Óhúsnæðisleysi, hitametasláttur, stara og óvitaður fjöldi

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Ó sem á að umbreyta merkingu orða.

Menn kölluðu eftir ýmsum óhefðbundnum lausnum eins og „óhagnaðartengdu leiguhúsnæði“. Þetta er skemmtilegt nýyrði þar sem forskeytinu ó er ætlað að umbreyta merkingu orðsins. Óhagnaður er þó ekki skilgreindur sem tap heldur sem enginn gróði. 

Óhúsnæðislaus maður væri á sama hátt einstaklingur með húsnæði. Þessi gagnmerki og óþýðingarlausi fundur borgarstjórnar einkenndist því af ólausnum þar sem menn sýndu óskilning á eðli vandans. Það er huggun fyrir útigangsmenn að menn hafa fullan vilja til að ræða málin og smíða glæsilegt athvarf úr orðaflaumnum.

Skoðun í Fréttablaðinu. Tilefnið er fundur borgarstjórnar um heimilislausa. Höfundur Óttar Guðmundsson (greinaskil og feitletrun eru á ábyrgð SS) og skrifar af leiftrandi umhyggju fyrir íslensku máli.

 

1.

Hitamet hafa víða verið slegin í sumar.“ 

Frétt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 31.07.2018.        

Athugasemd: Hver sló hitametið? Enginn. Metin féllu hins vegar víða. Ekki fer vel á því að orða fréttir alltaf á þann hátt að náttúran hafi vilja eins og mannfólk. Vel má vera að það sé stundum skemmtilegt stílbragð. Betra er þó að skrifa ekki alltaf sama stíl, sömu tugguna, sömu orðasamböndin ...

 Tillaga: Hitamet hafa víða fallið í sumar.

2.

Leyfi veitt fyrir vindmöstur í Dölunum. 

Fyrirsögn á visir.is.         

Athugasemd: Forsetningin fyrir stjórnar þágufalli. Hvorugkynsnafnorðið mastur beygist svona í eintölu: mastur, mastur, mastri, masturs. Í fleirtölu: möstur, möstur, möstrum, mastra.

Af þessu má sjá að orðið vindmastur er rangt beygt í fyrirsögninni. Allar líkur benda til að veitt hafi verið leyfi fyrir fleiri en einu og því er hér að neðan gerð þannig tillaga.

Mér finnst ekki rétt að setja ákveðinn greini við örnefni og einnig mörg byggðaheiti. Við förum til Akureyrar, ekki Akureyrarinnar (nema hugsanlega ef það er nafn á skipi), ekki Búðardalsins, Egilsstaðarins, Laxárdalsins, Kjósarinnar og svo framvegis. Auðvitað kunna að vera undantekningar frá þessu en þetta ætti að vera almenn regla.. 

Stundum virðist ungt fólk ekki kunna fallbeygingu, þetta á ekki síður við blaðamenn. Vera kann að þegar málsgrein er orðin löng gleymist að fallbeygja.

Til dæmis: Skjálftinn í Bárðarbungu, þar sem jörð hefur lengi skolfið og valdið jarðfræðingum áhyggjum, sérstaklega það sem af er þessu ári, er talinn vera hluti af kvikuinnskot.

Þetta er skáldað dæmi og byggir á  málsgrein með mörgum aukasetningum sem alls ekki er til fyrirmyndar. 

 Tillaga: Leyfi veitt fyrir vindmöstrum í Dölum.

3.

„Starað á hafið við Gróttuvita. 

Fyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu 01.08.2018.         

Athugasemd: Fyrirsögnin er ofan í mynd af konu með barn í fanginu og langt fyrir utan er farþegaskip. Þetta er nokkurs konar stemningsmynd, þokkalega vel tekin.

Athugasemdin er vegna sagnorðsins. Fólkið horfir út á hafið en blaðamaður segir það stara. Um það veit lesandinn ekkert þar sem aðeins sést í bakhlutann.

Sögnin að stara merkir samkvæmt orðabók að einblína, horfa lengi og fast á. Ekkert af þessu á við, jafnvel þó konan og barnið hafi staðið þarna lengi. Orðið er í daglegu tali frekar neikvætt, sumir stara af einskærum dónaskap eða hefndarhug. Þeir sem glápa eru ekki eins aðgangsharðir. Hvorugt er talin kurteisi.

Leiðinlegt er til þess að vita að blaðamaðurinn hafi ekki í sér skáldlegri hlið en þetta. Engin stemning er í störu. 

 Tillaga: Horfa á hafið við Gróttuvita.

4.

„Þakklát fyrir að hafa lent í þessu áfalli á þessum tímapunkti.“ 

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Þetta er hræðilega illa samin fyrirsögn. Skiptir engu þótt orðalagið sé viðmælandans. Blaðamanni ber skylda til að laga orðfæri hans til betri vegar. Þarna er tönglast á ábendingarfornafninu þessu og búin til nástaða sem eyðileggur fyrirsögnina. 

Í raun og veru er staðan þessi: Ung íþróttakona meiddist og átti lengi í meiðslunum en náði sér fullkomlega og varð heimsmeistari í sinni grein. Hins vegar kemur ekkert fram hvers vegna konan er þakklát. Og hvað er tímapunktur? Hvers vegna þarf að bæta orðinu punktur við tíma? Það hjálpar ekkert.

Blaðamaður vitnar til bloggsíðu konunnar og eru teknar upp beinar tilvitnanir úr henni. Því miður er margt aðfinnsluvert í skrifum konunnar. Þess vegna hefði farið betur á því að blaðamaðurinn hefði endursagt efni bloggsins í óbeinni ræðu. Í sannleika sagt er þetta engin frétt, aðeins endaleysa, byggt á sjálfshjálparhugleiðingu og á lítið erindi við almenning.

 Tillaga: Varla er hægt að bæta fyrirsögnina

5.

„Í til­kynn­ingu frá Lands­björgu kem­ur fram að ann­ar hóp­ur­inn sé fimm manna en að stærð hins sé ekki vituð.“ 

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ritstjórn mbl.is er í léleg. Þessi fullyrðingu má sanna með því að fréttin sem þessi fáránlega málsgrein er í, var birt kl. 17:35 og kl. 18:50 var fréttin óbreytt. Enginn las yfir og lét blaðamanninn breyta.

Niðurstaðan er þessi. Til eru illa skrifandi blaðamenn á mbl.is og ritstjórnin meðvitundarlaus. Engum er kennt, engum er bent. Góðir blaðamenn verða ekki til nema ritstjórnin sé góð.

Og svo segir blaðamaður Moggans:

… um stærð hins er ekki vituð.

Þvílík steypa. Koma blaðamennirnir beint úr leikskóla?

Sama frétt birtist á visir.is. Þar segir:

Annar gönguhópanna sem vitað er um á svæðinu er fimm manna en ekki er vitað um stærð hins. 

Þetta er miklu betur orðað hjá Vísi sem þó hefur ekki alltaf verið beinlínis verið þekktur fyrir góða meðhöndlun á móðurmálinu.

Tillaga: Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að fimm manns séu í öðrum hópnum en ekki vitað um fjöldann í hinum.

 

Leirskáldin

Í Vísnahorni Morgunblaðsins 02.08.2018 er þessi frábæra örsaga og vísa:

Skömmu eftir lát Einars Benediktssonar mætti maður nokkur Tómasi Guðmundssyni og spurði: „Ertu búinn að yrkja eftir Einar? Ég er búinn að því!“

Tómas svaraði:

Þegar strengir stærsta skáldsins brustu 
sem stoltast kvað og söng af mestum krafti
öllum nema landsins lélegustu leirskáldum fannst rétt að halda kjafti!

 

Eftirskrift

Lesandi sem kallar sig „Húsara“ segir vísuna eiga að vera svona:

Þegar strengir stærsta skáldsins brustu,
er stoltast kvað og söng af mestum krafti,
öllum nema landsins lélegustu
leirskáldum fannst best að halda kjafti.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður.

Þannig er þessi vísa rétt:

Þegar strengir stærsta skáidsins brustu,
er stoltast kvað og söng af mestum krafti,
óllum nema landsins lélegustu
leirskáldum fannst best að halda kjafti.

Húsari. (IP-tala skráð) 5.8.2018 kl. 01:38

2 identicon

Sæll Sigurður.

Þannig er þessi vísa rétt:

Þegar strengir stærsta skáldsins brustu,
er stoltast kvað og söng af mestum krafti,
öllum nema landsins lélegustu
leirskáldum fannst best að halda kjafti.

(ásláttarvillur í þeirri fyrri!)

Húsari. (IP-tala skráð) 5.8.2018 kl. 01:48

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, Húsari.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.8.2018 kl. 08:15

4 Smámynd: Aztec

Sigurður:

Hér fyrir ofan skrifarðu: "Athugasemd: Ritstjórn mbl.is er í léleg."

Áttu við að ritstjórnin sé léleg (forskeytinu "í" ofaukið) eða vildirðu segja að ritstjórnin væri "í lélegu ástandi hvað varðar setningafræði"?

Aztec, 5.8.2018 kl. 13:11

5 identicon

Sæll.

Takk fyrir skemmtilegt blogg.

Vil benda þér á að orðið Landsbjörg er ekki rétt fallbeygt. ,,Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að fimm manns séu í öðrum hópnum en ekki vitað um fjöldann í hinum."

Landsbjörg-Landsbjörg-Landsbjörg- Landsbjargar.

Fer ávallt fyrir brjóstið á mér þegar blaðamenn fallbeygja heiti samtakanna rangt. 

Kveðja, Helga Dögg

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 5.8.2018 kl. 20:39

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

„Aztec“, þarna varð eftir eitt „í“ sem á ekkert erindi í þessum texta eftir að uppkasti var breytt. Þetta er nú allt of sumt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.8.2018 kl. 20:45

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Helga Dögg, bestu þakkir fyrir ábendinguna, ómetanlegt að fá svona tilskrif. Í minni ætt og fjölskyldu er nafnið Björg mjög algengt. Það beygist svona: 

Björg, Björgu, Björgu, Bjargar.

Landsbjörg eða björg í merkingunni aðstoð eða hjálp og fleira beygist svona:

björg, björg, björg, bjargar.

Á þessu tvennu er mikill munur.

Ég þurfti hreinlega að fletta þessu upp til að fullvissa mig um að þú hefur hárrétt fyrir þér. Hér var ég ábyggilega undir áhrifum af kvennafninu og er líklegt að fleiri séu það.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.8.2018 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband