Forseti Alþingis þarf að gæta sín á framkvæmdavaldinu

Þegar litið er yfir feril Ástu Ragnheiðar í forsetastóli er ljóst að hún hefur lagt sig fram um að vera sjálfstæð í sínum störfum gagnvart stjórn og stjórnarandstöðu. Það styrkir stöðu hennar að hún fékk yfir 95% atkvæða þegar hún var kjörin.
Þessi afstaða sést meðal annars á því að hún hefur aldrei gert grein fyrir atkvæði sínu á kjörtímabilinu og aldrei talað fyrir pólitísku máli. Hún hefur þó beitt sér fyrir almennum málum, einkum þeim er varða þingið, svo sem frumvarpi um rannsóknarnefndir þingsins þar sem hlutverk þeirra er skilgreint.
 
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er heilsíðu samantekt um störf Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis eftir Pétur Blöndal, blaðamann. Niðurstaða umfjöllunarinnar felst í stuttu máli í ofangreindri tilvitnun. Við hana er ekkert að bæta. Ragnheiður Ásta hefur á síðustu fjórum árum náð ágætum tökum á starfi sínu og það sem mestu máli skiptir hún áttar sig á því hversu mikilvægt embættið er fyrir þingræðið.
 
Mestu skiptir að forseti Alþingis sé sjálfstæður í störfum sínum. Það getur hann þó svo að hann sé þingmaður, hluti af meirihlutanum. Hann verður að horfa til sögunnar í störfum sínum, gera sér grein fyrir því að þingið má ekki snúast eftir því hvernig vindurinn blæs á hverjum tíma.
 
Margir merkir þingmenn hafa gengt störfum forseta Alþingis. Segja má að þrátt fyrir ágæt störf Sturlu Böðvarssonar sem ráðherra samgöngumála hafi virðing hans vaxið að mun er hann var forseti Alþingis á árunum 2007 til 2009. Sama er að segja með Halldór Blöndal sem var forseti í sex ár og þótti bæði mildur en staðfastur og bjó að auki yfir ágætu skopskyni.
 
Mér er Þorvaldur Garðar Kristjánsson, þingmaður, líka eftirminnilegur. Hann var eiginlega holdgerfingur embættisins. 
 
Fyrsti forseti sameinaðs þings Alþingis hét Jón Sigurðsson (1811-1879) sem ætti nú að vera flestum Íslendingum ofarlega í huga. Hann er oftast nefndur Jón forseti en þó ekki vegna starfa sinna á Alþingi 1875-1877, heldur vegna þess að hann var forseti Hins íslenska bókmenntafélags. 
 
Benedikt Sveinsson faðir Einars skálds var forseti Alþingis 1893-1894. Síðar urðu Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein og Jón Magnússon forsetar Alþingis. Einnig má nefna merka menn eins og Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseta og Tryggva Þórhallsson sem einnig var forsætisráðherra og fleiri og fleiri sem settu mark sitt á Alþingi.
 
Eins og sjá má af fátæklegri upptalningu er Alþingi engin hversdagsleg stofnun. Hún er ein af grundvallarþáttum þjóðfélagsins og sá sem situr hverju sinni í embætti forseta hlýtur að vera reglulega hugsað til sögunnar í ákvörðunum sínum. Hann hlýtur öllum stundum að standa fast í fæturna gegn ofríki framkvæmdavaldsins. Ef ekki breytist þingið smátt og smátt, verður eins og vindhani sem snýst um leið og nýir flokkar taka við í stjórn landsins. Um leið þarf Alþingi að horfa fram á veginn, marka starfsháttum sínum ákveðna stefnu, ekki aðeins á þingfundum heldur einnig sem stofnun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband