Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013
Hornvík að vetrarlagi
31.3.2013 | 08:17
Hornstrandir eru heillandi landsvæði en um leið harðbýlt og erfitt yfirferðar, sérstaklega að vetrarlagi. Mestöll byggð lagðist þarna af á fyrri hluta síðustu aldar og má segja að langflestir væru farnir í lok fimmta áratugarins. Af því er dálítil saga sem ég hef kynnt mér, skrifað um og jafnvel gert heimildarmynd fyrir sjónvarp. Hún fjallaði um Aðalvík og var um landið sem tæknin bókstaflega lagði í eyði.
Við gerðum myndina í félagi, Guðbergur Davíðsson, kvikmyndagerðarmaður, og ég. Við áttum nokkra spretti saman í heimildarmyndagerð í lok síðustu aldar. Gerðum sjónvarpsþætti sem nefndust Áfangastaðir og fjölluðu um fallega staði hér innanlands, til dæmis tröll í landslaginu, það sem var óteljandi og margt, margt fleira.
Við fórum í óskaplega eftirminnilega vetrarferð í Aðalvík og upplifðum snjóinn og einangrunina. Það var óskaplega gaman en þegar öllu var á botninn hvolft er Aðalvík aðeins um 22 km norður af Bolungarvík og þar af leiðandi er veðurfarið frekar svipað.
Hornvík er hins vegar um 47 km í beinni loftlínu frá Bolungarvík og ef til vill eru aðstæður þar aðrar, svona veðurfarslega. Þangað er ferðinni heitið í dag ásamt fyrrnefndum Guðbergi. Hann er enn að gera heimildarmyndir og ég fæ að fljóta með fyrir þrábeiðni því mig langar svo til að sjá Hornvík í vetrarbúningi. Verkefni hans er heimildarmynd um Hornstrandarrefinn, einstaklega áhugaverða mynd um dýr sem var komið til landsins löngu fyrir landnám.
Við ætlum að gista í húsi og með okkur verður húsráðandi og hann Jón Björnsson, landvörður á Hornströndum. Hann gat ekki sleppt tækifærinu og vildi endilega koma með og það var auðsótt enda hafsjór af fróðleik um Hornvík og strandirnar allar.
Meðfylgjandi myndir tók ég í lok apríl 1995 í Aðalvík. Sú efsta er svona klassísk mynd tekin í Vestur-Aðalvík, Sæbólsmegin eins og oftast er sagt, og horft er til Straumnesfjalls.
Næsta mynd er tekin á hinni fögru skeljasandsströnd í Miðvík og er Mannfjall í baksýn.
Þriðja myndin er af sviðsetningu á útræði úr Aðalvík.
Þegar ég kem aftur stendur til að birta hér vetrarmyndir úr Hornvík. Hvenær það verður veit ég ekki. Við höfum gert nokkrar tilraunir til að fara vestur en ekki tekist vegna veðurs í mars. Ótrúlegt að sjólag skuli vera þannig að bátar komist ekki langtímum saman á veiðar, hvað þá að nokkrir kallar komist ekki í Hornvík.
Og þó maður komist á leiðarenda er óvíst með heimkomuna. Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Ef til vill er þetta dálítil dramatík hjá mér en það helgast nú af því að ég er alltaf spenntur fyrir að komast í ferðir á fjarlæga staði. Og ef allt gengur að óskum verðum við komnir í Hornvík að kvöldi páskadags.
Brostu Steingrímur, brostu ...
30.3.2013 | 13:04
Brostu, Steingrímur, brostu, sagði ljósmyndarinn. Brostu, endurtók varaformaðurinn, brostu sagði formaður þingflokksins.
Hvað er'etta, ég er að brosa, hreytti Steingrímur út úr sér, og brosið hvarf í þann mund sem ljósmyndarinn smellti af.
Vinstri grænir kunna ekki að gera auglýsingar, ekki frekar en að stjórna landinu. Allt verður þeim til ónýtis.
Myndi nokkur maður kaupa notaðan bíl af þessum Steingrími? Er þessi Árni Þór ekki sekur maður? Og Álfheiður, hvað er hún að fela?
Ábyrgð, jöfnuður, almannaheill er yfirskriftin á auglýsingu VG í Fréttablaðinu. Skrýtið að hún skuli ekki birtast í Morgunblaðinu. Og enn skrýtnara að VG skuli ekki auglýsa árangurinn, til dæmis svona: Við leystum skuldamál heimilanna, við áfnámum ÁrnaPálslögin, við útrýmdum atvinnuleysinu.
Nei, því miður eru ekki forsendur til þess. Skuldamál heimilanna eru hrikaleg, ÁrnaPálslögin standa enn og atvinnuleysinu var gert að útflutningsvöru. Þetta er ástæðan fyrir lélegri útkomu VG í skoðanakönnunum. Hún gæti að vísu verið verri. Hvaða hamfarir myndir ríða yfir ef til dæmis Steingrímur myndi brosa?
Slími sprautað í kjöt og fisk ...!
30.3.2013 | 09:42
Halldór tekur dæmi af innkaupum sínum eitt kvöldið fyrir matarboð sem hann bauð til. Fór í búð um kvöldið. Keypti 12 Heineken bjóra, 1.5 L af góðu hvítvini og 1.5 L af góðu rauðvíni, það var von á gestum, 12 svínakótelttur,kartöflur, baunadós, 1,5 lítra af ís, glas af rauðkáli, sítrónur, eintak af Time. 95 dollarar.
0.75 L af bourbon wiskí á 9 dollara. Fatnaður ótrúlega ódýr.Einbýlishús á 100 000 dollara. 80 % lán á 3.%. Íbúðir á 70.000. Stór nýr bíll á 25.000 dollara. Notaðir á skít og kanil. Og til viðbótar þá eru tannlæknar svo ódýrir og góðir hérna að fólk er farið að beinlínis að koma hingað til að nýta sér þá.
Það má benda Halldóri Jónssyni á það að ein af ástæðum þess hvað verðlag allt á Íslandi er hátt er hinn landlægi klíkuskapur og spilling sem eru sannkölluð þjóðarmein. Hann veit áreiðanlega hvað við er átt og getur ásamt félaga sínum Gunnari Birgissyni velt því fyrir sér í góðu tómi.
Engin önnur rök fylgja. Annar, sagður menntaskólakennari, segir svo afskaplega skorinorður og skýr:
Hvað eru LÁGVÖRUR? Eru það vörur eins og kjöt og fiskur sem er búið að sprauta með alls konar sykurvatni, próteindufti og slími til að þyngja það? Eða er eitthvað annað að baki því að kalla vörur lágar eða háar?
Þetta með slímið er nú aldeilis skúbb. Hugsið ykkur, matvörur sprautaðar með slími ... Ojbara. Annar leggur ómengað gullkorn í umræðuna:
Svo var sagt í Mogganum um daginn og varla lýgur Morgunblaðið að fjórði hver bandaríkjamaður væri ólæs og hefði ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. þar hafið það.
Hmm, hvað með verðlagið sem frá segir í fréttinni? Og fleiri grípa til röksemda af íturvaxinni þekkingu sinni og segja, þó óvíst sé um tilganginn:
Misþyrmt hormónakjöt og efnahagur sem gengur bara vegna þess að þeir sem sjá um framleiðsluna lifa í örbyggð í Mexico, Kína eða verksmiðjum í USA sem myndu aldrei hafa starfsleyfi á norðurlöndum. Hvernig getiði byrt svona einblýnt rugl?
Örbyggð er líklega hérað í Mexíkó. Skorinorðar yfirlýsingar vantar ekki heldur:
Viltu lifa meðan þú getur eða vera dauður áður en þú hefur lifað? Steik á túkall eða pulsa? Kom on!
Drekkum í dag, iðrumst á morgun, sagði skáldið. Ekki vantar heldur pólitíkina:
Þetta er Halldór Jónsson, verkfræðingur. Hann er fyrst og síðast sjálfstæðismaður og stjórnarandstæðingur, eins og sést á viðtalinu við hann. Hann myndi ekki þekkja velferðarkerfi þótt hann ætti lífið að leysa.
Einmitt, sjórnarandstæðingur og sjálfstæðismaður má ekki tjá sig ... Og svo vantar ekki heldur dýptina:
Því meir sem ég bý frá Íslandi, því meir líkist það því systkyni bandaríkjanna sem fékk aldrei í skóinn.
Já, góðan daginn ...
Læt þetta nægja af athugasemdum um litla frétt ef frétt skyldi kalla um verðlag ýmiss konar neysluvöru. Sleppti mörgu skynsamlegu en tók eiginlega bara öfgarnar. Þetta er svona sæmileg lýsing á ruglinu sem birtist í athugasemdum dv.is, lítið málefnalegt og sjaldan að þær bæti fréttina eins og ég hélt að væri nú tilgangurinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kjaftaði vonda liðið í hel
30.3.2013 | 09:02
Ásbjörn Óttarsson er mætur maður og fjölhæfur enda telst það til hinna mestu afreka að hafa kjaftað orðháka Samfylkingar og Vinstri grænna bókstaflega til heljar. Hann fórnar sér eins og hetju sæmir. Leggur til atlögu við vonda liðið og slæst við það. Hann á sinn þátt í hrakförum þessara tveggja flokka, sagði þeim ósparlega til syndanna. Sjálfur ætlar hann ekki aftur á þing. Hann ætlar að í heiðarlega vinnu, sinna sjómennsku og útgerð. Ásbjörn lætur jafnan verkin tala. Ekkert hálfkák hjá honum.
Ásbjörn nýr ræðukóngur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jarðskjálftar við Langjökul
29.3.2013 | 18:44
Fjölmiðli leyfist ekki að fara rangt með í landafræði, síst af öllu Mogganum. Jarðskjálftahrina hefur verið í dag austan við sunnanverðan Langjökul. Í jökuljaðrinum heita Jarlshettur, merki um forn sprungugos.
Frá jarðskjálftasvæðinu að að Geysi eru 24 km. Ótrúlegt er að blaðamaður skuli kenna þetta svæði við Geysi. Hann hefði allt eins getað fullyrt að það væri við Kerlingarfjöll sem eru lengst í norðvestri frá upptökunum.
Það breytir því ekki að jarðskjálftarnir ellefu hafa verið stórir. Fjórir eða fimm hafa verið stærri en tvö stig og einn var 3,5.
Skjálftarnir hófust í dag um kl. 13 með hörðum skjálfta upp á 2,3. Um klukkutíma síðar kom enn stærri skjálfti, 2,8. Þá fylgdu þrír vægari en um 17:24 kom þessi stóri. Síðan hafa komið fimm skjálftar, sá síðasti um 17:49. Allir hafa þeir verið stærri en 1,0, sá stærsti 1,9.
Vísindamenn horfa ekki aðeins á stærð skjálfta heldur líka hvar þeir verða. Þeir hafa verið á milli 3,5 km að dýpt og allt niður í 8,8 km.
Eins og sjá má hafa allir skjálftarnir verið á sömu slóðum sem þykir víst dálítið merkilegt.
Mér skilst að margir skjálftar í sömu röð og á sama stað geti bent til þess að um kvikustreymi sé að ræða.
Svo bæta jarðfræðingarnir við: Þetta þarf ekki að þýða neitt, getur sosum hætt núna eða haldið áfram.
Með orðum veðurfræðinga: Annað hvort rignir'ann eða ekki.
Kortin skýra sig sjálf. Neðsta myndin er af Jarlhettum, Stóra-Jarlhetta er hægra megin. Myndin er tekin frá Kjalvegi með miklum aðdrætti.
Jörð skalf við Jarlhettur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heift og titrandi bræði milli Steingríms og Atla
29.3.2013 | 17:41
Heiftin tekur á sig ýmsar myndir. Tveir fyrrum pólitískir samherjar áttust við á síðasta fundi Alþingis. Á yfirborðinu var allt kurteist og rólegt, enginn hrópaði og enginn var með svívirðingar. Mórölsku banaspjótin voru þó brúkuð.
Um klukkan 0:15 lauk Atli Gíslason, þingmaður máli sínu um Kísilver á Bakka. Hann gaf sínum gamla flokki, Vinstri grænum ekki góða einkunn og skilur ekki, frekar en aðrir Íslendingar, hvers vegna örlátar skattlegar ívilnanir eru veittar kísilveri sem reisa á við Húsavík.
Hægra megin á sjónvarpsskjánum mátti sjá Steingrím J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, iða í stól sínum undir ræðum síns gamla samherja. Og hann veitti örstutt andsvar sem hlýtur að vekja furðu þeirra sem fylgjast með í stjórnmálum. Sjá mátti að hann var reiður en stillti sig og sagði:
Herra forseti. Í enskri tungu er að finna orðið pathetic. Ég hygg að ágæt íslenskun á því sé lítilmótlegt.
Með því hvarf Steingrímur úr ræðustólnum.
Forseti gaf þá Atla Gíslasyni, þingmanni, orðið. Atli virtist líka vera reiður. Hann snéri baki í Steingrím, stillti sér þannig vísvitandi upp, og sagði:
Menn tala um orð og efndir í pólitík. Menn tala um hugsjónir. Þessi andsvör háttvirts ráðherra eru ekki svaraverð að mínu mati.
Heiftin og titrandi bræðin sem greinilega mátti finna á máli Steingríms og Atla er hrikaleg. Eitthvað hefur gerst sem orsakað hefur slík vinslit að þeir geta ekki verið í sama flokki og þeir geta ekki talast við. Þá sjaldan sem þeir eiga orðaskipti þá líta þeir ekki á hvorn annan heldur senda þeir baneitruð orð sem valda ugglaust stórskaða í sálartetrunum. Þetta eru náttúruhamfarir.
Miklu fleiri góðar gönguleiðir til en Laugavegurinn
27.3.2013 | 01:54
Ekkert skil ég í Ferðafélagi Íslands og Útivist. Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur er falleg en hún er fyrst og fremst afurð vinsamlegs umtals sem skapast af því að lítil áhersla er lögð á að byggja upp aðrar gönguleiðir á landinu.
Fólk vill gista í húsum. Það tryggir öryggi. Gisting í húsum er einkenni Laugavegsins. Það vantar hins vegar aðrar og góðar gönguleiðir. Ekki síst vantar kynningu á öðrum gönguleiðum. Í ofanálag vantar markaðssetningu á gönguleiðum þar sem ekki er gist í húsum.
Útivist reið á vaðið og hefur byggt upp gönguleið frá Langasjó, í Sveinstind, Skælinga, Lambaskarðshóla, Álftavötn, Strútsskála og þaðan suður á Laugaveginn. Þar er gist í húsum. Hluti af þeirri leið hefur verið nefndur Skólavörðustígurinn af auðskiljanlegum ástæðum.
Ferðafélag Íslands hefur byggt upp frábæra gönguleið frá Snæfelli og í Kollumúla. Stórkostlegar gönguleiðir eru frá Borgarfirði eystri, Víknaleiðir.
Gönguleiðin frá Hveravöllum, um Þjófadali, Þverbrekknamúla og í Hvítárnes er stórkostlega fögur. Húsin þar rúma þó ekki eins marga og þau á Laugaveginum. Gönguleiðir eru stórkostlegar í kringum Lakagíga en þar hafa hestamenn verið ráðandi í skálum. Á Hornströndum setur göngufólk ekki fyrir sig að gista í tjaldi. Þori að fullyrða að aðsóknarmet verði slegið þar í sumar.
Vatnaleiðin, frá Hlíðarvatni, að Hítarvatni og áfram að Langavatni og síðan að Bifröst hefur ekki náð að festa sig í sessi þó hún sé nokkuð þekkt. Sama er með gönguleiðir á Norðurlandi, t.d. er stórfín gönguleið frá Sauðárkróki um Víðidal og Laxárdal og að Blönduósi.
Hægt er að nefna aragrúa gönguleiða hér og þar um landið og við það vakna vangaveltur um þörfina að fara Laugaveginn. Hann er eiginleg of hátt skrifaður miðað við aðra kosti. En ... ef til vill eru þetta bara vangaveltur manns sem hefur farið svo oft þessa umtöluðu gönguleið að hann er jafnvel farinn að fá leið á henni.
Fyrir alla muni, þið í Ferðafélagi Íslands, Útivist og öðrum klúbbum og félögum, byggið upp fleiri gönguleiðir. Þetta er að verða eins og í gamla daga þegar enginn fór neitt nema í Landmannalaugar eða í Þórsmörk. Við sem fórum eitthvað annað vorum annað hvort taldir ruglaðir eða meiriháttar fjallafólk.
Uppselt á Laugaveginn í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kristján Eldjárn, sannur vísindamaður og einstaklega ritfær
27.3.2013 | 00:38
Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður, hafði síst af öllu verið sannfærður um að hann og félagar hans hafi fundið minjar um norræna byggð á Nýfundnalandi. Þetta má glögglega lesa í Vínlands dagbók sem byggð er á rituðum dagbókum Kristjáns og kom út síðasta haust.
Þetta er falleg bók og lýsir Kristjáni afar vel, hógværum og vandvirkum fræðimanni, sem lætur verkin talan en hleypur ekki til óðamála um leið og eitthvað merkilegt finnst í uppgreftri hans.
Við lesturinn fær maður það á tifinninguna að rannsóknarleiðangurinn til Nýfundnalands sem Norðmaðurinn Helge Ingstad stóð fyrir hafi verið skipulagður til þess eins að upphefja forystumannin sem ætlaði að finna minjar um norræna byggð við þorpið L'Anse aux Meadows.
Kristján var auðsjáanlega einstaklega ritfær maður. Málfarið í dagbók hans er hreint og tært, hugsunin skýr og hann er umfram allt heiðarlegur og góður maður. Í leiðangrinum kastast í kekki milli manna eins og oft vill verða. Vandamálið er að forystumaðurinn, Helgi Ingstad, ber ekki sama skynbragð á rannsóknir og fundi eins og Kristján, vill helst hlaupa með allt í fjölmiðla. Hann áttar sig ekki á að þarna finnast ummerki sem eru eftir steinaldarfólk og einnig frumbyggja.
Hann átti í sífelldum rökræðum við Ingstad og það hjálpaði ekki upp á móralinn í leiðangrinum. Kristján skrifar meðal annars þann 8. ágúst 1962:
Vafamál er einnig hvort framkoma okkar við Ingstad hefur verið alveg rétt, þótt hún sé skiljanleg. Ef til vill hefði ég átt að tala meira í trúnaði við hann og sýna honum fram á að hann skyldi ekki reyna að þrýsta sínum sjónarmiðum upp á okkur. Í staðinn var sú stefna tekin að tala sem minnst um rannsóknina til að þurfa ekki sífellt að vera að argúmentera við Ingstad. Það var líka alveg óþolandi. En það segi ég satt að ég vildi nokkuð til vinna að Ingstad slyppi sem skást frá þessu öllu þó vitanleg ekki það að misbjóða sannleikanum á neinn hátt. Fyrir mér liggur nú að reyna að haga svo mínum orðum að siglt sé milli skers og báru og getur það orðið erfið sigling. Við sjáum til. Enn má svo fara að kenning Ingstads haldi velli að einhverju leyti.
Svo ljúfur og góður er Kristján í umsögn sinni um mann sem greinilega er dálítill fúskari og leitar að gögnum til að sanna hugmyndir en lætur ekki gögnin sem finnast segja frá. Slíkt finnst Kristjáni ekki góð fræðimennska. Engu að síður vill Kristján halda friðinn og leyfa Ingstad að fá eitthvað út úr þessu öllu.
Í lok bókarinnar er kafli eftir Adolf Friðriksson, fornleifafræðing. Hann fer yfir rannsóknir á norrænum mannvistarleyfum í Norður Ameríku og meðal annars á uppgreftrinum í L'Anse aux Meadows. Adolf segir á bls. 162:
Það var ekki af tómri þvermóðsku að Kristján Eldjárn vildi ekki skera úr um eðli minjanna í L'Anse aux Meadows. Hann hafði ekki þær upplýsingar sem hann þurfti til að glöggva sig á augljósum ummerkjum um frumbyggja á staðnum.
Síðar á sömu blaðsíðu segir Adolf:
Síðast en ekki síst lá vandinn í túlkun á öllum minjunum í því að ekki fundust neinir norrænir gripir heldur eingöngu munir frá því löngu fyrir daga víkinga og fram til nútímans. Árið 1964 fannst loks snældusnúður úr klébergi og síðasta uppgraftarár Ingstadshjónanna, 1968, fannst hringprjónn úr bronsi, dæmigerðir munir frá víkingaöld.
Og á næstu blaðsíðu, 263, kemur loks staðfestingin:
Gerðar hafa verið á annað hundrað aldursákvarðanir með geislakoli og sýna þær að aðalbyggðin er frá 10.-11. öld. Jaspismolar sem fundust við uppgröftinn eru líklega upprunnir úr íslenskri náttúru. Allt hefur þetta treyst í sessi þá niðurstöðu að hér sé um ósvikinn norrænan bústað að ræða.
Án efa hefur Kristján Eldjárn glaðst yfir niðurstöðum rannsóknanna í L'Anse aux Meadows. Hann vildi þó ekki, rétt eins og Adolf bendir á, standa að einhverjum glannalegum yfirlýsingum. Þetta segir nú margt um vísindamanninn Kristján Eldjárn, þann sem síðar varð forseti Íslands og stóð sig með sóma í því starfi.
Mér þótti afskaplega fróðlegt að lesa bókina um rannsóknir Kristjáns í L'Anse aux Meadows og eins og áður sagði er hún falleg bók. Mér finnst eiginlega eins og ég hafi aldrei náð að kynnast höfundinum eins vel og við lestur hennar. Í bókinni er fjöldi litmynda og treysta þær í sessi ímynd hins ágæta vísindamanns.
Er nýja gasmælingastöðin Café Hekla enn óvirk?
26.3.2013 | 13:24
Fyrir nokkrum dögum flutti þyrla Landhelgisgæslunnar gasmælingatæki á Heklu. Ætlunin er að mæla gasútstreymi í fjallinu sem hugsanlega geta gefið vísbendingu um hvort kvika sé að færast nær yfirborði. Við hreyfingu hennar verða til margvísleg loftbær efni sem vísindamenn vilja safna saman.
Á vef Veðurstofnunnar segir um þetta:
Mælingar munu hefjast í byrjun apríl og gögnin streyma á Veðurstofuna þar sem þau tengjast annarskonar vöktun (skjálftavirkni, skorpuþenslu). Lögð er áhersla á að hefja sem fyrst samfellda söfnum gagna til að fá upplýsingar um hegðun gasútstreymis frá eldstöðinni og finna þröskuldsgildi sem nýst geta sem fyrirboðar eldgoss.
Nú er það spurningin hvort einhverjar tilgátur séu um kvikuhreyfingu miðað við þann stutta tíma sem tilraunin hefur staðið, en aðferðafræðin var prófuð sumarið 2012.
Gasmælingastöðin hefur fengið gælunafnið Café Hekla. Hún er staðsett á tindi Heklu til frambúðar, með leyfi frá Rangárþingi ytra. Hún veldur engri hljóð- eða loftmengun en varað er við því að reynt sé að opna kofann því gasstyrkur þar inni getur verið hættulegur.
Nú kann gleði vísindamanna að vera dálítið takmörkuð því ef kvikan er á leiðinni upp þá mun gasmælingastöðin án efa eyðileggjast svo fremi sem gýs í toppgígnum.
Ég hef það hins vegar á tilfinningunni að ef gjósi á þessum slóðum þá verði það eitthvað austan við Heklu, norðan við Vatnafjöll. Hvaða rök hef ég fyrir því? Jú, draumspakur maður fullyrti þetta. Auk þess hefur verið meiri jarðskjálftavirkni austan við Heklu en á fjallinu sjálfu undanfarnar vikur og mánuði.
Meðfylgjandi mynd af gasmælingastöðinni á Heklutindi er tekin tekin án leyfis af vef Veðurstofunnar. Þar er ekki getið um ljósmyndara.
Engin sjáanleg merki um eldgos | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mælingar sýna dálítinn óróa
26.3.2013 | 11:56
Ekki virðist mikið um að vera miðað við óróamælingar í Mjóaskarði í Vatnafjöllum, sjá hér til hliðar. Og þó ef til vill er þetta talsvert miðað við Heklu. Svona órói þarf ekkert að þýða að fjallið gjósi.
En hvað er órói?Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur segir um óróamælingar á bloggi sínu. Hann segir:
Jarðskjálftafræðingar á Veðurstofu stilla mæla sína til að skrá bylgjur sem eru á tíðninni 0,5 til 1 Hz, 1 til 2 Hz, og 2 til 4 Hz.
Og svo áfram:
Lágtíðni er einkennandi fyrir vissa tegund óróa eða jarðskjálfta (1 til 5 Hz) og er talið að þeir myndist vegna kvikuhreyfinga í jarðskorpunni eða jafnvel vegna rennslis kviku í átt að yfirborði jarðar.
Óróinn myndast vegna breytilegs þrýstings þegar kvikan streymir. Það er oft sagt að órói líkist titringi sem heyrist stundum í vatnslögnum í heimahúsum. Á meðan órói er fyrir hendi, þá er líklegt að kvikan sé á hreyfingu og gos jafnvel í gangi.
Það er því einkum athyglisvert í dag á Eyjafjallajökli að óróinn heldur áfram og er nokkuð hár (sjá mynd til hliðar), þótt öskuframleiðsla sé lítil og sprengingar færri og smærri. Það bendir sennilega til þess að kvika sé að streyma upp í gíginn og að nú sé gosið komið á stig sem má kalla blandað gos. Það þýðir að gosið einkennist af bæði sprengingum vegna samspils kviku og bræðsluvatns úr jöklinum, og einnig kviku sem er að byrja að safnast fyrir í eða rétt undir gígnum.
Óvissustig vegna Heklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)