Kellingavæðing þjóðarinnar gengur út yfir allan þjófabálk

DSCN4252

Vissulega getur verið notalegt að hjóla á góðum degi en það er engan veginn hagkvæmur ferðamáti allan ársins hring. Þeir sem halda annað hljóta að búa í einhverju öðru umhverfi en við hin.

Engu líkar er en verið sé verið að „kellingavæða“ þjóðina. Daglega er gert lítið úr útiveru og hreyfingu nema einna helst „á góðum degi“, það er þegar vel viðrar.

Þá má ekki rigna, ekki vera hvasst (fjölmiðlaliðið segir að „það blási“ þegar hreyfir vind), ekki snjóa, ekki vera slagveður né skafrenningur og svo framvegis. Helst á að vera sól og logn, þá eru góðar aðstæður til útiveru.

DSCN1328

Ef eitthvað fer úrskeiðis, bíl festist, fólk meiðist í fjallið, rennur á svellbunka í þéttbýli eða álíka þá eru alltaf einhverjir bulludallar fljótir með fordómanna. Ef slíkir fengju að ráða væri enginn úti við nema „á góðum degi“

Hvers konar endemis andskotans bull er þetta í fólk sem heldur þessu fram? Þar með er höfundur þeirra orða sem vitnað er til hér að ofan, Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og einn þeirra fjölmiðlamanna sem ég hef hvað mest hælt fyrir skynsamlegar skoðanir. Hún er engu að síður ein af þessum „kellingum“ sem einna helst meta umhverfi sitt og aðstæður út frá hægindastólnum við stofugluggann.

Þetta er í sama stíl og „börnin“ sem fá að stjórna þáttum í hljóðvörpum landsmanna og er tíðrætt um leiðindaveður þegar rignir á suðvesturhorni landsins.

Þetta fólk veit ekki um þúsundir landsmanna sem njóta útiveru allan ársins hring, hvort sem það rignir eða snjóar og skiptir litlu þó „blási“. Það setur undir sig hausinn og veður í gegnum slagveðrið eða skafrenninginn og blóðið rennur í æðum með náttúrulegum hraða. Á meðan kalka æðarnar í „kellingunum“ við stofugluggann. Og þær síðarnefndu (af báðum kynjum) skilja ekkert í þeim sem eru utandyra.

DSC00165

Rúmt ár er nú síðan ég dustaði rykið af hjólinu mínu og síðan hef ég hjólað um Reykjavík nær daglega, minnst þó síðasta sumar. Þar að auki þekki ég fjölda fólks sem hefur stundað hjólreiðar, suma daglega í tugi ár svo ekki sé talað um herskara hjólreiðamanna sem ég mæti á hverjum degi.

Af reynslu minni og þekkingu fullyrði ég að Kolbrún Bergþórsdóttir hefur algjörlega rangt fyrir sér í tilvitnuninni hér að ofan.

Frá barnæsku hef ég stundað útiveru og ferðalög og einnig af reynslu minni og þekkingu veit ég að allir hafa gott af því að hreyfa sig úti undir beru lofti. Og, kæri lesandi, ekki nefna hættu á slysum eða lífshættu. Þú veist að lífið er ein áhætta og útilokað er að draga úr henni með því að sitja í hægindastólnum við stofugluggann. Það býður bara annarri hættu heim. Er nú ekki betra að taka ærlega á og hreyfa sig, skrönglast um fjöll og dali, og koma heim endurnærður og fá sér til dæmis eitt eða tvö koníaksglös eða hvað það nú er sem hverjum og einum finnst við hæfi?

DSC_0141

Það er bæði hollt og gott að hjóla og mjög auðveldlega hægt að sinna flestum erindum. Ekki misskilja mig. Ég leggst á engan hátt gegn einkabílnum og reiðhjól kemur á engan hátt í staðinn fyrir hann, að mínu mati. Hvort tveggja veitir lífinu meiri fyllingu rétt eins og fjölbreytt mataræði.

En um það snýst ekki málið heldur að koma „kellingum“ af báðum kynjum út úr húsi, fá þær til að hreyfa sig og njóta útiverunnar eins og svo margir gera. Að minnsta kosti ættu þær að halda sér á mottunni og ekki tjá sig um það sem þær vita ekki nokkurn skapaðan hlut um (tilmæli ekki tilraun til ritskoðunar ...)

Jæja, skyndilega er úr mér runnin fýlan vegna orða Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í morgun. Þó bið ég engan afsökunar á orðavali og hafna því eindregið að lesa yfir það sem ég hef hér skrifað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband