Eldgos í Þrengslum eða ...

IMG_0395

Nokkuð bjart var í dag á suðvesturhorninu enda daginn tekið að lengja svo maður tekur vel eftir því. Sólarupprás var um 10:42 og sólin settist um 16:33.

Sólarlagið var sosum ekkert ásjálegt þar sem ég var, skammt sunnan við Þrengsli þar sem Leitahraun féll forðum niður af heiðinni og ofan í sjó. Það er nú hins vegar aukaatriði enda gerðist þetta fyrir mitt minni.

Hitt var merkilegra að er ég snéri baki í sólina sem gyllti skýin er aftur byrgðu manni beina sýn á sólarlagið þá blöstu Þrengsli við ... og, og, og ég sá ... svei mér þá ... eldgos.

Þarna var ég kominn upp á lítið fell sem nefnist Sandfell var ekki annað að sjá en að eldur væri uppi í Lambafelli. Sem sagt frá því virtist sem fjallið stæði í ljósum logum eða var eldurinn hinum megin við það.

IMG_0411IMG_0423

Nokkrum mínútum eða sekúndubrotum síðar náði ég að róa mig niður enda afar ólíklegt að þetta gæti verið eldgos. Miklu frekar var að sólarlagið stundaði einhverja galsafengna leiki sína í tilefni dagsloka.

Myndirnar styðja þó mál mitt, eða skrökva með mér. Engu líkar er en uppi á fjallinu logi og skýin fyrir ofan benda til að mökkur væri að myndast.

Reyndar finnst mér eins og að „eldgosið“ hafi byrjað eins og þegar gömlum traktor væri startað. Upp koma nokkrar sótrokur áður en hann fer endanlega í gang.

IMG_0426

Þannig er nú gaman að fylgjast með náttúrunni og líta á þær myndir sem hún ritar í land eða himinn. Nokkru vestar gyllti sólin lítið ský sem var í laginu eins og skrýtið og ókennilegt lagardýr. Ég útiloka þó ekki að þetta hafi verið fljúgandi furðuhlutur.

Nokkru síðar gekk ég niður af Sandfelli og klofaði snjóinn út að vegi. Þaðan ók ég norður Þrengsli, mætti fjölda bíla. Ekki var ég alveg laus við spenning þegar ég kom út í Svínahraunsbruna. En því miður. Hvergi var eldgos að finna og ekkert um slíkt í útvarpinu. Enn á ný var Palli einn í heiminum með illbeislanlegt ímyndunarafl sitt.

Hins vegar er eftir að kanna þetta með fljúgandi furðuhlutinn ... Það skyldi þó aldrei vera að hann hafi lent í Bláfjöllum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband