Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Ökumaður jeppans á Mars

Rover Driver 2

Víða um lönd eru fólk sem er agndofa yfir myndum frá Mars. Þetta er ekki mynd af krossi, ekki af pýramída ekki af andliti mótað í fjall heldur virðist þetta vera lítill steinn, alveg örsmár. hann ku ekki hafa verið á þessum sama stað hálfum mánuði fyrr.

Þetta lið hjá NASA stígur nú ekki beinlínis í vitið. Auðvitað er þetta ekki steinn heldur samankuðlað bréf sem ökumaður jeppans henti út um gluggann í kæruleysi sínu, líklega umbúðir utan um Mars súkkulaði.

Nú kann einhver að hlægja að þessu en ég bið hina sömu að athuga hvort jeppinn þeirra hafi sjálfstýringu. Eða hvort þeir viti til þess að hægt sé að fjarstýra jeppa í milljónum kílómetra fjarlægð. Nei, það er ekki hægt. Þess vegna þarf ökumann.

Ónei. Auðvitað er ökumaður á jeppanum og hér er mynd af honum. Myndin var tekin þegar hann var í vaktafríi á jörðinni og er þarna að skoða myndirnar úr síðustu vinnuferð. Hann heitir Scott Maxwell og er launþegi hjá Nösu. Ég vona að ég sé ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli hér. Allir vita þetta, jafnvel Snowden.


mbl.is Dularfullur steinn birtist á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrri ríkisstjórn Íslands laug að þjóðinni um ESB

Í skýrslu Evrópuþingsins í apríl 2011 var umsókn Íslands fagnað en bent á að nokkur ljón stæðu í veginum: Icesave, hvalveiðar (sem eru bannaðar af ESB), og löngun Íslendinga til að verja sjávarútveg og landbúnað. Evrópuþingið hvatti Íslendinga til að laga lög um fiskveiðar að reglum innri markaðar Evrópusambandsins, meðal annars á sviði fjárfestinga. En jafnframt var bent á að Ísland hefði farið fram á að halda „hluta“ [some control] af stjórnun fiskveiða.

Aðeins tvær skýringar eru á því að Evrópuþingið taldi að Íslendingar óski aðeins eftir að halda „hluta“ af stjórnun fiskveiða en ekki fullum yfirráðum. Annaðhvort misskildu þingmenn Evrópuþingsins aðildarumsóknina (og þar með hefur umsókn Íslands verið byggð á misskilningi) eða að fyrrverandi ríkisstjórn kom ekki hreint fram hvorki gagnvart Evrópusambandinu eða íslenskum almenningi.

Ofangreindar upplýsingar koma fram í grein Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins í grein undir fyrirsögninni „Tímaeyðsla sem dregur úr trausti og trúverðugleika“ og birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þar fjallar hann um ESB og nefnir aðlögunarviðræður.

Óli Björn er ekki þekktur fyrir dómhörku, miklu frekar er hann málefnalegur og vandar greinaskrif sín. En það eru einmitt undan slíkum sem menn kvarta háværast enda sannleikurinn oftast sár og bitur þeim sem fara illa með hann. 

Nógu mikið er vitað um vinnubrögð síðustu ríkisstjórnar meðal annars um aðildarumsóknina að ESB. Að skaðlausu við ofangreint hefði Óli Björn getað nefnt eftirfarandi:

  1. Ríkisstjórn Íslands laug að því þjóðinni um að hægt væri að semja um aðild Íslands að ESB og láta eins og Lissabon sáttmálinn kæmi málinu ekki við.
  2. Ríkisstjórn Íslands laug því að þjóðinni að aðlögunarviðræðurnar væru samningaviðræður og hélt því einnig fram að aðlögunarviðræður væru ekki til.
  3. Ríkisstjórn Íslands laug því að þjóðinni að hægt væri að ná því sem hún nefndi samningsmarkmið en þau voru ekki til heldur samin jafnóðum af einhverjum öðrum en Alþingi.
  4. Ríkisstjórn Íslands laug því að þjóðinni að hægt væri að semja um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál á forsendum þjóðarinnar. Hafi verið ætlunin að semja vissi hún ekki einu sinni um hvað það ætti að vera.
  5. Ríkisstjórn Íslands laug því að þjóðinni að hægt væri að ná samningum eins og Norðmönnum stóð til boða og Finnum og Svíum. Hún nefndi það ekki að þessir samningar voru samkvæmt gömlum reglum um aðild..

Og nú standa þeir upp sem stóðu að fyrri ríkisstjórn og ljúga því að þjóðinni að hægt sé að halda áfram aðildarviðræðum án þess að þær endi með því að við göngum inn í ESB.

Aðildarviðræður eru ekki til. Þetta voru aðlögunarviðræður sem teknar eru upp þegar ríki ákveður að taka ganga inn í sambandið. Prufuvirðæður eru hins vegar ekki til, prufuaðild ekki heldur og prufusamningar ekki heldur. 

Allt tal um að hægt sé að gera samninga um aðild að ESB kemur annað hvort frá þeim sem halda vilja sannleikanum frá íslensku þjóðinni eða þeim sem hafa enga þekkingu á reglum um aðlögunina eins og ESB vill hafa hana. Ég hallast helst að því fyrrnefnda og á hreinni og útúrsnúningalausri íslensku kallast slíkt lygi.

Óli Björn segir þetta um núverandi stöðu mála: 

ESB-sinnar telja það betur fallið til árangurs að klæðast nú búningi „viðræðusinna“, þó að markmiðið sé eftir sem áður það sama hjá flestum: Að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. 


Ómögulegt framhjáhald fyrst hjólið er ítalskt ...

Virðulegi ráðherra, það gladdi okkur mjög að sjá að forseti lýðveldisins færi ferða sinna sjálfur á þriggja hjóla vélhjóli. Það dró þó aðeins úr gleði okkar að sjá að vélhjól forsetans ber erlent vörumerki,“ segir í upphafi bréfsins. Hvað sem því líði að litið sé á þriggja hjóla vélhjól frá Piaggio sem fremst á markaðnum megi ekki gleyma að Peugeot veiti ítalska fyrirtækinu harða samkeppni. Árið 2013 hafi Peugeot sent á markað hjólið Metropolis sem hafi verið „vel tekið af neytendum sem sé annt um made in France“. Hjólið hafi meira að segja fengið viðurkenninguna Origine France garantie frá samtökunum Pro France.

Sumir eru þannig gerðir að þeir hnjóta um alla mögulega ásteitingssteina. Björn Bjarnason segir á Evrópuvaktinni að nú séu Frakkar frekar óhressir með að forseti landsins hafi ekið til hjákonu sinnar á ítölsku hjóli en ekki frönsku ... eins og sjá má í ofangreindri tilvitnun.

Þetta er auðvitað alveg kostulegt. Hið eina sem bréfritarinn, Wilfried Hemmerle umboðssali fyrir Peugeot sér athugunarvert við framkomu sósíalistans Hollande, Frakklandsforseta er að fararskjótinn er ekki franskur. Hvað skyldi nú hafa gerst ef viðhaldið væri af einhverju öðru þjóðerni en frönsku?


Eru einhver álitamál pólitík höfuðborgarinnar?

Hver eru ágreiningsefnin í borgarstjórn Reykjavíkur? Eru þau ekki til? Snúast þau bara um Hofsvallagötu? Eru engin álitamál í málefnum höfuðborgarinnar önnur en þau hvar byggja eigi næsta hótel í miðbænum?

Þetta segir Styrmir Gunnarsson í stuttum pistli á Evrópuvaktinni í dag. Hann nefnir hótelbyggingar, vanda leigjenda, fátækt og spyr hvað borgarstjórn ætli að gera í þeim.

Fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lætur sér sæma að gera tillögu um akbraut yfir Skerjafjörð sem fer rakleiðis yfir Gálgahraun. Það ber ekki skynsamleg stefna að efna til framhaldsátaka á því svæði. Raunar væri áhugavert að fræðast eitthvað um afstöðu mannsins í umhverfis- og náttúruvernd.

Hitt er svo annað mál að framboðslisti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar þarf að marka sér ákveðna stöðu og í framhaldi af því kynna hana af afli. Kosturinn við listann er örugglega sá að þarna hefur komið saman hópur fólks sem vinnur af samstöðu og dugnaði að framboði sínu. 

Núverandi meirihluti í borgarstjórn hefur komist upp með að vinna það sem þeim hefur sýnst án nokkurrar gagnrýni. Hann hefur forðast samskipti við borgarbúa og látið þau embættismönnum eftir. 

Eflaust bíða margir eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Víst er þó að fjöldi borgarbúa hefur gefist upp á stjórnmálaflokkunum og þar af leiðandi þarf mikið að gerast til að vekja athygli þeirra.  

 

 


Eldgos í Þrengslum eða ...

IMG_0395

Nokkuð bjart var í dag á suðvesturhorninu enda daginn tekið að lengja svo maður tekur vel eftir því. Sólarupprás var um 10:42 og sólin settist um 16:33.

Sólarlagið var sosum ekkert ásjálegt þar sem ég var, skammt sunnan við Þrengsli þar sem Leitahraun féll forðum niður af heiðinni og ofan í sjó. Það er nú hins vegar aukaatriði enda gerðist þetta fyrir mitt minni.

Hitt var merkilegra að er ég snéri baki í sólina sem gyllti skýin er aftur byrgðu manni beina sýn á sólarlagið þá blöstu Þrengsli við ... og, og, og ég sá ... svei mér þá ... eldgos.

Þarna var ég kominn upp á lítið fell sem nefnist Sandfell var ekki annað að sjá en að eldur væri uppi í Lambafelli. Sem sagt frá því virtist sem fjallið stæði í ljósum logum eða var eldurinn hinum megin við það.

IMG_0411IMG_0423

Nokkrum mínútum eða sekúndubrotum síðar náði ég að róa mig niður enda afar ólíklegt að þetta gæti verið eldgos. Miklu frekar var að sólarlagið stundaði einhverja galsafengna leiki sína í tilefni dagsloka.

Myndirnar styðja þó mál mitt, eða skrökva með mér. Engu líkar er en uppi á fjallinu logi og skýin fyrir ofan benda til að mökkur væri að myndast.

Reyndar finnst mér eins og að „eldgosið“ hafi byrjað eins og þegar gömlum traktor væri startað. Upp koma nokkrar sótrokur áður en hann fer endanlega í gang.

IMG_0426

Þannig er nú gaman að fylgjast með náttúrunni og líta á þær myndir sem hún ritar í land eða himinn. Nokkru vestar gyllti sólin lítið ský sem var í laginu eins og skrýtið og ókennilegt lagardýr. Ég útiloka þó ekki að þetta hafi verið fljúgandi furðuhlutur.

Nokkru síðar gekk ég niður af Sandfelli og klofaði snjóinn út að vegi. Þaðan ók ég norður Þrengsli, mætti fjölda bíla. Ekki var ég alveg laus við spenning þegar ég kom út í Svínahraunsbruna. En því miður. Hvergi var eldgos að finna og ekkert um slíkt í útvarpinu. Enn á ný var Palli einn í heiminum með illbeislanlegt ímyndunarafl sitt.

Hins vegar er eftir að kanna þetta með fljúgandi furðuhlutinn ... Það skyldi þó aldrei vera að hann hafi lent í Bláfjöllum.

 


Rassbagan -valkostur-

VakosturAllir skilja sögnina 'að velja' og hvað hún merkir. Nafnorðið 'kostur' getur haft svipaða merkingu sé það ekki skilið sem matur eða nesti. Margir geta valið um tvo eða fleiri kosti í lífi sínu en að segja að í boði séu valkostir er dálítið mikið af því góða. Rétt eins og að segjast ætla að ganga fargötu eða skrifa á skrifblað. 

Afar auðvelt er að taka sér tak, hætta að reykja, drekka og segja 'valkostur' ... nema að rétt sé sem sagt er að ekki sé hægt að strengja nein heit nema um áramóti.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég fékk villu fyrir þetta orðskrípi í ritgerðasmíð í MR. Ég man þetta eins og það hefi gerst í gær að Ólafur Oddsson, íslenskukennari, benti mér á þetta ... eða var það Ólafur M. Ólafson ... hmmm. Má vera að það hafi verið einhver annar.

Hvað sem því líður er íslenskan uppfull af rassbögum eins og faðir minn heitinn orðaði það stundum eða var það afi eða einhver annar ...

Þetta datt mér í hug er ég las Moggann minn í morgun. Segi ekki hver átti fyrirsögnina: „Tími skýrra valkosta runninn upp.“ Hún er einfaldlega of vandræðaleg fyrir þann sem á hlut að máli.

Sá sem þetta sagði hefði allt eins getað orða hugsun sína á annan hátt og til dæmis sagt:

„Fleiri kostir eru í boði er þetta bölvaða drullumakerí sem vinstri flokkarnir í borgarstjórn hafa staðið fyrir.“

.... en líklega er það of langt.

Nú segir lesandinn ábyggilega að upprunaleg fyrirsögn sé betri, allir skilja hugsunina. Nema auðvitað ég sem átta mig ekki á því hvort tími óskýrra 'valkosta' sé liðinn.


Hjólandi á fund hjá Sjálfstæðisflokknum

Fyrir nokkrum dögum fékk ég tölvupóst þar sem ég var boðaður á fund Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, og var fundurinn haldinn í dag, á sama tíma og landsleikurinn við Spánverja. Það þótti mér slök tímasetning og því var úr vöndu að ráða fyrir mig. Hvort ætti ég að fara á fundinn eða sitja heima og horfa á landsleikinn?

Ég ákvað á fara á fundinn. Þar yrði fjölmenni og gaman væri að hitta gamla félaga og vini. Hins vegar hafði ég ekki taugar í að horfa á landsleikinn. Mér hefur oft fundist erfitt að horfa á landsleiki í handbolta vegna þess að slæmu kaflarnir hafa reynst vera æði margir, sérstaklega þegar leikið er við sterku landsliðin. Auðvitað læt ég alltaf bjartsýni fjölmiðla leiða mig í göngur og þar af leiðandi verða vonbrigðin oft slæm.

Jæja, ég hjólaði sumsé úr Fossvoginum og í Valhöll á fundinn hjá Verði. Þar hitti ég auðvita fjöldann allan af góðu fólki og saman samþykktum við framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Mér til mikillar undrunar var annar á fundargestur á hjóli en ég hafði fastlega gert ráð fyrir að enginn hinna virðulegu Sjálfstæðismanna myndu láta sjá sig á hjólhesti þarna. En margt er líkt með líkum og það merkilegast var að hinn hjólreiðamaðurinn reyndist vera Skúli frændi minn Víkingsson, jarðfræðingur.

Skuli Guðrun

Við Skúli erum systkinabörn. Hann ber nafn afa okkar, Skúla Skúlasonar (1875-1950) í Stykkishólmi. Afkomendur hans og konu hans, Guðrúnar Jónsdóttur (1879-1966), konu hans  orðnir tvöhundruð og einn. Þar af bera tólf manns nafnið Skúli, sem fyrsta nafn eða millinafn. Skúli og Guðrún áttu níu börn og aðeins eitt þeirra er enn á lífi. Það er Sigurborg, móðir Skúla Víkingssonar en hún er nítíu og fjögurra ára.

Við, niðjarnir, héldum ættarmót í mars á síðasta ári. Þá hitti ég Sigurborgu föðursystur mína síðast. Hún þekkti mig ekki, sem er ósköp skiljanlegt. Hins vegar horfði hún skarplega á mig þegar ég hafði heilsað henni og áður en ég náði að kynna mig sagði hún: „Nei, ég er ekki viss um hver þú ert, en mikið óskaplega ertu nú líkur honum Sigga, bróður mínum.“ Þegar ég sagði henni að ég væri sonur hans fékk ég faðmlag og koss á kinn. Það þótti mér vænt um.

Að loknum fundi hjóluðum við frændur saman austur Suðurlandsbraut. Við kvöddumst til móts við Reykjaveg, hann hélt heim til sín í Álfheima en ég fór niður að Laugardalslaug. Hann var ljóslaus en á nagladekkjum að aftan og framan. Ég var með ljós að aftan og framan en ekki á nöglum, eins og sumir muna sem lesið hafa pistla mína síðustu dag.

Spánverjar lögðu því miður íslenska landsliðið og það var afar fátt en góðmennt í lauginni.


Eiga andstæðingar ESB að skipa samninganefndina?

Samþykkt stefna beggja stjórnarflokkanna er skýr og á þeirri stefnu byggir stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar.

Það er því hámark bjartsýninnar (og í raun dálítið hlægilegt) að halda að ríkisstjórn þar sem báðir stjórnarflokkarnir eru á móti ESB-aðild geti haldið áfram aðildarsamningum.

Því er það svo að þrátt fyrir ótrúlegan áhuga aðildarsinna þá mun furðuleg ósk þeirra um að ESB-andstæðingar dragi vagninn til Brussel ekki verða að veruleika.

Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, þingamaður Framsóknarflokksins, í niðurlagi greinar í Morgunblaðinu í morgun (greinaskil og feitletranir eru mínar).

Grein Ásmundar er vel skrifuð. Hann bendir á að í síðustu ríkisstjórn var þeim safnað í samninganefndina við ESB sem voru hlynntir ESB aðild og þess var vandlega gætt að meirihluti í utanríkismálanefnd væri sama sinnis og þess vegna var t.d. Jóni Bjarnasyni sparkað úr henni.

Þversögnin í þessu öllu er fólgin í því að fylgismenn ESB aðildar vilja að aðlögunarviðræðum verði haldið áfram til þess að fá að sjá einhvern samning sem þeir halda að verði niðurstaða þeirra. Það er hins vegar röng ályktun, eina sjáanlega niðurstaðan verði viðræðunum lokið er að Ísland gangi inn í ESB. Ef ríkisstjórnin ætlar að fara þessa leið myndi hún, að mati Ásmundar Einars, gæta þess að breytt yrði um fólk í samninganefndinni og harðir andstæðingar aðildar settir þar inn í stað hinna.

Myndi það nú auka líkur á að aðlögunarviðræður gengju hraðar fyrir sig en með fyrri samninganefnd? Nei, varla. Raunar myndu þær sigla í strand. Það er því borin von fyrir aðildarsinna að ESB málið fái farsælan endi hjá núverandi ríkisstjórn.

Það breytir hins vegar ekki skoðun minni á því að efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn að ESB sem fyrst.

Spurningin er þessi: Ert þú sammála eða á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Og þá er um tvo kosti að ræða, já eða nei. Persónulega er ég á móti. 


Kellingavæðing þjóðarinnar gengur út yfir allan þjófabálk

DSCN4252

Vissulega getur verið notalegt að hjóla á góðum degi en það er engan veginn hagkvæmur ferðamáti allan ársins hring. Þeir sem halda annað hljóta að búa í einhverju öðru umhverfi en við hin.

Engu líkar er en verið sé verið að „kellingavæða“ þjóðina. Daglega er gert lítið úr útiveru og hreyfingu nema einna helst „á góðum degi“, það er þegar vel viðrar.

Þá má ekki rigna, ekki vera hvasst (fjölmiðlaliðið segir að „það blási“ þegar hreyfir vind), ekki snjóa, ekki vera slagveður né skafrenningur og svo framvegis. Helst á að vera sól og logn, þá eru góðar aðstæður til útiveru.

DSCN1328

Ef eitthvað fer úrskeiðis, bíl festist, fólk meiðist í fjallið, rennur á svellbunka í þéttbýli eða álíka þá eru alltaf einhverjir bulludallar fljótir með fordómanna. Ef slíkir fengju að ráða væri enginn úti við nema „á góðum degi“

Hvers konar endemis andskotans bull er þetta í fólk sem heldur þessu fram? Þar með er höfundur þeirra orða sem vitnað er til hér að ofan, Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og einn þeirra fjölmiðlamanna sem ég hef hvað mest hælt fyrir skynsamlegar skoðanir. Hún er engu að síður ein af þessum „kellingum“ sem einna helst meta umhverfi sitt og aðstæður út frá hægindastólnum við stofugluggann.

Þetta er í sama stíl og „börnin“ sem fá að stjórna þáttum í hljóðvörpum landsmanna og er tíðrætt um leiðindaveður þegar rignir á suðvesturhorni landsins.

Þetta fólk veit ekki um þúsundir landsmanna sem njóta útiveru allan ársins hring, hvort sem það rignir eða snjóar og skiptir litlu þó „blási“. Það setur undir sig hausinn og veður í gegnum slagveðrið eða skafrenninginn og blóðið rennur í æðum með náttúrulegum hraða. Á meðan kalka æðarnar í „kellingunum“ við stofugluggann. Og þær síðarnefndu (af báðum kynjum) skilja ekkert í þeim sem eru utandyra.

DSC00165

Rúmt ár er nú síðan ég dustaði rykið af hjólinu mínu og síðan hef ég hjólað um Reykjavík nær daglega, minnst þó síðasta sumar. Þar að auki þekki ég fjölda fólks sem hefur stundað hjólreiðar, suma daglega í tugi ár svo ekki sé talað um herskara hjólreiðamanna sem ég mæti á hverjum degi.

Af reynslu minni og þekkingu fullyrði ég að Kolbrún Bergþórsdóttir hefur algjörlega rangt fyrir sér í tilvitnuninni hér að ofan.

Frá barnæsku hef ég stundað útiveru og ferðalög og einnig af reynslu minni og þekkingu veit ég að allir hafa gott af því að hreyfa sig úti undir beru lofti. Og, kæri lesandi, ekki nefna hættu á slysum eða lífshættu. Þú veist að lífið er ein áhætta og útilokað er að draga úr henni með því að sitja í hægindastólnum við stofugluggann. Það býður bara annarri hættu heim. Er nú ekki betra að taka ærlega á og hreyfa sig, skrönglast um fjöll og dali, og koma heim endurnærður og fá sér til dæmis eitt eða tvö koníaksglös eða hvað það nú er sem hverjum og einum finnst við hæfi?

DSC_0141

Það er bæði hollt og gott að hjóla og mjög auðveldlega hægt að sinna flestum erindum. Ekki misskilja mig. Ég leggst á engan hátt gegn einkabílnum og reiðhjól kemur á engan hátt í staðinn fyrir hann, að mínu mati. Hvort tveggja veitir lífinu meiri fyllingu rétt eins og fjölbreytt mataræði.

En um það snýst ekki málið heldur að koma „kellingum“ af báðum kynjum út úr húsi, fá þær til að hreyfa sig og njóta útiverunnar eins og svo margir gera. Að minnsta kosti ættu þær að halda sér á mottunni og ekki tjá sig um það sem þær vita ekki nokkurn skapaðan hlut um (tilmæli ekki tilraun til ritskoðunar ...)

Jæja, skyndilega er úr mér runnin fýlan vegna orða Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í morgun. Þó bið ég engan afsökunar á orðavali og hafna því eindregið að lesa yfir það sem ég hef hér skrifað.


Draugar vinstri stjórnarinnar ganga enn lausir

Draugur vantrausts gengur enn laus. Hann nærðist á innantómum loforðum vinstristjórnarinnar í atvinnumálum. Í stefnuyfirlýsingu 2009 var heitið sex þúsund nýjum störfum, þar af um tvö þúsund störfum »í orkufrekum iðnaði«, samkvæmt forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í mars sama ár. Í október 2010 lofaði ríkisstjórnin þrjú til fimm þúsund störfum en í mars 2011 var loforðið komið niður í rúmlega tvö þúsund störf. Efndir voru litlar - fjölskyldur og einstaklingar flúðu land. Frá 2009 til 2012 voru brottfluttir umfram aðflutta um 8.700. Fólksflóttinn jafngilti því að allir íbúar Vestmannaeyja, Sandgerðis og Grindavíkur hefðu yfirgefið landið.

Vonandi er minni almennings í lagi og fólk muni eftir starfsháttum síðustu ríkisstjórnar. Eflaust má um margt gagnrýna núverandi ríkisstjórn en ofangreint stendur þó óhaggað. Höfundurinn er Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefur verið óþreytandi að benda á tækifæri þjóðarinnar í atvinnumálum, þar liggi lausnin á kreppunni.

Í Morgunblaðinu í morgun skrifar Óli Björn um drauga fortíðarinnar, þá sem sleppt var lausum í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar og ganga enn lausir. 

Vofur svikinna loforða eru á sveimi á flestum heimilum landsins. Skjaldborgardraugar brostinna vona og svikinna loforða hrella enn þúsundir fjölskyldna sem nú eygja þó von um að ný ríkisstjórn gefi þeim tækifæri og nauðsynleg verkfæri til að granda þeim endanlega. Þar duga ekki einfaldar leiðréttingar ef ekki fylgir góður hagvöxtur með aukinni atvinnu, betri launum og hærri ráðstöfunartekjum með lækkun skatta.

Óli Björn hvetur til að draugar vinstri stjórnarinnar séu kveðnir niður. Undir það má taka. Nú er kominn tími til að taka á landsmálunum á skynsaman og arðbæran hátt, hvað svo sem vinstra liðið á þingi tuðar. Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokkins og Framsóknarflokksins hefur verið við völ í sjö mánuði virðast gömu vinstri ráðherrarnir vita upp á hár hvað þarf að gera en þeir stóðu sig ekki þegar þeir héldu um valdataumanna. 

Og Óli Björn segir í niðurlagi greinar sinnar:

Barátta við drauga vinstristjórnarinnar tekur tíma og hún verður oft erfið, en hjá henni verður ekki komist. Við uppskerum betra, skemmtilegra og heilbrigðara mannlíf, að ekki sé talað um bætta fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband