Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Ósanngjarnir yfirburðir ...

Á krá einhvers staðar á Englandi var haldin keppni sem nefnist „Heimsins mesti lygari“. Að minnsta kosti segir af þessari keppni á blaðsíðu sautján í Mogganum. Keppnin er haldin til heiðurs kráaareiganda sem uppi var á nítjándu og var sá annálaður fyrir „hæfileika“ sína að skrökva. Og svo segir í fréttinni:

Keppendurnir fá allt að fimm mínútur til að segja bestu skröksöguna. Keppnin er öllum opin nema stjórnmálamönnum og lögfræðingum, vegna „ósanngjarnra yfirburða“ þeirra á þessu sviði. 

þegar þarna var komið í lestri fréttarinnar hló ég rosalega ... 


Glórulaus aðildarumsókn að ESB

Það er ekki bara svo að þingkonan úr breska Verkamannaflokknum sé gáttuð á umsókn Íslands um aðild að ESB í raun hlýtur öll Evrópa að vera gáttuð yfir glóruleysi Alþingis. 

Í upphafi var logið að þjóðinni, henni sagt að með samþykkt Alþingis væri farið í samningaviðræður við ESB. Sannleikurinn er hins vegar allt annar. Ekki er um samningaviðræður að ræða eins og gerðist þegar Norðmenn sóttu um aðild á tíunda áratug síðustu aldar, heldur aðlögunarviðræður. Eftir umsókn er stjórnsýsla, lög og reglur að öllu leyti aðlöguð því sem gerist hjá ESB. Þessi vinna stendur nú yfir. Um leið og kommissararnir í ESB fá fullvissu um að breytingar séu yfirstaðnar eða þær séu vel á veg komnar er óhætt að hleypa Íslandi inn.

Samfylkingin stóð að umsókninni og geldur þess nú í skoðanakönnunum og líklega í næstu þingkosningum. Ekkert hefur breyst þar á bæ varðandi umsóknina en þó sjá þingmenn sitt óvænna og líklega missir um helmingur þingmanna flokksins vinnuna sína eftir næstu kosningar.

Vinstri grænir eru orðnir ESB flokkur. Enginn þeirra sem gefið hefur kost á sér í flokksvali vegna þingkosninganna næsta vor þorir að segjast vera á móti aðilda að ESB. Allir bugta sig og beygja fyrir flokksforystunni og senda um leið grasrótinni fingurinn. Miklar líkur eru á að flokkurinn klofni fyrir næstu kosningar.

Nærtækast er að vitna í Hjörleif Guttormsson sem veltir fyrir sér hvort stofnun VG hafi mistekist. Hann segir í grein á Smugunni:

Flokksforystan taldi sér trú um að með þátttöku í ríkisstjórn væri hún komin í skipsrúm til langs tíma. Hún hætti að rækta garðinn og trúnað við umbjóðendur sína, fólkið sem borið hafði hana til valda. Nú þegar andstaðan við aðild að ESB er orðin slíkt aukaatriði að frambjóðendur VG nefna hana ekki á nafn þegar þeir gera grein fyrir sér, er fokið í flest skjól. Flokkurinn sem við stofnuðum um aldamótin er því miður að verða ósjálfbært rekald við hliðina á Samfylkingunni.


mbl.is Óskiljanlegt að íhuga inngöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ber fjölmiðill enga ábyrgð?

Líklegast er starf blaða- og fréttamanna eitt hið hættulegast sem um getur. Þeir sem um er fjallað virðast eiga óskorað skotleyfi á þá en fjölmiðillinn er einskis virtur í dómum, ekki frekar en stóllinn sem blaðamaðurinn situr í þegar hann skrifar frétt.

Þarna þykir mér freklega gengið á rétt blaðamanna enda er staðan óneitanlega sú að það er fjölmiðillinn sem er vettvangurinn. Ritstjórn hans í heild sinni hlýtur að bera ábyrgð á því efni sem er birt enda er blaðamönnum og öðrum greidd laun í hans nafni. Því hlýtur að vera rökrétt að fjölmiðilli beri alla ábyrgð en blaða- eða fréttamaður enga. 


mbl.is Greiðir útvarpsmanni milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsjónir eða þægindasvæði auðæfa

Það kostar milljónir að gagna á Suðurpólinn. Útbúnaður er afar dýr, matur er sérvalinn, hitunargræjur þurfa að vera fyrsta flokks og svo má lengi telja. Fyrir ríkisbubba eins og Malcom Walker er ferð á pólinn ekkert tiltökumál. Hann verður þó að vera í góðu líkamlegu formi og vanur útvist og skíðum. Fyrir okkur hina er kostnaður nær óyfirstíganlegur.

Vilborg Gissurardóttir er kominn á Suðurskautslandið. Hún fjármagnar ferð sína sjálf, fær styrki úr öllum áttum enda er ferðin tileinkuð fjársöfnun fyrir gott málefni.

Þessir tveir ferðalangar eiga fátt eitt sameiginlegt. Þægindasvæði Malcoms Walkers byggir á auðæfum hans. Vilborg byggir á hugsjónum. 


mbl.is Forstjóri Iceland á leið á pólinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðuöryggi þjóðarinnar og landbúnaðurinn

Hvernig tryggjum við Íslendingar fæðuöryggi þjóðarinnar? Eða er ekkert slíkt til sem kallast má því nafni og eru vesturlandabúar tryggðir gegn öllum þeim vanda sem hugsanlega getur valdið fæðuskorti?

Ég hef lengi velt þessum þætti öryggismála landsins fyrir mér án þess þó að komast að ákveðinni niðurstöðu. Held að við ættum samt að fara okkur varlega í að opna landið fyrir flóði erlendra landbúnaðarafurða sem gætu valdið því að íslenskur landbúnaður biði skaða af. Ekki má misskilja þessi orð á þann veg að landbúnaðurinn sé heilagur og ósnertanlegur. Síður en svo. Hann nýtur mikilla styrkja af almannafé og yfrir vikið á að gera kröfur til hans.

Ekki er einfalt mál að bera saman verðlag á t.d. matvöru á milli landa. Þar kemur margt til álita eins og til dæmis íbúafjöldi landsins og hlutfall innflutnings á matvöru, þ.e. að hve miklu leyti eru matvöru framleiddar innanlands og hversu mikið er nauðsynlegt að flytja inn. Sé gert ráð fyrir því að frjáls verðmyndun ríki í landinu þá má frekar búast við því að markaður ráði verðmyndun nema því aðeins og stjórnmálamenn geri innanlandsframleiðslu hærra undir höfði en innfluttri.

Þannig er það hér á landi, lögð eru tollar, gjöld og ýmsar aðrar takmarkanir á innfluttar landbúnaðarafurðir til þess að styrkja innanlandsframleiðslu.

Margir krefjast þess að innflutningur verði gefinn frjáls, íslenskur landbúnaður eigi að geta staðið jafnfætis útlendum þegar kemur að vali neytandans í verslunum hér á landi.

Ég er varkár, kannski íhaldssamur, og þó ég sé hlyntur frelsi leyfi ég mér að  staldra við og íhuga ýmis álitamál. Skoðum nokkur sem benda til þess að ekki skyldi gefa innflutning landbúnaðarafurða alveg frjálsan:    

  • Framleiðsla er dýrari hér á landi vegna náttúrulegra aðstæðna, uppskerur miklu færri en erlendis.
  • Framleiðsla hér á landi er „lífrænni" en víðast hvar annars staðar. Til dæmis má ekki nota fúkkalyf í fóður og hormónanotkun er bönnuð, varnir gegn skordýrum verða að vera náttúrlegar osfrv.
  • Vegna sjúkdómsvarna er innflutningur á erlendum dýrastofnum er miklum takmörkunum háður og þar með verður öll ræktun erfiðari.
  • Fæðuöryggi landsins byggist á því ef einhver ógn steðjar að annars staðar þá ætti þjóðin að geta brauðfætt sig. Nefna má styrjaldir, náttúruhamfarir af einhverju tagi, hrun í viðskiptum milli landa og fleira.
  • Landbúnaður er alls staðar niðurgreiddur og víðast deila menn um réttlæti slíkra styrkja. Verði slíkir styrkir lækkaðir eða aflagðir hækkar verðið að sjálfsögðu.

Við þurfum að muna eftir gosinu í Eyjafjallajökli 2010 er fulgumferð stöðvaðist um nánast alla Evrópu. Fyrir vikið dró úr innflutningi á matvælum og öðrum vörum sem framleiddar voru utan Evrópu.

Spurningin sem hvílir á mér og mörgum öðrum er einfaldlega sú hvort ekki séu hugsanlega aðstæður sem geta tafið eða komið í veg fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum í lengri eða skemmri tíma. 

Er einhver þess fullviss um að náttúruhamfarir utan Íslands, í Evrópu eða annars staðar, geti ekki valdið hörumungum í landbúnaðarframleiðslu sem bitnar á okkur? Á sama hátt má nefna hernaðarátök eða styrjaldir. Og síðast en ekki síst má ekki gleyma þeirri ógn semstafað getur af leka og óhöppum í kjarnorkuverum.

Þetta mál er flókið og ástæða til að staldra við og huga að framtíðinni. 


Hvítt stuðlaberg

ÞjóðleikhúsiðjpgÞjóðleikhúsið er falleg bygging. Stundum verða hús og mannvirki svo hversdagsleg í augum okkar að maður gleymir þeim og þannig er það með Þjóðleikhúsið.

Ég held að það sem gerir það fallegt sé hvíta og langa stuðlabergið sem skreytir húsið að utan. Án þess væri það bara kassi.

Takið eftir forminu á stuðlaberginu og hvítu strikalínunu sem er uppi við þakið. Þó það sjáist ekki á meðfylgjandi mynd eru alltaf langir og mjóir gluggar neðan við hvíta stuðlabergið.

Flestir ættu að muna eftir stuðlaberginu sem er í loftinu í aðalsalnum og er einstaklega fallegt. Hönnuði hússins, Guðjóni Samúelssyni, hlýtur að hafa verið afar hrifinn af stuðlaberginu ella hefði hann ekki notað það eins mikið og hann gerði.


Kjörsókn í prófkjörum veldur vonbrigðum

Lítil þátttaka í prófkjörum vekur athygli. Aðeins tveir flokkar bjóða upp á prófkjör, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Í öðrum flokkum stendur harðkjarnalið flokkseigenda að vali á lista.

Undarlegast er að vera vitni að því að tveggja daga netkosning auk hefðbundinna kjörstaða hjá Samfylkingunni skili ekki meiri árangri en raun ber vitni. Fyrirfram hefðu flestir talið að þetta ætti að skila nálægt fullri þátttöku, en nei, framboðið virtist vera miklu meira en eftirspurnin. Þetta hlýtur að vekja vonbrigði.

  • SV-kjördæmi; 5.693 á kjörskrá, 37% kjósa, 2.129 manns
  • NA-kjördæmi; 2.200 á kjörskrá, 38% kjósa, 832 menn
  • Su-kjördæmi; 3.548 á kjörskrá, 44% kjósa, 1.551 maður.
  • Re-kjördæmi; 6.660 á kjörskrá, 38% kjósa, 2.514 menn

Niðurstaðan var sú að nokkur sæti skiptu um eigendur, engir nýir komust að.

Hjá Sjálfstæðisflokknum í suðvesturkjördæmi kusu 5.070 manns. Minnir að hlutfallið hafi verið rétt tæp 50% sem er alls ekki nógu gott en engu að síður kjósa rúmlega tvöfalt fleiri en hjá Samfylkingunni.

Næsta laugardag verður kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar er hart barist um efstu sætin en gjörsamlega óljóst hvernig nýju fólki muni reiða af. Ég hef hins vegar greinilega fundið að nýir frambjóðendur njóta mikils velvilja hjá kjósendum. Dreg þá ályktun af viðbrögðum við tölvupóstssendingu minni til flokksbundinna Sjálfstæðismanna í Reykjavík en ég fékk mikil viðbrögð og mörg svör við henni.

Svo er það annað mál hvort velviljinn skili sér á kjörstað eða hvort aðeins hörðustu Sjálfstæðismennirnir mæti. Í ljósi þess sem hér hefur verið um rætt má draga þá ályktun að minni kjörsókn en 50% verði talsverð vonbrigði.


Úlfarsfell er öndvegisverslun

Það er alltaf ánægjulegt að koma í Úlfarsfell. Þar er tekið vel á móti manni, ekkert erindi er talið ómerkilegt og málið er einfaldlega leyst. Þjónustan er frábær og þess vegna leggur maður oft krók á leið sína til að versla þar. Finnst verðlagið í versluninni bara vel samanburðarhæft við aðrar.

Hversu margar verslanir eru eftir í Reykjavík af þessu tagi? Í vesturbænum eru tvær toppverslanir sem allir kunna vel að meta, Melabúðin og Úlfarsfell. Og ég bý í Fossvoginum ...


mbl.is Hafa selt bækur á sama stað í 40 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ójafnt einvígi, fyrirsjáanleg úrslit

Oddný G. Harðardóttir nýtur þess að hafa verið fjármálaráðherra í skamman tíma. Nógu lengi þó til að vekja athygli á sér og vera í umræðunni. Nægilega stutt til að þurfa ekki að svara fyrir fjárlagafrumvarpið og neikvæðum afleiðingum þess.

Hún nýtur þess umræðan í Samfylkingunni vefst um það eitt hvort „hætta“ sé á því að hvergi sé kona í forystu fyrir flokkinn í kjördæmum landsins.

Björgvin G. Sigurðsson er ekkert í umræðunn. Hann gefur ekki út bók, hann leiðir ekki neina þingnefnd sem heldur blaðamannafund en minnir raunarlega á hrunið. Þó hann hefði einhverja málefnalega stöðu fjallar umræðan í Samfylkingunni um allt nema pólitík.

Ójafnara einvígi hefur sjaldan verið haldið um forystusætið í prófkjöri Samfylkingarinnar. 


mbl.is Afgerandi úrslit komu á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn áhugi fyrir Samfylkingunni?

Þykir 42% kosningaþátttaka í netkosningu góð? Hún er lakari en í hinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, aðeins skárri en í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum. 

Hvers vegna er ekki betri þátttaka? Ekki er það vegna þess að fólk þarf að fara á kjörstað og ekki vegna fyrirhafnarinnar, veðrið skiptir engu máli og ekki heldur skortur á fararskjóta.

Gæti verið að almennt sé lítil eftirspurn eftir Samfylkingunni, svona almennt talað? 


mbl.is Kosningu lokið hjá Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband