Rigning inni í húsi, sá verðlaunaðasti og með Evrópuleiki á bakinu

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

1.

Síðar átti Jobs eft­ir að biðjast af­sök­un­ar á því hvernig hann kom fram við mæðgurn­ar og þrátt fyr­ir fyrri yf­ir­lýs­ing­ar erfði hann dótt­ur sína að millj­ón­um banda­ríkja­dala.“ 

Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Nei, nei, nei. Steve Jobs erfði ekki dóttur sína enda lifði hún hann. Hins vegar arfleiddi hann hana að þessum auðæfum.

Í Málfarsbankanum segir: 

Athuga að rugla ekki saman sögnunum arfleiða og erfa. Rétt er að tala um að arfleiða einhvern að einhverju og erfa eitthvað. 

Hún arfleiddi son sinn að öllum eigum sínum. Sonurinn erfði allar eigur móður sinnar.

Fólk með þokkalegan orðaforða gerir ekki þessi mistök. Þeir sem hafa aldrei haft áhuga á lestri bóka gera ótal mistök vegna þess að skilningur er ekki fyrir hendi. Út af fyrir sig er ekkert að því að blaðamaður geri mistök. Verra er ef ritstjórnin meti meira magn en gæði og enginn lesi yfir það sem byrjendur skrifa. Jú, nema því aðeins að stjórnendur séu engu skárri.

 Tillaga: Síðar átti Jobs eft­ir að biðjast af­sök­un­ar á framkomu sinni. Þrátt fyr­ir fyrri yf­ir­lýs­ing­ar arfleiddi hann dótt­ur sína að millj­ón­um banda­ríkja­dala..

2.

Margir Þjóðhátíðargestir leituðu skjóls frá regninu inni í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum í nótt …“ 

Frétt á ruv.is.          

Athugasemd: Margt ungt fólk á í erfiðleikum með forsetningar íslensku máli. Hér er eitt dæmi um slíkt. Að vísu er ekki rangt að segja að einhverjir hafi leitað skjóls frá regni. Betur fer þó á því að segja að þeir hafi leitað skjóls undan regninu, burt frá því, inn í íþróttahúsið.

Svo er hér ævintýralega vitleysa. Af tilvitnuninni má ráða að það hafi rignt inni í íþróttahúsinu. Fréttamaðurinn ruglar saman tveimur atkviksorðum, inn og inni. Í Málfarsbankanum segir:

Atviksorðið inn er notað um hreyfingu: Fara inn í húsið. Atviksorðið inni er notað um dvöl á stað: Vera inni í húsinu.

Ekki þarf að fjölyrða um þessi tvö orð. Þó þau séu lík er merkingin þeirra ekki hin sama og er niðurstaðan sú að blaðamaðurinn klúðraði fréttinni.

Tillaga: Margir Þjóðhátíðargestir leituðu skjóls undan regninu og inn í íþróttahúsið í Vestmannaeyjum í nótt ….

3.

Verðlaunaðasti kokkur veraldar látinn.“ 

Fyrirsögn á ruv.is.          

Athugasemd: Mörgum er tíðrætt um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins en af ofangreindu má ráða að það klúðrast oft þegar kemur að tungumálinu.

Í fréttinni kemur það eitt fram að kokkurinn sem um er rætt fékk fyrir hönd veitingastaða í eigu sinni fleiri Michelin-stjörnur en nokkur annar. Ekkert kemur hins vegar fram að hann hafi hlotið fleiri verðlaun en aðrir heimsins kokkar, aðeins þetta með Michelin stjörnurnar, sem er að vísu talsvert.

Sá sem hlýtur verðlaun er verðlaunaður. Hið síðarnefnda er sagnorð: verðlauna, verðlaunaði, verðlaunað.

Í Málfarsbankanum segir: 

Ekki tíðkast að stigbreyta orðið launaður (lýsingarháttur þátíðar) frekar en samsetningar á borð við: hálaunaður, oflaunaður, ólaunaður, verðlaunaður. 

Hann er hæst launaði (ekki: „hæst launaðasti“) starfsmaðurinn og mun betur launaður (ekki: „betur launaðri“) en aðrir starfsmenn.

Fólk með sæmilegan orðaforða á að vita þetta. Börn læra þetta smám saman sé þeim haldið að lestri bóka.

Tillaga: Kokkurinn sem hlaut flestar Michelin stjörnur er látinn.

4.

Mikil rigning verður á landinu á Austurlandi.“ 

Þulur í niðurlagi kvöldfrétta Ríkissjónvarpsins 06.08.2018.         

Athugasemd: Tvítekningar eru algengar meðal blaða- og fréttamanna, sérstaklega þeirra yngri. Svo virðist sem að þeir eldri og reyndari leiðrétti ekki. Þarna spáir þulurinn rigningu á landinu á Austurlandi. Margir eru til dæmis sagðir hlaupa Vatnsneshlaup, aðrir leika fótboltaleiki, nokkrir stökkva hástökk, tína ber í berjamó (hvar annars staðar) og loks má nefna bílstjóra sem aka bílaleigubílum (margtekning). 

Þetta er svo sem ekki rangt er klingjandi stíllaust. Nefna má að svo lengi sem ég man eftir hafa syngjandi kórar sungið söngva úr söngbókum og enginn agnúast út í það.

Hvers vegna er á verið að tuða um þetta hér. Jú, allt sem sagt er og skrifað er stíll (ekki tíska, „style“ eins og sagt er á ensku) heldur málfar. 

Blaðamönnum er ekki í sjálfsvald sett hvernig málfar þeirra er, hvorki þeirra sem starfa hjá Ríkisútvarpinu, Stöð2 eða dv.is svo dæmi séu tekin. Þeim ber að skrifa á íslensku svo að skiljist og gæta um leið að því hvernig frá er sagt. Þessi er skylda þeirra gagnvart lesendum. Skemmdar fréttir eru alltof algengar. 

Raunar er það þannig að illt er að skrifa nema búa yfir nokkuð drjúgum orðaforða. Blaðamaður þarf helst geyma og lesa svo aftur yfir og framar öllu fá einhvern annan til að lesa yfir. Enginn fæðist sem rithöfundur, blaðamaður eða góður skríbent. Góð skynsemi, ástundun og iðjusemi er vænlegt til árangurs í þessu eins og svo mörgu öðru. 

Tillaga: Rigna mun á Austurlandi.

5.

Markmiðið að allar komi heim með Evrópuleik á bakinu.“ 

Fyrirsögn á íþróttasíðu Morgunblaðsins 07.08.2018         

Athugasemd: Orðasambandið að hafa eitthvað á bakinu merkir oftast byrði, eitthvað sem íþyngir. Sumir eru með dóm á bakinu, öðrum er erfið lífsreynsla þung byrði. Sem sagt, við berum eitthvað sem er þungt (bókstaflega þungbært) eða erfitt.

Útilokað er að segja um sigurvegara að hann sé með gullverðlaun á bakinu. Íslandsmeistaratitill Valsmanna í fótbolta frá því í fyrra íþyngir þeim ekki, þvert á móti.

Furðufyrirsagnir íþróttablaðamanna Morgunblaðsins eru sumar hlægilegar, rétt eins og þessi. Fyrirsögnin er höfð eftir viðmælanda, þjálfara kvennaliðs sem er í útlöndum og ætlar þar að standa sig svo vel að það komi heim með Evrópuleik á bakinu. Þetta er furðulegt orðalag. Ekki einungis liðið heldur einstaklingarnir í liðinu eiga að koma heim með Evrópuleik, líklega ellefu eða fleiri sé tillit tekið til varamanna. Er hér til of mikils mælst eða er maðurinn að rugla?

Svo meðvitundarlaus eða fáfróður er blaðamaður Moggans að hann sér ekki fáránleikann í þessu, skrifar vitleysuna eftir manninum og þykist hafa unnið fyrir laununum sínum. Frammistaðan er hins vegar ótrúlega léleg og verðskuldar að minnsta kosti gula spjaldið.

Annars staðar í sama íþróttablaði segir í fyrirsögn:

Ragnhildur vann með 15 ára millibili

Þetta er svo barnaleg fyrirsögn að engu tali tekur. Konan vann ekki með millibili. Hún sigraði í golfkeppni og það gerðist síðast fyrir fimmtán árum. Betur færi á því að orða þetta þannig: Ragnheiður sigrar aftur fimmtán árum síðar.

Raunar ætti þetta að vera nóg úr sama íþróttablaðinu en hér er eitt „gullkorn“ í viðbót.

Í fyrirsögn stendur:

Sara vongóð um að geta leikið „úrslitaleikina“.

Sem sagt, fótboltakonan vill leika leikina. Fyndið ... Ekki er ljóst hvers vegna síðasta orðið í fyrirsögninni er innan gæsalappa.

Tillaga: Einn eða fleiri Evrópuleikir eru markmið allra í liðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband