Önnur jarðskjálftahrina undir Dalakofanum

Dalakofi

Hinn draumspaki kunningi minn hafði samband við mig í morgun og sagði sínar (draum)farir ekki sléttar. Draum hans hafði verið allhrikalegur. Hann segist hafa staðið við hús nokkur í Sundunum í Reykjavík og horft til austurs. Þaðan hafði hann séð sjö mikla eldgosastrókar í áttina að Móskarðshnúkum og Skálafelli, líklega nær Úlfarsfelli.

Aðrir strókar voru í áttina að Hengli, Vífilsfelli, Stóra-Kóngsfelli og Grindaskörðum. Verst þótti honum að úr þeim fyrstnefnda komu glóandi hraunslettur í áttina að því húsi sem hann taldi sig í draumnum eiga og þurfti það endilega að vera timburhús. Engu að síður skein sól í heiði og þá er hann vaknaði hafði víst enginn skaði orðið á húsinu eða öðrum, eftir því sem hann best vissi. Það er nú huggun (draum)harmi gegn.

Í ljósi þessara orða leit ég á jarðskjálftavef Veðurstofunnar og sá ekkert athugunarvert austan við Reykjavík. Og þó einhverjir skjálftar hefðu verið þar myndi ég síst af öllu geta ráðið í þá, hvað þá drauminn. Hann er líklega fyrir snjókomu, leyfi ég mér að halda.

Jarðskjálftavefurinn vakti þó óskipta athygli mína er ég skoðaði Mýrdalsjökul og nærsveitir, eins og ég geri nú oft.

Seinni partinn í dag varð jarðskjálftahrina við vesturjaðar Torfajökulsöskjunnar, norðan við Laufafell og afar nálægt Dalakofa Útivistar, skammt frá Hrafntinnuhrauni. Og þá mundi ég eftir því að hafa skrifað  á fimmtudaginn eitthvað um fjóra nokkuð öfluga jarðskjálfta á sömu slóðum. Færist nú spenningur í söguna enda getum við núna farið að tala um jarðskjálftahrinu á þessum slóðum.

Á miðvikudaginn var sem sagt einn skjálftinn upp á 1,4 á Richter, sá næsti upp á 2.0, þá kom einn sem var 0,8 og sá síðari var 1,1.

930408-100

Í dag klukkan 15:11 byrjaði önnur skjálftahrina, átta skjálftar sem hér segir 

  1. Kl. 15:11, 2,5
  2. Kl. 15:16, 2,8
  3. Kl. 15:17, 2,6
  4. Kl. 15:39, 1,2
  5. Kl. 16:42, 0,9
  6. Kl. 18:03, 1,2
  7. Kl. 18:25, 1,9
  8. Kl. 19:06, 1,0

Þetta er nú slatti. Finnst þeir bara dálítið öflugir. Líklega verður sagt að þrír fyrstu hafi verið aðalskjálftar og hinir eftirskjálftar. Dálítið mannalegt að orða þetta svona. Svo eru þeir á svona skikkanlegu dýpi, frá 3,4 km og upp í 0,8 km. [Hér hafa tölur verið leiðréttar til samræmis við jarðskjálftavef Veðurstofunnar en þar eru komnar endurskoðaðar niðurstöður. Skjálftarnir voru átta og flestir harðari en áður var ætlað.]

Ekki hef ég spjallað við jarðfræðinga um þessa skjálfta. Veit að þeir svara þessu svona: Á þessum slóðum hefur alltaf verið dálítið um skjálfta, þó ekki upp á síðkastið. Þeir geta verið merki um kvikuhreyfingar í jarðskorpunni en ekki bendir til að nein neitt sé að gerast þarna ... Þetta veit ég og segi mannalega frá.

Við þetta er því að bæta að ekkert óvenjulegt er að sjá á óróamælum, hvorki á Slysaöldu á Mýrdalssandi, sem er í um 17 km loftlínu frá upptökum, eða í Mjóaskarði, sem er í um 16 km SV frá þeim. 

Hitt er þó í frásögur færandi að einhver kittlingur er í Mýrdalsjökli, í Kötluöskjunni og líka utan hennar. Flest allir skjálftarnir þar eru undir 1,0 á Richter nema auðvitað sá sem kom í núna í kvöld um hálf átta leytið. Hann var 2,9 á Richter og á upptök sín í Tungnakvíslajökli, sem er skriðjökull er fellur vestur úr Mýrdalsjökli niður í svokallaðar Tungur, austan við Bása og Goðaland. Þessi skjálfti kemur mér hins vegar ekkert á óvart. Á þessum slóðum hefur verið viðvarandi skjálftauppspretta frá því að gosunum á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli lauk.

Ljósmyndin sem hér fylgir með er tekin fyrir mörgum árum að vetrarlagi, eiginlega nákvæmlega á jarðskjálftaslóðum sem um er rætt hér fyrir ofan. Horft er úr Hrafntinnuhrauni að vesturhlíðum Hrafntinnuskers. Hinn frægi íshellir er í geilinni hægra megin við miðja mynd .

Læt ég nú þessum margbrotna pistli hér með lokið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eigum við ekki bara að slá því föstu að mikil eldsumbrot eru þarna framundan?

Emil Hannes Valgeirsson, 16.2.2013 kl. 23:07

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Enginn skaði skeður með góðum spádómi, Emil. Og meðan ég man, fróðlegur og skemmtilegur pistill hjá þér um tungl og jörð á blogginu þínu. Bestu þakkir fyrir hann.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.2.2013 kl. 23:20

3 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þessi jarðskjálftahrina er áhugaverð. Þó er of snemmt að segja til um hvað þarna er á ferðinni.

Ég sé á þeirri mælingu sem ég hef af þessum jarðskjálftum að þeir virðast bera með sér veik merki þess að uppruna þeirra eigi að finna í kviku.

Þetta er þó of lítið ennþá til þess að ég hafi áhyggjur af því sem stendur. Það getur þó breyst hratt ef ástæða þykir. Enda er vitað að grunnt er á kviku í Torfajökli. Hversu mikið þarf að gerast til þess að eldgos eigi sér stað veit ég þó ekki.

Jón Frímann Jónsson, 17.2.2013 kl. 00:50

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Síðan er ég komin með nýtt blogg um jarðskjálfta og eldgos. Ákvað að setja þetta þar svo að einfaldara sér að fletta upp í þessu gögnum þegar fram líða stundir.

http://www.jonfr.com/eldgos/

Jón Frímann Jónsson, 17.2.2013 kl. 00:54

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, ég sá þetta hjá þér. Þú veist nú miklu betur um þessi mál en ég, en það er gaman að velta þessu fyrir sér. Kannski hefur þetta enga þýðingu, en hver veit ... Hins vegar vekur staðsetningin óneitanlega athygli.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.2.2013 kl. 01:46

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ætli ég fari ekki rétt með að það sé fyrst núna sem borgaryfirvöld og/eða almannavarnir eru farin að skipuleggja viðbragðsáætlun ef/þegar jarðhræringar eða eldgos ógna byggð hér á suðvesturhorninu? Hér býr reyndar stærstur hluti þjóðarinnar.

Líklega fá dæmi um að þjóðir þrói búsetu í þéttbýli á eldvirkum svæðum og afkróuðum í landi þar sem víðáttur eru vandamál.

Árni Gunnarsson, 17.2.2013 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband