Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Með allt á hreinu á Netflix

Ég er af þeirri kynslóð sem ólst upp lestur, mikinn lestur og við það vaknaði áhugi á sögum og ekki síður sögumanninum eða þeim sem segja. Hluti af því er auðvitað hin myndræna frásögn, hvort heldur er í teikningum, málverkum, ljósmyndum eða í bíóum og sjónvarpi. Góð saga er oft gulli betri, góð bók er meira virði en flest annað. Frásagnarlistin er ekki öllum gefin.

Ég les enn mjög mikið, eiginlega of mikið. Hillur fyllast af bókum, mismunandi merkilegum, og tölvan fyllist af eigin myndum, flestum lélegum. En það er þetta með sögurnar sem settar eru í myndrænt form. Segja má að maður sé áhugamaður um bíó og sjónvarp. 

Stundum rekur á fjörur okkar áhugamanna um góðar sögur efni í sjónvarpi eins og „The House of Cards“ sem nú er verið að sýna í Ríkissjónvarpinu. Þetta er bandarísk endurgerð samnefndri þáttaröð BBC og sýnd var hér fyrir mörgum árum. Þar lék Ian Richardsson aðalhlutverkið en Kevin Speacy í þeirri bandarísku.

Á mánudagskvöldum reynir maður að muna eftir því að setja sig í stellingar og gætt þess að missa ekki af neinum þætti af þessari áhugaverðu sjónvarpsþáttaröð um stjórnmálin, klækina og refina í Washington.

Sem betur fer er það orðið svo að nú skiptir litlu þó maður missi úr þátt í einhverri seríunni. Hann má sjá klukkutíma síðar eða innan sólarhringsins. Ekki nóg með það. Nú eru sjónvarpsstöðvarnar eiginlega orðnar úrelta hvað útlendar sjóvarpsmyndir og bíómyndir varðar. Ástæðan er einfaldlega sú að tölvutæknin hefur breytt fjölvarpinu. Þó maður missi af einhverjum áhugaverðum útlendum þáttum í sjónvarpinu er hægtað sækja þá með lítilli fyrirhöfn.

Um daginn gerðist ég áskrifandi að veitu sem nefnist Netflix. Fyrir tæpar eitt þúsund krónur á mánuði get ég sótt alla þá þætti og bíómyndir sem mig lystir. Í gær gat ég til dæmis horft á þá tvo þætti af „The House of Cards“ sem enn eru ósýndir hjá Ríkissjónvarpinu. Ekki ætla ég að rekja efni þessara tveggja þátta en hinn spillti Underwood fulltrúardeildarþingmaður hefur metnað til hárra metorða og vílar ekkert fyrir sér. Þar að auki get ég horft á ensku þættina með saman nafni eða valið álíka þætti.

Netflix er déskoti sniðugt apparat, ódýrt og hagkvæmt. Sama er með iTunes, þar er hægt að fá nýlegri myndir á leigu og er þá greitt fyrir leigu á hverri mynd fyrir sig.

Er bara ekki kominn tími til að hætta með áskrift að Ríkissjónvarpinu? ... úbbs ... nú man ég, einhver gerði mig að áskrifanda að rúffinu að mér forspurðum og áskriftargjaldið greiði ég með sköttunum mínum. Þetta er hvorki sniðugt né ódýrt apparat. 


Eigendur Kersins strax búnir að fjárfesta í bekk

Kerið telst eign einhverra manna sem stofnað hafa félag um að það og umhverfi þess. Þeir rukka fyrir aðgang að þessum fallega stað. 

Og útlendu ferðamennirnir eru allir afar kátir og ráða sér vart fyrir gleði að fá að greiða 350 krónur. Fátt segir hins vegar af íslenskum ferðamönnum þó svo að ráðsmaður landeigenda haldi því fram að þeir séu jafn kátir og þeir útlendu. 

Landeigendur eru strax byrjaðir að ráðstafa tekjunum. Gamall bekkur, eiginlega antik, svipaður þeim sem maður sá oft í gamla daga á strætóstoppistöðum í miðbæ Reykjavíkur, er nú á botni gígsins. Gleðjast nú allir sem hlynntir eru gjaldtöku á ferðamannastöðum nema stöku útlendingur sem heldur því fram af einskærri vanþekkingu að bekkurinn passi ekki ofan í gígnum.

Þetta getur bent til þess að hugmyndir eigenda Kersins og ferðamanna fari ekki saman. Næst má auðvitað búast við því að landeigendur auki við uppbyggingu kersins, komi fyrir ruslafötu við hlið bekksins og jafnvel ljósastaur. 

Hver getur verið á móti gjaldtöku á ferðmannastöðum þegar svona vel gengur hjá Kerfélaginu? 


mbl.is Greiða gjaldið með glöðu geði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsátt um 9 milljarða í heilbrigðiskerfið

Að óbreyttu stefnir í að það vanti um 8.600 milljónir króna á þessu ári til að leysa fjárhagsvandann, þar af er uppsafnaður vandi fyrri ára um eða yfir 3.800 milljónir.

Þetta segir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Það vekur athygli að uppsafnaður vandi er aðeins tæpir níu milljarðar króna.

Um leið finnst almenningi það sérkennileg ráðstöfun að draga úr tekjustofnum ríkisins með því að lækka veiðileyfagjaldið og nemur lækkunin svipaðri fjárhæð. Nú skal hér ekki gert lítið úr þeim vanda sem smærri útgerðarfyrirtæki standa í en vandi ríkisins er einnig mikill.

Kristján Þór bendir á að við stöndum frammi fyrir tveimur kostum í heilbrigðismálum:

Við getum annars vegar haldið áfram á þeirri braut sem við höfum verið á og horft upp á heilbrigðiskerfið molna hægt en örugglega niður. Eða við getum tekið ákvörðun um þjóðarsátt um að verja heilbrigðiskerfið, endurskipulagt og byggt það upp að nýju. Forsenda slíkrar þjóðarsáttar er að grunnþjónustan um allt land sé varin og að þingmenn taki erfiðar ákvarðanir um forgangsröðun ríkisútgjalda. 

Þetta er rétt og valið ætti að vera auðvelt fyrir flesta. Engu að síður þarf tekjuöflun ríkisins að vera í lagi svo vandamálin hrannist ekki upp og það haldi áfram að nota ráð vinstri stjórnarinnar og velta þeim á undan sér án þess að taka á þeim. Peningarnir eru fyrir hendi í ríkisrekstrinum og það eina sem þarf er viðhorfsbreyting. Rétt eins og Kristján nefnir þá þarf að forgangsraða í ríkisgjöldum. Við getum ekki gert allt, svo einfalt er það. Þjóðarsáttin er nauðsynleg eða eins og Kristján segir:

Á sama tíma og barist er í bökkum og kerfinu er haldið gangandi með seiglu starfsmanna, er ætlunin að ráðast í húsbyggingar á ýmsum sviðum, s.s. sjúkrastofnana, fangelsis og Húss íslenskra fræða fyrir milljarða króna. Á sama tíma og þrengt er að starfi heilbrigðisstofnana um allt land og álagið stöðugt aukið renna milljarðar í margvíslega styrki og sjóði og rekstur sendiráða víða um heim.


mbl.is Vantar 8.600 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan á að sjá muninn á vonda liðinu og okkur hinum

Í lögreglunni 1977

Fyrir langalöngu var ég tvö sumur í lögreglunni. Lærði þar marga góða siði og kynntist mörgum frábærum lögreglumönnum sem ég bar og ber enn afskaplega mikla virðingu fyrir sökum mannkosta þeirra.

Okkur nýliðunum var kennt að bera virðingu fyrir fólki. Lögð var mikil áhersla á að einkennisbúningurinn gæfi engan rétt til að beita ofbeldi. Okkur var iðulega bent á að oftast væru fortölur miklu vænlegri til árangurs heldur en hávaði og læti eða kylfan í vasanum. Og ég sá oft og mörgum sinnum að þetta var rétt. Eins og fyrir kraftaverk hjaðnaði offors og læti og illviðráðanlegt fólk tók sönsum.

„Komdu nú aðeins með mér,“ sögðu oft reyndir lögreglumenn við þann sem var í æstu skap yfir meintum misgjörðum. Og viðkomandi var teymdur til hliðar eða inn í lögreglubíl og fékk þar að tjá sig og lögreglumaður hlustaði rólegur. Oft þurfti ekki meira til en vingjarnleg eyru og sá með lætin, offorsið og hefndarhugann fór sáttur.

Bjarki í Löggunni

Auðvitað sá maður oft hina hliðina. Snælduvitlaust fólk sem setti sjálft sig og aðra í stórhættur með bægslagangi og látum. Okkur var uppálagt að taka þannig fólk hratt úr umferð en umfram allt reyna eins og kostur var að meiða það ekki.

Margoft þurfti að beita hörðu, þrjá eða fjóra lögreglumenn þurfti iðulega til að leggja einn mann. Nærstaddir áttu þá til að hneykslast og finnast ósanngjarnt að þrír væru að handsama einn mann. Það var rétt eins og að handtaka ætti að vera maður á mann og yrði lögreglumaðurinn undir væri það bara sjálfsagt og eðlilegt. Nei, þannig var og er ekki litið á málin. 

Drukkið fólk getur verið til vandræða. Hins vegar get ég ekki ímyndað mér að ölvuð kona sem slangrar í veg fyrir lögreglubíl og varnar honum veginn sé eitthvað annað en meinlaus borgari sem kann hvorki fótum sínum forráð né er ábyrg fyrir gerðum sínum. Auðvitað eiga lögreglumenn í slíkum tilvikum að fara út úr bílnum og reyna með fortölum að fá konuna til að koma sér heim eða aka henni, rétt eins og við gerðum oft í gamla daga.

Það er hins vegar út í hött að meðhöndla konuna eins og vopnaðan stórglæpamann, jafnvel þó hún hafi asnast til að hrækja inn um gluggann hjá ökumanninum. Þá skiptir svo óskaplega miklu að lögreglumaðurinn sé í góðu andlegu jafnvægi og taki á málinu í samræmi við brotið en geri ekki illt verra.

Hinn almenni borgari getur gert ýmislegt af sér, hvort heldur hann er drukkinn eða ekki. Lögreglan á þá að vera leiðbeinandi og hjálpsöm.

Það er sú einfalda krafa sem við, almenningur í landinu, gerum til hennar. Lögreglan á að gera greinarmun á vonda liðinu og okkur hinum, jafnvel þegar illa stendur á hjá okkur. 


mbl.is Meingallað handtökukerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stéttaskiptingin í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu

Sagt er að fólk eigi að haga sér vel í umferðinni. Auðvitað er góða skapið til bóta, þeir vita það sem láta iðulega aksturslag annarra fara í taugarnar á sér.

Hilux eða Yaris

Mér er hins vegar mikið skemmt þessa dagana út af rannsóknum mínum á umferðarmenningunni á höfuðborgarsvæðinu. Þannig standa mál að undanfarin ár hef ég ekið Toyota Hilux bíl sem ég kunni afar vel við. Bíllinn er hóflega stór og kosturinn er sá að ég komst út á land, raunar þar sem ég uni mér einna best. og maður naut virðingar annarra ökumanna, upp að vissu marki. 

Svo standa mál þannig að ég ek Toyota Yaris, litlum en snaggaralegum tíu ára bíl. Hann er raunar svo lítill að ég þarf að fara út til að skipta um skoðun.

Stéttaskiptingin 

Nú hef ég komist að því að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu er gríðarleg stéttaskipting ef svo má orða það. Litlir og sérstaklega gamlir bílar eru taldir annars eða þriðja flokks. Svínað er alveg miskunnarlaust á þá. Við ómerkilegustu aðstæður heyrir maður bílflaut rétt eins og það sé regla að ökumaður lítils og ryðgaðs bíls sé meiri fábjáni en aðrir ökumenn. Engum dytti hins vegar í hug að brúka bílflautuna á stærri og eyðslufrekari bíl. Raunar er það almennt viðurkennt að gáfnafar ökumanna er í beinu samhengi við stærð og eyðslu bílanna sem þeir aka. Við sem ökum litlum bílum erum greindarskertir og ökumenn stóru bílanna eru stórgáfaðir.

Flaut og svínarí 

Ég nem yfirleitt staðar við stansmerki, rétt eins og lög gera ráð fyrir. Oft er flautað á mann fyrir tiltækið en sumir láta nægja að blikka ljósum.

Merkilegast er þó sú staðreynd að þó litlir og gamlir bílar fara jafnhratt og aðrir þá eru þeir til sem taka framúr til þess eins að beygja til hægri við næstu gatnamót. Sem sagt svínað er fyrir mann án nokkurra ástæðna annarra en fordóma gagnvart gamla, trygga Yarisnum. Þetta eru augljós merki um gáfur.

Nú er ég ekki beinlínis þekktur fyrir að vera hægfara í umferðinni, ek frekar of rösklega er oft viðkvæði þeirra sem þora að setjast í bíl með mér.

Meiraðsegja löggan 

Um daginn ók ég vestur Miklubraut, niður Ártúnsbrekku, og það var ekki fyrr en of seint að ég sá, mér til mikillar skelfingar, að lögreglan var við hraðamælingar. Og ég á 100 km á klst. Mér til óblandinnar ánægju en um leið furðu litu þeir ekki á mig heldur stoppuðu bílinn vinstra megin við mig, þeim sem ég var að fara framúr (hægra megin). Jafnvel löggunni dettur ekki í hug að gamall og skítugur Yaris komist yfir áttatíu. Þá er nú fokið í flest skjól. Hugsaðu þér, ágæti lesandi, þá niðurlægingu að löggan taki ekki einu sinni eftir manni á Yaris. 

Stéttaskiptingin í umferðinni er þannig að litlu, ljótu bílarnir eru botninum, sérstaklega ef þeir eru gamlir. Allir svína á þeim. Svo koma skárra útlítandi bílar og eftir því sem bílarnir eru stærri er meiri virðing borin fyrir þeim. Á toppnum eru svo stórir amrískir drekar sem helst eyða 50 lítrum á hundraði við það eitt að aka á milli ljósa.

Náttúrulögmálin 

Svo er það þetta með strætó, rútur og stóra flutningabíla. Þeir eru í umferðinni oft eins og einhvers konar náttúrulögmál á borð við skriðuföll, hraunrennsli eða snjóflóð. Vissara að halda sig í mikilli fjarlægð ef ekki á illa að fara. Svona ferlíki fara sínu fram hvað sem gerist og vei þeim sem voga sér að flauta á trukkinn sem silast á vinstri akrarein. Töllið gerir venjulega út af við svoleiðis gæja.

Jæja, þetta er nú nóg um félagsfræðilega úttekt mína á umferðarmenningunni á höfuðborgarsvæðinu. Síðar mun ég rita álíka gáfulega um umferðamenningu í smábæjunum þar sem nikkið, kollkinkið, handahreyfingin skiptir öllu máli. 


Súlur, fallegir tindar við Stöðvarfjörð

StodvarfjordurStundum rekst ég á athyglisverðar fréttir eða myndir í dagblöðum eða vefsíðum og forvitnin er vakin.

Í Morgunblaðinu í morgun er sagt frá listahátíð á Stöðvarfirði og þar er þessi fallega mynd af tindi sem mig minnti að væri sunnan fjarðarins.

Ég fletti upp á kortinu og viti menn, ég mundi rétt en enga hugmynd hafði ég þó um nafnið. Held núna að þetta séu Súlur en heitið nær líklega yfir tindana hægra megin á myndinni og rúmlega það.

Gaman væri að fá einhverjar frekari upplýsingar um Súlur, hvort þær séu kleifar. Gat ekki fundið neitt vefnum á hraðferð minni á forvitnisvegum. 


Sárt fyrir Lilju Rafney að vera orðin hornreka

Ég átti ekki svo sem von á að“ Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefði skilning á afstöðu forsetans. Hún og hennar nótar hafa á síðustu fjórum árum lagt meira upp úr sundrungu en sátt, og barist þvert á alla skynsemi og hefðir.

Lilja Rafney leggur yfirleitt megináherslu á allt annað en rökræður. Henni er sama þótt breytingarnar á veiðigjaldinu séu til bráðabirgða og aðins til eins árs. Hún heldur því blákalt fram að lækkun veiðigjaldsins sé einhvers konar grundvallarbreyting, en svo er ekki.

Síðast en ekki síst hefur hún ekkert um þau orð forsetans að segja að stjórnvöld eigi að leggja áherslu á að byggja fiskveiðistjórnunarkerfi í sátt við þjóðina. Hún hefur engan áhuga á sátt frekar en aðrir öfgamenn.

Það er hlýtur að vera sárt fyrir Lilju Rafney og aðra Vinstri græna að sjá fylgið hrynja af flokknum og hann sé algjörlega einangraður í stjórnmálum. Sem sárabætur getur hún ábyggilega kennt ríkisstjórninni og ekki síst Sjálfstæðisflokknum um sólarleysi síðustu tveggja mánaða. Það væri nú eftir öllu öðru í málflutningi hennar. 

 


mbl.is Gefur lítið fyrir rök forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að hætta öllu vegna manns sem braut lög?

Með því að veita þeim ágæta manni Edward Snowden landvist og jafnvel ríkisborgararétt hér á landi köllum við yfir okkur reiði Bandaríkjamanna og líklegast fleiri vestrænna ríkja. Þessu kunna að fylgja viðskiptaþvinganir og líklega enn frekari óáran sem við ráðum ekkert við.

Spurningin sem þjóðin þarf að svara er einfaldlega sú hvort það sé þess virði að hætta stöðu okkar og utanríkisviðskiptum vegna manns sem okkur er algjörlega vandalaus og við berum ekki nokkra einustu ábyrgð á.

Nú þegar eru hér stundaðar hvalveiðar sem vakið hafa reiði alþjóðasamfélagsins. Þó þessi mál séu ekki samanburðarhæf, þá er það kristalstært að við sem þjóð höfum hvorki burði, getu né áhrif til að spyrna við fótum verði á okkur ráðist með þvingunum af ýmsu tagi. Skiptir þá engu hvort þær eru vegna útlendings sem brotið hefur lög í heimalandi sínu og hefur hlaupist í sjálfskipaða útlegð eða hvalveiða sem stundaðar eru hér á landi.

Þó ég hafi hina mestu samúð með málstað Edward Snowdens finnst mér ekki koma til greina að íslenska ríkið komi honum til aðstoðar. Þessu fylgir alltof mikil áhætta fyrir þjóðina. Mál Snowdens verður ekki til lykta leitt nema í Bandaríkjunum.

 


mbl.is Ekkert útilokað með Snowden og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið hefur alltaf verið svona

IMG_0059, Reykjakoll

Gera má ráð fyrir að virkni sjávar og veðurkerfa sé nú eins og hún hefur verið í árhundruð hér á landi. Golfstraumurinn heldur áfram að streyma frá suðvestri og sama er með lægðirnar sem koma úr sömu eða svipaðri átt. Það er gott.

Andlegt ástand margra landsmanna byggist hins vegar á því að hér á landi komi öngvar lægðir úr suðvestri. Að öllum líkindum verða bænaskrár sendar til forseta lýðveldisins þess efnis að sól skíni framvegis á suðvesturhorn landsins, þar verði upp á hvern dag helst logn og tuttugu gráðu hiti yfir sumarið.

Fyrir nokkru var ég að glugga í ferðabók Sveins Pálssonar (1762-1840) sem var læknir og náttúrufræðingur. Hann ferðaðist mikið um landið á tíunda áratug átjándu aldar og lýsti athugunum sínum. Mér þótti einna merkilegast lýsingar hans á umhleypingum í veðráttunni, hér á suðvesturhorninu og víðar.

Sem sagt. Lægðir hafa komið hingað á færibandi lengur en elstu menn muna og heimildir eru um slíkt í gömlum bókum og jafnvel þeim fornum sem við gumum svo mikið af.

Ráð mitt er því þetta til landsmanna minna. Takið veðráttunni með jafnaðargeði. Annað er ekki hægt ella kann hið andlega ástanda að fara í hundana. Njótum útiveru, það lagar skapið. Veðrið skiptir þá litlu máli.

Meðfylgjandi mynd var tekin í rignunni síðasta laugardag á Reykjakolli við Hellisheiði. Yndislega fallegur rigningardagur. Tvísmellið á myndina til að njóta hennar.


mbl.is Lægðir til landsins á færibandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á gamla kirkjugarðinn í miðborginni?

„Er ekki rétt að hugleiða örlítið tilgang og afleiðingar?“ spyr Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, í sláandi grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann fjallar um gamla kirkjugarðinn í miðborg Reykjavíkur, sem síst af öllu hefur verið sýnd sú virðing sem hann eða minjar frá horfinni tíð eiga skilið.

Þór segir í grein sinni: 

 

Á 6. áratugnum voru lagðar símalínur í jörð undir gangstéttunum umhverfis kirkjugarðinn. Sást þá að garðurinn hafði náð út í götuna og upp úr skurðunum var mokað mannabeinum án nokkurs tillits. Virtist lítil varfærni eða tillitssemi viðhöfð og lágu bein á víð og dreif í moldarhaugunum. Sagt var í blöðum, að einhverjir hafi hirt þar höfuðkúpur úr uppmokstrinum.

 

Þór bendir á að breytingar á skipulagi miðbæjarins munu ekki aðeins skaða Nasa, gamla Sjálfstæðishúsið, sem í sjálfu sér er stórskaði. Einnig mun gamli kirkjugarðurinn skerðast enn frekar:

 

Nú er boðað að breyta eigi Landsímahúsinu í hótel og viðbygging skuli ná út að Kirkjustræti. Ef að líkum lætur mun það stórhýsi fara verulega út í kirkjugarðinn. Þá má spyrja: Hver á kirkjugarðinn? Mega skipulagsyfirvöld ráðstafa kirkjugarðsstæði, legstöðum, eftir sinni þóknan? Í lögum voru ákvæði um að sóknarnefndir skuli annast niðurlagða kirkjugarða. Ef svo er enn ætti umsjón og ákvarðanir um gamla kirkjugarðinn væntanlega að heyra undir sóknarnefnd Dómkirkjunnar og ekkert gert án hennar samþykkis. Ástæða er til að fara sér hægt, kanna mörk hins gamla kirkjugarðs og ganga síðan frá honum eins og kirkjugarði sæmir.

 

 

Virðing fyrir sögunni og minjum gamals tíma virðist ekki mikil hjá borgaryfirvöldum. Þau bjóða almenningi sem vill vernda Nasa birginn og nú er ætlunin að raska enn meir gamla kirkjugarðinum.

Ég skora á lesendur að kynna sér grein Þórs. Hann varar okkur við og okkur ber að taka afstöðu til orða hans. Við megum ekki leyfa að leikurinn frá því á 6. áratugnum verði endurtekinn. Tilvera okkar sem þjóðar byggist ekki á þjónustu við ferðamenn heldur á sögu okkar og menningu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband