Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013
Evrópuþjóðir halda ekki vatni yfir íslenska laginu ...
22.3.2013 | 13:17
Nú er vorið í nánd, farfuglarnir koma, sólin komin fram úr jafndægrinu og allt í lukkunnar velstandi. Því fylgir auðvitað heljarins bjartsýni vegna evróvisjóns. Íslenska lagið er það langbesta, rétt eins og í fyrra, hitteðfyrra, þar áður og allar götur síðan við lentum fyrst í sextánda sæti sem var auðvitað stórsigur.
Og mikið óskaplega fagna ég frétt Morgunblaðsins sem byrjar svona: Evróvisjónaðdáendur um víða veröld virðast almennt ánægðir með að íslenska lagið Ég á líf með Eyþóri Inga sé flutt á íslensku ....
Þetta hefur skýran samhljóm með fréttum af íslenskri þátttöku af undanförnum árum. Við eru i þann veginn að vinna, rétt eins og núna, og það á íslensku.
Þó lagið sé skemmtilegt og flutningurinn góður þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að við eigum ekki nokkurn sjéns í að vinna þessa keppni. Dettur einhverjum í hug að það geti virkilega gerst og hægt sé að byggja á vefsíðum eða undirtektum einstakra spekúlanta?
Alltaf eru byggðar upp væntingar sem svo bregðast.
Íslenski textinn vekur lukku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Seðlabankastjóri og forsætisráðherra bregða á leik
22.3.2013 | 09:52
Jóhanna: Og þú stefndir okkur í ríkisstjórninni til að fá hærri laun.
Már: Já, betra að fá hærri laun frá dómstóli en ykkur.
Jóhanna: Þú ert nú meiri prakkarinn ...
Már: Ahahahahahah ... Já, ég er svoddan spaugari inni í mér.
Jóhanna: Ég er nú líka hrekkjótt!
Már: Láttu mig vita það.
(Myndin er úr frétt á bls. 23 í Morgunblaðinu í dag. Ofangreind orðaskipti forsætisráðherra og seðlabankastjóra munu vera orðrétt eftir höfð að sögn heimildarmanns.)
Svarar það kostnaði leyfa ítölu upp á 130 lambær?
21.3.2013 | 21:05
Ef Almenningar þola 130 lambær hvað skyldu þá Emstrur þola?
Meðfylgjandi mynd er tekin norðarlega í Emstrum, líklega við Bjórgil eða þar um kring. Þarna er ekki samfelldur gróður heldur skellur hér og þar. Þannig eru Almenningar.
Án þess að hafa neitt við á beitarþoli myndi ég halda því fram að það væri í þágu svæðisins að ekkert sauðfé fengi að ganga þarna. Líklega kæmi það í veg fyrir að það yrði hungurmorða.
Á meðan ætti að leyfa lausagöngu tvífætlinga eins og verið hefur frá aldaöðli.
Flestir þekkja Emstrur og vita hversu mikil eyðimörk þar er. Engu að síður hefur maður séð rollur flækjast þar um og narta í þau strá sem þar fyrirfinnast. Neðri myndin er af kunnuglegum stað á gönguleiðinni og Hattafell í bakgrunn, báðir hattarnir sjást.
Munurinn Emstrum og Almenningum er að hinir síðarnefndu eru afluktir og þarf að hafa mikið fyrir því að koma sauðfé þangað. Auðveldara er að koma því í Emstrur en þar er miklu minni gróður.
Ég velti því nú fyrir mér hvort það svari kostnaði að koma 130 lambám í Almenningar og sækja þær aftur. Efast um það.
Ítala á Almenninga verði 130 lambær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórninni í hag að halda þinginu í húsi
21.3.2013 | 11:46
Hún Ólöf Nordal veit ekki það sem blasir við öllum sem vilja að það er ríkisstjórninni í hag að halda þinginu sem lengst í húsi. Fyrir vikið er hægt að kenna stjórnarandstöðunni um allt það sem miður hefur farið á fjögurra árar valdatíma norrænna velferðarstjórnar.
Jafnvel má kenna stjórnarandstöðunni um hrunið, stjórnun Alþingis, skuldastöðu heimilanna, verðtrygginguna, kvótamálin, fiskveiðistjórnunina, flugvöllinn í Reykjavík, stjórnarskrármálið og allt annað sem hægt er að upphugsa.
Það sem upp úr stendur er þó aðeins eitt. Ríkisstjórnin hefur reynst vera gagnslaus til annarra hluta en að þrífa skrifborðin sín og sópa vandamálum undir teppið. Með því að halda þinginu að störfum fær ríkisstjórnin ókeypis auglýsingu. Jóhanna getur komið af og til fram á tröppur þinghússins og mæðulega kennt stjórnarandstöðunni um stöðuna. Og Steingrímur getur farið í pontu og, lítið yfir salinn í leiðindum sínum og spurt þingheim hvort ekki hafi orðið hrun fyrir fjórum árum.
Svo má auðvitað spyrja hver stjórnar þinginu, meirihluti eða minnihluti? Eða bara ríkisstjórnin.
Tillaga um frestun þingfunda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er presturinn of gamall til að skrifa í Fréttablaðið?
21.3.2013 | 11:35
Ástæða uppsagnar var ekki að pistlar mínir væru lélegir og ekki heldur að ég væri prestur. Ástæðan var aldur minn. Blaðið þyrfti að sækja inn á æskumarkaðinn. Lesendum Fréttablaðsins í hópi 50 ára og eldri hefur fjölgað, er stærsti lesendahópurinn og er þar með mikilvægur markhópur auglýsenda. Í stað þess að styrkja þjónustuna við þetta fólk ætlar blaðið aðallega að sækja inn í æskugeirann með yngri höfundum. Skýringin er trúverðug en ég hræðist inntak hennar. Stækkandi kúnnahópur fær verri þjónustu! Hvers konar afstaða er það?
Svo skrifar Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, í Fréttablaðið í dag og er greinin líka birt á visir.is.
Ég les mikið, bækur, dagblöð, tímarit, ársrit, netmiðla, blogg og eiginlega hvað sem ég kem höndum yfir. Þetta er einhvers konar árátta. Alltaf verð ég glaður þegar ég næ að lesa vel skrifaða grein, þá líður mér vel í hjartanu og hugsa innst inni hvað það væri nú gaman að geta skrifað eins.
Þó ég þekki hann nafna minn, prestinn í Neskirkju, þokkalega, þá er það ekki þess vegna sem ég hef lesið greinarnar hans í Fréttablaðinu. Þær eru bara góðar og hann tekur á hinu daglega lífi með jákvæðni og oft glettni. Hann er bara ansi góður penni.
Nú hefur hann fengið sparkið frá ritstjóra Fréttablaðsins. Breytingar eru í sjónmáli og ætlunin er að poppa upp blaðið, gera það verðugra fyrir þá sem enn hafa ekki safnað árum eins og hann nafni minn. Þetta er svo merkilegt vegna þess að árafjöldi er afstæður. Ungt fólk getur verið afgamalt í skoðunum og hegðun meðan það eldra er frískara og kátara. Á þessu er sumsé allur gangur.
Bestu ráðgjöf hef ég jafnan fengið frá þeim sem eru mér eldri. Mestu mistökin hef ég gert þrátt fyrir ráð mér eldra fólks. Þannig er það að ungur nema það sem gamall temur.
Ef Fréttablaðið ætlar að vera froðan ein, mata ungt fólk með því sem talið er að ungt fólk vilji þá er það einfaldlega röng stefna. Slíkt getur ekki verið farsælt til lengdar. Þó hægt sé að sýna fram á að tiltekin hegðun sé aldurshópatengd þá skiptir það ekki öllu máli. Jú, nema að því leytinu til að markaðshyggjan taki algjörlega völdin og ekkert sé rétt nema það sem nákvæmar demógrafískar rannsóknir segja. Þá er það vindáttin sem ræður ekki blaðamennskan.
En að móta ritstjórnarstefnu eftir markaðnum, ekki upplýsingamiðlun verður einfaldlega til þess að menn eins og Sigurður Árni Þórðarson hverfa af síðum Fréttablaðsins og lesendur þess verða fátækari í anda.
Óhæfur borgarstjóri saknar áheyrenda en fær reiða kjósendur
21.3.2013 | 09:46
Það er ekkert tilhlökkunarefni að mæta á fundi þar sem maður er að fara að horfa framan í fullt af fólki sem er ofsalega reitt,« sagði Jón Gnarr borgarstjóri á fundinum. Borgarstjóri hélt ræðu í upphafi fundar og svo aðra eftir framsögur. Hann svaraði hins vegar ekki fyrirspurnum fundarmanna úr sal.
Jón sagði að hrunið hefði sett gríðarlegt álag á allt innra kerfi borgarinnar og dregið úr tekjum. »Við höfum í dag úr um það bil sjö milljörðum minna að spila en við höfðum árið 2008. Það hefur gert að verkum að við höfum þurft að fara í alls kyns aðgerðir og bæði starfsfólk og stjórnmálamenn í borginni lagt á sig gríðarlega mikla vinnu við að reyna að leysa úr þessum vanda,« sagði Jón.
Glápgjaldið er einföld græðgisvæðing
20.3.2013 | 23:32
Hugmynd Robert Barnard, ráðgjafa hjá svissneska fyrirtækinu PKF, er ugglaust sniðug en hún gengur ekki upp. Þó hægt sé að heimta gjald af útlendum og jafnvel innlendum ferðamönnum er ekki þar með sagt að það sé réttlætanlegt.
Nefskattur á ferðamenn
Það getur vel verið að stjórnvöld séu komin upp undir vegg með fjárveitingar til ferðamála en það réttlætir ekki nefgjald á ferðamenn til að leysa úr þeim vanda. Staðreyndin er hins vegar sú að ferðamenn borga fyrir þá þjónustu sem þeir fá hér á landi, af flestu er reiknaður virðisaukaskattur, til viðbótar eru aðrir beinir og óbeinir skattar og tekjur sem ríkissjóður hefur af auknum ferðamannastraum.
Ekki þykir það nú merkileg pólitík að hirða allan afrakstur og láta ekkert á móti. Ekki þykja það heldur skynsamleg rök að samþykkja skattlagningu eða gjaldtöku af þeirri ástæðu einni að hægt er að framkvæma hana.
Skaðinn
Sé hins vegar ætlunin að takmarka ferðamannastraum til landsins einhverra hluta vegna, til dæmis til að hlífa náttúrunni, er gjaldtaka ágætt leið. Hún kann þó að snúast í höndunum á þeim sem beita henni og valda einfaldlega skaða.
Ísland er í dag að upplifa mikla aukningu í fjölda ferðamanna, en hlutur ykkar er enn mjög lítill og því er mikið tækifæri á að auka hlutdeild landsins.
Þessu heldur Robert Barnard fram í viðtalinu. Ráðgjafi sem heldur því fram að tekjur ríkissjóðs upp á á að giska 70 milljarða króna af ferðaþjónustu sé lítill, fer villur vegar. Í grein í Morgunblaðinu í morgun hélt ég því fram að velta þjóðarbúsins vegna erlendra ferðamanna sé um 200 milljarðar króna. Það er rangt, þeir eru um 300 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum þeirra sem gerst þekkja. Af því má gera ráð fyrir að virðisaukaskattur sé á milli 60 og 70 milljarðar króna. Þá er annar tekjuauki í ríkissjóð ótalinn.
Græðgisvæðing
Mikilvægt er að kunna sér hóf. Ráðgjafi sem skoðar ekki allar hliðar mála er ekki góður. Því miður virðist mér að Robert Barnard veiti slæm ráð. Í það minnst tel ég að það sé afar óráðlegt að heimta gjald af þeim sem vilja ferðast um landið. Slíkt glápgjald, eins og það hefur verið nefnt, er ósanngjarnt.
Það er ekki eingöngu hægt að horfa til meintrar þarfar fyrir nokkra milljarða króna og segja si svo að það sé ágætt að ferðamenn greiði fyrir afnotin. Þá gleyma menn því sem skiptir mestu máli, ferðamenn greiða þegar milljarða. Spurningin er hins vegar sú hvort að þeim peningum sé ráðstafað rétt eða hvort að græðgin eigi að taka hér völdin með allri þeirri óvissu sem henni fylgir.
Ferðamannapassar fyrir 10 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Glápgjald á ferðamenn er ofbeldi
20.3.2013 | 10:56
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ísland er að breytast í láglaunaland
20.3.2013 | 10:30
Ég hef haldið því fram á þessum vettvangi að með traustu atvinnulífi leysast flest vandamál. Án þess mun allt ganga á afturfótunum rétt eins og það gerir núna.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sammála þessu í grundvallaratriðum. Þess vegna leggur hann mikla áherslun í skrifum sínum á frelsi einstaklingsins og sjálfstæði atvinnurekenda. Honum er tíðrætt um millistéttina, ofsköttun hennar.
Í grein í Morgunblaðinu í morgun ræðir Óli Björn um aðför vinstri stjórnarinnar að borgaralegu samfélagi. Hann segir:
Hagvöxtur er lítill og við glímum enn við kreppu. Fjárfesting er langt frá því sem nauðsynlegt er og dugar ekki til að standa undir nauðsynlegri endurnýjun, hvað þá nýjum atvinnutækifærum. Þannig er dregið úr möguleikum til vaxtar í framtíðinni, möguleikum til að fjölga störfum og hækka raunlaun. Hægt og bítandi er Ísland að breytast í láglaunaland sem stenst engan samanburð við nágrannaþjóðirnar.
Hann hvetur kjósendur til að velta fyrir sér áleitnum spurningum um efnahagslífið og vöxt þess og spyr kjósendur:
- Hvaða stjórnmálaflokkur mun ryðja brautina fyrir nýja atvinnuuppbyggingu, skynsamlega nýtingu orkuauðlindanna og aukna fjárfestingu í atvinnulífinu?
- Hvaða stjórnmálaflokkur mun verja séreignastefnuna og vinna þannig að því að tryggja fjárhagslegt öryggi heimilanna?
- Hvaða stjórnmálaflokkur skilur best samhengið á milli öflugs atvinnulífs, fjölbreyttra tækifæra, hærri launa, hófsemdar í skattheimtu og aukins kaupmáttar?
- Hvaða stjórnmálaflokkur áttar sig á því að forsenda velmegunar er öflug millistétt sem er burðarás þjóðfélaga sem best standa?
- Hvaða stjórnmálaflokkur er líklegur til að koma skikki á fjármál ríkisins, stoppa hallarekstur og greiða niður skuldir í stað þess að veðsetja framtíðina?
- Hvaða stjórnmálaflokkur getur lagt grunn að því að skuldavandi heimilanna verði leystur með skynsamlegum hætti?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta eru AÐLÖGUNARVIÐRÆÐUR og enginn samningur
19.3.2013 | 20:59
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur misskilið viðræður Íslands við ESB. Ekki er um að ræða neinar samningaviðræður þetta eru aðlögunarviðræður.
Tilgangur þeirra er að við sýnum ESB fram á að landið geti gengið í ESB, búið sé að samræma löggjöf okkar og reglukerfi við þá hjá ESB, og stjórnsýslan sé eins.
Þetta heita AÐLÖGUNARVIÐRÆÐUR í 35 liðum. Það er stór misskilningur er að þetta séu einhverjar samningaviðræður. Eða getur Þorgerðru Katrín eða einhver annar bent á einhverja samninga sem gerðir hafa verið frá því að Alþingi samþykkti umsóknina í júlí 2009?
Staðreyndin er sú að þegar aðlöguninni er lokið hefur Ísland heimild til að leggja fram einhverjar kröfur um undanþágur gagnvart löggjöf og stjórnsýslu ESB. Hugsanlega mun ESB veita TÍMABUNDNAR undanþágur, eina eða fleiri.
Að öðru leyti verður ekki um neina samninga að ræða enda er Ísland að sækja um aðild að ESB. Sambandríkin eru hæstánægð með það sem þau hafa og eru ekki að leita að neinum til að breyta því.
Þau gera hins vegar kröfu til að Ísland taki breytingum. Væri ég þingmaður myndi ég hafna tillögu Þorgerðar Katrínar. Hún orðar tillöguna svona:
Vilt þú að Ísland haldi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að aðildarsamningur verði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
Forsendur spurningarinnar eru einfaldlega rangar. Í þokkabót er tvískipt spurning er blekkjandi. Hið eina sem þarf að spyrja um er eftirfarandi:
Á Ísland að vera hluti af Evrópusambandinu?
Allar aðrar spurningar eru óþarfar. Alþingi átti að leggja þessa spurningu fyrir þjóðina áður en það samþykkti umsóknina. Ríkisstjórnarflokkarnir þorðu því ekki því þeir vissu niðurstöðuna.
Nú er verið er að breyta þjóðfélaginu til að það smellpassi inn i ESB. Og margir sem þetta vita skrökva til um eðli viðræðnanna og hafa skáldað upp að samningur verði til í lok þeirra.
Kosið verði um ESB 27. apríl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.9.2022 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)