínasta pússi hnusa og bragða á gotteríinu. Við hreinlega eeeelskum soleiis myndir ossalega migið ...
Tillaga: Vonlaust að toppa þessa fyrirsögn, best að taka eina róandi.
3.
Skemmtiferðaskipamógúll leigir út Hörpu og Sinfoníuna.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þegar fyrirsögnin er illa gerð eru miklar líkur á að öll fréttin sé það líka. Blaðamaðurinn ætlaði líklega að flytja okkur þá frétt að forstjóri fyrirtækis sem gerir út skemmtiferðaskip hafi leigt tónleikahúsið Hörpu fyrir sig og sitt fólk. Hann komst ekki andskotalaust frá þessu því hann hélt því fram í fyrirsögn og texta að forstjórinn hafi leigt Hörpu út.
Auðvitað er þetta stórskemmd frétt, eins og glöggir lesendur átta sig á. Eitt er að leigja bíl og annað að leigja út bíla, svo dæmi sé tekið um bílaleigu og þann sem skiptir við hana. Þetta ættu allir að skilja nema ef til vill lítil börn eða fullorðnir einstaklingar með barnslegan þroska.
Raunar er óskiljanlegt hvers vegna forstjórinn er kallaður mógúll í fréttinni. Raunar er fréttin uppfull af vitleysum og villum og fyrir neðan virðingu fólks eða eyða tíma sínum í að lesa hana. Höfundurinn ætti að finna sér annað starf, blaðamennska hentar honum ekki nema því aðeins að hann leggi á sig að lesa bækur í nokkur ár til að öðlast málskilning og orðaforða sem er nauðsynlegur öllum blaðamönnum og raunar þeim sem áhuga hafa á skriftum.
Tillaga: Engin tillaga gerð, fyrirsögn enda fréttin tóm vitleysa.
5.
Minna fólk kalli ekki á minni menntun.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Við fyrstu sýn kann minna að vera atviksorðið lítið í miðstigi (lítið, minna, minnst). Sé svo á blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina við að lágvaxið fólk kalli ekki á minni menntun? Viðtengingarhátturinn skemmir doldið fyrir skilningi lesandans.
Ef ekki er verið að tala um lágvaxið fólk, hvað er þá verið að segja með þessari fyrirsögn? Sjálf fréttin skýrir hana ekki.
Minna hefur margar merkingar. Hér eru upptalningar úr malid.is:
- lítið Atviksorð, stigbreytt
- lítill Lýsingarorð
- minn Eignarfornafn
- Minna Kvennafn
- minna Sagnorð, þátíð minnti
- minni Hvorugkynsnafnorð
Við nánari umhugsun gæti merking fyrsta orðsins verið fáir (fár, lýsingarorð í et. kk.). Þá kviknar skilningur lesandans og fyrirsögnin gæti orðið samkvæmt tillögunni hér að neðan.
Svona barnslegt orðalag er nokkuð algengt. Dæmi; sumir fullyrða að margt fólk hafi verið á fundinum, aðrir segja að minna fólk hafi verið þar. Hið seinna gæti átt við hæð fólks
Niðurstaðan er því þessi: Þó fólki fækki þarf það ekki að draga úr kröfum um fullnægjandi menntun þeirra sem eftir eru.
Blaðamaðurinn þarf að vanda sig, ef hann gerir það ekki á ritstjóri að grípa í taumanna og prófarkalesa fréttina.
Viðtengingaháttur í fyrirsögnum er oft ruglandi og tíðum rangt notaður.
Tillaga: Færra fólk dregur ekki úr kröfum um menntun.
6.
Vegfarandinn var fluttur á sjúkrahús í alvarlegu ástandi af þyrlu eftir að lögreglan mætti á staðinn.
Frétt á bls. 17 í Morgunblaðinu 24.08.2018.
Athugasemd: Hér er verið að segja of mikið í langri málsgrein. Reglan er sú að setja punkt sem víðast en ekki lengja málið með aukasetningum sem hætta er á að rugli lesandann. Má vera að sumir skilji ofangreinda steypu. Stundum kunna þó ákveðnar upplýsingar að vera óþarfar. Hér getur lesandinn hæglega gert ráð fyrir því að fyrst flogið var með vegfaranda á sjúkrahús hafi lögreglan þegar verið komin enda kemur hún víðast á sama tíma og sjúkrabíll.
Vegfarandinn var fluttur af þyrlu. Hér er röng forsetning notuð.
Alvarlegt ástand er orðasamband sem er afar algengt í fjölmiðlum. Vegfarandinn var stunginn með hnífi. Liggur ekki beinast við að hann sé alvarlega særður frekar en að segja hann í alvarlegu ástandi. Hið seinna er afleiðing af hinu fyrra.
Loks er ekki úr vegi að nefna röð orða í setningu. Ekki er nóg að hrúga saman orðum. Þeim þarf að raða skipulega og svo úr verði skiljanleg frásögn.
Tillaga: Vegfarandinn var fluttur alvarlega særður með þyrlu á sjúkrahús.
7.
Undanþágan sem Höllin er á fellur úr gildi á endanum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Ég held að eðlilegast sé að orða ofangreinda fyrirsögn eins og hér er gerð tillaga um.
Tillaga: Undanþágan sem Höllin er á fellur á endanum úr gildi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Skemmdar fréttir fjölmiðla og öllum er sama
15.8.2018 | 11:04
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Þó ISIS-liðar hafi hlotið hvern ósigurinn á fætur öðrum er baráttuvilji ISIS-liða enn til staðar samkvæmt höfundum skýrslunnar.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta er viðvaningslegt og slæmt orðalag. Enginn hlýtur ósigur, hins vegar bíða sumir ósigur, tapa, fara halloka, gjalda afhroð og svo framvegis, allt eftir samhenginu.
Í raun er þetta ómöguleg málsgrein. Í henni eru villur og nástaða. Hvers vegna er í henni tvisvar getið um ISIS-liða? Dugar ekki eitt skipti eða er höfundurinn hræddur um að lesandinn missi þráðinn á milli setninga?
Svo er þessi klifun á orðasambandinu til staðar. Hefur blaðamaðurinn enga tilfinningu fyrir stíl eða er markmiðið að moka út orðum án tillits til máfars eða efnis? Greinin er illa skrifuð, margar málfarsvillur og nástöður. Blaðamaðurinn þarf að hugsa sinn gang.
Tillaga: Þó ISIS-liðar hafi beðið mikið afhroð er baráttuvilji þeirra enn mikill segja höfundar skýrslunnar.
2.
Gjóskulag var mun þykkara en áður var talið sem gefur vísbendingar um að fyrri eldgos hafi verið öflugri en áður var talið.
Myndatexti á visir.is.
Athugasemd: Fljótfærni, hugsunarleysi og hroðvirkni blaðamanna á visir.is er oft hrikaleg og það sem verra er, enginn lesi yfir. Takið eftir klifinu hér í myndatextanum. Þetta er afar algengt á fréttamiðlinum.
Þetta er einfaldlega skemmd frétt og því ekki bjóðandi neytendum, ekki frekar en skemmdur matur í verslunum eða á veitingastað.
Einfalt mál er að lagfæra svona, sé blaðamaðurinn eða ritstjórnin á annað borð með meðvitund.
Tillaga: Gjóskulag var mun þykkara en vitað var sem gefur vísbendingar um að fyrri eldgos hafi verið öflugri en áður var talið.
3.
Messi íhugar að kalla þetta gott.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er Lionel Messi, fótboltamaður hjá Barcelóna, að hugsa? Fyrirsögnin segir ekkert um það.
Af hverju geta íþróttablaðamenn á Mogganum ekki tjáð sig á einföldu máli?
Ef eitthvað er til í þessari frétt er Messi að velta því fyrir sér að hætta í fótbolta.
Blaðamenn þekkja margir ekki sögnina að hætta, þess í stað nota þeir einhver illa samanin skrautyrði. Enginn hættir lengur. Menn stíga til hliðar, stíga til baka, draga sig í hlé, víkja fyrir öðrum og svo framvegis.
Hvað kallar Messi hvað gott? Hundinn sinn, morgunverðarborðið, mömmu sína? Við skulum segja þetta gott er stundum sagt þegar til dæmis er komið að verklokum.
Tillaga: Messi íhugar að hætta.
4.
Konan, sem var daglegur stjórnandi fyrirtækisins, stóð ekki skil á virðisaukaskattskýrslum fyrirtækisins á lögmætum tíma á þessum árum og stóð ekki skil á virðisaukaskatti á sama tímabili sem nam rúmum 16 milljónum króna.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Ef vinnubrögðin eru svona á visir.is er sökin alfarið stjórnenda vefsins, ritstjóra. Ofangreint er algjörlega óboðlegt, dæmi um skemmda frétt. Ritstjórninni er greinilega sama um neytendur, aðalatriðið að magn frétta, ekki gæði.
Hvað þýðir svo skil á lögmætum tíma á þessum árum?
Þvílík ókurteisi og vanvirða við neytendur. Skrifa börn á visir.is?
Tillaga: Ekki hægt að laga svona vitleysu.
5.
Bergsveinn Birgisson rithöfundur svarar í símann, svolítið móður og ég sé hann fyrir mér skokkandi á norskum skógarstíg
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað kemur persónulegt álit eða skoðun blaðamanns lesendum við? Hvers konar blaðamennska er það að skrifa frétt í 1. persónu í eintölu?
Auðvitað er þetta tóm vitleysa enda er fréttin algjörlega úr takti við hefðbundin fréttaskrift. Sýnir bara barnslegan einfaldleika hjá visir.is.
Tillaga: Ekki hægt að laga svona vitleysu.
Sturluð stoðsending, endilangt þvert og keppni sem vann
14.8.2018 | 11:19
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Eignarréttur eyjunnar hefur verið þrætuepli milli landanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar þegar Rússar tóku Shikotan af Japönum.
Frétt á bls. 6 í Morgunblaðinu 11.06.2018.
Athugasemd: Hér er orðalagið ekki rétt. Af samhenginu má ráða að Rússar og Japanir deila um yfirráð yfir eyjunni, eignaréttinn. Nú er ekki er svo að eyjan sjálf sé með einhvern eignarétt eins og segir þarna.
Þarna vantar forsetningu og rétt fall. Hins vegar er þetta ekki vel orðuð málsgrein en það er annað mál.
Tillaga: Eignarréttur á eyjunni hefur verið þrætuepli milli landanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar þegar Rússar tóku Shikotan af Japönum
2.
Hjóla þvert yfir Bretland.
Fyrirsögn á bls 28 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11.08.2018
Athugasemd: Í viðtalinu er rætt við fólk sem hjólaði frá suðurhluta Englands til norðurstrandar Skotlands, sem sagt eftir endilöngu Bretlandi. Þetta gerðist í júlí en samt er sögnin að hjóla í fyrirsögninni í nútíð rétt eins og fólkið sé enn á ferð.
Hefði fólkið hjólað þvert yfir Bretland hefði það hjólað frá vestri til austurs eða öfugt, þverað eyjuna.
Í flestum sundlaugum syndir fólk eftir endilangri lauginni, ekki þvert yfir. Gangbraut liggur venjulega þvert yfir veg.
Orðskilningur blaðamannsins er þvert á rétta íslensku. Varla er hann þver, þá má búast við að hann þverskallist eða þvargi.
Tillaga: Hjóluðu um endilangt Bretland
3.
Sjáðu sturlaða stoðsendingu Wayne Rooney.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Orðfæri íþróttablaðamanna um fótbolta vekja oft furðu. Rooney átti ekki frábæra, magnaða, góða, ágæta eða vel heppnaða stoðsendingu. Nei, hún var sturluð. Hér er auðvitað verið að hefja efsta stig hefðbundinna lýsingarorða upp í eitthvað annað og heimssmíða veldi.
Mér finnst ekki fara vel á þessu, því gengisfelling veldisupphafningar hófst eiginlega strax og þetta varð vinsælt. Jafnvel aumustu sendingar eru sturlaðar eða geggjaðar. Leikmaður KA potaði boltanum frá vítateig og í gegnum hjörð andstæðinga og inn í markið. Þulur á sjónvarpsstöð kallaði þetta geggjað mark.
Nú má spyrja hvort útlokað sé að snúa aftur til eðlilegs máls í lýsingum á fótboltaleikjum eða hvort íþróttablaðamenn finni næst upp á þriðju veldisaukningu í lýsingum. Þá verði sendingar Rooneys og mörk hér á landi ekki lengur kend við veiki á geði heldur hugsanlega matreiðslu.Þá sjáum við líklega steiktar sendingar frá Rooney, grillaðar og jafnvel gufusoðnar.
Svo er það þessi árátta að ávarpa lesandann í fyrirsögn. Sjáðu, skoðaðu og svo framvegis. Þetta er bara gert í gulu pressunni, lélegum fréttamiðlum þar sem ritstjórnin kann ekki að búa til fyrirsagnir.
Tillaga: Frábær stoðsending Rooney skipti sköpum.
4.
Lokanir á umferðaræðum Suðurlands.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Skrauthvörf eru fyrirbrigði í flestum tungumálum, kallast líka veigrunarorð, fegrunarheiti, skrautyrði.
Í fjölmiðlum er svona annars vegar til að ekki sé alltaf verið að tuða með sömu orðin og hins vegar til að gera lesturinn þægilegri fyrir lesandann eða hlustandann. Dæmi er að í stað þess að skíta ganga menn örna sinna eða hægja sér. Í vissu tilvikum æla menn eða gubba. Oft fer betur á því að segja að einhver hafi kastað upp.
Skrauthvörf ber að nota varlega, þau verða leiðinleg. Óþarfi er að kalla vegi umferðaræðar. Þetta eru bara vegir sem í sumum tilvikum má líkja við æðakerfi líkamans en er fyrir löngu orðið úrelt og þreytt samlíking.
Byrjendur í blaðamennsku og skrifum eiga ábyggilega eftir fara í beina útsendingu og segja: Já [í svokölluðum standupum byrja allir fréttamenn á því að segja já], við erum hér á umferðaræðinni Suðurlandsvegi og hér er verið að malbika.
Einfalt mál er best.
Tillaga: Lokanir á vegum á Suðurlandi.
5.
Ungur starfsmaður setur öryggið greinilega á oddinn og notar eyrnaskjól og augnhlífar til þess að koma í veg fyrir skaða sem orsakast gæti vegna notkunar á hreinsitækinu.
Texti með mynd á bls. í Morgunblaðinu 14.08.2018.
Athugasemd: Myndatextar gegna mikilvægu hlutverki í dagblöðum. Alltof margir nota hann til að segja eitthvað sem þarf ekki að orða vegna þess að mynd segir meira en þúsund orð. Í stað þess að lýsa útbúnaði mannsins á myndinni hefði blaðamaðurinn getað sagt frá vélinni sem hann notar. Ekki er alveg skýrt hvað hún gerir og hvernig hún vinnur.
Svo er það orðalagið sem er fyrir neðan allar hellur. Þvílík steypa er þetta:
að koma í veg fyrir skaða sem orsakast gæti vegna notkunar á hreinsitækinu.
Þetta er innihaldslaus langlokutexti sem hefur sáralitla þýðingu og er í sjálfu sér tímaeyðsla að lesa. Skynsamlegast hefði verið að setja punkt á eftir orðinu skaða. Hitt liggur í augum uppi.
Tillaga: Sleppa þessar málsgrein, hún segir ekkert.
6.
Elías sigraði leikritasamkeppni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1989.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Óvitaskapur er líklega orðið sem flestum dettur í hug þegar blaðamaður heldur því fram að einhver hafi sigrað keppni. Enginn sigrar keppni vegna þess að keppnin er ekki þátttakandi. Fólk sigrar í keppni.
Í fréttinni er sagt frá Elíasi Snæland Jónssyni sem lengi var blaðamaður og aðstoðarritstjóri á Vísi. Hann tók við fréttum og greinum meðal annars frá óreyndum blaðamanni eins og undirrituðum og gerði athugasemdir, lét endurskrifa og hjálpaði mönnum til frekari þroska í faginu.
Ansi er ég hræddur um að Elías væri orðinn uppiskroppa með rauða pennann væri hann stjórnandi á DV í dag. Hitt er pottþétt að undir góðri handleiðslu gæti meðal annarra fréttabarnið, sem heldur því fram að einhver sigri keppni, hugsanlega orðið góður blaðamaður þegar fram líða stundir.
Tillaga: Elías sigraði í leikritasamkeppni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1989.
Látið hvalina vera
13.8.2018 | 10:17
Fyrir leikmann er óskiljanlegt hvers vegna verið sé að reyna að reka grindhvalavöðu út úr Kolgrafarfirði. Í fyrsta lagi eru hvalir viðkvæmar skepnur og svona aðfarir hræða þá fyrst og fremst. Í öðru lagi eru hvalir ekki vanir því að láta reka sig. Miklu skynsamlegar er að leyfa þeim að eiga sig, þeir finna ábyggilega leiðina út af sjálfsdáðum.
Enginn veit hvers vegna hvalirnir leita inn í firði og jafnvel upp í fjörur. Hugsanlega finna þeir lykt sem þeir renna á. Má vera að enn séu síldin að rotna sem strandaði í Kolgrafarfirði fyrir tveimur árum.
Mér fannst hrikalegt að sjá myndbandið sem birt var á mbl.is. Tveir björgunarsveitarbátar reyndu að hræða hvalina og reka út fyrir brúna. Þetta var ójafn leikur, skemmtun fyrir björgunarsveitarmenn en ábyggilega ferlega illt fyrir hvalina.
Best af öllu er að láta náttúruna hafa sinn gang. Maðurinn á ekki að reyna að stjórna henni, við þekkjum afleiðingarnar af slíkri afskiptasemi og þær eru ekki allar fagrar.
Líklega komnir aftur inn fjörðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rigning inni í húsi, sá verðlaunaðasti og með Evrópuleiki á bakinu
7.8.2018 | 10:58
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Síðar átti Jobs eftir að biðjast afsökunar á því hvernig hann kom fram við mæðgurnar og þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar erfði hann dóttur sína að milljónum bandaríkjadala.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nei, nei, nei. Steve Jobs erfði ekki dóttur sína enda lifði hún hann. Hins vegar arfleiddi hann hana að þessum auðæfum.
Í Málfarsbankanum segir:
Athuga að rugla ekki saman sögnunum arfleiða og erfa. Rétt er að tala um að arfleiða einhvern að einhverju og erfa eitthvað.
Hún arfleiddi son sinn að öllum eigum sínum. Sonurinn erfði allar eigur móður sinnar.
Fólk með þokkalegan orðaforða gerir ekki þessi mistök. Þeir sem hafa aldrei haft áhuga á lestri bóka gera ótal mistök vegna þess að skilningur er ekki fyrir hendi. Út af fyrir sig er ekkert að því að blaðamaður geri mistök. Verra er ef ritstjórnin meti meira magn en gæði og enginn lesi yfir það sem byrjendur skrifa. Jú, nema því aðeins að stjórnendur séu engu skárri.
Tillaga: Síðar átti Jobs eftir að biðjast afsökunar á framkomu sinni. Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar arfleiddi hann dóttur sína að milljónum bandaríkjadala..
2.
Margir Þjóðhátíðargestir leituðu skjóls frá regninu inni í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum í nótt
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Margt ungt fólk á í erfiðleikum með forsetningar íslensku máli. Hér er eitt dæmi um slíkt. Að vísu er ekki rangt að segja að einhverjir hafi leitað skjóls frá regni. Betur fer þó á því að segja að þeir hafi leitað skjóls undan regninu, burt frá því, inn í íþróttahúsið.
Svo er hér ævintýralega vitleysa. Af tilvitnuninni má ráða að það hafi rignt inni í íþróttahúsinu. Fréttamaðurinn ruglar saman tveimur atkviksorðum, inn og inni. Í Málfarsbankanum segir:
Atviksorðið inn er notað um hreyfingu: Fara inn í húsið. Atviksorðið inni er notað um dvöl á stað: Vera inni í húsinu.
Ekki þarf að fjölyrða um þessi tvö orð. Þó þau séu lík er merkingin þeirra ekki hin sama og er niðurstaðan sú að blaðamaðurinn klúðraði fréttinni.
Tillaga: Margir Þjóðhátíðargestir leituðu skjóls undan regninu og inn í íþróttahúsið í Vestmannaeyjum í nótt .
3.
Verðlaunaðasti kokkur veraldar látinn.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Mörgum er tíðrætt um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins en af ofangreindu má ráða að það klúðrast oft þegar kemur að tungumálinu.
Í fréttinni kemur það eitt fram að kokkurinn sem um er rætt fékk fyrir hönd veitingastaða í eigu sinni fleiri Michelin-stjörnur en nokkur annar. Ekkert kemur hins vegar fram að hann hafi hlotið fleiri verðlaun en aðrir heimsins kokkar, aðeins þetta með Michelin stjörnurnar, sem er að vísu talsvert.
Sá sem hlýtur verðlaun er verðlaunaður. Hið síðarnefnda er sagnorð: verðlauna, verðlaunaði, verðlaunað.
Í Málfarsbankanum segir:
Ekki tíðkast að stigbreyta orðið launaður (lýsingarháttur þátíðar) frekar en samsetningar á borð við: hálaunaður, oflaunaður, ólaunaður, verðlaunaður.
Hann er hæst launaði (ekki: hæst launaðasti) starfsmaðurinn og mun betur launaður (ekki: betur launaðri) en aðrir starfsmenn.
Fólk með sæmilegan orðaforða á að vita þetta. Börn læra þetta smám saman sé þeim haldið að lestri bóka.
Tillaga: Kokkurinn sem hlaut flestar Michelin stjörnur er látinn.
4.
Mikil rigning verður á landinu á Austurlandi.
Þulur í niðurlagi kvöldfrétta Ríkissjónvarpsins 06.08.2018.
Athugasemd: Tvítekningar eru algengar meðal blaða- og fréttamanna, sérstaklega þeirra yngri. Svo virðist sem að þeir eldri og reyndari leiðrétti ekki. Þarna spáir þulurinn rigningu á landinu á Austurlandi. Margir eru til dæmis sagðir hlaupa Vatnsneshlaup, aðrir leika fótboltaleiki, nokkrir stökkva hástökk, tína ber í berjamó (hvar annars staðar) og loks má nefna bílstjóra sem aka bílaleigubílum (margtekning).
Þetta er svo sem ekki rangt er klingjandi stíllaust. Nefna má að svo lengi sem ég man eftir hafa syngjandi kórar sungið söngva úr söngbókum og enginn agnúast út í það.
Hvers vegna er á verið að tuða um þetta hér. Jú, allt sem sagt er og skrifað er stíll (ekki tíska, style eins og sagt er á ensku) heldur málfar.
Blaðamönnum er ekki í sjálfsvald sett hvernig málfar þeirra er, hvorki þeirra sem starfa hjá Ríkisútvarpinu, Stöð2 eða dv.is svo dæmi séu tekin. Þeim ber að skrifa á íslensku svo að skiljist og gæta um leið að því hvernig frá er sagt. Þessi er skylda þeirra gagnvart lesendum. Skemmdar fréttir eru alltof algengar.
Raunar er það þannig að illt er að skrifa nema búa yfir nokkuð drjúgum orðaforða. Blaðamaður þarf helst geyma og lesa svo aftur yfir og framar öllu fá einhvern annan til að lesa yfir. Enginn fæðist sem rithöfundur, blaðamaður eða góður skríbent. Góð skynsemi, ástundun og iðjusemi er vænlegt til árangurs í þessu eins og svo mörgu öðru.
Tillaga: Rigna mun á Austurlandi.
5.
Markmiðið að allar komi heim með Evrópuleik á bakinu.
Fyrirsögn á íþróttasíðu Morgunblaðsins 07.08.2018
Athugasemd: Orðasambandið að hafa eitthvað á bakinu merkir oftast byrði, eitthvað sem íþyngir. Sumir eru með dóm á bakinu, öðrum er erfið lífsreynsla þung byrði. Sem sagt, við berum eitthvað sem er þungt (bókstaflega þungbært) eða erfitt.
Útilokað er að segja um sigurvegara að hann sé með gullverðlaun á bakinu. Íslandsmeistaratitill Valsmanna í fótbolta frá því í fyrra íþyngir þeim ekki, þvert á móti.
Furðufyrirsagnir íþróttablaðamanna Morgunblaðsins eru sumar hlægilegar, rétt eins og þessi. Fyrirsögnin er höfð eftir viðmælanda, þjálfara kvennaliðs sem er í útlöndum og ætlar þar að standa sig svo vel að það komi heim með Evrópuleik á bakinu. Þetta er furðulegt orðalag. Ekki einungis liðið heldur einstaklingarnir í liðinu eiga að koma heim með Evrópuleik, líklega ellefu eða fleiri sé tillit tekið til varamanna. Er hér til of mikils mælst eða er maðurinn að rugla?
Svo meðvitundarlaus eða fáfróður er blaðamaður Moggans að hann sér ekki fáránleikann í þessu, skrifar vitleysuna eftir manninum og þykist hafa unnið fyrir laununum sínum. Frammistaðan er hins vegar ótrúlega léleg og verðskuldar að minnsta kosti gula spjaldið.
Annars staðar í sama íþróttablaði segir í fyrirsögn:
Ragnhildur vann með 15 ára millibili
Þetta er svo barnaleg fyrirsögn að engu tali tekur. Konan vann ekki með millibili. Hún sigraði í golfkeppni og það gerðist síðast fyrir fimmtán árum. Betur færi á því að orða þetta þannig: Ragnheiður sigrar aftur fimmtán árum síðar.
Raunar ætti þetta að vera nóg úr sama íþróttablaðinu en hér er eitt gullkorn í viðbót.
Í fyrirsögn stendur:
Sara vongóð um að geta leikið úrslitaleikina.
Sem sagt, fótboltakonan vill leika leikina. Fyndið ... Ekki er ljóst hvers vegna síðasta orðið í fyrirsögninni er innan gæsalappa.
Tillaga: Einn eða fleiri Evrópuleikir eru markmið allra í liðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óhúsnæðisleysi, hitametasláttur, stara og óvitaður fjöldi
4.8.2018 | 22:19
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Ó sem á að umbreyta merkingu orða.
Menn kölluðu eftir ýmsum óhefðbundnum lausnum eins og óhagnaðartengdu leiguhúsnæði. Þetta er skemmtilegt nýyrði þar sem forskeytinu ó er ætlað að umbreyta merkingu orðsins. Óhagnaður er þó ekki skilgreindur sem tap heldur sem enginn gróði.
Óhúsnæðislaus maður væri á sama hátt einstaklingur með húsnæði. Þessi gagnmerki og óþýðingarlausi fundur borgarstjórnar einkenndist því af ólausnum þar sem menn sýndu óskilning á eðli vandans. Það er huggun fyrir útigangsmenn að menn hafa fullan vilja til að ræða málin og smíða glæsilegt athvarf úr orðaflaumnum.
Skoðun í Fréttablaðinu. Tilefnið er fundur borgarstjórnar um heimilislausa. Höfundur Óttar Guðmundsson (greinaskil og feitletrun eru á ábyrgð SS) og skrifar af leiftrandi umhyggju fyrir íslensku máli.
1.
Hitamet hafa víða verið slegin í sumar.
Frétt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 31.07.2018.
Athugasemd: Hver sló hitametið? Enginn. Metin féllu hins vegar víða. Ekki fer vel á því að orða fréttir alltaf á þann hátt að náttúran hafi vilja eins og mannfólk. Vel má vera að það sé stundum skemmtilegt stílbragð. Betra er þó að skrifa ekki alltaf sama stíl, sömu tugguna, sömu orðasamböndin ...
Tillaga: Hitamet hafa víða fallið í sumar.
2.
Leyfi veitt fyrir vindmöstur í Dölunum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Forsetningin fyrir stjórnar þágufalli. Hvorugkynsnafnorðið mastur beygist svona í eintölu: mastur, mastur, mastri, masturs. Í fleirtölu: möstur, möstur, möstrum, mastra.
Af þessu má sjá að orðið vindmastur er rangt beygt í fyrirsögninni. Allar líkur benda til að veitt hafi verið leyfi fyrir fleiri en einu og því er hér að neðan gerð þannig tillaga.
Mér finnst ekki rétt að setja ákveðinn greini við örnefni og einnig mörg byggðaheiti. Við förum til Akureyrar, ekki Akureyrarinnar (nema hugsanlega ef það er nafn á skipi), ekki Búðardalsins, Egilsstaðarins, Laxárdalsins, Kjósarinnar og svo framvegis. Auðvitað kunna að vera undantekningar frá þessu en þetta ætti að vera almenn regla..
Stundum virðist ungt fólk ekki kunna fallbeygingu, þetta á ekki síður við blaðamenn. Vera kann að þegar málsgrein er orðin löng gleymist að fallbeygja.
Til dæmis: Skjálftinn í Bárðarbungu, þar sem jörð hefur lengi skolfið og valdið jarðfræðingum áhyggjum, sérstaklega það sem af er þessu ári, er talinn vera hluti af kvikuinnskot.
Þetta er skáldað dæmi og byggir á málsgrein með mörgum aukasetningum sem alls ekki er til fyrirmyndar.
Tillaga: Leyfi veitt fyrir vindmöstrum í Dölum.
3.
Starað á hafið við Gróttuvita.
Fyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu 01.08.2018.
Athugasemd: Fyrirsögnin er ofan í mynd af konu með barn í fanginu og langt fyrir utan er farþegaskip. Þetta er nokkurs konar stemningsmynd, þokkalega vel tekin.
Athugasemdin er vegna sagnorðsins. Fólkið horfir út á hafið en blaðamaður segir það stara. Um það veit lesandinn ekkert þar sem aðeins sést í bakhlutann.
Sögnin að stara merkir samkvæmt orðabók að einblína, horfa lengi og fast á. Ekkert af þessu á við, jafnvel þó konan og barnið hafi staðið þarna lengi. Orðið er í daglegu tali frekar neikvætt, sumir stara af einskærum dónaskap eða hefndarhug. Þeir sem glápa eru ekki eins aðgangsharðir. Hvorugt er talin kurteisi.
Leiðinlegt er til þess að vita að blaðamaðurinn hafi ekki í sér skáldlegri hlið en þetta. Engin stemning er í störu.
Tillaga: Horfa á hafið við Gróttuvita.
4.
Þakklát fyrir að hafa lent í þessu áfalli á þessum tímapunkti.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta er hræðilega illa samin fyrirsögn. Skiptir engu þótt orðalagið sé viðmælandans. Blaðamanni ber skylda til að laga orðfæri hans til betri vegar. Þarna er tönglast á ábendingarfornafninu þessu og búin til nástaða sem eyðileggur fyrirsögnina.
Í raun og veru er staðan þessi: Ung íþróttakona meiddist og átti lengi í meiðslunum en náði sér fullkomlega og varð heimsmeistari í sinni grein. Hins vegar kemur ekkert fram hvers vegna konan er þakklát. Og hvað er tímapunktur? Hvers vegna þarf að bæta orðinu punktur við tíma? Það hjálpar ekkert.
Blaðamaður vitnar til bloggsíðu konunnar og eru teknar upp beinar tilvitnanir úr henni. Því miður er margt aðfinnsluvert í skrifum konunnar. Þess vegna hefði farið betur á því að blaðamaðurinn hefði endursagt efni bloggsins í óbeinni ræðu. Í sannleika sagt er þetta engin frétt, aðeins endaleysa, byggt á sjálfshjálparhugleiðingu og á lítið erindi við almenning.
Tillaga: Varla er hægt að bæta fyrirsögnina
5.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að annar hópurinn sé fimm manna en að stærð hins sé ekki vituð.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ritstjórn mbl.is er í léleg. Þessi fullyrðingu má sanna með því að fréttin sem þessi fáránlega málsgrein er í, var birt kl. 17:35 og kl. 18:50 var fréttin óbreytt. Enginn las yfir og lét blaðamanninn breyta.
Niðurstaðan er þessi. Til eru illa skrifandi blaðamenn á mbl.is og ritstjórnin meðvitundarlaus. Engum er kennt, engum er bent. Góðir blaðamenn verða ekki til nema ritstjórnin sé góð.
Og svo segir blaðamaður Moggans:
um stærð hins er ekki vituð.
Þvílík steypa. Koma blaðamennirnir beint úr leikskóla?
Sama frétt birtist á visir.is. Þar segir:
Annar gönguhópanna sem vitað er um á svæðinu er fimm manna en ekki er vitað um stærð hins.
Þetta er miklu betur orðað hjá Vísi sem þó hefur ekki alltaf verið beinlínis verið þekktur fyrir góða meðhöndlun á móðurmálinu.
Tillaga: Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að fimm manns séu í öðrum hópnum en ekki vitað um fjöldann í hinum.
Leirskáldin
Í Vísnahorni Morgunblaðsins 02.08.2018 er þessi frábæra örsaga og vísa:
Skömmu eftir lát Einars Benediktssonar mætti maður nokkur Tómasi Guðmundssyni og spurði: Ertu búinn að yrkja eftir Einar? Ég er búinn að því!
Tómas svaraði:
Þegar strengir stærsta skáldsins brustu
sem stoltast kvað og söng af mestum krafti
öllum nema landsins lélegustu leirskáldum fannst rétt að halda kjafti!
Eftirskrift
Lesandi sem kallar sig Húsara segir vísuna eiga að vera svona:
Þegar strengir stærsta skáldsins brustu,
er stoltast kvað og söng af mestum krafti,
öllum nema landsins lélegustu
leirskáldum fannst best að halda kjafti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.8.2018 kl. 08:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fólkið sem mengar sundlaugarnar
1.8.2018 | 17:15
Morgunblaðið var svo vinsamlegt að birta þessa grein mína þriðjudaginn 1. ágúst 2018:
Í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum segir að gestir skuli þvo sér án sundfata áður en þeir ganga til laugar. Á engum sundstöðum sem ég þekki til er fylgst með því að gestir geri það. Yfirleitt þvo Íslendingar sér en stór hluti útlendinga gerir það ekki.
Viðbjóðurinn
Mjög algengt er í Sundlauginni í Laugardal og Sundlaug Vesturbæjar að útlendir ferðamenn þvoi sér ekki. Þetta hefur ágerst eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað og er nú komið út í viðbjóðslega vitleysu.
Ég þekki best til í Laugardalslauginni, kem þar mjög oft. Fjölmargir útlendir karlar klæðast sundskýlu í búningsklefa og fara beinustu leið út í laug, stundum með örstuttu stoppi í sturtunum, svona rétt til að sýnast. Konur segja að þetta sé afar alengt í kvennaklefanum. Aldrei hef ég séð starfsmenn gera athugasemdir við þetta háttalag. Þetta vita fjölmargir og fara aldrei í laugarnar, þeim hugnast ekki sóðaskapurinn.
Engar undanþágur
Örfáir gestir benda útlendingunum á að laugin sé ekki til þvotta, til þess séu sturturnar. Viðbrögðin eru þá skrýtin og engu líkara en sumir hafi ekki gert sér grein fyrir tilganginum með sturtunum og snúa til baka og þvo sér. Aðrir snúa upp á sig og fara út í.
Þetta ástand er algerlega óviðunandi. Reglan er sú að annað hvort þvær fólk sér áður en það fer ofan út í laug eða það fer ekki út í. Hér er enginn millivegur. Enginn gestur á að vera undanþeginn reglum. Punktur.
Annaðhvort eða!
Vissulega er menning þjóða og þjóðarbrota mismunandi. Má vera að hingað komi fólk sem geti ekki hugsað sér að afhjúpa nekt sína, jafnvel í sturtunum. Fyrir þetta fólk eru til hálflokaðir sturtuklefar, að minnsta kosti í Laugardalslauginni. Sé það ekki nóg á fólk ekki að fara í sundlaugar á Íslandi. Engan afslátt á að gefa á hreinlæti sundlaugargesta. Uppruni, menning, siðir eða annað er ekki gild afsökun. Hér gildir einfaldlega annað hvort eða.
Sagt upp störfum
Við sem stundum sundlaugarnar veltum því oft fyrir okkur hvers vegna starfsfólk í búningsklefum hafi ekki eftirlit með því að gestir þvoi sér. Fyrir nokkrum árum sagði einn sturtuvörðurinn, eldri maður sem nú er hættur störfum, að það þýddi ekki neitt að fylgjast með gestum, þá kæmust starfsmenn ekki í önnur brýn störf. Sem sagt, eftirlit með hreinlæti sundlaugargesta er fullt starf. Öðrum eldri manni var sagt upp störfum fyrir að framfylgja reglum, krefjast þess með smá offorsi að gestir færu í sturtu.
Þurra fólkið
Eitt sinn sat ég í ágætum hópi í heita pottinum og var þar spjallað um heima og geima. Þá kemur einn Íslendingur askvaðandi beint úr búningsklefa, skraufþurr. Einhver spurði hvort hann hefði farið í sturtu áður en hann kom út. Landinn sagðist ekki hafa gert það, hann væri að fara í pott. Honum var þá sagt að hann skyldi andskotast til baka og þvo sér og þá fengi hann að koma ofan í pottinn, fyrr ekki. Eftir tíu mínútur kemur skrattakollur til baka og segist hafa þvegið sér og hvort við værum nú ánægð. Sem sagt, hann þvoði sér fyrir okkur, ekki af þörf eða vegna þess að reglur laugarinnar krefðust þess.
Nær daglega sér maður fólk af báðum kynjum koma úr búningsklefum, skraufþurrt, og fer beint í sundlaug eða potta. Þetta er auðvitað algjör viðbjóður og ekki sæmandi rekstraraðilanum að öðrum gestum sé boðið upp á slíkt.
Mannréttindin
Borginni virðist vera algjörlega sama um þessi mál. Að þeirra mati eru mannréttindin fólgin í því að sleppa kynjamerkingum á salernum sem í eigu og umsjón Reykjavíkurborgar.
Ég held að ég tali fyrir munn flestra sem sækja sundlaugar þegar ég fullyrði að það er réttur hvers sundlaugargests að geta farið ofan í sundlaug vitandi það með vissu að allir gestir hafi þvegið sér áður en þeir fari ofan í.
Upplýsing og eftirlit
Hægt er að grípa til tveggja ráða. Annað er að starfsmenn hafi beinlínis eftirlit með því að gestir fari í sturtu og þvoi sér. Hitt er að allir útlendir gestir sem kaupi sig í laug fái afhent spjald með einföldum reglum og myndrænum leiðbeiningum. Á því standi meðal annars að annað hvort sé farið að reglum eða gestinum verði meinað að fara ofan í laugina.
Við þetta ástand verður ekki unað lengur, borgaryfirvöld þurfa að taka á þessu. Strax.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)