Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

KR-ingar stóðu sig vel gegn Standard Liege

Fór á völlinn í gær og sá KR tapa fyrir Standard Liege. Þetta var stórgóður leikur og í raun hefði sanngirni átt að ráða hefði hann endað með jafntefli. En svo skrýtið sem það er þá ræður sanngirnin engu heldur mörkin sem er alveg stórmerkilegt þegar pælt er í'ðí.

Segja má að frammistaða KR hafi komið eins og algjör vatnsgusa yfir þá belgísku. KR-ingarnir lék afar vel, boltinn gekk hratt á milli manna og smám saman komust þeir nær og nær markinu en náðu því miður ekki að skora fyrr en Kjartan Finnbogason náði að pota honum inn.

Völlurinn var mjög blautur. Haft var á orði er Bjarni Guðjónsson renndi sér í tæklingu að hann hefði runnið út í sjó hefði ekki verið girðing utan um völlinn, hann hreinlega ætlaði aldrei að stoppa.

Belgarnir voru góður, eldsnöggir og fljótir. Þeir leituðu upp kantana og fóru stundum illa með okkar menn. Mikið fjandi væri nú gaman ef KR-ingarnir væru svona liprir. Samt munaði ekki svo ýkja miklu á liðunum, ekki fyrr en líða tók á síðari hálfleik. Þá var eins og okkar menn slökuðu á og Belgarnir fóru að spila þann fótbolta sem þeim þykir bestur og uppskáru auðvitað tvö ódýr mörk.

Tveir síðustu leikir KR hafa verið afburðavel leiknir af þeirra hálfu en engu að síður töpuðust báðir, sá fyrri fyrir Fram í deildinni og nú gegn Standard Liege. Ég hef samt engar áhyggjur. Ef KR heldur áfram að spila vel og leggur aðeins meira í framlínuna þá hirða þeir titilinn í lokin, dolluna, eins og sumir orða það. 


Tilboð sem ekki er hægt að hafna

Þessi „lögregluskattur“ er einstaklega furðulegur og ekki lítill fjárhagslegur baggi á Frönskum dögum. Svo virðist sem að lítið samræmi sé á milli lögregluembætta um hvort og þá hversu mikið gjald þarf að reiða fram þegar bæjarhátíð er haldin og vel þess virði að skoða hvort að þar njóti allir sammælis í þessum efnum. Til dæmis grunar mig að höfuðborginni berist varla himinhár reikningur frá lögreglunni fyrir hverja Menningarnótt.

Þetta segir Hafþór Eide Hafþórsson hjá franska safninu á Fáskrúðsfirði í viðtali í Morgunblaðinu en framundan eru franskir dagar þar í bæ. Vandinn við hátíðina og raunar margar bæjarhátíðir er krafa lögreglunnar um löggæslu.

Ekki hef ég mikla reynslu af  vinnubrögðum mafíunnar nema úr bókum og bíómyndum. Þar hef ég þá þekkingu að mafían gefur fyrirtækjum og einstaklingum kost á „verndargjaldi“. Um er að ræða tilboð sem ekki er hægt að hafna vegna þess að þá er illt í efni fyrir viðkomandi.

Þetta minnir mann óneitanlega á kröfu löggunnar sem býður hátíðarhöldurum upp á að greiða fyrir löggæslu. Sé tillagan ekki samþykkt verður engin hátíð, leyfi til að halda hana fæst einfaldlega ekki. Hér er dálítið sterkt tekið til orða en hitt verður að segja mörgum lögregluyfirvöldum til varnar að sum hver hafa allt aðra á þessu heldur en ráðuneyti innanríkismála í Reykjavík.

Þannig hefur lögreglan átt drjúgan þátt í því að bæjarhátíðir hafa breyst og sumar hverjar lagst af. Þetta þekki ég eftir að hafa komið að nokkrum bæjarhátíðum. Sú stærsta sem haldin er á landinu er viðkomandi sveitarfélagi algjörlega að kostnaðarlausu og er þá átt við menningarnótt í Reykjavík. 


Löglegt en siðlaust að gefa hlut í bankanum

Landsbankinn er að stærstum hluta í eigu ríkisins eða 98% og rest á bankinn sjálfur. Nú ætlar eigandinn að gefa starfsmönnum bankans 1% af hlutafé hans og enginn hreyfir mótmælum.

Hvers á þjóðin að gjalda að eign hennar er gefinn örfáum? Hvað með Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og önnur fyrirtæki sem ríkið á. Er ætlunin að gefa starfsmönnum hluta þeirra?

Ég þyrfti eflaust að senda fjármálaráðherra bréf og mótmæla þessari gjafmildi hans sem handhafa eignarhluta ríkisins. Jafnframt ætti ég að krefjast míns hlutar fyrst verið er á annað borð að gefa ríkiseigur.

Líklega er þetta löglegur gerningur en, svei mér þá, gjörsamlega siðlaus. 


mbl.is Starfsmenn bankans eignast um 1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er munurinn á tjaldsvæði og tjaldstæði?

Í Morgunblaðinu kennir margra grasa. þar er að finna mikinn fróðleik og það þurfa ekki endilega að vera lærðar greinar eftir blaðamenn, fræðimenn eða almenning. blaðsíðu sem nefnist „Dægradvöl“ er krossgáta, orðarugl og Sudoku. Þar er líka „Málið“, nokkrar línur um íslenskt mál. Oftast rituð af þekkingu og fróðleik og af slíku ættu fæstir að fá nóg. 

Í dag var ég ekki sammála höfundi „Málsins“. Hann segir:

„Tjaldsvæði“ er að leggja undir sig markaðinn. Í Ísl. orðabók er það sagt „svæði ætlað undir tjöld, tjaldvagna og hjólhýsi“. Tjaldstæði, sem áður dugði fullvel, er sagt „staður til að tjalda á“. Þykir „-svæði“ fínna í stjórnsýslumáli?

Mér hefur ávallt líka vel við orðið „tjaldsvæði“ enda brúkað þau mikið í gegnum árin. Oftast eru á skipulögðum svæðum mörg „tjaldstæði“. Þó kemur iðulega fyrir að þar sem ég kýs mér næturstað er aðeins eitt tjaldstæði, það er mitt eigið. 

Væntanlega þarf ekki að rökræða frekar muninn á „tjaldsvæði“ og „tjaldstæði“. Hins vegar get ég vel samþykkt að „tjaldstæði“ geti verið í fleirtölu og þá mörg á einhverju ... tja, liggur ekki beinast við að kalla það tjaldsvæði.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það mér að meinalausu þótt einhver auglýsi „tjaldstæði“ fyrir almenning og hann nýti sér þau. Þrátt fyrir það finnst mér „tjalsvæði“ betra og langt í frá vera stjórnsýslumál.

 


Er eilífur rekstrarhalli Ríkisútvarpsins ekkert vandamál?

RÚV blæðir út og það þrátt fyrir milljarða í forgjöf. Í heild hefur ríkisfjölmiðilinn haft tæpar 30 þúsund milljónir í heildartekjur en tapað 1.269 milljónum eins og áður segir. Rekstur Ríkisútvarpsins var síst skárri á árunum fyrir formbreytinguna, en 2005-2006 tapaði fyrirtækið um 960 milljónum króna á verðlagi síðasta árs. Á síðustu tíu árum nemur heildartap stofnunarinnar 3.183 milljónum króna á föstu verðlagi. Krónískt tap hefur því lítið með rekstrarform stofnunarinnar að gera.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritar ofangreint í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann bendir á að rekstur Ríkisútvarpsins sé ekki glæsilegur, stofnunin tapar gríðarlegum peningum, rúmum þremur milljörðum króna á tíu ára tímabili.

Ruv2

Hingað til hefur ekkert mátt gera við krónískt tap Ríkisútvarpsins, ekki má gagnrýna reksturinn að einu eða neinu leyti. Vandinn er gríðarlegur en pólitískur vilji fyrir breytingum, fækkun starfsmanna og annað má helst ekki ræða. Fáar aðrar stofnanir  fá jafn mildilega meðferð vegna rekstrarhalla. Engu líkar er en að margir séu hreinlega sáttir við að Ríkisútvarpið sæki sér svona af og til hnefa í ríkissjóð.

Þetta allt minnir mig á þá tíð er ég var blaðamaður á Frjálsri verslun og ræddi við þáverandi fjármálastjóra Ríkisútvarpsins árið 1980 vegna hallarekstur þess. Mér er til efs að þessi stofnun hafi nokkurn tímann verið rekin án halla, hvort sem hún hefur verið í samkeppnisrekstri eða utan hans. Mörgum ofbauð rekstrarhallinn en þá, eins og nú, voru þeir til sem fannst hann lítið vandamál.

Mér er það minnisstætt hversu reiðir forsvarsmenn Ríkisútvarpsins voru þegar Frjáls verslun með þessari umfjöllun kom út. Einhver þeirra hringdi í mig og jós yfir mig skömmum fyrir að voga mér að deila halla rekstursins á starfsmenn.

Ruv1

Svo var það talið afar ljótt af mér að leggja svona mikla áherslu á tapið. Það skipti í raun litlu máli miðað við menningarlega starfsemi og þörfina fyrir úrvarp og sjónvarp. Það var bara ríkisvaldið sem fjármagnaði ekki reksturinn nægilega vel. Sá rammi sem ríkið skammtaði  var hreinlega ekki nógu rúmur. Þetta viðhorf birtist enn og aftur í rekstri Ríkisútvarpsins eins og Óli Björn Kárason bendir á í grein sinni.

Þetta minnir mig á þann tíma er ég dvaldi á Grikklandi fyrir nokkrum árum. Mér var starsýnt á umferðina og brot á einföldustu umferðareglum. Grískir vinir mínir sögðu að umferðareglurnar væru ekki nægilega góðar og þess vegna væru þær brotnar. Sama er viðhorf er nú með hallarekstur ríkisstofnanna. Stjórnendur fara viljandi framúr heimildum vegna þess að fjármögnunin er ekki nægilega góð. Þeirra virðist vera fjárveitingavaldið.

Auðvitað á þetta ekki að þýða annað en viðkomandi yfirmenn verði látnir taka pokann sinn. Það er síðan ágæt hugmynd um að breyta formi ríkisstofnunar, jafnvel leggja hana niður. 

 


Er ESB og ríkisstjórnin á móti þjóðaratkvæðagreiðslu?

Farið er að gæta mikillar óþreyju meðal fólks vegna umsóknarinnar um aðild að ESB. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu að draga umsóknina til baka og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðlögunarviðræðunum hefur vissulega verið hætt en er það nóg?

Tvær skýringar eru á loforði ríkisstjórnarinnar. Hún hefur stöðvað þessar viðræður en eftir er þjóðaratkvæðagreiðslan um aðildina.

Sumir ráðherrar halda því fram að stöðvun viðræðnanna sé fullnægjandi efnd á loforði. Sé ákveðið að halda áfram með þær verði það ekki gert nema þjóðin samþykki það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er hins vegar ekki það sem fólk bjóst við og raunar ekkert annað en hártogun.

Við sem höfum lagst gegn aðild að ESB höfum krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Síðasta ríkisstjórn sveikst um að bera aðildarumsóknina undir þjóðina, lét nægja að láta þingið samþykkja. Hún vissi auðvitað sem var að þjóðin hefði hafnað umsókninni.

Nú virðist komin einhvers konar bullpólitík í málið, blýantsnagarar hafa tekið það yfir. Gera á skýrslur, fara í umræður á þingi til að þóknast Brussel í þessu öllu. Greinilegt er að okkur er vandi á höndum vegna þess fljótræðis að sækja um aðild að þjóðinni forspurðri.

ESB má ekki við því að Ísland hafni aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og út á það gengu viðræður Sigmundar D. Gunnlaugssonar, forsætisráðherra við ráðamenn í Brussel. Verði hér þjóðaratkvæðagreiðsla og ESB aðildinni hafnað mun ESB telja það óþolandi högg og þar verður okkur hugsuð þegjandi þörfin fyrir að hafa sótt um með hangandi hendi.

Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli ekki að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðildina. Láta nægja að segja að aðlögunarviðræðurnar verði ekki teknar upp aftur nema að henni undangenginni. Það er bara ekki það sem við Sjálfstæðismenn samþykktum á síðasta landsfundi. Pólitískt sé er þjóðaratkvæðagreiðsla eina rétta leiðin til að leiða þetta mál í eitt skipti fyrir öll til lykta. Þetta er eiginlega krafa almennings, skiptir litlu hvort menn eru með eða á móti aðild.


mbl.is Skýrsla um ESB kynnt í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfum ekki efni á nýjum Landspítala

Við höfum ekki efni á nýjum Landspítala. Það er hafið yfir allan vafa. Því til viðbótar þarf að fara yfir alla útreikninga og kanna hvort þessi bygging byggist á því að leggja niður sjúkrastofnanir á landsbyggðinni.

Í ofanálag erum við að troða honum í fullbyggt hverfi, eyðileggja ásýnd borgarinnar á þessum stað, búa til borgríki inni í borginni með öllum þeim óþægindum sem fylgja. Nær væri að staðsetja hann austur við Úlfarsfell.

Við byggðum tónlistarhús án þess að hafa efni á því. Sú bygging er nú komin í gagnið og tilgangslaust að sýta gerðan hlut. Hins vegar eigum við að hafa vit á því að endurskoða áætlanir um nýjan Landspítala og að minnsta kosti fresta honum um tíu ár. 


mbl.is Áfram haldið þrátt fyrir óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn njóta tjaldferða eins og annað fólk

880722-74

Það er eitt og sér að gera athugasemdir við útbúnað fólks og nesti. Ekki er til dæmis verjandi að vera vatnslaus víða norðan Vantajökuls. Hins vegar er ekkert að því að níu ára krakki sé í tjaldferð á hálendinu. Að mínu mati er fyrirsögnin afskaplega vond og eiginlega tilraun til skoðanamyndunar, að það sé eitthvað slæmt að hafa börn með í tjaldferð.

Ég þekki fjölda manns sem hefur farið með börn sín í hálendisferð. Það hef ég líka gert. Svo framarlega sem útbúnaðurinn er í lagi og foreldrar eða forráðamenn með reynslu þá skiptir aldurinn litlu máli. 

Ég held að eitt það hollasta sem foreldrar geti gert með börnum sínum er að fara í útlegu. Láta þau ganga og erfiða dálítið. Fjölskylda er svipuð og aðrir hópar, hún hristist saman og nýtur ferðalagsins, treystir böndin.

í ferðum mínum hef ég fylgst með fjölda barna sem sýnt hafa ótrúlegan dugnað og notið ferðalagsins. Þau styrkjast og þjálfast smám saman. Um leið verður að muna eftir að hugsa vel um þau láta þeim líða vel og muna að gönguferðir eru ekki til þess að fara yfir sem mest svæði á skemmstum tíma. 

Drengurinn á myndinni er sex ára og hún er tekin í bröttu fjallinu ofan Skáladals í Aðalvík. 


mbl.is Níu ára í tjaldi á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið þráláta suð í norðureyra

Oft hef ég skrifað heimskulega pistla að þessa bloggsíðu mína. Versti pistillinn og sá bjálfalegasti var án ef sá sem ég ritaði í 3. október í fyrra. Þessi er kemur næstu í þeirri röð.

Pistillinn sá arna fjallaði um þrálátt suður í eyra mér sem kviknar í hvert sinn er ég kom að Borgarstjóraplaninu í Heiðmörk. Þaðan hafði ég stundað hlaup um fjögurra mánaða skeið á þessu fallega stað og aldrei brást þetta suðu. Ef ég ætti að lýsa því þá er þetta svona hamfarasuð sem hefur einstaklega næma og varnfærna tónsveiflu. Um dúrinn veit ég ekkert.

Í pistlinum eru þessi orð, og brýt ég nú það boðorð mitt að vitna aldrei í sjálfan mig:

Í hvert skipti að ég kem að bílastæðinu við fjögurra kílómetra hringinn legg ég bílnum alltaf á sama hátt á Borgarstjóraplaninu svokallaða og geng út. Alltaf er ég opna bílhurðina og stundum áður fæ ég svo ákaflega mikið suð í norðureyrað ... ekki það syðra. Ef ég sný mér, þá verður norðureyrað að suðureyra og suðureyra að norðureyra, vona að lesendur missi ekki athyglina við svona tæknileg flókna frásögn. Þá heldur suðið áfram í suðureyranu en ekkert heyrist í því nyrðra. Hið sama gerist þegar ég legg bílnum við brúna þar sem ég byrja 7,8 km hringinn. Suðið er samt miklu minna í norðureyranu en á Borgarstjóraplaninu og það hverfur síðan er ég byrja hlaupin. Hið merkilegasta við þetta er að er ég kem hlaupandi upp á Borgarstjóraplanið, þar sem ég áður lagði bílnum, byrjar suðið í norðureyranu, en hættir síðan er ég hleyp undan því (held ég).

Í lok október í fyrra hætti ég að hlaupa í Heiðmörk og smám saman dró úr hlaupaáhuganum. Í maí á þessu ári kviknaði hann aftur og ég fór að hlaupa í Heiðmörk, í unaðslegur, röku vorinu. Brá nú svo við að ekkert var suðið fyrr en í júní, þá kviknaði það aftur og er nú með hæsta móti.

Enn veit ég ekkert hvernig stendur á suðinu en í fyrra skrifaði ég þetta í sama pistli:

Og hvað þýðir þetta suð. Ég er alveg pottþéttur á að það á rætur sínar að rekja til innanmeina í jarðskorpunni undir Heiðmörk, hægra hreyfinga á kviku sem bíður þess að skjótast upp þegar aðstæður verða réttar. 

Nú leita ég aftur til lesenda minna vegna þess að hugsanlega ástæðan fyrir þessu suði geti verið stórvægilegri en jarðskorpuhreyfingar.

Alvarlega þenkjandi maður í pottinum í sundlaugunum hefur nefnt við mig að hér geti verið um að ræða pólskipti en þau ku gerast með reglubundnu millibili á henni jörð þó enginn núlifandi hafi verið vitni að þeim.

Greinarleg kona benti á að þetta gæti verið merki um alvarlega atburði í pólitískri sögu landsins.

Sonardóttir mín heldur því hins vegar fram að ég sé skrýtinn. Ég er eiginlega opinn fyrir öllu nema hinu síðastnefnda sem ég vísa staðfastlega á bug, en barnið hlær.

 

 

 


Áróðurinn gegn íslenska sumrinu

IMG_0062 - Version 2DSCN1987

Sífellt dynur á okkur áróður gegn íslenska sumrinu. Blaða- og fréttamenn þreytast ekki á því í gúrkutíðinni að reyna að telja almenningi trú um að hér geysi rigningarsumar, ómögulegt að vera hér, betra sé að fara til útlanda.

Blaðamaður mbl.is heldur því fram að Íslendingar séu „veðurbarðir“ og þá dreymi um ferðir til Evrópu. Þetta er heimskuleg alhæfing og því ósönn.

Veðrið hér á landi er hvorki verra né betra en það hefur alltaf verið. Hér rignir, sem betur fer. Ef ekki væri hér líklega óbúandi. Við njótum alls og höfum það afar gott. 

IMG_0054 Reykjakollur SV - Version 2

Íslenskt sumar er það fegursta og besta sem fyrirfinnst. Engu skiptir það þó rigni eða sólin skíni. Sumarið er bæði kraftmikið og stórkostlegt í senn. Rigningin hefur bara góð áhrif á gróðurinn og skaðar ekki landið á neinn hátt, þvert á móti.

Hið aumlegasta sem til eru hlýtur að vera veðurfarslegir flóttamenn frá Íslandi í einhverju Evrópulandi. Landið okkar er stórt, nægilega stórt til að einhvers staðar skín sól.

Íslenskt sumar er betra en fólk gerir sér grein fyrir. Látum ekki skrökva því að okkur að rigning sé vond eða að rigningasumar sé vont sumar.

 


mbl.is Veðurbarða Íslendinga dreymir um Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband