Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Verð ég að fylgjast með þessu máli?

Málarekstur saksóknara í Suður-Afríku gegn frægum fótalausum íþróttamanni er að verða að framhaldsögu, uppáhald blaða- og fréttamanna út um allan heim. Harmleikurinn er endurtekinn dag eftir dag í helstu fjölmiðlum hér á landi og erlendis og rétt eins og maður eigi enga ósk heitari en að vera áskrifandi að svona ógeðfelldu máli og málarekstri.

Atburðurinn, samkvæmt því sem nú er vitað, ber vitni um algjöran skynsemisskort, hugsunarleysi og aðgerðir sem voru í engu samræmi við aðstæður. Málareksturinn er auglýsingamennska sem er úr öllu samræmi við tilgang dómstóla og verkefni þeirra.

Og rökin núna eru þau að aumingjans íþróttamaðurinn hafi átt að bana unnustu sinni vegna þess að þau rifust heiftarlega kvöldið fyrir harmleikinn. Rökin er þau að fólk í sambúð tekur auðvitað fram byssu og skýtur hitt fari það hallloka eða líður illa eftir rifrildi. Og auðvitað er ætlunin sú að almenningur, hvar sem er í heiminum taki afstöðu. Hann drap hana! Hann drap hana óvart! Þvílíkir kostir sem boðið er upp á.

Eiginlega er ómögulegt til þess að hugsa að maður þurfi að sæta þess að þurfa að lesa eða heyra um þetta hörmungarmál á næstu vikum og jafnvel mánuðum, þvert gegn vilja mans. Slíkur er máttur fjölmiðla, maður á ekkert val, ekki er hægt að leiða ljótu málin hjá sér, hversu feginn sem maður vildi.


mbl.is Vitni skýra frá „hávaðarifrildi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboð Jóns er rothögg á VG í NV kjördæmi

Varla eru nokkrar líkur á því að nokkur maður láti stjórnmálaflokk og raunar ríkisstjórn fara með sig eins og Jón Bjarnason hefur þurft að þola. Vinstri grænir eru svo iðnir við ESB umsóknina að þeir sættu sig ekki við að Jón færi að stefnu flokksins. Þeir hentu honum út úr ríkisstjórn vegna andstöðunnar við ESB.

Og í þokkabót rægði forsætisráðherra Jón, gerði lítið úr honum, sagði hann slakan ráðherra og ekkert gagn af honum. Varaði sig þó á því í þessari herferð gegn einum manni að nefna aldrei ESB umsóknina.

Að sjálfsögðu mun Jón bjóða fram í Norðvesturkjördæmi. Hann verður kjörinn og gerir þar algjörlega út um vonir Vinstri grænna um að ná manni inn. Þannig verður endurkoma Jóns jafnglæsileg og niðurlægin VG mikil í þessu víðlenda kjördæmi.


mbl.is Líkur á sérframboði Jóns aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótímabær grein Tryggva Jónssonar

Fyrrum stjórnendur Baugs eiga erfitt uppdráttar. Skiptir engu þótt þeir telji sig persónulega hafa rétt fyrir sér í einstökum málum, almenningsálitið er þeim mótdrægt þó vonandi séu stjórnvöld og dómstólar hlutlaus.

Tryggvi Jónsson, löggiltur endurskoðandi og fyrrum forstjóri Baugs telur að ríkisskattstjóri og dómstólar hafi brotið á sér. Hann ritar ítarlega grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann rekur mál sem hann hefur lent í og er ósáttur við niðurstöðu þeirra fyrir dómstólum. Í lok greinarinnar segir hann:

Ég hef gert mín mistök í gegnum tíðina og fæst okkar eru fullkomin. Við erum þrátt fyrir allt mannleg. Hæstiréttur er undir miklu álagi, er samansettur af fólki og fólk er mannlegt og breyskt. Hæstiréttur er því auðvitað ekki óskeikull í sínum störfum frekar en aðrir. Dómarar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér þótt þeir eigi lokaorðið í réttarkerfinu. Ég breyti ekki niðurstöðunni með þessum greinarskrifum mínum, en vona að þau hafi komið mínum sjónarmiðum á framfæri við lesendur. 

Hefði Tryggvi leitað álits hjá mér og spurt hvort hann ætti að skrifa grein til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum hefði ég sagt honum að bíða. Skiptir engu þó hann telji á sér brotið og réttlætið sé hans megin. Það mál er útkljáð annars staðar og þar hefðu sjónarmið Tryggva átt að koma fram. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að almenningur er ekki tilbúinn til að hlusta á fyrrum forstjóra Baugs, jafnvel réttlætismál hans. Betra er að bíða og láta aðeins fyrnast yfir þær hremmingar sem hann hefur þurft að ganga í gegnum. Hugsanlega rennur upp sá tími að fólk taki Tryggva og fleiri Baugsmenn í sátt og minnist þeirra jafnvel fyrir önnur verk sem þeir hafa sinnt. 

 

 

 


Hvað þýðir að auka næturflug?

Icelandair hefur ákveðið að auka áætlunarflug til og frá Gatwick í London og mun frá og með 13. september í haust fljúga fjórum sinnum í viku til og frá flugvellinum.

Hvernig ætli sé farið að því að „auka næturflug“? Get ómögulega séð það fyrir mér.


mbl.is Bæta við Lundúnaflugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hlustar ekki í þessu máli né öðrum

Engin rök hafa komið fram fyrir því að þingið þurfi að ljúka við stjórnarskrármálið fyrir kosningarnar í vor. Ekki heldur hafa komið fram nein haldbær rök fyrir því að breyta þurfi stjórnarskránni. Hins vegar hefur gott fólk bent á að ýmislegt megi betur fara í núgildandi stjórnarskrá.

Breytingar á stjórnarskránni eiga eðli máls vegna að fara hægt og þær eiga að vera í eins mikilli almennri sátt og hægt er. Þess vegna væri ég tilbúinn til að styðja þá breytingu á stjórnarskránni að breytingar á henni væri ekki hægt að samþykkja nema tvö þing samþykktu þær með meira en tveimur þriðja atkvæða og þar á eftir færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla.

Þeir ellefu þingmenn sem nú hvetja þingið til að fara sér hægt segja meðal annars í áskorun sinni:

Tryggja verður vandaðan undirbúning og breiða samstöðu áður en  ný stjórnarskrá lýðveldisins er samþykkt. Töluvert vantar á að þessi skilyrði séu uppfyllt.  Skorum við á þingmenn að vanda betur til undirbúnings.

Þetta er hárrétt. Það er ekki aðeins stjórnarandstaðan sem hefur gagnrýnt stjórnlagabreytingarnar og offorsið sem einkennir flutning þeirra á Alþingi. Fjölmargir aðrir, lærðir og leikir, hafa gagnrýnt hvort tveggja og núna síðast Feneyjarnefndin.

Meirihluti ríkisstjórnarinnar á þingi ætlaði að láta krók koma á móti bragði þeirra sem gagnrýnt hafa og fá álit þessarar nefndar. Þá brá svo við að hún leggst í veigamiklum atriðum gegn breytingunum og nú er skyndilega ekkert að marka nefndina né heldur alla aðra sem gagnrýnt hafa.

Þannig vinnur meirihluti Alþingis í flestum málum, þvert gegn álitum enda virðast þar ráða hinir mestu þverhausar. Þar er ekki hlustað á ráð hinna bestu manna.


mbl.is Hæstaréttarlögmenn skora á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta þykistuleikur VR eða hrein mafíustarfsemi?

Alltaf er það ógeðfellt þegar menn taka sig til og hæla sjálfum sér. Ef til vill er gripið til þess ráðs vegna þess að aðrir eru frekar sínkir í hólið.

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, hælir sér og félagi sínu í Fréttablaðinu 14. febrúar sl. Hann segir meðal annars í grein sinni:

Í ágúst síðastliðnum hóf VR að nýju að þjónusta atvinnulausa félagsmenn sína. Felst sú þjónusta í vinnumiðlun, náms- og starfsráðgjöf og síðast en ekki síst í handleiðslu atvinnuleitenda í gegnum refilstigu bótakerfisins með fræðslu um réttindi og skyldur þeirra innan þess. Markmið þessarar þjónustu er fyrst og fremst að efla hvern og einn einstakling þannig að hann eigi meiri möguleika til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Þetta er svo sem gott og blessað að vilja vera góður við aumingjanna. Taka verður þó með í reikninginn að þessi meinta góðmennska VR byggist á því að launþegafélög og atvinnurekendafélög tóku höndum saman um að krefjast þess að fá að gera nákvæmlega sömu hluti og Vinnumálastofnun hafði gert um áraraðir. Munurinn var einungis sá að þessir aðilar vildu að ríkið borgaði sér fyrir að gera þetta. Það er nú öll hagkvæmnin.

Skemmst er frá því að segja að Starf ehf. skapar engin störf, mun ekki gera það og getur það ekki. Þetta er gagnslaust fyrirtæki sem hefur ekkert að gera annað en að þykjast. Í þeim tilgangi leikur það sér að atvinnulausum, sendir þá til og frá, krefst þess að þeir mæti á námskeiðum sem fjöldinn allur hefur enga þörf á.

Í þokkabót er stjórn og varastjórn fyrir þessu félagið VR og þar þiggja ýmsar silkihúfurnar laun fyrir að þykjast. Þetta er gamla sagan um gagnslausa góðmennsku sem ríkið borgar. Stefán formaður VR leggur ekki krónu í verkefnið, ekki heldur þeir sem sitja í stjórn Starfs ehf. Þeir eru algjörlega stikkfrí við að haldleika peningana sem þeir fá á silfurfati úr ríkissjóði. 

Enginn þorir að hallmæla Starfi ehf., allra síst atvinnulausir. Starf ehf. hefur það vopn sem allri hræðast og það er einföld tilskipun til atvinnuleitanda að gera hitt eða þetta að öðrum kosti verða bæturnar hirtar af honum. Þannig vinnur mafían, gerir manni tilboð sem ekki er nokkur lífsins leið að hafna.

En takið eftir því að enginn hælir Starfi ehf. nema formaður VR, framkvæmdastjórinn og aðrir sem eru launalega tengdir félaginu. Atvinnulausir eru afar sparsamir á hólið. 


Undirstaðan eftir Ayn Rand - vonbrigði

Undirstadan_cover_LQ_compact

Ég lauk um daginn við að lesa bókina Undirstaðan eftir Ayn Rand en hana fékk ég í jólagjöf. Þetta er heilmikill doðrantur upp á 1146 blaðsíður.

Mig hefur í dálítinn tíma langað til að segja frá bókinni hér, rétt eins og ég hef sagt frá nokkrum öðrum sem ég hef lesið upp á síðkastið. Vandinn er sá að ég á eiginlega í vandræðum með að tjá mig í stuttu máli um hana. Annar vandinn er sá að ég met bækur út af brjóstvitinu einu saman og það gæti truflað einhverja lesendur mína að ég hef enga forfrömun haft í litteratúr. Læt samt vaða.

Að mörgu leyti er bókin áhugaverð. Að sumu leyti má bera hana saman við Grettissögu vegna þess að í henni er mikil speki fólgin þó söguhetjan sé ekki eins farsæl og sú í Undirstöðunni.

Þá verða ég að skipta umsögninni í tvennt, boðskapinn og bókmenntalega gildið.

Lítið skemmtigildi 

Þetta er pólitísk saga, á að færa manni sanninn um að frjálst markaðskerfi sé hið skynsamlegasta fyrir samfélagið. Því er ég fyllilega sammála  og þurfti ekki Undirstöðuna til að sannfæra mig. Hins vegar fer fyrir höfundi bókarinnar, rétt eins og öðrum sem ætla að sannfæra fólk um pólitík með skáldsögu, að henni mistekst.

Út frá bókmenntalegum kögunarhóli finnst mér sagan ómöguleg. Söguhetjurnar eru þokkalega mótaðar í upphafi en svo gerist það að þær verða hræðilegar ósannfærandi andstæður. Svona eins og Tarsan og óvinir hans, Hrói höttur og fógetinn svo dæmi sú tekin um skemmtilegar sögur og ævintýri.

Skemmtigildi Undirstöðunnar er hins vegar ekkert. Pólitíkin er fín en líður fyrir hið fyrrnefnda.

Söguhetjan er Dagný Taggart sem með Jim bróður sínum erfir járnbrautafyrirtækið Taggart Transcontinental. Dagný er góða konan, Jim er vondi kallinn og versnar undurfurðulega eftir því sem á söguna líður.

Rætur í kaldastríðinu 

Bókin kom út í Bandaríkjunum árið 1957 og uppgangur kommúnismans og ráðstjórnarfyrirkomulagið víða um heim veldur Any Rand áhyggjum. Hún hefur í bókinni búið til heimsmynd þar sem víðast hvar eru alþýðulýðveldi, sem sagt kommúnístisk stjórnarfyrirkomulag og bókin lýsir hnignun einkaframtaksins vegna miðstýringar og getuleysis stjórnvalda.

Eflaust hefur bókin verið þokkalegt innlegg inn í stjórnmálaumræðuna í Bandaríkjunum á árunum eftir McCarthyismann og jafnvel átt þátt í því að draga úr þeim skaða er sá armi maður olli á þjóðfélaginu. Í dag er bókin úrelt og jafnvel hlægileg. Þróun stjórnmálanna hafa orðið með þeim hætti að á Vesturlöndum og jafnvel víðast annars staðar er síst af öllu dregið úr vægi einkaframtaksins. Í því er fólgin sú orka sem öll samfélög þurfa til að þrífast. Hin kalda hendi ríkisins er alltaf vandamál og fæstir eru algjörlega á því að hún leysi vandamálin, ekki einu sinni Kínverjar eru á þeirri skoðun.

Einsleitar söguhetjur 

Söguhetjur bókarinnar eru þreytandi til lengdar. Dagný Taggart er hreinlega femínísk, ekki aðeins í orði heldur á borði. Hún kann allt og gerir allt og er, rétt eins og félagar hennar sem, þvílíkur gáfumaður að lesandinn trúir vart sínum eigin augum og hugsar með sér, þvílík della. Andstæðingar Dagnýjar eru margir hverjir vel gefnir en þeir eru vondir og fas þeirra og líkamstjáning virðist benda til illskunnar.

Allur almenningur virðist í bókinni vera einhvers konar lýður sem hefur enga skynsemi til að bera, lætur allt yfir sig ganga og er eiginlega svo ákaflega óaðlaðandi og leiðinlegur eins í samanburði við góða liðið. 

Söguþráðurinn liðast áfram, annars vegar af ótrúlega löngum heimspekilegum vangaveltum og hins vegar af stirðbusalegum atburðum sem Dagný Taggart og flotta liðið hennar tengir saman. Um leið sést hvernig allt fer í kalda kol og stjórnvöld uppgötva að þau geta ekki verið án einkaframtaksins og reyna því að sulla því saman við hin meinta alþýðustefnu með mútum og hótunum.

Heimspekin 

Einn stórbrotnasti atburður bókarinnar gerist þegar leiðtogi þjóðarinnar á að flytja sjónvarpsávarp og allar silkihúfur landsins eru komnar saman við það tækifæri og John Galt, einn af gáfuðu og góðu gæjunum, tekur útsendinguna yfir og flytur mergjað ávarp. Í bókinni er ræðan upp á sextíu blaðsíður sem líklega þýðir um tveggja tíma upplestur ef ekki lengri, og hann er látinn afskiptalaus af yfirvöldum. Það er svona frekar ótrúlegt en á móti kemur að góða liðið hefur miklu betri yfirráð yfir allri tækni en vondu kallarnir.

Svona vendingar ganga auðvitað ekki upp í sögunni, ekki frekar en svo margt annað. Höfundi er nokk sama, Ayn Rand beygir frásögnina og söguna alla í pólitískum tilgangi og gengur einfaldlega fram af lesendum sínum í óraunsæjum tilbúningi.

Hins vegar bera að geta þess að ræða John Galt er hin prýðilegasta lesning og boðskapurinn einkar áhugaverður. Hann er til dæmis látinn segja þetta sem er nokkuð djúpt:

Siðferði, sem reisir kröfur á þörf, notar tómið - það sem ekki er til - sem mælikvarða á dygð; það verðlaunar skort, ósigur, bresti, mistök, galla - núllið. [sjá bls. 1013]

Að lokum 

Ég gæti malað hérna lengi áfram en læt þetta duga um bókina undirstaðan eftir Ayn Ryand. Get ekki mælt með henni nema við þá sem áhuga hafa á stjórnmálalegum viðhorfum. Hún olli mér vonbirgðum. Ég verð þó að viðurkenna að ég hafði lúmskt gaman af því að lesa bókina, var einkar forvitinn yfir örlögum alþýðulýðveldis Bandarríkjanna.

Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest, segir í gömlu orðtaki. Fyrir mig var það álíka, ég varð að tvennu leyti sáttur yfir því að hafa klárað bókina.

 


Ótrúleg mynd af vök

Getur verið að loftsteinsbrot sem kemur með ógnarhraða myndi frekar hringlaga og reglulega vök á ísiþöktu vatni frekar en að ísinn brotni óreglulega rétt eins og gler?

Mér finnst það hreinlega með ólíkindum ef þessi mynd af vökinni í rússneska vatninu sé eftir loftstein. Hann var sagður hafa komið inn í lofthjúpinn og sprungið þegar fartin á honum var eitthvað um 40 km á sekúndu. Við það hafi hann splundrast í óteljandi agnir. En aðfallshornið var ekki lóðrétt þó vökin gæti hafa verið þannig mynduð að eitthvað hafi pompað lóðrétt ofan á ísinn.

Það var þrýstibylgjan eftir sprenginguna sem olli hins vegar skaða á mannvirkjum. Og eftir stendur vök á vatninu, þannig í laginu að hún hefur allt eins getað verið söguð út af heimamönnum. 


mbl.is Fundu brot úr loftsteininum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur jarðskjálftahrina undir Dalakofanum

Dalakofi

Hinn draumspaki kunningi minn hafði samband við mig í morgun og sagði sínar (draum)farir ekki sléttar. Draum hans hafði verið allhrikalegur. Hann segist hafa staðið við hús nokkur í Sundunum í Reykjavík og horft til austurs. Þaðan hafði hann séð sjö mikla eldgosastrókar í áttina að Móskarðshnúkum og Skálafelli, líklega nær Úlfarsfelli.

Aðrir strókar voru í áttina að Hengli, Vífilsfelli, Stóra-Kóngsfelli og Grindaskörðum. Verst þótti honum að úr þeim fyrstnefnda komu glóandi hraunslettur í áttina að því húsi sem hann taldi sig í draumnum eiga og þurfti það endilega að vera timburhús. Engu að síður skein sól í heiði og þá er hann vaknaði hafði víst enginn skaði orðið á húsinu eða öðrum, eftir því sem hann best vissi. Það er nú huggun (draum)harmi gegn.

Í ljósi þessara orða leit ég á jarðskjálftavef Veðurstofunnar og sá ekkert athugunarvert austan við Reykjavík. Og þó einhverjir skjálftar hefðu verið þar myndi ég síst af öllu geta ráðið í þá, hvað þá drauminn. Hann er líklega fyrir snjókomu, leyfi ég mér að halda.

Jarðskjálftavefurinn vakti þó óskipta athygli mína er ég skoðaði Mýrdalsjökul og nærsveitir, eins og ég geri nú oft.

Seinni partinn í dag varð jarðskjálftahrina við vesturjaðar Torfajökulsöskjunnar, norðan við Laufafell og afar nálægt Dalakofa Útivistar, skammt frá Hrafntinnuhrauni. Og þá mundi ég eftir því að hafa skrifað  á fimmtudaginn eitthvað um fjóra nokkuð öfluga jarðskjálfta á sömu slóðum. Færist nú spenningur í söguna enda getum við núna farið að tala um jarðskjálftahrinu á þessum slóðum.

Á miðvikudaginn var sem sagt einn skjálftinn upp á 1,4 á Richter, sá næsti upp á 2.0, þá kom einn sem var 0,8 og sá síðari var 1,1.

930408-100

Í dag klukkan 15:11 byrjaði önnur skjálftahrina, átta skjálftar sem hér segir 

  1. Kl. 15:11, 2,5
  2. Kl. 15:16, 2,8
  3. Kl. 15:17, 2,6
  4. Kl. 15:39, 1,2
  5. Kl. 16:42, 0,9
  6. Kl. 18:03, 1,2
  7. Kl. 18:25, 1,9
  8. Kl. 19:06, 1,0

Þetta er nú slatti. Finnst þeir bara dálítið öflugir. Líklega verður sagt að þrír fyrstu hafi verið aðalskjálftar og hinir eftirskjálftar. Dálítið mannalegt að orða þetta svona. Svo eru þeir á svona skikkanlegu dýpi, frá 3,4 km og upp í 0,8 km. [Hér hafa tölur verið leiðréttar til samræmis við jarðskjálftavef Veðurstofunnar en þar eru komnar endurskoðaðar niðurstöður. Skjálftarnir voru átta og flestir harðari en áður var ætlað.]

Ekki hef ég spjallað við jarðfræðinga um þessa skjálfta. Veit að þeir svara þessu svona: Á þessum slóðum hefur alltaf verið dálítið um skjálfta, þó ekki upp á síðkastið. Þeir geta verið merki um kvikuhreyfingar í jarðskorpunni en ekki bendir til að nein neitt sé að gerast þarna ... Þetta veit ég og segi mannalega frá.

Við þetta er því að bæta að ekkert óvenjulegt er að sjá á óróamælum, hvorki á Slysaöldu á Mýrdalssandi, sem er í um 17 km loftlínu frá upptökum, eða í Mjóaskarði, sem er í um 16 km SV frá þeim. 

Hitt er þó í frásögur færandi að einhver kittlingur er í Mýrdalsjökli, í Kötluöskjunni og líka utan hennar. Flest allir skjálftarnir þar eru undir 1,0 á Richter nema auðvitað sá sem kom í núna í kvöld um hálf átta leytið. Hann var 2,9 á Richter og á upptök sín í Tungnakvíslajökli, sem er skriðjökull er fellur vestur úr Mýrdalsjökli niður í svokallaðar Tungur, austan við Bása og Goðaland. Þessi skjálfti kemur mér hins vegar ekkert á óvart. Á þessum slóðum hefur verið viðvarandi skjálftauppspretta frá því að gosunum á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli lauk.

Ljósmyndin sem hér fylgir með er tekin fyrir mörgum árum að vetrarlagi, eiginlega nákvæmlega á jarðskjálftaslóðum sem um er rætt hér fyrir ofan. Horft er úr Hrafntinnuhrauni að vesturhlíðum Hrafntinnuskers. Hinn frægi íshellir er í geilinni hægra megin við miðja mynd .

Læt ég nú þessum margbrotna pistli hér með lokið. 


Hvaða skoðun hefur Álfheiður Ingadóttir á morgue?

Í fréttum RÚV hinn 9. febrúar sl. sagði:

Álfheiður Ingadóttir
„Álfheiður Ingadóttir, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er hins vegar enn staðráðin í að ljúka heildarendurskoðuninni...ég held að Alþingi sé ekkert að vanbúnaði að ljúka þeirri vinnu í heild.“

Í fréttum RÚV í gær, 15. febrúar sagði:

„Það kann vel að vera að ákveðnir hlutar stjórnarskrárfrumvarpsins verði geymdir fram á næsta þing, náist um það samstaða segir varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis...Það hefur komið fram sú hugmynd og það er eitt af því sem við þurfum að skoða“, sagði Álfheiður Ingadóttir...

Hver ætli skoðun Álfheiðar Ingadóttur, varaformanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verði á morgun?
 
Pistill úr Evrópuvaktinni eftir Styrmi Gunnarsson.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband