Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Tilfinning fyrir málinu fæst aðeins með lestri bóka

Svo undarlegt sem það virðist vera fer tilfinning yngri kynslóða fyrir málinu þverrandi. Aðeins ein ástæða er fyrir því og það er minni bóklestur ungs fólks. Eitthvað veldur því að fólk les minna en áður eða þá að lesturinn er öðru vísi. Þrátt fyrir mikla tölvunotkun og ýmiskonar ritvinnslu í tölvum virðist það ekki skila sér í tjáningunni.

Ég les dagblöð og fylgist með netsíðum. Almennt má segja að blaðamenn séu þokkalega skrifandi en engu að síður eru villurnar hrikalegar enda áreiðanlega fáir sem lesa texta yfir áður en hann kemur til birtingar, hvort heldur á í rituðu eða töluðu máli.

Bóklestur 

Bóklestur er grunnur fyrir öllum þroska. Ósjálfrátt eykst orðaforðinn og skilningur á tungumálinu og um leið fæst smátt og smátt tilfinning fyrir skriftum og blæbrigðum í frásögn. Þessi þróun er hvað léttust fyrir einstaklinginn á grunnskólatíma hans. Þegar komið er yfir sextán ára aldur ættu flestir að vera orðnir móttækilegir fyrir ítarlegri kennslu í íslensku máli. Gallinn er hins vegar sá að fjölmargir fá ekki góða íslenskukennslu á þessum árum og svo hefur sú skoðun orðið æ útbreiddari að stafsetning skipti engu máli og ritgerðasmíð sé leiðinleg. Þeir sem hafa þessa skoðun eru ábyggilega orðnir blaða- og fréttamenn. Lítum svo á athugasemdadálka netmiðla, fésbókina, twitter og allt þetta. Þar fær allt að vaða vegna þess að sagt er að lesandinn eigi aðeins að íhuga það sem sagt er en ekki hvernig.

Stafsetning og ritgerð 

Ég var aldrei góður í stafsetningu en hef frá barnæsku haft gaman af því að skrifa. Það var því sorglegt að skólakerfið skuli hafa metið þetta tvennt í einni og sömu einkuninni. Góð ritgerð fékk slæma einkunn vegna fjölda stafsetningavillna. Slæm ritgerð var hins vegar alltaf slæm þó svo að hún hafi verið rétt rituð. Það situr enn í mér að hafa fengið fimm, sex eða sjö fyrir ritgerð í menntaskóla. Skrifaði ég þó fínar ritgerðir, sem, eins og var sagt hér að ofan, voru útbíaðar í stafsetningavillum.

Ólafur M. Ólafsson, íslenskukennari, í MR, laugaði síður ritgerða minna í rauðu og tók ekkert tillit til frásagnar, stíls eða annars. Þetta olli mér meiri sorg en lélegar einkunnir í öðrum fögum og einn daginn var mér nóg boðið og ég fór til karlsins og mótmælti. Sagði honum hreinlega að þetta væri ósanngjarnt.

Ólafur var óvitlaus og tók þessum reiða dreng vel og við settumst niður og ræddum ritgerðina á þann hátt sem aldrei hafði verið gert áður. Við slepptum því að ræða stafsetningavillur og fórum eingöngu í efnistök ritgerðarinnar. Auðvitað hafði hann bara rennt í gegnum ritgerðina, leiðrétt villur og hent inn einkunn byggða á fjölda villna.

Á þessu litla fundi las hann ritgerðina aftur, sagði mér frá göllum og kostum hennar og ég leyfði mér að hafa skoðun á áliti hans. Niðurstaðan varð sú að ég hækkaði um einn heilan og ég er ekki frá því að ég hafi fengið aðeins skárri einkunnir fyrir ritgerðir hjá Ólafi eftir það.

Uppeldislegt gildi bóka

Ég hef alla tíð verið mikill lestrarhestur og á þokkalegt safn bóka og ég fullyrði að þær hafa haft alveg óskaplega mikið uppeldislegt gildi fyrir mig, jafnvel eftir að ég komst á fullorðinsár. Staðreyndin er einfaldlega sú að bækur gera fólk víðsýnt, þær fræða, hjálpa, í lestri felst sáluhjálp, þær veita andanum leið til að hrífast með, byggi upp tilfinningagreind. Líkur benda til að bóklestur geri fólk gáfaðra en þetta getur verið bölvuð vitleysa hjá mér og þá er bara eitt sem skýrir þessa ályktun.

Sem sagt málkenndin, máltilfinningin, er ekki meðfædd. Hún fæst með lestri bóka, miklum lestri. Og skemmtilegra áhugamál en bóklestur er ekki til. 


mbl.is „Málkenndin er í tómu tjóni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit ríkissjónvarpið hvar Landmannalaugar eru?

130225

Fátt er eins gremjulegt og þegar fjölmiðlar fara rangt með í landafræðinni. Stundum gerist það óvart en oft er það vegna vanþekkingar. Ástæðan skiptir svo sem engu máli. Birtingin er ámælisverð.

Ríkissjónvarpið varð sér til háborinnar skammar í kvöld þegar það birti sama vitlausa landakortið í báðum kvöldfréttatímum sínum, kl. 19 og 22. 

Á kortinu eru Landmannalaugar sagðar skammt suðaustan við Fimmvörðuháls, nærri Sólheimajökli. Fyrst hélt ég að fréttin væri röng og fólkið hefði lent í vandræðum á Fimmvörðuhálsi, líklega í Skógaá. Nei, það reyndist ekki rétt. Sá sem samdi fréttina var bara svona slakur í landafræðinni.

Landmannalaugar eru um fimmtíu kílómetrum norðar en kort Ríkisútvarpsins sýnir. Á þessu korti, sem ég tók af vefsíðu Ríkisútvarpsins, hef ég merkt lítið „x“ þar sem Landmannalaugar eru í raun og veru. Kortið er annars ágætt nema hvað Íslandskortinu hægra megin er ofaukið. Það er of lítið, tónar alls ekki við stærsta hluta kortsins. Allir þekkja lögun landsins og vita hvar þessi bútur af landinu er.


mbl.is Þyrlan lent í Fossvogi með fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítkast Össurar

Í örvæntingu sinni grípur Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, til gamalkunnra aðferða á leið sinni úr ráðherrastólnum samkvæmt viðtali við dv.is í dag.

Hann lærði það af Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar að ráðast með persónulegu skítkasti á forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Hann veit sem er að lygin verður sannleikanum yfirsterkari ef hún er endurtekin nógu oft.

Þegar 65% landsmanna eru á móti aðlögunarviðræðunum við ESB heldur Össur því fram að sá flokkur sem er sammála meirihlutanum sé á leið í pólitíska einangrun. Hvernig gengur það upp?

Össur heldur því fram að klíkur ráði Sjálfstæðisflokknum. Ég er var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þar mættu 1500 manns. Hvernig klíka geti stjórnað þessum fjöld er mér hulin ráðgáta. Að minnsta kosti krafðist Davíð Oddsson, Styrmir Gunnarsson eða Kjartan Gunnarsson einskis af mér eða þeim ég hafði mest samskipti við á fundinum.

Þvílíkt bull sem lekur úr fráfarandi utanríkisráðherra. Honum mun ekki í þetta sinn takast að rægja forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Hann ætti að einbeita sér að því að vinna að viðgerðum í Samfylkingunni og læra málefnalegar rökræður í stað skítkastsins sem hann hefur tileinkað sér. 

Og svo er ekki úr vegi að ítreka það að þjóðin ætlar að hætta við þessar aðlögunarviðræður. Hún bað ekki um þær en hefur fullan rétt til að taka í bremsuna. Hverjir voru það sem vildu ekki spyrja þjóðina áður en aðildarumsókn væri send? Jú, Össur var einn þeirra og hann er núna skelfingu lostinn vegna þess að framtíðin er honum ekki björt.


Afstaða VG til ESB einangrar flokkinn

Forusta Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafði betur í atkvæðagreiðslunni á landsfundi flokksins um aðlögunarviðræðurnar við ESB. Aðeins með 11 atkvæða meirihluta var samþykkt að halda viðræðunum áfram

Þetta er mikið áfall, bæði fyrir fullveldissinna innan Vinstri grænna sem og í öðrum flokkum. Hefði landsfundurinn samþykkt að hætta viðræðunum væri allt önnur staða upp í stjórnmálunum. Þess í stað dæmir VG sig til einangrunar ásamt Samfylkingunni næstu fjögur árin.

Vandi Vinstri grænna er afar einfaldur. Forusta flokksins sveik kosningaloforð sitt og stefnu og samþykkti aðildarumsókn að ESB. Fyrir vikið hefur flokkurinn síðan verið að leysast upp í frumeindir sínar. Hefði landsfundurinn verið haldinn síðasta sumar hefði yfirgnæfandi fjöldi fulltrúa á fundinum hafnað þessari tillögu. Frá því í haust hafa hundruð flokksfélaga sagt sig úr VG eða misst áhugann á því að vinna innan flokksins. Þar af leiðir að flokksforustan hefur náð undirtökunum og stjórnar nú í rústunum.

Vg er því komin í stjórnmálalega einangrun með Samfylkingunni og kemur ekki frekar en hún til álita í næstu ríkisstjórn auk þess sem fylgi þessara tveggja flokka verður það lítið að þeir eiga ekki nokkurn möguleika á að hafa áhrif á landsstjórnina - sem betur fer.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu í sameiningu tryggja fullveldi Íslands með því að hætta við aðlögunarviðræðurnar og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldið, væntanlega næsta haust. 


mbl.is VG vill ljúka ESB-viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgerandi afstaða Sjálfstæðisflokksins í ESB málinu

Ég er á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og fylgdist með atkvæðagreiðslunni um utanríkismál. Fram kom eftirfarandi breytingartillaga séra Geirs Waage:

Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa 48 fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að gera skuli hlé á aðildarviðræðunum við 49 Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæða-50 greiðslu.

Sá ágæti maður, Benedikt Jóhannesson, sté í ræðustól á eftir Geir og hvatt til þess að tillagan yrði felld og flutti ágæt rök fyrir sínu máli og hvatti til áframhaldandi sáttar á milli ESB sinna og andstæðinga innan flokksins. Hann er sem kunnugt er mjög fylgjandi aðildinni.

Landsfundurinn var á öndverðri skoðun. Tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og virðist sem að fylgjendum ESB fari nú fækkandi á landsfundi. Ég hef ágætan samanburð því á síðasta landsfundi var á að giska fimmtungur fundargesta sem viðstaddir voru samþykkt um utanríkismál hlynntir ESB. Nú virtust aðeins um 10% fundargesta vilja hafna ofangreindri tillögu.

Þetta eru afskaplega ánægjuleg tíðindi og úrslitin fara algjörlega eftir því sem ég hef haldið fram hér á blogginu. Þurfti ég þó ekkert að hafa mig í frammi, svo afgerandi voru úrslitin.


mbl.is Aðildarviðræðunum skuli hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutafélagavæðing í borginni

Samfylkingin stundar býr til hlutafélag um bílastæðasjóðinn í Reykjavík með aðstoð Besta flokksins. Enginn segir neitt. Ríkisútvarpið býr ekki til viðtöl og fær ekki til sín álitsgjafa um málið.

Dettur einhverjum í hug að Sjálfstæðisflokkurinn hefði komist upp með sama gjörning? Varla. 


mbl.is Opinbert félag stofnað um Bílastæðasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þorir Þór ekki?

Fljótfærni Þórs Saari er með endemum. Hann leggur fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina en dregur hana til baka í fljótheitum vegna þess að hann hefur heyrt eitthvað um flýtimeðferð eða á henni sé formgalli.

Alþingi nýtur æ minni virðingar í þjóðfélaginu. Ljóst er að svona vinnubrögð hjálpa ekki. Hvað svo sem menn vilja segja um ríkisstjórnina þá ganga menn ekki til verka eins og Þór Saari. Kjörtímabilið rennur út eftir 65 daga. Af hverju þorir Þór ekki að láta slag standa? Hefur hann fengið tilboð sem hann getur ekki hafnað?


mbl.is Þór dregur tillögu sína til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á síðustu stundu fattaði Þór eðli ríkisstjórnarinnar

Þór Saari hefur haft fjögur ár til að átta sig á ríkisstjórninni, eðli hennar og þeim sem hana skipa. Það er ekki fyrr en núna, korteri fyrir kosningar (eins og svo oft er sagt) að hann þykist átta sig. Eiginlega hefur ekkert annað gerst en að kaupmennskutíð Þórs hefur runnið sitt skeið á enda. Hann getur ekki lengur stundað skiptivinnu við ríkisstjórnina. Hún er að hætta.

Þá skyndilega sér hann sitt óvænna og vill hefna sína. Leggur fram gagnslausa vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Þessi tillaga skiptir engu máli. Ríkisstjórnin féll fyrir löngu en Þór Saari hélt í henni lífinu. Það fór vel á því, sækjast sér um líkir. Líkur benda til að Bæði Þór og stór hluti ríkisstjórnarliðsins falli af þingi við næstu kosningar. Fer vel á því.


mbl.is Stjórnin svaraði ekki tillögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setjum línuna í jörð og allir sáttir

Ég er að hugsa um að óska eftir því við Steingrím að fá að taka Ingólfsfjalla eignarnámi til að koma í veg fyrir frekari malartöku. Hyggst greiða fyrir fjallið eftir minni.

Í alvöru talað. Ef Landsnet myndi sjá sóma sinn í því að leggja Suðurnesjalínu í jörð þyrfti ekki að koma til eignarnáms. Allir myndu samþykkja framkvæmdina. 


mbl.is Óska eftir eignarnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugrenningar forsætisráðherra án upplýsingagildis

Ég hef alltaf mikla ánægju að lesa pistla eftir Kjartan Gunnar Kjartansson, blaðamann á Morgunblaðinu. Fáir eru jafn vel skrifandi og að auki er hann með gott nef fyrir pólitík. Hann segir í litlum pistli í blaðinu í morgun um grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur í Fréttablaðinu:

Það sem skortir algjörlega og alltaf í öll þessi skrif eru sennilegar skýringatilgátur og einhver haldbær rök fyrir orsakasamhengi milli ásetnings ríkisstjórnar og framfara á einhverjum tilteknum sviðum. Hin brotalömin felst í þeirri staðreynd að þessar hugrenningar forsætisráðherrans eru alltaf svo almenns eðlis að þær hafa nánast ekkert upplýsingagildi. Skort á þessu tvennu ber svo að rekja til þess að þar er ekki af neinu bitastæðu að taka.

Segir þetta ekki allt sem segja þarf?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband