Ótímabær grein Tryggva Jónssonar

Fyrrum stjórnendur Baugs eiga erfitt uppdráttar. Skiptir engu þótt þeir telji sig persónulega hafa rétt fyrir sér í einstökum málum, almenningsálitið er þeim mótdrægt þó vonandi séu stjórnvöld og dómstólar hlutlaus.

Tryggvi Jónsson, löggiltur endurskoðandi og fyrrum forstjóri Baugs telur að ríkisskattstjóri og dómstólar hafi brotið á sér. Hann ritar ítarlega grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann rekur mál sem hann hefur lent í og er ósáttur við niðurstöðu þeirra fyrir dómstólum. Í lok greinarinnar segir hann:

Ég hef gert mín mistök í gegnum tíðina og fæst okkar eru fullkomin. Við erum þrátt fyrir allt mannleg. Hæstiréttur er undir miklu álagi, er samansettur af fólki og fólk er mannlegt og breyskt. Hæstiréttur er því auðvitað ekki óskeikull í sínum störfum frekar en aðrir. Dómarar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér þótt þeir eigi lokaorðið í réttarkerfinu. Ég breyti ekki niðurstöðunni með þessum greinarskrifum mínum, en vona að þau hafi komið mínum sjónarmiðum á framfæri við lesendur. 

Hefði Tryggvi leitað álits hjá mér og spurt hvort hann ætti að skrifa grein til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum hefði ég sagt honum að bíða. Skiptir engu þó hann telji á sér brotið og réttlætið sé hans megin. Það mál er útkljáð annars staðar og þar hefðu sjónarmið Tryggva átt að koma fram. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að almenningur er ekki tilbúinn til að hlusta á fyrrum forstjóra Baugs, jafnvel réttlætismál hans. Betra er að bíða og láta aðeins fyrnast yfir þær hremmingar sem hann hefur þurft að ganga í gegnum. Hugsanlega rennur upp sá tími að fólk taki Tryggva og fleiri Baugsmenn í sátt og minnist þeirra jafnvel fyrir önnur verk sem þeir hafa sinnt. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband