Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Áhrifamikil frásögn af kraftaverki í heilbirgðiskerfinu

170205 MogginFyrsta kransæðahjáveituaðgerðin var framkvæmd í Bandaríkjunum fyrir rúmlega hálfri öld og hafa aðgerðirnar í raun breyst sáralítið síðan; þóttu strax mjög árangursrík meðferð við lífshættulegum sjúkdómi sem alvarlegur kransæðasjúkdómur getur verið. [...]

Fyrsta aðgerðin á Landspítalanum var gerð sumarið 1986 en áður höfðu sjúklingar farið utan í hjáveituaðgerðir, einkum til Bretlands en líka til Bandaríkjanna.[...] 

Síðan hafa hátt í sjö þúsund opnar hjartaaðgerðir verið framkvæmdar á Landspítalanum og eru kransæðahjáveituaðgerðirnar um tveir þriðju aðgerðanna. Rúmlega 98% sjúklinga lifa aðgerðina af, og eru þá taldir með þeir sem koma á spítalann í lífshættulegu hjartaáfalli. [...]

Um 250 opnar hjartaaðgerðir eru framkvæmdar á spítalanum á ári hverju af fjórum hjartaskurðlæknum sem þar starfa. 

Athygli vekur að 25% þeirra sem fara í kransæðahjáveituaðgerð eru eldri en 75 ára. Fyrstu árin sem aðgerðin var gerð hér á landi var sjaldgæft að fólk á þeim aldri væri skorið upp enda þótti það upp til hópa ekki nægilega hraust til að þola aðgerðina.

Einn af bestu blaðamönnum landsins og ritfærustu blaðamönnum landsins er Orri Páll Ormarsson á Morgunblaðinu. Grein hans um kransæðaaðgerðir í helgarblaðinu er afar vel skrifuð og fróðleg, áhrifamikill vitnisburðum um þennan hluta heilbrigðiskerfisins. Fyrir leikmann er það ekkert annað en kraftaverk að hægt sé að lækna ónýtar kransæðar.

Hið merkilegast við greinina er dálítil sagnfræði, lífreynsla sjúklingsins, hæfileg kímni, frásögn Tómasar Guðbjartssonar, læknis, og auðvitað magnaðar myndir Ragnars Axelssonar, ljósmyndara Morgunblaðsins. Úr þessu verður fögur saga sem fyllir lesandann gleði og ánægju enda tekst afar vel til. Ekki búa allir yfir þeim hæfileikum, reynslu og yfirsýn að geta skrifað svona góða grein og haldið sama stílnum frá upphafi til enda.

Eftirfarandi frásögn í greininni er eiginlega kjarni hennar. Hún er svona gleðitragísk miðað allt við það sem sjúklingurinn, Gautur Hansen, hefur gengið í gegnum.

Fljótlega var hann meira að segja orðinn nógu hress til að hringja í spúsu sína.

„Almáttugur,“ segir Anna. „Það var furðulegt símtal.“

Nú?

„Ég þekkti ekki manninn minn.“

Hún hlær.

„Læknirinn hafði látið mig vita strax eftir aðgerðina að hún hefði heppnast vel en ég bjóst ekki við því að heyra í Gauti fyrr en morguninn eftir.“ 

Símtalið var nokkurn veginn svona:

Sæl!

Sæll!

Hvað segir þú?

Hver er þetta?

Þekkirðu mig ekki?

Nei.

Ég er að selja áskrift að Morgunblaðinu!

Þá fyrst hringdu bjöllur í höfðinu á Önnu. Þetta var þá eiginmaður hennar að stimpla sig inn eftir aðgerðina. Augljóslega ekki búinn að glata

„Mér til vorkunnar þá var röddin í honum dálítið breytt enda var hann búinn að vera lengi með barkarennu í kokinu,“ bætir Anna við.

Þau hlæja.

Samantekt blaðamannsins og ljósmyndarans er ekkert venjulegt viðtal, svipað þeim sem finnast í hrúgum í ótal fjölmiðlum. Hér er vandað til verka af þeim sem kunna vinnubrögðin. Þannig er Mogginn yfirleitt og þess vegna er gott að vera áskrifandi að honum. 

Hér í lokin er líklega best að taka það fram að persónulega þekki ég hvorki Orra Pál, blaðamann, né Ragnar Axelsson, ljósmyndara.


Þorvaldur Gylfason ritar níðlausa grein

Þau tíðindi gerðust í dag að Þorvaldur Gylfason, prófessor, ritaði grein í Fréttablaðið sem ekki var níðgrein um Sjálfstæðisflokkinn eða ríkisstjórnina sem flokkurinn á aðild að.

Maður varð næstum því fyrir vonbrigðum.

Þess í stað fjallaði hann um Lyndon B. Johnson, fyrrum Bandaríkjaforseta, dr. Martin Luther King, mannréttindafrömuð í Bandaríkjunum, Barrack Obama, sem nýlega lét af embætti forseta Bandaríkjanna og svo Donald Trump, nýkjörinn forseta. Og án þess að uppnefna þann síðast nefnda. 

Þetta er allt svo fallegt og vel skrifað hjá prófessornum að hrein unun er að lesa. Svei mér þá, ef ég viknaði ekki við lesturinn, sérstaklega þegar höfundurinn gerði að því skóna að Johnson forseti hefði komið því til leiðar að dr. King fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1964.

Ekki gerist það oft að Þorvaldur skrifi svona grein.


Eiður Guðnason, minning

Sviplegt fráfall Eiðs Svanbergs Guðnasonar, fyrrverandi alþingismanns, ráðherra og sendiherra er sorglegt. Ekki aðeins er horfinn á braut ágætur stjórnmálamaður, víðsýnn og fjölfróður, heldur einnig ötull baráttumaður fyrir íslensku máli. Nú er bókstaflega skarð fyrir skildi.

Flestir áhugmenn um stjórnmál og íslenskt mál þekkja bloggið hans, „Skrifað og skrafað, molar um málfar og miðla“ undir linknum eidur.is.

Eiður var hatrammur baráttumaður og oft á köflum grimmur, hugsanlega grimmari en hann ætlaði sér. Hann gaf engan afslátt af réttu máli og hafði ágæta tilfinningu fyrir því.

Við deildum oft um pólitík og hann skammaðist í mér í tölvupóstum og ég tók á móti og reyndi að rökræða við hann á móti. Stundum reyndumst við sammála en oft var talsverður meiningarmunur okkar á milli, sérstaklega í pólitík.

Ég kynntist Eiði um 1991 er hann kom sem umhverfisráðherra til að vera við vígslu Fimmvörðuskála. Ég keyrði með hann frá Skógum og upp á Hálsinn. Löngu síðar skrifaði ég þetta um ferðina:

Á leiðinni upp komum við auga á bíl með útlenskum númerum sem hafði verið ekið út af veginum og smáspöl á gróðurlendi, sem á þessum slóðum er sorglega lítið. Eiður spurði hvort ekki væri nauðsynlegt að benda ökumanninum á yfirsjón sína. Mér þótti það tilvalið.

Við gengum að bílnum og hafði Eiður orð fyrir okkur en varla er hægt að nefna ræðuna tiltal. Miklu frekar má segja að ráðherrann hafi hundskammað aumingja ökumanninn sem nærri því beygði af. Ég vorkenndi manninum mikið og fannst það vart á bætandi að segja honum að sá sem sagt hefði honum til syndanna væri enginn annar en umhverfisráðherrann í ríkisstjórn Íslands og sleppti því þess vegna.

Mér til mikillar ánægju svaraði Eiður í athugasemdum við pistilinn. Hann skrifaði:

Ég man vel eftir ferðinni, Sigurður, en ekki eftir skömmunum. Átti hann það bara ekki skilið????

Það var blíða á Skógum, þegar  við fórum þaðan.  Þetta var stuttur  spölur sem við þurftum að ganga, en   maður varð  gegndrepa næstum samstundis. Hávaðarok og ekta slagveður, - lárétt rigning.  Þetta gleymist ekki !

Þótt sé liðinn næra aldarfjórðungur,  Sigurður, þá held ég að ég hafi ekkert breyst í þessu efni. Mundi gera þetta aftur í dag, ef tilefni væri til. Verður oft hugsað til þessarar ferðar. Úr ráðuneytinu var dr. Jón Gunnar Ottósson með mér.

Já, svona eiga sýslumenn að vera og þarna held ég að Eiði sé rétt lýst. Ekkert hálfkák.

Málfarspistlar Eiðs voru mikið lesnir. Hann sagði mér að hann væri ekki viss hvort að fjölmiðlarnir tækju mark á honum. Í tölvupósti sagði hann:

Annað er, að blaðamenn taka ábendingum og leiðréttingum illa, - telja  engan þess umkominn að segja þeim til. Þetta hef ég fundið og veit að ég er ekki hátt skrifaður hjá  fréttastofu Ríkisútvarpsins til dæmis að taka. 

Sé svo finnst mér þetta afar sorgleg, ekki Eiðs vegna heldur Ríkisútvarpsins. Raunar var ég þeirrar skoðunar að á fyrsta ritstjórnarfundi dagsins hefði átt að byrja á því að fjalla um pistla Eiðs. Þar að auki hefði það átt að vera metnaðarmál hverrar ritstjórnar að Eiður hefði ekki tilefni til að nefna nefna nafn fjölmiðilsins vegna málfarsvillna.

En nú er Eiður farinn og fleiri pistlar verða ekki skrifaðir á þeim vettvangi sem hann markaði sér. Í því er raunar mesta sorgin fólgin, en hver veit nema einhver glöggur og góður íslenskumaður taki upp þráðinn og veiti fjölmiðlum landsins aðhald. Ekki veitir nú af.

 

 

 


mbl.is Andlát: Eiður Guðnason
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband