Kristín Þorsteinsdóttir varar við fúski og réttarmorði

En þú sem undan 
ævistraumi
flýtur sofandi
að feigðarósi
lastaðu ei laxinn
sem leitar móti
straumi sterklega 
og stiklar fossa!
 
Þetta spaklega erindi er hið síðasta úr Oddskviðu Hjaltalíns (1782-1840) eftir Bjarna skáld Thorarensen. Oft er vitnað til þess þegar getið er um gott fólk sem þorir að ganga aðrar götur en samferðafólkið og oft á móti straumnum. Samtíminn er harður dómari og sjaldnast réttátur en þegar litið er til baka sjást hlutirnir oft í öðru og skýrara ljósi.
 
Ég las í Fréttablaðinu grein eftir Kristínu Þorsteinsdóttur, sem lengi var fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Síðar starfaði hún hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem fjölmiðlafulltrúi og svo starfaði hún sem fjölmiðlafulltrúi hjá Gaumi sem stýrði Bónus og fleiri verslunum og fyrirtækjum og var meðal annars í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem mörgum þykir mikilvægt að hatast við.
 
Kristín er yfirveguð og róleg þegar hún ræðir í grein sinni um ákærur sérstaks saksóknara, stöðu íslenskra bankamanna og réttarkerfið. Þrátt fyrir vel ritaða grein sína ráðast margir á Kristínu með offorsi og meiðingum eins og margra er háttur sem iðka ekki málefnalegar rökræður. Helst hafa menn það gegn henni að hún hafi verið starfsmaður fyrirtækis sem Jón Ásgeir átti. Henni er þó ekki leitt það til lasts að hún hafi starfað hjá Slökkviliðinu. Þó virðist mér hún vilji frekar slökkva elda en kveikja.
 
Ég hef alltaf ánægju af vel skrifuðum greinum, skiptir engu þó ég sé ósammála efni þeirra. um margt er ég þó sammála Kristínu í grein sinni. Lýsing hennar á Evu Joly sem var ráðgjafi sérstaks saksóknara og störfum hennar í Frakklandi er áhugaverð. Sama má segja með samanburði hennar á meintum sökudólgum í gömlu bönkunum og á hún eingöngu við að afbrotin hér á landi tengjast ekki ofbeldi. En vissulega má segja að afbrot og misgjörðir bankamanna hafi leitt til mikillar óhamingju fyrir fjölda fólks og það sé í sjálfu sér ígildi ofbeldis. Ég geri ekki lítið úr því, ef ritað ótal pistla um þau mál.
 
Af hófsemi ræðir Kristín það sem við getum lært af bankahruninu. Hún segir:
 
Stóri lærdómurinn af íslensku bankamartröðinni er sá að hér fylltust margir oflæti – embættismenn, stjórnmálamenn, blaðamenn, eftirlitsmenn, lífeyrissjóðir, litlir fjárfestar og stórir fjárfestar. Taka átti bankaheiminn með trompi með sameiginlegu átaki. Þeir sem þykjast kunna skýr skil á upphafi og endi í þeim efnum finnst mér afar ósannfærandi. 
 
Við sjáum þetta allt sem eitt stórt klúður, spillingu sem ugglaust hefur verið upphugsuð af einhverjum en framkvæmd af fólki sem var viljalaust verkfæri óprúttinna manna. Ég tek þó undir það sem Kristín segir í niðurlagi ofangreindrar tilvitnunar. Staðreyndin er nefnilega sú að fjöldi manns telja sig í dag hafa séð hrunið fyrir, en frá þeim heyrðist hvorki stuna né hósti áður en það brast á. Og nú telja margir, og jafnvel hinir sömu, sig skilja algjörlega hvernig hrunið verð og hverjum það sé að kenna. Þeir hinir sömu segjast vera rannsakendur og geti allt eins verið dæmendur og tekið að sér að refsa. Sé dæmi tekið af viðfrægum athugasemdadálkum virðist sem svo að þeir sem hæst hneykslast vilji líkamlegar refsingar, stjaksetningar og annan hrylling fyrir þá sem þeir telja vondu gæjanna.
 
Kristín er ekki á þessir skoðun. Hún varar við fúski og réttarmorði. Hún gerir kröfu til að rannsakendur og dómskerfið vandi sig. Með öðrum orðum að dómstóll götunnar, eða eigum við að segja, dómstóll athugasemdakerfanna, verði ekki kallaður til aðstoðar í þessum málum eða öðrum.
 
Ég fagna grein Kristínar. Hún hefur áður tjáð sig á svipaðan hátt og fengið í staðin fúkyrði og ruddaskap. Þannig er það ennþá. Fólk má auðvitað hafa allar þær skoðanir á Kristínu Þorsteinsdóttur sem það vill en krafan er engu að síður sú að rök og kurteisi gagnast öllum best.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband