Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Hefðbundið framhjáhald eða ...

Sagt var um góðan mann sem ég þekki að hann sé ótæmandi gnótt af einskisverðum fróðleik. Þá veltir maður því fyrir sér hvort orðið standi undir hugtakinu.

Sumir halda því fram að upplýsingar í réttu samhengi geti verið mikilvægar. Stjórnmálamaður sem heldur framhjá maka sínum geti varla verið traustsins verður, er vís með að bregðast trausti kjósenda sinna fyrst hann er á annað borð kominn út á svikabrautina.

Þetta datt mér nú bara í hug út af gefnu tilefni. Ég las leiðara Morgunblaðsins í morgun og mér til mikillar undrunar fjallar hann um svona gagnslausar upplýsingar, um framhjáhald merkra manna. Byrjar á fyrirliða enska landsliðsins sem missti fyrirliðabandið fyrir þessar sakir, nefnir yfirmann CIA sem þurfti að segja af sér og farið er aftur í tímann og nefndir forsetar Bandaríkjanna og núverandi forsetafrú Frakka og fleiri gáfumenni er til talin.

Sjaldan hef ég lesið safaríkari leiðara í Morgunblaðinu en gagnsemin er engin og um tilganginn veit ég ekki, nema hann sé bara ritaður til varnaðar. Hitt þykist ég sannfærður um að nú byrja íslenskir stjórnmálaskýrendur af ýmsu tagi að leggja útaf leiðaranum og vilja áreiðanlega færa sönnur á því að höfundurinn sé undir rós að berja á íslenskum stjórnmálamanni einum eða fleirum. Þá má spyrja þessarar mikilvægu spurningar: Er leiðarhöfundur að tala um framhjáhald í hjónabandi ... eða hefur leiðarinn víðtækari bendingar?


Út á götu með hlunkinn í höndunum

Fjölmi#199095

Einu sinni gaf ég út tímarit um ferðamál. Það hét Áfangar. Reksturinn gekk svona upp og niður, mest þó niður. Þó voru áskrifendur á ritinu margir, rétt tæplega sex þúsund, minnir mig. Þetta var á árunum 1980 til 1984. Ritið kom út fjórum sinnum á ári.

Þessi ár voru dýrmæt reynsla fyrir ungan mann. Ég lærði margt. Meðal annars að það er stór munur á því að ritstýra og stjórna rekstri, tveir ólíkir heimar. Gerði þó hvort tveggja, hið fyrra þokkalega en hið síðara miður.

Á þessum árum var afar flókið að standa í útgáfu. Það var dýrt og tímafrekt. Maður samdi grein á ritvél, fór með hana í setningu, fékk þar spalta með textanum, hannaði útlit, sinnti umbroti, en þá voru spaltarnir límdir upp á stóra örk. Myndir voru yfirleitt svart-hvítar. Gera þurfti af þeim filmu, en litgreina þurfti litmyndirnar. Svo þurfti að selja auglýsingar, safna þeim saman eða búa til. Þetta þýddi sendiferðir út um allan bæ og loks að fara með allt í prentsmiðju. Í dag sinnir maður öllum verkefnum í þokkalegri Makka tölvu.

Kristinn Jónsson í Formprent prentaði fyrsta tölublaðið. Hann er og var frábær karakter, hvetjandi og hjálpsamur. Hann átti bara eins lita prentvél og því þurfti að rúlla litörkunum fjórum sinnum í gegnum vélina, einu sinni fyrir hvern lit. Tímafrekur andskoti, tók líklega viku að prenta.

fyrsta tbl

Svo kom að skuldasdögum. Maður þurfti að greiða fyrir prentun, litgreiningu, umbrot, húsleigu, rafmagn, síma og allt þetta sem tilheyrði. Ég var ungur maður með tvær hendur tómar, gríðarlegan áhuga á útiveru og ferðalögum og þörf á að breiða út boðskapinn. Þrautagangan á milli banka var erfið. Víxlar féllu en voru framlengdir. Oft gekk illa gekk að innheimta áskriftir, stundum voru auglýsingar ekki greiddar fyrr en eftir dúk og disk. Reikningarnir hlóðust upp og angistin var oft mikil.

Það var mikill harmur að þurfa að selja tímaritið Áfanga árið 1984. Magnús Hreggviðsson sem þá rak Frjálst framtak keypti blaðið og gaf út í nokkur skipti. Fjárhagurinn var í rúst hjá mér eftir þetta ævintýri og raunar náði maður sér aldrei almennilega eftir það. Bankarnir, munið, þessi ríkisreknu, gleymdu aldrei neinu hvað mig varðaði, settu mig á svarta listann, og í hvert skipti sem ég ætlaði að kaupa íbúð eða bíl komu þeir hlaupandi með svipuna á lofti og brugðna byssustingi og heimtuðu sitt.

Um daginn var ég að fletta gömlu skjölum og fann þá úrklippu úr Morgunblaðinu frá því sjötta september 1984. Ég hafði klippt hana út og geymt því þarna var frétt um mig og mynd af mér og Kjartani Lárussyni, þeim ágæta formanni Ferðamálaráðs og hann var að afhenda mér fjölmiðlabikar ráðsins. Gríðarlegur hlunkur, rétt eins og ég hefði orðið bikarmeistari í fótbolt.

Ég man að þennan dag ég fór í jakkafötin mín, þau einu sem ég átti, gekk upp á Laugaveg 3 þar sem Ferðamálaráð var til húsa. Þar stóð yfir fundur ráðsins. Ég beið órólegur og kvíðinn fyrir utan fundarherbergið. Hlustaði á Hallgrímskirkjuklukkur glymja, umferðina á Laugaveginum og horfði á fallegar Íslandsmyndir á veggjunum. Svo var mér loks hleypt inn á fundinn. Þar inni var önnum kafði fólk sem hafði þá skoðun að einhvern tímann myndi ferðaþjónustan skipta máli fyrir Ísland. Kjartan afhenti mér bikarinn með einhverjum vel völdum orðum, mynd var tekin og svo opnuðust dyrnar og áður en ég vissi af var ég kominn út á götu með hlunkinn í höndunum.

Á undan mér hafði Haraldur J. Hamar, útgefandi Iceland Review fengið bikarinn og síðan Sæmundur Guðvinson, blaðamaður. Á eftir mér fékk Magnús Magnússon hann og þá Ríkisútvarpið vegna Stikluþátta Ómars Ragnarssonar og síðan margir aðrir, einn á hverju ári, held ég.

Ég er ekki að kvarta, en ég held að í hvert sinn sem fjölmiðlabikarinn var afhentur hafi verið haldið eitthvað kaffiboð með kökum og konfekti. Það gerðist þó ekki í mínu tilfelli, heldur fékk ég mér sérbakað í Björnsbakaríi við Hallærisplanið og ég og sambýliskonan snæddum þau með viðhöfn og pínulitlu stolti. Fór síðan úr jakkafötunum, tók af mér bindið og hélt áfram að pæla í því hvernig framtíðin ætti að vera. Stuttu síðar fór ég til Norges í nám í markaðsfræði, en það er allt önnur saga.

Þegar maður lítur yfir farinn veg finnst manni að ferðaþjónustan hafi vaxið ótrúlega hratt og vel. Mjög algengt var að margir litu niður á ferðaþjónustuna, með dálitlum hroka. Stjórnmálamenn sáu bara sjávarútveg og landbúnað. Iðnaður var eitthvað sem menn fengust við í bílskúrum, verslun og þjónusta var minniháttar atvinnuvegur. Og ferðaþjónstan var bara eitthvað fyrir tyllidaga, ekkert í alvörunni.

Í dag vildu allir Lilju kveðið hafa ...


Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi lofar góðu

Þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi var góð, 5077 manns greiddu atkvæði. Til samanburðar tóku aðeins 2.199 manns þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í sama kjördæmi í gær

Ég hvatt til þess í fyrradag að Sjálfstæðismenn í greiddu formanni flokksins atkvæði, það myndi styrkja flokkinn. Hann fékk yfirburðakosningu í fyrsta sætið en af heildinni fékk hann aðeins tæp 54% atkvæða. Það eru vonbrigði.

Ég hefði viljað sjá Óla Björn Kárason, varaþingmann, ná betri árangri, en hann lenti í sjötta sæti. Það verður líklega baráttusætið.

Vilhjálmur Bjarnson er ótvíræður sigurvegari í prófkjörinu. Hann nýtur þess að hafa verið áberandi í sjónvarpi og sem formaður Félags fjárfesta. Hann hefur tekið afar lítinn þátt í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Enginn krafa er þó gerð til slíks. Stofuvanir menn í Valhöll eiga ekkert veð í þingsæti og það vita stuðningsmenn flokksins - sem betur fer. Vilhjálmur er traustur maður, réttsýnn og heiðarlegur eftir því sem ég fæ best séð.  

Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jón Gunnarsson, alþingismenn, fengu fína kosningu og það er vel. Elín Hirst náði góðri kosningu í fimmta sætið. Hana þekki ég ekkert nema af afspurn en hún kemur vel fyrir enda vanur fjölmiðlamaður.

Ég nefndi alla þessa fimm menn í pistli á föstudagskvöldið og hvatti til þess að þeir fengju góð kosningu. Það gekk eftir. Hefði þó líka getað nefnt Friðjón R. Friðjónsson, ráðgjafa, sem ritaði í mörg ár afskaplega málefnalega og rökfasta pistla á Moggablogginu.

Þegar upp er staðið held ég að niðurstaða prófkjörsins sé nokkuð góð og þar sé valinn maður í hverju rúmi. 


Vegir fyrir óða

Ó#198887Yfirlestur frétta hlýtur að vera mikilvægur, sérstaklega fyrirsagna því það er list að búa til góða fyrirsögn. Í þessari frétt Morgunablaðsins er fyrirsögnin „Vegir óðum opnaðir“. Fyrsta datt mér í hug að hér væri átt við óða ökumenn. Svo áttaði ég mér á því að blaðamaðurinn á líklega við að hver fjallvegurinn á fætur öðrum sé opnaður og það líklega frekar hratt.

Líklega hefði verið betra að hafa fyrirsögnina svona: Vegir óðum að opnast. 

Þó er ég ekkert viss um að margir misskilji fyrirsögnina. 


mbl.is Vegir óðum opnaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin ætlar að lögleiða svindlið

HH augl

Hagsmunasamtök heimilanna bita ágengar auglýsingar þessa daganna. Raunar má segja að þau hirti ríkisstjórnina á þann hátt sem enginn stjórnarandstöðuflokkur hefur gert.

Í auglýsingu dagsins segja Hagsmunasamtökin: 

Ríkisstjórnin ætlar að festa svindlið í lög og lauma því framhjá neytendum. Jóhanna, sögðust þið ekki ætla að vera með okkur í liði?

Samvæmt frumvarpi um neytendalán sem nú liggur fyrir Alþingi verður verðtryggingin tekin út fyrir útreikninga um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þar með er verið að falsa útreikninga um kostnað við að taka lán, neytendum í óhag. Enn á ný er verið að traðka á rétti neytenda, bregðumst við og forðumst slysið áður en það er um seinan. 

Minnt er á að Hagsmunasamtök heimilanna eru með borgarafund í Háskólabíói þriðjudaginn 13. nóvember kl. 20 og er umfjöllunarefnið hin alræmda verðtrygging.

Ég ætla að mæta á þennan fund og ég skora á lesendur mína að gera það líka. Enda er það skoðun mín að banna eigi verðtryggingu á neytendalán. fyrir því hef ég barist og mun gera það með aukinni áherslu nái ég kjöri á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu 24. nóvember næstkomandi.  


Stuðningur við formanninn styrkir flokkinn

Á morgun fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi. Þar er mikið og gott mannval enda hefur kjördæmið jafnan verið gott vígi Sjálfstæðismanna. Ég ekki ekki marga í framboði en vil hér nefna nokkra.

Ég bý ekki þar er hvet Sjálfstæðismenn til að kjósa Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Ekki vegna þess að hann er formaður heldur vegna mannkosta hans og stefnu. 

Óli Björn Kárason, varaþingmaður, er drengur góður og málefnalegur í ræðu og riti. Vart er hægt að hugsa sér betri þingmann. Hann er afskaplega heiðarlegur og góður málsvari sjálfstæðisstefnunnar og leggur áherslu á hinn sjálfstæða atvinnurekanda sem er bakbeinið í þjóðfélaginu. Ég kysi hann í þriðja sætið.

Vilhjálm Bjarnason þarf lítið að kynna fyrir landsmönnum. Hann er þekktur sem skeleggur og nær alvitur þátttakandi í sjónvarpsþættinum „Útsvar“. Hann hefur verið harður baráttumaður gegn spillingu í viðskiptalífinu og lætur verkin tala. Ég kynntist honum aðeins þegar ég var ungur blaðamaður og kom til Vestmannaeyja árið 1978 og tók viðtal við hann, útibússtjóra Útvegsbankans í Eyjum. Hitti hann eftir það ekki fyrr en 2008 og þá mundi karlinn eftir mér. Finnst það alveg ótrúlegt minni. Vlhjám myndi ég kjósa í fjórða sætið.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður, er sterkur frambjóðandi. Hún hefur reynst dugandi á þingi, jafnvel þó hún sé hlynnt ESB aðild, kann ég vel að meta önnur mál sem hún hefur barist fyrir.

Jón Gunnarsson þekki ég ekki persónulega en mér líst vel á hann á þingi. Engu að síður er ég ekki sammála honum í einstaka málaflokkum, þá hef ég þá trú að hann sé sterkur frambjóðandi. 


Aðlögunarviðræður ekki samningaviðræður

Hvað gerist þegar land eins og Ísland sækir um aðild að Evrópusambandinu? Jú, það fer í aðlögunarviðræður,„Accession Negtioations“. Þetta er aðferðarfræði sem notuð hefur verið frá því 1993 er hún var tekin upp. 

Þegar Noregi, Austuríki, Finnlandi og Svíþjóð var boðin innganga var einn samningur látin duga fyrir þau fjögur ríkin. Noregur felldi aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu 1992 en hin ríkin urðu meðlimir 1995. 

Svona vinnur Evrópusambandi ekki lengur. Ríki sem sækir um aðild þarf að fara í aðlögunarviðræður. Til að skilja hvernig þá er staðið að málum er ráð að lesa bæklingi ESB um eðli stækkunar, Understanding Enlargement - The European Union’s enlargement policy. Í honum segir meðal annars:

First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules. 

Þarna er talað um reglur ESB, „Acqis“. Þeim er skipt í 35 kafla sem taka meðal annar á fiskveiðum, landbúnað, flutningum, orkumálum osfrv. Þegar kafli er opnaður hefjast viðræður um efni hans og aðildarríkið þarf að sýna á skýran og skilmerkilegan hátt hvort að það hafi tekið upp kröfur ESB sem um ræðir í hverjum eða hvernig það ætli að gera það. 

Í bæklingnum segir: 

Candidates consequently have an incentive to implement necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a country’s political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country. 

Allt ofangreint hefur komið fram í fréttum, fréttaskýringum, blaðagreinum og bloggpistlum afar víða um landið. Í upphafi reyndi ríkisstjórnin að telja okkur trú um samningaviðræður fylgdu umsókninni rétt eins og var því þegar Norðmenn sóttu um aðild, svona viðræður tveggja jafningja. Þetta reyndist ekki rétt enda hefur margt breyst frá því 1992. 

Einn sá fyrsti sem vakti athygli á að hér væri ekki um samningaviðræður að ræða var Jón Bjarnason, þingmaður VG og fyrrum sjávarútvegsráðherra. Hann þýddi held ég fyrstur hugtak ESB sem aðlögunarviðræður. Sem ráðherra neitaði að samþykkja samstarf ráðuneytis síns við ESB enda hafði hann greitt atkvæði gegn aðildarumsókninni. Fyrir vikið var honum sparkað úr ríkisstjórninni.

Það var líka Jón Bjarnason sem fullyrti að ekkert væri í pakkanum við lok viðræðnana. Hann hélt því fram að eftir aðlögunina væri of seint að segja nei. Skaðinn væri skeður. Auðvitað er hægt að hafna aðildinni í þjóðaratkvæðagreiðslu en það er allt annað mál. Enginn samningur er gerður nema um undanþágur og þær eru nær eingöngu tímabundnar enda er að svo að Ísland er að sækja um aðild að Evrópusamandinu en ekki öfugt. 

Í sannleika sagt er algjör óþarfi að rifja allt þetta upp. Flestum er þetta vel kunnugt og það þjónar litlu í umræðunni að endurtaka sömu tugguna aftur og aftur. Engu að síður kann það að vera að einhver lesandi vilji afla sér betri upplýsingar og til þess er honum bent á ofangreindan bækling Evrópusambandsins. Einnig má benda á vefsíður eins og Evrópuvaktina, Vinstri vaktina gegn ESB, bloggsíðu Heimssýnar, bloggsíðu Páls Vilhjálmssonar og áreiðanlega eru til fleiri góðar vefsíður gegn aðildinni að ESB.

Staðan er einfaldlega sú að meirihluti Alþingis samþykkti 16. júlí 2009 aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þjóðin var ekki spurð en skoðanakannanir hafa sýnt að góður meirihluti þjóðarinnar er á móti aðildinni. Deilan um aðildina mun halda áfram þangað fram yfir næstu þingkosningar. Líkur benda til að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna muni tapa miklu fylgi og meirihluti nýja þingsins verði á móti áframhaldandi aðlögunarviðræðum.


Fjórtán frambjóðendur á móti ESB og aðlögunarviðræðum

Gerð hefur verið könnun á afstöðu frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um aðilda að Evrópusambandinu.

Það er Vilborg G. Hansen sem stendur að könnuninni.Spurt var: Hver er afstaða þín til inngöngu Íslands í ESB?

Nánari upplýsingar um viðhorf eintakra frambjóðenda er að finna á bloggsíðu Vilborgar.

Þar kemur fram að enginn frambjóðenda er á þeirri skoðun að landið eigi að ganga í Evrópusambandið. 

Eftirtaldir fimm frambjóðendur vilja ýmist halda áfram viðræðum eða fresta þeim.

  • Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi
  • Birgir Örn Steingrímsson, framkvæmdastjóri
  • Guðjón Sigurbjartsson, framkvæmdastjóri
  • Ingibjörg Óðinsdóttir, stjórnunarráðgjafi
  • Þórhalla Arnardóttir, framhaldsskólakennari
Eftirtaldir fimmtán frambjóðendur eru á móti aðild að Evrópusambandinu og áframhaldandi viðræðum:
  • Birgir Ármannsson, alþingismaður
  • Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður
  • Elí Úlfarsson, flugnemi
  • Elínbjörg Magnúsdóttir, verkakona
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður
  • Gunnar Kristinn Þórðarson, stuðningsfulltrúi
  • Hafsteinn Númason, leigubílstjóri
  • Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi
  • Illugi Gunnarsson, alþingismaður
  • Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og útgefandi
  • Pétur H. Blöndal, alþingismaður
  • Sigríður Ásthildur Andersen, héraðsdómslögmaður
  • Sigurður Sigurðarson, rekstrarráðgjafi
  • Teitur Björn Einarsson, lögmaður

 


Jakob F. Ásgeirsson er sterkur frambjóðandi

jakob

Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og útgefandi, gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann er hugsjónamaður, einn af fáum frambjóðendum. Ég þekki hann ekki persónulega en hef lesið það sem hann rita og nokkrar bóka hans, t.d. Þjóð í hafti.

Hann ritar grein í Morgunblaðið í morgun undir fyrirsögninni „Hvers konar ríkiskerfi á 300.000 manna þjóð að reka?“. Greinin er góð og kemur að mjög brýnum málum. Ég er sammál höfundinum enda hef ég nokkrum sinni ritað pistla um svipað efni.

Þess vegna leyfi ég mér að birta hér nokkur atriði í greininni (uppsetningin er mín sem og feitletranir):

  •  Blasir ekki við að það er fullkomlega fáránlegt að 300.000 manna land byggi upp opinberan geira með sama hætti og 5 milljón manna land?
  • Hvað getur 300.000 manna svæði leyft sér að hafa stóra utanríkisþjónustu?
  • Hvað geta 300.000 manns leyft sér að taka mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi?
  • Hvaða stofnanir er skynsamlegt að 300.000 manna svæði starfræki?
  • Hvað starfar margt fólk núna við stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi? Hvað væri hæfilegt að það væri margt til að sinna 300.000 manna svæði?
  • Hvað telja skattborgararnir í þessu 300.000 manna landi réttlætanlegt að standa undir mikilli yfirbyggingu við stjórn og rekstur þess?

Svona eigum við að spyrja á öllum sviðum opinbers rekstrar. 

Ég held að Sjálfstæðismenn þurfi heiðarlega hugsjónarmenn á þing, menn eins og Jakob F. Ásgeirsson á þing, tel ekki nokkurn vafa á því og mun kjósa hann í fimmta sæti listans eins og hann fer fram á. Ástæðan er sú að það er kjósendur þurfa að skoða hvað frambjóðendur hafa haft fram að færa, ekki aðeins fyrir prófkjörið, heldur yfirleitt. Það kann að hjálpa til við val á frambjóðendum 

 

 


Í hvaða liði er Steingrímur og ríkisstjórnin?

HH auglMan einhver eftir norrænni velferðarstjórn? man einhver eftir skjaldborginni sem ríkisstjórnin ætlaði að slá um heimilin í landinu? Var það ríkisstjórnin sem ómerkti gengistryggingu lána? Hverjir settu lög til varnar fjármagnsfyrirtækjum þegar gengistryggingin var dæmd ólögleg? Hver sagði að ekkert meira væra hægt að gera fyrir heimilin í landinu? Hver gaf erlendum hrægammasjóðum þrotabú Kaupþings og Glitnis?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband