Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Hryðjuverk í Eldvörpum

Eldvorp

Fæstir þekkja Eldvörp norðan Grindavíkur og enn færri hafa komið þangað. Það er miður en land er ekki síður mikils virði þó fáir skoði það.

Þarna á nú að fara í boranir og hugsanlega virkja. Manni bregður við og hugsar með sér að þetta geti nú ekki verið. Og þó það ætti að bora þarna, hvers vegna er þarf að stórskemma svæðið?

Ómar Ragnarsson ritar hörkuprédikun í Fréttablaðið í gær. Hann segir í grein sinni:

Nú skal kveðið skýrt að: Af hverju yrði Eldvarpavirkjun tilefni til að kalla allar núlifandi kynslóðir Íslands sem komnar eru til vits og ára "sjálfhverfu kynslóðirnar"?

Af hverju yrði hún heimskulegur, siðlaus og óskiljanlegur umhverfisglæpur?

Það er vegna þess að með virkjun Eldvarpa á ekki aðeins að umturna og eyðileggja gígaröð, einstætt náttúruverðmæti, heldur líka að stytta endingartíma sameiginlegs jarðhitageymis Eldvarpa og Svartsengis úr 50 árum niður fyrir 30 ár en fullyrða samt að um sé að ræða endurnýjanlega orkunýtingu sem fyrirmynd fyrir heimsbyggðina!

Þetta eru ekki upphrópanir út í loftið, vísindaleg gögn liggja fyrir þessu.

Og það á líka að ráðast á svipaðan hátt á næstu gígaröð, Sveifluháls, austan Eldvarpa, sem hefur á sér form svonefndra móbergshryggja, en þeir eru gígaraðir sem mynduðust undir jökli. Og þá er spurt: Hvaða máli skiptir það?

Og svarið er einfalt: Hvergi á þurrlendi jarðar er að finna gígaraðir eins og á Íslandi. 

Fleiri en Ómar lætur málið til sín taka. Fjöldi fræðimanna og leikmanna hefur áhyggjur af því sem þarna á að gerast og ekki vegna þess að fólk er á móti virkjunum, rafmagni eða atvinnuuppbyggingu. Nei, vegna þess að þarna er verið að skemma einstæðar jarðminjar, fara í óafturkræfar breytingar á landi. 

Á vef framtidarlandid.is segir:

Virkjun myndi hafa mikil áhrif á bæði náttúru- og menningarminjar á svæðinu, þar á meðal sjálfa gígaröðina og Sundvörðuhraun. Gígaraðir eru eitt verðmætasta og sérstæðasta sérkenni íslensks landslags. Eldvörp eiga enga hliðstæðu fyrr en komið er austur að Lakagígum. 

Mer finnst of mikill hraði á mörgum málum. Er ómögulegt að fara sér hægar og skoða málin nánar og koma til móts við sjónarmið sem eru andstæð virkjun? 

Meðfylgjandi mynd tók Ómar Ragnarsson. Smellið nokkrum sinnum á myndina og skoðið hana stærri. Þvílíkur aðskotahlutur sem borplanið er á þessum slóðum. Þetta er sama vitfirringin og átti sér stað þegar farið var í Hellisheiðarvirkjun. Allt skemmt og eyðilagt svo landið verður á eftir gjörsamlega óþekkjanlegt. Hryðjuverk eiga ekki að leyfast. 


Nunna í golfi

Nunna nokkur gekk til skrifta. Fyrirgefðu mér faðir, því ég notaði alveg hræðilegt orðbragð núna um helgina.
 
- Haltu áfram, sagði presturinn, frekar áhugalaus.
 
- Sko, ég var úti á golfvelli og náði þessu svakalega góða drævi á fjórðu braut, sem er par sex, en kúlan lenti í símalínu sem lá yfir völlinn og datt niður eftir aðeins um þrjátíu metra.
 
- Og þá blótaðirðu náttúrulega, sagði presturinn.
 
- Nei, sagði nunnan. Því skyndilega kom íkorni hlaupandi og stal kúlunni minni.
 
- Varð það þá sem þú blótaðir, góða mín?
 
- Nei, ekki þá, því allt í einu kom örn fljúgandi og læsti klónum í íkornann og þar sem hann flaug í burtu með feng sinn þá missti íkorninn kúluna.
 
- Þá hefurðu auðvitað blótað, sagði presturinn, orðinn nokkuð áhugasamur.
 
- Nei, nei, sagði nunnan. Sko, kúlan datt niður á stærðar grjót og endurkastaðist þaðan inn á brautina og á grínið og stoppaði síðan aðeins innan við hálfan metra frá holunni.
 
Presturinn þagði um stund og fitlaði við krossinn sem hann bar um hálsinn. Svo sagði hann með fullvissu í röddinni: Kona, þú hefur þá klikkað á helvítis púttinu.

Lítið vatn í Grímsvötnum en samt hlaupa þau

Grímsvötn 910710-69

Hvernig getur hlaup hafist í Grímsvötnum ef það er lítið vatn í vötnunum?

Jarðfræðingar hafa haldið því fram að fyrirstaða væri við útrásina, austan megin við Grímsvötn að öllum líkindum þröskuldur úr bergi. Til að vatn flæði yfir hann þarf mikið vatn að vera í vötnunum sem nái að lyfta íshellunni nægilega hátt að yfir þröskuldinn flæði og um leið að íshellan hindri ekki rennslið.

Það sem mér finnst undarlegast er að lítið vatn skuli núna ná að lyfta íshellunni. Þegar gaus þarna 1996 þurftum við að bíða lengi eftir að hlaupinu og var þó vatnið áreiðanlega margfalt meira en nú. Þá bræddi eldgosið um þrír rúmkm af ís en hlaupið varð samt ekki fyrr en rúmum mánuði eftir að gosið í Gjálp hófst. 

Myndin er tekin ofan á ísnum í Grímsvötnum. Maðurinn stendur á svipuðum slóðum og gaus þarna 2011, 1996 og svo margsinnis áður. Grímsfjall er þverhnípt vatnamegin og jökullinn skríður fram á brún og hrapar svo niður hamrana.


mbl.is Lítið hlaup hafið í Grímsvötnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma, afi og áfengið

Eitt sinn starfaði ég sem fararstjóri á Kanaríeyju. Það var dálítið sérstök lífsreynsla. Þar áttaði ég mig á því að hegðu fólks var mismundandi meðal Íslendinga. Hóparnir sem komu í skólaferðalög voru yfirleitt afar slæmir í heildina séð. Mikil drykkja og óregla. 

Mest hissa var ég þó á hegðun margra eldri borgara, sérstaklega drykkju þeirra. Mjög algengt var að einstaklingar úr þessum hópi urðu sér einfaldlega til skammar, drukku frá sér ráð og rænu.

Sárgrætilegast var þegar börn voru í ferð með ömmu og afa misstu tökin á tilveru sinni tveggja vegna drykkju þeirra. Stundum kom fyrir að það þurfti einfaldlega að senda börnin heim með næstu flugvél eða þá að foreldrarnir komu í skyndingu til að bjarga málunum. 

Svona atvik tóku verulega á og alla sem komu að málum, ekki síst fararstjóra. Sem betur fer gerðist þetta frekar sjaldan. En þannig er það bara að umönnun barna er útilokuð sé áfengi haft um hönd. Dómgreindin bregst og tilveran hrynur.


mbl.is Drukkin með barnabarn í bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörin og lýðræðið

Það er ekkert nútímalegt við stjórnmálaflokk þar sem karlar ráða öllu. Slíkur stjórnmálaflokkur á ekki framtíð fyrir sér. Við þurfum ekki kynjakvóta heldur skynsama hugsun þar sem einstaklingurinn er metinn að verðleikum, hvort sem hann er karl eða kona.

Hver skyldi nú hafa skrifað þessi orð? Jú, það er hún Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem ritar Pistil á blaðsíðu 24. Mikið óskaplega er ég sammála henni.

Hún ræðir um prófkjör og gengi karla og kvenna í þeim. Ber saman prófkjör Samfylkingarinnar og Sjáflstæðisflokksins, en í þeim fyrrnefnda eru einhvers konar kynjakvótar sem leiða til þess fyrirkomulags að sé karl kosinn í fyrsta sæti verður kona að vera í næsta sæti, jafnvel þó hún hafi miklu minna fylgi en sá karl sem í það var kjörinn. Með þessu er verið að troða lýðræðinu í form sem það passar engan veginn í.

Á laugardaginn er prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar eru afskaplega gott og frambærilegt fólk í boði. Helst vildi ég kjósa alla en þess er enginn kostur. Ég hef hins vegar haft það fyrir reglu að velja mér fólk og kjósa það í sætið sem það býður sig fram í. Ég vel fólk eftir málefnum, þekkingu þess og reynslu. 

Prófkjör eru ekki fegurðarsamkeppni þó margir taki meira mark á útliti en því sem frambjóðendur segja. Í stað þess að vera markvisst og pólitíkst leiðast frambjóðendur oft út í ofnotkun á orðavaðli, lýsingum sem hefja þá upp til skýjanna. Auðvelt er að láta glepjast af svona auglýsingum og kynningum.

Myndi lesandinn umsvifalaust kaupa glænýtt krem sem í hástemmdum auglýsingum er sagt eyða öllum hrukkum og gera húðina eins og barnsrass á tveimur dögum? Myndi hann kaupa sér jeppa sem sagður er ganga fyrir vatni og um leið framleiða bensín? Nei, varla.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég er tortrygginn á auglýsingar. 

Einhvern veginn man ég núna eftir ómerkilegu uppfyllingarefni sem mörg dagblöð nýttu sér hér á árum áður. Gengið var að þjóðþekktu fólki og það spurt um eitthvað sem var söluvænt fyrir blöðin. Einhverju sinni er Friðrik Sophusson, gamall vinur minn, var fjármálaráðherra, var hann spurður að því, ásamt fleiri, stjórnmálamönnum, að hvers konar konum hann heillaðist helst ...

Hið eftirminnilega svar hans var einhvern veginn á þessa leið: Eiginlega finnst mér meira um vert hvað fólk hefur að segja en hvernig það lítur út. 

Þetta fannst mér afar vel að orði komist enda Friðrik skynsamur maður.


Kvennaráð

Eitt sinn saman hópur kvenna og ræddi um það hversu ósanngjarnt það væri að móðirin skyldi alltaf þjást en faðirinn ekki, þegar barn fæddist. Ein þeirra sem trúuðust var stakk upp á því að næst þegar ein þeirra ætti von á sér skyldu þær allar biðja um að láta föðurinn þjást í stað móðurinnar. Var þetta samþykkt.
 
Nokkru síðar kemur að því að ein þeirra er komin að því að fæða og hún gerir hinum viðvart. Lögðust þá vinkonurnar á bæn.
 
Þegar þær héldu að allt væri um garð gengið, sendu þær stúlku á vettvang til að vita hver áhrif bænin hefði haft.
 
Stúlkan barði að dyrum hjá sængurkonunni og vinnukonan kom til dyra.
 
- „Hvernig líður?" spurði stúlkan
 
Ágætlega," svaraði vinnukonan
 
Var móðirin mikið veik."
 
Ekki minnstu vitund."
 
En maðurinn hennar, var honum ekki ósköp illt?"
 
- „Nei, síður en svo, en við héldum að vinnumaðurinn ætlaði alveg að deyja."

[Tekið ófrjálsri hendi af huni.is] 


Tíu spurningar fyrir pólfarann

Dugnaður Vilborgar Örnu Gissurardóttur á Suðurskautslandinu er mikill og kjarkurinn enn meiri. Hún á örugglega eftir að klára sig á þessu. Hins vegar er ekki úr vegi að fá að leggja almennilegar spurningar fyrir hana, eitthvað sem gömlum fjallaköllum og kellingum geta áttað sig á. Fengi ég tækifæri myndi ég spyrja þessara spurninga:
  1. Hversu mikil hefur hækkunin verið á hverjum degi og þá frá upphafi?
  2. Gera má ráð fyrir að hún sé með skinn undir skíðunum. Gerir hún ráð fyrir að ganga allan leiðina með þau undir?
  3. Tíu metrar á sekúndu er dálítið hvasst, er hann á móti eða hvað? Hver er algengasta vindáttin á þessum slóðum?
  4. Er snjórinn sléttur, vindpakkaður eða öldóttur? Gera má ráð fyrir að þarna sé snjórinn þurr. Hvernig er hann, grófur, fínn eða hvað? Hvað þarf vindur að vera mikill til að hann skafi?
  5. Hvað borðar hún í upphafi dags og á meðan á göngu stendur?
  6. Hvað gengur hún lengi á hverjum degi? Miðar hún við að ljúka við meðalgöngulengd dagsins eða ferð það eftir forminu hvað hún gengur langt?
  7. Á hvernig skíðum gengur hún, hvernig gönguskóm og hvers konar stafi notar hún?
  8. Er hún með segl meðferðis, vindgreip, til að nýta sér meðvind?
  9. Hún notar örugglega GPS tæki en er hún með eitthvað til vara ef það bilar? Og hvað með rafhlöður, er hún með lager af þeim eða notar hún sólarorku?
  10. Hvernig er líkamleg heilsa? Hefur hún fengið blöðrur, hælsæri, særindi undan fötum eða eitthvað þess háttar?
Ég tók eftir því að í viðtalinu talaði Vilborg um að koma „heim í tjaldið“ í lok dags. Fannst það reglulega vel að orði komist.

mbl.is Sprungurnar varasamar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katla gýs 28. desember kl. 12.43

M#1AD7AB

Af Mýrdalsjökli er tíðindalaust. Ekkert bólar á gosi þó Katla gamla sé gengin langt yfir allt meðaltal og ætti að óbreyttu að hafa fyrir löngu misst vatnið.

Það er aldeilis ótrúlegt því allt frá því Eyjafjallajökull hóstaði hafa forspáir menn og konur, fólk með skyggnigáfu, þeir sem kunna með galdraspil að fara, sem og liðið sem gáir í garnir og innmat sauðfjár haldið því fram að Katla væri í þann veginn að fara að gjósa.

Sjálfmenntaðir jarðfræðingar hafa bendir á að auðveldast væri fyrir Mýrdalsjökul að gjósa á haustin en þá væri hann léttastur, jökulfargið minnst ...

Og spekin var svo mikil fyrir ári er jarðskjálftar voru tíðir í Mýrdalsjökli að gripið var til orðspeki forsætisráðherra sem hélt því oft fram að hennar tími væri kominn.

Hérna er jarðskjálftayfirlit Veðurstofunnar kl. 14:15 í dag. Ekkert að gerast nema þarna vestur af Goðabungu, í rótum Tungnakvíslajökuls. Aldrei bregst að þar eru jarðskjálftar þó allt sé með kyrrum kjörum annars staðar. 

Lesendur muna ef til vill eftir þeim draumspaka sem ég hef oft minnst á og hefur leiðbeint mér af og til. Sá hefur verið heldur hljóður upp á síðkastið.

Þó sendi hann mér í morgun óhugnanlega nákvæm skilaboðum að Katla myndi gjósa 28. desember kl. 12:43, taldi víst að þetta ætti að vera í desember en ekki nóvember. Hann heldur því jafnframt fram að engir mannskaðar verði og ekkert tjón verði á mannvirkjum að öðru leyti en að spýturnar yfir Múlakvísl munu skolast suður í Atlantshafið.

Þetta sel ég ekki dýrar en ég keypti, bendi bara á að ártalið vantar. Minni þó á að aldrei hefur neitt ræst sem þessi draumspaki maður hefur sagt. Sel ég því þessar fréttir ekki dýrari en ég keypti.


Er leigjandi borgunarmaður fyrir húsnæðisláni?

Er sá sem greiðir til dæmis 140-180 þúsund krónur á mánuði í húsaleigu óhæfur sem íbúðarkaupandi miðað við kröfur Íbúðalánasjóðs og bankanna?

Nei, ekkert endilega. Þúsundir manna þurfa að leigja af því að þeir uppfylla ekki kröfur um eigið fé. Sá sem kaupir íbúð, segjum á 21 milljónir króna, fær venjulega lán fyrir 80% fjárhæðarinnar og þarf þá að vera með 4,2 milljónir í eigið fé.

Margir hafa hrakist út á leigumarkaðinn vegna þess að þeir hafa misst íbúð einhverra hluta vegna og ungt fólk bætist við markaðinn og þarf að kaupa sína fyrstu íbúð. Saðan er hins vegar sú að venjulegt launafólk hefur varla tök á því að gera þetta tvennt í einu, greiða mánaðarlega leigu og spara jafnframt fyrir útborgun í nýrri íbúð.

Lausnin á þessu vandamáli er í sjálfu sér einföld. Gengið er þá út frá því að sá sem borgar leigu að fjárhæð 140-180 þúsund krónur sé tvímælalaust borgunarmaður fyrir samsvarandi húsnæðisláni.

Hugmynd mín er sú að hann fengi tvenns konar lán. Annars vegar hefðbundið húsnæðislán og hins vegar „skammtíma“ húsnæðislán til fjögurra ára.

Lauslegur útreikningur á þessum tvískipta lánaformi gæti litið út eins og hér kemur fram:

 

  1. Mánaðarleg afborgun af 16,8 milljón króna húsnæðisláni er um 78.000 krónur á mánuði.
  2. Mánaðarleg afborgun af 4,2 milljón króna húsnæðisláni er um 77.000 krónur á mánuði
  • Niðurstaða en því sú að samtals greiðir lántakinn á fyrstu fjórum árunum 155.000 krónur á mánuði sem í raun og veru er hagstæðari kjör en að leigja á ótryggum markaði.
Nú kann einhver að fullyrða að þetta séu einfaldlega 100% húsnæðislán og þau séu stórhættuleg.
 
Það er vissulega rétt, svo langt sem það nær. Þau eru hins vegar ekki hættuleg. Taka þarf eftirfarandi með í reikninginn:
  1. Íbúðalánasjóður og bankar eiga á fimmta þúsund íbúðir, margar ekki í leigu, liggja undir skemmdum
  2. Húsaleigumarkaðurinn er ótryggur og slæmur kostur fyrir flesta
  3. Þeir sem leigja íbúðir eru yfirleitt traustir greiðendur 
  4. Fæstir geta greitt húsaleigu og sparað um leið fyrir útborgun í íbúð
  5. Sparnaður sem myndast með eignamyndun í eigin húsnæði er sambærilegur við sparnað
Það er svo annað mál hvernig hægt er að fjármagna þessa viðbót við íbúðarlánakerfi ríkisins. Engu að síður eru hagsmunir almennings í þessu miklir. Hagsmunir banka eru hins vegar sáralitlir í þessu nema því aðeins að sá banki sem er í eigu ríkisins ríði á vaðið fyrir hvatningu stjórnvalda.
 
Ég hvet til þess að þessi hugmynd fái málefnalega umfjöllun því hún er góð og myndi koma til móts við hagsmuni þúsunda landsmanna. Útfærsluna á þessum kosti þarf auvðitað að ræða nánar.
 

 

 


Hvorki með klaufir né hala

Pál Vilhjálmsson kemst oftar en ekki vel að orði í bloggi sínu. Hann vekur athygli á örvæntingu Vinstri grænna í pistli í dag:

Vinstri grænir mælast með tíu prósent fylgi en fengu rúm 20 prósent við síðustu kosningar. Til að finna nýjan markað fyrir pólitík VG,  þessa sérkennilega blöndu af tækifærismennsku og svikum við grunnhugsjónir, vill flokkurinn lækka kosningaaldurinn í 16 ár.

Rökstuðningurinn frá Árna Þór Sigurðssyni, eins aðalhönnuðar ESB-svikanna í VG, er að það auki þroska unglinga að fá atkvæðisrétt. Ef það er tilfellið, hvers vegna þá ekki að miða kosningaaldurinn við fermingaaldur?

Árni Þór, sem fékk egg i höfuðið frá ungum kjósanda fyrr á kjörtímabilinu, gæti mætt í fermingaveislur til að sanna að hann er hvorki með klaufir né hala.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband