Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Griðasvæði hvala án kvala

Sá í helgarmogganum umfjöllun Péturs Blöndal blaðamanns um „Þingmál í biðflokki“. Þar er eitt þingmál sem nefnist „Griðasvæði hvala“. Í umfjölluninni segir á stirðbusalegu máli:

Griðasvæði hvala í Faxaflóa verði stækkað, frá Eldey í suðri að ysta odda Snæfellsness í norðri, og enn fremur tryggt griðasvæði hvala fyrir Norðurlandi þar sem hvalaskoðun hefur verið vaxandi atvinnugrein. Enn fremur setji atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra heildstæðar reglur um framkvæmd og skipulag hvalaskoðunar. Þingsályktunartillaga. Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir og Árni Þór Sigurðsson. Ekki komið á dagskrá. 

Núna velti ég því fyrir mér, án afláts, hvort griðasvæði komi að einhverjum notum fyrir hvali ef þeir viti ekki af því? Og hvernig á nú að láta þá vita? Jú, það er gert með því að skjóta þá hvali sem fara út úr griðasvæðinu. Það leiðir auðvitað til mikilla kvala.

Þetta þykja mér háreist vísindi. 



Jóhanna nefnir ekki Sjálfstæðisflokkinn í blaðagrein

Einna helst ber það til tíðinda, laugardaginn 16. febrúar 2013, að forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, ritar grein í Fréttablaðið helgarinnar og nefnir ekki Sjálfstæðisflokkinn á nafn né sneiðir að honum nafnlaust.

Var greinin þó afar löng og rituðu á því máli sem einungis helstu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar skilja. Aðrir skilja fátt. Þeirra á meðal eru andstæðingar Icesave samninganna, þeir sem eru á móti verðtryggingu, gengislánum, ofursköttum, árásum á atvinnulífið og atvinnulausir.

En að skjóta ekki pínulítið á Sjálfstæðisflokkinn ... Hvað er að konunni? 


Atvinnugreinin nefnist ferðaþjónusta

Ferðamannaiðnaður er ekki atvinnugrein á Íslandi og hefur aldrei verið. Í nær þrjátíu ár hafa þeir sem boðið ferðamönnum vöru og þjónustu verið sammála um að nefna atvinnugreinina ferðaþjónustu.

Það samrýmist að auki íslensku máli þar sem iðnaður er skilgreindur miklu þrengra en til dæmi sambærileg nöfn á erlendum tungum.

Arion banki verður að skilja þetta og taka mið af því. Geri hann það ekki bendir það annað hvort til þess að þar fylgist menn ekki með ferðaþjónustunni nema í gegnum tölur frá Hagstofunni eða á að málvitundin sé á svo óskaplega lágu stigi. Hvort tveggja er slæmt.

Svo oft er búið að tönglast á þessu að það þarf algjöra þrákelkni til að virða ferðaþjónustan að vettugi í þessu. Sem dæmi má nefna að aðilar sem starfa innan atvinnugreinarinnar hafa með sér félag sem nefnist Samtök ferðaþjónustunnar, ekki Samtök ferðamannaiðnaðarins. 


mbl.is Spá þriðjungsfjölgun ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldursgreining íbúa segir til um framtíðarmöguleika sveitarfélags

Skýrsla Íslandsbanka um íslensk sveitarfélög virðist vera afar vel unnin og ítarleg. Hún leiðir í ljós að staða örfárra sveitarfélaga er ekki góð en flest eru þau í góðum málum. Nokkru plássi er varið í að segja frá íbúa þróun, fjölgun og brottflutningi, bæði úr sveitarfélögum og landshlutum.

Í skýrsluna vantar hins vegar greiningu á íbúaþróuninni. Hvers vegna er staðan í mörgum strjálbýlum sveitarfélögum eins slæm og raun ber vitni. Til þess að átta sig á þessu þarf að leita annarra heimilda en fást í ársreikningum. Þar er nærtækast að leita til Hagstofunnar og kanna hvernig aldurssamsetning sveitarfélaganna er. Hún segir meiri og ítarlegri sögu en margt annað.

Á árunum 2003-2005 vann ég nokkrar skýrslur um aldursgreiningu í sveitarfélögum og reyndi að skýra út stöðu sveitarfélaga miðað við aldur íbúanna. Því miður hef ég ekki unnið sambærilegar upplýsingar fyrir hin síðari ár.

A#D58

Til að skilja betur þróunina er þægilegt að skipta samfélaginu upp í þrjá hópa eftir eðli þeirra og til að skynja betur allar breytingar og draga ályktanir.

Fjölskyldan
Grunnurinn, 0-19 ára
Hinn virki hluti fjölskyldunnar, 20-44 ára

Vinnumarkaðurinn
Yngri hlutinn, 20-44 ára
Eldri hlutinn, 45-64 ára

Eldri borgarar, 65 ára og eldri

Hér til hliðar er þetta sett fram í aldurspíramída. Þó útlínur þessara hópa séu skýrar, skarast þær vissulega. Ekki er til dæmis víst að allir þeir sem eru undir tvítugu séu í skóla né heldur að eldri hluti þeirra hafi ekki stofnað fjölskyldu. Í heildina má kannski gera ráð fyrir að fólk á þessum aldri skapi ekki mikil verðmæti, en samt er menntunin þess er engu að síður mjög mikilvægur hluti efnahagslífsins og skiptir þjóðfélagið miklu máli bæði í nútíð og til framtíðar.

Aldurshópinn 20-44 ára má af eðlilegum ástæðum nefna hinn virka hluta fjölskyldunnar, en hann er einnig hluti af vinnumarkaðnum. Framar öðru ber hann þó merki þess að vera fjölskyldufólk og markmið hans og aðgerðir miðast við þá staðreynd. 

Þeir sem eru á aldrinum 20-64 ára tilheyra vinnumarkaði, en eins og fram hefur komið er mikill munur á eðli eldri og yngri hópsins. Og svo eru að sjálfsögðu margir yngri en tuttugu ára á vinnumarkaði og líka margir sem eru eldri en sextíu og fjögurra ára.

Með eldri borgurum er átt við þá sem eru eldri en 64 ára og gert ráð fyrir því að flestir séu hættir störfum, en það er þó ekki heldur einhlítt.

Þó fjölgi í sveitarfélagi þarf það alls ekki að vera til marks um að sveitarfélag standi vel. Fjölgunin getur verið meðal eldri borgara sem hefur efnahagslega allt aðra þýðingu en hafi fjölgunin verið meðal þeirra sem eru á vinnumarkaði. Því til viðbótar er grundvallarmunur á eldri og yngri hluta vinnumarkaðar, bæði að eðli og efnahag.

Þingeyjarsveit

Sé tekið eitt sveitarfélag af handahófi út úr má til dæmis skoða Þingeyjarsveit árið 2005. Sveitarfélagið er ekki lengur til, það var sameinað Norðurþingi.

Engu að síður má sjá á myndinni hversu erfið staða sveitarfélagsins hefur verið miðað við aldurssamsetningu. Miklu fleiri eldri borgarar búa þarna en miðað við íbúafjölda landsins.

Undirstaðan er slæm. Greinilegt er að þarna vantar fólk sem er á aldrinum 20-40 ára, sem er eiginlega vaxtarsproti hvers samfélags, árgangarnir sem sjá um fjölgun mannkynsins, framleiðsluna, ef svo má segja.

Unglingar eru þarna margir en börnin eru fá.

Þetta er klassískt dæmi um hnignandi sveitarfélag. Píramídinn er eiginlega kominn á hvolf. Þó er þetta langt í frá alvarlegasta dæmið um íbúaþróun á árinu 2005. 

Þingeyjarsveit yfirl

Á einfaldan hátt má síðan setja forsendur og fá út sjálfvirkar niðurstöður á borð við þær sem eru hér til hliðar í gula glugganum. Líklega þarf að klikka einu sinni eða tvisvar til að geta lesið af honum. 

Na án Ak

Sé litið til allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra kemur fram á árinu 2005 þessi aldurspíramídi. Ég hef undanskilið Akureyri enda er það svo stór sveitarfélag að það skekkir hreinlega allar niðurstöður og samanburð í landshlutanum.  

Þarna koma fram sömu teikn um hnignandi íbúaþróun. Fólkið eldist, þeir sem sjá um fjölgunina fækkar og börnin verða þar af leiðandi færri og færri.

Og þegar þetta er komið er ástæða til að skoða gula gluggann, hinar sjálfvirku niðurstöður fyrir landshlutann.

Þarna kemur ýmislegt merkilegt fram. Eldri borgurum hefur fjölgað um 17,6% frá 1995 sem getur bent til óhagstæðrar aldursþróunar.

Fækkun er í aldurshópnum 20-44 ára um 4,1% sem getur bent til lakari framtíðarmöguleika.

Na án Ak yfirl

Fækkun er líka í aldurshópnum 0-19 ára sem má skoða sem veikleikamerki.

Að auki er leitast við að gefa þróuninni einkunn og hún er meðaltal og er -1,3. Það þýðir að þróunin stefnir í ranga átt. 

Hér að ofan hef ég í stuttu máli reynt að skýra út eðli rannsókna minna á aldursþróun í sveitarfélögum á Íslandi. Því miður hef ég ekki haft aðstöðu til að vinna með þróunina hin síðari ár þó full ástæða hafi verið til.

Ég held að svona upplýsingar hefðu getað gagnast Íslandsbanka nokkuð í skýrslu sinni og hún fyrir vikið veitt fyllri mynd af þeim ástæðum sem liggja að baki því sem gerst hefur í sveitarfélögum landsins á undanvörnum árum. Þetta er afskaplega forvitnilegt svið sem of lítill gaumur hefur verið gefinn í þjóðfélaginu.


mbl.is 30-40 sveitarfélög heppilegur fjöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðskjálfti undir Dalakofanum

jar#23FA7C

Engin hreyfing er undir Mýrdalsjökli og engu líkar en að Katla hafi ekki fylgst með fréttum um að hún ætti að gjósa. Svo virðist sem að ókyrrðin sem var uppi eftir gosið á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli hafi farið hratt dvínandi og engar líkur á umbrotum í náinni framtíð. 

Draumspakur maður mér nákunnugur lætur sér ekki segjast og heldur því fram að gos í Kötlu sé yfirvofandi. Við sjáum bara til.

Þegar ég skoðaði jarðskjálftakort Veðurstofunnar fyrr í dag kom ég auga á að fjórir skjálftar höfðu orðið í jaðri Torfajökulsöskjunnar í gær, eiginlega því sem næst undir Dalakofanum, skála Útivistar, og aðeins norðar.

Ég minnist þess ekki að hafa séð skjálfta þarna áður en það er nú ekkert að marka.  

Skjálftarnir voru ekki stórir. Fyrst kom um hálf ellefu í gær skot upp á 1,4 á Richter. nærri tveimur tímum síðar kom sá stóri og var 2,0. Svo fjaraði þetta út og kortér yfir þrjú komu tveir með mínútu millibili, annar 0,8 og hinn 1,1. Siðan lognaðist allt útaf og hefur ekkert gerst síðan.


Samráð, grafskrift ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin vill leita víðtæks samráðs um sem flest mál bæði innan þings og utan.

Í þessum orðum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og þáverandi formanns Samfylkingarinnar, í fyrstu stefnuræðu ríkisstjórnar hennar árið 2009, felst grafskrift ríkisstjórnarinnar.

  • Um Icesave-málið hafði hún engin samráð við einn eða neinn, allra síst þjóðina.
  • Um skuldastöðu heimilanna hafði hún engin samráð nema við bankanna.
  • Um atvinnuleysið hafði hún engin samráð haft
  • Um uppbyggingu atvinnulífsins hafði hún engin samráð
  • Um fátækt hefur hún engin samráð haft
  • Um stjórnarskrána hefur hún engin samráð
  • Um sjávarútvegsmál hefur hún engin samráð
  • Um náttúruvernd hefur hún engin samráð
  • Um aðild að Evrópusambandi hafði hún engin samráð, allra síst við þjóðina

Gleymum ekki að velferðarráðherra hafði samráð um við forstjóra ríkisspítalanna um launahækkun til þess síðarnefnda. 

Í hvert skipti sem Jóhanna Sigurðardóttir nefndir orðið samráð þá minnkar landsframleiðslan.


Kúbu-Gylfi biðst ekki afsökunar

Þar getum við Heiðar Már þó verið sammála um eitt. Samlíkingin við Kúbu var vanhugsuð og kjánaleg og ekki nema sjálfsagt að biðjast velvirðingar á henni. Um allt annað í þessu Icesave-máli erum við Heiðar Már líklega ósammála og verðum það áfram.

Loksins, loksins viðurkennir Gylfi Magnússon, dósent og fyrrum viðskiptaráðherra, að hafa hafa haft rangt fyrir sér með ummælum sínum um Kúbu norðursins, ástand sem hann sagði vofa yfir þjóðinni myndi hún ekki samþykkja Icesave samninginn, þann sem kenndur er við Svavar Gestsson.

Ofangreind tilvitnun (feitletrunin er mín) er úr grein Gylfa í Fréttablaðinu í dag. Með henni reynir hann að bera í bætiflákann vegna greinar sem Heiðar Már Guðjónsson skrifaði um Gylfa í sama blað síðasta mánudag.

Reyndi af afvegaleiða umræðuna 

Ekki það að neinn hafi verið að bíða eftir þessu frá Gylfa, síður en svo. Allir vita að hann meinti ekkert með ummælum sínum. Þau voru pólitísk, sett fram til að afvegaleiða umræðuna um Icesave, fá fólk til að trúa því að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hafi rétt fyrir sér en allir aðrir væru á villigötum.

Hrokinn 

Versta við þessi ummæli er hrokinn. Ráðherrann gerir ráð fyrir því að hann sé sé sem einn veit en allir aðrir séu illa að sér í Icesave og efnahagsmálum yfirleitt. Í þessu endurspeglaði Gylfi viðhorf heillar ríkisstjórnar gagnvart verkefnum sínum, stjórnkerfinu og þjóðinni allri. Verst er að kallinn hefur ekkert breyst. Í grein sinni segir Gylfi:

Þá rekur Heiðar Már á frekar ruglingslegan hátt ýmis mál er tengjast myntkörfulánum og lögmæti þeirra. Um það er ekki annað að segja en það sem hefur alltaf legið fyrir og ég hef margoft lýst yfir á undanförnum árum. [...]  

Maðurinn sem telur sig upp yfir alla hafinn reynir ekki að færa rök fyrir máli sínu, andstæðingurinn er ruglaður og flettið bara upp því sem ég hef sagt. Hvernig er hægt að skrifa svona í blaðagrein? Flestir hljóta að fordæma svona málflutning.

Svarar engu 

Í grein sinni nefndi Heiðar Már Guðjónsson margar ávirðingar á Gylfa Magnússon.

 

  • Icesave ummælin
  • SpKef og Byr viðhorfið
  • Endurreisn Landsbankans og gengisbundnu lánin
  • Gengislánadómur hæstaréttar og viðhorf Gylfa
  • Stjórnarseta Gylfa í OR
  • Viðhorfin til skuldastöðu þjóðarinnar

 

Gylfi svarar engu, úr honum er allur vindur, rétt eins og öðrum forkólfum ríkisstjórnarinnar. Mestu plássi í grein sinni eyðir Gylfi Magnússon í að réttlæta stjórnarsetu sína í OR og aðgerðir hennar vegna skuldastöðu fyrirtækisins og reynir um leið að koma því inn hjá lesendum að Heiðar sé vafasamur pappír:

[...] skora ég á hann að upplýsa um það hvaða aðkomu hann sér fyrir sér að hann gæti haft að slíkum nauðasamningum og hve mikið hann gæti hagnast á þeim. 

 

Fátt bitastætt segir hann um skuldastöðu þjóðarinnar eða SpKef, reynir eiginlega að eyða óþægilegri umræðu.

Velvirðingin 

Og hann biðst velvirðingar á Kúbu-ummælunum, biður þá sem vilja virða ummæli sín til betri vegar. Þetta er ekki það sama og biðjast afsökunar.

Sí og æ er verið að bera saman ástandið hér á landi fyrir og eftir hrun. Eftir hrun fengum við Gylfa Magnússon sem ráðherra. Steingrímur og Jóhanna voru afar hreykin af honum þegar hann settist í ríkisstjórn, en þó held ég að þau hafi orðið enn glaðari þegar hann fór. Glöðust var þó þjóðin sem hafði flengt hann með Icesave vendinum.


Sumir ökumenn misjafnari en aðrir

Fyrirsögn þessarar fréttar er yndislega mikið í ætt við Orwell. „Ökumenn í misjöfnu ástandi.“ Maður sér fyrir sér tilkynningu frá Umferðarstofu: Fimmtudagur: Í dag skulu allir ökumenn vera vel rakaðir. Föstudagur: Í dag skulu ökumenn vera í jakkafötum. Laugardagur: Allir ökumenn skulu vera í jakkafötum með bindi.

Og svo kemur tilkynning frá lögreglunni: Fimmtudagur: Ökumenn í misjöfnu ástandi. Og lögreglustjóri hringir í innanríkisráðherra og spyr hvar og hvernig ökumenn eigi að vera rakaðir. Á föstudegi kemur svo frétt á mbl.is og fyrirsögnin er þessi: Margir rakir ökumenn en enginn rakari.

Skilningu lesenda er í misjöfnu ástandi og minn eflaust misjafnastur og í þessari fantasíu skrifa ég bullpistil á bloggsíðuna og reyni að snúa útúr öllu saman með aulabrandara. Allt endurtekur sig nærri því í óbreyttri mynd.


mbl.is Ökumenn í misjöfnu ástandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innihaldið horfið og orðin tóm eftir

Nú held ég að það verði gaman að gera viðskipti ef ekkert má vera dýrara en 1000 evrur í Frakklandi. Annars skil ég ekki fréttina. Óska eftir aðstoð. 

Bannað verður að borga meira en eittþúsund evrur í reiðufé í viðskiptum í Frakklandi, samkvæmt nýjum áformum um að ráðast gegn skattsvikum.

Ég held að sá sem skrifaði þetta þurfi nú að endurskoða alla fréttina. Fyrirsögnin er alveg út í hött: „Þak á greiðslur í reiðufé vegna skattsvika“. Misskilja má þetta á hin fjölbreyttasta veg. Ef greiðslur í reiðufé eru takmarkaðar vegna skattsvika þá er líklega óskað eftir viðbótargreiðslum í kvikfénaði, borðbúnaði, skartgripum eða einhveru áþreifanlegu. Eða að það sé takmarkað sé hversu sekta má fyrir skattsvik.

Þegar innihald fréttar hverfur standa orðin tóm eftir.



mbl.is Þak á greiðslur í reiðufé vegna skattsvika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er heilagur andi hlutdrægur?

Páfinn

Fyrir okkur sem erum óskeikulir er mikið undrunarefni að komast að því að Benedict XVI páfi skuli aðeins vera óskeikull vegna tilverknaðar heilags anda. Ekki bendir það til að mikið sé í manninn spunnið að hann þurfi á hjálp að ofan. Það er þó öldungis aukaatriði.

Byggist fréttatilkynningin á sannleika (ætlaði að segja heilögum en sá mig um hönd) hlýtur það að teljast ólýðræðisleg hlutdrægni heilags anda að ganga alltaf til liðs við páfa en virða að vettugi fyrirsvarsmenn annarra trúarhópa hinnar kristnu kirkju svo ekki sé talað um alla hina trúarhópanna.

Hvernig getur biskup, prófastur eða prestur stundað sitt starf og verið óskeikull ef hann fær ekki stuðning til þess frá heilögum anda? Maður bara spyr. Felist svarið í því að sá heilagi hafi ekki tök á að ná til nema eins dauðlegs manns á hverjum tíma þá fyllist maður efasemdum. Jafnvel jólasveinninn nær til milljarða manna á nokkrum jarðneskum sekúndum. Hefur jólasveinninn kraftinn?

Meðfylgjandi mynd af Péturskirkjunni í Róm meðan á samtali páfa og heilags anda stóð nú um daginn. Stuttu síðar ákvað páfi að segja af sér.


mbl.is Benedikt páfi verður skeikull
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband