KR-ingar stóðu sig vel gegn Standard Liege

Fór á völlinn í gær og sá KR tapa fyrir Standard Liege. Þetta var stórgóður leikur og í raun hefði sanngirni átt að ráða hefði hann endað með jafntefli. En svo skrýtið sem það er þá ræður sanngirnin engu heldur mörkin sem er alveg stórmerkilegt þegar pælt er í'ðí.

Segja má að frammistaða KR hafi komið eins og algjör vatnsgusa yfir þá belgísku. KR-ingarnir lék afar vel, boltinn gekk hratt á milli manna og smám saman komust þeir nær og nær markinu en náðu því miður ekki að skora fyrr en Kjartan Finnbogason náði að pota honum inn.

Völlurinn var mjög blautur. Haft var á orði er Bjarni Guðjónsson renndi sér í tæklingu að hann hefði runnið út í sjó hefði ekki verið girðing utan um völlinn, hann hreinlega ætlaði aldrei að stoppa.

Belgarnir voru góður, eldsnöggir og fljótir. Þeir leituðu upp kantana og fóru stundum illa með okkar menn. Mikið fjandi væri nú gaman ef KR-ingarnir væru svona liprir. Samt munaði ekki svo ýkja miklu á liðunum, ekki fyrr en líða tók á síðari hálfleik. Þá var eins og okkar menn slökuðu á og Belgarnir fóru að spila þann fótbolta sem þeim þykir bestur og uppskáru auðvitað tvö ódýr mörk.

Tveir síðustu leikir KR hafa verið afburðavel leiknir af þeirra hálfu en engu að síður töpuðust báðir, sá fyrri fyrir Fram í deildinni og nú gegn Standard Liege. Ég hef samt engar áhyggjur. Ef KR heldur áfram að spila vel og leggur aðeins meira í framlínuna þá hirða þeir titilinn í lokin, dolluna, eins og sumir orða það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband