Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Samfylkingin horast en dótturflokkurinn vex og dafnar

Formaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, vakti athygli á dótturflokkinum í Kryddsíldarþætti Stöðvar2 á gamlársdag. Auglýsingin á dótturflokknum og kynningin sem fylgdi var svo gapandi hreinskilin að hlustendum féllust eiginlega hendur með kjálkann niðri á bringu.

Í raun og veru hefur það aldrei gerst í íslenskum stjónrmálum að stór stjórnmálaflokkur hafi bent óánægðum flokksmönnum sínum og kjósendum á að þeir þurfi ekki að kjósa sig heldur geti farið vist á hjáleigunni. Þetta gerði Jóhanna nú engu að síður og hefur hún hvorki fyrr né síðar verið talin hreinskilnari en í þessum þætti.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á þetta í vef sínum www.t24.is í dag. Hann segir:

Í Kryddsíld Stöðvar 2 hélt Jóhanna Sigurðardóttir því fram að lítill sem enginn munur væri á Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Guðmundur mótmælti ekki. Engum dettur í hug að mótmæla slíkri fullyrðingu. Þjóðarpúls Capacent Gallups bendir til að Björt framtíð [BF] Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins, sé á siglingu. Það er stígandi í fylgi hins nýja flokks. Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi gæti BF orðið stærri en Vinstri grænir í komandi kosningum og fengið allt að níu þingmenn kjörna. Það sem meira er, þá eru líkur á því að Samfylkingin nái betri árangri í komandi kosningum en nokkru sinni áður með útibúi sínu – Bjartri framtíð. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 20 þingmenn kjörna en verði úrslit komandi þingkosninga í takt við þjóðarpúlsinn má reikna með að samtals fái Samfylking og BF 22 þingmenn.

Í sjálfu sér er þetta mjög snjallt trix hjá Samfylkingunni að stofna góðlátlegt útibú sem tekið getur við talsvert mörgum flóttamönnum. Þeir fara þá ekki til Sjálfstæðisflokksins á meðan, hugsar Jóhanna og glottir við.

Tökum svo eftir því að enginn Samfylkingarmaður hefur amast við för Róberts Marshalls, þingmanns, yfir til Bjartrar framtíðar. Yfirleitt verður allt vitlaust þegar þingmaður yfirgefur flokk og fer til annars og hann krafinn með látum og formælingum að segja af sér, annars ...

Óli Björn Kárason hefur greint stefnu þeirra dótturfélaga, Guðmundar Steingrímssonar og Róberts og kemst að því að þau mál sem þeir hafa unnið að á þingi séu svo sem góðra gjalda verð en ekki slík að gustað hafi af þeim. Frekar sem teknókratar:  

Þau þingmál sem Guðmundur og Róbert hafa beitt sér fyrir veita kjósendum litla innsýn í hugmyndafræði þeirra félaga. Þó má halda því fram að þeir séu teknókratískir, séu á því að ríkisvaldið eigi að gegna stóru hlutverki í lífi landsmanna. Báðir eru þeir Evrópusinnar og fylgjandi setningu nýrrar stjórnarskrár, eins og áður segir. 

Munum líka að báðir studdu þeir alla Icesave samninganna - það segir nú doldið.


Atvinnulífið er íþróttum afar mikilvægt

Stuðningur fyrirtækja við samfélag sitt er mikill á landsbyggðinni. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Fisk Seafood hefur staðið þétt við bakið á íþróttastarfi á Sauðárkróki og átt þátt í að gera ungu fólki kleift að stunda íþróttir sínar. Sjaldan rata fréttir af fjárgjöfum fyrirtækja í landsmiðla og því kann þetta að koma mörgum á óvart. Fisk hefur líka stutt við bakið á Skagstrendingum en þaðan er frystitogarinn Arnar HU1 gerður út.

Fyrir stuttu var sagt frá vígslu íþróttahúss á Höfn í Hornafirði en Skinney-Þinganes reisti það og gaf Hornfirðingum.

Blómlegt íþróttalíf er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir hvert sveitarfélag frá uppeldislegu sjónarmiði og að þar séu keppnislið í öllum aldurshópum, hvort heldur í boltaíþróttum eða einstaklings. Þau vekja athygli á heimkynnum sínum og sanna að þar er gott að búa. Umbúnaður íþrótta á hverjum stað er ein besta auglýsing sem hvert sveitarfélag getur lagt í.

Afrekslið eru jafnvel enn meiri auglýsing og þau koma víða. Tindastóll á Sauðárkróki hefur lengi átt góð körfuboltalið og einnig ágæt knattspyrnulið. Hversu mikilvægt hefur það ekki verið fyrir samfélagið og hvílík auglýsing sem það hefur ekki verið fyrir Skagfirðinga?

Sterk handknattleikslið og knattspyrnulið koma frá Akureyri sem oft hafa komið með stóra titla í hús og þjálfarar og leikmenn úr báðum greinum hafa gjörbreytt íþróttunum til hins betra. Í Stykkishólmi eru mikil afrekslið í körfubolta, karlaliðið hefur orðið Íslandsmeistari og bikarmeistari. Þar var á árum áður gríðarlega góðir badmintonspilarar og unnu meistaratitla oft og mörgum sinnum. Í Ólafsvík er gott knattspyrnulið og þaðan hafa komið góðir knattspyrnumenn sem sett hafa svip sinn á leik margra annarra liða. Á Selfossi hefur handbolti og fótbolti vaxið mikið og í orðsins fyllstu merkingu spilað önnur og veraldarvanari lið oft á tíðum upp úr skónum. Fleiri staði má nefna, t.d. Blönduós, Borgarnes, Siglufjörð, Ísafjörð og Bolungarvík.

Sindri á Höfn í Hornafirði var lengi ofarlega í annarri deild í fótbolta og hver veit nema nýja íþróttahúsið muni gjörbreyta stöðunni. 

Stuðningur atvinnulífsins skiptir gríðarlegu máli fyrir alla þessa staði og það virðist standa undir væntingum. 


mbl.is Gáfu Tindastóli Mercedes-Benz-rútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristín Þorsteinsdóttir varar við fúski og réttarmorði

En þú sem undan 
ævistraumi
flýtur sofandi
að feigðarósi
lastaðu ei laxinn
sem leitar móti
straumi sterklega 
og stiklar fossa!
 
Þetta spaklega erindi er hið síðasta úr Oddskviðu Hjaltalíns (1782-1840) eftir Bjarna skáld Thorarensen. Oft er vitnað til þess þegar getið er um gott fólk sem þorir að ganga aðrar götur en samferðafólkið og oft á móti straumnum. Samtíminn er harður dómari og sjaldnast réttátur en þegar litið er til baka sjást hlutirnir oft í öðru og skýrara ljósi.
 
Ég las í Fréttablaðinu grein eftir Kristínu Þorsteinsdóttur, sem lengi var fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Síðar starfaði hún hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem fjölmiðlafulltrúi og svo starfaði hún sem fjölmiðlafulltrúi hjá Gaumi sem stýrði Bónus og fleiri verslunum og fyrirtækjum og var meðal annars í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem mörgum þykir mikilvægt að hatast við.
 
Kristín er yfirveguð og róleg þegar hún ræðir í grein sinni um ákærur sérstaks saksóknara, stöðu íslenskra bankamanna og réttarkerfið. Þrátt fyrir vel ritaða grein sína ráðast margir á Kristínu með offorsi og meiðingum eins og margra er háttur sem iðka ekki málefnalegar rökræður. Helst hafa menn það gegn henni að hún hafi verið starfsmaður fyrirtækis sem Jón Ásgeir átti. Henni er þó ekki leitt það til lasts að hún hafi starfað hjá Slökkviliðinu. Þó virðist mér hún vilji frekar slökkva elda en kveikja.
 
Ég hef alltaf ánægju af vel skrifuðum greinum, skiptir engu þó ég sé ósammála efni þeirra. um margt er ég þó sammála Kristínu í grein sinni. Lýsing hennar á Evu Joly sem var ráðgjafi sérstaks saksóknara og störfum hennar í Frakklandi er áhugaverð. Sama má segja með samanburði hennar á meintum sökudólgum í gömlu bönkunum og á hún eingöngu við að afbrotin hér á landi tengjast ekki ofbeldi. En vissulega má segja að afbrot og misgjörðir bankamanna hafi leitt til mikillar óhamingju fyrir fjölda fólks og það sé í sjálfu sér ígildi ofbeldis. Ég geri ekki lítið úr því, ef ritað ótal pistla um þau mál.
 
Af hófsemi ræðir Kristín það sem við getum lært af bankahruninu. Hún segir:
 
Stóri lærdómurinn af íslensku bankamartröðinni er sá að hér fylltust margir oflæti – embættismenn, stjórnmálamenn, blaðamenn, eftirlitsmenn, lífeyrissjóðir, litlir fjárfestar og stórir fjárfestar. Taka átti bankaheiminn með trompi með sameiginlegu átaki. Þeir sem þykjast kunna skýr skil á upphafi og endi í þeim efnum finnst mér afar ósannfærandi. 
 
Við sjáum þetta allt sem eitt stórt klúður, spillingu sem ugglaust hefur verið upphugsuð af einhverjum en framkvæmd af fólki sem var viljalaust verkfæri óprúttinna manna. Ég tek þó undir það sem Kristín segir í niðurlagi ofangreindrar tilvitnunar. Staðreyndin er nefnilega sú að fjöldi manns telja sig í dag hafa séð hrunið fyrir, en frá þeim heyrðist hvorki stuna né hósti áður en það brast á. Og nú telja margir, og jafnvel hinir sömu, sig skilja algjörlega hvernig hrunið verð og hverjum það sé að kenna. Þeir hinir sömu segjast vera rannsakendur og geti allt eins verið dæmendur og tekið að sér að refsa. Sé dæmi tekið af viðfrægum athugasemdadálkum virðist sem svo að þeir sem hæst hneykslast vilji líkamlegar refsingar, stjaksetningar og annan hrylling fyrir þá sem þeir telja vondu gæjanna.
 
Kristín er ekki á þessir skoðun. Hún varar við fúski og réttarmorði. Hún gerir kröfu til að rannsakendur og dómskerfið vandi sig. Með öðrum orðum að dómstóll götunnar, eða eigum við að segja, dómstóll athugasemdakerfanna, verði ekki kallaður til aðstoðar í þessum málum eða öðrum.
 
Ég fagna grein Kristínar. Hún hefur áður tjáð sig á svipaðan hátt og fengið í staðin fúkyrði og ruddaskap. Þannig er það ennþá. Fólk má auðvitað hafa allar þær skoðanir á Kristínu Þorsteinsdóttur sem það vill en krafan er engu að síður sú að rök og kurteisi gagnast öllum best.
 


Björn Valur skilur ekki kaldhæðnina

Fyrri nokkrum árum vildi einhver spaugarinn efna til fjársöfnunar fyrir mann sem nefndur hefur verið útrásarvíkingur. Allir skildu háðið og margir hlógu dátt.

Nú hefur brandaranum verið snúið upp á ríkisstjórnina. Kirkjan ætlar að safna peningum fyrir ríkisvaldið sem hefur ekki efni á mikilvægust verkefnunum en á nóga peninga í gæluverkefnin.

Björn Valur Gíslason, fráfarandi þingmaður Vinstri grænna og afsettur formaður þingflokks VG, skilur ekki brandarann og fer hamförum til varnar fjárlögum, fjáraukalögum, ríkisstjórninni, skjaldborginni, norrænni velferð, verðtryggingunni, auðlindaskattinum, skattheimtunni og öllu öðru þeim ósköpum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.

Á meðan hlær biskup og þjóðin tekur undir. Margir munu án efa leggja til fé í söfnunina, þó ekki sé nema vegna spaugsins.

Mikið ári er hún klár, þessi biskup. 


mbl.is Kirkjan ekki fær áður vegna „innanmeins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkvæmt alsamræmdri steingrímskri orðabók ...

Ef staða málsins er metin og sá skammi tími sem er til stefnu hljóta menn að huga að því að leggja áherslu á tilteknar breytingar á stjórnarskránni fyrir alþingiskosningarnar og vinna svo frekar að málinu á næsta kjörtímabili. Því miður hefur ekki farið fram það mikil efnisleg umræða á Alþingi um einstök atriði að maður átti sig á því um hvað geti náðst breið sátt á þessu stigi.

Þannig talar formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í viðtali við Morgunblaðið í dag. Steingrímur kvartar undan því að umræðan sé ekki næg. Þess á milli kallar hann alla umræðu málþóf.

Lesendum til skýringar skal þess getið að samkvæmt alsamræmdri steingrímskri orðabók er átt við umræða sé eitt, og þá yfirleitt málþóf, en efnisleg umræða sé þegar löggjafarvaldið afgreiðir vilja framkvæmdavaldsins án málalenginga.

Þegar upp er staðið er þó fréttin einfaldlega sú að Steingrímur telur að nú þurfi að gera breytingar á stjórnarskrá, ekki leggja fram nýja, og sátt!

Þetta varla gott veganest þegar stjórnmálaflokkur hrekkst til baka með mikilvægu málin. Núna stjórnarskrármálið og næst verður það andstaða við aðlögunarviðræður við ESB í stað „samningaviðræðna“.


Styrmir á að krefjast svara

Nú eru þrjú og hálft ár liðið frá því meirihuti Alþingis samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd. Í upphafi var því heitið að umsóknarferlið yrði opið og gagnsætt. [...] Íslenzka þjóðin veit ekkert um það, sem raunverulega hefur gerzt og er að gerast á bak við tjöldin. [...] Ísland er að sogast inn í kerfi ESB, þótt yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé því andvígur.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á Evrópuvaktinni. Það er rétt hjá honum að þjóðin veit ekkert hvað er að gerast, hvorki á bak við tjöldin né beinlínis fyrir framan þau. Allt er unnið í felum eða í felubúningum.

Ég er því dálítið hissa á þessum skrifum hans, finnst hann ekki taka á því sem mestu máli skiptir og það er einfaldlega breytingarnar sem orðið hafa á stjórnskipun lýðveldisins, lögum og reglum þess.

Staðreyndin er sú að stjórnkerfinu hefur verið breytt vegna aðlögunarferlisins við ESB. Styrmir hefur mikil áhrif og hann á að krefjast svara við þeirri spurningu hverju hafi beinlínis verið breytt vegna aðildarinnar. Hann á líka að krefjast svara við þeirri spurningu hvaða lögum og reglum hafi verið breytt vegna aðildarinnar og hverju standi til að breyta.

Svör við þessum spurningum liggja ekki fyrir. 


Þegar sjónvarpið bilaði töluðu þau bara saman, en ...

Gott fólk sem ég þekki hafði verið gift í tuttugu ár. Þá gerðist það einn kaldan vetrardag, gott ef ekki snjóaði pínulítið, að sjónvarpið bilaði. Þetta var gamalt túbusjónvarp, 29 tommu af Filibs gerð. Þau hjónin hlógu af þessu og veltu því fyrir sér að kaupa í staðinn flatskjá.

En eigum við ekki að sjá til hvort við getum ekki verið sjónvarpslaus? spurði eiginmaðurinn. Hún var alveg til í það. Og þau héldu nú að sjónvarpið skipti engu máli fyrir nútímafólk, en ...

  • Á fyrsta kvöldinu eftir að sjónvarpið bilaði töluðu þau saman.
  • Á öðru kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði, töluðu þau enn saman.
  • Á þriðja kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði, töluðu þau lítillega saman og lásu bækur
  • Á fjórða kvöldi eftir að sjóvarpið bilaði, lásu þau bækur.
  • Á fimmta kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði fóru þau í heimsókn og lásu síðan eftir að hafa komið heim.
  • Á sjötta kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði fóru þau í heimsókn og síðan snemma í rúmmið.
  • Á sjöunda kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði fór hún í heimsókn og hann las bók.
  • Á áttunda kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði fór hann í heimsókn en hún varð eftir heima.
  • Á níunda kvöldi kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði fóru þau bæði í heimsókn, sitt í hvoru lagi.
  • Á tíunda kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði kom hann ekki heim eftir kvöldheimsóknina hún tók ekki eftir því fyrr en daginn eftir.
  • Á ellefta kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði kom hann seint og um síðir fullur heim og hún flutti heim til mömmu sinnar.
  • Á tólfta kvöldi eftir að sjónvarpið bilaði kom hann ekki heim og hún var ennþá hjá mömmu sinni.
  • Mánuði eftir að sjónvarpið bilaði var íbúðin sett á sölu, hann var enn fullur og hún hafði kynnst nágranna mömmu sinnar sem bjó einn.
  • Hálfu ári eftir að sjónvarpið bilaði voru þau skilin, hann kominn í annað skipti á vog og hún hafði hætt með nágranna mömmu sinnar og byrjað með bílasalanum sem var að selja Pólóinn sem hún og eiginmaðurinn höfðu átt.
  • Tveimur árum eftir að sjónvarpið bilaði eru bæði komin aftur í hjónaband og á heimilum þeirra eru stórir flatskjáir og einnig sjónvarp í svefnherbergjunum.

 Niðurstaða þessarar sárgrætilegu örsögu er að án sjónvarps fer heimilislífið fer í hundana.


mbl.is Horfðu saman á sjónvarp í myrkrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigríður Ingibjörg og ósamstöðuliðið

Af hverju er Sigríður Ingibjörg ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ekki í framboði sem formaður flokks síns? Hún smellpassar inn í embættið.

Þingmaðurinn gerir enga aðra athugasemd við orð forsetans um „samstöðu allra flokka með víðsýni og sáttavilja að leiðarljósi“ en eftirfarandi: „Þetta kemur ekki á óvart, enda hefur forsetinn ekki staðið með í þessu máli hingað til“.

Sem sagt orð forsetans eru fín og góð en gallinn er bara sá að Sigríði Ingibjörgu, þingmanni, finnst forsetinn ekki vera með henni í ósamstöðuliðinu.

Mikið óskaplega hlýtur að vera gaman í pólitík þegar við horfið er þetta: Ég ein veit og allir aðrir eru fúlir á móti.

Var ekki einhver að tala um að þetta væri sú pólitík sem við hefðum átt að skilja eftir árið 2008? 


mbl.is Segir orð forsetans ekki koma á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan er Olísmyndin?

Dalvík

Falleg mynd í heilsíðuauglýsingu í áramótablaði Morgunblaðsins vakti athygli mína. Á blaðsíðu 37 óskar Ólís landsmönnum gleðilegs árs og persónulega þakka ég kveðjuna .. 

Myndin er falleg vetrarmynd og sýnir söluskála Ólís. Eins og svo oft áður staðnæmist ég við fallegar myndir og vil helst vita hvaðan þær eru. Held að þessi sé frá Dalvík og það sé Dagmálafjall sem sést þarna fyrir miðri mynd.

Ég leyfði mér að klippa út myndina, sleppti kveðjum og öðru, og birti hana hér með. Biðst fyrirfram afsökunar ef einhver hefur eitthvað út á þetta háttalag mitt að setja.

En spurningin er þessi. Hef ég rétt fyrir mér með staðsetninguna? 


Traust lýðræði byggir ekki á alræði meirihlutans

Að hirða lítt um hin hollu ráð verður aldrei farsælt og vandinn kann líka að vaxa vegna þess að nýr meirihluti á Alþingi næsta vor gæti hæglega kollvarpað frumvarpinu og sú alúð sem stjórnlagaráð lagði í verkið þá unnin fyrir gýg. Aðalsmerki hins trausta lýðræðis er ekki alræði sífellt nýrra meirihluta sem koll af kolli kappkosta að ráða för. Gæði lýðræðisins birtast einkum í því að virða rök og rétt minnihlutans.
 
Forsetanum mæltist vel í þessu nýársávarpi sínu og mér líkar hversu hófsamur hann er orðinn. Ofangreind orð hans um nýja stjórnarskrá eru mér að skapi. Það er nefnilega svo, rétt eins og forsetinn segir annars staðar í ræðu sinni að það er samstaðan sem skiptir mestu máli:

Við megum ekki festa stjórnarskrármálið í fjötrum átaka og aflrauna á Alþingi. Slíkt sæmir hvorki hinni upphaflegu heitstrengingu um nýjan sáttmála Íslendinga né heldur virðingu fyrir þeirri samstöðu sem mótaði gildistöku núverandi stjórnarskrár. 
 
Ekki er hægt að segja þetta skýrar. Þjóðfélagið byggist á samvinnu á milli fólks og tilraunir til að sætta ólíkar skoðanir. Taka tillit til minnihlutans og gera sem flesta sátta við samfélagið. Ein allsherjarskoðun er ekki til og hefur aldrei verið til. Tilraunir til að búa til slíkt hafa alltaf endað með ósköpum.
 
Ástæðan fyrir orðum forsetans er einfaldlega sú að honum eins og svo mörgum öðrum blöskrar hvernig ríkisstjórnin og meirihluti þingsins hefur komið fram. Ekki aðeins gagnvart minnihlutanum heldur einnig þjóðinni. Þar er engin sáttahugur og hefur aldrei verið. Raunar er því meiri heift eftir því sem fylgið hefur rjátlast af ríkisstjórninni á þingi og meðal almennings. Gjá hefur myndast milli ríkisstjórnarmeirihlutans og þjóðarinnar og það kann ekki góðri lukku að stýra
 
Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti þessu skýrt á heimasíðu sinni fyrir nokkrum dögum. Hann nefnir dæmi um ágreininginn sem ríkisstjórnin og meirihluti hennar hefur staðið fyrir:
 
  1. Uppbygging og viðreisn efnahagslífsins
  2. Uppbygging atvinnulífsins
  3. Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
  4. Sáttleysið um rammáætlunina
  5. Endurskoðun stjórnarskrárinnar
  6. Aðildarumsóknin að ESB
  7. Samráðsleysið við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið
  8. Samkomulagsleysi og samstarfsleysið við stóru útflutningsgreinarnar
Þetta sjá allir og undrast hversu illskeytt ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á Alþingi hafa verið á undanförnum tæpu fjórum árum. Vart í þeim anda sem Samfylkingin og Vinstri grænir hafa boðað á undanförnum árum og ekki heldur núna.
 
Og rétt er sem forsetinn segir, munum þessi orð: Aðalsmerki hins trausta lýðræðis er ekki alræði sífellt nýrra meirihluta sem koll af kolli kappkosta að ráða för. 

mbl.is „Margt óskýrt og flókið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband