Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013
Hjörleifur tugtar Steingrím J. til vegna ESB
5.12.2013 | 10:20
Í umdeildri ályktun landsfundar í mars 2009 sagði síðan: Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér kemur fram sú tvöfeldni sem fylgt hefur málflutningi VG-forustunnar alla götu síðan.
Í sjónvarpsumræðum flokksformanna kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009 þvertók Steingrímur fyrir að til greina kæmi að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að ESB. Orðrétt sagði hann við alþjóð: Það samrýmist ekki okkar stefnu og við höfum ekkert umboð til þess.
Hálfum mánuði síðar var búið að gera aðildarumsókn að Evrópusambandinu að leiðarljósi nýrrar ríkisstjórnar og lagt að þingmönnum VG að styðja tillögu þar að lútandi.
Þetta segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður og ráðherra í grein í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögninni Skriftamál Steingríms J og ESB-aðildarumsóknin og finna má að honum er þungt niðri fyrir.
ESB-umsóknin hefur legið eins og mara á óbreyttum flokksmönnum VG. Þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar flokksforystan hreyfði engum mótmælum þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar lagði fram tillögu um aðildarumsókn fyrir Alþingi og fékk meirihluta.
Almennir flokksmenn sem stóðu utan við klíku forustu VG urðu afar reiðir og síðan hefur gneistað á milli þeirra og forustunnar sem þó hefur jafnan haft betur í atkvæðagreiðslum innan flokksins. Ekki samt án fórna. Fjöldi fólks sagði sig úr VG og niðurstöður síðustu þingkosninga voru hrikalega slæmar fyrir flokkinn meðal annars vegna afstöðunnar til ESB. Og enn furða þeir sem eftir eru í flokknum sig á hlandvolgri afstöðu forustunnar til ESB.
Að baki grein Hjörleifs virðist tvennt liggja til grundvallar. Annars vegar bein svik vegna ESB-umsóknarinnar og viðhorf til ESB og svo hins vegar reiði hans og annarra vegna þess að forustan einangraði sig frá almennum flokksmönnum og lét eins og stefnuskrá flokksins skipti minna máli heldur persónulegur frami einstakra manna.
Þetta endurspeglast í eftirfarandi orðum Hjörleifs. Þau eru gríðarlega ávirðing á störf og stefnu Steingríms og hann sakar Steingrím um þekkingarleysi. Hvað er verra að segja slíkt við formann flokks og geta fært fyrir því óhrekjanleg rök (greinaskil og feitletranir í tilvitnunum eru mínar):
Svo virðist sem Steingrímur og fleiri í forystusveit VG hafi haft mjög takmarkaða þekkingu á leikreglum ESB áður en ákvörðun var tekin um að sækja um aðild.
Í aðdraganda umsóknar Íslands vísaði forysta VG t.d. ítrekað í aðildarsamning ESB og Noregs frá árinu 1994. Eftir aldamótin 2000 hafði framkvæmdastjórn ESB hins vegar breytt leikreglum, innleitt svonefnt aðlögunarferli, og útdeilir í því skyni umtalsverðum fjármunum í formi IPA-styrkja.
Þetta fé er notað í aðdraganda aðildar til að undirbúa lagaumhverfi og stjórnsýslu umsóknarlandsins og til að plægja akurinn að öðru leyti, hérlendis m.a. með rekstri sérstakrar ESB-skrifstofu.
Steingrímur talar um fjandans IPA-styrkina og segir ástæðuna að þeir voru notaðir í andspyrnunni gegn málinu, algjörlega að ósekju að hans mati (s. 149).
Kærleikar eru greinilega litlir milli Hjörleifs og Steingríms en hvernig má annað vera þegar sá síðarnefndi hefur gjörbreytt stefnu VG upp á sitt eindæmi og fylgi flokksins er svo að segja í rjúkandi rúst. Lesandinn fær þá mynd af Steingrími að hann sé erfiður í umgegni, einangraður og lýðræðisást hans sé frekar í orði en á borði.
Ef til vill er Hjörleifur ekki besta heimildin um Steingrím. En hverjir yfirgáfu þingflokk VG á síðasta kjörtímabili og hvað sögðu þeir hinir sömu um formanninn og ástæður sínar? Her falder brikkerne på plads, eins og danskurinn segir.
Einn forsendubrestur leiðréttur en annar er eftir ...
4.12.2013 | 10:10
Verkefnið framundan er fyrst og fremst að reisa við atvinnuvegina og slá skjaldborg um heimilin í landinu, þétta það öryggisnet sem heimilin búa við og við nauðsynlega þurfum á að halda á þessum tímum.
Hver skyldi nú hafa sagt þetta? Jú, þannig orðaði Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður, fyrirætlanir sínar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þegar hún fékk umboð til myndunar ríkisstjórnar þann 1. febrúar 2009. Þá var mynduð minnihlutastjórn þessara flokka og um vorið tók við meirihlutastjórn þeirra.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, rifjar upp þessi orð í frábærri grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann segir í upphafi greinarinnar:
Leiðtogar Samfylkingar og Vinstri grænna eiga erfitt. Þeir virðast sætta sig illa við að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynni róttækar aðgerðir í skuldamálum heimilanna, aðeins sex mánuðum eftir að hafa tekið við stjórnartaumunum af vinstri stjórn sem kenndi sig við norræna velferð og skjaldborg.
Skuldamál heimilanna þvældust fyrir vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í meira en fjögur ár. Í upphafi var því heitið að gripið yrði til róttækra aðgerða til að aðstoða skuldug heimili - að slegin yrði um þau skjaldborg.
Þetta er rétt hjá Óla Birni. Stjórnarandstaðan virðist hafa misst fótanna og geti einfaldlega ekki staðið upp aftur. Efndir á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar virðist hafa komið þeim gjörsamlega á óvart og þjóðin fagnar eins og glögglega má sjá af skoðanakönnun sem birt er í Morgunblaðinu í dag.
Þjóðin man þessi digurbarkalegu orð um skjaldborgina. Þau eru víti til varnaðar, dæmi um ríkisstjórn sem fer af stað með góðar fyrirætlanir en allt fer í handaskolum. Óli Björn orðar það þannig:
Ekki skal efast um góðan ásetning vinstri stjórnarinnar. En líkt og oft áður féllu vinstri menn í gryfju skrifræðis og skattahækkana. Í stað markvissra almennra lausna var gripið til sértækra aðgerða, með tilheyrandi biðröðum, endalausum flækjum í regluverki og pappírsfargani. Vandi heimilanna var aukinn enn frekar með hærri sköttum og opinberum gjöldum.
Óli Björn minnir á að fátt af því sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að gera komst til framkvæmda heldur var það Hæstiréttur sem færði almenningi mestar leiðréttingar. En Óli Björn er raunsær maður og þess vegna segir hann í grein sinni og þetta hljóta allir hugsandi menn að samþykkja, hvar í flokki sem þeir standa (greinaskil og feitletranir eru á mína ábyrgð):
Róttækar tillögur ríkisstjórnarinnar um að rétta við hlut heimilanna eru aðeins hluti af þeim verkefnum sem bíða. Með þeim er verið að leiðrétta það sem kallað er forsendubrestur vegna falls krónunnar og mikillar verðbólgu.
En þá er eftir að leiðrétta annan forsendubrest sem er síst minni: Gríðarlega hækkun skatta, minni atvinnu og lægri laun.
Slíkur forsendubrestur verður ekki leiðréttur nema með því að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, auka fjárfestingu og lækka skatta og opinber gjöld.
Foreldrar þurfa að læra að aga börnin
4.12.2013 | 09:50
Nú geri ég ekki athugasemd við það að kennarar eigi skilið að fá hærra kaup og ekki dreg ég í efa að þeir séu almennt stórmerkilegir í alla staði, sannkallað salt jarðar. Ég set aftur á móti fyrirvara við þá staðhæfingu að samasemmerki sé á milli þess fjár sem varið er til menntunar og árangurs nemenda og lít þá til þess að lítið samhengi virðist á milli þess hlutfalls af þjóðarframleiðslu sem varið er til menntunar og árangurs á PISA-prófum, hvort sem litið er til Íslands eða annarra landa.
Undanfarin ár og áratugi hefur stéttarfélag kennara barist ötullega fyrir því að kennarar gjaldi ekki getuleysis síns. Það er trúa mín að beiti samtökin sér fyrir því að félagsmenn njóti getu sinnar og taki þátt í endurskipulagningu menntakerfisins muni takast að bæta menntun á Íslandi, en ekki fyrr en þá.
Árni Matthíasson, blaðamaður Morgunblaðsins, kemur þarna að kjarna málsins, en tilvitnunin er úr Pistli dagsins í blaðinu. Undir þessi orð tek ég fyllilega.
Staðreyndin er einfaldlega sú að ábyrgð kennara er mikil, nærri því jöfn á við foreldra. Hvað varðar þá síðarnefndu er ljóst að ekki fylgir alltaf nægur agi í uppeldi barna hvað varðar skólann. Skólinn keppur um athygli nemenda við íþróttir, (sem eru skemmtilegar) tónlist (sem er skemmtileg), tölvuleiki (sem eru skemmtilegir) og margt fleira. Undanhald skólans (sem oft er ekki skemmtilegur) þýðir einfaldlega lakari menntun.
Alvarlegast er það viðhorf margra barna og unglinga að fjölmargt í námsefninu skipti engu mál þegar til framtíðar er litið. Hvað veit barnið eða unglingurinn? Sáralítið í raun og veru. Danska skiptir máli eins og raunar öll tungumál sem kennd eru í skólum, stærðfræðin líka og einnig mannkynssagan og náttúrufræðin svo eitthvað sé nefnt. Þetta vita börn og unglingar ekki fyrr en löngu síðar er menntunin tekur á sig form í huga fólks.
Við þurfum að kenna börnum aga en framar öllu þurfa foreldrar að aga sig. Ef þeir geta ekki haldið börnum sínum að bókinni, kennt þeim iðni og ástundun eru þeir einfaldlega óhæfir.
Stjórnarandstaðan grautfúl á móti, nema Ögmundur!
3.12.2013 | 17:21
Stjórnarandstæðingurinn Ögmundur Jónasson sýnir á sér sparihliðina og er bara jákvæður vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna skuldamála heimilanna. Hann orðar þetta á svipaðan hátt og fleiri sem gagnrýnt hafa stjórnvöld frá hruni fyrir aðgerðarleysi í þessum málum.
Eiginlega hélt ég að hann myndi hafa allt á hornum sér út af þessu. Á sama hátt bjóst maður við því að Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, myndi vera jákvæður vegna skuldaaðgerðanna. Hann virðist hafa verið svo málefnalegur upp á síðkastið. En þar fór í verra. Guðmundur var lokaði augunum og stimplaði sig í stjórnarandstöðuna svo eftir er tekið.
Miðað við orð Guðmundar, Steingríms J. Sigfússonar, Katrínar Jakobsdóttur og Árna Páls Árnason virðast þetta ágæta fólk hafa búist við allt öðru. Búið sig undir flóknari útfærslur fyrir heimilin.
Aumingja seðlabankastjórinn þjófstartaði illilega í síðustu viku. Hann ætlaði aldeilis að byrgja einhvern brunn áður en ríkisstjórnin félli ofan í hann, hélt líklega að hún ætlaði að beita Seðlabankanum fyrir sig í lausnum á skuldavandanum. Hann vissi ekkert, giskaði út í bláinn.
Ögmundur Jónasson er jákvæður vegna aðgerðanna en hinir stjórnarandstæðingarnir og seðlabankastjórinn eru enn að hugsa málið en hafa gefið það eitt út að þeir eru á móti, grautfúlir á mót.
Ögmundur ánægður með aðgerðirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hálfkveðnar vísur Þrastar Ólafssonar um ESB aðildina
3.12.2013 | 10:11
Með tilkomu nýrrar íslenskrar ríkisstjórnar var umsóknarferli að ESB, einnig hér, slegið snarlega útaf borðinu, án þess að vitað væri um nokkurn verulegan ágreining í viðræðunum. [...]
Hermisvar stjórnarliða er að aðild þjóni ekki hagsmunum landsins. Engin frekari rök, sama hvar maður leitar. Ljóst var, af því sem lekið hefur út, að margt benti til þess að við fengjum þar viðunandi lausnir bæði varðandi landbúnað og sjávarútveg.
Ástæða ákvörðunar nýrrar ríkisstjórnar um slit á viðræðum hlýtur því að leynast í pólitískri hagsmunagæslu stjórnarflokkanna. Skyldu þeir vera að vernda innanlands tök þeirra, sem ráða yfir auðlindum landsins?
Þröstur Ólafsson, hagfræðingur, ritar í Morgunblaðið í morgun grein um umsóknaraðild Íslands að ESB. Til að gera málflutning sinn sennilegan ber hann saman stöðu Úkraínu Íslands og tiltekur ýmislegt sem hann segir líkindi með þessum tveimur löndum. Tilvitnunin er úr þessari grein (greinaskil eru mín).
Vandamálið með röksemdafærslu Þrastar er eins og með marga aðra vinstri menn sem dásama aðildina að ESB er að hún er síst af öllu traust. Þegar gyllingum sleppir hrekkur hann í þann gamalkunnugan gír að vera með hálfkveðnar vísur og aðdróttanir eins og glögglega kemur fram kemur í þriðju málsgreininni.
Þröstur staðhæfir að lausnir hafi verið í sjónmáli viðræðum um landbúnaða og sjávarútvega, en fyrir því er hins vegar enginn fótur né heldur að enginn ágreiningur hafi verið í viðræðunum við ESB.
Margt bendir til ... segir Þröstur en tilgreinir ekkert sem bendir til að viðunandi lausnir hefðu boðist í landbúnaði og sjávarútvegi.
Af hverju nefnir hann ekki eitthvað af þessu mörgu? Ástæðan er einföld. Þröstur skrökvar enda höfðu viðræður um landbúnað og sjávarútveg ekki hafist og þokkabót er ljóst er að gríðarlega mikið ber í milli. Við þurfum ekki annað en að líta á deilurnar um makrílinn þar sem þjóðinni er hótað viðskiptaþvingunum fari hún ekki að boðvaldi ESB.
Síðan þegar rökin þrjóta endanlega þarf Þröstur að koma með gamalkunnuglega tuggu um pólitíska hagsmunagæslu og meint tök þeirra, sem ráða yfir auðlindum landsins.
Ferlega er þetta aumlegt hjá Þresti Ólafssyni. Þegar upp er staðið stendur ekki steinn yfir steini hjá honum. Ekki einu sinni samlíking Íslands og Úkraínu stenst ekki athugun. Aðstæður eru allt aðrar í því ágæta landi. Fólk hefur þar kynslóðum saman verið þrúgað og kæft af sósíalisma og sér ljósið í því eina að sameinast Evrópu. Það þarf lygilega mikinn sannfæringakraft að halda því fram að aðstæður þessara tveggja landa séu líkar og þann kraft hefur Þröstur ekki.
Jafnvel þó skoðanakannanir hafi alla tíð sýnt að mikill meirihluti landsmanna er á móti aðild taka aðildarsinnar ekkert mark á því og gera að því skóna að afturköllun aðildarumsóknar sé vegna hagsmunagæslu þeirra ... sem ráða yfir auðlindum landsins.
Heldur einhver að hálfkveðnar vísur séu boðlegar sem rök fyrir ESB aðild?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Man enginn eftir að láta Ríkisútvarpið vita ...?
3.12.2013 | 08:48
Ríkisútvarpið er liður í öryggiskerfi landsins. Það tekur í öllum tilvikum mið af því sem til þess bær yfirvöld, lögregla, almannavarnir og aðrir slíkir, láta vita af vá eða öðru sem varðar almannahagsmuni. Við tökum það ekki upp hjá sjálfum okkur að vara fólk við, sé það ekki staðfest eða til þess bær yfirvöld fara ekki fram á það.
Þetta segir Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins í viðtali við mbl.is í morgun. Er það virkilega svo að enn sé Ríkisútvarpið hluti af öryggiskerfi landsins, eins og fréttastjórinn orðar það og enginn.
Og Óðinn er greinilega ekki sáttur því hann segir:
Morgunblaðið skúbbaði þarna, en enginn lét okkur vita, hvorki íbúi né til þess bær yfirvöld.
Man enginn eftir fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar vandi steðjar að almenningi? Maður, maður ... á bara ekkert orð yfir tillitsleysi almennings.
Það skyldi þó ekki vera að þetta með öryggishlutverk Ríkisútvarpsins sé einfaldlega úrelt þing þegar aðrir fjölmiðlar geta auðveldlega gert betur og það af sínu eigin frumkvæði.
Lögreglan lét fjölmiðla ekki vita | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þá höfðu kennarar alltaf rétt fyrir sér, þeirra var valdið
2.12.2013 | 14:22
Menntun og skóli | Breytt 3.12.2013 kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Löskuð ímynd og skertur trúverðugleiki
2.12.2013 | 10:15
Um árabil var vitað að nýr Álftanesvegur í gegnum Gálgahraun/Garðahraun í Garðabæ yrði afar umdeildur. Skoðanakönnun MMR leiddi í ljós að 25,1% landamanna var hlynnt veglagningunni en 42,2% voru andsnúin framkvæmdinni. Þetta mikil andstaða við framkvæmdina undirstrikar mikilvægi vandaðra vinnubragða. Að knýja mál áfram í krafti stærðar og valds er sjaldan til góðs. Það fer öfugt ofan í almenning. Oft er því bæði gott og rétt að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Án þess að ræða við helstu andstæðinga framkvæmdanna og reyna að ná sátt í málinu áður en vinnuvélarnar tóku til starfa var ljóst að framundan væru átök við Hraunavini eins og raunin varð. Viðbrögð Garðabæjar, Vegagerðarinnar og innanríkisráðuneytisins bera vitni um að engin aðgerðaáætlun virðist hafa verið gerð til þess að mæta málflutningi og sjónarmiðum Hraunavina og samúð almennings með þeim endurspeglaðist bæði í samfélagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum.
Þetta hef ég nokkrum sinnum nefnt hér. Gott fólk hefur á undanförnum fimmtán árum staðið upp og viljað leggja sveitarfélagi eins og Garðabæ lið. Í stað þess að þakka fyrir og nýta sér hjálpina er nánast litið á þetta fólk sem hryðjuverkamenn, það talið óalandi og óferjandi. Fólk eins og Ómar Ragnarsson, Eiður Svanberg Guðnason, Gunnsteinn Ólafsson, Reynir Ingibjartsson og fleiri ...
Vér einir vitum og getum, var viðhorf bæjarstjórnar Garðabæjar. Þess vegna fór sem fór. Orðspor bæjarstjórnarinnar og Vegargerðarinnar er laskað. Saman hafa þessir aðilar valdið miklu og óafturkræfu tjóni og það fyrirgefst seint.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vodafone bregst skynsamlega við í krísuástandi
2.12.2013 | 09:41
Símafyrirtækið Vodafone hefur tekið til skynsamlegra varnarviðbragða vegna tölvuárásarinnar á netkerfið í síðustu viku. Að vísu var lítið að græða af almannatengslafulltrúa fyrirtækisins á föstudagsmorgni og fram eftir þeim degi. Ástæðan var einfaldlega sú að fyrirtækinu var ekki ljóst hver umfang glæpsins var og því auðvelt að reka talsmenn fyrirtækisins á gat.
Þetta hefur eðlilega breyst, fyrirtækið náð vopnum sínum, og það birtir í dag auglýsingu, meðal annars í Morgunblaðinu. Í henni er staða máls rakin á einfaldan og auðskilinn hátt.
Í auglýsingunni kemur fram að 79 þúsund vefskilaboðum var stolið og 75% þeirra voru almennar þjónustutilkynningar. Einu SMS skilaboðin sem geymd voru eru svokölluð vefSMS skilaboða, ekki SMS skilaboð úr símtækjum viðskiptavina. Þetta virðist vera minna en áður var óttast.
Einnig kemur fram að þeir sem áhyggjur hafa af sínum málum geta komið í sérstakt gagnaherbergi og fundið út hver persónulegi skaðinn kunni að vera.
Fyrirtækið hefur einlæglega viðurkennt mistök og hefur lagt vinnu í að lagfæra það sem tölvuþrjóturinn komst inn í kerfið. Það er til fyrirmyndar.
Frá mínum sjónarhóli er staðan einfaldlega þessi. Ekki er hægt að kenna símafyrirtækinu um vandann, ekki frekar en að innbrot sé húseiganda að kenna. Hitt er ljóst að fyrirtækið hefði átt að standa betur að öryggismálum sínum. En standa ekki allir bara nokkuð vel að sínum málum þangað til annað kemur í ljós.
Viðbrögð Vodafone í krísuástandi eru þegar öllu er á botninn hvolft til mikillar fyrirmyndar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skattar á banka eru íþyngjandi og eiga að vera það
2.12.2013 | 09:23
Bankastjórarnir kvarta yfir því að skattar séu íþyngjandi. Auðvitað hafa skattar þau áhrif, tekur því ekki að nefna það. Sama á við um viðskiptavini bankanna. Verðmæti eigna fjölmargra viðskiptavina bankanna hafa farið rýrnandi frá hruni vegna aðgerða bankanna sjálfra. Ekki flögraði að þessum stofnunum að koma nema lítilsháttar til móts við þá.
Ástæðan fyrir stöðnun í hagvexti undanfarinna ára má meðal annars rekja til bágrar stöðu almennings, atvinnuleysis og landflótta. Fólk heldur að sér höndunum við slíkar aðstæður. Fæstir vilja fjárfesta í íbúðarhúsnæði, skipta um íbúð, leggja fé í viðhald eða láta fjármagni vinna. Á þessum tíma hefur hægst um of á hringrás fjármagns í umferð og það hefur haft viðvarandi áhrif á hagkerfið og hagvöxtur hefur ekki náð sér á strik.
Hrunið kenndi okkur að það er ekki nóg að bjarga bönkunum, rukka veðlánin að fullu og ganga á eignarhlut almennings. Þjóðfélagsskipulagið gengur ekki út á annað en sanngjörn viðskipti fjármagnseiganda og skuldar.
Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að leiðrétta með handafli skekkju hrunsins sem fyrri ríkisstjórn lét illu heilli undir höfuð leggjast að gera af því að hún hafði ekki kjarkinn. Nú má búast við því að skárri tímar séu framundan en auðvitað er margt eftir eins og að útrýma verðtryggingunni og gera íbúðalán sambærileg við það sem er í nágrannalöndunum.
En guð hjálpi bönkunum um þessar mundir ef þeir ætla að láta kostnað vegna bankaskatts og endurútreikninga verðtryggðra lána bitna á viðskiptavinum sínum. Með allan sinn hagnað er þessi kostnaður hverfandi en myndi verða verulega íþyngjandi fyrir almenning.
Rýri eignarhlut ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |