Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Elliðaárdalur nú og fyrir 30 árum

850701-42Reykjavíkurborg tekur breytingum eins og ég hef rakið lítilsháttar í pistlum að undanförnu. 

Myndin hérna vinstra megin er tekin 1. júlí 1985. Á henni sjást hitaveitustokkarnir sem liggja yfir Elliðaárnar, Elliðadalinn og upp í Bústaðahverfi.

Sjá má hægra megin við stokkana nokkrar trjáhríslur sem voru líklega nýlega gróðursettar.

Fjær sést húsnæði Fálks og líklega voru þar enn hross geymd yfir vetrartímann. Trjágróður er nokkur við hús en þau sjást öll mjög greinilega.

DSC_0006

Víkjum nú til dagsins í dag og skoðum hvernig umhverfið eins og að er á þessum sama stað, 27 árum síðar. 

Það er gjörbreytt. Trjágróðurinn hefur vaxið svo mikið að hús og umhverfi hefur eiginlega týnst.

Þéttur skógur er komin vinstra megin við hitaveitustokkinn, sem raunar hefur verið stækkaður einhvern tímann og hann hverfur einfaldlega undir Reykjanesbrautina. Þarna sjást undirgöngin sem ekki voru til fyrir 27 árum.

Fyrir ofan þau sést þó grátt hús en vinstra megin við það liggur hitaveitustokkurinn enn þann dag í dag.

850701-55

Lítum nú á hvernig útsýnið var af þessum hitaveitustokki fyrir ofan Sogaveginn 1. júlí 1985. 

Þarna er fjölmargt að sjá. Heilt hverfi í byggingu, olíutankarnir á bökkum Elliðaánna. Sem betur fer voru þeir fjarlægðir nokkru síðar.

Tökum líka eftir því hversu ávalir hitaveitustokkarnir eru. Þeir voru nefnilega ekki hannaðir fyrir gönguferðir eða hjólreiðar.

Á þessum tíma var ekki svo ýkja mikið um að fólk færi út í gönguferðir en þeir sem það gerðu og uppgötvuðu stokkanna voru ánægðir.

Miklu betra að ganga á þeim en í malarstígum sem voru svo algengir. Hindranir voru þó margar. Takið eftir tröppunum sem eru á stokknum.

Göngufólk átti auðvelt með að yfirstíga þær en verra var það fyrir hjólafólk eða það sem var með barnavagna. 

Fleiri hrindranir voru á hitaveitustokkunum. Síðar áttuðu borgaryfirvöld, Hitaveitan að þarna mætta gera bragarbót.

Skoðum nú sama sjónarhorn 27 árum síðar. 

DSC_0043

Ég er nokkurn vegin á sama stað en nú vill svo til að trjágróðurinn hylur alla sýn. Eiginlega ekkert að sjá. Hins vegar eru tröppurnar horfnar og stokkurinn er ekki lengur ávalur heldur sléttur. Mun betri til gönguferða, jafnvel með barnavagn.

Einhvers staðar á ég eða ættingjar mínir mynd frá því um 1930 af fólki í lautarferð í Elliðaárdal. Þá voru engin tré þarna, allt afar eyðilegt og tómlegt miðað við daginn í dag. 


Öllu snúið á hvolf vegna skýrslustuldar

Ríkisendurskoðun er stofnun sem er undir forræði Alþingis, ekki framkvæmdavaldsins. Þar af leiðandi er rökrétt að drag þá ályktun að samskipti þeirra hljóti að vera náin og að sjálfsöðgu góð. Svo virðist samt ekki vera. Menn gerast nú fingralangir og aðrir virðast vera hagnast á því. Gott orð er til á íslensku máli um þá sem njóta góðs af því sem tekið er ófrjálsri hendi.

Einhverra hluta vegna hefur þingmaður Vinstri grænna náð í drög að skýrslu um kaup á bókhaldskerfi, ljósritað hana og sent í Kastljós þar sem hún var til umfjöllunar í gær. Í raun og veru var umfjöllunin frekar slæm, ekkert annað en upplestur úr skýrslunni. Það hefði svo sem verið allt í lagi ef ekki hefði komið til sú staðreynd að skýrslan var enn vinnuplagg og mörgu ólokið eins og  Ríkisendurskoðun hefur bent á. Enginn greinarmunur var í upplestrinum hægt að gera á því sem var rétt og rangt. Allt upp lesið eins og þar væri heilagur sannleikurinn. 

Fyrir vikið breytist nú umræðan frá því að vera um ámælisverð kaup á bókhaldskerfi fyrir ríkið í ávirðingar um stuld og þörf einstakra þingmanna fyrir stundarfrægð í kastljósi fjölmiðlanna.

Þetta eru auðvitað svo mikil heimska að ekki tekur nokkru tali en auðvitað eftir öllu hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar.

Allt er nú sett á hvolf í leit að einhverju sem gæti varpað skugga á einhverja aðra. Munið að ekki er verið að leita að því sem gæti varpað birtu á starf hinnar norrænu velferðarstjórnar, þar finnst auðvitað ekkert. 


mbl.is Sagði skýrsluna vera þýfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símanotkun og hangsið á vinstri akrein

Það er svo undarlegt að þegar maður ekur og talar í síma án handfrjáls útbúnaðar er eins og umferðin þurfi að víkja, hún mætir eiginlega afgangi í hausnum á manni. Allt annað er uppi á tengingunum þegar notaður er handfrjáls búnaður. Þá er eins og ökumaðurinn nái fullri stjórn yfir bílnum og hann er vakandi yfir umferðinni. Sá sem talað er við í síma mætir afgangi rétt eins og þegar samræður eiga sér stað milli ökumanns og farþega.

Annars er þetta ekki mesta vandamálið í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Það versta er hangs ökumanna á vinstri akrein. Það veldur því að á umferðinni hægir og menn taka ósjálfrátt upp á því glapræði að fara í stórsvig á milli hægri og vinstri akreinar. Því fylgir hrikaleg slysahætta.

Ökumenn eiga einfaldlega að halda sig á hægri akrein, öllum stundum, nema því aðeins að þeir ætli að beygja til vinstri á næstu 300 metrum ca. Þetta er svo einfalt og ef allir myndu gera þetta væri umferðin á höfuðborgarsvæðinu eins og hjá siðmenntuðum þjóðum. 


mbl.is „Eins og að aka undir áhrifum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumspakur ræður í veðrið

Draumspakur maður segir að veturinn verði harður. Frost verði af og til í vetur, stundum snjóar en á milli uppstyttur og svo rignir jafnvel. Af og til verður afar hvasst, þó ekki oftar en stundum en þó frekar sjaldan. Líklega verður snjór um jólin ef ekki þá verða þau að öllum líkindum rauð.

Næstu vikur má búast við kólandi veðri og jafnvel frosti hér og hvar. Líklega munu lauf trjá sölna enn frekar en orðið er og grös á túnum gulna. Ekki er búist við því að gróður taki við sér fyrr en næsta vor.  

Ofangreint er birt með fyrirvara um breytingar sem kunna að verða með nýjum draumum, innyflum sauðfjár eða hegðun músa. 


mbl.is Kólnandi veður í kortunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Kristinsson er alltaf úti að leika sér

Gnarr

Reykjavík hefur verið stjórnlaus síðan Besti flokkurinn og Samfylking komust þar til valda eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Leiðtogi borgarinnar kallast borgarstjóri og er afspyrnu duglegur og iðinn við allt nema borgarmálin. Ef ekki væri vinnuskyldan myndi Jóni Kristinssyni líka afar vel við embætti borgarstjóra.

Fyrir okkur hin hefur sagan um nýju föt keisarans aldrei verið jafn sönn.

Rakst á frétt á viri.is um Jón þennan Kristinsson og lýsir hún eflaust best hvers konar fyrirbrigði maðurinn er:

Jón Gnarr skartar óvenju myndarlegu alskeggi þessa dagana, enda hefur hann safnað því síðastliðinn mánuð. Ástæðan er sú að borgarstjórinn hyggst sækja sérstaka búningasýningu á Comic Con, nýjustu mynd leikstjórans Morgans Spurlock sem fjallar um fræga nördaráðstefnu í San Diego, á RIFF-hátíðinni næstkomandi föstudag, í gervi Obi-Wan Kenobi úr Star Wars. 

Jón lætur ekki skeggið nægja til að líkjast hinum hugdjarfa Jedi-meistara sem mest heldur verður hann líka í einkennandi brúnum kufli með hettu og geislasverð. Besti búningurinn verður verðlaunaður að sýningu lokinni og hlýtur fyrrum Fóstbróðirinn og Stjörnustríðsaðdáandinn Jón að teljast nokkuð sigurstranglegur 

Fullyrða má að Jón Kristinsson hafi ýmist vanrækt flest mikilvægustu starfa borgarstjóra eða hann hefur ekki þekkingu og getu til að sinna þeim.

Fyrir þessu loka fjölmiðlar hinum árvöklu augum sínum. Gera má ráð fyrir að hefði Sjálfstæðismaður hegðað sé á sama hátt og Jón Kristinsson væri fyrir löngu búið að hrekja hann úr embætti - og það með réttu. Hins vegar fær Jón þessi hina mildilegustu meðferð sem hugsast getur enda er hann með skemmtilegustu mönnum. En er það nóg, svona málefnalega séð. 


Skotgrafir kappræðu, átaka og ófaglegra vinnubragða

Það er mál að linni. Við getum gert mun betur og endurvakið traust til Alþingis. Það verður ekki gert nema framkvæmdavaldið umgangist Alþingi af virðingu og viðurkenni þrískiptingu ríkisvaldsins. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra af gamla skólanum, á margt ólært í þeim efnum.
 
Atli Gíslason, þingmaður og lögmaður, segir þetta  í lok greinar sem hann birti í Morgunblaðinu í morgun. Fyrirsögn greinarinnar er „Forsætisráðherra af gamla skólanum“. Í henni ræðir hann um vinnubrögð á Alþingi, virðingu þess og starfshættir. hann vandar ríkisstjórnarflokkunum eðlilega ekki kveðjurnar og það er engin furða. 
 
Eftirfarandi segir hann um þau mál sem ríkisstjórnin leggur fram á þingi:
 
Um nokkur þeirra hefur jafnframt verið bullandi ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna. Nægir þar að nefna Icesave-málið og frumvörp um stjórnarráðið og fiskveiðistjórn. Alþingismenn hafa verið settir í óþolandi stöðu. Við höfum fyrir bragðið setið í skotgröfum kappræðu, átaka og ófaglegra vinnubragða. 
 
Það sem skiptir þó mestu máli er eiginlega þetta sem Atli segir og sýnir að ríkisstjórnin hefur enga stjórn á sjálfri sér né umhverfi sínu:
 
Og ekki bætir úr skák að ríkisstjórnin hefur klofið þjóðina með umsókn að ESB þegar svo brýnt var að ná samstöðu um uppbyggingu eftir hrun og eytt milljörðum í þá umsókn o.fl., í stað velferðar,
skuldavanda heimilanna og annarra forgangsmála. Og ekki er reynt að leita samstöðu um grundvallarmál, svo sem stjórnarskrána, skipan ráðuneyta o.fl. sem breið samstaða þarf að vera um.

Kristinn Haukur með örn

Kristinn Haukur
Hún var í sjálfu sér dálítil skondin fréttin á blaðsíðu tvö í Morgunblaðinu í morgun. Þar var sagt frá sárum erni og mynd birt af gömlum skólabróður mínum Kristni Hauki með örninn í fanginu. Er alveg viss um að fuglafræðingur sem ber nafnið Haukur hefur oft fengið á sig misgóða orðaleikjabrandara.

Alltaf hefur mér þótt stórmerkilegt að sjá örn. Eitt sinn sátum við nokkur ofarlega í Þaralátursnesi sem er á milli Reykjarfjarðar og Þaralátursfjarðar á Hornströndum. Við snæddum í mestu makindum nesti í skjóli. Bratt var niður og útsýnið magnað. Þá gerist það allt í einu að örn flýgur rétt hjá okkur í sömu hæð. Ekkert okkar var með myndavél handbæra en í miklu óðagoti náði ég minni og tók nokkrar myndir. Þá var örninn auðvitað kominn langt í burtu og myndirnar reyndust í þokkabót hreyfðar þegar þær komu úr framköllun.

Eitt sinn vorum við, niðjar hjónanna Skúla skipstjóra Skúlasonar og Guðrúnar Jónsdóttur, á ættarmóti í Stykkishólmi. Við ókum upp að Helgafelli og gengum upp. Á undan var ítarlega farið í hefðina, ekki síst fyrir börnin. Hringina í kringum leiði Guðrúnar Ósvífursdóttir, og svo var rölt upp í þögn og ekki mátti líta til hægri eða vinstri enda allt gert til að geta borið fram óskina uppi á fjallinu.

En þar sem ég hafði svo oft gengið á Helgafell og óskir mínar aldrei ræst væri ég frekar að skoða útsýnið á göngunni. Skyndilega sá ég örn sem hnikaði hringi fyrir ofan okkur og í æsingnum hrópaði ég: Þarna er örn ... Held að flestir hafi litið upp og þar sem var óskin ónýt fyrir flestum. Fyrir þetta skammaðist ég mín doldið.

Nokkru eftir að upp var komið vakti ein systir mín athygli mína á því að dóttir mín, sem þá var tíu ára, var orðin óvenju þögul, en hún kippir í kynið og hefur afar mikið líkst öðrum kvenkyns úr ættinni, frekar vel máli farin og liggur sjaldnast á skoðunum sínum. Við karlarnir eru hins vegar þöglir og íhuglir ...

Jæja, ég finn stelpuna og sé að hún ráfar um þögul og ein. Hvað er að, spyr ég, með mikilli fyrirframgerðri samúð en fæ ekkert svar. Aftur og aftur reyni ég og líst eiginlega ekkert á blikuna. Loks, þar sem ég sit með hana í fanginu kemur svarið: Ég hélt ég mætti ekki tala fyrr en óskin mín hefði ræst. Óskaplega þótti mér vænt um hana á þessari stundu.


Eyþór á þing

Eyþór Arnalds ætti að stefna á framboð í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Hann er drífandi og duglegur maður, hefur staðið sig vel sem oddviti í Árborg. Við þurfum nýtt fólk á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Eyþór á erindi þangað. Ég er þess fullviss um að hann verður góður fulltrúi fyrir alla Sunnlendinga.
mbl.is Stefnir ekki á framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá Sjálfstæðismönnum í kraganum

Með því að kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi hefur samþykkt opið prófkjör hefur línan verið lögð fyrir önnur kjördæmisráð flokksins. Þau munu öll án efa samþykkja samskonar tillögur enda varla hægt annað.

Ég var dálítið hræddur um að einhverjir möguleikar væru á því að kjördæmisráðin myndu vilja lokað prófkjör eða láta þröngan hóp velja á listann. Sem betur fer varð það ekki niðurstaðan Sjáflstæðismanna í kraganum og því ber að fagna.


mbl.is Tillaga um opið prófkjör samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verndum Gálgahraun

Gálgahraun

Gálgahraun er eitt af stórkostlegustu stöðum við sjó á höfuðborgarsvæðinu, bæði sem náttúruundur og útivistarsvæði. Samt þekkja það svo fáir og ekki margir sem þangað leggja leið sína. Það breytir því ekki að gildi þess er mikið enda munun augu fólks smám saman opnast.

En hvar er Gálgahraun? Til að leysa úr því í eitt skipti fyrir öll fylgir hér mynd af hluta höfuðborgarsvæðisins. 

Þarna rann hraun fyrir um sjö þúsund árum, alla leið frá Búrfelli, um Búrfellsgjá sem hvort tveggja teljast til náttúruundra og eru ofan við Garðabæ. Þaðan rann hraunið um tíu kílómetra og í sjó fram.

Nafnið er þannig til komið að í norðvesturhluta hraunist heita Gálgaklettar og Gálgaflöt. Nafnið ber með sér kulda og dauða og vissulega er það svo. Þarna var voru sakamenn teknir af lífi og gengu þá líklega Sakamannastíg sem liggur að klettunum. Myndina hér fyrir neðan tók ég af Gálgaklettum.

850930-58

Sakamannastígur lá af Fógetastíg sem enn má sjá og lá yfir hraunið til Bessastaða. Víða á suðuvesturhorninu má sjá staði þar sem umferð kynslóðanna í hundruðir ára hefur mótað veg í land og hart hraun. Þannig er það með Fógetastíg sem líka er kallaður Álftanesstígur. Einnig má nefna Sporhelludal skammt frá Hengli, þjóðleið efst á Hellisheiði og Selvogsgötu sem liggur t.d. frá Helgafelli og yfir Grindaskörð.

Fleira merkilegt tengist Gálgahrauni. Ástæðan fyrir því að ég rita hér um Gálgahraun er ekki aðeins sú að mér þyki mikið varið í það heldur ekki síður vegna þess að í Morgunblaðinu í dag ritar Eiður Guðnason, fyrrum þingmaður, ráðherra og sendiherra, grein um hraunið. Hann vekur athygli á því að bæjarstjórnin í Garðabæ ætli að stórskemma þetta bæjardjásn. Leggja á veg eftir því endilöngu. 

Áftanesvegur

Eiður segir í niðurlagi greinar sinnar:

Þess vegna er mælst til þess að kjörnir trúnaðarmenn fólksins í bæjarstjórn Garðabæjar láti nú skynsemina ráða. Sýni í verki að þeir beri virðingu fyrir náttúrunni og varðveiti þá gersemi sem Gálgahraunið/Garðahraunið er svo komandi kynslóðir fái einnig notið þessarar perlu. Það er skylda ykkar við framtíðina.

Ég tek heilshugar undir þessi orð Eiðs og raunar skil ég ekki í fólki hvernig það getur virt Gálgahraun og söguna svo lítils að það vilji stórskemma þessar gersemar sem Eiður nefnir svo.

Loks er hérna mynd sem er af fyrirhuguðaðri vegalagningu yfir Gálgahraun. Takið eftir því hversu myndin er góð að hún sýnir glögglega hvernig hraunið hefur runnið í sjó fram. Það er sv skýrt afmakað til vestur og austurs. Nú á að leggja vegi og krossgötur nær því ofan í hinn forna Fógetaveg. Og ég spyr til hvers við höfum öðlast þvílíka tækni og burði til þess eins að eyðileggja það sem okkur er kært?

Hugmyndina eiga án efa einhverjir tæknikratar sem þekka ekki umhverfið og bera enga virðingu fyrir því. Ég fæ ekki séð hvers vegna þessar krossgötur hefðu ekki mátt vera miklu sunnar, jafnvel á gamla Álftanesveginum. Fullyrða má að þessi framkvæmd er tómt rugl, fjáraustur sem engan tilgang hefur. Þess í stsað er Gálgahraun stórskemmt. Og bíðið bara. Næst verður skipulögð byggð í þessum þremur þríhyrningum sem krossgöturnar mynda.

Þetta heitir einfaldlega gengisfelling á gæðum lands og sögu. Verndum Gálgahraun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband