Engin glápgjöld, skattleggjum frekar ríkissjóð
25.3.2013 | 10:48
Vantar aura til að laga til eftir ferðamenn eða gerða svokallaða ferðamannastaði meira aðlaðandi og tilbúna til að taka á móti fjöldanum?
Nei, ekki vantar fjármagnið. Hingað koma árlega um 660 þúsund ferðamenn auk þess sem hálf eða öll íslenska þjóðin leggst í ferðir að sumarlagi. Dettur nokkrum manni í hug að ríkissjóður hafi ekki tekjur af ferðamennskunni, beina og óbeinar?
Sumir halda því fram að ríkissjóður hafi ekki efni á að takast á við uppbyggingu ferðamannastaða vegna kreppunnar. Engu að síður streyma ferðamenn til landsins og ekkert lát er á ferðamennsku innlendra.
Ásbjörn ferðamálafrömuður
Samt dettur mörgum í hug að setja skattleggja þurfi ferðamenn, setja á einhvers konar glápgjald. Einn þeirra er kunningi minni Ásbjörn Þ. Björgvinsson, ferðamálafrömuður, afar merkur maður. Hann er einn þeirra sem kom Húsavík á kortið með hvalaskoðun, hann var framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, og er ábyggilega enn að þó ég viti ekki hvar. Þjóðin þarf á forkum eins og Ásbirni en þar með er ekki sagt að hún þurfi að vera sammála manninum.
Í grein í Morgunblaðinu í morgun mærir Ásbjörn glápgjöldin og vill staka upp almennan skatt á erlenda ferðamenn og kallar slíkt náttúrupassa. Óneitanlega fallegra orð og vinsamlegra en glápgjald eða skattheimta. Ekkert skil ég í Ásbirni að halda því fram að ekkert fé sé til þeirra hluta sem hann ræðir um nema þá aðeins að hann sé einn af þessum sem hafa pólitískan áhuga á aukinni skattheimtu.
Ríkissjóður stórgræðir
Staðan er einfaldlega sú að ríkissjóður hefur gríðarlegar tekjur af ferðaþjónustunni. Reikna má með því að þessar tekjur séu árlega eitthvað undir 100 milljörðum króna.
Hvað á að gera við tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum? Jú, auðvitað á að nota þær á sama hátt og aðrar tekjur. Þetta rennur allt í eina hít sem misgáfulegir stjórnmálamenn úthluta svo í margvísleg verkefni. Þannig er það nú bara.
Væri nú ekki gáfulegra að hætta að láta sem svo að þjóðin hafi ekki efni á að vinna að ferðaþjónustunni, markaðsmálum hennar, uppbyggingu ferðamannastaða, forvörnum og öðru álíka. Leggjum til hliðar allar hugmyndir um glápgjöld, sértæka skattheimtu á ferðamenn. Ástæðan er einfaldlega sú að við getum ekki lagt skattinn bara á útlendinga og Íslendingar munu aldrei samþykkja slíkan skatt.
Skattleggjum nú ríkissjóð
Nóg fé kemur í ríkissjóð af ferðaþjónustunni. Hægt er að hugsa sér að fjármögnun náttúruverndarsjóðsins sem Ásbjörn talar um í grein sinni komi eingöngu úr ríkissjóði.
Gera má einfaldan pólitíska samþykkt á Alþingi um að héðan í frá verði t.d. ákveðið hlutfall sem reiknað er af skatttekjum ríkissjóð af þeim erlendu ferðamönnum sem eru fleiri en 500 þúsund falli til sjóðsins. Gera má ráð fyrir að sjóðnum áskotnist þannig um fimm milljarðar króna á ári og þær krónur hækki eftir því sem ferðamönnum fjölgar.
Hættum svo þessari vitleysu um skattlagningu á ferðamenn, útlenda eða erlenda, og skattleggjum ríkissjóð um það fjármagn sem hann raunverulega fær en tregðast við að láta af hendi í þá málaflokka sem hann engu að síður ber ábyrgð á.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.