Er þetta þykistuleikur VR eða hrein mafíustarfsemi?

Alltaf er það ógeðfellt þegar menn taka sig til og hæla sjálfum sér. Ef til vill er gripið til þess ráðs vegna þess að aðrir eru frekar sínkir í hólið.

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, hælir sér og félagi sínu í Fréttablaðinu 14. febrúar sl. Hann segir meðal annars í grein sinni:

Í ágúst síðastliðnum hóf VR að nýju að þjónusta atvinnulausa félagsmenn sína. Felst sú þjónusta í vinnumiðlun, náms- og starfsráðgjöf og síðast en ekki síst í handleiðslu atvinnuleitenda í gegnum refilstigu bótakerfisins með fræðslu um réttindi og skyldur þeirra innan þess. Markmið þessarar þjónustu er fyrst og fremst að efla hvern og einn einstakling þannig að hann eigi meiri möguleika til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Þetta er svo sem gott og blessað að vilja vera góður við aumingjanna. Taka verður þó með í reikninginn að þessi meinta góðmennska VR byggist á því að launþegafélög og atvinnurekendafélög tóku höndum saman um að krefjast þess að fá að gera nákvæmlega sömu hluti og Vinnumálastofnun hafði gert um áraraðir. Munurinn var einungis sá að þessir aðilar vildu að ríkið borgaði sér fyrir að gera þetta. Það er nú öll hagkvæmnin.

Skemmst er frá því að segja að Starf ehf. skapar engin störf, mun ekki gera það og getur það ekki. Þetta er gagnslaust fyrirtæki sem hefur ekkert að gera annað en að þykjast. Í þeim tilgangi leikur það sér að atvinnulausum, sendir þá til og frá, krefst þess að þeir mæti á námskeiðum sem fjöldinn allur hefur enga þörf á.

Í þokkabót er stjórn og varastjórn fyrir þessu félagið VR og þar þiggja ýmsar silkihúfurnar laun fyrir að þykjast. Þetta er gamla sagan um gagnslausa góðmennsku sem ríkið borgar. Stefán formaður VR leggur ekki krónu í verkefnið, ekki heldur þeir sem sitja í stjórn Starfs ehf. Þeir eru algjörlega stikkfrí við að haldleika peningana sem þeir fá á silfurfati úr ríkissjóði. 

Enginn þorir að hallmæla Starfi ehf., allra síst atvinnulausir. Starf ehf. hefur það vopn sem allri hræðast og það er einföld tilskipun til atvinnuleitanda að gera hitt eða þetta að öðrum kosti verða bæturnar hirtar af honum. Þannig vinnur mafían, gerir manni tilboð sem ekki er nokkur lífsins leið að hafna.

En takið eftir því að enginn hælir Starfi ehf. nema formaður VR, framkvæmdastjórinn og aðrir sem eru launalega tengdir félaginu. Atvinnulausir eru afar sparsamir á hólið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband