Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Leiðbeiningar um val á gönguskóm

scarpa-ladakh

Æ algengara er að heyra af fólki sem meiðir sig á ökkla í fjallgöngum. Síðast í gær þurftu björgunarsveitarmenn að fara upp í Þverfellshorn á Esju til að skækja mann sem hafði tognað illa. Hvers vegna skyldi svona fara í alltof mörgum tilfellum?

Hlauparar 

Nú þykir mikið fjör í því að hlaupa upp á fjöll og niður aftur. Út af fyrir sig er að svo sem ágæt skemmtun og líkamsþjálfun. Hitt er verra að þeir skór sem hlauparar notar eru lágir, að vísu með góðum sóla en engum stuðningi við ökklann. Ekki skal heldur amast við þessu heldur því að fólk skuli leita eftir léttari og einfaldari skóm í almennar fjallgöngu. Hins vegar má ekki líta á hlaupaskó sem góða skó fyrir fjallagöngur. Þeir eru það ekki.

Óslétt land 

Þegar komið er í óslétt land, klungur og snjó er mikilvægt að vera í uppháum skóm, þeim sem ná upp fyrir ökklann og veita honum stuðning. Skórinn á að vera þétt reimaður þannig að fóturinn renni ekki til í skónum. Gerist það eru skórnir og stórir. Valdi þétt reimaður skórinn núningi á legg fyrir ofan ökkla eru skórnir ekki réttir.

Lettir skor

Strigaskór 

Aldrei skyldi nota strigaskó í fjallgöngur. Þeir henta ekki til þess, eru alltof linir, sólinn er mjúkur og ná ekki einu sinni upp að ökkla. Til eru skór sem líkjast strigaskóm, eru léttir með góðum sóla en engu að síður ná þeir ekki upp á ökkla. Ekki nota slíka skó í fjallgöngur eða lengri göngur. Myndin hér til hliðar gúglaði ég á netinu. Þetta eru svokallaðir „hiking shoes“ en ekki „hiking boots“. Þeir fyrrnefndu eru eingöngu gönguskór fyrir sléttlendi. Fínir innanbæjar en á fjöllum eru þeir gagnslausir vegna þess að öllum ætti að vera annt um ökklana.

Leðurskór 

Bestu skórnir í fjallgöngu og lengri göngur eru leðurskór, helst þeir sem eru með smávegis gúmmívörn upp fyrir sóla. Það sparar skóna, tekur af slit og vatn. Notum leðurskó á Laugaveginum og á Hornströndum og í dagsferðum á einstök fjöll eins og Esjuna og Vífilsfell.

VibramSole

Af biturri reynslu held ég því fram að góðir gönguskór séu mikilvægasti búnaður göngumannsins. Sé hann illa búinn til fótanna, fær blöðrur eða hælsæri er lítil skemmtun af gönguferðinni. Skórnir eru henta þá ekki göngumanni.

Fóðraðir skór 

Góðir gönguskór eiga að vera fóðraðir og svo þægilegir að hægt sé að vera í einum sokkum, en þeir verða að vera góðir. Best er að velja sokka úr blöndu af gerviefnum og ull, þá sem eru með þéttingar fyrir hæl og tá. Slíkir sokkar eru framleiddir hér á landi og reynast vel. 

Þegar ég var að byrja í fjallaferðum var lítið úrval af gönguskóm í verslunum. Ég man að eitt árið notaði ég gamla skíðaskó sem voru með nokkuð stífum sóla. Í þeim var gott að ganga en gallinn var nokkuð stór og hann var sá að sólinn var sléttur og markaði ekki fyrir hæl.

Vibram sóli

Í tugi ára hef ég aldrei keypt öðru vísi skó en með góðum sóla, lít fyrst á hann. Sé ekki gula merkið með nafninu Vibram þá kaupi ég ekki skóna. Sjá myndina hér fyrir ofan.

Viðmiðanir 

Eftirfarandi eru þær viðmiðanir sem ég nota og tek það fram að ég þarf að fara að kaupa gönguskó sem allra fyrst:

  1. Vibram sóli (merktur með gulu merki í sólann), sumum finnst Vibram hálir í bleytu en ég hef aldrei orðið var við það.
  2. Helst leður skór fyrir fjallaferðir, bestir í bleytu
  3. Tungan á ekki að vera laus eins og í venjulegum skóm heldur saumuð við skóinn á hliðum og upp
  4. Skórnir eiga að vera fóðraðir, það er vel bólstraðir
  5. Góð en mjúk fóðrun á að vera efst svo þeir nuddi ekki legginn
  6. Oftast er gott að velja ská með gúmmívörn á tá og jafnvel allan hringinn.
  7. Veljum réta stærð, táin má ekki snerta framendann, þar má muna allt að sentimetra
  8. Ekki kaupa ódýra gönguskó. Ódýrir skór eru bara ódýrir, þeir hafa enga kosti fram yfir dýrari.

Eflaust má bæta hér einhverju við en þetta er svona í stórum dráttum þau atriði sem ber að hafa í huga við val á góðum gönguskóm. Og nú gleymi ég einu mikilvægu, munum að á göngu þrútnar fóturinn talsvert. Þess vegna mega skór ekki vera of þröngir, þeir verða að vera dálítið rúmir.

Ódýrir skór eru almennt lélegir  

Ég hef í sjö ár átt Scarpa gönguskó og þeim hef ég nú slitið upp svo gjörsamlega að fyrir löngu hefði ég átt að skipta. En ennþá er ég bara mjög ánægður með skóna.

Núna finnst mér gönguskór orðnir dýrir og hef því dregið við mig að kaupa nýja. Ég fór um daginn í verslun sem selur gönguskó á innan við 10.000 krónur. Við nánari athugun fannst mér þeir ekki þess virði að kaupa þá.

Ég ráðlegg fólki eindregið að kaupa skó í góðum verslunum sem sérhæfa sig í að selja fatnað og útbúnað til útivistar. Ekki bjóða hættunni heim með lélegum skóm.  


Með kveðju á Everest

Gangi þeim Guðmundir og Ingólfi vel í ferð sinni á Everest. Auðvitað dauðöfundar maður þessa gæja sem láta verða að því sem sumir leyfa sér aðeins að hugsa um alla æfi. 

Grínlaust, þetta er sú ferð sem flesta fjallamenn dreymir um en fæstir leggja í. Hvort tveggja er að ferðin er óhemju dýr, ekki aðeins kostar útbúnaðurinn sitt, heldur líka ferðin öll, aðgangurinn og leiðsögnin.

Vissulega eru menn á þessum aldrei engin unglömb en það er nú einmitt kosturinn. Þeir hafa væntanlega yfir að ráða reynslu, yfirvegun og þekkingu sem fæst eftir því sem aldurinn færist yfir.

Svo er það þannig að nútímamaðurinn er hraustur og sterkur, hann hefur ekki ofgert sér eins og margir forfeðra okkar gerðu í brauðstriti sínu. Með nokkrum sanni má segja að margur fimmtugur maðurinn sé ábyggilega hraustur eins þeir sem eru fimmtán eða tuttugu ára yngri.

Ef einhver er að pæla í myndinni af þeim félögum þá er ég næstum viss um að hún sé tekin ofarlega í Þverfellshorni í Esju um klukkan 12:30 á laugardegi eða sunnudegi fyrir um viku. 


mbl.is Á réttum aldri fyrir Everest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin glápgjöld, skattleggjum frekar ríkissjóð

Vantar aura til að laga til eftir ferðamenn eða gerða svokallaða „ferðamannastaði“ meira aðlaðandi og tilbúna til að taka á móti fjöldanum?

Nei, ekki vantar fjármagnið. Hingað koma árlega um 660 þúsund ferðamenn auk þess sem hálf eða öll íslenska þjóðin leggst í ferðir að sumarlagi. Dettur nokkrum manni í hug að ríkissjóður hafi ekki tekjur af ferðamennskunni, beina og óbeinar?

Sumir halda því fram að ríkissjóður hafi ekki efni á að takast á við uppbyggingu ferðamannastaða vegna kreppunnar. Engu að síður streyma ferðamenn til landsins og ekkert lát er á ferðamennsku innlendra.

Ásbjörn ferðamálafrömuður 

Samt dettur mörgum í hug að setja skattleggja þurfi ferðamenn, setja á einhvers konar glápgjald. Einn þeirra er kunningi minni Ásbjörn Þ. Björgvinsson, ferðamálafrömuður, afar merkur maður. Hann er einn þeirra sem kom Húsavík á kortið með hvalaskoðun, hann var framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, og er ábyggilega enn að þó ég viti ekki hvar. Þjóðin þarf á forkum eins og Ásbirni en þar með er ekki sagt að hún þurfi að vera sammála manninum.

Í grein í Morgunblaðinu í morgun mærir Ásbjörn glápgjöldin og vill staka upp almennan skatt á erlenda ferðamenn og kallar slíkt „náttúrupassa“. Óneitanlega fallegra orð og vinsamlegra en glápgjald eða skattheimta. Ekkert skil ég í Ásbirni að halda því fram að ekkert fé sé til þeirra hluta sem hann ræðir um nema þá aðeins að hann sé einn af þessum sem hafa pólitískan áhuga á aukinni skattheimtu.

Ríkissjóður stórgræðir 

Staðan er einfaldlega sú að ríkissjóður hefur gríðarlegar tekjur af ferðaþjónustunni. Reikna má með því að þessar tekjur séu árlega eitthvað undir 100 milljörðum króna. 

Hvað á að gera við tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum? Jú, auðvitað á að nota þær á sama hátt og aðrar tekjur. Þetta rennur allt í eina hít sem misgáfulegir stjórnmálamenn úthluta svo í margvísleg verkefni. Þannig er það nú bara. 

Væri nú ekki gáfulegra að hætta að láta sem svo að þjóðin hafi ekki efni á að vinna að ferðaþjónustunni, markaðsmálum hennar, uppbyggingu ferðamannastaða, forvörnum og öðru álíka. Leggjum til hliðar allar hugmyndir um glápgjöld, sértæka skattheimtu á ferðamenn. Ástæðan er einfaldlega sú að við getum ekki lagt skattinn bara á útlendinga og Íslendingar munu aldrei samþykkja slíkan skatt.

Skattleggjum nú ríkissjóð 

Nóg fé kemur í ríkissjóð af ferðaþjónustunni. Hægt er að hugsa sér að fjármögnun náttúruverndarsjóðsins sem Ásbjörn talar um í grein sinni komi eingöngu úr ríkissjóði.

Gera má einfaldan pólitíska samþykkt á Alþingi um að héðan í frá verði t.d. ákveðið hlutfall sem reiknað er af skatttekjum ríkissjóð af þeim erlendu ferðamönnum sem eru fleiri en 500 þúsund falli til sjóðsins. Gera má ráð fyrir að sjóðnum áskotnist þannig um fimm milljarðar króna á ári og þær krónur hækki eftir því sem ferðamönnum fjölgar.

Hættum svo þessari vitleysu um skattlagningu á ferðamenn, útlenda eða erlenda, og skattleggjum ríkissjóð um það fjármagn sem hann raunverulega fær en tregðast við að láta af hendi í þá málaflokka sem hann engu að síður ber ábyrgð á. 


Neysluskammtur fíkniefna verði refsilaus ... þvílíkt bull

Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga níu þingmanna Samfylkingar, Hreyfingarinnar og Vinstri grænna sem felur meðal annars í sér að refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna verði afnumdar.
 
Þetta segir í frétt í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögninni „Telja stríðið þegar tapað“ og í undirfyrirsögn: „Þingmenn leggja til að varsla neysluskammta af fíkniefnum verði gerð lögleg“.
 
Með sömu rökum má leggja til að ekki verði refsað fyrir innbrot ef skaðinn er undir einhverjum tilteknum mörkum. Eða að líkamsárás sé ekki refsiverð nema bein brotni eða eitthvað álíka. Ætla ekki að hætta mér út í frekari dæmadrátt.
 
Ljóst má vera að ég er á móti því að dregið verði úr refsingum fyrir vörslu fíkniefna. Fyrst af öllu verður að horfa til þess skaða sem fíkniefni hafa neytandann. Því hefur verið haldið fram hingað til að „vægari“ fíkniefni séu engu að síður stórhættuleg því líkaminn byggi upp þol gegn þeim og þar af leiðandi leitar fíkillinn í önnur og hættulegri efni.
 
Í fréttinni er talað um að neysluskattur sé refsilaus. Hvað þýðir það? Jú, eitt stórt gat sem glæpalýður getur notað til að selja, ferja fíkniefni til neytandans. Líkast því að opna í skattalögum fyrir misfærslu með vörsluskatta.
 
Framar öllu er ég á móti fíkniefnum vegna þess að ég er faðir. Ábyrgir foreldrar eru alla tíð svo óskaplega hræddir um að börn þeirra falli fyrir því sem getur skaðað þeirra. Ég þekki til fólks, sómakærs og vandaðs, sem misstu börn sín í fíkniefni og óreglu. Ég þekki líka til fólks sem hefur neytt fíkniefna, þó ekki öðru vísi en aðrir áfengis. Þetta fólk er stórkostlega skaðað og á sér vart nokkra uppreisn gegn fíkninni.
 
Öll þrjú börnin mín komust á fullorðinsár án þess að ánetjast fíkniefnum og fyrir það er ég þakklátur. Og nú er það viðhorf uppi að neysluskammtur fíkniefna sé ekkert hættulegur. Eigum við að bjóða börnum og barnabörnum upp á þennan málflutning?
 
Skyldu þeir fimm ökumenn sem voru undir áhrifum fíkniefna og sagt er frá í þessari tengdu frétt hafa verið skárri ökumenn en þeir sem eru fullir? 

mbl.is Fimm ökumenn undir áhrifum fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Toppurinn á Keili er toppurinn ...

DSC_0108_Keilir__SA__270D8CHeld að flestir ættu að haga sér eins og hálfvitar og ganga á fjöll. Get varla ímyndað mér betra betri brottför hér úr heim en að kveðja á fjalli.

DSC_0063

Jón Ármann Héðinsson á að halda áfram enda byrjaði hann ekki að ganga á fjöll fyrr en hann var fimmtugur. Það gengur auðvitað ekki. Hann á mörg fjöll eftir og margar göngur, jafnvel aftur á Keili.

Keilir er flott fjall. Var þar á laugardaginn. Sá að búið var að koma fyrir þessum fína aðstandi í kringum útsýnisskífuna. Fer þá vel á því að kalla þann sem á stendur bókstaflega aðstandandi ...

Allt gert úr áli. Og mér datt auðvitað í hug að svona þyrfti að gera á gönguleiðum sem eru að troðast niður og skemma umhverfið. Byrjum á að setja áltröppur á Þverfellshorn í Esju. 

Svo er þarna uppi gestabók í fínni álgeymslu. Hvergi annars staðar hef ég séð betri aðstöðu á fjallstindi. Nema auðvitað á Spákonufelli á Skagaströnd en þar er gestabókin geymd í fornlegri kistu sem sögð er svo gömul að Þórdís spákona hafi borið hana þangað upp rétt eftir aldamótin 1000. Og í henni er að auki óskasteinn og fást allar veraldlega óskir þar uppfylltar fyrir nokkra skildinga.

 


mbl.is Hættur að láta eins og hálfviti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárhagsaðstoð fjármögnuð með peningum innlánseigenda

Vandi Kýpur er nokkur annar en sá sem við áttum við að etja í hinni alþjóðlegu kreppu sem hófst í lok árs 2007 og hafði þær afleiðingar að íslensku bankarnir fóru á hausinn haustið 2008.

Íslensku bankarnir gátu ekki fjármagnað sig eftir því sem á árið 2008 leið. Hvort tveggja gerðist, lánalínur til íslenskra banka lokuðust vegna vantrausts á þá auk þess sem lánsfjárskortur varð gríðarlega mikill í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar.

Á einföldu máli og stuttu er staðan á Kýpur sú að bankarnir hafa fjármagnað sig með innlánum. Enginn hörgull hefur verið á þeim. Fjárfestingar bankanna hafa leitað til Grikklands og þar stendur hnífurinn í kúnni. Engar greiðslur fást þar til baka svo bankarnir geta ekki endurgreitt innlánseigendum sínum.

Yfirleitt teljast bankar vera í nokkuð góðu standi þegar þeir geta fjármagnað sig með innlánum svo fremi sem þeir geti lánað fé sitt áfram til traustra aðila á betri kjörum en þeir bjóða innlánseigendunum.  

Svo er það allt annað mál hvernig þessi innlán eru tilkomin. Sagt er að þau séu að stórum hluta í eigu rússneskra aðila og því haldið fram að þau séu peningar vegna mafíustarfsemi, fé sem ekki var hægt að setja í umferð og því geymt á erlendum reikningum.

Þetta kann að vera ástæða fyrir því að ESB krefst þess að skattur verði lagður á innistæður á Kýpur til að fjármagna bankaaðstoð. Yfirleitt telst slíkt eignaupptaka en í ljósi aðstæðna telja margir það bara hið besta mál að stela frá steliþjófunum. Skiptir engu þótt einhverjir saklausir og aumir Krítverjar lendi í vanda í leiðinni.

Annars er það ári undarleg pólitík að taka af þeim sem eiga undir högg að sækja og gefa síðan aftur sem hjálp. Kannski er það skynsamlegt að skera skottið af sveltandi hundi og gefa honum að borða.


mbl.is Vandi Kýpur ræddur áfram í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem hangir

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins er forvitnilegt. í því kemur fram að svokallaðar samningaviðræður við Evrópusambandið eru síst af öllu samningaviðræður. 
 
Samt sem áður er því haldið að íslensku þjóðinni (þó aðeins af Íslandi, ekki af ESB) að það fari fram „samningaviðræður“. Fullyrða má að slíkum blekkingarleik hafi aldrei fyrr verið beitt af lýðræðislega kjörnum yfirvöldum gagnvart eigin þjóð. 

Er ofangreint rangt hjá höfundi? Nei enda hefur þessu sama verið margoft haldið fram í þessu bloggi og vitnað til heimilda frá Evrópusambandinu.

Ávirðingar á ríkisstjórnina eru margar að mati höfundar Reykjavíkurbréfs. Hér eru nokkrar, „Og er þó fátt eitt nefnt,“ eins og höfundur orðar það:

  • Icesave I
  • Icesave II
  • Icesave III
  • Stjórnlagaþing ógilt af Hæstarétti Íslands.
  • Atlögum að sjávarútveginum hrundið.
  • Tilraunir til að láta furðutexta í fjölmörgum greinum kollvarpa íslensku stjórnarskránni frá 17. júní 1944 fóru út um þúfur.
  • Aðild að ESB á grundvelli sögulegustu svika íslenskra stjórnmála frá 1262 orðin að engu.
  • Tveir stærstu bankar landsins hafa verið gefnir gróðavörgum og vogunarsjóðum án heimildar, án umræðu og án þess að nokkurt vit væri í.
  • Höft sem áttu að standa í 10 mánuði standa enn
  • Seðlabanka landsins hefur verið breytt í skömmtunarskrifstofu í algjörlega ógegnsæju ferli. Bersýnilegt er að bankinn hefur enga heildstæða stefnu mótað og veit ekki í hvern fótinn hann á að stíga.
Ekkert af ofangreindu þarfnast skýringa. Ekki heldur niðurlags Reykjavíkurbréfsins, eflaust er það sárt fyrir vinstri menn að lesa þetta en sannleikurinn er mörgum sár:
 
Samfylkingin, sem taldi sjálfa sig annan af „turnunum tveimur“, er orðin að smáflokki. Hún er eini líkamningur sem vitað er um sem virðist orðinn minni en sinn eigin botnlangi. 
Og VG nær varla því virðingarheiti að teljast smáflokkur. Steingrímur virðist ætla að enda með litlu
stærri flokk en Hreyfingin var, áður en Þráinn fór. 
Ríkisstjórn, sem þannig endar, sat ekki út kjörtímabilið, hún hékk. 

Forseti Alþingis þarf að gæta sín á framkvæmdavaldinu

Þegar litið er yfir feril Ástu Ragnheiðar í forsetastóli er ljóst að hún hefur lagt sig fram um að vera sjálfstæð í sínum störfum gagnvart stjórn og stjórnarandstöðu. Það styrkir stöðu hennar að hún fékk yfir 95% atkvæða þegar hún var kjörin.
Þessi afstaða sést meðal annars á því að hún hefur aldrei gert grein fyrir atkvæði sínu á kjörtímabilinu og aldrei talað fyrir pólitísku máli. Hún hefur þó beitt sér fyrir almennum málum, einkum þeim er varða þingið, svo sem frumvarpi um rannsóknarnefndir þingsins þar sem hlutverk þeirra er skilgreint.
 
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er heilsíðu samantekt um störf Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis eftir Pétur Blöndal, blaðamann. Niðurstaða umfjöllunarinnar felst í stuttu máli í ofangreindri tilvitnun. Við hana er ekkert að bæta. Ragnheiður Ásta hefur á síðustu fjórum árum náð ágætum tökum á starfi sínu og það sem mestu máli skiptir hún áttar sig á því hversu mikilvægt embættið er fyrir þingræðið.
 
Mestu skiptir að forseti Alþingis sé sjálfstæður í störfum sínum. Það getur hann þó svo að hann sé þingmaður, hluti af meirihlutanum. Hann verður að horfa til sögunnar í störfum sínum, gera sér grein fyrir því að þingið má ekki snúast eftir því hvernig vindurinn blæs á hverjum tíma.
 
Margir merkir þingmenn hafa gengt störfum forseta Alþingis. Segja má að þrátt fyrir ágæt störf Sturlu Böðvarssonar sem ráðherra samgöngumála hafi virðing hans vaxið að mun er hann var forseti Alþingis á árunum 2007 til 2009. Sama er að segja með Halldór Blöndal sem var forseti í sex ár og þótti bæði mildur en staðfastur og bjó að auki yfir ágætu skopskyni.
 
Mér er Þorvaldur Garðar Kristjánsson, þingmaður, líka eftirminnilegur. Hann var eiginlega holdgerfingur embættisins. 
 
Fyrsti forseti sameinaðs þings Alþingis hét Jón Sigurðsson (1811-1879) sem ætti nú að vera flestum Íslendingum ofarlega í huga. Hann er oftast nefndur Jón forseti en þó ekki vegna starfa sinna á Alþingi 1875-1877, heldur vegna þess að hann var forseti Hins íslenska bókmenntafélags. 
 
Benedikt Sveinsson faðir Einars skálds var forseti Alþingis 1893-1894. Síðar urðu Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein og Jón Magnússon forsetar Alþingis. Einnig má nefna merka menn eins og Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseta og Tryggva Þórhallsson sem einnig var forsætisráðherra og fleiri og fleiri sem settu mark sitt á Alþingi.
 
Eins og sjá má af fátæklegri upptalningu er Alþingi engin hversdagsleg stofnun. Hún er ein af grundvallarþáttum þjóðfélagsins og sá sem situr hverju sinni í embætti forseta hlýtur að vera reglulega hugsað til sögunnar í ákvörðunum sínum. Hann hlýtur öllum stundum að standa fast í fæturna gegn ofríki framkvæmdavaldsins. Ef ekki breytist þingið smátt og smátt, verður eins og vindhani sem snýst um leið og nýir flokkar taka við í stjórn landsins. Um leið þarf Alþingi að horfa fram á veginn, marka starfsháttum sínum ákveðna stefnu, ekki aðeins á þingfundum heldur einnig sem stofnun.

Hlutlausi álitsgjafinn í framboð

Svanur Kristjánsson er einn þekktasti stjórnmálaskýrandi þjóðarinnar og var um árabil félagi í Samfylkingunni. Á sínum tíma var hann orðaður við formannsembættið í þeim flokki.

Svona er umfjöllunin á pressan.is. Rétt eins og Svanur þessi sé einhver þungavigtarmaður í stjórnmálum. Síðast þegar ég vissi var maðurinn bara kallaður til þegar Ríkisútvarpið þurfti að fá einhvern álitsgjafa í stjórnmálafræði til að leggja áherslu á gæði fréttaflutningsins.

Svanur var nú yfirleitt heldur skakkur í greiningu sinni og fer því vel að hann haldi slíkum málflutningi áfram fyrir opnum tjöldum. Varla verður hann kallaður aftur í hlutlausa álitsgjöf.


Þróunaraðstoð fyrir fráfarandi þingmann

Almennt eru vinstri menn á þeirri skoðun að þingmenn eigi að taka afstöðu til mála samkvæmt sannfæringu sinni. Það sé svo óskaplega fínt, sérstaklega ef það veldur klofningi meðal hægri manna. Sambærilegur klofningur hjá vinstri mönnum er einungis merki um vanþroska.

Samt eru undantekningar frá sannfæringarstöðunni ef marka má Björn Val Gíslason, fráfarandi þingmann. Ekki má til dæmis vera á móti þróunaraðstoð. Það er ekki sannfæringarmál, heldur bara ljótt. Skiptir engu þó einhver haldi því fram að skynsamlegra sé að verja tuttugu og fjórum milljörðum króna í heilbrigðismál innanlands en þróunaraðstoð i útlöndum.

Það er niðurlægjandi fyrir þá þingmenn sem það gera, það er þeim til ævarandi skammar og það setur þingið niður.

Sannfæringarkrafturinn og eldmóðurinn streymir úr nösum hins fráfarandi þingmanns. Hefur einhverjum dottið í hug að þingmaðurinn gæti þurft sjálfur á þróunarstoð að halda?


mbl.is Deildu um afstöðu Vigdísar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband