Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Fjallið sem gægist upp fyrir Lág-Esju

Esjan og Ég góni oft á Esjuna enda er hún með afbrigðum fallegt fjall. Og nú er skammdegissólin að setjast þennan laugardag og athygli mín beinist að 

Esja2

Lág-Esju og fjallinu handan við hana. Það sést vel á meðfylgjandi mynd en til vonar og vara hef ég dregið hring utan um það, þar sem það gægist upp Lág-Esju. Best er að tvísmella á myndina og til að fá hana stærri.

Þetta er fjall sem ber held ég tvö nöfn, annars vegar Selfjall og hins vegar Tindastaðafjall. Milli þess og Lág-Esju er Blikdalur, stór og fallegur dalur sem klýfur vestanverða Esju.

Á kortin hef ég dregið línu þaðan sem myndin er tekin í Reykjavík og yfir Lág-Esju og á fjallið. Vonandi átta lesendur sig á staðháttum.  

Þarna er stórskemmtileg gönguleið sem ég hef merkt með bláu. Upphaf hennar er til dæmis frá gamla þjóðveginum við mynni Blikdals og annað hvort upp Lág-Esju eða upp fjallið norðanmegin dalsins. Sú leið er líklega skárri, þá er öll hæðin tekin í einum áfanga í stað þess að arka upp Lág-Esju sem er löng ganga upp í móti.

DSC_0149 Dýjadalshnúkur til Akrafjalls, tvípan

Blikdal þekkja ekki margir og fáir fara þessa leið. Hún er samt einstaklega falleg. Minnir að gangan fyrir dalinn taki í allt svona fimm til sjö tíma. 

Tindarnir við sem fjallið er kennt við eru tilkomumiklir í fjarska og þegar upp á þá kemur eru þeir frábær náttúrusmíði.

Myndin hér vinstra megin er tekin við Dýjadalshnúk og er horft niður eitt skarðið á milli tindanna. Í fjarska er Hvalfjörður og Akrafjall sem kann að virðast frekar lítið og ómerkilegt frá þessu sjónarhorni.

Verð að fá að birta hér samseta mynd sem ég setti saman úr mörgum smærri. Hún er af fjallabálknum fyrir norðan Hvalfjörð. Hef ekki komið því við að setja örnefni inn á hana. Þarna er Blákollur og Hafnarfjall í vestri, síðan Skarðsheiði og Heiðarhorn. Endurtek að nauðsynlegt er að tvísmella á myndina og fá hana stærri og betri til skoðunar.Skarðsheiði


Verðbólguáhættan og forsendubresturinn

Aukin vissa um endurgreiðsluferil verðtryggðra lána umfram önnur lán leiðir beint af því að verðbólguáhættunni er eytt með verðtryggingu. [...] Verðtrygging skapar þannig vissu um verðmæti endurgreiðslnanna, jafnvel þó að langt sé þar til þær falla til og verðlag þróist með óvæntum hætti í millitíðinni.

Lúðvík Elíasson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, ritar í Morgunblaðið í morgun málefnalega grein undir fyrirsögninni „Verðtrygging og skuldavandi“. Ofangreind tilvitnun er úr greininni.

Gera má nokkrar athugasemdir við grein Lúðvíks sem fyrst og fremst er rituð með hagsmuni skuldareigandans fyrir augum. Það er svo sem allt í lagi en ég sakna þess að hann fjallar lítið sem ekkert um hagsmuni skuldarans. Mig langar til að velta fyrir mér stöðu mála með hliðsjón af greininni. 

Með hruninu stökk breyttust verðtryggðar skuldir. Í sjálfu sér skiptir engu máli af hvaða hvötum fólk tók lán eða hvort það hafi átt að gæta að sér. Slíkt eru einungis vangaveltur sem blasa við eftir að ósköpin hafa orðið. Almennt er varhugavert er að ætla almenningi sömu hugsun og fjármálafólki. Í fæstum tilfellum veltir almenningur fyrir sér hvort gíróseðillinn fyrir greiðslu afborgunar af láni sé réttur - það treystir því einfaldlega.

Breytingar á vísitölum sem hafa áhrif á verðtrygginguna eru tiltölulega hægar í augum almennings, koma „aðeins“ fram mánaðarlega - smáhækka með hverjum mánuði. Aftur verður að taka það fram að fæstir telja það forsendu til að aðhafast eitthvað enda er minnið hverfult og nær ef til vill ekki aftur til þess tíma sem afborgun af láni var eðlileg. Ég hugsa til dæmis ekki eins og fjármálaspekúlant.

Forsendan fyrir lánveitingu og lántöku er yfirleitt miðuð við nútímann hverju sinni, sjaldnast að annar aðilinn muni stórgræða og hinn stórtapa. Eftir hrunið hélt lánveitandinn sínu en látakinn stórtapaði. Þar með brustu forsendur fyrir lánum og ekki var lengur jafnræði með aðilum. Hefði skuldarinn hugsað eins og fjámálaspekúlant hefði hann líklega ekki tekið lán nema að skilmálar hefður verið aðrir. 

Rétt er að verðbólguáhættunni er eytt með verðtryggingunni. Gallinn er hins vegar sá að verðtryggingin er einhliða, þar hallast allverulega á skuldarann.

Afleiðing af þessum vangaveltum hljóta því að vera tvær. Annars vegar að skuldari og skuldareigandi standi jafnfætis í viðskiptum sínum. Hér er átt við að laun séu verðtryggð á borð við lánin eða að hvorki laun né lán séu veðrtryggð.

Hins vegar er það krafan um ábyrgð í stjórn efnahagsmála, að verðbólgan sé ekki það eyðandi afl sem geti gert útaf við skuldara. Hingað til hafa stjórnvöld fengið að ráða ferðinni án þess að gerðar séu kröfur um að þau haldi sig innan eðlilegra viðmiðana. Ýmislegt bendir til þess að nú krefjist almenningur hins gagnstæða.

Þetta allt saman er ekki nóg. Sé leyst úr vandanum samkvæmt ofangreindu standa þeir enn í sömu sporum sem óumbeðið hafa stórtapað á lánum sínum vegna þess að varla er hægt að breyta gildandi lánasamningum nema þeir séu á einhvern hátt ólöglegir (sem þó virðist ekki duga í gengislánunum). Tugþþúsundir manna töpuðu á hruni fasteignamarkaðarins og íbúðalán þeirra eru oft hærri en sem nemur skuldunum.

Ekki heldur leysir þetta úr því kreppuástandi sem ofangreint hefur valdið í þjóðfélaginu enda ljóst að slæm skuldakjör og kreppa í eignastöðu fólks á ríkan þátt í samdrætti í atvinnulífinu, atvinnuleysi, gjaldþrotum fyrirtækja og annarri óáran sem veltutap í samfélaginu veldur.


Hverju hefur verið breytti til að þóknast ESB?

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er fjallað um fyrirspurn Atla Gíslasonar, alþingismanns, til innanríkisráðherra og vill hann vita hvaða áhrif hugsanlega innganga i ESB hefði á dóms og löggjafarvald hér á land. Í svari ráðherrans kemur þetta meðal annars fram (feitletranir eru mínar):

Samstarf innan Evrópusamstarfsins gengur lengra en hefðbundið ríkjasamstarf. Þannig eru ýmsum stofnunum Evrópusambandsins, svo sem Evrópuþinginu og dómstól Evrópusambandsins, veittar heimildir til að taka ákvarðanir á sviði löggjafarvalds og dómsvalds sem eru bindandi fyrir aðildarríkin sem og einstaklinga og lögaðila í ríkjum sambandsins. 

Þarna er greinilega talað um fullveldisframsal frá ríki til stofnana ESB. Það leiðir hugann að því hvort Atli Gíslason hefði ekki frekar átt að spyrja forsætisráðherra þessarar þriggja spurninga:

 

  1. Hvaða hlutum stjórnsýslu, laga og reglna hefur verið breytt í kjölfar aðlögunarviðræðnanna ESB í því skyni að uppfylla skilyrði sambandsins um aðild?
  2. Hvenær tóku breytingarnar gildi? 
  3. Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á næsta hálfa árinu? 
Svörin við þessum spurningum eru grundvallaratriði.

 


Gegn átakastjórnmálum - sameinum þjóðina í uppbyggingarstarfinu

fólkTilfinningar eru vanmetin rök. Nú reka eflaust margir upp stór augu og hugsa með sér að þannig sé ekki hægt að meta tilfinningar. Gott og vel, en hvernig getum við þá skilgreint tilfinningu einstaklingsins til maka, barna, ættingja eða vina? Er þá bara rökleysa að tala til dæmis um ást?

Nei, tilfinningar eru fullgild rök í samfélaginu. Við skilgreinum okkur og tökum afstöðu með hliðsjón af þeim.

Ég hef lengi ferðast um landið og haft af því ómælda ánægju og gleði. Við sem njótum útiveru og ferðalaga lítum á landið með djúpri tilfinningu. Við tökum ástfóstri við það, viljum vernda það og verja. Vegna þessa tökum við stundum afstöðu gegn framkvæmdum sem við teljum að séu ekki réttlætanlegar. Það er gott að vera náttúruverndarsinni í Sjálfstæðisflokknum, ekki síst út frá tilfinningalegum sjónarmiðum.

Tilfinningaleg rök fá okkur líka til að staldra við, líta með gagnrýnum augum á samfélagið.  Þess vegna sættum við okkur ekki við afleiðingar kreppunnar, hvorki á eigin skinni né annarra. Við viljum berjast gegn atvinnuleysinu, óréttinum vegna skuldastöðu heimilanna, ólöglegu gengistryggingunni, vondu verðtryggingunni og fátæktinni.
Vegna sömu tilfinninga hafna ég átakastjórnmálum síðustu ára, vil að við reynum frekar að sameina þjóðina í uppbyggingarstarfinu, verkefnum sem vinstri stjórnin hefur vanrækt.

Undanfarin ár hef ég ritað daglega pistla á bloggsíðu mína, sigsig.blog.is. Ég hef tekið þátt í óvæginni samfélagsumræðu, leyft mér að berja á ríkisstjórninni, varið Sjálfstæðisflokkinn þegar þess hefur verið þörf og vakið athygli á góðu starfi og hugmyndum.


Í hverjum mánuði les fjöldi fólks pistla mína sem bendir til að því finnist sjónarmið mín og áherslur vera áhugaverð.
Héraðsflói
Ég óska eftir stuðningi í 6. sætið og hvet um leið sjálfstæðismenn til að fjölmenna á kjörstað og leyfa sér breytingar, hleypa nýju og öflugu fólki á þing.
 
Ofangreint er úr tölvupósti sem skrifstofa Sjálfstæðisflokksin sendi út í dag frá mér til flokksbundinna Sjálfstæðismanna í Reykjavík. 

Samræmd stafsetning á júróunni

Nú berast þær fréttir úr stórríkinu ESB að ein, og aðeins ein stafsetning sé leyfð þegar nafn gjaldmiðilsins er annars vegar. Lettum ku nefnilega hafa dottið í hug sú fásinna að stafa nafn evrunnar eftir sínum eigin málfræðireglum og samkvæmt því vildu þeir skrifa „eiro" í stað „euro". En nú hefur Evrópski seðlabankinn - sem ekkert efnahagslegt er óviðkomandi nema fátæktin sem fær að þrífast í stórríkinu - látið það boð út ganga að ekki megi í nokkrum tilfellum skrifa „euro" öðruvísi en „euro".

Ofangreint fann ég á vefsíðunni Vinstri vaktin gegn ESB. Og ég hló fyrst en svo fór ég að hugsa, sem gerist nú ekki oft. Ef svo ólíklega vildi til að við hrykkjum inn í ESB og tækjum upp evru mættum við aldrei segja „Júró“ eða „Evra“.

Gæti jafnvel trúað því að til væri einhver leynistofnun sem hefði eftirlit með því sem skrifað er og skrifi ég „evra“ á tölvuna mína þá breytist það jafnharðan í „Euro“. Það mætti nú kalla almennilegar fyrirbyggjandi ráðstafanir ...


Við njótum útiveru og ferðalaga, tökum ástfóstri við landið

DSC_0243 - Version 2Margir spyrja hvers vegna maður með áherslur á náttúruvernd og umhverfismál sé að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Eru þessi mál ekki bara eitthvað fyrir vinstra liðið?
 
Nei, ekki mínu mati. Ég hef lengi ferðast um landið, oft með allan farangur á bakinu, mat, tjald og svefnpoka. Við sem þannig njótum útiveru og ferðalaga lítum ekki á landið með tilfinningalausum gagnaugunum. Við tökum ástfóstri við það, viljum vernda það og verja. Ekki síst til að börnin okkar og óbornar kynslóðir geti notið þess á sama hátt og við gerum. Kannski hallærislega sagt, en er þetta ekki rökrétt afstaða?
 
Vatnsaflið
Ég hef haldið því fram að við þurfum að fara varlega í mannvirkjagerð. Við gætum hæglega breytt Langasjó og Hólmsárlóni í miðlun fyrir vatnsaflsvirkjun, hækkað yfirborð Þingvallavatns og kaffært hinn forna þingstað. En þetta gerum við ekki, við fórnum ekki náttúruperlum eða sögustöðum til þess eins að safna kílóvöttum. Ég veit að sjálfstæðismenn eru mér sammála.
 
Það er varla forsvaranlegt að eitt hundrað árum eftir að Einar skáld Benediktsson hvatti til vatnsvirkjana skuli tækniþróunin ekki lengra komin en svo að enn er land kaffært í vatni til að gera miðlunarlón fyrir virkjun.
 
Gufuaflið
Jú, gufuaflsvirkjun var byggð við Hellisheiði og menn héldu að nýir tímar væru framundan. Flest hefur þó farið í kaldakol á Kolviðarhóli. Öll mannvirki þar eru í hróplegu ósamræmi við umhverfið.
 
Stöðvarhúsið lítur út eins og misheppnuð flugstöð, vegir hafa verið lagðir út um allt, rör liggja sem lýti á landinu og borholur eru uppi á fjallstindum. Og vegna niðurdælingar kælivatns verða jarðskjálftar sem enginn bjóst við eða skilur til hlítar.
 
Sjálfstæðismenn eru eins og aðrir landsmenn. Við göngum um fjöllin, tökum ástfóstri við landið, höfum lært að njóta þess. Viljum varðveita það rétt eins og allir aðrir, en við þurfum að segja það upphátt, taka afstöðu.
 
Ég vona að sjálfstæðismenn í Reykjavík séu mér sammála, taki þátt í prófkjörinu og styðji mig í sjötta sætið.

Verðtrygging og vextir ekki hærri en 6%

Við þurfum að afnema verðtryggingu í áföngum á næstu tveimur til þremur árum. Með góðri aðstoð lagði ég þetta til á síðasta landsfund Sjálfstæðisflokksins en tillagan fékk ekki brautargengi heldur var unnin sameiginleg tillaga úr fleiri tillögum.

Hugmyndin er þessi miðað við daginn í dag og ég stend við hana:

Afnema skal verðtrygginguna í áföngum með því að setja þak á árlegar verðbætur sem miðast við 4% fyrir 2013 og 2014, 2% fyrir 2015 og 2016, en verðtrygging verði að fullu afnuminn frá og með 1. janúar 2016.

Samhliða þessu verði sett hámark á vexti, þannig að samtala verðtryggingar og vaxta á lánum ætluðum til húsnæðiskaupa geti ekki verið hærri en 6%.

Húsnæðislán eru allt annars eðlis en nokkur önnur lán sem veitt eru. Þau miða að því að tryggja kjarnann í samfélaginu, heimilin í landinu. Ef ekki næst samstaða um þetta meðal stjórnmálamanna verður einfaldlega bylting. 

Í gær sat ég fund Hagsmunasamtaka heimilanna. Það var stórmerkilegur fundur. Eiginlega var hann markverðastur fyrir það að allir stjórnmálamenn sem þarna voru viðstaddir og tóku til máls voru sammála um að berja á verðtryggingunni og helsts afnema hana. Þetta var skoðun stjórnarþingmanna sem stjórnarandstöðu.

Ég spyr þá, hvers vegna í andsk... gerir þingið ekkert? 

 

 


Atvinna, matur og húsnæði skiptir öllu

Atvinnuleysi er böl. Sú ríkisstjórn sem lætur það viðgangast á að bylta. Hinn óskrifaði samfélagssáttmáli byggist á þrennu; atvinnu, mat og húsnæði. Að þessu gefnu kemur svo margt annað sem er gott og uppbyggilegt.

atvinnuleysið jafnmikið og hér á landi er samfélagið í vanda og þannig er það vissulega. Allir tapa á ástandinu því í veltuna samfélagsins vantar það sem hinir atvinnulausu geta ekki veitt sér.

Sama á við geti fólk ekki veitt sér nægan mat. Þannig er það þó bara hér á landi. Skoðanakannanir hafa leitt það í ljós að um 16.000 manns fá stundum eða oft ekki nóg að borða.

Húsnæði skiptir alla máli. Allflestir, nema þeir sem skulduðu ekkert í íbúðum sínum eða húsum, töpuðu á efnahagshruninu, sumir töpuðu öllu og var hreinlega gert að hunskast út úr íbúðum sínum. Dettur einhverjum í hug að þetta ástand hafi ekki nein áhrif í samfélaginu, auki ekki kreppuna?

Almenningur, skuldararnir, þurftu að blæða fyrir hrunið jafnvel þó ljóst sé að engin sanngirni er í því þar sem forsendubrestur varð á lánasamningum. Á þau rök hlustar hvorki ríkisstjórn né fjámálafyrirtækin. Þessir aðilar hlusta ekki heldur þegar Hæstiréttur dæmir gengistryggingu lána ólöglega. Þá bregst ríkisstjórnin við og setur lög sem leyfa fjármálafyrirtækjunum að setja aðra viðmiðun í lánasamninga í staðinn fyrir gengistrygginguna. Þrátt fyrir ítrekaða dóma Hæstaréttar bregðast fjármálafyrirtækin við á þann hátt að þau segja dómanna ekki fullnægjandi og neita að endurreikna lánin samkvæmt forsendum Hæstaréttar.

Svo rólegur og hægur er almenningur að hann hefur ekki enn gert byltingu. Ríkisstjórnin sem lofaði að vera í liði með fólkinu í landinu sveik allt sem hægt var að svíkja. 

Er þetta ástand sem við eigum að sætta okkur við?


mbl.is Atvinnulausum fjölgar á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orustan um hin ósnortnu víðerni

Vegur yfir Kjöl

Friðurinn er úti á Kili ef við samþykkjum að gera þar heilsársveg, hraðbraut sem fer skemmstu leið frá norðri til suðurs. Þetta er dýr framkvæmd en tæknilega sér er hún afar auðveld. Hugmyndin heillar mig alls ekki, síður en svo.

Látum okkur ekki detta það í hug eitt einasta andartak að nýr vegur yfir Kjöl verði lagður eftir þeim gamla. Nei, reynslan sýnir að vegir eru lagðir eftir „hagkvæmnissjónarmiðum“, þar sem styst er og þá horfir enginn í aðra hagkvæmni en þá fjárhagslegu.

Vegurinn yrði byggður hátt til að hann safnaði ekki á sig snjó að vetrarlagi. Og það hátt yrði hann lagður að hann væri sjáanlegt lýti á landslaginu hvaðan sem litið er, ekki síður úr loft en af fjöllum og jöklum og láglendi.

Með heilsársvegi yfir Kjöl mun verða stórkostleg breyting á afstöðu stjórnvalda til vega og mannvirkjagerðar annars staðar á hálendinu. Um leið má leggja af aðra ferðaþjónustu en þá sem byggir á akstri og gluggagóni. Hið ósnortna víðerni verður ekki nema svipur hjá sjón og kröfur verða gerðar um heilsársveg yfir Sprengisand og þá verður áreiðanlega gerð krafa um tengingar þessara tveggja vega, annars vegar sunnan Hofsjökuls og hins vegar norðan hans.

Mb lei#19FF73

Í öllu þessu felst sú reginskyssa að Norðurland sé alltof langt frá Reykjavík og þá landfræðilegu staðreynd þurfi að leiðrétta með öllum tiltækum ráðum. Fæstum dettur í hug að spyrja sig þeirrar spurningar hvers vegna Reykjavík sé upphaf og endir alls þess sem sé eftirsóknarvert hér á landi. Svarið er tiltölulega einfalt og felst í misheppnaðri byggðastefnu þjóðarinnar síðustu áratugi. 

Verði af heilsársvegi yfir kjöl munum við eflaust fá þann dóm í framtíðinni að kraftur tæknivits nú á dögum hafi verið mikill en af öðru viti höfum við verið hræðilega laus og þar með talin heilbrigð skynsemi.

Ég tek heilshugar undir herhvöt í leiðara Morgunblaðsins 5. febrúar 2007 og vona að Morgunblaðið sé enn þessarar skoðunar. Leiðarinn er ritaður fyrir hrun og varar eindregið við þeirri heimsku okkar að við getum einfaldlega gert það sem vil viljum án þess að hugsa út í afleiðingarnar:

 Það á að vera erfitt að ferðast um íslenzkar óbyggðir. Það er hluti af þeimtöfrum, sem fylgja því að ferðast um þessi landsvæði, að þau séu erfið yfirferðar, að það þurfi að hafa fyrir því að fara um þau. Að þar séuekki malbikaðir vegir. Að við þá vegi séu ekki benzínstöðvar og sjoppur. Það er óskiljanlegt að menn láti sér detta þetta í hug.

Flest bendir til að stjórnvöld muni ekki taka upp sjálfsagða baráttu gegn slíkum hugmyndum. Það er óskiljanlegt að þeir stjórnmálamenn, sem eru nýkomnir út úr hörðum átökum vegna Kárahnjúkavirkjunar, láti sér til hugar koma að stuðla að því að malbikaðir vegir verði lagðir um hálendið.

Hvar er Framtíðarlandið nú? Hvar eru náttúruverndarsamtökin nú? Skilja þessir aðilar ekki sinn vitjunartíma? Þeir töpuðu slagnum um Kárahnjúkavirkjun en þeir geta unnið þessa orustu, sem nú er augljóslega að hefjast. Hvar er Andri Snær nú? Hvar er Ómar Ragnarsson nú? Snýst barátta þessa fólks bara um virkjanir? Er þeim alveg sama þótt hálendi Íslands verði eyðilagt með malbikuðum vegum?

Átökin um vegina um hálendið eru að hefjast. Núna. Þetta er síðasta orustan um hin ósnortnu víðerni milli jöklanna, þar sem hvítir jöklar, svartir sandar og fagurbláar ár kallast á. Verði malbikaður vegur lagður um Kjöl er orustan töpuð.  

Ég er á móti heilsársvegum á hálendinu og mun berjast gegn þeim.


mbl.is Kristján vill veg yfir Kjöl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll er ekki uppreisnarmaður í Samfylkingunni

Ég er ekki sammála Pétri Blöndal, blaðamanni sem Pistilinn ritar í Morgunblaðinu í morgun. Hann heldur því fram að Árni Páll Árnason sé ekki leiðitamur forystunni sem endurspeglast í því að honum var vikið úr ráðherrastóli á kjörtímabilinu. 

Hann var nú nægilega leiðitamur á meðan hann gegndi ráðherraembættinu og ekkert hefur hann gagnrýnt ríkisstjórnina eða forystu Samfylkingarinnar síðan, nema kannski óvart undir rós. Síst af öllu er ástæða til að mála þá mynd af manninum að hann sé einhvers konar uppreisnarmaður innan Samfylkingarinnar. 

Heimildir mínar herma að Árna Páli hafi einfaldlega leiðst sem félagsmálaráðherra og eftirlátið aðstoðarmanni sínum störfin. Það sé einfaldlega ástæðan fyrir því að hann var látinn fara - hann stóð sig ekki nægilega vel.

Upp á síðastið hefur Árni svo unnið að formannskjöri sínu með ótal blaðagreinum. Gallinn er bara sá að þær eru óskaplega miklar langlokur og fástir nenna að lesa þær.

Sú kenning er uppi að brýn nauðsyn sé á að koma í veg fyrir að Árni Páll haldi áfram að þynna út jafnaðarstefnuna með greinaskrifum sínum og því sem eiginlega best að kjósa hann sem formann. Að öðrum kosti komist hann að þeirri niðurstöðu að Samfylkingin sé hægri flokkur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband