Með náttúruvernd en móti lögleysu umhverfisráðherra

Ég er ákveðið þeirrar skoðunar að þjóðin þurfi að fara sér hægt þegar ákvarðanir eru teknar um virkjanir, sérstaklega þegar þær hafa miklar breytingar á landslagi. Að þessu leiti er ég íhaldsmaður. Um þetta viðhorf mitt hef ég talsvert skrifað. Ég hef haldið því fram að það sé varla forsvaranlegt að eitt hundrað árum eftir að Einar skáld Benediktsson hvatti til vatnsvirkjanna skuli tækniþróunin varla vera komin lengra áleiðis að enn er land kaffært í vatni til að gera miðlunarlón fyrir virkjun. Skoðum Hágöngumiðlanir við Sprengisand og Kárahnúka. Eru það ekki vítin til að varast?

Og nú á að gjörbreyta ásýnd lands meðfram Þjórsá og tillögur eru uppi um að kaffæra bújarðir að hluta ofan við Árnes og upp að Þjórsárdal. Samskonar tillögur eru til um virkjun við Blönduós. Það er nöturlegt að líta til þess að barnabörnin manns skuli ekki geta litið landið sömu augum og afinn gerði alla sína æfi og þar á undan forfeður hans. 

Ekkert virðist ganga að þróa gufuaflsvirkjanir og þar sem þær eru reistar er land gjörsamlega rústað og undirlagt fyrir rör og leiðslur. Eitt hrikalegasta dæmið um þetta er Hellisheiðarvirkjun Orkuveitunnar en við gerð hennar er sem öll hugsanleg umhverfismistök hafi verið skipulögð. Þarna hefur landi verið gjörbreytt og verður aldrei hið sama.

Sem betur fer virðist nú Langasjó og umhverfi hans verið bjargað með friðlýsingu umhverfisráðherra og sveitarstjórnar Skaftárhrepps. 

Þó ég sé þessarar skoðunar get ég seint samþykkt gerðir umhverfisráðherra sem um daginn var dæmd fyrir að synja Flóahreppi staðfestingar á aðalskipulagi. Hún hélt því fram að Landsvirkjun hefði mútað hreppnum til að skipuleggja virkjanir sem þóknanlegar væru fyrirtækinu.

Umhverfisráðherra heldur því fram að hún hafi ekki brotið lög heldur hafi hún ákveðið að láta náttúruna njóta vafans á umdeildu aðalskipulagi. Þó svo að ég myndi glaður vilja taka undir með ráðherranum er það ekki þannig sem stjórnvöld eiga að vinna. Ráðherra hefur haldið framhjá lögum landsins og borið fyrir sig eitthvað sem ekki er löglegt. Slíkt framhjáhald lofar ekki góðu væri það viðurkennd stjórnsýslurök heldur fordæmi fyrir misnotkun á valdi. Er ekki nóg komið af slíku?

Þorsteinn Pálsson ræðir þetta mál í grein í Fréttablaðinu um þessa helgi. Niðurstaða hans er skynsamleg enda fjallar hann fyrst og fremst um lagalega hlið málsins en ekki þá sem varðar náttúruvernd  og hann gagnrýnir Alþingi harðlega og ekki síður ríkisstjórnina:

Fjármálaráðherra og fleiri samstarfsmenn umhverfisráðherrans á Alþingi hafa brugðið fyrir hann skildi með því að láta að því liggja að sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi hafi haft stjórnvaldsákvarðanir um skipulagsmál til sölu. Þetta er kynleg málsvörn í ljósi þess að niðurstaða dómstóla var einmitt sú að ekkert slíkt hefði átt sér stað og fyrir þá sök hefði synjun umhverfisráðherra á staðfestingu skipulagsákvörðunar sveitarfélagsins verið ólögmæt.

Oft eru slík vafamál uppi við stjórnsýsluákvarðanir að eðlilegt er að dómstólar skeri úr réttarágreiningi eða óvissu. Þó að lagarök ráðherra verði undir í niðurstöðu dómstóla leiðir það sjaldnast til þess að spurningar vakni um pólitíska ábyrgð og því síður um refsiábyrgð eftir ráðherraábyrgðarlögum. En er eðlilegt að slíkar spurningar vakni í þessu máli?

Til þess að svara því þarf að liggja fyrir með hvaða hætti ákvörðun ráðherra var undirbúin. Tefldu lögfræðingar ráðuneytisins fram greinargerðum með sannfærandi rökstuðningi fyrir ólögmæti skipulagsákvörðunarinnar eða að verulegur vafi léki þar á? Enginn hefur kallað eftir rannsókn á því. Það er óskiljanlegt. Eftirlitshlutverk Alþingis á að ná til slíks undirbúnings og líka til hæfni embættismanna til að gefa sjálfstæða og áreiðanlega lögfræðiráðgjöf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband