Enginn sómi að því að grafa undan Hæstarétti

Síðan Hæstiréttur Íslands tók til starfa fyrir rúmum 90 árum og allt til ársins 2009, hafa aðeins ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki , eða Framsóknarflokki skipað dómara þar.

Þetta er með hreinum ólíkindum og manni verður jafnvel hugsað til Sovétríkjanna sálugu þar sem það var skylt, að dómarar væru í Kommúnstaflokknum. 

Þetta skrifar Ómar Ragnarsson sem þarf greinilega að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Auðvitað er algengt að pólitiskir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyni með dylgjum að koma því inn hjá almenningi að dómsmálaráðherrar Sjáflstæðisflokksins hafi misnotað embætti sitt til að koma Sjálfstæðismönnum inn í Hæstarétt.

Sögurnar halda þó aldrei vatni, jafnvel þó „svívirðingunni“ sé líkt við kommúnistaflokk Sovétríkjanna eins og Ómar gerir. En til að eyðileggja nú allt þarf ekki annað en að hafa röksemdafærsluna í lagi:

  • Hvers vegna ætti einhver flokkur að hafa það sem keppikefli að setja flokksmenn sína sem dómara?
  • Hvaða skipanir í Hæstarétt hafa orkað tvímælis og ef svo er hafa þeir dómarar hafi á einhvern hátt misnotað aðstöðu sína?
  • Einnig þarf að skoða hvort dómar Hæstaréttar beri þess merki að einhver önnur sjónarmið hafi ráðið úrslitum en þau lagalegu.
  • Loks þurfa þeir sem halda því fram að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi misbeitt valdi sínu við skipun dómara í Hæstarétt að benda á þá dómara sem líklegir hafi verið til að ganga annarra erinda en kveðið er á um í lögum um dóminn og í stjórnarskrá.

Þó svo að ég virði Ómar Ragnarsson mikils og meti hann fyrir þau margvísleg störf sem hann hefur unnið um ævina finnst mér þessi ofangreindu ummæli á bloggsíðu hans vera langt fyrir neðan virðingu hans.

Ég hélt og held raunar enn að Ómar sem yfir það hafinn að vera með hálfkveðnar vísur. Hann er nógu góður hagyrðingur til að geta ort þær fullkveðnar en sóma síns vegna hlýtur hann að vita hvar ber að nema staðar.

Hafi Ómar einhver dæmi um að Hæstiréttur hafi dæmt á anna veg en eftir lögum og stjórnarskrá þá er það ekki í hag Sjálfstæðisflokksins eða nokkurs annars stjórnmálaflokks eða þjóðarinnar í heild. Eða byggjum við ekki land á lögum?

Mér telst svo til að um 44 dómarar hafi starfað við Hæstarétt og eru þá núverandi dómarar meðtaldir. Eflaust má með sanni halda því fram að einhverjir hafi verið eða eru hlynntir Sjálfstæðisflokknum, um það veit ég minnst.

Enginn getur þó með neinum rökum bent á að þessir dómarar hafi misbeitt valdi sínu. Allir hafa á einhvern hátt mótast af umhverfnu og dómarar eru ekkert öðru vísi en annað fólk að því leyti. Svo fremi sem lög leyfa hlýtur viðhorf dómara á einhvern hátt að móta starfshætti þeirra en að tengja það flokkspólitík er ansi langt til seilst.

Og haldi Ómar því fram eða einhver annar að flokkspólitík hafi ráðið niðurstöðum dómara þá er hér listi yfir þá. En fyrir alla muni færið rök fyrir ásökunum á hendur dómurunum sem hér eru taldir upp í stafrófsröð.

  1. Arnljótur Björnsson
  2. Ármann Snævarr
  3. Árni Kolbeinsson, núverandi
  4. Árni Tryggvason
  5. Benedikt Blöndal
  6. Benedikt Sigurjónsson
  7. Bjarni K. Bjarnason
  8. Björn Sveinbjörnsson
  9. Eggert Briem
  10. Einar Arnalds
  11. Einar Arnórsson
  12. Garðar Gíslason, núverandi
  13. Gizur Bergsteinsson
  14. Guðmundur Jónsson
  15. Guðmundur Skaftason
  16. Guðrún Erlendsdóttir
  17. Gunnar M. Guðmundsson
  18. Gunnar Thoroddsen
  19. Gunnlaugur Claessen, núverandi
  20. Halldór Daníelsson
  21. Halldór Þorbjörnsson
  22. Haraldur Henrysson
  23. Hjördís Hákonardóttir
  24. Hjörtur Torfason
  25. Hrafn Bragason
  26. Ingibjörg Benediktsdóttir, núverandi
  27. Jón Ásbjörnsson
  28. Jón Steinar Gunnlaugsson, núverandi
  29. Jónatan Hallvarðsson
  30. Kristján Jónsson
  31. Lárus H. Bjarnason
  32. Lárus Jóhannesson
  33. Logi Einarsson
  34. Magnús Thoroddsen
  35. Magnús Þ. Torfason
  36. Markús Sigurbjörnsson, núverandi
  37. Ólafur Börkur Þorvaldsson, núverandi
  38. Páll Einarsson
  39. Páll Hreinsson, núverandi
  40. Pétur Kristján Hafstein
  41. Sigurgeir Jónsson
  42. Viðar Már Matthíasson, núverandi
  43. Þór Vilhjálmsson
  44. Þórður Eyjólfsson

Ég gerði athugasemdir við blogg Ómars og hann svaraði mér kurteislega eins og hans er von og vísa. Hann gat þó ekki rökstutt hvers vegna það væri óeðlilegt að Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn hafi nær einir haft með höndum dómsmálaráðuneytið í 90 ár. Til að geta tekið undir með Ómari þarf að vera hægt að benda á óeðlilegar skipanir hæstaréttardómara og hvaða afleiðingar þær hafi haft í för með sér.

Mér segir svo hugur um að Ómar geti ekki komið með annað en að benda á að Jón Steinar Gunnlaugsson sé eða hafi verið í Sjálfstæðisflokknum. Þó ég sé „eldri en tvævetur“ eins og Ómar bendir á, þá get ég ómögulega gert alvarlegar athugasemdir með skipan þessara dómara.

Dómsvaldið er gríðarlega mikilvægur hluti þrískiptingu ríkisvaldsins. Nóg er að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið klúðri málum, á eitthvað verðum við að geta treyst og það er ekki til góðs að reyna að klekkja á Sjálfstæðisflokknum með því að grafa undan dómsvaldinu. Það endar bara illa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Erna Steinarsdóttir

Nýlegt dæmi um pólitískan úrskurð Hæstaréttar er ógilding hans á kosningum til stjórnlagaþings. Sjálfstæðisflokkurinn vill eyðileggja stjórnlagaþingið og Hæstiréttur lagði sín lóð á þær vogaskálar. Það dylst fáum sæmilega læsum einstaklingum að ekki stendur steinn yfir steini í úrskurðinum og pólitískur fnykur er af málinu. Hér eftir er alls ekki hægt að treysta honum.

Elín Erna Steinarsdóttir, 20.2.2011 kl. 00:43

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála Elínu

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.2.2011 kl. 01:27

3 identicon

Síðan Hæstiréttur Íslands tók til starfa fyrir rúmum 90 árum og allt til ársins 2009, hafa aðeins ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki , eða Framsóknarflokki skipað dómara þar. Er þetta ekki rétt Sigurður ? Þetta var það sem Ómar sagði. Það heyrðist hljóð úr horni Sjálfstæðismanna væri Hæstiréttur skipaður Vinstri Grænum og einstaka Samfylkingardómar. Þetta er einn hluturinn enn sem þessum flokki tókst að eyðileggja um dagana rétt eins og flokknum fyrir austan sem Ómar vitnaði í. Ítrekað hefur þessi Hæstiréttur dæmt pólitískt og jafnvel þurft að leiðrétta dóma hans ( öryrkja, kvóta, sjómanna ) Láttu ekki pólitíska blindu þína ráða öllum þínum gjörðum.

Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 10:39

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Að hvaða leyti stendur ekki steinn yfir steini í úrskurði Hæstaréttar um stjórnlagaþingið, Elín? Eitt meginefni hans var að hvorki innanríkisráðuneytið né landskjörstjórn hafa rétt til að breyta lögum. Það er einmitt það sem innanríkisráðuneytið og landskjörstjórn gerði. Hafa þessir aðilar rétt á að taka sér löggjafarvald?

Tryggvi, það sem þú nefnir er varla svaravert. Hvaða veistu um stjórnmálaskoðanir 44 dómara Hæstaréttar? Lestu það sem ég skrifaði í pistlinum og gagnrýndu út frá því.

Hvaða dómar Hæstaréttar eru ekki eftir lögum og þá eftir einhverjum flokkspólitískum línum? Þú nefnir öryrkjar og sjómenn. Er fólk sem tilheyrir þessum hópum einhverjir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins?

Ég trúi því ekki að upplýstur maður eins og þú skulir reyna að halda þessu fram. Auðvitað þarf dómsvaldið að dæma í pólitískum málum. Héraðsdómur dæmdi t.d. um daginn í máli níumenninganna sem réðust inn á Alþingi og hugsanlega þarf Hæstiréttur að dæma í því máli. Þannig er það, að leita þarf niðurstöðu í deilumálum fyrir dómstólum og deilumálin geta stundum verið pólitísk. Fólk getur svo haft ólíkar skoðanir á niðurstöðunum en þá þarf að gagnrýna þau með rökum en ekki yfirborðslegu og samhengislausu blaðri eða hálfkveðnum vísum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.2.2011 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband