Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Stjórnsýslan er ekki hluti af framkvæmdastjórn flokka

Erlendur fræðimaður vék að því í fyrirlestri ekki alls fyrir löngu, raunar fullyrti, að Íslendingar væru of fáir til að geta átt afburðamenn til að sinna stjórnsýslu og áfallalausum rekstri ríkis. Björn Bjarnason segir í grein á Evrópuvaktinni:

Miðað við hve klaufalega ríkisstjórnir Jóhönnu og Sigmundar Davíðs hafa haldið á ESB-málinu annars vegna og nú þeim anga þess sem snýr að IPA-styrkjunum hins vegar er ástæða til að velta fyrir sér hvort meðferð mikilvægra utanríkismála sé ekki lengur á færi íslenskra stjórnmálamanna eða íslenska stjórnkerfisins. Stjórnmálamönnum og embættismönnum sé um megn að halda á málefnum þjóðarinnar á alþjóðavettvangi á þann veg að veki nauðsynlegt traust hjá íslensku þjóðinni og viðmælendum hennar á alþjóðavettvangi.

Í utanríkismálum þjóðarinnar er nú brýnast að endurvekja traust landsmanna í garð þeirra sem fara með stjórn utanríkismálanna. Samfylkingin klúðraði helsta baráttumáli sínu, ESB-málinu, og galt afhroð. Núverandi stjórnarflokkar afla sér ekki nægilegs trausts nema þeir njóti þess á sviði utanríkismála. Þar er mest í húfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á lýðveldistímanum hefur traust í garð flokksins ráðist af farsæld hans í utanríkismálum. 

Ekki er kyn þó margir efist um getu stjórnvalda til þeirra verka sem gera þarf. Tortryggnin byrjaði á dæmalausum heimskupörum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem tóku við afar slæmri stöðu eftir bankahrun hér á landi og alþjóðlegri efnahagslegri kreppu.

Á rúmum fjórum árum ætlaði ríkisstjórnin að breyta öllu til hins betra, ekki aðeins að laga það sem úrskeiðis fór í hruninu heldur að gera allt hitt sem henni þótti ástæða til að breyta. Hún vildi breyta stjórnarskránni, hún lagðist í hernað gegn atvinnulífinu, gjörbreytti stjórnsýslunni, gaf frá sér bankanna og snéri baki við almenningi. Hún barðist á öllum mögulegum vígstöðvum og hafði ekkert út úr krafsinu nema að bókhald ríkisins virtist rétt fært.

Alvarlegast var að hún beitti stjórnsýslu ríkisins fyrir sig rétt eins og hún væri framlenging á framkvæmdastjórn stjórnmálaflokkanna tveggja. Þannig varð til mikill skaði sem eflaust hrjáir núverandi ríkisstjórn. 

Það fer hins vegar ekki hjá því að fjölmargir landsmenn efist um getu, þekkingu og kunnáttu fjölmargra alþingismanna og ekki síður ráðherra og er þá ekki verið að draga heilindi þeirra í efa. 


mbl.is Utanríkismál ofviða Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En fjord skal ha et navn som ender på fjord ...

EsjaÞetta fjall þekkja allir enda höfum við Reykvíkingar það fyrir augunum nærri því á hverjum degi. Ekki er þó víst að allir þekki fjallið sem er á hinni myndinni.

Blahnukur

Látum það vera enda er hér ekki um neina keppni að ræða. Munurinn á Esju og Bláhnúki við Landmannalaugar er talsverður en einna áhugaverðastur er munurinn á þessum tveimur örnefnum.

Ef ekki væri myndin segði nafnið Esja ekkert til um hvað um sé að ræða. Esja gæti þess vegna verið nafn konu, báts, bókar eða einhvers annars. Hins vegar fer enginn í grafgötur með að hnúkur er hluti fjalls og í þessu tilviki allt fjallið. Þetta beinir athyglinni að örnefnum.

Í bókinni Grímnir 1, riti Örnefnastofnunar um nafnfræði, segir Þórhallur Vilmundarson á bls. 125, en hann er að ræða um Surtshellir sem líkur benda til að hafi einfaldlega heitið Surtur (Surtr) fyrr á öldum:

Breytingin Surtr > Surtshellir er í samræmi við hina ríku tilhneigingu til að bæta stofnlið við einliðað örnefni sem M. Olsen kallar „en tendens som i den historiske tid har gjort sig gjeldende så å si overallt í norsk navneskikk: en fjord skal ha et navn som ender på „fjord“, en elv (en å) et nafn som ender på „elv“ („å“), o.s.v.

Det er trangen til å utheve skarpt den ankelte lokalitet som har fört til dette, og trangen måtte melde sig fordi visse mangler blev merkbare ved den eldre navngivning.

Hvínsfjorðr har avlöst en eldre, usammensatt fjordnavn Hvínir ... Mosse-elven har avlöst Moss (*Mors) ...“ (NK V, 32-33) Sbr hér á landi Reyðr > Reyðarfjall (-Reyðarfjörður), *Trékyllir > - Trékyllisvík (G1) o.s.frv.

Er þetta nú ekki alveg stórundarlegt. Eða hvað myndi lesendum finnast ef þróun örnefna hefði fylgt þessu út í ystu æsar og þá værum við með fyrir augunum Esjufjall, Hengilsfjall eða Henglafell, Keilisfjall, Strútsfjall, Krákufell, Grábrókarfell, Baulufjall og álíka.

Hefði hins vegar þróunin ekki orðið á þennan hátt værum við að ganga á Vífil, Kistu, Helga, Búr, Sel ...

Eða er þetta komið út í öfgar hjá mér. Ef til vill er hér ekki um örnefnaþróun heldur breytingu sem sum örnefni taka vegna einhverra ástæðna sem okkur er ekki kunnar en önnur halda sínu. Engu að síður er þetta áhugaverðar vangaveltur. 

 


Þurr skýrsla um jarðskjálfta þarfnast fréttaskýringar

Landið nóv

Ekki finnst mér það nógu góð blaðamennska hjá mbl.is að birta orðrétt skýrslu Veðurstofunnar um jarðskjálfta í nóvember. Skýrslan er eiginlega ekkert annað en þurr upptalning sem engu skilar. Þetta kallast afgreiðsla vegna leiðinda sem er ekki moggalegt.

Staðreyndin er hins vegar sú að margt forvitnilegt er í skýrslunni þó þurr sé. Að minnsta kosti eru myndirnar sem fylgja á vefnum afar áhugaverðar og segja miklu meira en textinn. Mogginn lætur hins vegar duga að láta fylgja margbirta mynd af Vífilsfelli.

Ég sakna þess að blaðamaður skyldi ekki hafa leitað álits jarðfræðinga og fara örlítið nánar ofan í tölfræðina og textann. Þá væri viðbúið að ýmislegt skemmtilegt og fróðlegt kæmi upp á yfirborðið, bókstaflega talað. 

Myrdalsjökull

Lítum nú á myndina hér fyrir ofan sem blaðamaður mbl.is hefði átt að birta með fréttinni. Hvað er athyglisvert við þessa mynd?

Jú, ég rekst á nokkur atriði. Ég ætla að nefna fjögur sem eru stórmerkileg fyrir leikmann.

  1. Sáralítið er að gerast í Mýrdalsjökli þvert á það sem margir spáðu eftir gosið í Eyjafjallajökli. Jú, sagt var að innan tveggja ára væri nærri því „hefð“ fyrir gosi í Mýrdalsjökli. Hvað hefur breyst, af hverju gýs ekki Katla? Hvað jarðskjálftana varðar er það merkilegast hversu margir eru utan við öskjuna sjálfa og framar öllu við rætur Tungnakvíslajökuls. Þetta sést best á kortinu hérna hægra megin sem sýnir skjálfta á þessu ári. Hvers vegna er svona mikil hreyfing þarna?
  2. VifilsfellAð sjálfsögðu eru skjálftarnir á Tjörnesbrotabeltinu stórmerkilegir. Þarna hafa verið mikil læti allt þetta ár. Skjálftarnir fylgja þekktum misgengjum en við leikmenn viljum vita hversu mikil hreyfingin er og hvort hún tengist beinlínis hreyfing jarðskorpunnar þarna fyrir sunnan, allt til Öskju og í Vatnajökul.
  3. Reykjanes hefur hreinlega iðað í sumar og haust. Miklar hreyfingar voru við Eldey og halda má að þetta hliðrist allt, þaðan og upp að Vífilsfelli. Það sem mér finnst undarlegast er að sama tíma eru miklir jarðskjálftar fyrir norðan og sunnan. Tengjast þeir eða hverjar eru skýringarnar?
  4. Vífilsfell. Hérna hægra megin er mynd frá Google Maps og inn á hana hafa verið færðir jarðskjálftar í kringum 19. nóvember. Þessir hrina fékk enga umfjöllun í fjölmiðlum og raunar engar skýringar á jarðskjálftavef Veðurstofunnar. Hvernig stendur á þessum skjálftum austan við Vífilsfell, en þar eru þeir afar sjaldgæfir? Getur verið að þeir tengist eitthvað niðurdælingu Orkuveitunnar við Kolviðarhól og Húsmúla?

Raunar hefði ég átt að bæta við tveimur atriðum í viðbót og það eru skjálftarnir við Langjökul og Hofsjökul. Hvort tveggja sjaldgæf fyrirbrigði en hafa án ef mjög eðlilegar skýringar. Eða hvað ...?


mbl.is 1200 skjálftar í nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB að verða sama bitbeinið og herstöðin og Nató

Þótt gert hafi verið út um málið í síðustu þingkosningum hefur ríkisstjórninni tekizt með vandræðagangi að vekja upp óvissu um framhaldið og hvernig og hvenær hinu formlega umsóknarferli verður lokið.

Sigmundur Davíð sagði á þingi í gær, að Evrópusambandið hafi með ákvörðun um að hætta greiðslum IPA-styrkja slitið viðræðum af sinni hálfu.

Úr því að forsætisráðherra lítur svo á verður að vænta þess að ríkisstjórn hans fylgi því mati hans á afgreiðslu framkvæmdastjórnar ESB á IPA-málinu eftir.

Hvernig ætlar hann að gera það?

Með ályktun frá Alþingi?

Í ljósi þess að það er forsætisráðherra sjálfur sem talar á þennan veg er ljóst að hann getur ekki látið þessa skoðun sína hanga í lausu lofti.

Hann hlýtur að fylgja orðum sínum eftir.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins á Evrópuvaktinni. Hann vekur hér máls á því að endanleg niðurstaða hefur ekki fengist í aðildarumsóknina að ESB.

Ég er einn þeirra sem krefst þess að þjóðin taki afstöðu til aðildarinnar. Þetta mál er pólitískt í eðli sínu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tóku þá ákvörðun að virða skoðun þjóðarinnar að vettugi og sækja um aðild án þess að spyrja um leyfi.

Hún skrökvaði því að landsmönnum að hægt væri að gera „samning“ við ESB sem jafnvel gengi gegn Lissabonsáttmálanum, sjálfri stjórnarskrá ESB. Þegar sá „samningur“ hefði litið dagsins ljós væri hægt að greiða atkvæði um hann. Og þessu hafa fylgismenn aðildar haldið fram hingað til jafnvel þó sjálft valdið í Brussel haldi allt öðru fram.

Ágreiningur um aðildina hefur verið mikill, rétt eins og um aðildina að Nató og veru varnarliðsins var í áratugi bitbein milli fylkinga í landinu.

Við höfum ekki efni á að eyða tímanum í þrátefli vegna hugsanlegrar aðildar að ESB. Þess vegna er tími kominn til að leggja málið í þjóðaratkvæði. Best væri að fá þetta mál út úr heiminum næsta vor enda hef ég enga trú á öðru en að þjóðin hafni aðildinni, rétt eins og skoðanakannanir hafa alla tíð sýnt.

Raunar skil ég ekkert í ríkisstjórninni að hafa ekki tekið ákvörðun um þjóðaratkvæði um ESB aðild. 


Myndi Snowden samþykkja samning?

Sumir hefðu nú talið það meiri frétt ef Edward Snowden hefði ljáð máls á því að ræða við bandarísk stjórnvöld um að afhenda þeim fórur sínar sem varða njósnagögn. Hitt töldu allir sig vita, að enginn sjéns væri á því að stjórnvöldin myndu semja. Það geta þau einfaldlega ekki, bundin í báða skó af lögum og reglum með nokkrum undantekningum þó.

Gæti nú verið að Snowden fái einhvern tímann að lifa eðlilegu lífi í Bandaríkjunum? Hugsanlega gæti það gerst. Ástæðan er án efa sú að fjölmargir gagnrýna njósnir stjórnvalda, hleranir á símum og annað sem flestum þykir minna á stórabróður í sögu Georgs Orwell. Mönnum þykir einfaldlega staðan vera sú að til að verjast vonda liðinu sé góða liðið sett undir eftirlit. Það gengur alls ekki.

Svo er það allt annað mál hvort uppljóstrara sé svo annt um „frelsi“ sitt að hann vilji afhenda öll gögn og snúa til baka í sæluríkið. Það er bara mannlegt að hugsa þannig og líklegar auðveldara að vera hetja í einn dag en í hrútshorni alla æfi fyrir sannfæringuna. 


mbl.is Útiloka að semja við Snowden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýkingargreiðslur, smjör, mútur og brandari

Ef ríksstjórnin hefði óskað eftir því að haldið yrði áfram samstarfi á grundvelli IPA styrkja eru allar líkur á því að ESB hefði orðið við því. Það var ekki gert af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Svo er það bara brandari af áður óþekktri stærðargráðu að menn sem hingað til hafa lýst IPA styrkjum sem mútum skuli ætla að beita lagaklækjum til þess að fá að halda áfram að þiggja mútur.

Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem mútuþegar reyna að beita lögfræðirökum til þess að þvinga hin illu öfl sem eru að múta þeim til að halda áfram að múta þeim.

Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í viðtali við visir.is. Hann hefur greinilega gott skopskyn þó það komi því miður sjaldan upp á yfirborðið.

Mér skilst að undirritaðir hafi verið samningar milli einstakra aðila hér á landi og ESB um styrki. Ekkert smátt letur er í samningunum og engin uppsagnarákvæði önnur en þau að viðkomandi þurfa að greina frá framvindu mála til að fá styrki útborgaða eins og yfirleitt tíðkast.

Hverjir kölluðu IPA styrkina mútur? Jú það voru bloggarar og misyndismenn eins og sá sem hér skrifar. Kallaði utanríkisráðherra IPA styrkina mútur eða einhverjir aðrir stjórnmálamenn? Ég veit ekki til þess en brandarinn er engu að síður góður.

Hins vegar er ástæða til þess að samningar standi hverjar svo sem aðstæður samningsaðila hafi breyst.

Hitt skulum við ekki deila um að IPA stykirnir eru „smjör“, framleitt sem viðbit til að bitinn stóri, ESB aðildin, renni greiðar ofan í stjórnkerfið og almenning á Íslandi.Ég er líka fyllilega sammála Styrmi Gunnarssyni, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, sem segir á vef Evrópuvaktarinnar:

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera þegar hún er búin að „skoða réttarstöðu sína“?!

Ætlar hún að gera sig að athlægi á alþjóða vettvangi með því að draga Evrópusambandið fyrir dómstól fyrir að hafa fellt niður það sem Staksteinar Morgunblaðsins kalla „mýkingargreiðslur“?

Til hvers er þessi vegferð farin? Hverja er verið að friða?

Ríkisstjórnin hefur áður sýnt að hún er tilbúin til að falla frá misráðnum hugmyndum.

Hún ætti að falla hið snarasta frá þeim hugmyndum að „skoða réttarstöðu“ Íslands vegna IPA-styrkjanna. 

Það skyldi þó ekki vera að í fyrsta sinn sé formaður Samfylkingarinnar orðinn sammála núverandi og fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og hafi skilið brandarann. 

Höfum það bara á hreinu að IPA greiðslurnar voru einfaldlega mútur, ESB bar fé á íslensk stjórnvöld til að þau héldu áfram inn í sambandið. Árni Páll var einn þeirra sem fagnaði mútunum en þjóðin lét ekki peningana villa um fyrir sér.


Hvor sagði hvað - eins og það skipti máli héðan af ...?

Skemmtilegt próf hjá mbl.is. Tel mig fylgjast ágætlega með stjórnmálum en hafði þó aðeins níu rétta af fimmtán. Hef þó það mér til afsökunar að ég hef ekki lesið bækur Össurar og Steingríms.

Svo mikið álit hef ég ekki á þeim félögum að ég vilji borga fyrir bækurnar þeirra eftir allt sem þeir hafa gert mér, haft af mér atvinnu, fé og næstum því sjálfstæði þjóðarinnar.

Sjálft prófið hefði mátt vera nokkuð dýpra og hvassara en hvað hefði þá orðið um skemmtigildið? Jú, menn hefðu getað látið prenta myndir af þeim félögum og farið með út í garð og kastað snjóboltum í þær. Það gæti verið mesta fjölskylduskemmtun sem hægt er að hugsa sér.


mbl.is Hvor sagði hvað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáskammtarnir vekja sjaldan grunsemdir

Nánast allir eiga farsíma og hafa hann með hvert sem þeir fara (nema í heita pottinn). Og þannig skrá sig nánast allir til leiks. Þeir sjálfir muna sjálfsagt ekki deginum lengur hvaða leið þeir fóru á þennan staðinn eða hinn. En þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. Það er allt saman skráð og jafnvel miklu lengur en gert var hjá Vodafone. Og það er einnig skráð hverjir hittast. Því símarnir sýna fjarlægðina sem er á milli þeirra.

Og þegar 3, 5 eða 7 símar eru á litlum reit þá vita þeir hlerunardrengirnir að menn eru sennilega á fundi. Og ef grunsamlegt nafn tengist einum símanum er þegar í stað hægt að breyta einum af 5 í upptöku- og sendingartæki og skiptir ekki máli þótt samviskusamlega hafi verið slökkt á þeim. Að loknum þessum „fundi“ fer hver og einn áleiðis heim til sín og kemur við í sinni Melabúð hér eða þar um veröldina. Hann verslar og borgar með greiðslukortinu sínu og allar þær upplýsingar eru skráðar jafnharðan ef ástæða þykir tilsettar með öðrum upplýsingum um þá persónu.

Árum saman er skráð hvað viðkomandi keypti af rúsínum, ostum, sveppum og gosdrykkjum. Hvað réttlætir það? Er það af heilbrigðisástæðum svo leyniþjónusturnar geti gripið inn í ef mannheimur fitnar eða tennur taka að skemmast af sykuráti? Nei, nei, nei. Ekki gefa til kynna að þú sért með snert af ofsóknarbrjálæði. Þetta er eingöngu gert til að sjá hvort handhafar síma og greiðslukorta sem að auki hafa hugsanlega hist eru að kaupa efni sem nota mætti til sprengjugerðar, ef það kemur saman í nægjanlegu magni.

Smáskammtarnir vekja sjaldan grunsemdir. Þess vegna þarf að sjálfsögðu að fylgjast með smákaupum, og hvort smákaupendur hafi tengsl og nota svo margföldunartöfluna. Þar gætu hryðjuverkamenn framtíðarinnar verið á ferð. Ósennilegt er að Stalín gamli hefði hrotið um slíkt og þvílíklegt í sínum villtustu draumum um eftirlit með almenningi.

Þessi texti er snilld og fyrir alla muni setjum hann í rétt samband en hann er tekinn úr miðju Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem kennt er við sunnudag. Mikið væri gaman að geta skrifað svona og ekki síður þetta úr niðurlaginu:

Þrjátíu ár eru síðan sagt frá því að gervitungl njósnastofnana sæju eldspýtnastokk út úr geimnum og gætu lesið textann á honum. Samt sáu þær bin Laden ekki í 10 ár. Þó var fleiri gervitunglum beint að meintum verustöðum hans en tíu heimsborgum samanlagt. Bin Laden var nærri tveir metrar á hæð og menn geta í huganum borið hann saman við eldspýtnastokk.

Bandaríkjaforseta er betur gætt en nokkurrar annarrar mannveru. Hann stóð og hélt langa ræðu í minningu Mandela á dögunum. Hinn eini sem fékk að vera við hlið forsetans, svo séð yrði (ekki glitti í neinn lífvörð) var táknmálstúlkurinn frægi.

Engin af öllum þessum njósnastofnunum vissi að táknmálstúlkurinn vissi ekki hvað táknmál var. Og þær vissu ekki heldur að maðurinn, sem einum var treyst til að standa lengi þétt við hlið Bandaríkjaforseta, hafði verið fangelsaður fyrir þjófnað og að auki ákærður fyrir nauðgun og morð.

Sjálfsagt er að gæta sín á að hlæja ekki upphátt að þessu. Því það yrði þá ekki til annars en að ýta undir þau sjónarmið að núverandi njósnastig mannkyns væri augljóslega allt of lágt. 


Þórhallur Vilmundarson og náttúrunafnakenningin

Á árunum laust fyrir og um 1970 setti Þórhallur fram hina umtöluðu náttúrunafnakenningu sína og flutti um hana röð opinberra fyrirlestra í Reykjavík, við einstaklega góða aðsókn, enda fyllti hann þá Háskólabíó í nokkur skipti. Um þessi efni talaði hann einnig víðar um land, t.d. var hann í febrúar 1982 fenginn til að halda örnefnafyrirlestra í fæðingarbæ sínum Ísafirði. Við undirbúning fyrirlestranna hafði Þórhallur ferðast fram og aftur um allt land á jeppa sínum og tekið ógrynni af góðum ljósmyndum sem hann sýndi síðan máli sínu til stuðnings. Kenning hans var tvímælalaust sú djarflegasta og frumlegasta sem forystumaður í íslenskum fræðum kom fram með um langt árabil. Með tilkomu kenningarinnar vaknaði upp nýstárleg og gagnleg umræða um uppruna fjölda örnefna. Jafnvel var nú tekið að draga tilvist einstakra landnámsmanna í efa, og þótti sumum það reyndar mikil goðgá.

Þetta segir Björn Teitsson, fyrrum skólameistari á Ísafirði, í minningargrein í Morgunblaðinu í dag um Þórhall Vilmundarson, prófessor og fyrrum forstöðumann Örnefnastofnunar.

Grimnir_forsida

Grímnir 

Svo vill til að í margar vikur hef ég verið að blaða í nokkrum bókum og þær hafa jafnan legið á borðinu hjá mér. Meðal þetta eru þrjá bækur sem bera nafnið „Grímnir, rit um nafnfræði“. Útgefandi var Örnefnastofnun Íslands og höfundur hins fjölbreytta efnis þeirra er áðurnefndur Þórhallur.  Fyrsta bókin kom út 1980, önnur bókin 1983 og sú síðasta 1996.

Þórhall þekkti ég ekkert. Hafði þó einu sinni eða tvisvar hitt hann að máli meðan ég gaf út tímaritið Áfangar. Ástæðan var einfaldlega sú að ég hafði keypt Grímni einhvern tímann 1982 og við það vaknaði áhugi minn á svokallaðri „náttúrunafnakenningu“ Þórhalls sem Björn Teitsson nefnir hér fyrir ofan.

Skortur á örnefnum 

Við lestur bókarinnar og raunar hinna tveggja sem á eftir komu vaknaði og treystist áhugi minn fyrir örnefnum. Snemma komst ég að þeirri staðreynd að örnefni á Íslandi eru fá og mörg hver eru hin sömu víða um landi. Þetta er einstaklega bagalegt fyrir ferðamenn enda ótækt að fjall beri einungis tölur sem er hæsti tindur þess. Þetta er engu að síður staðreynd. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að örnefni eru ekki endanlegur sannleikur og ekki megi bæta við eins og svo margir halda.

Godahraun

„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði Tómas skáld Guðmundsson í ljóði sínu Fjallgangan. Honum rataðist satt á munn. Þess vegna var ákveðið að gefa eldstöðvunum og hrauninu á Fimmvörðuhálsi nafn. Stóri gígurinn var nefndur Magni, sá minni Móði og hraunið Goðahraun enda heitir landið fyrir neðan Goðaland.

Skarpskyggni 

Í bókunum þremur fjallar Þórhallur Vilmundarson um fjölda örnefna. Rekur uppruna orða, ber þau saman við hliðstæð í öðrum tungumálum, skoðar staðhætti, ber þá saman við sambærilega staðhætti á Norðurlöndum og kemst svo að niðurstöðu. Þarna fór saman mikil menntun, þekking, skarpskyggni og fjölhæfni í einum og sama huga.   

Góðaland 

Af því að ég nefndi Goðaland hér á undan er ekki úr vegi að greina frá því sem Þórhallur segir um örnefnið:

Godaland

Líklega hét G. upphaflega *Góðaland vegna góðra beitarskilyrða. til samanburðar er Góðaland, suðurendi Vífilsstaðahlíðar, Gull., Godlendet í Stangehéraði á Heiðmörk (NGIII 167), Goathland (Godelandia um 1110) í Jórvíkurskíri (DEPN4, 199) o.s.frv. >Goðdalur, -ir

Emstrur 

Emstrur er skrýtið örnefni en það á í dag einkum við um landsvæði norðvestan við Mýrdalsjökul en gæti áður hafa náð talsvert sunnar, jafnvel allt að Ljósá sem telst nú til Almenninga. Þórhallur ræðir nokkuð ítarlega um örnefnið og þar er margur fróðleikurinn. Hér er hluti af umfjöllunin, lítilsháttar lagað til á mína ábyrgð (einnig vantar nokkur tákn sem finnast ekki á lyklaborðinu mínu):

950803-84

Nokkrar umfræður hafa orðið um örnefnið Emstrur meðal fræðimanna. Á víkingaráðstefnu í Leirvík á Hjaltlandi 1950 fjallaði A.B. Taylor meðal annars um örnefnið Unst, sen svo heitir nú hin nyrsta Hjaltlandseyja, sem nefnd er Aumstr, Aurmtr, Qrmst í fornum heimildum.

Í umræðum á ráðstefnunni benti Jón Helgason á, að om- kynni að vera u- hljóðvarpsmynd rótarinnar am-, en hún kæmi fyrir í norrænum örnefnum og merkti 'erfiðleikar', t.d. Amager, Qmð í N-NOregi (nú Andöya). [...]

S. Bugge taldi eyjarheitið Qmð dregið af so. ama „gnide, skubbe“ og merkti þá 'eyja, sem núin er af hafi og vindum', en G. Knudsen hugði Amager hafa heitið í öndverðu *Amhakæ, þ.e. 'haki (oddi, sem veldur ama'.  

J. Kousgaard Sorensen telur, að fyrri liður Amager sé Ame, heiti sundsins milli Sjálands og Amakurs, af *am- ðnudda', nafnið þá leitt af því, að bátarhafi kennt gruns , er þeir sigldu um sundið, og kunni sama vatnsrásarnafn (vanddragsnavn) að vera í hinum þekktu örnefnum Amsterdam, Emden og Ems. [...]

950803-86

Í grein um viðskeytið -str- í germönskum örnefnum segir Th. Andersson hins vegarm að Emstrur á Íslandi sé eflaust ekki örnefni sem myndað sé sem slíkt með -str- viðskeyti, enda séu slík -str- örnefni ekki til á Íslandi.

Nafnið Emstrur mun dregið af so amstra 'þrælka; kveinka sér', no. amstur 'ómak; erfiði' sjá (Blöndal).

Sveinn Pálsson segir 1793, að Emstrur séu „formedelst Jökelelve nu om Stunder næsten ubefarlig ...“ 

Í sóknarlýsingu 1839 segir um Emstrur: „Verða þær lítt notaðar vegna ófærra vatna.“

Líklegt er því, að nafnið sé dregið af þessum erfiðleikum.

Fyrir leikmann er fengur að fá að lesa svona rökstuddan fróðleik. Það er nú alltaf einu sinni þannig að þegar maður hefur náð að kynna sér fræði sem falla vel að huga manns og ekki síður áhugamálum þykist maður hafa himinn höndum tekið, svo upplýsandi er þetta allt saman.

Ég trúi því að bæði leikmenn og fræðimenn framtíðarinnar eiga eftir að minnst Þórhalls Vilmundarsonar með virðingu og hlýju.

Myndirnar eru þessar:

  1. Goðahraun og eldgígurinn Móði.
  2. Frá Goðalandi, myndin er tekin á Krossáraurum, sunnan megin.
  3. Innri Emstruá, illfært skaðræðisfljót sem fór ekki mildilega með bílinn sem þarna sést.
  4. Sunnarlega á Emstrum, Stórkonufell.

 


Bandaríkjamenn eru dýravinir ...

Þegar dádýr, björn eða krókódíll villast inn í mannabyggðir bregðast Bandaríkjamenn undurskjótt við og reyna að skjóta deyfilyfi í dýrið og flytja síðan í heimkynni þess. Þetta er fallega gert og lýsir undurnæmum skilningi á fjölbreyttu dýralífi og að það eigi heima í náttúrulegu umhverfi en ekki manngerðu.

Fyrir kemur að menn villast af vegi dyggðarinnar og gera samborgurum sínum einhvern óskunda. Þá taka bandarískir löggæslumenn upp byssuna og reyna að skjóta vesalinginn, „aim to kill“ eins og það heitir víst í amrískum bíómyndum. Þó gerist það af og til að í harðbakkann slær og gripið er til handjárna.

Vissulega eru Bandaríkjamenn miklir dýravinir en ...


mbl.is Eltu ökumann og skutu hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband