Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Hjörleifur tugtar Steingrím J. til vegna ESB

Í umdeildri ályktun landsfundar í mars 2009 sagði síðan: „Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Hér kemur fram sú tvöfeldni sem fylgt hefur málflutningi VG-forustunnar alla götu síðan.

Í sjónvarpsumræðum flokksformanna kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009 þvertók Steingrímur fyrir að til greina kæmi að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að ESB. Orðrétt sagði hann við alþjóð: Það samrýmist ekki okkar stefnu og við höfum ekkert umboð til þess.“

Hálfum mánuði síðar var búið að gera aðildarumsókn að Evrópusambandinu að leiðarljósi nýrrar ríkisstjórnar og lagt að þingmönnum VG að styðja tillögu þar að lútandi.

Þetta segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður og ráðherra í grein í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögninni „Skriftamál Steingríms J og ESB-aðildarumsóknin“ og finna má að honum er þungt niðri fyrir.

ESB-umsóknin hefur legið eins og mara á óbreyttum flokksmönnum VG. Þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar flokksforystan hreyfði engum mótmælum þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar lagði fram tillögu um aðildarumsókn fyrir Alþingi og fékk meirihluta.

Almennir flokksmenn sem stóðu utan við klíku forustu VG urðu afar reiðir og síðan hefur gneistað á milli þeirra og forustunnar sem þó hefur jafnan haft betur í atkvæðagreiðslum innan flokksins. Ekki samt án fórna. Fjöldi fólks sagði sig úr VG og niðurstöður síðustu þingkosninga voru hrikalega slæmar fyrir flokkinn meðal annars vegna afstöðunnar til ESB. Og enn furða þeir sem eftir eru í flokknum sig á hlandvolgri afstöðu forustunnar til ESB.

Að baki grein Hjörleifs virðist tvennt liggja til grundvallar. Annars vegar bein svik vegna ESB-umsóknarinnar og viðhorf til ESB og svo hins vegar reiði hans og annarra vegna þess að forustan einangraði sig frá almennum flokksmönnum og lét eins og stefnuskrá flokksins skipti minna máli heldur persónulegur frami einstakra manna.

Þetta endurspeglast í eftirfarandi orðum Hjörleifs. Þau eru gríðarlega ávirðing á störf og stefnu Steingríms og hann sakar Steingrím um þekkingarleysi. Hvað er verra að segja slíkt við formann flokks og geta fært fyrir því óhrekjanleg rök (greinaskil og feitletranir í tilvitnunum eru mínar):

Svo virðist sem Steingrímur og fleiri í forystusveit VG hafi haft mjög takmarkaða þekkingu á leikreglum ESB áður en ákvörðun var tekin um að sækja um aðild.

Í aðdraganda umsóknar Íslands vísaði forysta VG t.d. ítrekað í aðildarsamning ESB og Noregs frá árinu 1994. Eftir aldamótin 2000 hafði framkvæmdastjórn ESB hins vegar breytt leikreglum, innleitt svonefnt aðlögunarferli, og útdeilir í því skyni umtalsverðum fjármunum í formi IPA-styrkja.

Þetta fé er notað í aðdraganda aðildar til að undirbúa lagaumhverfi og stjórnsýslu umsóknarlandsins og til að plægja akurinn að öðru leyti, hérlendis m.a. með rekstri sérstakrar ESB-skrifstofu. 

Steingrímur talar um „fjandans“ IPA-styrkina og segir ástæðuna „að þeir voru notaðir í andspyrnunni gegn málinu, algjörlega að ósekju að hans mati“ (s. 149).

Kærleikar eru greinilega litlir milli Hjörleifs og Steingríms en hvernig má annað vera þegar sá síðarnefndi hefur gjörbreytt stefnu VG upp á sitt eindæmi og fylgi flokksins er svo að segja í rjúkandi rúst. Lesandinn fær þá mynd af Steingrími að hann sé erfiður í umgegni, einangraður og lýðræðisást hans sé frekar í orði en á borði.

Ef til vill er Hjörleifur ekki besta heimildin um Steingrím. En hverjir yfirgáfu þingflokk VG á síðasta kjörtímabili og hvað sögðu þeir hinir sömu um formanninn og ástæður sínar? Her falder brikkerne på plads, eins og danskurinn segir.


Einn forsendubrestur leiðréttur en annar er eftir ...

Verkefnið framundan er fyrst og fremst að reisa við atvinnuvegina og slá skjaldborg um heimilin í landinu, þétta það öryggisnet sem heimilin búa við og við nauðsynlega þurfum á að halda á þessum tímum.

Hver skyldi nú hafa sagt þetta? Jú, þannig orðaði Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður, fyrirætlanir sínar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þegar hún fékk umboð til myndunar ríkisstjórnar þann 1. febrúar 2009. Þá var mynduð minnihlutastjórn þessara flokka og um vorið tók við meirihlutastjórn þeirra. 

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, rifjar upp þessi orð í frábærri grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann segir í upphafi greinarinnar:

Leiðtogar Samfylkingar og Vinstri grænna eiga erfitt. Þeir virðast sætta sig illa við að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynni róttækar aðgerðir í skuldamálum heimilanna, aðeins sex mánuðum eftir að hafa tekið við stjórnartaumunum af vinstri stjórn sem kenndi sig við norræna velferð og skjaldborg.

Skuldamál heimilanna þvældust fyrir vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í meira en fjögur ár. Í upphafi var því heitið að gripið yrði til róttækra aðgerða til að aðstoða skuldug heimili - að slegin yrði um þau skjaldborg.

Þetta er rétt hjá Óla Birni. Stjórnarandstaðan virðist hafa misst fótanna og geti einfaldlega ekki staðið upp aftur. Efndir á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar virðist hafa komið þeim gjörsamlega á óvart og þjóðin fagnar eins og glögglega má sjá af skoðanakönnun sem birt er í Morgunblaðinu í dag. 

Þjóðin man þessi digurbarkalegu orð um skjaldborgina. Þau eru víti til varnaðar, dæmi um ríkisstjórn sem fer af stað með góðar fyrirætlanir en allt fer í handaskolum. Óli Björn orðar það þannig:

Ekki skal efast um góðan ásetning vinstri stjórnarinnar. En líkt og oft áður féllu vinstri menn í gryfju skrifræðis og skattahækkana. Í stað markvissra almennra lausna var gripið til sértækra aðgerða, með tilheyrandi biðröðum, endalausum flækjum í regluverki og pappírsfargani. Vandi heimilanna var aukinn enn frekar með hærri sköttum og opinberum gjöldum. 

Óli Björn minnir á að fátt af því sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að gera komst til framkvæmda heldur var það Hæstiréttur sem færði almenningi mestar leiðréttingar. En Óli Björn er raunsær maður og þess vegna segir hann í grein sinni og þetta hljóta allir hugsandi menn að samþykkja, hvar í flokki sem þeir standa (greinaskil og feitletranir eru á mína ábyrgð):

Róttækar tillögur ríkisstjórnarinnar um að rétta við hlut heimilanna eru aðeins hluti af þeim verkefnum sem bíða. Með þeim er verið að leiðrétta það sem kallað er forsendubrestur vegna falls krónunnar og mikillar verðbólgu.

En þá er eftir að leiðrétta annan forsendubrest sem er síst minni: Gríðarlega hækkun skatta, minni atvinnu og lægri laun.

Slíkur forsendubrestur verður ekki leiðréttur nema með því að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, auka fjárfestingu og lækka skatta og opinber gjöld

 


Foreldrar þurfa að læra að aga börnin

Nú geri ég ekki athugasemd við það að kennarar eigi skilið að fá hærra kaup og ekki dreg ég í efa að þeir séu almennt stórmerkilegir í alla staði, sannkallað salt jarðar. Ég set aftur á móti fyrirvara við þá staðhæfingu að samasemmerki sé á milli þess fjár sem varið er til menntunar og árangurs nemenda og lít þá til þess að lítið samhengi virðist á milli þess hlutfalls af þjóðarframleiðslu sem varið er til menntunar og árangurs á PISA-prófum, hvort sem litið er til Íslands eða annarra landa. 

Undanfarin ár og áratugi hefur stéttarfélag kennara barist ötullega fyrir því að kennarar gjaldi ekki getuleysis síns. Það er trúa mín að beiti samtökin sér fyrir því að félagsmenn njóti getu sinnar og taki þátt í endurskipulagningu menntakerfisins muni takast að bæta menntun á Íslandi, en ekki fyrr en þá.

Árni Matthíasson, blaðamaður Morgunblaðsins, kemur þarna að kjarna málsins, en tilvitnunin er úr Pistli dagsins í blaðinu. Undir þessi orð tek ég fyllilega.

Staðreyndin er einfaldlega sú að ábyrgð kennara er mikil, nærri því jöfn á við foreldra. Hvað varðar þá síðarnefndu er ljóst að ekki fylgir alltaf nægur agi í uppeldi barna hvað varðar skólann. Skólinn keppur um athygli nemenda við íþróttir, (sem eru skemmtilegar) tónlist (sem er skemmtileg), tölvuleiki (sem eru skemmtilegir) og margt fleira. Undanhald skólans (sem oft er ekki skemmtilegur) þýðir einfaldlega lakari menntun.

Alvarlegast er það viðhorf margra barna og unglinga að fjölmargt í námsefninu skipti engu mál þegar til framtíðar er litið. Hvað veit barnið eða unglingurinn? Sáralítið í raun og veru. Danska skiptir máli eins og raunar öll tungumál sem kennd eru í skólum, stærðfræðin líka og einnig mannkynssagan og náttúrufræðin svo eitthvað sé nefnt. Þetta vita börn og unglingar ekki fyrr en löngu síðar er menntunin tekur á sig form í huga fólks.

Við þurfum að kenna börnum aga en framar öllu þurfa foreldrar að aga sig. Ef þeir geta ekki haldið börnum sínum að bókinni, kennt þeim iðni og ástundun eru þeir einfaldlega óhæfir.

 
 

Stjórnarandstaðan grautfúl á móti, nema Ögmundur!

Stjórnarandstæðingurinn Ögmundur Jónasson sýnir á sér sparihliðina og er bara jákvæður vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna skuldamála heimilanna. Hann orðar þetta á svipaðan hátt og fleiri sem gagnrýnt hafa stjórnvöld frá hruni fyrir aðgerðarleysi í þessum málum.

Eiginlega hélt ég að hann myndi hafa allt á hornum sér út af þessu. Á sama hátt bjóst maður við því að Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, myndi vera jákvæður vegna skuldaaðgerðanna. Hann virðist hafa verið svo málefnalegur upp á síðkastið. En þar fór í verra. Guðmundur var lokaði augunum og stimplaði sig í stjórnarandstöðuna svo eftir er tekið.

Miðað við orð Guðmundar, Steingríms J. Sigfússonar, Katrínar Jakobsdóttur og Árna Páls Árnason virðast þetta ágæta fólk hafa búist við allt öðru. Búið sig undir flóknari útfærslur fyrir heimilin.

Aumingja seðlabankastjórinn þjófstartaði illilega í síðustu viku. Hann ætlaði aldeilis að byrgja einhvern brunn áður en ríkisstjórnin félli ofan í hann, hélt líklega að hún ætlaði að beita Seðlabankanum fyrir sig í lausnum á skuldavandanum. Hann vissi ekkert, giskaði út í bláinn.

Ögmundur Jónasson er jákvæður vegna aðgerðanna en hinir stjórnarandstæðingarnir og seðlabankastjórinn eru enn að hugsa málið en hafa gefið það eitt út að þeir eru á móti, grautfúlir á mót. 


mbl.is Ögmundur ánægður með aðgerðirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfkveðnar vísur Þrastar Ólafssonar um ESB aðildina

Með tilkomu nýrrar íslenskrar ríkisstjórnar var umsóknarferli að ESB, einnig hér, slegið snarlega útaf borðinu, án þess að vitað væri um nokkurn verulegan ágreining í viðræðunum. [...]

Hermisvar stjórnarliða er að aðild þjóni ekki hagsmunum landsins. Engin frekari rök, sama hvar maður leitar. Ljóst var, af því sem lekið hefur út, að margt benti til þess að við fengjum þar viðunandi lausnir bæði varðandi landbúnað og sjávarútveg.

Ástæða ákvörðunar nýrrar ríkisstjórnar um slit á viðræðum hlýtur því að leynast í pólitískri hagsmunagæslu stjórnarflokkanna. Skyldu þeir vera að vernda innanlands tök þeirra, sem ráða yfir auðlindum landsins?

Þröstur Ólafsson, hagfræðingur, ritar í Morgunblaðið í morgun grein um umsóknaraðild Íslands að ESB. Til að gera málflutning sinn sennilegan ber hann saman stöðu Úkraínu Íslands og tiltekur ýmislegt sem hann segir líkindi með þessum tveimur löndum. Tilvitnunin er úr þessari grein (greinaskil eru mín).

Vandamálið með röksemdafærslu Þrastar er eins og með marga aðra vinstri menn sem dásama aðildina að ESB er að hún er síst af öllu traust. Þegar gyllingum sleppir hrekkur hann í þann gamalkunnugan gír að vera með hálfkveðnar vísur og aðdróttanir eins og glögglega kemur fram kemur í þriðju málsgreininni.

Þröstur staðhæfir að lausnir hafi verið í sjónmáli viðræðum um landbúnaða og sjávarútvega, en fyrir því er hins vegar enginn fótur né heldur að enginn ágreiningur hafi verið í viðræðunum við ESB.

„Margt bendir til ...“ segir Þröstur en tilgreinir ekkert sem bendir til að „viðunandi lausnir“ hefðu boðist í landbúnaði og sjávarútvegi.

Af hverju nefnir hann ekki eitthvað af þessu mörgu? Ástæðan er einföld. Þröstur skrökvar enda höfðu viðræður um landbúnað og sjávarútveg ekki hafist og þokkabót er ljóst er að gríðarlega mikið ber í milli. Við þurfum ekki annað en að líta á deilurnar um makrílinn þar sem þjóðinni er hótað viðskiptaþvingunum fari hún ekki að boðvaldi ESB. 

Síðan þegar rökin þrjóta endanlega þarf Þröstur að koma með gamalkunnuglega tuggu um „pólitíska hagsmunagæslu“ og meint „tök þeirra, sem ráða yfir auðlindum landsins“.

Ferlega er þetta aumlegt hjá Þresti Ólafssyni. Þegar upp er staðið stendur ekki steinn yfir steini hjá honum. Ekki einu sinni samlíking Íslands og Úkraínu stenst ekki athugun. Aðstæður eru allt aðrar í því ágæta landi. Fólk hefur þar kynslóðum saman verið þrúgað og kæft af sósíalisma og sér ljósið í því eina að sameinast Evrópu. Það þarf lygilega mikinn sannfæringakraft að halda því fram að aðstæður þessara tveggja landa séu líkar og þann kraft hefur Þröstur ekki.

Jafnvel þó skoðanakannanir hafi alla tíð sýnt að mikill meirihluti landsmanna er á móti aðild taka aðildarsinnar ekkert mark á því og gera að því skóna að afturköllun aðildarumsóknar sé vegna „hagsmunagæslu“ þeirra „... sem ráða yfir auðlindum landsins“.

Heldur einhver að hálfkveðnar vísur séu boðlegar sem rök fyrir ESB aðild?


Man enginn eftir að láta Ríkisútvarpið vita ...?

Ríkisútvarpið er liður í öryggiskerfi landsins. Það tekur í öllum tilvikum mið af því sem til þess bær yfirvöld, lögregla, almannavarnir og aðrir slíkir, láta vita af vá eða öðru sem varðar almannahagsmuni. Við tökum það ekki upp hjá sjálfum okkur að vara fólk við, sé það ekki staðfest eða til þess bær yfirvöld fara ekki fram á það.

Þetta segir Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins í viðtali við mbl.is í morgun. Er það virkilega svo að enn sé Ríkisútvarpið „hluti af öryggiskerfi landsins“, eins og fréttastjórinn orðar það og enginn.

Og Óðinn er greinilega ekki sáttur því hann segir:

Morgunblaðið skúbbaði þarna, en enginn lét okkur vita, hvorki íbúi né til þess bær yfirvöld. 

Man enginn eftir fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar vandi steðjar að almenningi? Maður, maður ... á bara ekkert orð yfir tillitsleysi almennings. 

Það skyldi þó ekki vera að þetta með öryggishlutverk Ríkisútvarpsins sé einfaldlega úrelt þing þegar aðrir fjölmiðlar geta auðveldlega gert betur og það af sínu eigin frumkvæði.


mbl.is Lögreglan lét fjölmiðla ekki vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá höfðu kennarar alltaf rétt fyrir sér, þeirra var valdið

Fyrir nokkru settist ég niður og reyndi að rifja upp eitthvað gagnlegt úr æsku minni, eitthvað frá þeim árum er ég var níu til tólf ára og var við nám í Hlíðaskóla í Reykjavík. Fátt dregst upp úr minningaskjóðunni við fyrstu tilraun. Fleira bætist við þegar maður einbeitir sér. Og þegar maður hittir gamla bekkjarfélaga þeir leggja í púkkið og umræðan kemst á flug, fjölgar minningum sem varpa einhverju ljósi á ár sem varla er nokkur tilgangur að rifja upp.
 
Má vera að þetta sé ofmælt. Vissulega felst tilgangur í að muna lífshlaupið. Við nánari umhugsun ætti ég að geta glaðst yfir svo ákaflega mörgu sem ég lærði á þessum árum, bæði á bókina ekki síður en á lífið sjálft. Þarna í Hlíðarskóla sat maður sex daga vikunnar frá októberbyrjun til fyrstu daga í maí ár hvert, í blíðu og stríðu. Skal nú sagt ýmislegt af hvoru tveggja, blíðunni og stríðunni.
 
Umsjónarkennarinn
Hann hét Jón Sigurðsson sem kenndi okkur fyrstu þrjú árin sem ég var í Hlíðaskóla. Jón hafði verið skólastjóri í Laugarnesskóla í mestallan sinn tíma sem kennari, í þrjátíu ár eða til ársins 1965. Hann var fæddur árið 1895 og hefur því hætt sem skólastjóri vegna aldurs, var orðinn sjötugur. Þá verður hann kennari í Hlíðaskóla og kennir okkur frá 1966 til 1968. Ég get mér til um að á þessum árum hafi verið skortur á kennurum og því hafi hann verið dreginn í áframhaldandi kennslu þótt hann hefði átt að vera hættur.
 
Jón var víst merkilegur maður fyrir starf sitt sem skólastjóri. Eldra fólk man eftir honum og ber honum vel söguna og sem skólastjóri var hann þekktur fyrir frábært starf. Minningar mínar um Jón Sigurðsson eru blendnar. Hann virkaði svo sem ekkert gamall í mínum augum aðeins skapstyggur og andfúll. Hvort tveggja er bagalegt fyrir kennara. 
 
Ég man eftir því að hann lagði mikla áherslu á að börn gætu tjáð sig í mæltu máli. Hann fann upp á einhvers konar ræðuhöldum sem hann nefndi „kynningar“. Við áttum þá að koma upp að töflu og flytja stuttan fyrirlestur. Máttum hafa stikkorð á litlu blaði í lófanum. Þetta var auðvitað lofsvert en mig minnir að undirbúningurinn hafi fyrst og fremst snúist um að koma nógu miklu fyrir á ofboðslega litlum miða. Ég er þó ekki frá því að ég hafi haft talsvert gagn af þessum tímum.
 
Ritgerðin
Ef til vill gekk allt vel í samskiptum okkar Jóns. Minnið er samt ótrúlegt og því eiginlega man ég ekki eftir mörgu jákvæðu, frekar hinu. Eitt af því var ritgerðin sem ég lagði ótrúlega mikið á mig að skrifa. Jón hafði lagt fyrir okkur að skrifa um eftirminnilega bíómynd. Nokkru áður hafði ég víst séð einhverja Disney teiknimynd og undir áhrifum hennar skrifaði ég heil ósköp á laugardagskvöldi í alltumlykjandi faðmi fjölskyldunnar. Af og til bar ég skrifin undir hann pabba minn sem leist bara vel á áhuga stráksa og hvatti hann endalaust eins og hann átti vanda til. Undir áhrifum og hvatningu frá pabba skrifaði ég næstum endalaust en hann gagnrýndi eignlega ekkert enda hefur hann verið stórhrifinn af námsáhuga sonarins. Á mánudeginum skilaði ég svo stoltur langri ritgerð.
 
Nú leið og beið og loks fengum við ritgerðirnar til baka. Umsögn Jóns olli mér gríðarlegum vonbrigðum. Mig minnir að hann hafi skrifa með rauðum penna í ritgerðarbókina að ritgerðin væri tómt bull og vitleysa. 
 
Skömmustulegur og niðurlægður sýndi ég pabba bókina. Hann var ekki sáttur og sagði að ég ætti bara að taka mig á og gera betur næst. Svo var málið búið.
 
Nokkrum dögum síðar gerist það mér til mikillar undrunar að að ég fæ aðra umsögn og miklu betri fyrir ritgerðina, að vísu ekki góða en betri. Meira þurfti ekki fyrir litla og brothætt sál til að gleðjast og sjálfstraustið lagaðist eitthvað.
 
Pabbi reiðist
Ekki hafði ég grænan grun um hvað gerðist fyrr en mörgu, mörgum árum síðar, löngu eftir að pabbi dó. Atvikið hafði alla tíð setið í mér og einhverju sinni bryddaði ég upp á því við mömmu. Mér til mikillar undrunar vissi hún svo sannarlega af því og hún gat bætti við atburðarás sem mér hafði verið ókunnug.
 
Í stuttu máli hafði pabbi orðið svo reiður yfir umsögninni sem ég fékk að mamma hafði sjaldan séð hann skipta svona skapi vegna hluta sem sannarlega ekki voru mér að kenna (sem gerðist ekki oft).
 
Næsta dag hafði pabbi strunsað rakleiðis upp í Hlíðaskóla og bankaði upp hjá Magnúsi skólastjóra og sagði farir sonar síns alls ekki sléttar. Raunar hundskammaði hann skólastjórann. Hann sagði það síst af öllu uppbyggilegt fyrir níu ára dreng að fá svona útreið frá kennara sínum og sá maður ætti raunar ætti að vita miklu betur en að koma svona fram við nemanda sinn. Var það kannski ekki aðalatriðið að fá börnin til að skrifa? Skipti eitthvað annað máli en að þau tjáðu sig? Var ekki stíll, stafsetning og framsetning eitthvað sem síðar væri hægt að taka á? Var það markmið kennarans að drepa niður allan áhuga drensins til að tjá sig?
 
Auðvitað var þetta rétt hjá föður mínum. Hann var ekki menntamaður en vissi auðvitað sínu viti og hafði mikla reynslu af barnauppeldi enda átti hann og móðir mín áttu níu börn. Að þessu leyti átti Jón Sigurðsson ekki séns í Sigurð Skúlason þó svo að sá fyrrnefndi hefði þrjátíu ára reynslu af kennslu.
 
Tómt rugl í manninum
Níu ára barn er viðkvæmt um það er ekki deilt nú á tímum. Nú furða ég mig á því að þrautreyndur kennari og skólastjóri til skuli hafa gert sig sekan um þau mistök að gera lítið úr nemanda sínum vegna ritgerðar. Hvar var nú öll reynsla mannsins? Hvar var nú allt þetta sem samferðamenn hans lofuðu í fari skólamannsins og þökkuðu honum fyrir? Var kallinn bara gamall og þreyttur, áhugalaus um nemendur sína?
 
Einkunnagjöfin breytti litlu um álit mitt á Jóni. Hann var fullorðinn maður, ég var lítill strákur sem trúði að kennarinn hafi alltaf rétt fyrir sér. Litli strákurinn var bara lélegur í ritgerð og kennarinn sagði það.
 
Eitthvað hefur þó Jón gert rétt í kennslu sinni því hann náði ekki að drepa áhuga minn á ritgerðarsmíði.
 
Stafsetning var þó vandamál í mörg ár eftir þetta og hún dró mig alltaf niður í einkunn, alveg fram yfir stúdentspróf. Einhverjum fræðingnum hafði flogið það í hug að stafsetning og ritgerð ættu að vera eitt og óaðskiljanlegt fag. Það var eins og að fullyrða að blanda mætti saman olíu og vatni og fá út ávaxtasafa. Léleg stafsetning getur aldrei eyðilegt góða ritgerð og lélegt ritgerð verður ekkert betri þótt hún sé rétt stafsett. En auðvitað vissi ég þetta ekki á þessum árum og því urðu ritgerðareinkunnirnar alltaf frekar slappar hjá mér. Efni og stíll leið fyrir of- eða vannotkun á ennum, ypsílonum og svo framvegis.
 
Andremman 
Hann Jón Sigurðsson beygði sig iðulega niður til að tala við mann, leiðbeina eða segja eitthvað. Þegar svona aðgerð var yfirvofandi dró maður djúpt andann og gætti þess að halda honum niðri þangað til maðurinn hvarf frá. Tækist það ekki varð refsingin þeim mun verri, þá fannst andremman ógurlega. Þetta man ég hvað best. 
 
Löðrungur
Aðrir bekkjarfélagar muna eftir því að Jón gat reiðst illilega. Honum var stundum höndin laus og að minnsta kosti einu sinni rak hann einni bekkjarsystur minni rokna löðrun. Ekki man ég eftir atvikinu en hún segist hafa staðið upp og farið út úr stofunni og út úr skólanum og heim. Önnur bekkjasystir mín sagðist hafa fyrir misskilning verið að því komin að fá löðrung en Jón náði að stilla sig.
 
Tungan
Ekki fór á milli mála að maður uppgötvaði hitt og þetta í fari manns sem alla daga var yfir manni, frá mánudegi til laugardags, því auðvitað var kennt á laugardögum á þessum árum.
 
Jón gat vissulega reiðst. Nú man ég svo sannarlega eftir því að þegar það gerðist og hann þurfti að tukta okkur til þá rak hann tunguna út um annað munnvikið. Þetta var auðvitað sprenghlægilegt en ekki man ég eftir því að það hafi verið broslegt þegar á glitti í broddinn.
 
Skrift
F-bekkurinn í Hlíðarskóla var alls ekki neinn tossabekkur. Í honum voru auðvitað ólíkir einstaklingar en öll vorum við tiltölulega prúð og kurteis þó svo að við strákarnir gætum verið strákslegir eins og gerist og gengur. Stelpurnar voru hinsvegar með afbrigðum fínar fannst mér. Þær fengu miklu betri einkunnir en flestir strákanna og svo skrifuðu þær svo afar vel.
 
Mér gekk illa að skrifa vel, fannst alltaf skriftin mín slæm. Þegar ég skoða nú það sem ég skrifaði þá sýnist mér það nú vera eitthvað misminni hjá mér. Skriftin var bara ágæt, ólíkt því sem hún er núna á tölvuöld er fæstir kunna að halda á penna, svona bókstaflega séð.
 
Engu að síður reyndi ég allt hvað tók til að skrifa betur. Hallaði skriftinni til hægri, hafði hana upprétta og einu sinni náði ég tökum á því að halla henni til vinstri. Það gekk aldeilis vel þangað til hann Jón Sigurðsson komst í bækurnar mínar. Þá fyrst hvessti af útsuðri og ég fékk yfir mig gusu af skömmum. Svo ístöðulítill sem maður var á þessum árum var auðvelt að sannfæra mann um að til vinstri mætti ekki halla skriftinni. Alla tíð síðan hef ég verið hægri sinnaður í stjórnmálum en veit ekki hvort það komi þessu máli eitthvað við.
 
Kanntu ekki að tala?
Ég man eftir skemmtilegum frímínútum þegar ég var ellefu ára sem snérust upp í andstæður sínar eftir óþörf og andstyggileg ummæli kennara.
 
„Mér langar …,“ hafði ég víst sagt við Ragnheiði Benediktsson, kennara. Ekkert þekkti ég konuna þó en man svo glöggt eftir atburðinum því Ragnheiður átti eftir að verða umsjónarkennari okkar árið eftir. 
 
„Hvernig er þetta með þig, strákur, kanntu ekki að tala?“ hreytti hún út úr sér en skýrði mál sitt ekkert nánar heldur beindi orðum sínum að einhverjum fínum stúlkum sem gengu virðulega með henni. „Hann kann ekki íslensku …“ sagði hún og þær hlógu og strolluðum í burtu frá orðlausum stráknum.
 
Ég botnaði auðvitað ekkert í viðbrögðunum enda hafði ég aldrei heyrt talað um „þágufallssýki“. Hélt bara að ég hefði talað hreina íslensku en ekki eins og hann Gúndi sem settist í bekk hjá okkur eftir að hafa verið í mörg ár í amríkunni og talaði með skrýtnum hreim eins og leikararnir í kanasjónvarpinu.
 
Ragnheiður varð síðan umsjónarkennarinn í F bekknum árið eftir. Hún var röggsamur kennari minnir mig og hef ég eiginlega engar sérstakar minningar frá tólf ára bekknum. Þær eru miklu fleiri frá árunum á undan.
 
Jarðskjálftinn
Svo gerðist það einhvern tímann á vormánuðum 1968 að allt skalf og hristist. Stór jarðskjálfti reið yfir höfuðborgarsvæðið rétt eftir stóru frímínúturnar. Skrýtið hvað maður man eftir svona atburði. Ég man þó fátt eftir öðru en að rúðurnar í gluggunum svignuðu fram og til baka og þungar drunur fylltu eyrun.
 
Bekkjarsystkinin segja frá því að sumir hafi rokið á fætur, hlaupið til og jafnvel hrópað. Tíu sekúndur liðu, held ég, en eftirköstin urðu ekki mikil, alla vega ekki hvað mig varðar. Held raunar að skjálftinn hafi ekki haft varanleg áhrif á sálarlíf okkar F bekkinga
 
Hættu að syngja!
Stundum var sungið í Hlíðaskóla „Í skólanum, í skólanum er leiðinlegt að vera … “. Einhvern veginn hljómaði svona upphafið að útúrsnúningi á vinsælum skólasöng. Leiðir nú það að söngtímunum sem mig minnir að hafi verið vikulegir. Eiginlega fannst mér alltaf vera söngtímar og leiddist þeir alveg óskaplega vegna þess að ég fann að Guðrún söngkennari hafði ekki mikið álit á tossum eins og mér sem ekki kunnu að syngja eða gátu skrifað nótur. Síst af öllu var ég þó tossi í öðru námi.
 
Við áttum að skrifa nótur. Samt mundi ég ekki til þess að ég hafi nokkurn tímann lært neitt um nótur. Guðrún talaði iðulega um einhverja „lötunótu“. Hvað í ósköpunum var nú það? Ég vissi ekkert hvað það var enda ekki kominn sá tími að Lada væri flutt inn til landsins og þó svo hefði verið … 
 
Einhvern tímann gerðist ég afar hreinskilinn og sagði kennaranum að ég vissi bara ekkert um nótur og hefði áreiðanlega aldrei lært neitt um þvílíkt. Guðrún kom þá til mín, hallaði sér yfir borðið og skrifaði nótur á blaðið. Sko, þetta er þessi nóta og þetta er næsta nóta og svo þriðja nótan … Skilurðu nú þetta, minnir mig að hún hafi sagt eftir örstutta yfirferð og líklegast bætt því við að allt svona væri nú frekar auðvelt. Og aulinn ég þorði ekki annað en að samsinna henni. Ekki vildi ég að hún fengi enn minna álit á mér.
 
Sumar stelpurnar í bekknum kunnu samt nótur og oftar en ekki voru þær svo elskulegar að láta svörin ganga í prófum á rauntíma og líklega hefur það verið ástæðan fyrir því að ég „fullnumaðist“ í söng, lauk prófi. Hins vegar kunni ég að synda en hefði þekking mín á þeirri íþrótt verið svipuð og í söng hefði ég einfaldlega drukknað.
 
Ekki þú syngja
Ég held það hafi verið hann Helgi vinur minn Ásmundsson sem plataði mig með sér á kóræfingu. Við vorum miklir vinir, við Helgi, höfðum verið saman í Vatnaskógi og allt … Kannski var það á þessari kóræfingu, í miðjum söng, er Guðrún rétti upp hendurnar í miðjum söng og allir þögnuðu. 
 
„Sigurður,“ mælti hún, svo ósköp elskulega, og horfði niður til mín og ég horfði á móti upp til hennar, því ég sat af óútskýranlegum ástæðum á fremsta bekk. 
 
„Sigurður, ekki syngja með, þú truflar hin börnin … og svo byrjum við aftur …“ Guðrún stjórnaði síðan með glæsibrag en ég sat þögull þangað til söngtíminn var búinn, en mikið ansi var hann langur. 
 
Eiginlega fattaði ég ekki fyrr en nokkru síðar hvað Gudda meinti með því að ég truflaði hin börnin. Mér til hryllings rann upp fyrir mér að ég væri einfaldlega laglaus og með ófagra rödd. Ástæðan fyrir fattleysi mínu hefur líklega verið sú að Guðrúnu hafði nokkru áður verið tíðrætt um að enginn væri laglaus, allir gætu sungið og hún gat nefnt nokkra eftirlætisnemendur sína sem voru áður gjörsamlega falskir, laglausir og með vonlausa rödd en brutust undir handleiðslu hennar til metorða í söngheiminum. Nöfnunum er ég fyrir löngu búinn að týna og gleyma. 
 
Endalokin á undan upphafinu
Söngferli mínum lauk þannig löngu áður en hann hófst. Og ekkert söng ég næstu árin, hreyfði bara varirnar þegar ég fermdist, og hef eiginlega aldrei sungið neitt, ekki einu sinni í baði. Þess dags bíð ég þó með eftirvæntingu að andi Guddu gól eða þá einhver önnur kelling sem leysir hana af þarna hinumegin, komi og segi: „Jæja, Sigurður, nú skalt þú syngja!“ 
 
Enn hefur ekkert gerst … jú, einu sinni dreymdi mig að ég stæði að tjaldabaki í leikhúsi einu stóru, og á sviðinu söng ótrúlegt hæfileikafólk. Þá kom kona að mér og sagði, Sigurður, nú er röðin komin að þér, og hún ýtti mér út á sviðið … við það vaknaði ég. Að sjálfsögðu kann þarna að hafa verið hún Gudda okkar og minn tími hafi eiginlega verið kominn. Hik mitt á að fara inn á sviðið skýrist líklega frekar af því að ég er dags daglega hlédrægur maður frekar en ég hafi í draumnum ekki talið mig vera tilbúinn til söngs. Svo er það annað mál hvað svona draumur merkti. Móðir mín heitin kenndi mér að allir torræðir draumar kunni að vera fyrir snjóavetri …
 
Eftir að ég komst á fullorðinsár syng ég frekar lítið en ljúfur er sá söngur, verð ég að segja. Hitt er annað og óskiljanlegra að fæstir biðja mig um að endurtaka söng. Annar sonur minn sagði þegar hann var rétt búinn að fá málið: „Pabbi, ekki syngja.“ Sama sagði dóttir hans ekki alls fyrir löngu. Ég hefði kannski betur átt að taka eftir í söngtímunum.
 
Gudda gól var ekki vinsæl. Bekkjarsystkini mín fullyrða að hún hafa hvað eftir annað misst tökin á bekkjunum sem hún kenndi, okkar ekki síður en öðrum og farið að gráta – hún grét víst í öllum tímum enda listamaður. Hún bjó í Drápuhlíð og mátti iðulega búa við það oft á góðum snjóavetri að krakkar á leið úr skólanum stöldruðu við og köstuðu snjóboltum inn um gluggana hjá henni. Já, einelti á þessum árum var vissulega til staðar og jafnvel gegn kennurum.
 
Harðstjórinn
Agi var í Hlíðaskóla. Nemendur áttu að gæta sín og haga sér vel. Sá sem hagar sér illa var sendur til skólastjórans og nafn hans ritað í „svörtu bókina“. Engin refsing var eins slæm eins og að fá nafnið sitt ritað í þá alræmdu bók. Líklega var lífi þeirra sem þar fengu nafn sitt ritað einfaldlega lokið. Kannski er þetta eins og að fá nafn sitt nú á dögum á vanskilaskrá … nei, örugglega miklu verra.
 
Leikfimistíma sóttu nemendur í Valsheimilið á Hlíðarenda enda var ekkert íþróttahús við skólann. Þar ríkti hann Þórarinn leikfimikennari og þegar ég brúka orði „ríkti“ á ég við að hann var sem versti einræðisherra með öllu því sem fylgir. Hann var ungur maður líklega nýkominn úr námi held ég. Maðurinn var einstaklega strangur og vondur að mati flestra. Með aðstoð gömlu bekkjarsystkinanna rifjaðist upp að hann lét okkur strákana hlaupa hring eftir hring í upphafi hvers tíma. Oft stóð hann í miðjunni og stjórnaði eins og herforingi. Stundum átti hann það til að hverfa í burtu en skarinn hljóp hring eftir hring, dauðskelfdur, þorði ekki fyrir sitt litla líf að hægja á ferðinni hvað þá að hætta að hlaupa. Á meðan sat Þórarinn frammi á skrifstofu sinni og og talaði í símann og átti það jafnvel til að gleyma sér við þá iðju. Hann gat einnig haft öðrum hnöppum að hneppa í lok tíma og leyft fótbolta. Það var vel þegið og lagaði aðeins stöðu hans sem harðstjóra.
 
Refsingar Þorarins voru hræðilegar. Meiri hlaup, enginn fótbolti og hann átti eftir að ofbjóða nemendum sínum í orði og látæði. Hann greip oft í eyrun á þeim strákum sem gerðu eitthvað rangt og togaði lóðrétt. Margir fullyrða að ýmsir hafi lyfst frá jörðu. Það hlaut að hafa verið sársaukafullt.
 
Vinstri gakk …
Einn drengur var svo óheppinn að vera ekki alveg klár á vinstri og hægri fæti. Í þokkabót hét hann Árni og var þar af leiðandi var hann fremstur í röðinni á gólfinu. 
 
„… og áfram gakk, vinstri, hægri, vinstri hægri,“ hrópaði Þórarinn, en greyið Árni gekk hægri, vinstri, hægri vinstri og öll röðin riðlaðist aftur að essinu mínu og aftar. Þannig gekk þetta tíma eftir tíma og Þórarinn kippti í eyrun á strák greyinu og viðhafði ýmsar niðurlægjandi athugasemdirnar og óánægjuhljóð. Við hinir þögðum, þorðum ekki einu sinni að hlæja því allir gátum við verið næstir. Svona lagað voru bara náttúruhamfarir og hver passaði sjálfan sig. Nógu erfitt var að fá athugasemdir frá Þórarni vegna brúnna bletta á hvítum stuttbuxunum.
 
Ég kynntist Þórarni örlítið síðar á lífsleiðinni, - og uppgötvaði þá að hann hafði ekkert breyst. Var þá eins og áður frekar leiðinlegur karakter og sjálfumglaður. Hins vegar var ég ekki lengur hræddur við hann. Það var léttir.
 
Til skólastjórans
Dag einn stóðum við nokkrir fyrir utan íþróttahúsið og biðum þess að okkur væri hleypt inn. Fundum við á meðan upp á þeirri afþreyingu að reyna að kasta grjóti sem lengst upp á bárujárnsklætt þakið og helst drífa yfir. Man ekki hvernig staðan var í keppninni en allsnögglega endaði hún á því að Þórarinn kom hlaupandi út á stuttbuxunum, froðufellandi af bræði, argandi með miklu handapati. Að minnsta kosti er atburðurinn þannig í minningunni
 
„Varst þú að kasta grjóti upp á þak“, öskraði hann á mig. Líklega hef ég staðið næstur dyrunum og því hentugastur til fórna. Hinir hörfuðu taktfast í góða fjarlægð. Kjökrandi viðurkenndi ég sök mína. Kallinn tugtaði mig eitthvað til, kannski togaði hann í eyrun á mér. Loks sagði hann mér síðan að hunskast til skólastjórans og láta hann vita um glæp minn.
 
Ekkert varð úr íþróttatíma í þetta sinn. Ég rölti einn upp í Hlíðaskóla enda hafði Þórarinn ekki fyrir því að kanna hvort fleiri hefðu kastað grjóti. Hann var rannsakandi og dómari og dreif allt saman af á örskammri stundu. Drífandi maður hann.
 
Sjálfsálitið var ekki mikið þegar ég bankaði upp á hjá Magnúsi skólastjóra. Hann tók mér samt vel, bauð mér sæti og tók svo til við að draga söguna upp úr mér. Hægt og rólega spurði hann og lét mig svara, greip aldrei frammí fyrir mér. Svo þagði hann, fletti blöðum á borðinu og sagði að það hefði nú ekki verið gott að fá grjótið upp á þakið. Það glymdi líklega í íþróttasalnum. Það hafði mér ekki dottið í hug og ég dreg í efa að bekkjarbræður mínir hafi hugað út í þá sálma.
 
Þarna þögðum við dálitla stund, ég og Magnús. Mér fannst ég róast mikið og var ekki lengur hræddur við skólastjórann, en beið þess að hann skrifaði mig upp í „svörtu bókina“.
 
„Jæja, Sigurður minn,“ sagði Jón loks. „Það tekur því ekki héðan af fyrir þig að fara í leikfimi, farðu bara heim og svo passarðu þig á því að gera þetta ekki aftur.“ Ég stóð upp aldeilis forviða. „Ætlaru ekki að skrifa mig niður …?“ spurði ég hikandi, „… í svörtu bókina …“ 
 
„Svörtu bókina?,“ hváði Jón. „Hér er engin svört bók og ekki þarf ég að skrifa þig neitt niður. Ég þekki þig núna og veit að þú er ekkert slæmur strákur.“
 
Daginn eftir spurðu strákarnir mig hvað skólastjórinn hefði gert við mig. „Rasskellti hann þig, sló hann á puttana, lét hann þig standa út í horni, lét hann þig sitja úti í horni, var hann ekki ofboðslega reiður, af hverju rak hann þig ekki úr skóla, skrifaði hann þig í „svörtu bókina“.
 
Þarna komst ég að því að að var engin svört bók sem óþægu börnin voru skrifuð upp í. Og það var ekkert slæmt að fara til skólastjórans. Hann var barasta ágætis kall. Þetta voru vissulega tímamót en sú staðreynd að „svarta bókin“ var ekki til breytti engu um hegðun mína. Hún var alltaf svipuð, ég var frekar rólegt barn. Hins vegar flögraði ekki að mér að kvarta undan Þórarni, að hann legði hendur á strákanna, píndi þá í íþróttatímum og væri almennt leiðinlegur náungi ...
 
Nei, það tíðkaðist ekki á þessum árum að kvarta undan kennara, þeir höfðu alltaf rétt fyrir sér og máttu eiginlega gera hvað sem er.






Löskuð ímynd og skertur trúverðugleiki

Um árabil var vitað að nýr Álftanesvegur í gegnum Gálgahraun/Garðahraun í Garðabæ yrði afar umdeildur. Skoðanakönnun MMR leiddi í ljós að 25,1% landamanna var hlynnt veglagningunni en 42,2% voru andsnúin framkvæmdinni. Þetta mikil andstaða við framkvæmdina undirstrikar mikilvægi vandaðra vinnubragða. Að knýja mál áfram í krafti stærðar og valds er sjaldan til góðs. Það fer öfugt ofan í almenning. Oft er því bæði gott og rétt að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
 
Án þess að ræða við helstu andstæðinga framkvæmdanna og reyna að ná sátt í málinu áður en vinnuvélarnar tóku til starfa var ljóst að framundan væru átök við Hraunavini eins og raunin varð. Viðbrögð Garðabæjar, Vegagerðarinnar og innanríkisráðuneytisins bera vitni um að engin aðgerðaáætlun virðist hafa verið gerð til þess að mæta málflutningi og sjónarmiðum Hraunavina og samúð almennings með þeim endurspeglaðist bæði í samfélagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum.
 
Þannig rita tveir reyndir almannatengslamenn í grein í Morgunblaðinu í morgun, þeir Jón Hákon Magnússon og Þorsteinn G. Gunnarsson. Frá sjónarhóli almannatengsla klúðraði Garðabær og raunar líka Vegagerðin sínum málum er varða veginn í Gálgahrauni.

Þetta hef ég nokkrum sinnum nefnt hér. Gott fólk hefur á undanförnum fimmtán árum staðið upp og viljað leggja sveitarfélagi eins og Garðabæ lið. Í stað þess að þakka fyrir og nýta sér hjálpina er nánast litið á þetta fólk sem hryðjuverkamenn, það talið óalandi og óferjandi. Fólk eins og Ómar Ragnarsson, Eiður Svanberg Guðnason, Gunnsteinn Ólafsson, Reynir Ingibjartsson og fleiri ...

„Vér einir vitum og getum“, var viðhorf bæjarstjórnar Garðabæjar. Þess vegna fór sem fór. Orðspor bæjarstjórnarinnar og Vegargerðarinnar er laskað. Saman hafa þessir aðilar valdið miklu og óafturkræfu tjóni og það fyrirgefst seint. 

 


Vodafone bregst skynsamlega við í krísuástandi

Voda

Símafyrirtækið Vodafone hefur tekið til skynsamlegra varnarviðbragða vegna tölvuárásarinnar á netkerfið í síðustu viku. Að vísu var lítið að græða af almannatengslafulltrúa fyrirtækisins á föstudagsmorgni og fram eftir þeim degi. Ástæðan var einfaldlega sú að fyrirtækinu var ekki ljóst hver umfang glæpsins var og því auðvelt að reka talsmenn fyrirtækisins á gat.

Þetta hefur eðlilega breyst, fyrirtækið náð vopnum sínum, og það birtir í dag auglýsingu, meðal annars í Morgunblaðinu. Í henni er staða máls rakin á einfaldan og auðskilinn hátt.

Í auglýsingunni kemur fram að 79 þúsund vefskilaboðum var stolið og 75% þeirra voru almennar þjónustutilkynningar. Einu SMS skilaboðin sem geymd voru eru svokölluð vefSMS skilaboða, ekki SMS skilaboð úr símtækjum viðskiptavina. Þetta virðist vera minna en áður var óttast.

Einnig kemur fram að þeir sem áhyggjur hafa af sínum málum geta komið í sérstakt gagnaherbergi og fundið út hver persónulegi skaðinn kunni að vera.

Fyrirtækið hefur einlæglega viðurkennt mistök og hefur lagt vinnu í að lagfæra það sem tölvuþrjóturinn komst inn í kerfið. Það er til fyrirmyndar.

Frá mínum sjónarhóli er staðan einfaldlega þessi. Ekki er hægt að kenna símafyrirtækinu um vandann, ekki frekar en að innbrot sé húseiganda að kenna. Hitt er ljóst að fyrirtækið hefði átt að standa betur að öryggismálum sínum. En standa ekki allir bara nokkuð vel að sínum málum þangað til annað kemur í ljós.

Viðbrögð Vodafone í krísuástandi eru þegar öllu er á botninn hvolft til mikillar fyrirmyndar. 


Skattar á banka eru íþyngjandi og eiga að vera það

Bankastjórarnir kvarta yfir því að skattar séu íþyngjandi. Auðvitað hafa skattar þau áhrif, tekur því ekki að nefna það. Sama á við um viðskiptavini bankanna. Verðmæti eigna fjölmargra viðskiptavina bankanna hafa farið rýrnandi frá hruni vegna aðgerða bankanna sjálfra. Ekki flögraði að þessum stofnunum að koma nema lítilsháttar til móts við þá.

Ástæðan fyrir stöðnun í hagvexti undanfarinna ára má meðal annars rekja til bágrar stöðu almennings, atvinnuleysis og landflótta. Fólk heldur að sér höndunum við slíkar aðstæður. Fæstir vilja fjárfesta í íbúðarhúsnæði, skipta um íbúð, leggja fé í viðhald eða láta fjármagni vinna. Á þessum tíma hefur hægst um of á hringrás fjármagns í umferð og það hefur haft viðvarandi áhrif á hagkerfið og hagvöxtur hefur ekki náð sér á strik.

Hrunið kenndi okkur að það er ekki nóg að bjarga bönkunum, rukka veðlánin að fullu og ganga á eignarhlut almennings. Þjóðfélagsskipulagið gengur ekki út á annað en sanngjörn viðskipti fjármagnseiganda og skuldar. 

Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að leiðrétta með handafli skekkju hrunsins sem fyrri ríkisstjórn lét illu heilli undir höfuð leggjast að gera af því að hún hafði ekki kjarkinn. Nú má búast við því að skárri tímar séu framundan en auðvitað er margt eftir eins og að útrýma verðtryggingunni og gera íbúðalán sambærileg við það sem er í nágrannalöndunum. 

En guð hjálpi bönkunum um þessar mundir ef þeir ætla að láta kostnað vegna bankaskatts og endurútreikninga verðtryggðra lána bitna á viðskiptavinum sínum. Með allan sinn hagnað er þessi kostnaður hverfandi en myndi verða verulega íþyngjandi fyrir almenning. 

 


mbl.is Rýri eignarhlut ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband