Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Margt fleira en sala síðustu ríkisstjórnar á eignarhlut í bönkunum

Hingað til hefur ekki vafist fyrir Steingrími J. Sigfússyni og öðrum þingmönnum Vinstri grænna að kalla það spillingu sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur aðhafst. Skiptir engu þó alltaf hafi verið farið eftir bókinni. Breytingar á skattalögum og annað.

Smám saman kemur þó ýmislegt úr kafinu eftir ráðherratíð Steingríms. Svo mikill var asinn á honum að hann seldi eignarhluti ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka án lagaheimildar. Aflaði hennar þó tæpu ári síðar.

Nei, nei, þetta köllum við ekki spillingu enda vann síðasta ríkissstjórn með hag almennings í huga, norræna velferðarstjórnin, kallaði hún sig. 

Í þessu sambandi væri fróðlegt að rifja upp feril síðustu ríkisstjórnar. Allt þetta hefur komið fram áður en fólk er svo fljótt að gleyma.

  1. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra: Hæstiréttur dæmdi 2011 að umhverfisráðherra hafi ekki haft heimild til að hafna tillögu sveitarstjórnar Flóahrepps um aðalskipulag sem gerði ráð fyrir virkjun við Urriðafoss.
  2. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í ágúst 2012 að innanríkisráðherra hefði brotið lög er hann skipaði karl en ekki konu í embætti sýslumanns á Húsavík.
  3. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði 2012 að forsætisráðherra hefði brotið lög er hún skipaði karl en ekki konu í sem skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Ráðherra var dæmd í fjársekt.
  4. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í þætti á mbl.is fyrir kosningar 2009: „Við höfum hérna nýja skýrslu, Evrópuskýrsluna, og það hafa verið samtöl við forsvarsmenn Evrópusambandsins og þeir segja að innan árs, kannski 18 mánaða, mundum við geta orðið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu …“.
  5. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra: Veitti forstjóra Landspítalans launahækkun upp á 450.000 krónur á mánuði sem er meira en flestir starfsmanna spítalans hafa í mánaðarlaun.
  6. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra: Sagðist á blaðamannafundi í Stokkhólmi 27. júní 2009 vonast til að Ísland yrði formlega gegnið í ESB innan þriggja ára.
  7. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG: Fullyrti sem stjórnarandstöðuþingmaður að ekki kæmi til mála að semja um Icesave. Sveik það. - Var harður andstæðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem stjórnarandstæðingur en dyggasti stuðningsmaður hann sem fjármálaráðherra.
  8. Vinstri hreyfingin grænt framboð: Forysta flokksins sveik stefnu hans um ESB
  9. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði árið 2010 Icesave samningi þeim er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 63% og 98% kjósenda hafnaði samningnum.
  10. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði 2011 Icesave samningi er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 75% og 60% kjósenda hafnaði samningnum.
  11. Ríkisstjórnin: Kosningar um stjórnlagaþing vakti litla athygli, kjörsókn var aðeins 36%. Þann 25. janúar 2011 dæmdi Hæstiréttur kosningarnar ógildar.
  12. Ríkisstjórnin: Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra kostaði ríkissjóð 187 milljónir króna.
  13. Ríkisstjórnin: Sótti um aðild að ESB án þess að gefa kjósendum kost á að segja hug sinn áður.
  14. Ríkisstjórnin: Kostnaður vegna ESB umsóknarinnar hefur verið tæplega tveir milljarðar króna á kjörtímabilinu.
  15. Ríkisstjórnin: Loforð um orkuskatt svikin, átti að vera tímabundinn skattur
  16. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna skuldastöðu heimilanna
  17. Ríkisstjórnin: Setti ÁrnaPáls-lögin til höfuðs skuldurum en til hagsbóta fyrir skuldareigendur.
  18. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna verðtryggingarinnar sem var að drepa stóra hluta skuldara í kjölfar hrunsins, annað en að ráða einhverja af færustu lögmönnum landsins og senda þá út til Luxembourg að verja verðtrygginguna fyrir EFTA-dómstólnum.
  19. Ríkisstjórnin: Hækkaði skatta á almenning sem átti um sárt að binda vegna hrunsins.
  20. Ríkisstjórnin: Réðst gegn sjávarútveginum með offorsi og ofurskattheimtu.
  21. Ríkisstjórnin: Breytti lögum, reglum og stjórnsýslunni í landinu til að þóknast ESB í aðlögunarviðræðunum.

Fleira má eflaust til taka en ég bara man ekki meira í augnablikinu. Eflaust verða einhverjir skynugir lesendur og minnisbetri til að bæta hér í.


mbl.is Seldir án lagaheimildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingflokkurinn setur Sjálfstæðisfólk í vonda stöðu

Í þau fimmtíu ár sem þessar stórstígu framfarir hafa átt sér stað hefur baráttan verið stöðug. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystuhlutverki í innleiðingu framfara í íslenskum atvinnuháttum. Í dag stendur yfir enn ein orrustan um nýtingu orkuauðlinda til eflingar íslensku samfélagi, aukna verðmætasköpun, aukin tækifæri og fjölbreyttari störf fyrir ungt fólk. Það má segja að sömu öfl takist á nú og hafa tekist á um þessi mál síðustu áratugi. Það er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir þeim mikilvægu ákvörðunum sem við stöndum frammi fyrir.

Við erum víst í sama Sjálfstæðisflokknum, ég og Jón Gunnarsson, þingmaður suðvesturkjördæmis. Hann skrifar grein í Morgunblað dagsins, langa grein, og nefnir marga til sögunnar eflaust til þeirrar réttlætingar virkjana sem hann stendur fyrir. Hér fyrir ofan er klausa úr greininni.

Fimmtíu ár er langur tími og margt hefur breyst til hins betra á þeim árum. Eðlilega breytast viðhorf og nýjar kynslóðir koma til sögunnar sem hafa alist upp við önnur gildi en forfeðranna. Þó svo að flestir átti sig á gildi raforkunnar fyrir þjóðina og að brýnt sé að virkja eru skoðanir fólks nú orðið skiptar hvað varðar umhverfismál. 

Vænt er það sem vel er grænt“, var almennt viðhorf hér áður fyrr. Landið var fyrst og fremst metið til ræktunar. Þessi skoðun hefur látið undan síga vegna þess að aðrar atvinnugreinar hafa komið til auk þess sem sívaxandi hluti þjóðarinnar stundar útiveru, ferðalög og náttúruskoðun sér til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar. Þetta fólk er án nokkurs efa hlutfalslega jafn fjölmennt í Sjálfstæðisflokknum sem í öðrum flokkum. Við erum Sjálfstæðifólkið sem vill fara varlega í orkunýtingu vegna þess að við viljum ekki spilla landinu.

Jóni Gunnarssyni, þingmanni, kann að koma það á óvart að við erum fjölmargir sjálfstæðismennirnir sem munum standa upp og verja ýmsa staði sem ætlunin er að virkja. Okkur skiptir það litlu þó hann reyni að gera málin flokkspólitísk. Ég lít ekki á þá sem vilja verja einstaka staði á landinu með þeim augum. Þeir eru fjölmargir sem vilja verja Langasjó, Hólmsárlón og Hagavatn, svo dæmi sé tekið. Og gleymum ekki víðernum landsins sem óðum minnka.

Vel má vera að síðasta ríkisstjórn hafi verið með allt niðrum sig vegna rammaáætlunar, breytt henni án nokkurs samráðs og síðan lagst gegn breytingum núverandi ríkisstjórnar. Um það snýst ekki málið. Aðalatriðið er landið okkar. Enginn stjórnmálamaður, þingflokkur eða ríkisstjórn getur krafist þess að við fylgjum honum í blindni. 

Krafa dagsins er hins vegar sú að rétt sé staðið að málum. Sýn Einars Benediktssonar á fallvötnin er ekki sú sem við höfum í dag, tímarnir hafa breyst og viðhorfin líka.

Jón Gunnarsson vitar til Jónasar Hallgrímssonar sem sagði einhvern tímann:

Óskandi væri að Íslendingar færu að sjá, að það er aumt líf og vesælt, að sitja sinn í hverju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig, slíta í sundur samfélag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta, sem orðið getur, í stað þess að halda saman og draga allir einn taum. Hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.

Þessum orðum má allt eins snúa að Jóni sjálfum og spyrja hvers vegna hann hafi forystu um þá vegferð að slíta sundur friðinn í stað þess að velja farsælli leið að samstarfsmönnum sínum á þingi og þjóð sinni og hugsa um heiður og velgegni landsins.

Hins vegar er Jón Gunnarsson ekki einn því að baki hans stendur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og það er hann sem hefur sett okkur marga flokksmenn í slæma stöðu, svo slæma að varla er hægt að verja stefnu hans hvað varðar virkjanir. Aungvar þakkir kann ég honum fyrir það.


Leikmenn eru ekki lærisveinar þjálfarans

Hver skyldi hafa fundið upp á þeirri vitleysu að kalla leikmenn í boltaliði „lærisveina“ þjálfarans?

Sumir fjölmiðlamenn halda þessu statt og stöðugt fram sem ber ekki vitni um annað en þekkingarleysi og skort á málskilningi.

Lærisveinn er annað orð yfir þann sem er nemandi eða lærlingur, sá sem er í námi. Þjálfari meistaraflokksliðs í fótbolta eða öðrum boltaíþróttum er síst af öllu kennari, miklu frekar verkstjóri, hann er hluti af liðinu.

Með réttu er hægt að segja að nemendur í einhverri grein í til dæmis háskólanámi séu lærisveinar þess sem kennir. Nemandi sem fer úr Háskólanum og yfir á KR-völlinn til að æfa með meistaraflokki er ekki lærisveinn. Hins vegar má hugsanlega með ítrustu velvild kalla þá sem eru í yngri flokkum KR lærisveina þjálfara sinna vegna þess að þeir eru varla fullnuma í íþrótt sinni.

Engin ástæða er þó fyrir fjölmiðlamenn að kalla þjálfara annað en það sem þeir eru og leikmenn eru og verða alltaf leikmenn.

 


mbl.is Langþráður sigur hjá lærisveinum Ólafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elta mann, elta draum, elta ís eða elta skinn ...

elti draum

Hversdagurinn í lífi mínu byrjar yfirleitt á því að lesa Morgunblaðið og fréttavefi. Æ oftar gerist það að ég rekst á villur bæði í málfari og stafsetningu. Þá er skammt í ólundina, því ef ég sé villur, hljóta aðrir að sjá miklu fleiri og alvarlegri. Eða þegir fólk bara og lætur sem það sjái þær ekki?

Í blaði dagsins rak ég mig á nokkurs konar eltivillur, slæma notkun blaðamanna á sögninni „að elta“.

Á forsíðu helgarblaðsins segir „Elti drauminn til Cannes“. Ég held að maðurinn á myndinni hafi ekki elt eitt eða neitt. Hann hafi einfaldlega látið eftir löngun sinni og haldið til borgarinnar Cannes í Suður-Frakklandi enda ku það hafa verið draumur hans að gera þar eitthvað sem nánar er sagt frá í viðtalinu.

Elta ísinnEnskir segja jafnan: „He followed his dream“. Í hvorugu tilvikinu því íslenska og enska voru einhvurjir „að elta“ draum sinn. Draumur er ekki eins og rolla eða galinn hundur sem erfitt er að handsama. Ófáir hafa elt innbrotsþjóf, ástina sína, fararstjórann, forystumann eða bara næsta mann og jafnvel haft eitthvað upp úr því. Útilokað er að elta draum því hann er ekki áþreifanlegur.

Blaðamaðurinn sem skrifaði viðtalið og þar með fyrirsögnina hefur ábyggilega verið með enska frasann í huga en ekki áttað sig á því að ekki má þýða hann beint yfir á íslensku. Enska sögnin „to follow“ hefur nefnilega fjölbreyttar merkingar og aðall góðs þýðanda er að skilja þær. Sama er með blaðamanninn, hann verður að hafa tilfinningu fyrir íslensku máli og það sem skiptir meira máli er að ritstjórinn eða fréttastjórinn lesi yfir það sem frá blaðamönnum kemur, gagnrýni og leiðrétti. Að öðrum kosti lærir enginn neitt. Og nú geng ég út frá því sem vísu að ritstjórinn eða fréttastjórinn hafi einhverja þekkingu umfram blaðamanninn sem kann að vera rangt eða hitt sé líklegra.

Og svo var það hinn blaðamaðurinn á Mogganum sem klikkaði á sama grundvallaratriðinu í fyrirsögn sinni. Hún er þessi: „Eltu ísinn um alla Evrópu“. Þetta hlýtur að hafa verið fótfrár og útsjónarsamur ís en ég get ímyndað mér að það hafi verið frekar ógeðfellt að leggja hann sér til munns eftir allan eltingarleikinn um heimsálfuna.

Nei, að öllum líkindum segir í greininni frá fólki sem bragðar ís víðs vegar um Evrópu. 

Hvorki er hægt að elta ís né draum. Það er einföld staðreynd. Önnur staðreynd er sú að fjöldi fólks skrifar og talar í fjölmiðla og lætur málfarið sér í léttu rúmi liggja eða er bara illa að sér. Fyrir vikið er gríðarleg hætta á því að tungumálið breytist, verði órökrétt og glati um leið fjölbreytni sinni og gæðum.

Mér dettur í hug í þessu sambandi hvort fólk viti hvað sé að elta skinn. Það var að minnsta kosti gert út alla Evrópu og raunar víðar. „Elti skinn út um alla Evrópu“ væri ágætis fyrirsögn en sá sem hún segir frá elti þó engan mann.

Að þessum orðum slepptum er tímabært að kveðja, þó á sama hátt og galið og hugsunarlaust fólk segir: „Hafðu góða helgi“ ...

Hvers konar kveðja er þetta ef ekki sú hin sama öfugsnúin af ensku: „Have a nice weekend“? Fyrrnefnda skipunin glymur í eyrum manns í verslunum, útvarpi, sjónvarpi, í laugunum, á fótboltavellinum og annars staðar hugsandi fólki til mikillar gremju en hinir eru stóreygir og ekki laust við að tár renni.

Sleppum bara að nafna helgina eða daginn, segjum einfaldlega „Hafðu það gott“ eða „Vertu bless/blessaður“, „Vertu sæll“ (skiptir engu máli hvort fólk viti hvaða þessi blessunarorð eru komin).

Hvers vegna að breyta gamalli og góðri kveðju? Hverju erum við bættari með skrípinu „Hafðu góðan dag“?

Norðmenn segja: „Ha det“ og eiga við „Ha det bra“, hafðu það gott. Værum við Íslendingar ekki önnum kafnir við að apa upp úr enskri tungu mætti ugglaust búast við því að hugsunarlausir landar mínir hreyti í mann: „Hafðu það“.

Já, hafðu þetta, helvískur, sagði karlinn og gaf öðrum á kjaftinn (gaf honum gu'moren, var oft sagt (en er löngu aflagt (það er að segja danskan en ekki kjaftshögg)))(hér eru nú svigar ofan í svigum en þó ekki svigurmæli).


Hvar var maðurinn þegar refurinn nam land á Íslandi?

RefurBóndinn á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp er einn helsti andstæðingur refsins á Íslandi og hefur skrifað ótal greinar í Morgunblaðið honum til höfuðs og hvetur stjórnvöld af öllu tagi til að láta drepa dýrið, skaðvaldinn sem getur átt það til að drepa mófugla, sjófugla, þar með talinn æðarfuglinn, og ekki síst sauðfé.

Mér finnst alltaf jafngaman að lesa greinar eftir Indriða Aðalsteinsson, á Skjaldfönn. Hann er merkilega kjaftfor og tekst oft að tvinna saman í einni grein margvíslegar ádeilur, til dæmis þessa í lok greinar sinnar í Morgunblaði dagsins sem hann kallar „Tíu þúsund ríkisrefir“:

En þetta er bara í takt við aðrar yfirtroðslur og lítilsvirðingu að sunnan í garð okkar Vestfirðinga. Fiskauðlindinni að mestu rænt, jarðgöng til að losna við manndrápshlíðar fá og seint, nokkrar birkikræklur í Teigsskógi látnar standa í vegi fyrir að Barðstrendingar komist í viðunandi vegasamband og nú vofir þjóðlenduskrímslið yfir okkur, til a ná vatnsréttindum undir sig.

Semji nú aðrir álíka ádeilu í einfaldri grein sem fjallar þó eingöngu um refi.

Jú rebbi lifir á Hornströndum sem er friðland. Þar segir Indriði að refakynið blómgist og ekkert sé um mófugla og jafnvel sjófuglar séu í útrýmingarhættu. Ég held að þetta sé tóm vitleysa í bóndanum.

Rebbi kom til Íslands þúsundum ára áður en fyrstu landnámsmenn komu hingað til lands með sauðfé. Fram að landnámi hafði rebba ekki tekist að útrýma mófugli eða öðrum fyglum og var þó landið allt undir, friðað. Enginn sinnti grenjavinnslu og rebbi fékk án nokkurra vandræða að valsa um landið og éta það sem hann vildi, þó ekki lambakjöt. Eða voru vandræðin næg í lífi rebba, rétt eins og í dag. Líklegast er það svo að náttúran stemmi stigu við offjölgun dýra og fugla.

Greinar Indriða á Skjaldfönn eru hins vegar alltaf skemmtilegar og fáir sem komast með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað varðar þekkingu, rökvísi og vandað íslenskt mál.

 

 


Kjaradeilurnar eru leikrit og ekki sæmandi í nútíma þjóðfélagi

Upplýsingar um kröfugerð launþegafélaga er farin að vera ansi knýjandi. Í stað þess að þau segi hreinlega frá hvers er krafist er rætt um það í einhverjum orðavaðli. Þar ber hæst talið um laun fyrir þá sem lægst hafa launin.

Ég get svosem samþykkt að við sem höfum lægstu launin fáum einhverja hækkun. Málið snýst hins vegar ekki um það, eftir því sem ég fæ best séð, miklu heldur almennar launahækkanir fyrir alla, ekki síður hina launahærri.

Upplýsingin er til dæmis fólgin í eftirfarandi og þá er ekki aðeins verið að tala um VR heldur öll launþegafélög. Almenningur þarf að vita meira en það sem fjölmiðar bera á borð, til dæmis þetta:

  1. Hversu margir eru með laun undir 250.000 krónur og hverjar eru launakröfurnar fyrir þá?
  2. Hversu margir eru til dæmis með 250 til 300.000 króna laun á mánuði og hverjar eru launakröfurnar fyrir þá.
  3. Hversu margir eru með laun frá 300 til 600.000 krónur, sundurliðað miðað til dæmis við hverjar 50.000 krónur og hverjar eru launakröfur fyrir þessa hópa, sundurliðað.
  4. Hversu margir eru með hærri laun er 600.000 krónur og hverjar eru launakröfurnar fyrir þá, sundurliðað á sama hátt.

Vitræn umræða um kjarasamninga og verkföll er útilokuð nema svör fáist við þessum eða álíka spurningum.

Fjölmiðlar hafa gjörsamlega brugðist almenningi, standa alls ekki undir kröfum sem til þeirra eru gerðar. Þess í stað leika þeir sér með fréttir frá Alþingi, af því að þeirra er auðveldara að afla. Um leið taka þeir flestir afstöðu í kjaradeilunni þannig að útilokað er að átta sig á staðreyndum mála. Þeir hafa verið einstaklega duglegir að rugla almenning í stað þess að upplýsa.

Launþegafélög og Samtök atvinnulífsins þegja um kröfugerðirnar og svo virðist að samantekin ráð séu um að segja sem minnst um þær, tilboð og gagntilboð. Ekkert lekur út nema orðavaðallinn, gjörnýttir frasar frá fyrri árum sem snyrtir eru af fjölmiðlafulltrúum.

Þess í stað fáum við fréttir af því liði sem stendur . Myndir af köllum og kellingum með þykjustusvip og þykjustuþykkju um gang viðræðnanna. Takið samt eftir að enginn veitir neinar upplýsingar nema innantómt tal og gamaldags frasa um stéttabaráttu, verkalýð (sem raunar fæstir teljast til nú til dags) og álíka „kjaftæði“. Frá Samtökum atvinnulífsins er sömu sögu að segja. Þar fárast menn yfir kröfugerðinni og líkum á að allt fari í kaldakol, verðbólgudraugurinn vakni og álíka hræðsluáróður. Fjölmiðar gera ekki neitt og þess vegna fær þetta lélega leikrit að halda áfram dag eftir dag.

Ég samþykki ekki svona málflutning og síst af öllu þessa hegðun sem er ekkert annað en lélegt leikrit sem mestan part er flutt af fólki sem framar öllu virðist hvorki hafa vit eða skynsemi til að láta hlutina ganga upp, semja. Þetta allt er leikrit sem samið var í árdaga og er nú endurflutt með sáralitlum breytingum. Jafnvel hurðaskellirnir og þykjustusvipirnir eru eins og hjá Guðmundi Jaka í gamla daga, með fullri virðingu fyrir minningu hans.

Staðreyndin er einfaldlega sú að án skynsamlegs launakerfis sem almenn sátt er um er ekki hægt að reka hér þjóðfélag. Grunnurinn gengur út á peningaflæði á milli manna, fyrirtækja og stofnana þjóðfélagsins. Sé hluti fólks svo launalágur að hann geti varla veitt sér annað en nauðþurftir bitnar það á skatttekjum ríkisins, öllum tegundum verslunar og viðskipta, samgöngum, menningu og svo framvegis.

Þetta er ekki lengur deila um ljótu, ríki kapítalistana sem ekkert vilja annað en halda okkur almenningnum á sem lægstu launum. Slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp í þjóðfélagi nútímans.

Verkföll eru hins vegar ekkert annað en ofbeldi og skemmdarstarfsemi sem ekki á að líðast í númtímaþjóðfélagi. Stærsti gallinn er sú staðreynd að þau beinast að þeim sem brúka þau.

Um tíma hélt maður að nýjar kynslóð, vel menntað og upplýst fólk, hefði tekið við í launþegafélögunum og hjá atvinnurekendum. Því miður virðist að nýja fólk sé jafn þröngsýnt, óskynsamt og illa gefið eins og forverar þess á þeim síðustu áratugum sem maður man eftir í kjaradeilum með þeirri undantekningu sem þjóðarsáttarsamningarnir voru.

Nú er eiginlega nóg komið af þessu framhaldsleikriti.

 


mbl.is Viðræðuslit og allt í hnút
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lýðræðið bara gólftuska?

Verkalýðsfélagið Eining skilur ekki lýðræðishugtakið, heldur að það sé einhver gólftuska sem megi brúka á þann hátt sem það vill, vinda og teygja eftir því sem ímyndaðar þarfir þess eru hverju sinni.

Þetta má ráða af grein formannsins, Sigurðar Bessasonar, í Morgunblaði dagsins. Í henni reynir hann að svara ágætri grein sem Kristinn Karl Brynjarsson ritaði í blaðið síðasta föstudag. viðhorfum Kristins var gerð skil hér samdægurs.

Vegna allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboð sendi Eining atkvæðaseðil til félagsmanna sinna. Með seðlinum fylgdi áróðursbæklingur í hverjum félagsmenn voru hvattir til að greiða atkvæði með verkfalli.

Hér er enginn ágreiningur um atkvæðagreiðslu né heldur hvort boðað sé til verkfalls eða ekki. Aðalatriðið er framkvæmdin. 

Allir vilja forðast áróður á kjörstað og raunar er hann bannaður í opinberum atkvæðagreiðslum hér á landi.

Sá sem sendir út atkvæðaseðil og einhliða áróður með honum skilur ekki eðli lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu. 

Í grein sinni í Morgunblaði dagsins segir Sigurður Bessason, formaður Einingar:

Í þessu felst ekkert annað en hvatning til félagsmanna. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ýmsir félagsmenn munu eins og þú, vera mér ósammála. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þegar samningur liggur fyrir beri okkur sem höfum gert hann að leggja hann fyrir félagsmenn og hafa skoðun á samningnum.

Í þessum orðum felst ótrúleg vanvirðing og skilningsleysi á lýðræðinu. Formaðurinn teljur tilganginn réttlæta meðalið. Í þessum dúr er öll greinin, réttlæting á verkfallsboðuninni þannig að lýðræðisleg atkvæðagreiðsla á ekki að vera annað en framlenging á vilja stjórnar félagsins.

Enn er nauðsynlegt að taka fram að hér er ekki verið að gera upp á milli þeirra kosta sem félagsmenn standa frammi fyrir, samþykkja eða hafna verkfallsboðun.

Lýðræðið er ekki eins og gólftuska. Fara ber með það af varúð og nákvæmni, skiptir engu umhvað verið er að kjósa eða hvert umræðuefnið er. Engan afslátt er hægt að veita af lýðræðinu þá snarbreytist það í eitthvað allt annað.


Vitsmunaflótti Grikkja

150518 MBL Vitsmunaflótti

Gat ekki still mig um að birta þessa úrklippu.

Ég hef ferðast dálítið um Grikkland og kynntist þar góðu fólki. Hef auðvitað áhyggjur af því að vitsmunum þeirra fari hrakandi, jafnvel að þeir séu að verða vitlausir. Voru þeir þó flestir sem ég kynntist með góðar gáfur og skynsamt fólk.

Við nánari umhugsun held ég að fyrirsögnin gæti verið brengluð í þessari frétt hjá Mogganum. Er þó ekki viss. Svo margir Íslendingar hafa frá hruni flutt úr landi frá að vitsmunir okkar sem eftir sitjum er ábyggilega orðið talsvert áfátt.


Verkalýðsfélagið Eining klikkar á lýðræðislegri atkvæðagreiðslu

Það er engan veginn hlutverk Sigurðar Bessasonar eða annarra í forystu Eflingar að segja öðrum félagsmönnum sínum með hvaða hætti þeir skuli greiða sitt atkvæði. Enda má auðveldlega líkja slíku við áróður á kjörstað. En alla jafna er afar hart tekið á slíku í almennum kosningum.

Svona skrifar Kristinn Karl Brynjarsson, sem er félagi í Verkalýðsfélaginu Eflingu í grein í Morgunblaði dagsins. Honum mislíkar greinilega áróður forystu félagsins vegna atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls. Kristinn fékk atkvæðaseðil frá félaginu í pósti og með honum pési sem af lýsingu hans er beinn áróður fyrir verkfalli.

„Ég er lýðræðissinni“, segir margur maðurinn. Og svo er einatt bætt við að virða skuli sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, efna til þjóðaratkvæðagreiðslna, leita eftir áliti íbúa í kosningum í sveitarfélögum og svo framvegis, allir eiga að segja álit sitt með því að kjósa.  

Þegar kemur svo að framkvæmd lýðræðisins þá klikka margir þessara hjartanlegu lýðræðissinna. Nei, nei, það skiptir engu máli þó pappír í lögbundinni atkvæðagreiðslu sé nær gegnsær. Ekki heldur þótt spurningar séu leiðandi ... eða hvað?

Svokallaðir lýðræðissinnar halda margir að málefnið réttlæti málsmeðferð. Þess vegna megi til dæmis senda áróður með atkvæðaseðli um verkfallsboðun.

Áróður á kjörstað ekki leyfilegur í opinberum kosningum, kjósandi þarf að framvísa persónuskilríki, engum er leyfilegt að kjósa í annars stað. Áróður við kosningar er einfaldlega ekki lýðræðislegur. Svo má bæti við að skynsamlega þarf að standa að atkvæðatalningu, hún af mikilli samviskusemi og að sjálfsögðu undir votta viðurvist. Svo má endalaust upp telja atriði sem sannir lýðræðissinnar ættu að skilja. Hinir svindla ...

Kristinn Karl Brynjarsson hefur rétt fyrir sér í grein sinni í Mogganum í morgun. Forysta Eflingar klikkar á grundvallaratriðum. Hún hefði átt að láta nægja að senda út atkvæðaseðil en ekki senda um leið pésa sem er nærri því fyrirskipun um hvernig skuli greiða. Í mínum huga er atkvæðagreiðslan ólögleg. Lýðræðið er hér fótum troðið, skiptir engu hvort menn séu sammála eða ósammála verkfallsboðuninni.

Sannir lýðræðissinnar eru ekki endilega þeir sem vaða fram og gapa um þau mál. Þeir láta verki tala. 


Helmingur kjósenda í Skotlandi fær aðeins þrjá þingmenn ...

Úrslit bresku kosninganna þykja merkilegar fyrir margra hluta sakir. Upp úr stendur þó að Íhaldsflokkurinn náði meirihluta „þrátt fyrir“ að hafa verið í ríkisstjórn frá því 2010. Hitt er einnig afar athyglisvert hversu skoðanakannanir fyrir kosningarnar voru fjarri úrslitunum. 

Rætt er um kosningakerfið í Bretlandi og finnst sumum það ólýðræðislegt jafnvel þó Bretar séu nú frekar sáttir við það. Að sjálfsögðu hefur kerfi sem byggist á einmenningskjördæmum stóran galla í för með sér. Aðeins einn nær kjöri, hinir ekki og atkvæði þeirra nýtast engum.

Kosningakerfi eins og við erum með er ólíkt skárra. Atkvæðin nýtast að minnsta kosti miklu betur.

Hins vegar má spyrja hinnar „ólýðræðislegu“ spurningar hvort það sé yfirleitt tilgangurinn að atkvæðin nýtist.

Í breska kerfinu er markmiðið að kjósa þingmann í hverju kjördæmi. Það byggist ekki ástjórnmálaflokkum, heldur einstaklingum í frambði. Svo einfalt er það. Hér á landi eru stór kjördæmi, stjórnmálaflokkar eru í kjöri og atkvæðin nýtast þar af leiðandi mun betur, það er að segja nái flokkur kjöri, að öðrum kosti gera þau það ekki.

Svo má endalaust ræða um það hvort kerfið er betra eða hvort sé hægt að gera betri útgáfur af þeim. Ég gef lítið fyrir breska kerfið, vil alls ekki að það verði tekið upp hér á landi.

TaflaÍ kosningunum hlaut Íhaldsflokkurinn meirihluta þingmanna. Skiptingin í öllu Bretlandi er eins og sést á töflunni hægra megin. Kosningaþátttakan var 66,1%. Ég hirði ekki um að þýða nöfn flokka, þau hljóta að vera flestum ljós sem á annað borð fylgjast með stjórnmálum í Bretlandi.

Sjá má að lítið samræmi er milli fjölda þingsæta og hlutfallslegs fjölda atkvæða sem einfaldlega bendir til að fjöldi atkvæða að baki þingmanna er misjafn.

Ætlum við að taka þann pólinn í hæðina að þetta sé óréttlátt kosningafyrirkomulag hljótum við að álykta sem svo að það „bitni“ jafnt á öllum. Eflaust er hægt að fullyrða að gömlu flokkarnir hagnist umfram aðra á svona kerfi. 

Í því sambandi er þá gott að líta á niðurstöðurnar í Skotlandi. Þar sigraði Skoski þjóðarflokkurinn með yfirburðum ... Eða hvað? 

Í Skotlandi eru einmenningskjördæmi, rétt eins og annars staðar á Bretlandi, og því fer fjarri að úrslitin þar sé eins afgerandi og við fyrstu sýn mætti halda.

Svona eru úrslitin í Skotalandi en kosningaþátttakan var 71,1%:

  • SNP 56 þingmenn, 50,0% atkvæða
  • Lab 1 þingmann, 24,3% atkvæða
  • Con 1 þingmann, 14,9% atkvæða
  • LD 1 þingmann, 7,5% atkvæða

Helmingur Skota kaus annað en Skoska þjóðarflokkinn sem bendir til að þarlendir skiptist í flokka eins og annars staðar. Engu að síður er helmingur atkvæða stórmerkilegur árangur fyrir alla stjórnmálaflokka sem slíkan stuðning fá.

Ef við lítum nánar á úrslitin í Skotlandi og þá með gagnrýnum augum hefðu þau hugsanlega getað orðið á þann veg að Skoski þjóðarflokkurinn hefði ekki náð neinum þingmanni inn.Að minsta kosti dugði helmingur atkvæða ekki til annars en að þrír flokkar fengu aðeins þrjá þingmenn.

Í þessu endurspeglast vandinn með einmenningskjördæmi. Þau eru alls ekki góð. Íslenska kjördæmaskipanin er að þessu leiti miklu betri en sú breska ... að mínu mati. Ég er þó þess fullviss að almenn sátt er um fyrirkomulagið í Bretlandi. 

Óréttlæti einmenningskjördæma endurspeglast meðal annars í eftirfarandi:

  • Skoski þjóðarflokkurinn, sem fékk 56 þingmenn, fékk samtals 1,5 milljón atkvæða.
  • UKIP fékk einn þingmann en engu að síður kusu 3,9 milljónir manna flokkinn.
  • Liberal Democrats fékk átta þingmenn, þá kusu 2,4 milljónir manna kusu flokkinn.

Eflaust má endalaust velta vöngum yfir úrslitunum í bresku þingkosningunum og sitt sýnist ábygglega hverjum. Mér finnst það hins ástæða til að varast að taka aftur upp einmenningskjördæmi hér á landi. Slíkt kerfi var ekki vinsælt á sínum tíma. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband