Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Hafa aldrei kostað krónu til en ætla nú að rukka ferðamenn

Landeigendur Geysissvæðisins eiga það sammerkt með ríkissjóði að græða óskaplega mikið á ferðamönnum. Munurinn er hins vegar sá að úr ríkissjóði lekur dálítill peningur til uppbyggingar ferðamannastaða og umhverfis- og náttúruverndar, lítið sem samt doldið ...

Landeigendur við Geysi lifa á ferðamönnum en ekkert látið til uppbyggingar staðarins eða umhverfismála. Ríkissjóður, sem er eigandi um þriðjungs Geysissvæðisins, hefur hins vegar kostað uppbygginguna og gert allt það sem þó hefur verið framkvæmt á svæðinu. 

Núna, fá landeigendur glampa í augun, og segjast vilja vernda landið fyrir öllum þessum ferðamönnum sem þeir hagnast á og draga inn á svæðið. Í stað þess að landeigendur sameinist um að leggja gjald á þau fyrirtæki sem starfandi eru á svæðinu þá ætla þeir að ráðast á ferðamennina sjálfa og rukka þá um svokallað „glápgjald“.

Þetta er aumt. Sýnir að landeigendur hafa hingað til verið tilbúnir til að ofnýta land til að græða en leggja ekkert sjálfir til uppbyggingar. Slíkt hefur þeim ekkert komið við. Núna hefur þeim hins vegar dottið í hug að hægt sé að græða á ferðamönnunum með aðgangseyri. Þeir leggja þó enga uppbyggingarstefnu til grundvallar, byrja ekki með eigið fé, heldur fara beint út í að rukka.

Þannig er liðið sem á Kerið í Grímsnesi, þannig er liðið sem þykist eiga hálendið fyrir norðan og austan Mývatn, svokallað Reykjahlíðarland. Þannig eru fjöldi annarra sem nú hugsa sér til hreyfings og sjá fram á auðtekna peninga, auðtekjur, sem ekkert þarf að hafa fyrir.

„Jú, við ætlum að vernda náttúruna, byggja upp, laga og breyta, það er að segja ef við fáum peninga inn,“ segir þetta lið. Og allir trúa þeim vegna þess að málefnið virðist vera svo göfugt. Enginn af þeim hefur hins vegar lagt neitt eigið fé í uppbyggingu hingað til.

Staðreyndin er bara sú að landeigendur virðast vera örlátastir á annarra manna fé. Hluti af aðgangseyri fer svo í virðisaukaskatt, hluti í innheimtugjald og kostnað við innheimtu og rest, það litla sem eftir situr fer í að vernda eitthvað, einhvern veginn, einhvern tímann ... kannski.

Á meðan er landi lokað. 


mbl.is Gjaldtaka að hefjast á Geysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæði um aðild - EKKI um viðræður

Sjaldnast verður friður um eitt eða neitt í íslenskri pólitík. Þó er til einhvers vinnandi að koma þessu leiðinda ESB máli út af borðinu með því að kjósa um það í eitt skipti fyrir öll. Síðasta ríkisstjórn heyktist á því og nú gefa stuðningsmenn hennar út þá yfirlýsingu að það tíðkist ekki að gefa út yfirlýsingu í formi þjóðaratkvæðis um aðild.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður og formaður Bjartrar framtíðar, er svo vel að sér í ESB fræðunum að hann heldur að hægt sé að kjósa um samning. Guðmundur er ekki læs eða þá að hann hefur ekki kynnt sér reglur ESB um aðildarumsókn.

Samkvæmt reglum ESB þá sækir land um aðild og venjulega er það óafturkræf ákvörðun. Ekkert land hefur hætt við aðild síðan reglum sambandsins var breytt. Þegar ríki hefur sótt um aðild tekur við aðlögun. 

Í því er samningurinn fólginn að aðlögunarviðræðunum er skipt í 35 kafla. Þeir sem taka meðal annars á fiskveiðum, landbúnað, flutningum, orkumálum o.s.frv. Þegar kafli er opnaður hefjast viðræður um efni hans og aðildarríkið þarf að sýna á skýran og skilmerkilegan hátt hvort að það hafi tekið upp kröfur ESB sem um ræðir í hverjum eða hvernig það ætli að gera það. Þetta er samningurinn og það þarf varla gleraugu til að átta sig á því undir hvað umsóknarríki þarf að gangast til að komast inn í ESB. Bara að skoða þessi 35 kafla.

Vissulega eru til undantekningar frá þessum köflum en þær eru allar til bráðabirgða því annars þyrfti að breyta stjórnarskrá ESB, Lissabonsáttmálanum. Dettur einhverjum í hug að 300.000 manna þjóð geti fengið heila álfu til að breyta til dæmis sjávarútvegsstefnu sinni eða landbúnaðarmálum? Nei, enda sótti Ísland um aðild að ESB en ekki öfugt.

Jú, margt er vinnandi til að koma þessu leiðinlega máli út úr íslenskri pólitík. Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að við eigum að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina, rétt eins og síðasta ríkisstjórn átti að gera en þorði ekki.

Tilgangslaust er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald „samningaviðræðna“ enda eru aungvar slíkar í gangi. Um er að ræða aðlögunarviðræður og það er nákvæmlega það sem ESB ríkin vilja. Væri ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna við ESB myndi það þýða að ríkið ætti að ganga í ESB vegna þess að út á það ganga aðlögunarviðræðurnar.  


mbl.is ESB er og verður deilumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á köldum klaka í boði borgarstjórans

717897

Jón Gnarr, borgarstjóri, veit víst ekki um hálkuna á gangstígum borgarinnar annars hefði hann ábyggilega saltað þá eða sandað. Þá hefði þessi ágæta kona sem myndin er af á mbl.is ekki dottið og fjöldi annarra ekki þurft að leita á bráðamóttöku sjúkrahússins með langa nafninu sem einu sinni hét bara Borgarspítalinn og síðar Landspítalinn. En borgarstjórinn er löglega afsakaður, hann er að vinna að því að gera Reykjavík að herskipalausri borg sem er miklu mikilvægara og göfugra en að salt og sanda göngustíga.

Nei, nei, ég er ekkert bitur eða sár. Ég er heill heilsu eftir margar bylturnar undanfarna daga. Þannig er að ég hjóla stundum um borgina, sérstaklega í sundlaugarnar í Laugardal. Þá liggur oft leiðin um klakabunka á gangstéttum og göngustígum. Ég komst að því um daginn að það er ekkert vont að detta, það er lendingin sem er oft vond.

Þaer sem ég hjóla í hægðum mínum (ekki þó bókstaflega) vildi einhvern veginn til að reiðhjólið skrapp undan mér. Nákvæmlega þá var ég frekar annars hugar, horfði á umferðaljósið sem var framundan og velti því fyrir mér hvort græni kallinn myndi nú fljótlega birtast svo ég þyrfti ekki að bíða lengi. Þá fattaði ég að ekkert var undir mér hjólið. Við það brá mér doldið og kannski þess vegna skall ég um leið niður á magann og fleytti svo kerlingar (ef svo má segja) nokkra metra.

Sem betur fer var myrkur úti og vonandi ekki margir sem horfðu á fall mitt enda er ég spéhræddur með afbrigðum. Um áhorfendur vissi ég auðvitað ekkert og spratt þess vegna til vonar og vara samstundis á fætur og rennslinu lauk. Það hefði ég auðvitað ekki átt að gera. Betra hefði verið að reyna að ná áttum, sjá hvar ég var niður kominn og hvað væri undir mér (ef svo má segja). Og þar sem ég var að koma fótunum undir mig hélt spaugið áfram vegna þess að fótunum var ómögulegt að ná stöðu á klakabunkanum hála. Því var ég nauðbeygður að dansa einhvers konar kósakkadans í nokkrar mínútur (gæti þó hafa vefrið sekúndur eða sekúndubrot) í vonlausri von um góða stöðutöku (eins og þeir segja í viðskiptalífinu). Það gekk ekki eftir og því fátt annarra úrræða en að undirbúa hið snarasta lendingu á óæðri endanum. Með öðrum orðum, ég datt á rassinn.

Þannig sat ég nú móður og másandi eftir leiðindi sem langt í frá voru samboðin virðulegum manni sem ég leyfi mér stundum að halda að ég sé. Fyrir kemur að ég læri af mistökum mínum og þetta var reyndar ágætur tími til þess. Ég stóð því afar hægt upp, slétti úr fötunum og gekk virðulega að hjólinu, leiddi það út fyrir klakabunkana og gekk að umferðaljósunum og beið þar í fjórtán sekúndur. Á meðan fór fjöldi bíla framhjá og allir ökumenn og farþegar vinkuðu til mín brosandi eða hlægjandi.

Jæja ... Gott er að geta glatt fólk. En Jón Gnarr, þvílíkur fantur ertu að láta ekki salta eða sanda klakann á göngustígum almennilega!

 


mbl.is Klakinn bráðnar ekki í bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þagna kúabjöllur eða hljóðna ...?

Mikið var ég kátur þegar landsliðið sigraði það norska í Evrópumótinu í handbolta í gær. Ekki það að ég fylgist svo ýkjavel með þessari íþrótt heldur hitt að ég læt fjölmiðlanna hafa áhrif á mig, flýt svo að segja gagnrýnislaust með. Þannig er það áreiðanlega með fleiri.

Svo las ég fyrirsögnina í íþróttablaði Morgunblaðsins í morgun og þá vaknaði gagnrýnin hugsun, eiginlega upp úr þurru. Velti því fyrir mér hvort það sé málfarlega rétt sem þar segir. „Kúabjöllurnar þögnuðu“ stendur undir góðri mynd af hinum glæsilega handboltamanni Guðjóni Val Sigurðssyni. Mér finnst ómögulegt að kúabjöllur hafi mál og held þar af leiðandi að betra hefði verið að segja í fyrirsögn: Kúabjöllurnar hljóðnuðu.

Hins vegar getur þetta verið spurning um smekk en víst er að kýr baula oft mikið en þegja svo langtímum saman. Við þetta má því bæta að þær tala mannamál á nýársnótt ... Eða er það þannig að menn skilja mál kúa á þeirri nóttu?

Svo er að ef til vill þannig að inn ágæti höfundur fréttarinnar í blaðinu, Ívar Benediktsson, sem hingað til hefur ekki verið sakaður um að fara með fleipur, gæti einfaldlega átt við að Norðmenn hafi verið sem kúabjöllur og þeir því þagað „einum rómi“ eftir útreiðina sem þeir fengu frá landsliðinu.

Og að lokum má benda á að það vorum ekki við ... sem unnum Norðmenn heldur landsliðið í handbolta. Allt of oft eignar fólk sér frækin sigur og segir frá honum í fyrstu persónu fleirtölu (þó aldrei eintölu). Þegar landslið tapa er hins vegar miklu, miklu sjaldnar þannig sagt að „við“ höfum tapað. 


Esúbíó á Laugardalsvellinum

Benfika

Dags daglega var hann kallaður Esúbíó, eða þannig báru tólf ára strákar nafn þessa fræga manns fram. Hvort hann var snillingur vissum við auðvitað ekki en orðspor hans var rosalegt og því kom ekkert annað til greina en að fara á völlinn og sjá manninn. 

Í þann tíð var ég auðvitað Valsari og er raunar innst inni enn rauður ... þó svo að síðustu tuttugu og fimm árin hafi maður hvatt KR enda gerði ég eldri soninn ég að KR-ingi er hann var sex ára. Annað kom ekki til greina enda þá búandi fimmtíu metrum frá KR-vellinum. Það er nú hins vegar allt annað mál.

Eiginlega man ég fátt eftir þessum leik milli Vals og Benfíka nema hvað þeir síðarnefndu voru áberandi sólbrúnni. Ég man ekki einu sinni eftir því með hverjum ég fór á völlinn en þó man ég hvar við fengum stæði. Það var í norðvesturhlutanum, sem þá var eiginlega ekki neitt neitt fyrir áhorfendur. Minnir að við stæðum í malarbrekku sem núna er auðvitað löngu horfin. En mikið asskoti var margt fólk þarna. Hef aldrei séð annað eins, hvorki fyrr né síðar.

Svo birtist þessi frétt í Morgunblaðinu í Morgun og jafnvel hún kom mér á óvart. Minnti endilega að Valsarar hafi leikið í rauðu en þeir voru greinilega í hvítu. Siggi Dags í markinu, bara nafnið vekur minningar um æskuhetju.

Það var hins vegar þetta með jafnteflið. Síðan maður komst til vits og ára hefur maður margoft séð slök lið leika á móti þeim betri og eiga ekkert annað í pokahorninu en að pakka í vörn og búa þannig til allt annan leik en fótboltaleik. Það var eiginlega ekkert merkilegt við það að Valur skuli hafa haldið hreinu, eiginlega hefði það verið stórundarlegt hefði boltinn ratað aftur fyrir Sigga Dags.

Minnir mig á leikinn í sumar þegar KR-ingar tóku á móti óskaplega slöku írsku liði sem pakkaði í vörn allan leikinn, leikmenn stunduðu dýfur sem sumar hverjar voru mikið augnayndi en tengdust fótbolta ekki frekar en ég veit ekki hvað. Svo fögnuðu þeir gríðarlega í leikslok enda ætluðu þeir að stóla á heimaleikinn og slá KR-ingana út. Það tókst hins vegar ekki enda, eins og áður sagði, óskaplega slakt fótboltalið.

Valsarar stunduðu þá ekki dýfur frekar en Portúgalarnir. Þá var ekki búið að finna þær upp. Menn spiluðu bara eins og menn ...

 


Slapp hún með því að verða ólétt eða ...

Þessi fyrirsögn getur valdið misskilningi vegna þess að hún er ekki rétt. Fyrirsögnin þarf að segja rétta sögu. Hún er ekki á þá leið að kona hafi sloppið en orðið ólétt fyrir vikið rétt eins og að hún hafi sloppið lítið slösuð eða með reykeitrun. Óléttan og eldurinn tengist ekki.

Rétt hugsun veltur yfirleitt á orðaröðuninni. Berum þetta saman:

 

  • Slapp ólétt úr úr brennandi íbúð 
  • Ólétt kona slapp úr eldsvoða

 

Mér finnst seinni setningin betri, hún er styttri og segir rétt frá.

Ef fyrri setningin væri rétt mætti allt eins spyrja hvort útgangan hafi fengist með því skilyrði að konan væri gerð ólétt. Það væri nú aldeilis saga til næsta bæjar.


mbl.is Slapp ólétt út úr brennandi íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrautlegir borgarfulltrúar í starfsnámi á fullum launum

Ég er í vinnunni frá 9 til 5 og þegar ég kem heim þá er ég ekki kjörinn fulltrúi.

Þetta sagði borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar, í grein í Morgunblaðinu 6. júní 2012. Hann hafði þegið boð flugfélags til Parísar og gerðu margir athugasemdir við að borgarfulltrúi þægi boð í skemmtiferð og tæki ekki mið af siðareglum borgarfulltrúa.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagðist aðspurður ekki átta sig á spurningunni en hann væri eindregið á móti einelti.

Bílstæðasjóður

Þegar borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður bílastæðasjóðs, vaknaði eftir áramótin var honum sagt að bílastæðasjóður hefði tvöfaldað bílastæðagjöldin.

Ókei, fínt, sagði hann. Þá var honum bent á að borgaryfirvöld væru búin að samþykkja að hækka ekki gjaldskrár sínar og leggja það af mörkum við að halda aftur af verðbólgunni.

Úbbs, sagði borgarfulltrúinn og roðnaði pínulítið. Borgarstjóri sagðist hins vegar aðspurður ekki átta sig á spurningunni en hann styddi þó Pussy Riots í Rússlandi eitthundrað prósent.

Brúin yfir ósa Elliðaánna 

Fyrir nokkrum dögum upplýsti Morgunblaðið að göngu- og hjólreiðabrú yfir Elliðaárósa hefði kostað 264 milljónir króna. Mörgum þykir það gríðarlegur peningur en ekki borgarfulltrúum Besta flokksins.

Enginn sagði „Úbbs ...!“ en flestir munu þó hafa roðnað lítið eitt nema borgarstjórinn sem hló og sagðist vera á móti einelti.

Hofsvallagatan 

Við hjólreiðamenn fengum hjólabraut á Hofsvallagötu, bráðnauðsynleg framkvæmd með tilheyrandi skreytingum. Talsvert vantaði þó upp á að hjólreiðamenn landsins flykktust vestur í bæt til að nýta sér aðstæðurnar. Þar urðu þó til einstaklega skemmtilegar umferðarteppur. Einnig var altalað að Besti flokkurinn gæti ekki gert hvort tveggja í senn, greiða fyrir umferð bíl og hjóla.

Þegar íbúar í Vesturbænum lýstu yfir óánægju sinni var hætt við öll áform. Nokkrir sjálfboðaliðar í röðum Besta flokksins roðnuðu lítillega og töldu þess vegna sig ekki í standi til að mæta íbúum á fundi.

Borgarstjóri hafði ekki heldur tíma til að tala við Vesturbæinga því hann var í New York að kynna heimildarmynd um sjálfan sig, en hann sendi þó þau skilaboð að hann væri á móti símanjósnum Bandaríkjamanna.

Skerjafjörður 

Skerjafjörður hefur yfirbragð vinalegs þorps. Þar eru lágreist íbúðarhús, flest einbýlishús, og aðeins ein akstursleið úr hverfinu. Besti flokkurinn ætlaði að bæta úr þessu öllu (nema akstursleiðinni) og lét skipuleggja nýtt Breiðholt þar sem nú er flugbrautarendi. Fáir glöddust yfir framtakinu nema borgarstjóri sem lét hafa það eftir sér að öll stríð væri hættuleg heilsu fólks og Reykjavík ætti að vera herskipalaus.

Strætó

Borgarfulltrúar Besta flokksins eru ekki á móti umferð enda hlynntir strætó, þó þeir noti hann ekki sjálfir. Þess vegna á strætó að njóta forgangs í umferðinni hvort sem hann þarf þess eða ekki. Þeir notuðu Borgartún sem tilraun fyrir Strætó og í ljós kom að betra væri fyrir alla ef einkabílar biðu í einfaldri röð fyrir aftan strætó meðan hann hleypti farþegum út og inn. Með því móti jafnaðist aksturstími einkabíla og Strætó. Borgarstjóri sagðist ekki átta sig á málinu.

Námsmenn

Námsmenn eiga að vera á reiðhjólum, ganga um bæinn eða taka strætó. Þetta er eitt af grundvallaratriðum í stefnuskrá Besta flokksins. Þess vegna þarf ekki bílastæði fyrir utan þau hús sem námsmenn búa í, aðeins reiðhjólagrindur. Bíla sína geta þeir lagt einhvers staðar annars staðar, sagði formælandi Besta flokksins (þó ekki borgarstjóri en hann var í viðtali um efnahagsmál í Kastljósi).

Eineltið 

Af þessu öllu má sjá að nóg er að gera fyrir borgarfulltrúa Besta flokksins, sérstaklega á vinnutíma, það er frá 9 til 17 (ekkert frí í hádeginu).

Nú kann einhver að spyrja hvers vegna sé ekki minnst á borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í þessari stuttu samantekt. Við því er ekkert svar annað en að hér er ekki um einelti að ræða.

 

 

 


Þarf menningarstarf að vera á vegum sveitarfélaga?

Það hafa aftur á móti verið skrifaðar heilar bækur í Háskólanum hvernig megi skýra það út af hverju t.d. í sveitarfélögum með enga menningarstarfssemi séu íbúar ánægðari með menningarstarfsemi sveitarfélagsins en í Reykjavík.

Þetta segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn í viðtali við visir.is. Umræðuefnið er sú staðreynd að Capacent mælir í skoðanakönnunum mikla óánægju með þjónustu borgarinnar við almenning.

Þetta viðhorf Dags er í ætt við það sem Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og fyrrum ráðherra hafa haldið fram. Í stuttu máli hljóðar það á þann veg að gæði séu grundvöllur mikillar vinnu og miklir peningar skapa mesta ánægju. Misskilningurinn er sem sagt sá að á milli séu bein tengsl. Steingrímur hélt að hann gæti unnið nær allan sólarhringinn og náð miklum árangri en það var bara ekki þannig.

Nú væri gaman að vita hvaða sveitarfélög eru ekki með neina menningarstarfsemi. Mér vitanlega sinna öll sveitarfélög menningarstarfi, bæði beint og óbeint. Ég þekki til í litlum sveitarfélögum sem reka bókasöfn, slíkt telst ábyggilega menningarstarf. Þar er mjög algengt að einstaklingar eru styrktir til að sinna menningarmálum og fleiri en sveitarfélög veita styrki, t.d. eru menningarráð starfandi í mörgum landshlutum. Styrkir eru veittir til leiklistarsýningar, málverkasýningar, ljósmyndasýningar, tónleika af fjölmörgu tagi, sagnaritun og fleira og fleira. Og margvísleg menningarstarfsemi flyst frá einum stað til annars.

Mér finnst algjör óþarfi af Degi að sneiða að fátækum sveitarfélögum og gera að því skóna að engin menning fyrirfinnist þar. Skynsamlegra væri fyrir hann og meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur að komast að því hversu margir nýta sér menningarstarf hin opinbera í Reykjavík og ekki síður hvers vegna hinn stóri fjöldi gerir það ekki.

Staðreyndin er einfaldlega sú að í litlum sveitarfélögum sækja stundum nær allir íbúarnir menningarstarf af einhverju tagi. Ég hef búið á þremur litlum bæjum á úti á landi og á meðan sótti ég miklu fleiri menningarviðburði en þegar ég hef verið búsettur í Reykjavík.

Í ofanálag er fólk á landsbyggðinni oft bæði veitendur og þiggjendur í menningarstarfi. Þess vegna er mannlífið þar stórbrotið og skemmtilegt og ekki síður fallegt. Sagt er að í samanburðinum við landsbyggðina séu hlutfallslega fleiri höfuðborgarbúar einmanna.

Dagur B. Eggertsson heldur að í því sé fólgin þversögn að fólk sé ánægt með menningarstarfsemi þó hún sé ekki kostuð og skipulögð af sveitarfélaginu. Hann á greinilega margt ólært.


Náttúruvernd eða kerfisvernd

Landsvirkjun er síst af öllum innlendum aðilum fallið til að hafa forystu um náttúruvernd á Íslandi. Hingað til hefur þurft lög og reglur til að halda þessu fyrirtæki í skefjum og dugar varla til. Fyrirtækið býr til og notar núna verðmiða á fyrirhugaða veitu framkvæmd sem rök gegn náttúruvernd sem umhverfisráðherra margir aðrir taka gagnrýnislaust undir. Afskipti fyrirtækja eins og Landsvirkjunar af stjórnmálum eru ekki við hæfi.
 
Eigum við að vaða áfram í blindni þegar Landsvirkjun þóknast eða eigum við að vera gagnrýnin? Liggur það ekki í eðli máls að borgararnir megi vera gagnrýnir á framkvæmdir stjórnvalda og fyrirætlanir fyrirtækja?  

Sumir halda því fram að vegur í gegnum Gálgahraun skipti ekki höfuðmáli. Sömu rök eiga þá líklega við um Rauðhóla og annað smotterí. En hvað skiptir þá höfuðmáli? Hvað skiptir höfuðmáli þegar bæjarstjórn Garðabæjar eða önnur sveitarfélög hugsa sér til hreyfings?
 
Er þá lítið jarðrask í lagi? Og hver er munurinn á litlu eða miklu jarðraski? Hvenær á maður svo að álíta svo að nóg sé komið af „jarðröskum“ og skemmdum á smotteríum ...?

Ég er þess fullviss að fjöldi sjálfstæðismanna eru mjög uggandi yfir umhverfis- og náttúruvernd hér á landi og þeir líti ekki svo á að smávægileg atriði skipti litlu. Þau skipta máli, jafnvel í náttúru landsins. Stóru „atriðunum“ fer fækkandi, það er að segja víðerninunum. Hvað er þá eftir til að hafa áhyggjur af ef ekki smáatriðunum?

Rammaáætlunin er góð sátt um nýtingu landsins en hana, eins og aðrar sáttir, verður að halda.
 
Munum svo að það eru ekki þeir sem kallaðir eru náttúruverndarsinnar sem rufu sáttina um Rammáætlun. Lítum á hnignandi orðspor ríkisstjórnar og þingsins. Ég fullyrði að um er að kenna misvirtum ráðherrum og bæjarstjórnum eins og í Garðabæ. Vogi einhver sér að gagnrýna málefnalega aðgerðir eða framkvæmdir rjúka þessir aðilar upp til handa og fóta vogi og öll rök gegn framkvæmdum eru sjálfkrafa talin til persónulegra árása og þau því stórhættuleg.

Er nú ekki furða þó illa sé komið fyrir stofnunum ríkisins, löggjafarvaldinu og ríkisvaldinu þegar ekki er betur staðið að málum og sættir rofnar. Er ekki bæjarstjórinn í Garðabæ og umhverfisráðherra komnir í sömu stöðu og rónarnir sem sagðir eru hafa komið óorði á brennivínið.

Hver sagðist nú ætla að afnema ný náttúruverndarlög einn og óstuddur? Sá nefndi ekki Alþingi í yfirlýsingu sinni, hans var löggjafarvaldið og dýrðin. Þannig verður óorðið til ... og öðrum verður ómótt. Skiptir engu hvort maður er hlynntur þessum náttúruverndarlögum eða ekki.
 
Uppistaðan í ofangreindu ritaði ég sem athugasemd við blogg vinar míns, Jóns Magnússonar, lögmanns. Hann taldi sig vera að ræða um náttúruvernd en fjallaði þó aðeins um kerfisvernd. Þetta var með endemum slöpp ritsmíð, ólíkt þeim mælska og ágæta manni. Hann stekkur til varnar málstað kerfisins í stað þess að brúka gagnrýna hugsun. Hann á að berja á kerfinu sem veður fram á sama hátt og gert var þegar Rauðhólarnir voru rústaðir ... eða þegar jarðýtunni var sigað á Gálgahraun.
 
Það er svo allt annað mál að ástæðan fyrir þessari kerfisvörn er líklega sú að vinstra liðið er meira áberandi í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Í stað þess að móta sér skoðun á þessum málaflokkum lenda margir hægri menn í því að verja kerfið, vonda málstaðinn.

Allt árið nema þriðjudaga og laugardaga

Á meðan unnið er að því í iðnaðarráðuneytinu að útbúa nýjan skatt á ferðafólk og hægt er að hafa af því meiri pening en þegar er gert kvartar ferðaþjónustan. Af öllum þeim milljörðum sem ríkissjóður hagnast af innlendum og útlendum ferðamönnum er borið við peningaleysi þegar bókstaflega þarf að greiða götur ferðamanna.

Í Morgunblaðinu í gær er grein eftir Sigurlaugu Sverrisdóttur, hótelstjóra, sem kvartar undan því meðal annars að hinn svokallaði Gullni hringur er ruddur alla daga vikunnar nema þriðjudaga og laugardaga. Þá mega ferðamenn éta það sem úti frýs, aðra daga er boðið upp á hlaðborð.

Þversögnin í þessu öllu saman er sú að á meðan ráðherra ferðamála er upptekinn af því að útfæra skatt er ekki vitað hvernig eigi að ráðstafa skattfénu nema því aðeins að ætlunin sé að lá það renna í sömu hítina og annað skattfé ferðamann lendir nú þegar í. Ráðherrann slær þó um sig og segist ætla að veita fé í uppbyggingu ferðamannastaða og náttúru- og umhverfisvernd. Nánari upplýsingar fást ekki um verkefnin og þaðan af síður hvort eitthvað fé sé ætlað í að þjónusta ferðamenn, halda opnum vegum, hálkuverja gönguleiðir og álíka.

Svo bítur þetta allt í skottið á sér. Ferðamaður lendir í vandræðum og kalla þarf út lögreglu og björgunarsveitir og löggan þarf að draga saman reksturinn, fækka mönnum og svo framvegis. Engum dettur í hug að veita fé til björgunarsveita sem þó vinna óeigingjarnt starf fyrir sjálfsaflafé og ríkissjóður sparar sér þá peninga og miklu meira.

Þetta gengur ekki svona öllu lengur. Vegagerðin skilgreinir sig ekki sem þjónustufyrirtæki og fríar sig algjörlega frá því að vera í ferðaþjónustu. Á kurteislegan hátt orðar Sigurlaug Sverrisdóttir þetta svona í Morgunblaðsgreininni.

Það sem er umhugsunarvert er sú staðreynd að sú mikla vinna sem hefur farið í að hvetja ferðamenn til þess að heimsækja landið allan ársins hring hefur ekki ennþá skilað sér til allra þjónustuaðila innanlands. Það er sjálfsagt að þegar miklar og hraðar breytingar eiga sér stað fylgi ekki öll þjónusta og markaðstengd atriði í kjölfarið fyrr en nokkru síðar. Slíkt einskorðast ekki við ferðaþjónustuna heldur svo margt annað. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband