Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Siðferðisklemma Arion banka

Ekki er heiglum hent að eiga rithöfund sem viðskiptavin. Og síst af öllu veit ég hvernig Arion banki mun snúa sér út úr þessu tilboði Einars Kárasonar, sem hann birtir á í lítilli grein á pressan.is. 

Í hverjum mánuði þarf ég að greiða Arionbanka peninga, vegna lána, vísakorts osfrv. Einu sinni á ári, eða í desember, á Arionbanki samkvæmt samningi að borga mér eitthvað, þe. endurgreiðslu (5 krónur af hverjum þúsundkalli) af verslun við tiltekna aðila.

En í stað þess að millifæra á mig upphæðina sendir bankinn bréf og býður mér að hann láta þessar krónur renna heldur til mæðrastyrksnefndar. Ég hef því gert bankanum sanngjarnt tilboð: Hann borgar mér ekki það sem hann á að greiða nú í des heldur lætur það renna til mæðrastyrksnefndar. Á móti því borga ég honum ekki það sem ég á að greiða um mánaðarmótin heldur læt þá upphæð heldur til mæðrastyrksnefndar.

Hafni bankinn þessari fullkomlega sjálfsögðu tillögu er hann augljóslega kominn í alvarlega siðferðisklemmu, treystir sér ekki til að sýna það örlæti sem hann ætlast til af öðrum.  


Þegar við reyndum að gera íshelli í Skálafellsjökli

990809-32

Fyrir um fimmtán árum reyndi ég að búa til íshelli í Skálafellsjökli en árangurinn var ekki mikill. Tilgangurinn var auðvitað sá að búa til ferðamannastað, viðkomu- og fróðleiksstað fyrir ferðamenn. Á þessum árum var ég framkvæmdastjóri Jöklaferða, fyrirtækis sem sá um vélsleða- og snjóbílaferðir um Vatnajökul og veitinga- og gistiaðstöðu auk ferðaskipulagninga í Austur-Skaftafellssýslu.

990809-34

Við völdum okkur stað ofarlega í Skálafellsjökli þar sem jökullinn var ekki á mikilli hreyfingu. Á þessum tíma var alltaf mikil ákoma á jökulinn um veturinn og hún entist fram á haust. Þess vegna þurftum við að moka djúpa gryfju til að komast að ísnum.

Þegar þangað var komið notuðum við háþrýstivélar til að sprauta vatni á ísinn og brjóta hann þannig. Þetta tókst og ísinn brotnaði smám saman og við náðum að komast inn í ísinn. Mest held ég að við höfum farið um það bil þrjá til fjóra metra inn í jökulinn.

990809-30

Þetta var svo gríðarleg mikil vinna. Ég hafði enga peninga í þetta og ákvað í upphafi að þetta yrði tilraunaverkefni og fékk vini og kunningja til að hjálpa til.

Þarna komu að málum Sigurður Árni Þórðarson, prestur, Tryggvi Agnarsson, lögmaður, Árni Jóhannsson, viðskiptafræðingur, Þorkell Þorkellsson, ljósmyndari, Sigurður Ólafsson, húsasmiður, Ögmundur Guðnason á Höfn og fleiri og fleiri. Allt hörkukallar og duglegir til vinnu. Margir þeirra áttu það sameiginlegt að trúa á verkefnið og höfðu oftast verið svo vitlausir að leyfa mér að teyma þá í alls kyns vitleysur

990809-29

Ég hafði áður mikið rætt við Fjölni Torfason á Hala um svona helli en hann og Þorgerður Arnórsdóttir, kona hans voru og eru stórmerkir frumkvöðlar. Það voru þau sem byrjuðu með bátsferðir á Breiðamerkurlóni, hófu síðar silungseldi á Hala og stofnuðu loks Þorbergssetur.

Þér dugar ein eldspýta, sagði Fjölnir og glotti. Ég vissi auðvitað ekki hvort hann var að gera at í mér eða væri fúlasta alvara. En hann hafði fræðilega rétt fyrir sér. Hitinn af logandi eldspýtu dugar til að bræða ísinn, að minnsta kosti lítilsháttar. Og svo leiddi hvað að öðru og loks var hann búinn að sannfæra mig um að ísinn myndi láta undan, hvaða aðferð sem ég beitti. Andaðu bara á hann, sagði Fjölnir og hló.

990809-27

Auðvitað reyndist þetta rangt hjá Fjölni. Ísinn er rosalega harður. Hann er mörg hundruð ára gamall og hefur myndast undir þrýstingi, mikið farg hvíldi á honum og þess vegna þarf meira en eldspýtu eða vatnsþrýstigræjur.

Já, hann var alveg déskoti harður og illur viðureignar. Það má því ljóst vera að í Langjökli verður gripið til betri verkfæra.

Eldur þyrfti að vera mjög mikill, líklega koma frá eldvörpu af einhverju tagi, og vatnsþrýstingurinn þyrfti að vera miklu meiri en ég hafði yfir að ráða.

Svo var vandinn sá að koma vatni að staðnum. Við brugðum á það ráð að fá lánaðar stórar bláar tunnur, fylltum þær af vatni og fórum daglega með uppeftir þessa fjóra daga sem við eyddum í verkefnið.

Ísinn var dásamlega fallegur og tær þarna uppi. Hann virtist algjörlega ómengaður af grjóti, sandi, leir eða ösku. Aðeins fallegur og tindrandi og ég sá framtíðina í honum en las því miður ekki smáa letri, þetta með kostnaðinn. Og því fór sem fór.

990809-50

Þeir hlógu að mér margir Hornfirðingarnir og það var skiljanlegt. Hvernig átti fólk árið 1999 að átta sig á því að veðja ætti á ferðaþjónustu sem atvinnugrein.

Á þessum árum héldu margir að sjávarútvegur og landbúnaður væri framtíðin fyrir Ísland. Hins vegar voru þeir til sem gerðu sér far að kíkja á verkið og hvöttu mig til dáða.

Þeir sem skildu var ljóst að ef hægt væri að búa til íshelli væri kominn staður sem sjálfkrafa gæti dregið að þúsundir ferðamanna og þúsund möguleikar væru með hann. Þar væri hægt að segja frá jöklafræði, bjóða upp á veitingar og gistingu. Og hellirinn hefði engin takmörk. 

Hægt væri að útbúa „herbergi“ eða „sali“ eftir þörfum. Rekstur jöklaferða þyrfti ekki að byggjast á stórhættulegum vélsleðaferðum enda vitað mál að það fer ekki öllum að stjórna ökutæki á jafn hættulegum stað og Skálafellsjökull er víða.

990809

Fljótlega hurfu öll ummerki um hellisgerðina, jökullinn græðir sig sjálfur.

Ég hef alveg tröllatrú á því sem gera á Langjökli. Vandinn er hins vegar að finna stað sem er tiltölulega kyrr, jökullinn sé þar ekki á mikilli hreyfingu. Það getur valdið mikilli hættu en þó er hætt við að skelfing grípi um sig þegar jökullin hreyfist örlítið, þá heyrast undarleg hljóð.

Myndirnar sem hér fylgja voru teknar af gerð íshellisins. Þær eru allar frá upphafsdögunum en því miður á ég ekki mynd af hellinum þegar við hættum greftri.

990809-28
mbl.is Gera 300 m ísgöng undir Langjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moggin með safaríka fréttaskýringu um kröfuhafa bankanna

Fyrir leikmenn er fréttaskýring Harðar Ægissonar, blaðamanns Morgunblaðsins í blaði dagsins, afar upplýsandi og raunar magnaður lestur. Þarna sést hversu ósvífinn fjármálabransinn er og hvílíkar fjármuni um er að ræða.

„Þeir meta stöðuna þannig að þeir séu dálítið að missa tök á atburðarásinni,“ segir einn viðmælandi blaðsins. Fulltrúar kröfuhafa hafi misreiknað þá stöðu sem kæmi upp með stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. „Þeir héldu að þrátt fyrir allt þá yrði auðveldara að setjast niður með slíkri ríkisstjórn og ná einhvers konar samkomulagi. Það hefur ekki gengið eftir.“ 

Það hefur vakið undrun almennings hversu lengi slit bankanna hefur tekið og margir velta því fyrir sér hvenær þetta klárast. Sumir héldu því fram að kröfuhafarnir hafi reynt að þreyja þorrann og bíða eftir nýrri ríkisstjórn í þeirri von að hún myndi skilyrðislaust afnema gjaldeyrishöftin. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra sagði einfaldlega að það væri ekki ríkið sem skuldaði kröfuhöfum neitt og þar af leiðandi væri ekki von á neinum viðræðum við þá. Snöfurmannlega sagt hjá Bjarna.

Í fréttaskýringunni er getið um það sem viðbúið er að gert væri ef slitastjórnir og kröfuhafar fallist ekki á nauðsamninga. Þetta er verulega athyglisvert:

Búin tekin til gjaldþrotaskipta í samræmi við íslensk lög. Kröfuhafar missa allt forræði yfir þeim í gegnum slitastjórnirnar og skipaður verður skiptastjóri. Allar erlendar eignir og gjaldeyrir sem búin eiga í reiðufé seldur í gegnum íslenskan gjaldeyrismarkað í skiptum fyrir krónur. Seðlabankinn eignast umtalsverðan óskuldsettan gjaldeyrisforða en um leið margfaldast krónur í eigu erlendra aðila sem eru fastar á bak við höft.

Ofangreint hræðast kröfuhafar og eru án efa tilbúnir til samninga frekar en að lenda í þessum ósköpum. Vandinn er hins vegar eins og segir í fyrri tilvitnuninni: „Þeir meta stöðuna þannig að þeir séu dálítið að missa tök á atburðarásinni.“

í upphafi fréttaskýringarinnar segir frá því að þann 26. september 2012 hafi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis boðað til fundar um framkvæmd gjaldeyrishafta:

Á fundinn mættu meðal annars slitastjórnir föllnu bankanna ásamt lögmönnum og ráðgjöfum erlendra kröfuhafa – samtals ellefu manns. „Allt stórskotaliðið var ræst út,“ segir heimildarmaður Morgunblaðsins sem sat nefndarfundinn. 

Þetta var líklega stundin sem allir kröfuhafar héldu að nú yrði allt breytt og þeir fengu sínu framgengið með hagstæðum nauðasamningum. Þeir ætluðu að ganga frá málunum í lok þessa árs. Þá gerist þetta sem segir í fréttaskýringunni á svo dramatískan hátt:

Eftir að slitastjórnir og fulltrúar kröfuhafa höfðu fundað með nefndinni í nærri klukkutíma, ásamt öðrum sem voru boðaðir á fundinn, óskaði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, eftir því að fá að sitja einn með nefndinni í tíu mínútur. Hann var ómyrkur í máli. Skilaboð hans, rifjar þingmaður upp sem sat nefndarfundinn, voru skýr: „Þið látið ekki þessa menn komast upp með að fara á brott með gjaldeyrisforða þjóðarinnar.“

Hvað svo sem átti að vera niðurstaða fundarins þá breyttist allt, líklega vegna einræðu forstjóra Bankasýslunnar.

Hvað sem gerist á næstunni er ekki vitað. Ljóst má þó vera að kröfuhafar munu halda áfram að suða í stjórnvöldum og almannatengslamenn þeirra reyna að spilla þeirri samningsaðstöðu sem ríkisvaldið hefur komið upp. Spurningin er aðeins sú hvort að stjórnvöld, þing og ríkisstjórn hafi bein í nefinu, geti unnið að málinu og lokið því á farsælan hátt fyrir þjóðina eins og segir í niðurlagi fréttaskýringarinnar:

Háttsettur embættismaður í stjórnkerfinu segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið að rétt sé að hafa í huga að kröfuhafar eigi aðeins „kröfur í íslenskum krónum, með engan gjalddaga og bera enga vexti. Staða þeirra er því ekki sterk. Haldi Seðlabankinn og stjórnvöld rétt á spilunum er ekki ástæða til annars en að þetta risavaxna mál verði leyst á farsælan hátt fyrir Ísland.“ 


mbl.is „Herra Ísland“ ræður ferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vigdís Hauksdóttir gerir ríkisstjórninni meira ógagn en gagn

Vart er hægt að hugsa sér óheppilegri talsmann ríkisstjórnarinnar en formann fjárlaganefndar og þingmann Framsóknarflokksins, Vigdísi Hauksdóttur. Í nær hvert sinn sem Vigdís tjáir sig í fjölmiðlum gerir hún ríkisstjórninni meira ógagn en gagn.

Þetta er alveg hárrétt hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur, blaðamanni Morgunblaðsins. Í Pistli dagsins í Morgunblaðinu í morgun ræðir hún um Vigdísi Hauksdóttur. Margir telja hana skeleggan talsmann Framsóknarflokksins, aðrir eru einfaldlega gáttaðir á konunni og að hún skuli gangast upp við neikvæða gagnrýni. Eitthvað er hún að misskilja.

Kolbrún er raunar afar kurteis í pistli sínum og segir í raun ekkert meira en það sem hugsandi fólk veltir fyrir sér og það án nokkurra sleggjudóma:

Vigdís hefur svo oft komið sér í vanda með ummælum sínum að flestir í hennar sporum hefðu lækkað í sér og reynt að temja sér hófsamari málflutning. En Vigdísi virðist vera það um megn. Hún heldur áfram að skaða ímynd og trúverðugleika Framsóknarflokksins. Nýlega talaði hún eins og það sé í grundvallaratriðum rangt að bótakerfi sé sterkt og hún virðist ekki heldur sérlega hrifin af öflugri þróunaraðstoð. Það eru einungis vegavilltir vinstriflokkar sem fylgja slíkri stefnu að hennar mati.

Mér er eiginlega nokk sama um trúverðugleika Framsóknarflokksins, um það snýst ekki málið, en fólk þarf að kunna sér hóf, skiptir engu um hvern er verið að ræða. Vígdís skaðar Framsóknarflokkinn rétt eins og til dæmis Björn Valur Gíslason skaðar Vinstri græna.

Fólk sem er í opinberum stöðum ber einfaldlega skylda til að gæta hófs í umræðum.


Táknmálstúlkurinn og Belginn alræmdi

Með fullri virðingu fyrir Nelson Madela og minningarathöfninni hans þarna í Suður-Afríku þá gat ég samt sem áður ekki annað en hlegið af þessum fréttum og hreyfimyndum af táknmálstúlkinum. Þrátt fyrir allar öryggisráðstafanir komst hann í sviðsljósið og gat baðað út höndunum á svo sannfærandi hátt að engum datt neitt misjafnt í hug, nema auðvitað þeim sem kunna táknmál. Þessu fylgir auðvitað sú staðreynd að atvikið varð ekki fyndið fyrr en fólk með sérþekkingu kvartaði.

Þetta minnir á Belgann sem hafði sérkennilegt áhugamál. Hann var miðaldra, hávaxinn með gráspengt hár og afar virðulegur  þar sem hann birtist á ljósmyndum af fyrirfólki, ráðherrum og þjóðhöfðingjum í Nató eða ESB þar sem liðið stillti sér upp til hópmyndatöku. Og alltaf tókst Belganum að lauma sér inn í hópinn. Öryggisvörðum og öðrum gáfumönnum datt aldrei í hug að þessi virðulegi maður sem allir könnuðustu við væri annað en það sem hann átti að vera. Ég náði ekki að gúggla myndum af þessum ágæta manni en einhver væri áreiðanlega vís til að aðstoða mig í því og senda mér. 


mbl.is Túlkurinn segist hafa heyrt raddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn Bjartrar framtíðar fari fyrr að sofa

Áhrif af því að hringla í klukkunni eru engin. Leggjum frekar áherslu á sveigjanlegri skóla- og vinnudag, þannig að þingmenn Bjartrar framtíðar geti sofið lengur á morgnana og vaknað við bjartari skilyrði, sem vissulega mörgum okkar þykir gott.

Eitt helsta pólitíska stefnumál Bjartrar framtíðar hefur verið að seinka klukkunni.  Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, kemur hreint og beint fram í litlu viðtali við Morgunblaðið í morgun. Seinkunin skiptir engu máli að öðru leyti en því að þingmenn Bjartrar framtíðar geti sofið lengur morgnanna. Gott er að einhver er hreinskilinn um þetta stórmerkilegu þingsályktunartillögu. 

Út af fyrir sig er það mikilsvert markmið að þingmennirnir nái eðlilegri hvíld og þar með einhverju sálarlegu jafnvægi sem aftur kann að leiða til þess að þessir stjórnarandstöðumenn komi einhverju í verk sem máli skiptir.

Hitt væri gustukaverk að velviljaðir þingmenn stjórnarmeirihlutans flyttu nú þingsályktunartillögu um að þingmenn Bjartrar framtíðar fari einfaldlega fyrr að sofa. Morgunstund gefur gull í mund, jafnvel í skammdeginu. Það gengur barasta ekki að þingmennirnir ráfi um svefnlausir.


Til hamingju, Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla

Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla, er vel að Barnamenningarverðlaunum Velferðasjóðs barna kominn. Hann hefur verið skólastjóri þar frá því 1993 og staðið sig með afbrigðum vel og verið vinsæll bæði meðal nemenda og starfsmanna.

Rimaskóli hefur ekki síst vakið athygli fyrir góðan árangur í skák eins og segir í fréttinni á mbl.is:

Helgi Árnason hlýtur verðlaunin að þessu sinni fyrir ötult starf hans í þágu skáklistar meðal barna og þróun greinarinnar sem hluta af skólastarfi. Gildi skáklistarinnar er óumdeilt í skólastarfi og hefur Rimaskóli tekið þátt í öllum Reykjavíkur og Íslandsmótum frá stofnun skólans og unnið til fjölda verðlauna. M.a. hefur Rimaskóli 6 sinnum orðið Norðurlandameistari og 12 sinnum á árunum 2003-13 tekið þátt í Norðurlandamótum og náð þar einstökum árangri sem enginn annar grunnskóli á Norðurlöndum hefur náð.

Helgi er sonur hjónanna Ingibjargar Gunnlaugsdóttur (1922-1994) og Árna Helgasonar (1914-2008) sem oftast var kenndur við Stykkishólm, þar sem hann bjó lengst af, en var þó fæddur á Eskifirði. Árni var vinsæll maður, skarpgreindur og hafsjór af fróðleik.

Við Helgi vorum saman í Menntaskólanum í Reykjavík og höfum síðan haldið kunningsskap ekki síst eftir að yngri sonur minn var í Rimaskóla. Þá kynntist ég fyrir alvöru mannkostum Helga og hversu góður skólastjóri hann er og ekki síður vinur nemenda sinna. Hvort tveggja eru einstakir hæfileikar.

 


mbl.is Skólastjóri Rimaskóla fær Barnamenningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnrýni fyrrverandi yfirborgarstjóra

Borgarstjórar eru valdamenn og hafa allir verið gagnrýndir sem slíkir án þess að seilst hafi verið í slík sjónarmið. Núverandi borgarstjóri er þó í raun aldrei gagnrýndur, enda óviðeigandi. Hann hefur aldrei gegnt starfi sínu í samræmi við hefðbundnar starfsskyldur. Hans er getið í fréttum eftir því hvernig til tekst í klæðnaði í gleðigöngu og varðandi bréf til Moskvu sem aldrei var svarað. Gagnrýnin snýr að Samfylkingunni og dótturflokki hennar fyrir niðurlægingu höfuðborgarinnar.

Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins í morgun. Út af fyrir sig getur það verið stefna að gagnrýna aldrei stjórnmálamenn, gefa þeim bara lausan tauminn. Engu að síður verðum við að muna að stjórnmálamenn þurfa á málefnalegri gagnrýni að halda, þeir eiga að nærast á henni. Öllum er þörf á gagnrýnir. Eilíft lof og skjall gengur ekki og allra síst með borgarstjórann í Reykjavík. Það hefur sýnt síg að hann hafði ekkert gott haft af skjallinu.

Á tímabili var það þannig að skrifstofustjóri embættis borgarstjóra, Regína Ásvaldsdóttir, var yfirborgarstjóri, gengdi öllum rekstrarlegum skyldum borgarstjórans. Á hana var hrúgað verkefnum og skyldum sem borgarstjórinn hafði ekki tíma til að sinna eða var óhæfur í. Hún sinnti bókhaldinu, uppgjörinu, fjármálum, ráðningamálum, starfsmannamálum, stefnumörku skipulagsmálum, niðurskurðinum og svo framvegis. Hún stóð sig ábyggilega mjög en fékk enga launahækkun vegna aukinnar ábyrgðar og verkefna enda hélt undirborgarstjórinn sínum launum óskertum þrátt fyrir að gera fátt annað en að brúka skrifstofu borgarstjóra.

Nú er Regína Ásvaldsdóttir orðin bæjarstjóri á Akranesi og án hef rataði hún í það starf hokin af reynslu sem yfirborgarstjóri í Reykjavík.

Í Fréttablaðinu um helgina var viðtal við Regínu og þar ræðir hún meðal annars um reynslu sína sem yfirborgarstjórinn í Reykjavík. Í viðtalinu segir:

En má ekki segja að Jón hafi afsalað sér völdum? „Nei, en hann var að koma úr skemmtanaiðnaðinum inn á stærsta vinnustað Íslands með átta þúsund starfsmönnum – og kynnast flóknu kerfi sem er eins og að snúa Titanic ef einhverju á að breyta. Hann ákvað að treysta þeim sem fyrir voru og það gerði fólkið sem var með honum líka þannig að þétt samstaða myndaðist. Þetta skipti máli meðan nýtt fólk var að koma sér inn í hlutina því það var ekki bara Jón Gnarr sem var að byrja heldur allir borgarfulltrúarnir í Besta flokknum.

Eflaust hefur þessi svarið vafist heldur betur fyrir fyrrverandi yfirborgarstjóra Reykjavíkur. Sem prúður embættismaður vill hún ekki segja hug sinn allan heldur dregur úr og sýnir Jóni Gnarr þann skilning sem honum ætti að vera þægilegur. Hún gagnrýnir hann undir rós.

Ég les svarið þannig að Jón Gnarr hafi ekkert þekkt inn á skyldur sínar og verkefni sem borgarstjóri, gafst hreinlega upp á því strax í upphafi. Eftir það var hann verndaður af þeim hópi sem stóð honum næst, borgarfulltrúunum og þeim sem til þess voru beinlínis ráðnir á skrifstofu borgarstjóra.

Og takið eftir skotinu: „... því það var ekki bara Jón Gnarr sem var að byrja heldur allir borgarfulltrúarnir í Besta flokknum.“ Sem sagt allir í fjögurra ára starfsnámi á kostnað borgarbúa.


Óviðunandi ástand í netviðskiptum með vöru og þjónustu

Hvað skyldi ríkissjóður verða af miklum virðisaukaskatttekjum vegna kaupa landsmanna á óáþreifanlegum vörum erlendis frá? Hér er átt við tölvuforrit af ýmsu tagi og gerðum.

paperless-testheader

Mér dettur þetta stundum í hug. Í vikunni keypti ég tvö forrit frá útlöndum. Hið fyrra nefnist Paperless og tekur við pdf skjölum og hægt er að flokka þau eftir innihaldi. Ég stefni til dæmis að því að heimilisbókhaldið verði alfarið í pappírslaust. Fjölda reikninga fást á pdf formi og hægt er að skrá þá inn og um leið skanna inn aðra reikninga. Þetta er afar þægilegt og einfalt forrit þegar ákveðið form er komið á söfnunina. Forritið kostaði 30 dollara eða um 3600 krónur og enginn vaskur greiddur. Af þessum litlu viðskiptum hefði ríkissjóður átt að fá 918 krónur og verðið þeirri fjárhæð hærra.

shpro

Hitt forritið sem ég keypti nefnist Snapheal og með því get ég lagfært ljósmyndir, klippt út einhver lýti á þeim. Forritið notar umhverfi þess sem ég klippi í burtu til að fylla upp í „gatið“. Forritið kostaði 10 dollara. Í fyrstu átti að rukka mig um virðisaukaskatt og var fullyrt að það væri vegna þess að Ísland væri í ESB. Ég gat komið með ágæt rök gegn því en málið endaði með því að ég keypti frekar forritið frá Bandaríkjunum en Evrópu. Sem sagt forritið kostaði 1.187 krónur og ríkissjóður varð af virðisaukaskatti að fjárhæð 303 krónur.

Þannig gerast nú kaupin á alþjóðlegu internets-eyrinni, neteyri. Þúsundir Íslendinga kaupa sér forrit erlendis frá eða ýmis konar þjónustu sem Netflix, iTunes og Spotify veita svo dæmi séu tekin.

Ljóst er að frjáls viðskipti milli landa eru að mörgu leyti enn á frumstigi. Hugsanlega er sala á óáþreifanlegum varningi og þjónustu er algjörlega án söluskatta eða virðisaukaskatta, hvorki innskattur né útskattur til í dæminu. Af ábyrgð má fullyrða að þetta sé óviðunandi ástand.


mbl.is Milljarðaviðskipti á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur hefur engin efni á gagnrýni

Að mati Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi, snýst þetta allt um Framsóknarflokkinn. Hann getur nefnilega ekki litið upp úr pólitísku hálsmáli sínu og þar af leiðandi heldur hann að ástandið hjá heimilunum í landinu sé betra en það í raun og veru er.

Steingrímur hafði fjögur ár tll að sinna skuldavanda heimilanna. Hann gerði svo lítið að skaðinn er eiginlega skeður. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þurfti aðeins sjö mánuði til að ganga frá fyrstu aðgerðum fyrir heimilin. Engum dettur í hug að tillögur hennar leysi allt fyrir alla. Það er alltof seint fyrir fjölmarga. Nema auðvitað bankana og þrotabú þeirra föllnum hverra hagsmuni Steingrímur bar svo mjög fyrir brjósti.

Mikil voru vonbrigðin með ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem Steingrímur var kjölfestan í enda var honum og flokkunum tveim harðlega refsað í síðustu þingkosningum. Hann hefur engin efni á að gagnrýna aðgerðir núverandi ríkisstjórnar vegna þess að hann klúðraði heimilunum á sinni vakt. Það verður honum til ævarandi skammar og skiptir engu hversu margar bækur hann gefur út sér til réttlætingar.  


mbl.is Leiðréttingin ávísun á vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband