Hjólandi á fund hjá Sjálfstæðisflokknum

Fyrir nokkrum dögum fékk ég tölvupóst þar sem ég var boðaður á fund Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, og var fundurinn haldinn í dag, á sama tíma og landsleikurinn við Spánverja. Það þótti mér slök tímasetning og því var úr vöndu að ráða fyrir mig. Hvort ætti ég að fara á fundinn eða sitja heima og horfa á landsleikinn?

Ég ákvað á fara á fundinn. Þar yrði fjölmenni og gaman væri að hitta gamla félaga og vini. Hins vegar hafði ég ekki taugar í að horfa á landsleikinn. Mér hefur oft fundist erfitt að horfa á landsleiki í handbolta vegna þess að slæmu kaflarnir hafa reynst vera æði margir, sérstaklega þegar leikið er við sterku landsliðin. Auðvitað læt ég alltaf bjartsýni fjölmiðla leiða mig í göngur og þar af leiðandi verða vonbrigðin oft slæm.

Jæja, ég hjólaði sumsé úr Fossvoginum og í Valhöll á fundinn hjá Verði. Þar hitti ég auðvita fjöldann allan af góðu fólki og saman samþykktum við framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Mér til mikillar undrunar var annar á fundargestur á hjóli en ég hafði fastlega gert ráð fyrir að enginn hinna virðulegu Sjálfstæðismanna myndu láta sjá sig á hjólhesti þarna. En margt er líkt með líkum og það merkilegast var að hinn hjólreiðamaðurinn reyndist vera Skúli frændi minn Víkingsson, jarðfræðingur.

Skuli Guðrun

Við Skúli erum systkinabörn. Hann ber nafn afa okkar, Skúla Skúlasonar (1875-1950) í Stykkishólmi. Afkomendur hans og konu hans, Guðrúnar Jónsdóttur (1879-1966), konu hans  orðnir tvöhundruð og einn. Þar af bera tólf manns nafnið Skúli, sem fyrsta nafn eða millinafn. Skúli og Guðrún áttu níu börn og aðeins eitt þeirra er enn á lífi. Það er Sigurborg, móðir Skúla Víkingssonar en hún er nítíu og fjögurra ára.

Við, niðjarnir, héldum ættarmót í mars á síðasta ári. Þá hitti ég Sigurborgu föðursystur mína síðast. Hún þekkti mig ekki, sem er ósköp skiljanlegt. Hins vegar horfði hún skarplega á mig þegar ég hafði heilsað henni og áður en ég náði að kynna mig sagði hún: „Nei, ég er ekki viss um hver þú ert, en mikið óskaplega ertu nú líkur honum Sigga, bróður mínum.“ Þegar ég sagði henni að ég væri sonur hans fékk ég faðmlag og koss á kinn. Það þótti mér vænt um.

Að loknum fundi hjóluðum við frændur saman austur Suðurlandsbraut. Við kvöddumst til móts við Reykjaveg, hann hélt heim til sín í Álfheima en ég fór niður að Laugardalslaug. Hann var ljóslaus en á nagladekkjum að aftan og framan. Ég var með ljós að aftan og framan en ekki á nöglum, eins og sumir muna sem lesið hafa pistla mína síðustu dag.

Spánverjar lögðu því miður íslenska landsliðið og það var afar fátt en góðmennt í lauginni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband