Börn njóta tjaldferða eins og annað fólk

880722-74

Það er eitt og sér að gera athugasemdir við útbúnað fólks og nesti. Ekki er til dæmis verjandi að vera vatnslaus víða norðan Vantajökuls. Hins vegar er ekkert að því að níu ára krakki sé í tjaldferð á hálendinu. Að mínu mati er fyrirsögnin afskaplega vond og eiginlega tilraun til skoðanamyndunar, að það sé eitthvað slæmt að hafa börn með í tjaldferð.

Ég þekki fjölda manns sem hefur farið með börn sín í hálendisferð. Það hef ég líka gert. Svo framarlega sem útbúnaðurinn er í lagi og foreldrar eða forráðamenn með reynslu þá skiptir aldurinn litlu máli. 

Ég held að eitt það hollasta sem foreldrar geti gert með börnum sínum er að fara í útlegu. Láta þau ganga og erfiða dálítið. Fjölskylda er svipuð og aðrir hópar, hún hristist saman og nýtur ferðalagsins, treystir böndin.

í ferðum mínum hef ég fylgst með fjölda barna sem sýnt hafa ótrúlegan dugnað og notið ferðalagsins. Þau styrkjast og þjálfast smám saman. Um leið verður að muna eftir að hugsa vel um þau láta þeim líða vel og muna að gönguferðir eru ekki til þess að fara yfir sem mest svæði á skemmstum tíma. 

Drengurinn á myndinni er sex ára og hún er tekin í bröttu fjallinu ofan Skáladals í Aðalvík. 


mbl.is Níu ára í tjaldi á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Austmann,félagasamtök

Eftir þessa færslu, Sigurður, máttu búast við að Forræðishyggjueftirlitið banki upp á hjá þér.

Austmann,félagasamtök, 13.7.2013 kl. 20:17

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Auðvitað er í lagi að fara með krakka í tjaldferðir og ekkert síður upp á hálendið. En það er óábyrgt að vera á ferð með svona ungt fólk á leiðum sem ekki eru örugglega færar og hægt að lenda í vanda, jafnvel hættu. Þetta fólk var ekki einu sinni með nægilegt vatn til að bregðast við skorti og trúlega vissi faðirinn ekki að vegir eru illfærir (skv. fréttinni) á þessum slóðum. Þegar færð er góð og vistir nægar, er þetta alls ekkert tiltökumál.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 13.7.2013 kl. 20:28

3 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Ég er alveg sammála þér Sigurður um þessa fyrirsögn. Hún er einhvern veginn mjög neikvæð og getur virkað skoðanamyndandi, en slíkt er alls ekki hlutverk fréttamanna. Ég skildi hana nánast þannig að 9 ára börn hefðu verið saman í tjaldútilegu á hálendinu. Það leiðréttist þó strax þegar ég hóf lestur fréttarinnar. Það eina sem er athugavert við þetta ferðalag föðurins með börnin sín er skortur hans á búnaði og vitneskju um svæðið. Aldur barnsins hefur ekkert með það að gera.

Magnús Óskar Ingvarsson, 13.7.2013 kl. 21:29

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrr málefnalegar athugasemdir. Samála öllu hér að ofan. Verst er ef Forræðishyggjufélagið ætlar að yfirheyra mig og sex ára snáðann sem nú er orðinn þrjátíu og eins árs. Er málið ekki fyrnt, Austmann ... ;-)

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.7.2013 kl. 22:01

5 Smámynd: Austmann,félagasamtök

Jú, það er sennilega orðið fyrnt og sem betur fer má Alþingi ekki láta lög gilda aftur í tímann. Annars gætirðu borið fyrir þig minnisleysi:

"Gestapo: Sigurður! Hvenær fórstu með son þinn í útilegu? Við viljum fá nákvæmar dagsetningar fyrir 25 árum síðan auk lýsinga á aðbúnaði og veðri".

"Sigurður: Ha? Á ég son?"

Annars hafa stálpaðir krakkar ekkert vont af smá volki. Því meira volk þess betra (upp að vissu marki). Það er sumt annað sem er öllu verra. Þegar ég var 11 ára fór ég einu sinni með mömmu og öllum vinnufélögum hennar í tjaldferðalag austur fyrir fjall. Hversu austarlega man ég ekki, sennilega alla leið í Rangárvallasýslu. Við áttum að sofa í stórum tjöldum, hvert tjald rúmaði sennilega svefnpláss fyrir 6 manns.

En þegar líða tók á fyrsta kvöldið, var slegið upp hörkupartýi í tjaldinu þar sem ég átti að sofa með öllum 30 starfsmönnum og þar var drukkið stíft og keðjureykt. Þetta var á þeim árum, þegar 9 af hverjum 10 læknum mæltu með Camel, en hins vegar var ég með ofnæmi fyrir sígarettureyk. Ég var kominn í svefnpokann og vonaði að allir færu út, en það var ekki að gerast.

Á endanum, þegar klukkan var komin langt fram yfir eitt um nótt, sá ég mér ekki annað fært en að stinga hausnum út gegnum tjaldbotninn til að fá frískt loft. Svo byrjaði að rigna ...

Þetta var svo slæm upplifun, að allt annað í sambandi við þessa tjaldferð er fullkomlega þurrkað úr minninu. Síðan þá hef ég alltaf verið á móti því að fólk reyki þar sem aðrir sofa, hvort sem það er tjald eða svefnskálar.

Austmann,félagasamtök, 13.7.2013 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband