Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Í þágu hverra eru umræður á Alþingi?

Það er ekki þörf á að breyta þingsköpum til þess að landinu megi stjórna af sanngirni, fyrirhyggju og framsýni. Spyrja mætti þá sem telja að veg og virðingu Alþingis og alþingismanna megi auka með því að breyta gildandi leikreglunum: Í þágu hverra eru umræður á Alþingi? Eru þær í þágu vandaðrar lagasetningar og í þágu þjóðarinnar eða í þágu þeirra sem vilja koma fram breytingum á lögum með illu fremur en góðu og hvað sem þær kosta?

Þetta segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Þetta eru eiginlega orð í tíma töluð og hann spyr ágengra spurninga. Í allt vor héldu stjórnarliðar því fram að þingmenn stjónarandstöðunnar stunduðu málþóf. Um leið var sú skoðun ríkisstjórnarinnar afar áberandi að þingið ætti að afgreiða lagafrumvörp frá henni svo að segja umræðulaust.

Sturla rekur andstöðu þingmanna vinstri grænna við breytingar á þingsköpum sem höfðu það í för með sér að ræðutími var styttur og málefnalegar umræður teknar upp. Þetta mátti Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, ekki hugsa sér. Hann vildi ótakmarkaðan ræðutíma. Sú slæma breyting hefur nú orðið á, að sá sami Steingrímur er nú í ríkisstjórninni. Þar hefur hann gleymt öllum þeim gildum sem hann trúði á og hefur frá því að vera að eigin sögn róttækur stjórnmálamaður orðið að afturhaldssömum embættismanni.

Vandi þingisins eru almannatengslin. Fréttamat margra fjölmiðla eru ágreiningsmálin á þingi, ekki löggjafarstarfið sem skilar miklum og nauðsynlegum árangri. Ríkisútvarpið vill helst láta heyrast og sjást þegar þingmenn eru á öndverðum meiði, tíminn takmarkaður og þingforseti slær í bjölluna. Þetta er síður en svo upplýsandi fréttamennska og á borð við það þegar sami fjölmiðill segir það eitt af löggjafarstarfi á Ítalíu eða Suður-Kóreu er þingmenn missa stjórn á sér og slást.

Stjórn Alþingis er eiginlega frekar meðvitundalaus um almannatengsl. Vefur þingsins er til dæmis hræðilega lélegur og í raun mjög erfitt að leita að upplýsingum, sérstaklega fyrir óvana. Enginn gegnir starfi blaðafulltrúa þingisins eins og ætti að vera.

Því er ekki furða þó um það sé einna helst rætt í saltpottinum í Laugardal hversu þingmenn rífist mikið og ástundi málþóf. Ég lagði það þó á mig að fylgjast með hinu svokallaða málþófi og gat ekki annað heyrt en að þar færu fram afar málefnalegar og yfirvegaðar umræður.


Konur dæma Jóhönnu fyrir lagabrot

Gerir fólk sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að fengið á sig dóm í héraðsdómi Reykjavíkur? Þar var hún dæmd til greiðslu miskabóta vegna þess að hún sýndi umsækjanda um starf í ráðuneytinu lítilsvirðingu.

Gerir fólk sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að hafa að áliti kærunefndar jafnréttismála brotið jafnréttislög vegna þess að hún skipaði karl en ekki konu sem skrifstofustjóra í ráðuneyti sínu?

Ef til vill skiptir eftirfarandi ekki höfuðmáli en segir nú sitthvað um stöðu konunar í embætti forsætisráðherra: Í kærunefndinni sitja tvær konur og einn karl. Dómari í héraðsdómi Reykjavíkur í málinu gegn Jóhönnu var kona. Sem sagt kona brýtur jafnréttislög og er dæmd af konum fyrir vikið. Getur málið verið verra?

Jú, konan sem brotið var á er samfylkingarmaður rétt eins og forsætisráðherrann. Skiptir það einhverju máli?

Það þykir öðrum samfylkingarmanni sem kallar það súrrealístiskt. Stefán Ólafsson, prófessor, hefur haft það að atvinnu sinni að hafa í stjórnmálaþátttöku sinni endaskipti á sannleikanum eftir því hverja hann gagnrýnir. Viðmiðunin er sú að Samfylkingin hafi alltaf rétt fyrir sér. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur ekki beðist afsökunar á lagabrotum sínum. Sér ekki brot sín ekki frekar en að Stefán Ólafsson getur séð þau. Hún lét árangsurslaust „rýnihóp“ fara yfir úrskurð nefndarinnar í þeirri von að finna eitthvert haldreipi fyrir sig. Stefán telur að sök málsins sé hjá kærunefndinni. Og að hætti Jóhönnu vill hann láta gera úttekt á starfsháttum nefndarinnar líklega í því skyni að finna eitthvert haldreipi fyrir formann sinn.

Hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum myndi svona dómur þýða aðeins eitt, afsögn forsætisráðherrans. En auðvitað segir hann ekki af sér. Ráðherrann hefur þolað alvarlegri kárínur svo sem tap í þjóðaratkvæðagreiðslum án þess að hún hafi hugleitt afsögn.Það breytir því ekki að áður en konan varð forsætisráðherra vílaði hún ekki fyrir sér að krefjast afsagnar annarra ráðherra lentu þó ekki í jafn alvarlegum jafnréttismálum. 

Björn Bjarnason, fyrrum alþingismaður og dómsmálaráðherra, ritar á heimasíðu sinni afskaplega fróðlega grein um málið. Í henni ber hann saman brot Jóhönnu og dóm hennar við það er hann skipað karl sem hæstaréttardómara en ekki konu og fékk fyrir vikið á sig álit frá kærunefndinni. Eins og fram kemur í grein Björns er hér ólíku saman að jafna.


Forsetaembættið er ávísun á stórkostleg vandræði

Stjórnarskráin er ekki skýr varðandi hlut forsetans í stjórnskipuninni. Staða hans er gamaldags, dregur alltof mikið dám af stöðu konungs Danmerkur í þá tíð er hann var einnig konungur Íslands. Við stofnun lýðveldisins voru menn hræddir við að taka skrefið til fulls og losa þjóðina fullkomlega við þau völd sem konungur og síðan forseti gengdu.

Forsetaembættið var hér áður fyrr afar einfalt embætti, ekkert annað en staða einvalds með þingbundinni stjórn. Á síðustu árum virðist vera að hægt sé að breyta embættinu eftir hentugleikum og vilja þess sem hefur gengt því. Forsetinn átti aldrei að skipta sér af þingstörfum og hann á ekkert erindi í þau.

Frambjóðendur til forseta ganga nú svo langt að sumir þeirra telji sig mega leggja fram frumvarp til laga á Alþingi. Þetta er ávísun á enn meiri vandræði. Hvað verður er ráðherra neitar að gera það eða hann gerir það en hvetur til þess að það sé fellt? Hefur þessi þjóð efni á að hafa stöðugt stríð milli þings og forseta?

Við þurfum að losa okkur við forsetaembættið og gera það skýrt að hér ríkir þingræði. Ekkert annað, hvorki forseti né ESB. Vörum okkur á að flækja ekki lýðræðið í undantekningar, það þarf ekki að vera svo flókið. Svíar hafa farið þá leið að aftengja konungsembættið að mestu við þingræðið og ríkisstjórn þó þeir hafi ekki afnumið einveldið. Við þurfum að ganga lengra og fella niður embætti sem í sjálfu sér hefur engan tilgang en veldur bókstaflega óstjórnlegum vandræðum.


mbl.is Andrea myndi leggja fram frumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frambjóðandi gerir aðra tortryggilega

Í síðustu viku þessar leiðinglegustu kosningabaráttu Íslandssögunnar hefur örvænting gripið einn forsetaframbjóðandann, þann sem mælist með næstminnst fylgið. Í stað þess að berjast hnakkreistur fyrir málstað sínum reynir hann að gera aðra frambjóðendur tortryggilega vegna framlaga í kosningasjóð. vonast líklega eftir fleiri atkvæðum með þessu móti

Þetta er ekki stórmannlegt. Gerir kosningabaráttuna ekki skárri og síst af öllu verður þetta til að afla næstminnstu fleiri atkvæða. Afskaplega slæmri stjórn á kosningabaráttu er án efa hluti skýringarinnar á sæmu gengi viðkomandi. Hin skýringin getur verið að frambjóðandinn var gjörsamlega óþekktur fyrir framboð hans.

Staðreyndin er einfaldlega sú að langflestir þeirra sem ætla að kjósa eru búnir að gera upp hug sinn. Mikið má á ganga svo að breytingar verði á kjörfylgi á kjördag frá því sem skoðanakannanir hafa sínt. Og ljóst má vera að forseti verði endurkjörinn. 


mbl.is Frambjóðendur opni bókhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Femínistafélagið hlífir forsætisráðherra

Hún er einstaklega hávær, þögn Femínistafélags Íslands vegna niðurstöðu héraðsdóms um að Jóhanna Sigurðardóttir, forætisráðherra, hafi brotið jafnréttislög. Það vakti því athygli mína er visir.is birti stutt viðtal við ráðskonu félagsins um þetta vandræðalega mál. 

Í fréttini segir eftirfarandi:

Steinunn dregur ekki dul á að alvarlegt sé þegar forsætisráðherra brýtur jafnréttislög. Þar að auki telur hún viðbrögð Jóhönnu við niðurstöðunni frekar slæm. Hins vegar bendir hún á að ljósið í myrkrinu sé að Jóhanna baðst afsökunar í Fréttablaðinu í dag. Það finnst Steinunni merki um auðmýkt.

Þetta þarf leiðréttingar við. Jóhanna Sigurðardóttir baðst aldrei afsökunar á gjörðum sínum, hvorki í Fréttablaðinu eða annars staðar. Ráðskona félagsins fer rangt með í viðtalinu því Jóhanna sagði þetta í grein sinni:

Í ljósi niðurstöðu dómsins er sjálfsagt að biðja stefnanda, Önnu Kristínu Ólafsdóttur, velvirðingar á þeim miska sem málið kann að hafa valdið henni.  

Vegna þessara orða hlífir Femínistafélagið forsætisráðherra en leyfir sér að ráðast með offorsi á aðra ráðherra. Félaginu finnst „kaldhænislegt ef femínistar myndu krefjast afsagnar Jóhönnu“. Það hefur þó ekkert vafist fyrir Jóhönnu hingað til hvað ætti að gera við ráðherra sem brýtur lög:

Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka.  

Alltaf hef ég samúð með þeim sem verða rökþrota. Það er svo óskaplega óþægilegt að króast inni í horni og sjá enga útgönguleið.

Gott að hafa stefnu Femínistafélagsins til viðmiðunar í framtíðinni: Ráðherra sem biðst afsökunar á brotum á jafnréttislögum fær samúð Femínistafélagsins.

 


Stjórnmálamaður sem fíflar fólk

„Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög eiga lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.”

Svar:
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi 16. apríl 2004. Tilefnið var að kærunefnd jafnréttismála hafði gefið út það álit að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði ekki virt jafnréttislög við skipan hæstaréttardómara. [Vefsíða Óla Björns Kárasonar, T24]

Nafnkunnur maður sagði í fljótfærni sinni fyrir nokkrum árum að fólk væri fífl. Það var illa sagt. Síðar hef ég velt því fyrir mér hvort í raun væri ekki nokkur sannleikur fólkin í þessum þremur orðum. Sí og æ lætur maður hafa sig að fífli og í raun hrikalega oft að maður er orðinn að fífli.

Svo er það annað mál sem rökræða má fram og aftur hvort er meira fíflið, sá sem trúði á stjórnmálamanninn eða stjórnmálamaðurinn sjálfur.


Velvirðing eða afsökun

Afsökunin

Nokkur munur er á þessum tveimur orðum, afsökun og velvirðing. Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, lætur sér nægja að biðja konu þá, sem hún var dæmd fyrir að brjóta á, velvirðingar. Sem sagt að virða brot sitt til betri vegar. Hún baðst hins vegar ekki afsökunar á brotinu.

Í frétt á visir.is er ranglega farið með staðreyndir og sagt að forsætisráðherra hafi beðist afsökunar á brotinu. Það er auðvitað rangt og væri betra að visir.is færi rétt með staðreyndir. 

Ég geri alls ekki ráð fyrir að þetta sé viljandi gert, miklu frekar fljótfærni eða blaðamaðurinn hafi ekki nógu glöggan skilning á íslensku máli. 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra biður Önnu Kristínu Ólafsdóttur afsökunar í grein sem birtist í Fréttablaðinu og hér á Vísi í dag. Forsætisráðuneytið hefur, sem kunnugt er, verið dæmt til að greiða Önnu Kristínu 500 þúsund krónur í miskabætur vegna yfirlýsingar sem birt var á vef forsætisráðuneytisins eftir að úrskurðarnefnd kærumála úrskurðaði að ráðuneytið hefði brotið gegn Önnu Kristínu með ráðningu í starf skrifstofustjóra.  

Í niðurlagi greinar forsætisráðherra í Fréttablaðinu í morgun stendur eftirfarandi:

Í ljósi niðurstöðu dómsins er sjálfsagt að biðja stefnanda, Önnu Kristínu Ólafsdóttur, velvirðingar á þeim miska sem málið kann að hafa valdið henni. 

Það er svo annað mál að lítið er risið á hinni meintu jafnréttiskempu Jöhönnu Sigurðarsdóttur, þegar hún annars vegar fer ekki eftir eigin stefnu né biðst afsökunar þegar hún er dæmd fyrir lögbrot. Hrokinn er yfirgengilegur.

Þóru-bolir, Þóru-pylsur, Þóru-andlitsmálning ...

Í Dagskránni sem gefin er út fyrir norðan eru þrjár heilsíðuauglýsingar tileinkaðar kosningabaráttu Þóru (bls. 28-30). Sem er auðvitað ágætt út af fyrir sig og rétt að frambjóðendur minni á sig, ekki veitir nú af. Það er samt eitthvað við þessar auglýsingar sem vekur hjá mér efasemdir um að skipuleggjendur kosningarbaráttu Þóru séu á réttri braut. 
Þóra verður á Glerártorgi í dag. Þar má fá Þóru-boli á sanngjörnu verði. Þóru-andlitsmálning fyrir börnin. Þóra bíður í pylsur. Þóru-dagurinn verður á Akureyri á sunnudaginn. 
Þetta er eiginlega að verða tú möts fyrir mig. 
Ég vil bara fá að velja á milli frambjóðenda sem eru líklegir til að hefja sjálfa sig út fyrir verkefnið sem þeir bjóðast til að taka að sér. Að verða forseti Íslands og gerast sameiningartákn þjóðar sem á í vanda og er að reyna að ná áttum eftir mikið pólitískt og siðferðileg áfall. 
Þóru-bolir eru ekki beint heillandi vegvísir í kjörklefann fyrir okkur sem erum enn ekki viss í okkar sök.
 
Þannig skrifar Björn Valur Gíslason, alþingismaður vinstri-grænna og þingflokksformaður, á bloggsíðu sína. Sjaldan hef ég verið sammála manninum en núna ég get ekki annað en tekið undir með honum. Þóru-bolir, -pylsur og -andlitsmálning bendir frekar til þess að einhver Þóra sé íþróttafélag en ekki kona í framboði. Fátt í þessu sem undirstrikar virðingu þessa embættis. Hver skyldi nú eiginlega stjórna þessari herferð frambjóðandans?
 
Sá í gær dálítið af kynningu Ríkisútvarpsins á Andreu J. Ólafsdóttur, forsetaframbjóðanda. Hún hélt því fram að forseti geti sett ráðherra af rétt si svona, ef hann vill, og vísar í þjóðina eða almenningsálitið þessu til staðfestingar.
 
Heldur finnst mér forsætisembættið vera komið í mikla pólitík ef hún verður kjörin. Það verður að minnsta kosti ekki með mínu atkvæði. Vil ég þá frekar biðja um Ara Trausta Guðmundsson, þann hógværa og prúða mann, sem virðist hafa svipaða skoðun á embættinu og fjórir fyrstu forsetarnir. 
 
Annars er þessi kosningaundirbúningur, ekki barátta, fyrir löngu komin út í tóma vitleysu þegar frambjóðendur geta fabúlerað um hitt og þetta og um leyð teygt og togað stjórnarskrána eins og hún væri lopapeysa. Eiginlega má segja að allt þetta sé hundleiðinlegt. Er ekki tími til kominn að leggja niður þetta embætti forseta? 

Ætlar Mogginn að leggja moggabloggið niður?

Ég velti því núna fyrir mér hvort Morgunblaðið sé komið á þá skoðun að leggja beri niður moggabloggið. Að minnsta kosti hefur vegur þess minnkað á mbl.is og er orðið að engu í sjálfu í blaðinu.

Fyrir nokkrum árum var tekinn upp sá siður að birta ekki bloggfærslur með fréttum á vefsíðunum. Þess í stað er linkur sem lesendur þurfa að opna sérstaklega til að sjá hverjir hafi bloggað um fréttina. Þetta hefur auðvitað dregið úr lestri hjá þeim sem vilja tengja sig við fréttir.

Núna er linkurinn yfir blog.is horfinn af þeim stað á vefsíðunni sem hann hefur lengi verið, þ.e. fyrir ofan við blað dagsins. Að vísu er box á neðri hæðum vefsíðunnar þar sem vitnað er í nokkur blogg og linkar fyrir ýmsa þætti þess. 

Moggabloggið er að tapa lestri. Það er bara ekki eins og það var fyrir nokkrum árum. Ekki veit ég hversu mikið er að marka Bloggáttina (blogg.gattin.is) en af tuttugu og fimm vinsælustu bloggurunum eru aðeins eða fimm af moggablogginu.

Þar eru engu að síður margir afskaplega góðir höfundar sem leggja verulega margt gott til frétta Morgunblaðsins og þjóðfélagsumræðu og margvíslegan fróðleik. Nefna má fólk eins og Trausta Jónsson, veðurfræðing, Harald Sigurðsson, eldfjallafræðing, Einar Sveinbjörnsson, Marínó G. Njálsson, Emil H. Valgeirsson, Sigurðu H. Guðjónsson og fjölda annarra.

Þá eru þeir ekki upptaldir sem rita pólitísk blogg, menn eins og Jón Magnússon, Ómar Ragnarsson, Páll Vilhjálmsson, Ragnar Arnalds, Björn Bjarnason, Björn Val Gíslason, Einar Kr. Guðfinnsson og fleiri og fleiri.

Enn vantar fjölda mikið lesinna bloggara, toppbloggin; Áslaugu Hinriksdóttur, Ómar Geinsson, Hallgeir Jónsson, Hjördísi Vilhjálmsdóttur, Jón Baldur L'Orange, Sigurð Þorsteinsson, Jón Val Jensson og fleiri og fleiri.

Sé það stefna Morgunblaðsins að draga áfram verulega úr vægi moggabloggsins og jafnvel leggja það niður verður að segja það berum orðum. Flestir blogga vegna þess sem það hefur fram að færa og sumir vilja hafa áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Þess vegna finnst fleirum en mér það afar undarlegt að Morgunblaðið skuli ekki efla moggabloggið heldur þvert á móti vinna gegn því.


Er K2 skattaskjól íslensk hönnun?

Skattaskjól gagnast einungis þeim sem hafa miklar tekjur og eru svo innrættir að þeir vilja ekki greiða af þeim sama skatt og þeir sem miklu minni tekjur hafa. Einhvern veginn er það samt svo að skattar eru mikið umhugsunarefni hjá allflestum þó skilningur sé fyrir því að skattar eigi að fara í samfélagsleg mál eins og heilbirgðismál, menntun og fleira.

Almennt vill fólk borga skatta en einhvers staðar liggja mörk og yfir þau vill eða getur fólk ekki farið. Þegar upp er staðið skiptir samt heimilisreikningurinn miklu meira máli en flest annað.

Það er þess vegna sem ástæða er til að skattar séu hóflegir. Þegar borgaranum ofbýður leitar hann leiða til að draga úr skattgreiðslum sínu. Eftirfarandi er til dæmis alþekkt hér á landi og algjörlega heiðarlegt. Jaðarskattarnir benda til þess að það borgi sig ekki að vinna mikið, það sem eftir stendur af yfirvinnunni fari hvort eð er að stórum hluta í skatta. Fyrir vikið er hvatningin horfin af því að meiri vinna þýðir hlutfallslega meiri skattar. Þannig er há skattlagning er til óþurftar og veldur gríðarlegu tekjutapi ríkissjóðs.

Í fréttinni um Jimmy Carr er getið um svokalla K2-skattaskjól. Fréttin er ekki nógu skilmerkileg vegna þess að hún segir ekkert um það hvers konar fyrirbrigði skattaskjólið er. Ég þurfti að gúggla það og niðurstaðan varð þessi í stuttu máli:

  • UK earners 'quit' their job
  • They then sign new employment contracts with offshore shell companies
  • The offshore companies 'rehire' their new employee to the UK but take their earnings
  • The offshore company pays the employee a much lower salary each month, but 'loans' them several thousand pounds
  • These loans can be written down as tax liabilities, thus substantially reducing tax payable to the Government
Þetta ber öll merki íslensku útrásarinnar. Allt saman tilbúningur hannaður til að villa um fyrir yfirvöldum. Hins vegar er ekkert um það sagt hvað allar þessar tilfærslur kosti Jimmi Carr.

 


mbl.is Baðst afsökunar á að nota skattaskjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband