Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
Ættin sem bera af í gáfum eða ...
30.6.2012 | 22:09
Konungsveldi á heima í ævintýrum, rétt eins og galdrakallar og -kellingar. Sá fyrsti sem er valinn kann að vera foringi, en genin vatnast út, erfingjar hans eru bara eins og allir aðrir. Konungsætt verður aldrei sú sem af ber af gáfum eða einhverjum hæfileikum. Hún er uppsafn af tildri og hégómaskap, geymsla á fortíðarþrá. Framar öllu er konungsveldið svo langt frá lýðræði sem mest má vera. Eða hvað?
Þversögnin í þessu er þó sú að þetta er það sem margar þjóðir óska sér, meirihlutinn getur ekki hugsað sér annað. Stærsti hluti Breta vill halda í drottninguna sína, tekur ástfóstri við niðja hennar, elskar og hatar þá á víxl eftir því hvernig þeir axla erfðir sínar.
Þannig er þetta ábyggilega eins með Norðmenn, Svía, Dani, Hollendinga, Spánverja og alla hina. Er Spánverjar losnuðu við Frankó tóku þeir upp konungsveldi, lýðræðislega.
Þannig er nú mannskepnan, tómar þversagnir. Persónulega finnst mér konungsveldi tómt rugl en viðurkenni um leið rétt annarra til að halda í þannig fyrirkomulag.
Vilja að Noregur verði lýðveldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Speki stjórnmálafræðingsins er viðbrugðið
30.6.2012 | 18:16
Prófessor í stjórnmálafræði segir ýmis teikn á lofti um það að kjörsókn verði minni en venja hefur verið.
Halló ...! Er ekki ljóst að kjörsókn er núna miklu lakari en í fyrri kosningum. Þarf prófessor í stjórnmálafræði til að malbika eitthvað um málið?
Þetta er eins og það þurfi veðurfræðing til að fullvissa mann um að sól sé úti og hiti nær tuttugu gráður.
Og prófessorinn vill ekki fullyrða of mikið og segir að komi fleiri á kjörstað muni kjörsókn ábyggilega aukast. Og hann segir að betra sé að fara eftir tölum um kvöldmatarleytið.
Nú er ég ekki prófessor í stjórnmálafræði og síður en svo veðurfræðingur. Hitt get ég fullyrt með rökum að kjörsókn eykst eftir því sem fleiri mæta til að kjósa. Kjörsókn mælist auk þess betur samkvæmt tölum klukkan tíu í kvöld heldur en um kvöldmatarleytið
Og til að toppa þessa speki geti ég jafnframt fullyrt að það verði sól svo lengi sem ský skyggi ekki á.
Sinnuleysi gagnvart kosningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hver tapar á lélegri kjörsókn?
30.6.2012 | 18:06
Minni kjörsókn gæti þýtt lakari útkoma fyrir Ólaf Ragnar Grímsson. Hann er með yfirburðastöðu samkvæmt skoðanakönnunum og stuðningsmenn hans kunna að vera værukærari en aðrir. Hins vegar má leiða að því líkum að stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur séu ákveðnari í því að skipta um forseta og með það á oddinum er líklegra að þeir mæti á kjörstað.
Þetta er svo gáfuleg útskýring að hún gæti hafa verið hnoðuð í bakaríi stjórnmálafræðings. Fleiri geta fleiþóri spekúlerað og lagt fram tilgátur.
Það yrði aldeilis fár ef núverandi forseti tapar vegna lélegrar kjörsóknar. Nokkuð sem ekki var fyrirséð og alls ekki kom fram í skoðanakönnunum enda ekki spurt hvort kjósendur ætli yfirleitt að mæta á kjörstað þrátt fyrir fylgispekt við einhvern frambjóðanda.
Persónulega er ég nú nær fullviss að Ólafur Ragnar muni verða kjörinn, en ...
Minni kjörsókn hingað til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viljandi eða óviljandi gleymska
30.6.2012 | 15:42
Frambjóðendur í forsetakosningunum eru ekki með áróður á kjördag, sýnist mér. Það er virðingarvert en getur þó verið tvíbeint. Annars vegar skiptir miklu máli að hvetja fólk til að fara á kjörstað, gleyma ekki frambjóðandanum, eða þá að frambjóðendur verði andvaralausir gagnvart trixum annarra.
Þar sem ég hef menntun í markaðsmálum og hef talsvert starfað í almannatengslum pældi ég í því í gær hvernig frambjóðandi gæti vakið athygli á sér á kjördag. Minntist ég þá gamla brandarans úr Íslenskri fyndni. Kona nokkur var nokkuð utan við sig fór út í búð á inniskónum (sem líklega þótti hneyksli á sjöunda áratugnum). Eftirá var hún spurð hvernig henni hefði liðið þegar hún uppgötvaði þetta. Það var svo sem ekkert mál, sagði hún. Ég gekk bara dálítið hölt! ...
Mér datt í hug að Ólafur Ragnar hefði átt að koma með aðra hendina í fatla. Þá fengi hann góða umfjöllun í fjölmiðlum, allir myndu minnast axlarbrotsins. Þóra gæti þess vegna komið á inniskónum og sömuleiðis fengið fína umfjöllun og svo framvegis. Mér kom þó ekki í hug að láta frambjóðandann gleyma persónuskilríkjum heima og fara þannig á kjörstað
Fínt trix, sárasaklaust og fjölmiðlar gleypa við því.
Auðvitað getur líka verið að ekkert misjafnt sé að baki þessarar gleymsku.
En var þá kosningastjórnin að gleyma sér ...?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Oflof
30.6.2012 | 10:49
Sumir rita langt mál í dagblöð og bloggi og komast aldrei að efninu. Þeir eru til sem vilja rita knappt mál og þróa ósjálfrátt með sér stíl sem er í senn oft meiðandi og rangur. Svo eru snillingarnir til sem þurfa ekki mörg orð til að koma hugsun sinni til skila.
Það gladdi undirritaðan nú í lokasennu kosningabaráttu að sjá tvo hlédræga heiðursmenn, þá Indriða á Skjaldfönn og Pétur lækni Pétursson, stíga fram á ritvöllinn, annar í Bændablaðinu 20. júní sl. og hinn í Morgunblaðinu þann 27. júní sl. og flytja sitt mál af rökfastri sanngirni, hógværð og mildi hins sanna mannasættis. Mikið happ er það Þóru Arnórsdóttur í hennar þunga róðri að eiga slíka háseta.
Þetta er ábyggilega stysta greinin í Morgunblaðinu í morgun. Hún er eftir Lárus Helgason frá Kálfafelli í Fljótshverfi. Engin deili kann ég á manninum en tek ofan fyrir honum.
Í grein sinni grípur Lárus til gamals stílbragðs sem er í því fólgið að hæla þeim úr hófi fram sem hann vill ræða um. Forðum daga var stílbragðið kallað oflof. Oft greina menn ekki oflofið, halda það einfalt hól sem reynist svo vera hið argasta háð. Og lesandinn sem nær þessu glottir við tönn, en ég hló, gat ekki annað.
Lárus nefngreinir tvo menn og a milli línanna segir hann einfaldlega að þeir safni ekki mörgum atkvæðum fyrir sinn forsetaframbjóðanda, ef til vill þvert á móti.
Steingrímur Thorsteinsson orti á sinni tíð:
Með oflofi teygður á eyrum var hann,
svo öll við það sannindi rengdust,
en ekki um einn þumlung hann vaxa þó vann.
Það voru'aðeins eyrun, sem lengdust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Pólitísk látalæti Ögmundar
29.6.2012 | 09:50
Lítil frétt á mbl.is vakti athygli mína í gær. Freyja Haraldsdóttir, fötluð kona, fær ekki að fara með aðstoðarmanni í kjörklefa í forsetakosningunum. Hún verður að þiggja aðstoð frá kjörstjórn ella fær hún ekki að kjósa. Freyja segist velja síðari kostinn. Ég skil hana vel.
Þá stendur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, upp og veifar ólmur til fjölmiðla og vill fá að komast að. Sá maður sleppir aldrei góðu tækifæri til að vekja athygli á sjálfum sér. Maðurinn telur sig umkominn að biðja fatlaða einstaklinga afsökunar að lögum hafi ekki verið breytt svo þeir geti farið í kjörklefann með aöðstoðarmanni að eigin vali. Í fjölmiðlum segist Ögmundur ætla að lagfæra þetta.
Gott hjá manninum, hann, einn og sér er þess umkominn að breyta lögum um þessi efni. Alþingi og aðrir alþingismenn koma þar hvergi nærri.
Ögmundur Jónasson svaf á verðinum. Hann svaf sem alþingismaður og hann hefur sofið vært sem innanríkisráðherra, ekki sinnt starfskyldum sínum, er á sama báti og aðrir ráðherrar í þessari vondu ríkisstjórn.
Ögmundur veit mætavel að Sigurður Kári Kristjánsson fyrrum alþingismaður lagði margoft fram frumvörp til breytinga á kosningalögum þess efnis að fatlaðir gæti fengið að fara í kjörklefann með eigin aðstoðarmann. Mogginn segir frá þessu í frétt í morgun og getur um að Sigurður hafi lagt fram þessi frumvörp á árunum 2005, 2006 og 2010.
En Ögmundur veit ekkert um þetta, hann var sofandi, og það voru fleiri alþingismenn. Frumvörpin döguðu uppi á þinginu, fengu ekki afgreiðslu.
Núna er Ögmundur hins vegar glaðvaknaður enda telur hann sig geta vakið athygli og kannski atkvæði fyrir snöfurmannleg viðbrögð við vanda þeim sem Freyja Haraldsdóttir og fleiri eiga við að etja. Út af fyrir sig er það bara gott ef lögunum verði breytt, en drottinn minn, mann klígjar við pólitískum látalátum Ögmundar.
Málið er að breyting á lögunum í haust gagnast engum í forsetakosningunum á laugardaginn. Eina ráðið er eins og Freyja segir sjálf í Moggafréttinni og hún á þar með rétt á því að kjósa núna:
Fyrir mér er það algjörlega augljóst að þegar lagaákvæði í almennum lögum gengur gegn mannréttindaákvæðum þá þarf það lagaákvæði að víkja.
Skrum forsetaframbjóðanda
28.6.2012 | 13:18
Væri ég forseti hefði ég fyrir löngu borið mig saman við fólkið í landinu um hvort það vildi veita ákveðnum ráðherrum lausn. Þetta eru óvenjulegar aðstæður sem við glímum við í dag, og það getur þurft að taka á því með óvenjulegum lausnum, ef fólk bregst skyldum sínum og ábyrgð.
Þetta segir forsetaframbjóðandinn Andrea Ólafsdóttir.
Ég skil alls ekki svona tal. Bera mig saman við fólkið í landinu ... Hvernig skyldi sá samanburður fara fram?
Auðvitað er þetta ekkert annað en lýðskrum, æfingar sem standast engan veginn skýringar fræðimanna á stjórnarskránni.
Sem betur fer er frambjóðandinn ekki í nokkurri hættu að verða kjörinn. Svo er hún búin að opna bókhaldið sitt upp á gátt. Þar geta menn séð hverjir veittu henni þessar 30.000 krónur sem hún hefur fengið í styrki.
Valdsvið forseta túlkað frjálslega
28.6.2012 | 10:27
Forsetakosningar eru hins vegar ekki réttur vettvangur til þess að gera út um valdsvið forseta og þaðan af síður að það geti farið eftir því hver kjörinn er forseti hverju sinni, hvert valdsvið hans er talið.
Mér finnst þetta afar skynsamlega mælt og hefði nauðsynlega þurft að hafa komið fram fyrr í aðdraganda forsetakosninganna. Þannig er ritað, og mun meira af svipuðum nótum, í grein í Morgunblaðinu í morgun eftir sjö manns. Suma þeirra kannast ég dálítið við og ber mikla virðingu fyrir þeim. Höfundarnir heita: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garðabæ, Benedikt Jóhannesson, stæðrfræðingur, Hallgrímur B. Geirsson, hrl., Hörður Sigurgestsson, rekstrarhagfræðingur, Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi.
Þarna er tekið á umræðu sem fleirum en mér hefur gramist. Ég hef ekki getað skilið hvernig forsetaframbjóðendur geta túlkað stjórnarskránna eftir vild, leyft sér jafnvel að fullyrða að vald embættisins leyfi afskipti af löggjafarvaldinu. Rétt eins og sjömenningarnir segja í grein sinni þá verður forseti að gæta að þingræðisreglunni:
Samkvæmt þessu getur forseti yfirleitt ekki beitt valdi nema með atbeina ráðherra. Fljótt á litið mætti ætla að forseti réði nokkru um stefnu og aðstöðu ráðherra, þar sem hann samkvæmt 15. gr. stjskr. skipar ráðherra og veitir þeim lausn. En hér verður að gæta þingræðisreglunnar, sem áður hefur verið minnst á. Samkvæmt henni ber forseta, þrátt fyrir 15. gr. stjskr. að skipa ráðherra og veita þeim lausn í samráði við Alþingi eða meirihluta þess. Stjórnarathafnir ráðherra, sem tækju við skipun í ráðherraembætti eða sætu í ráðherrastóli andstætt vilja meirihluta þings yrðu að vísu formlega gildar en þeir mundu baka sér ábyrgð. Kæmi þá auðvitað til árekstra á milli þings og forseta og er hugsanlegt að þeir leiddu til frávikningar hans, ef þrír fjórðu þingmanna yrðu honum andstæðir.
Er það lausn að kippa lýðræðinu úr sambandi?
27.6.2012 | 11:02
Eitt af því merkilegasta sem ég las í morgun var eftirfarandi á vef Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.
Evran gerir þjóðir gjaldþrota vegna þess að efnahagsleg mistök fá ekki leiðréttingu í gengi gjaldmiðilsins. Spánn getur ekki af eigin rammleik komið sér út kreppunni þar sem eina raunhæfa útgönguleiðin, gengisfelling, er lokuð.
Innri gengisfelling, þ.e. niðurfærsla launa og verðlags, tekur mörg ár að framkvæma. Forsenda innri gengisfellingar er að samstaða sé um það að þjóðin lifi um efni fram. Slík samstaða er nær ómöguleg því ólíkir þjóðfélagshópar ná ekki saman um slíka greiningu. Lýðræðislegar kosningar eru ekki til þess fallnar að leiða fram sameiginlega niðurstöðu.
Til að verja evruna verður að kippa lýðræðinu úr sambandi, líkt og gert var í Grikklandi - eins og Gavin Hewitt hjá BBC bendir á.
Ríki gera vissulega mistök í efnahagsmálum sínum en oftar en ekki er alþjóðlegt umhverfi síst af öllu hagstætt rekstri þess. Ekki þurfa mistök að koma til, síður en svo. Rétt eins og hér á landi er það lífsnauðsynlegt að eiga möguleika á að leiðrétta gengi gjaldmiðilsins.
Margir andstæðingar krónunnar benda á að gengi hennar sé nú aðeins brot af virði hennar frá upphafi. Þetta er auðvitað í eðli sínu rangt vegna þess að gengið endurspeglar yfirleitt stöðu gjaldmiðilsins á hverjum tíma. annað eru bara einfaldara reikningsæfingar. Í tugi ára voru nær einu gjaldeyristekjur þjóðarinnar af sölu sjávarafurða, þær héldu þjóðinni á floti. Umhverfið var síður en svo auðvelt eða einfalt. Aflabrögð gátu verið mismunandi og einnig markaðir erlendis. Hvort tveggja leiddi til breytinga á gengi krónunnar. Hvað annað?
Ljóst má vera að komist einstök ríki í vanda með efnahagsmál sín þá geta þau stærri gert það líka sem og ríkjabandalög. Evrópusambandið og Evran eru ekki undanskilin. Vandinn er bara sá að einfaldara ætti að vera að stýra íslenskum efnahagsmálum en þeim þar sem tuttugu og sjö ríki koma saman með tuttugu og sjö eða fleiri kröfur um úrlausn mála. Má vera að slíkt sé vonlaust verkefni og því einfaldast að kippa lýðræðinu úr samanbandi og láta stjórnina kommiserunum í Brussel eftir.
Kæra ber Gunnar til sérstaks eða biskups ...
27.6.2012 | 10:44
Þegar ég sá Gunnar á völlunum á bikarleik KR og Breiðabliks í gær grunaði mig ekki að þessi dagfarsprúði knattspyrnuunnandi hefði eitthvað misjafnt í hyggju.
Hver trúir nokkru misjöfnu uppá mann með sitt saklausa útlit og yfirlit píslarvættis.
Nokkrum mínútum síðar hafði hann stoðið Aðaldollunni frá KR
... gaf hana Víkingum í skiptum fyrir kaffi og snúða sem hann aftur gaf stuðningsmönnum Breiðabliks á leiknum í Frostaskjólinu ...
Fléttan er rosaleg, úpæld, ósvífin og snilldarleg í senn. Nokkuð sem maður sér bara í góðum bíómyndum.
Hvað eiga annars Víkingar að gera með dolluna? ... þykjast vera Íslandsmeistarar?
Auðvitað á að kæra Gunnar og Fannar til sérstaks saksóknara eða til nýkjörins biskups. Fótboltinn er jú trúarbrögð.
Skyldi hann Davíð annars vita af'essu?Íslandsmeistararnir rændir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |