Traust lýðræði byggir ekki á alræði meirihlutans

Að hirða lítt um hin hollu ráð verður aldrei farsælt og vandinn kann líka að vaxa vegna þess að nýr meirihluti á Alþingi næsta vor gæti hæglega kollvarpað frumvarpinu og sú alúð sem stjórnlagaráð lagði í verkið þá unnin fyrir gýg. Aðalsmerki hins trausta lýðræðis er ekki alræði sífellt nýrra meirihluta sem koll af kolli kappkosta að ráða för. Gæði lýðræðisins birtast einkum í því að virða rök og rétt minnihlutans.
 
Forsetanum mæltist vel í þessu nýársávarpi sínu og mér líkar hversu hófsamur hann er orðinn. Ofangreind orð hans um nýja stjórnarskrá eru mér að skapi. Það er nefnilega svo, rétt eins og forsetinn segir annars staðar í ræðu sinni að það er samstaðan sem skiptir mestu máli:

Við megum ekki festa stjórnarskrármálið í fjötrum átaka og aflrauna á Alþingi. Slíkt sæmir hvorki hinni upphaflegu heitstrengingu um nýjan sáttmála Íslendinga né heldur virðingu fyrir þeirri samstöðu sem mótaði gildistöku núverandi stjórnarskrár. 
 
Ekki er hægt að segja þetta skýrar. Þjóðfélagið byggist á samvinnu á milli fólks og tilraunir til að sætta ólíkar skoðanir. Taka tillit til minnihlutans og gera sem flesta sátta við samfélagið. Ein allsherjarskoðun er ekki til og hefur aldrei verið til. Tilraunir til að búa til slíkt hafa alltaf endað með ósköpum.
 
Ástæðan fyrir orðum forsetans er einfaldlega sú að honum eins og svo mörgum öðrum blöskrar hvernig ríkisstjórnin og meirihluti þingsins hefur komið fram. Ekki aðeins gagnvart minnihlutanum heldur einnig þjóðinni. Þar er engin sáttahugur og hefur aldrei verið. Raunar er því meiri heift eftir því sem fylgið hefur rjátlast af ríkisstjórninni á þingi og meðal almennings. Gjá hefur myndast milli ríkisstjórnarmeirihlutans og þjóðarinnar og það kann ekki góðri lukku að stýra
 
Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti þessu skýrt á heimasíðu sinni fyrir nokkrum dögum. Hann nefnir dæmi um ágreininginn sem ríkisstjórnin og meirihluti hennar hefur staðið fyrir:
 
  1. Uppbygging og viðreisn efnahagslífsins
  2. Uppbygging atvinnulífsins
  3. Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
  4. Sáttleysið um rammáætlunina
  5. Endurskoðun stjórnarskrárinnar
  6. Aðildarumsóknin að ESB
  7. Samráðsleysið við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið
  8. Samkomulagsleysi og samstarfsleysið við stóru útflutningsgreinarnar
Þetta sjá allir og undrast hversu illskeytt ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á Alþingi hafa verið á undanförnum tæpu fjórum árum. Vart í þeim anda sem Samfylkingin og Vinstri grænir hafa boðað á undanförnum árum og ekki heldur núna.
 
Og rétt er sem forsetinn segir, munum þessi orð: Aðalsmerki hins trausta lýðræðis er ekki alræði sífellt nýrra meirihluta sem koll af kolli kappkosta að ráða för. 

mbl.is „Margt óskýrt og flókið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

 Sæll og gleðilegt ár.

Já, forsetanum mæltist vel um samstöðu og stjórnarskrána en hann er of sanntrúaður á loftlagsbreytingar af manna völdum.

Vísindamenn sem heimfæra undanfarandi öfga í veðráttunni, fellibili, flóð og vaxandi snjóalög, jafnvel hækkandi sjávarhita á hlýnun eru ekki trúverðugir. Hlýnunin er sáralítil á heimsvísu en þeir mega til að halda sér við kenningarnar um áhrif útblásturs koltvísýrings sem munu kosta okkur jarðarbúa ómælanlegar fjárhæðir og óþarfar, reynast þær rangar.

Sigurður Ingólfsson, 1.1.2013 kl. 15:20

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll sjálfur, nafni, og gleðilegt ár. Mér þótti gaman að lesa pistil hjá þér um „nyislensku“. Frumlega samið og af skynsemi. Skora á fólk að lesa pistilinn hans nafna míns sem er á þessari slóð; http://siggus10.blog.is/blog/siggus10/entry/1262725/.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.1.2013 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband