Árásir framdar, kýrskýr þágufallssýki og valkostur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Kýrskýr merkir heimskur

Með nokkurri örvæntingu horfir maður upp á það að þeim fjölgar sem halda að „kýrskýrt“ sé samheiti við augljóst, dagljóst, auðsætt og fleira slíkt: 

„Þetta ætti nú að vera hverjum manni kýrskýrt.“ Segði nokkur maður „kýrljóst“? Lýsingarorðið kýrskýr hefur fram að þessu þýtt heimskur og verið háðsyrði. 

„Málið“ á bls. 28 í Morgunblaðinu 8.maí 2018.

 

1.

„Okkur hjónin langar að þakka einkar ánægjulega stund í Grensáskirkju á dögunum.“ 

Úr grein í Morgunblaðinu 7. maí 2018 eftir Helga Seljan.      

Athugasemd: Nokkrir hafa spurt mig um þessa tilvitnun, vilja vita hvort rétt sé orðað. Á að segja okkur hjónin langar eða okkur hjónum langar. Ég var hreinlega ekki viss. Leitaði álits Gúgúls en hann hefur sjaldan rétt fyrir sér, fer eftir vilja meirihlutans.

Þá greið ég til þess ráðs, sem ég geri stundum, að senda fyrirspurn til íslenskrar málnefndar. Fékk samdægurs skilmerkilegt svar frá Jóhannesi B. Sigtryggssyni, rannsóknarlektor. Hann segir:

Það er mælt með því að nota þolfall en ekki þágufall með sögninni langa og það er einnig í samræmi við hefð. Ég myndi því mæla með því að segja Okkur hjónin langar til að þakka.

Auðvitað er þetta rétt, liggur í augum uppi. „Þágufallssýkin“ læðist að manni en greinilegt er að heiðursmaðurinn Helgi Seljan er ekki smitaður af henni. Mér þykir hins vegar rétt að geta þessa hérna sérstaklega vegna svarsins frá Jóhannesi. Engin tillaga er því gerð, orðalagið er hafið yfir allan vafa.

Tillaga: Okkur hjónin langar að þakka einkar ánægjulega stund í Grensáskirkju á dögunum.

2.

„Víkverji var á ferð í höfuðstað Norðurlands fyrir skemmstu og snæddi pítsu á tveimur vinsælum veitingastöðum þar.“ 

„Víkverji“ á bls. 29 í Morgunblaðinu 8.maí 2018.      

Athugasemd: „Víkverji“ er dálkur í Mogganum og skiptast blaðamenn á því að skrifa hann. Oft er hann fróðlegur og skemmtilegur og ekki síður þann dag sem nefndur er hér að ofan. Hins vegar vakti það furðu að Víkverji skuli hafa verið í „höfuðstað“ Norðurlands en svo kemur í ljós að hann var ekki á Skagaströnd. Ekki heldur á Hvammstanga. Víkverji var langt frá Húsavík og enn lengra frá Kópaskeri. Hann var aldeilis hvergi annars staðar en á Akureyri.

Bíðið nú við, hér veltir maður því fyrir sér hvenær Akureyri hafi orðið að höfuðstað Norðurlands og hvaða réttindi og skyldur fylgi nafnbótinni.

Sannast sagna er þetta bara bull enda enginn fótur fyrir þessu frekar en að segja að Akureyri sé fallegasti bær á Íslandi. Raunar er leitun að fallegra bæjarfélagi á landinu. Maður nokkur lét eitt sinn hafa eftir sér þessi andstyggilegu orð: 

Ekkert jafnast á við að koma til Akureyrar nema ef til vill að fara þaðan.

Veiti ekki hvort er ósmekklegra, að tala eins og þessi ónefndi maður eða hafa þetta eftir honum (hér væri viðeigandi að setja brosmerki til að forðast misskilning).

Tillaga: Víkverji var á ferð í langfallegasta, stórkostlegasta, yndislegasta og besta höfuðstað Norðurlands fyrir skemmstu og snæddi pítsu á tveimur vinsælum veitingastöðum þar.

3.

„… einn þeirra sem þróuðu Microsoft Translator, segir forritið hafa sýnt sig vera öflugt tæki til að varðveita tungumál og mun það aðstoða við að varðveita íslenska tungu í tækniheiminum.“ 

Frétt á bls. 6 í Morgunblaðinu 9. maí 2018.     

Athugasemd: Hefði blaðamaðurinn gefið sér tíma til að endurskoða þennan texta hefði það verið til bóta. Hér er átt við stíl, ekki málfræði.

Ekki gengur að tala um forritið eins og reynslumikinn mann. „Sýnt sig vera“ er orðasamband sem gengur illa. Í stað þess kann að vera að forritið hafi reynst vera öflugt tæki.

Forritið mun ekki „aðstoða“ einn eða neinn. Í því felst að það sé með eigin hugsun sem er ekki. Hins vegar er hægt að nota það til góðra verka eða hafa stoð af því.

Forritið á ekki að varðveita íslenska tungu, geyma hana, heldur er hægt að nýta það á ákveðinn hátt. Vonandi gagnast forritið til að styrkja íslensku.

Tillaga: … einn þeirra sem þróuðu Microsoft Translator, segir forritið hafi reynst öflugt tæki til málnotkunar og mun það hjálpa til að íslensk tunga sé notuð í tækniheiminum.

4.

„RÚV valdi milli slæmra valkosta.“ 

Fyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu 12. maí 2018.     

Athugasemd: Þessi fyrirsögn er ekki bjóðandi. „Valkostur“ er orðskrípi, samsetningur tveggja orða sem þýða nokkurn veginn hið saman þó blæbrigðamunur sé á þeim. Á norsku er til nafnorðið „beslutningstaking“, má vera að skrípið sé ættað þaðan. Ekki er allt best sem kemur frá útlöndum. Á ensku er til orðið „option“. Hins vegar ekki til orðið „optiontaking“.

Blaðamaður Moggans átti því val um nokkra kosti sem liggja í augum uppi í stað þess að velja skrípið. Kostur er prýðilegt orð, getur merkt möguleiki eða eitthvað til að velja um. Val er meðal annars notað þegar hægt er að velja, að eiga val, til dæmis að kjósa einhvern af sextán framboðum til borgarstjórnar. 

Sem sagt Ríkisútvarpið átti tveggja kosta völ eða gat valið milli tveggja eða fleiri kosta. Algjör ofrausn er að bjóða því að velja á milli „valkosta“. 

Hægt er að búa til önnur orðskrípi til að sýna þetta í réttu ljósi. Til dæmis kanna að vera hægt að stökkva á tveimur stöðum yfir læk, enginn myndi þó tala um hoppustökk. Hopp og stökk eru svipuð orð en á þeim er blæbrigðamunur. Á sama hátt myndi enginn taka upp skrípið „ræðutal“, „aksturskeyrsla“, „vatnsvökvi“ eða „ökubíll“ svo nokkur frumsamin bullorð séu kreist upp.

Í Noregi nefnast kosningar „valg“ sem þýðir einfaldlega „val“. Þar, rétt eins og hér, er valið á milli stjórnmálaflokka í kosningum. Auðvitað gætum við tekið upp orðið sveitastjórnarval, Alþingisval eða valstaður (kjörstaður). Orðin hljóma nú samt dálítið skringilega.

Tillaga: RÚV hafði um slæma kosti að velja.

5.

„Fjórar líkamsárásir voru framdar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Hvort er nú verra, skrif lögreglunnar um atburði næturinnar eða endursögn fjölmiðils um sama efni? Blaðamaðurinn étur líklega hér upp eftir löggunni en hefur ekki vit eða getu að færa til betra horfs. Það er svo efni í langan pistil að ræða máttleysi Lögreglunnar í skriflegum tilkynningum.

Aldrei er tekið svo til orða í fjölmiðlum eftir áramót: Fjórum börnum var fætt á nýársdag. Né heldur er sagt: Fjórir ölvunarakstrar framdir á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Blaðamaðurinn þarf að hugsa, velta því fyrir sér hvað hann er að skrifa og hvernig hann geti komið því frá sér á skiljanlegan og málfræðilega réttan hátt. Það gerir hann ekki. Annars hefði hann látið þess getið að ráðist hafi verið á fjóra menn. Þeir voru blessunarlega ekki framdir líkamsárásum.

Síðar í fréttinni segir:

Ökumaðurinn reyndist vera allsgáður en að sögn lögreglu verður hann kærður fyrir nokkur brot og þar á meðal að setja líf manneskju í óljósan háska. Farþegi í bílnum þurfti meðal annars á sálrænni aðstoð að halda frá lögreglu vegna háttalags bílstjórans.

Hér er getið um eina manneskju og einn farþega, það er tvo menn (karl eða konu) sem kallaðir eru ólíkum nöfnum. ýmislegt bendir til að um farþeginn hafi verið einn og til skemmtunar eða tilbreytingar líka nefndur manneskja. Þó getur verið að manneskjan hafi verið gangandi vegfarandi sem þó er ekki sagt nánar frá.

Hvað er nú „óljós háski“ sem frá er sagt í tilvitnuninni. Hafi ökumaðurinn eki gáleysislega er háskinn öllum ljós. Hafi hann hins vegar haft tímasprengju falda í bílnum mætti segja að háskinn hafi verið óljós því enginn vissi hvenær sprengjan átti að springa né hvort hún hafi verið viðkvæm fyrir hristingi.

Líklega hefur blaðamaðurinn ekki lesið textann sinn yfir á gagnrýnan hátt eða að sjálfumgleðin sé slík að hann sér ekkert athugunarvert í skrifum sínum. Verst væri þó ef hann kann ekki betur til verka.

Tillaga: Ráðist var á fjóra menn í nótt á höfuðborgarsvæðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

Vil benda á lagalega merkingu orðsins "höfuðstaður".  Sem merkir að viðkomandi bær, sé "miðstöð" stjórnar viðkomandi landsvæðis.

Ég veit ekki til þess, að menn á blönduósi fari til Akureyrar með sínar "þarfir".  Og verði kvöð á, neyðast þeir að fara til Reykjavíkur sem er höfuðstaður Íslands.  Og hvað varðar "Norðurland", þá efast ég um að Akureyri geti talist "höfuðstaður" Norðurlands EYSTRA ... sem hann tilheyrir.  En síður far Ísfyrðingar til Akureyrar með sín málefni, sem eru þó enn lengra NORÐUR á landinu en Akureyri ... sem er langt frá því að vera nyrsti staður landsins.  Svo ekki er hann höfuðstaður í "þeirri" merkingu.

Og tek ég vel undir orðin ...

Ekkert jafnast á við að koma til Akureyrar nema ef til vill að fara þaðan.

Því þótt akureyri sé "fallegur" staður, þá er hann ekki fallegastur ... enda "beauty is in the eye of the beholder" og ekki algilt fagyrði. En þó fallegur sé, er hann "hund leiðinlegur".

Örn Einar Hansen, 14.5.2018 kl. 06:16

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Fyrir allmörgum árum birtist á skjá Rúv áminning frekar en auglýsing að ég tel,þar sem fullorðin kona er að kenna barni sínu að nota persónufornöfn í þolfalli með sögninni að langa. Hún þuldi upp "mig langar,þig langar,hana langar,okkur langar" Hvað er þetta sagði barnið langar alla í þetta (eitthvað nammi minnir mig).Ég er næstum viss um að það festist í minni þeirra sem á hlýddu.   

Helga Kristjánsdóttir, 15.5.2018 kl. 01:10

3 identicon

Sæll Sigurður.

Það er svo víst í hendi sem kýr á bási
að kýrskýr merkir ekki í nútímamáli að vera heimskur.

"Orðið merkir ýmist ‛heimskur’ (eldri merkingin) eða ‛(afar/mjög) skýr/greinilegur/greinargóður’ (yngri merkingin)."

Margrét Jónsdóttir fjallar um þetta efni í tímaritinu Orð og tunga (2018), 20. hefti.

Tímarit þetta kemur út á prenti en einnig í rafrænni útgáfu
á vefnum Timarit.is.

Húsari. (IP-tala skráð) 15.5.2018 kl. 02:15

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Kýrskýr er úr pistli í Morgunblaðinu. Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist þetta orð frekar vera slangur en eitthvað annað. Hef að  vísu ekki lesið bókina sem þú nefnir. Kýrskýr rímar og líklegast hefur þess vegna náð einhverri fótfesti. 

Nefna má svipað. Þegar menn hittast er oft sagt; ertu hress. Já, sprækur sem lækur. Sumir segja lækjarsprækur.

Þeir sem ekki þekkja til telja kýr ekki greindar skepnur. Þær eru afar skýrar eftir því sem mér er sagt. Hins vegar má vera að ég sé nautheimskur.smile

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.5.2018 kl. 09:59

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir skemmtilega sögu, Helga.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.5.2018 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband