Færsluflokkur: Dægurmál
Helmingur kjósenda í Skotlandi fær aðeins þrjá þingmenn ...
10.5.2015 | 14:13
Úrslit bresku kosninganna þykja merkilegar fyrir margra hluta sakir. Upp úr stendur þó að Íhaldsflokkurinn náði meirihluta þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn frá því 2010. Hitt er einnig afar athyglisvert hversu skoðanakannanir fyrir kosningarnar voru fjarri úrslitunum.
Rætt er um kosningakerfið í Bretlandi og finnst sumum það ólýðræðislegt jafnvel þó Bretar séu nú frekar sáttir við það. Að sjálfsögðu hefur kerfi sem byggist á einmenningskjördæmum stóran galla í för með sér. Aðeins einn nær kjöri, hinir ekki og atkvæði þeirra nýtast engum.
Kosningakerfi eins og við erum með er ólíkt skárra. Atkvæðin nýtast að minnsta kosti miklu betur.
Hins vegar má spyrja hinnar ólýðræðislegu spurningar hvort það sé yfirleitt tilgangurinn að atkvæðin nýtist.
Í breska kerfinu er markmiðið að kjósa þingmann í hverju kjördæmi. Það byggist ekki ástjórnmálaflokkum, heldur einstaklingum í frambði. Svo einfalt er það. Hér á landi eru stór kjördæmi, stjórnmálaflokkar eru í kjöri og atkvæðin nýtast þar af leiðandi mun betur, það er að segja nái flokkur kjöri, að öðrum kosti gera þau það ekki.
Svo má endalaust ræða um það hvort kerfið er betra eða hvort sé hægt að gera betri útgáfur af þeim. Ég gef lítið fyrir breska kerfið, vil alls ekki að það verði tekið upp hér á landi.
Í kosningunum hlaut Íhaldsflokkurinn meirihluta þingmanna. Skiptingin í öllu Bretlandi er eins og sést á töflunni hægra megin. Kosningaþátttakan var 66,1%. Ég hirði ekki um að þýða nöfn flokka, þau hljóta að vera flestum ljós sem á annað borð fylgjast með stjórnmálum í Bretlandi.
Sjá má að lítið samræmi er milli fjölda þingsæta og hlutfallslegs fjölda atkvæða sem einfaldlega bendir til að fjöldi atkvæða að baki þingmanna er misjafn.
Ætlum við að taka þann pólinn í hæðina að þetta sé óréttlátt kosningafyrirkomulag hljótum við að álykta sem svo að það bitni jafnt á öllum. Eflaust er hægt að fullyrða að gömlu flokkarnir hagnist umfram aðra á svona kerfi.
Í því sambandi er þá gott að líta á niðurstöðurnar í Skotlandi. Þar sigraði Skoski þjóðarflokkurinn með yfirburðum ... Eða hvað?
Í Skotlandi eru einmenningskjördæmi, rétt eins og annars staðar á Bretlandi, og því fer fjarri að úrslitin þar sé eins afgerandi og við fyrstu sýn mætti halda.
Svona eru úrslitin í Skotalandi en kosningaþátttakan var 71,1%:
- SNP 56 þingmenn, 50,0% atkvæða
- Lab 1 þingmann, 24,3% atkvæða
- Con 1 þingmann, 14,9% atkvæða
- LD 1 þingmann, 7,5% atkvæða
Helmingur Skota kaus annað en Skoska þjóðarflokkinn sem bendir til að þarlendir skiptist í flokka eins og annars staðar. Engu að síður er helmingur atkvæða stórmerkilegur árangur fyrir alla stjórnmálaflokka sem slíkan stuðning fá.
Ef við lítum nánar á úrslitin í Skotlandi og þá með gagnrýnum augum hefðu þau hugsanlega getað orðið á þann veg að Skoski þjóðarflokkurinn hefði ekki náð neinum þingmanni inn.Að minsta kosti dugði helmingur atkvæða ekki til annars en að þrír flokkar fengu aðeins þrjá þingmenn.
Í þessu endurspeglast vandinn með einmenningskjördæmi. Þau eru alls ekki góð. Íslenska kjördæmaskipanin er að þessu leiti miklu betri en sú breska ... að mínu mati. Ég er þó þess fullviss að almenn sátt er um fyrirkomulagið í Bretlandi.
Óréttlæti einmenningskjördæma endurspeglast meðal annars í eftirfarandi:
- Skoski þjóðarflokkurinn, sem fékk 56 þingmenn, fékk samtals 1,5 milljón atkvæða.
- UKIP fékk einn þingmann en engu að síður kusu 3,9 milljónir manna flokkinn.
- Liberal Democrats fékk átta þingmenn, þá kusu 2,4 milljónir manna kusu flokkinn.
Eflaust má endalaust velta vöngum yfir úrslitunum í bresku þingkosningunum og sitt sýnist ábygglega hverjum. Mér finnst það hins ástæða til að varast að taka aftur upp einmenningskjördæmi hér á landi. Slíkt kerfi var ekki vinsælt á sínum tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Landskemmdir vegna umferðar
16.2.2007 | 10:14
Það eyðist sem af er tekið, um það verður varla deilt. Vegir á hálendi landsins munu halda áfram að slitna og til að koma í veg fyrir að þeir verði óökufærir verður að gera við þá. Hver er þá munurinn á því að halda úti umsvifamiklum viðgerðum á t.d. Kjalvegi og Sprengisandi eða að gera slitlagið varanlegt?
Í sannleika sagt veit ég það ekki. Hitt veit ég að malbikaðir vegir á hálendi landisins munu draga verulega úr upplifum þeirra sem þangað leggja leið sína. Á móti ber þess að geta að það er ekki merkilegur ferðamáti að aka í striklotu yfir Kjöl eða Sprengisand, innilokaður í járnbúri og ætlast til þess að fá yfir sig anda frelsis og óbyggða. Þannig gerast ævintýrin ekki.
Fæstir þekkja gönguferðir á hálendi Íslands af eigin raun og ef til vill er það bara allt í lagi. Ástæða er bara til að gleðjast þegar fólk vill ferðast um landið. Við þurfum þó að taka það með í reikninginn að bæði akandi og gangandi umferð slítur. Víða eru hálendisvegir landsins í mjög slæmu ástandi. Nefna má veginn upp á Fimmvörðuháls sem telja má ónýtan.
Víða eru gríðaleg sár á landi vegna umferðar gangandi fólks. Stórkostlegar skemmdir hafa orðið fyrir neðan hamrana í Þverfellshorni á Esju. Sama má segja með gönguleiðir á Fimmvörðuhálsi, á Goðalandi, í Hengli, Vífilsfelli og ekki síst Laugaveginn svokallaða sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Ljóst er að umferð mun aukast á næstu árum. Hvað er til ráða þegar landskemmdir verða vegna umferðar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
191 milljóna fjárfesting fyrir hverja mínútu
6.2.2007 | 10:00
Þeir vilja eignast Kjöl og byggja þar upp hálendisveg til að stytta leiðina til Akureyrar um tuttugu og tvær mínútur. Er eitthvað að þeim sem standa að Norðurvegi?
Svo virðist sem sumir þeirra telji sér heimilt að leggja hreinlega undir sig stóra hluta af landinu fyrir tæpan hálftíma. Gangi allt eftir tekur það fjóra tíma og þrjátíu og átta mínútur að aka milli Akureyrar og Reykjavíkur, ekki fimm tíma. Kostnaðurinn er áætlaður 4,2 milljaðrar króna sem þýðir að hver mínúta í þessari stórkostlegu framkvæmd kostar 191 milljón króna. Höfum við ekkert betra við peningana að gera?
Sé það ákafur vilji að stytta ökutímann milli Akureyrar og Reykjavíkur er einfaldast og ódýrast að meðalhraðinn verði einfaldlega hækkaður úr 90 km á klukkustund í 100 km á klukkustund.
Þá hagnast menn um þrjátíu mínútur sem er að öllu öðru slepptu ódýrara en að leggja í gríðarlegt rask á hálendinu, spjöll á dýrmætum náttúruperlum landsins svo ekki sé talað um allan þann kostnað sem þessu er samfara.
Sæmast væri þeim sem að Norðurvegi standa að leggja krafta sína og fjármagn í að endurbæta vegakerfið, til dæmis milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eiga dómarar að taka mið af almenningsáliti?
2.2.2007 | 18:31
Vissulega var forsíðan á Mogganum í dag sláandi og líklegast hneykslast flestir á því hversu vægan dóm kynferðisafbrotamaður fær fyrir svo alvarlega glæpi.
Víkjum frá þessum umræddum dómi, hann vekur viðkvæmar tilfinningar í hjörtum okkar og tökum dæmi um önnur lögbrot sem eru líka alvarleg. Hugsanlega verður allur almenningur reiður yfir vægum dómi fjársvikamanna, svo reiður að hvatt er til mótmæla við húsnæði dómstólsins, undirskriftasöfnun er hafin þar sem hvatt er til þess að dómararnir verði reknir og reiðir borgarar senda tölvupósta þar sem dómnum er mótmælt.Að sjálfsögðu hlýtur það að vera umhugsunarvert ef almenningi blöskrar dómar sem upp eru kveðnir. Þá er ástæða til þess að dómsvaldið fari í einfalda nafnaskoðun ef svo má að orði komast. Ástæða er líka til að velta vöngum yfir aðgerðum almennings. Til hvers eru þær?
Er það réttlætanlegt að efna til opinbers ágreinings við dómara á þann hátt að birta myndir af þeim eins og þeir væru sakamenn bara af því að tiltekinn hópur þjóðfélagsþegna er á móti ákveðnum dómi?
Sé svarið jákvætt vaknar önnur spurning. Hverjar verða afleiðingarnar ef dómarar freistast til að taka mið af almenningsáliti frekar en lagabókstaf? Almenningsálit er mjög vafasamur mælikvarði hvar sem bori er niður, einnig við lagasetningu sem og dómstörf. Meirihlutinn þarf ekki endilega að hafa rétt fyrir sér. Hann getur einfaldlega haft ákveðna skoðun í dag og aðra á morgun. Fæstir taka djúphugsaða afstöðu til mála, flestum er sama, eiga nóg með stritið frá degi til dag.
Almenningur er bara fjöldi einstaklinga, stundum hópar sem allir skarast að einu eða öðru leyti, en almenningur er aldrei ein heild né heldur er háværasti hópurinn stærstur og hann er afar sjaldan meirihlutinn.
Ég vil frekar að dómar séu kveðnir upp samkvæmt skráðum lögum heldur en einhverju almenningsáliti. Það kann að vera dómarar kveðið eintaka sinnum upp of milda eða of stranga dóma. Það er ásættanleg áhætta á móti aftökum almenningsálitsins.
Best er að skynsamir karlar og konur sinni löggjafastörfum á Alþingi, hafi samráð við þá sem best til þekkja áður en lög eru sett. Á sama hátt er farsælast að fólk sem hefur sérþekkingu á lögum annist dómstörf og kveði upp vel ígrundaða dóma. Dómarar eiga að vera hlutlausir, þeir eiga ekki að hafa nokkurra hagsmuna að gæta, hvorki fjárhagslega né að öðru leyti. Þetta ætti að vera nokkuð tryggt eins og staðan er í dag og það er gott.
Dómstóll götunnar er beinlínis hættulegur vegna þess að hann er ekki rökréttur.
Svo er það allt annað mál hvort Hæstiréttur hafi kveðið upp vel ígrundaðan dóm í máli kynferðisafbrotamannsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Furðuleg umferðarmenning
2.2.2007 | 11:36
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er furðuleg. Tökum nokkur dæmi.
Hver er munurinn á ökumönnum og fótgangandi fólki? Jú, þeir sem eru fótgangandi fara margir hverjir ekki eftir umferðarreglum. Þeir ana margir hverjir út í umferðina á móti rauðu ljósi á gangbraut þegar þeir greina þokkalegt bil á milli ökutækja. Gangandi fólk nennir sjaldnast að bíða eftir grænu ljósi nema umferðin sé þeim mun þyngri. Þetta veldur oft miklu vanda sérstaklega í skammdeginu þegar dökkklæddar verur líða út á götuna og maður má hafa sig allan við til að koma í veg fyrir stórslys.
Tvöfaldar akreinar eru algengar hér á höfuðborgarsvæðinu en þeir eru svo óskaplega margir sem kunna ekki að nota þær. Í gamla daga var mér kennt að maður ætti að öllu jöfnu að halda sig á hægri akrein, en sú vinstri var yfirleitt fyrir framúrakstur. Þannig er nú ekki raunin. Vinstri akreinin er í dag fyrir ökumenn sem eru að tala í símann, skoða útsýnið, kalla með hatt, kellingar sem blaðra við farþegann, sendibíla og tröllabíla með tengivagna og strætó. Við hinir eigum síðan að stunda stórsvig til að komast nokkuð greiðlega um borgina. Það tekst nú sjaldnast.
Umferðarljós eru ansi þægileg til að miðla umferð. Mér var kennt að fara ekki yfir á rauðu ljósi og helst ekki á gulu. Breytingar á þessu hafa greinilega farið framhjá mér og ég er ekki sáttur við þær því mér virðist þeir sem aka yfir á grænu ljósi vera í stórkostlegri hættu.
Bílum hefur fjölgað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tíu árum. Líklegast er best að fara leiðar sinnar á hjóli eða gangandi. Í Reykjavík eru víða göngu- og hjólastígar. Þeim er skipt í tvo hluta, annars vegar fyrir gangandi og hins vegar fyrir þá sem eru á hjóli. Þetta er ekki góð skipting. Betra er að nota almennar umferðarreglur, menn eiga að fara framúr vinstra megin, hvort sem fólk er gangandi, hlaupandi eða hjólandi. Núverandi skipting er hreinlega óþægileg auk þess sem hún veldur oft misskilningi sérstaklega fyrir hjólandi fólk.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Wannabe" flokkur í andarslitrunum
1.2.2007 | 01:45
Sagt er að þau berjist fyrir pólitísku lífi sínu, Frjálslyndir og framkvæmdastjórinn fyrrverandi og stuðningsmenn hennar. Það er rangt. Pólitík skiptir hér engu máli.
Í fyrsta lagi var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður vegna kvótamálsins (látum persónulega óvild stofnandans gagnvart Sjálfstæðisflokknum liggja á milli hluti). Kvótamálið er löngu liðið deilumál ef frá eru taldir örfáir spekingar sem kjósa að klifa á því eins og Cató gamli um Karþagó. Almenningur hefur lítinn áhuga á því og ólíklegt að það verðu nokkurn tímann að kosningamál.
Stjórnmálaflokkar verða að láta fleiri en eitt mál til sín taka, að öðrum kosti verða þeir vart lífvænlegir. Frjálslyndir skildu þetta um síðir og fylltu upp í tómarúmið með margvíslegum fallegum stefnumálum, en alltaf tuðuðu þingmennirnir þrír reglulega um kvótamálið en án nokkurrar athygli almennings. Að öðru leyti líktist stefnuskráin stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Víkjum að hinum stjórnmálaflokknum. Þeir kölluðu sig Nýtt afl strákarnir sem yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að þeir voru svo mikið á móti sjávarútvegsstefnu flokksins, kvótamálinu. Þeir reyndu líka að fylla upp í tómarúmið með fallegum stefnumálum en stefnuskráin varð ótrúlega lík stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Nýtt afl fékk engan hljómgrunn í alþingiskosningunum 2003, fékk raunar mjög háðuglega útreið, aðeins 1.791 atkvæði á öllu landinu, 0,98%. Til samanburðar voru auðir seðlar og ógildir 1.873, 1,01%, aumara gat það nú ekki orðið. Meira að segja Kristján Pálsson sem klauf sig frá Sjálfstæðisflokknum fékk 844 atkvæði fyrir T-listann sinn en bauð þó aðeins fram í Suðurkjördæmi.
Þannig liggur nú í málunum að strákaklúbburinn sem náði engri athygli í kosningunum sá sitt óvænna og gekk í Frjálslynda flokkinn. Nú verður að taka það fram að á bak við strákanna er ekki 1791 fylgismaður. Miklu frekar eru þeir svona tíu til tuttugu, en flestir hörkupiltar, vel greindir, fengu sitt pólitíska uppeldi í Sjálfstæðisflokknum, eru af aldri sínum og reynslu sjóaðir í stjórnmálum, og afburða vel að sér í pólitískum fræðum.
Nýtt afl gat ekki sameinast formlega Frjálslynda flokknum, það bara var ekki hægt. Sá síðarnefndi er miklu stærri, hugsanlega svona sjötíu til eitthundrað og fimmtíu manns í þeim kjarna sem öllu máli skiptir. Þeir litu því stórt á sig enda satt sem sagt er, stærðin skiptir máli ...!
Niðurstaðan varð því sú að félagarnir í Nýju afli breyttu litla stjórnmálaflokknum sínum í stjórnmálafélag og gengu svo í Frjálslynda flokkinn, hver fyrir sinn hatt.
Þannig stóðu mál þangað til Jón Magnússon asnaðist til að blaðra um innflytjendur sem hann hefði aldrei átt að gera en hann gerði sér ekki grein fyrir því hversu viðkvæmt málið er. Svo blaðrar þingmaður Frjálslyndra um hið sama. Í gúrkutíðinni eru þeir fóstbræður étnir af fjölmiðlum og skyndilega úthrópaðir sem rasistar og líklega eitthvað enn verra.
Þar með urðu fjölmiðlar, álitsgjafar, bloggarar og stjórnmálamenn í öðrum flokkum ein eyru. Margrét Sverrisdóttir má svo eiga það að hún brást hart gegn neikvæðri umræðu flokksfélaga sinna um útlendinga og talaði hressilega yfir hausamótunum á þeim. Kannski var ræðan eina pólitíkin í öllum farsanum.
Í eftirleiknum mátti einna helst skilja það á máli Margrétar að Nýtt afl hefði ráðist á Frjálslynda flokkinn með þúsundum nýrra fylgismanna og hreinlega tekið hann yfir. Það var bara ekki svoleiðis hvort sem hún gerði sér grein fyrir því eða ekki. Jafnvel fjölmiðlarnir föttuðu ekki hvað var að gerast.
Margrét þurfti ekki að óttast tíu eða tuttugu stráka úr Nýju afli. Það er nú meiri aumingjans flokkurinn sem þolir ekki hávaðasaman minnihlutahóp jafnvel þó hann sé kjöftugur og ekki alltaf á sama máli og hinir. Annað eins gerist nú í stjórnmálaflokki.
Vandamálið er bara það að kallar og kellingar kjöftuðu sig út í sitt hvort hornið og vígbjuggun sig þar með kjarnorkuvopnum, hitasæknum eldflaugum og klasasprengjum. "Then the shit hit the fan."
Þetta er allt doldið fyndið en um leið pínu sorglegt þetta með Frjálslynda flokkinn. Vígaferlin er líklega afstaðin og líklega er þessi "wannabe" flokkur í andarslitrunum. Nú eru þau öll í sárum og hægt læðist að þeim sá ógnvænlegi grunur að ef til vill þurfi pólitískan eldmóð og stefnumótun í grunn stjórnmálaflokks.
Hvaða lærdóm getur þessi saga svo kennt okkur? Jú, það þarf ekki fjöldahreyfingu til að stofna stjórnmálaflokk. Og ... pólitíkin skiptir engu máli, menn geta bara búið hana til síðar meir. Lítið bara á Margréti Sverrisdóttur, sem segir að ýmsir flokkar hafi boðið henni um borð. Meira að segja formaður Samfylkingarinnar lét í það skína að hægt væri að bjóða Margréti sæti í Reykjavík norður eða suður!
Það sem verra er, Margrét er að íhuga bónorð hinna flokkanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Hún gaf af skorti sínum ..."
22.1.2007 | 14:01
Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.
Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá:
Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína."
Gott er að á Íslandi sé til ríkt fólk. Vonandi veit flest aura sinna tal og fer vel með þessar jarðnesku eignir sínar, ávaxti sitt pund og gefi jafnvel til líknarmála. Ríkidæmið eitt og sér hafa menn ekki með sér yfir móðuna miklu. Sá sem er dauður hrærir vart í peningum sínum, fjármunum eða öðrum eignum.
Allir ættu að temja sér hóf í hvívetna, ef eitthvað er mætti frekar gapa yfir þekkingu en eignum.
Einu sinni hitti gamall Íslendingur mann nokkurn á förnum vegi, kannski í flughöfn. Sá var frá Texas og yfir glasi tók hann að segja frá öllu því stórkostlega og markverða sem finna mætti í hinum mikla ríki. Að morgni dags kæmi hann til dæmis út á hlað, liti til sólar, sprændi, og settist síðan upp í Landróverinn sinn og að kvöldi hins sama dag væri hann ekki hálfnaður yfir landareign sína.
Hrökk þá upp úr þeim gamla Íslendingi: Já ..., svona Landróver hef ég líka átt.
Fjöldinn allur er af dæmisögum í Biblíunni og flestar þeirra segir söguhetjan, hann Jesús Jósefsson smiður og farandprédikari. Margar þeirra eru eiginlega tímalausar og gætu með lítilsháttar breytingum átt við um þessar mundir. Áðurnefndur Jesús sagði þessa sögu:
Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast."
En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: "Guð, vertu mér syndugum líknsamur!"
Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.
Margir mala um þá sem minna mega sín. Það þykir eflaust flott í stétt stjórnmálamanna. Einhvern tímann var það kallað að vera aumingjagóður. Við sem teljumst til aumingjanna reynum fyrst og fremst að eiga eitthvað að til að éta svona dags daglega, föt og húsnæði svo manni verði ekki kalt. Stundum kemur það fyrir að maður kaupir happdrættismiða af líknarsamtökum eða styrktarsamtökum, styrkir Rauða krossinn eða SÁÁ. En aldrei hefur nokkur maður haldið blaðamannafund um tilefnið enda framlagið frekar veitt af skorti viðkomandi en allsnægtum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Séra biskupinn
27.12.2006 | 12:11
HONUM séra biskupi Sigurbirni Einarssyni er mikið hampað þessa dagana. Hvort tveggja er að maðurinn er orðinn 95 ára og þykir víst orðinn hinn spaki öldungur, viskubrunnur þess liðna. Svo er hann líka kennimaðurinn og þar af leiðandi hlýtur þekking hans að taka allri annarri fram og svo mikil er nándin við guð. Þetta fannst mér kannski.
Hann talar svo fallega," sagði konan og gerði sig guðsóttalega í andlitinu, kannski til að leggja meiri áherslu á orð sín. Þetta segja líka margir og bæta því við að hann sé skrifari góður og sannfærandi prédikari. Ég þekki sko góða ræðu þegar ég heyri hana," bætti konan við og henni leið áreiðanlega vel í sálinni sinni.
Alla mína ævi hef ég hlustað og horft á séra Sigurbjörn biskup úr fjarlægð og stundum undrast hann. Foreldrar mínir höfðu á honum svo mikið dálæti að þau létu börn sín ávallt hlusta á boðskap hans. Þei, þei," sagði faðir minn strangur á svip. Nú hlustum við á biskupinn." Jól, nýársdag, páska, hvítasunnudag, sautjánda júní og aðra helgidaga. Og þegar broddborgarar þjóðarinnar burtkölluðust var hann tilkallaður að kasta rekunum. Og ég hlustaði ... og ég hlustaði.
Og ég hlustaði líka á séra biskupinn þegar ég var drattaðist á fullorðinsár ...
Væri ég spurður, nákvæmlega á þessari stundu, hvað mér þætti nú merkilegast við prédikanir séra Sigurbjörns, hvað standi upp úr eftir alla þennan tíma myndi ég eflaust svara svona eins og þúsundir annarra Íslendinga: Hann talar bara svo fallega."
Væri ég krafinn frekari útskýringar um hvað væri svona fallegt við prédikanir hans stæði ég eiginlega á gati. Kannski myndi mér takast að stama því upp að hann væri svo sannfærandi.
Sannfærandi í hverju?"
...tja, í guðorðatali sínu," myndi ég kannski asnast til að segja, svolítið rauður í framan eins og þegar ég gataði í munnlegu prófi í MR í gamla daga.
Þarna er það loksins komið og best að viðurkenna það hér með. Í hreinskilni sagt veit ég eiginlega ekkert um hvað séra Sigurbjörn hefur verið að tala síðustu fjörutíu árin, þau og þó hefði ég átt að hafa nægilegt vit til skilnings, ... en maður lifandi hvað hann sagði þetta allt fallega!
Ef til vill segir þetta meira um mig heldur en séra biskupinn, en ég held því miður að hið sama gæti nú átt við um marga aðra Íslendinga. Staðreyndin er bara sú að svo ósköp fáir vita um hvað hann hefur verið að tala nema útvaldir leikmenn og svo kennimennirnir allir, þátttakendurnir í iðnaðinum, kallarnir í svörtu kjólunum sem allir sem reyna að tala svo fallega á sunnudögum og öðrum helgidögum í þeim tilgangi einum að láta manni líði vel í flakandi sálinni.
Já, mikill er máttur orðsins, hins talaða og ritaða.
Skiptir þá í raun og veru engu hvað sagt er svo fremi sem það er vel og mildilega flutt? Gengur bissnisinn út á það eitt að raða saman orðum í sennilega runu og bæta af og til guðræknisorðunum blessi þig og varðveiti þig og nokkrum amenum?
Þegar ég var svona í kringum tíu ára aldur hlustaði ég einu sinni sem oftar á messu í þvingunarútvarpi ríksins, þeim eina útvarpsmiðli sem þá var leyfilegur, og þá heyrði ég frægan prest bæta því við í stólræðu sinni um hina síðustu og verstu tíma, þar sem allir voru óalandi og óferjandi: ... og svo herma þeir líka eftir sjálfum prestunum."
Ó, þvílíkir tímar, þvílíkur lýður, hugsaði ég, barnið, án efa, og upp fyrir mér rann að það væri ljótt að gera grín að köllunum í svörtu kjólunum og ekki síður að guðsorðatal væri eitthvurt gamanmál. Ég sá samt í gegnum þetta og lagði engan trúnað á svona vitleysu.
Hvaða hefur svo séra biskupinn verið að boða alla sína tíð sem ekki hefur þegar verið framborið í einni mynd eða annarri? Ekkert veit ég um það. Kannski er engu við að bæta nema því sem einsetumaðurinn mælti af því að hann er einsetumaður og fjarri öllum lýðnum. Og þá sjaldan sem hann mælir hlusta allir opinmynntir. Og hver er leyndardómur lífsins, kæri spaki einsetumaður?"
Hann svarar svo undurmjúkt og fallega, horfir fjarlægum augum út fyrir skýin, himinhvolfið og líklega inn í næsta heim. Borða reglulega, sinna líkama sínum og anda." Og nærstaddir undrast og ljúka lofsorði á þann spaka sem allt eins gæti verið séra biskupinn, Jón Baldvin eða einhver annar sem ekki brúkar sig lengur í orrahríð stundarinnar. Um einhvern var sagt að hann væri elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann".
Og hvað er þá það sem ég undrast? Er ég kannski ekki trúaður?
Sko, mennirnir eru í meginatriðum eins, hvert sem kyn þeirra er, litur, trúarbrögð eða starf. Eiginlega er munurinn þessi sérhæfing sem menn tileinka sér. Sumir eru bændur, aðrir, læknar, margir vinna við framleiðslu, sinna fjármálum og þeir eru til sem stunda ýmiskonar rannsóknir á mannslíkamanum, jarðarkringlunni eða alheiminum og svo framvegis og efla þannig þekkingu og visku mannkyns. Ég undrast hins vegar alla þá sem höndlað lífsviskuna, þá einu og sönnu alla saman í einum pakka, og telja sig geta jafnvel boðað hana án þess að stökkva bros á vör eða telja lífið svo súrt að smávegis grín skaði boðskapinn. Þetta kemur samt barnatrú minni ekkert við.
Ég skildi ekkert í biskupnum þegar ég var barn og enn er ég barn. Hitt skil ég ekki heldur og hef aldrei skilið hvers vegna biskupinn gat haft eitthvað þarfara að gera en að vitja konunnar sem lá banalegu sína. Var hann þó beðinn um það, sárbeðinn. Fyrir því hef ég bara orð hans sem talar svo fallega".
Og þannig er nú guðsorðaiðnaðurinn orðinn mikilvægur að æðsti presturinn sjálfur, forstjóri kirkjunnar, hafði svo mikið að gera að hann hafði ekki tíma fyrir eina sál. Skilja það nú fæstir því jafnvel forstjóri Icelandair má vera að því að sinna viðskiptavinum sínum, svo dæmi sé tekið úr öðrum bissniss. Þó ber að taka skýrt fram að markhópur Icelandair eru ekki þeir sem ætla að ferðast inn í eilífðina, ef svo væri hefði forstjóri fyrirtæksins örugglega kvatt hvern og einn með handabandi í brottfararsal, kannski án orða, því návistin ein myndi veita hverri sál öryggi.
Hann var elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann." Doldið til í því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hægri og grænt
21.12.2006 | 14:40
Líklega unna flestir Íslendingar landi sínu að mestu leyti óafvitandi á hógværa hátt, ferðast um það akandi eða gangandi. Ekki kunna allir að mæra landið svo í bundnu eða óbundnu máli að lesandinn falli í stafi af hrifningu og ekki er heldur allt fagurt sem ort er. Hafa þó margir reynt að lýsa tilfinningum sínum á þessum síðustu og verstu kárahnúkatímum.
Víst er þó að dýrasti óðurinn er saminn af þeim sem um landið ferðast af þörfinni einni saman og þá verða til síbreytilegar ferðasögur og hver og einn er ýmist sögumaður eða hlustandi. Veiðimaðurinn segir frá viðureign sinni við sterklegan laxinn eða fiman silunginn, fjallgöngumaðurinn greinir frá þungu skrefunum á tindinn og þeim sporléttu til baka, vélsleðamaðurinn básúnar víðátturnar, gönguskíðamaðurinn kyrrðina, sá í jeppanum dásamar fjölbreytnina, allir greina grósku mannlífsins, þakka fyrir og loka tjaldinu að kvöldi dags.
Óður hins almenna manns nær sjaldnast inn á blöð bóka, tímarita eða dagblaða enda er það sjaldnast markmiðið með ferðalögum. Stundum svigna þó vefir takmörkuðum hópi til skemmtunar og kátt er þegar ferðafélagar koma saman og rifja upp reynslusögurnar.
Tilgangurinn er að njóta, í því er fólgin hin fegursta og fullkomnasta tjáning sem til er.
Samskiptin við landið byggja ekki á stjórnmálum, búsetu, efnahag, menntun, jafnvel ekki þjóðerni, litarhætti eða kynferði. Þau eru um allt duldari og óræðari. Ef til vill má rekja ræturnar í auðmýktina þegar hún varð að fyrirstöðu í hálsi þess sem upplifði stórbrotna náttúruna og skildi að tilvera einstaklingsins skiptir sáralitlu samanborið við þúsund ára andartak eilífðarinnar. Augnablikum síðar kann hugsun að verða til á móti rauðu ljósi í eirðarleysi malbiksins ... já, þarna fæddist ég öðru sinni ... eða eitthvað á þá leið.
Í undraveröldinni stendur tíminn í stað hátt fyrir ofan ólgu og áreiti hversdagslífsins. Þar má lengi una sér, en fyrr eða síðar er ferðamanninum ekki stætt á öðru en að snúa aftur til síns fyrra lífs.
Hann sem veigraði sér við því að ganga í djúpum, grænum mosanum, stíga fæti á smágerðan gróðurinn eða raska umhverfinu, velur sporum sínum vandlega ígrundaðan stað. Hann er einn en aðrir hafa verið þarna áður og fleiri koma á eftir. Niður er troðinn stígur sem grefst æ meir, gróðurþekjan rofnar. Vatn og vindar sjá um eftirleikinn. Þetta er kallaður átroðningur" og hann fer vaxandi veldur áhyggjum en þó er hægt að koma í veg fyrir hann á einfaldan hátt.
Er þá ekki ástæða til að hafa áhyggjur af misnotkun á tækni, hinum tröllauknu átökum pælodera", búkollna" og annarra stórvirka vinnuvéla sem vaða yfir allt, eira engu og biðja engan afsökunar.
Fyrirgefðu litla blóm að ég skuli moka þér og átthögum þínum til.
Landinu hefur víða verið breytt til framtíðar. Daglega er ingólfsfjöllunum mokað í burtu, rauðhólunum veitt holundarsár, dimmugljúfrunum lokað, leirufirðirnir skornir, þjórsárnar aflitaðar, hellisheiðarnar mengaðar, hágöngunum drekkt, héðinsfjörðunum spillt, langasjóunum raskað, kolviðarhólarnir járnaðir, geysirarnir stíflaðir, sprengisandarnir kaffærðir, þinvallavötnin eitruð og öskurhverum einfaldlega sagt að þegja.
Þar sem áður var landið fagurt og frítt er nú víða haugur af járni og steinsteypu sem kallast mannvirki" svo mönnum líði nú betur og því lofað að haugurinn sé fyrir okkur og erfingja landsins. Af hrokanum einum saman skal auðvelt að greina mannvirkið" frá andstyggilegu landinu. Sjaldnar er reynt að fella það inn í landslagið.
Og haugbúarnir áreita okkur hin, láta sem við þurfum að velja á milli rafmagns og rafmagnsleysis, hita og kulda, framtíðar og fortíðar, tækni og forneskju jafnvel líf og dauða.
Sá sem ekki varla bót fyrir boruna á sér á sjaldnast mikinn möguleika til andsvara, málfrelsið er ekki ókeypis frekar en allt annað. En bíðum við, ekki fagna of fljótt þó aðeins fámennið þenji sig. Hver segir að hinn þögli meirihluti sé á bandi haugbúana?
Viljum við að mannvirkin " séu í hróplegu ósamræmi við náttúru landsins? Viljum við kosta öllu til fyrir það eitt að ekki hafa allir möguleikar verið kannaðir? Þeir vita sem vilja að Kárahnúkum var fórnað vegna þess að rannsóknir á orkumöguleikum landsins voru ónógar. Næg orka er til í iðrum jarðar og henni fylgja ekki landfórnir.
Svo undrast sumir að umhverfissinnað fólk vilji stofna með sér stjórnmálaflokk til að rödd þess heyrist hjá löggjafarvaldinu, sú rödd sem talar fyrir tilfinningum óháðum dægurþrasi.
Þó vekur það mesta undrun að innan Sjálfstæðisflokksins hafi ekki fyrir löngu risið upp hópur fólks sem leggur áherslu á stefnumótun í ljósi umhverfis- og náttúruverndarmála. Þar er fjöldi af fólks sem getur tekið undir allt það sem sagt hefur verið hér á undan.
Nú er tími kominn fyrir góða sjálfstæðismenn sem unna landi sínu og eru í hjarta sínu fylgjendur íhaldssamrar stefnu í landnýtingu að standa upp og mynda samtök sem gefa flokknum fagurgræna áferð.
Hinn kosturinn er sá að láta slag standa og leyfa Framtíðarlandinu að hirða fylgið.
Eins málefnis flokkur nær sjaldnast neinum áhrifum í stjórnmálum, það er staðreynd sem kann þó að breytast. Aldrei áður hefur neinn verið nauðbeygður til að leggja landið undir, umhverfis- og náttúruverndarmál.
Eins málefnis flokkur? Nafn Sjálfstæðisflokksins á rætur sínar að rekja í eitt mál. Hvað skyldi það nú hafa verið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orkuveitan viðurkennir mistök!
21.12.2006 | 13:18
Orkuveitan hefur nú opinberlega viðurkennt að hafa klúðrað umhverfismálum við Kolviðarhólsvirkjun neðan við Hellisheiði. Það má lesa úr auglýsingu fyrirtækisins um samkeppni um frágang á svokallaðri niðurrennslisæð", stóru, ljótu rörunum við suðurlandsveg fyrir neða Hveradali og víða umhverfis Kolviðarhól. Þetta eru rörin sem allir kvarta undan og Orkustofnun hafði ekki efni á að láta grafa í jörðu.
Batnandi mönnum er best að lifa eða ætti maður að segja að nú stjórnar greinilega nýr og betri meirihluti Orkuveitunni og hann gerir sér grein fyrir óánægju fólks með hina ljótu virkjun.
Með auglýsingunni viðurkennir Orkuveitan mistök sín:
Niðurrennslislögnin er í þjóðbraut og blasir við þegar ekið er eftir þjóðveginum. Sjálfsagt er fyrir Orkuveituna að reyna að lágmarka umhverfisáhrif lagnarinnar og leita eftir nýjum hugmyndum um frágang á yfirborði."
Sé þetta þýtt af hinu þunglamalega stofnanamáli er merkingin þessi á venjulegu alþýðumáli:
Sorrý, við klúðruðum þessu, rörin eru ljót og þó seint sé í rassinn gripið þá finnst okkur afar brýnt að fela þau einhvern veginn.
Þessi niðurrennslisæð" á það sammerkt með öllum öðrum að þær eru best geymdar þar sem enginn sér þær. Það var öllum augljóst nema Orkuveitunni þar til núna.
Skrýtið orð niðurrennslisæð". Læt það þó vera að gera grín að þessu nýyrði en bendi bara á gamla hugmynd um að renna svona rörum ofan í jörðu og moka snyrtilega yfir.
Ég er einn þeirra hundruða eða þúsunda sem hafa gagnrýnt Orkuveituna fyrir yfirgang og smekkleysi. Mikið ári hefði nú verið gaman að fá að vera í dómnefndinni. Þá hefði ég tekið fram í skilmálum að aðrar hugmyndir en að grafa niðurrennslisæðina" í jörðu munu ekki verða samþykktar.
Svo þori ég að veðja að viðbára Orkuveitunnar við kröfum um að grafa rörafjandana verði sú að það sé of dýrt! Það er rétt, þetta verður en dýrara núna vegna þess að í upphafi hugsaði enginn málin til enda. Þess vegna hefur Orkuveitan slæmt orð á sér og núna er ætlunin að spandera nokkrum peningum til að lagfæra vandann.
Það er hins vegar bara ein lausn til úr því sem komið er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)