Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Golfi lokið þetta árið
29.11.2011 | 00:25
Þessu er líklega lokið þetta árið. Kominn norðan garri og svörður landsins gaddfreðinn. Svo harður að ég náði hátt í 300 metra löngu höggi með drivernum (kylfa, ekki bílstjóri) síðasta laugardag. Kúlan skoppaði nær endalaust.
Já golftímabilinu er opinberlega lokið af minni hálfu og það með meti. Á minni þriggja ára golfæfi hef ég aldrei náð að leika jafn oft og á þessu herrans ári. Byrjaði i febrúar og síðan aftur í apríl og svo samfleytt fram til 26. nóvember.
Og árangurinn? Tóm andsk... vonbrigði alltaf hreint. Þó smá glampar af og til - og þvílík hamingja þegar það gerist.
Ég dauðsé eftir að hafa byrjað á golfinu, get þó ekki hætt. Þetta er eins og einhver fíkn, grípur mann heljartökum og heldur manni líklega föstum út æfina. Hjálp ...!
Þegar Jón Bjarnason hittir Jón Bjarnason ...
28.11.2011 | 12:38
Jón Bjarnason stendur núna frammi fyrir sjálfum sér og sínum eigin verkum. Hann hefur sagt forystu ríkisstjórnarinnar og báðum stjórnarflokkunum stríð á hendur.
Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir á bloggsíðu sinni. Hver skyldu viðbrögð Jóns hafa verið þegar hann stóð frammi fyrir sjálfum sér? Heilsaði hann, kinkaði kolli eða lét eins og ekkert sé og hélt áfram göngu sinni. Ólína á sennilega við að Jón ætti að spjalla við sjálfan sig um frammistöðu sína/hans í stjórnmálum.
Margir hafa þann vana að tala upphátt við sjálfan sig. Um góðan stærðfræðikennara í MR var sagt að ekki aðeins talaði hann við sjálfan sig heldur segði sér fréttir og jafnvel brandara og hafði bæði gagn og gaman af.
Hins vegar er það eiginlega óþekkt nema í bíómyndum eða fyrir framan spegil að maður geti staðið frammi fyrir sjálfum sér hvað þá verkum sínum.
Hrokafull yfirlýsing seðlabankastjóra
28.11.2011 | 11:44
Það kemur að því að það þurfi að setja strik undir afskriftir skulda heimila og fyrirtækja. Ef heimilin búast alltaf við frekar afskriftum gera þau ekki þær lagfæringar á bókhaldi sínu sem þörf er á.
Varla er hægt að hugsa sér hrokafyllri yfirlýsingu frá einum embættismanni en ofangreint sem Morgunblaðið hefur eftir Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra. Hann segir þetta án efa vegna ályktunar landsfundar Sjálfstæðisflokksins um fjármál heimilanna. Og þetta er í fullu samræmi við það sem hinn alræmdi forsætisráðherra þjóðarinnar hefur látið hafa eftir sér að ekkert meira verði gert fyrir heimilin í landinu. Og hversu samhljóma er þetta ekki við skattastefnu fjármálaráðherrans.
Staðreyndin er sú að heimilin í landinu eiga flest í gríðarlegum erfiðleikum vegna hrunsins og þar er vandinn vegna verðtrygginarinnar gríðarlegur. Ekki kemur til greina að bakka með þær kröfur sem sumir stjórnmálaflokkar, Hagsmunasamtök heimilanna og fjöldi annarra gerir til ríkisstjórnarinnar og Alþingis.
Orð Seðlabankastjóra bera að skoðast í samhengi við stefnu ríkisstjórninar. Þar talar maður sem hefur á aðra milljón króna í laun á mánuði og eflaust gott betur enda lofaði forsætisráðherrann honum topplaunum. Húsnæðislán mannsins eru líklega nærri núllinu.
Ríkisstjórnina þurfum við að hrekja burtu. Við þurfum líka nýjan Seðlabankastjóra, fordæmi eru fyrir því að reka þá, nýtum það.
Hluti af því kreppuástandi sem ríkir er afleiðing af verðtryggingu gengistrygingu íbúðalána. Það fé sem fjármálastofnanir hafa hirt frá skuldurum vantar inn í veltu samfélagsins, neyslustigið þarf að vera miklu hærra en nú er. Hins vegar er það ómögulegt því þetta fé hefur verið tekið frá almenningi.
Strik undir skuldaafskriftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Var ekki hægt að bjarga hundinum?
28.11.2011 | 11:22
Vefmiðill sagði frá því að smáhundur hafi bitið þingmann svo hann (þingmaðurinn) endaði á læknavaktinni.
Ómar vinur minn Valdimarsson er annálaður æringi og hefur húmor í ríkum mæli. Hann spurði einfaldlega á Fésbókarsíðu sinni:
Er það satt að það hafi ekki verið hægt að bjarga hundinum sem beit Lilju Mósesdóttur; að það eina sem kom til greina eftir bitið hafi verið að lóga honum strax?
Lögbrot réttlætt með tilvísun í drög að lagafrumvarpi
28.11.2011 | 09:47
Léleg stjórnsýsla getur af sér slæma umgengni. Þetta smellpassar við fleiri en hina norrænu velferðarríkisstjórn landsins.
Morgunblaðið segir frá því í dag að Reykjavíkurborg hafi lokað Suðurgötu án leyfis lögreglu. Það sé hugsanlega ígildi skjalafals.
Samgöngustjóri Reykjavíkurborgar á auðvitað í miklum vandræðum með að réttlæta lokunina sem kemur einfaldlega frá borgarfulltrúum Besta flokksins. Hann klórar þó í bakkann á kostulegan hátt. Segir að þó lögin banni borginni að gera þetta þá sé henni það heimilt samkvæmt drögum að nýjum umferðalögum ...
Er nú ekki dálítið langt til seilst að vísa í drög að lagafrumvarpi og réttlæta þannig lögbrotið. Ekki það að einhver sé á móti lokun Suðurgötu en fyrir alla muni gerum góða hluta á réttan hátt. Borgarfulltrúar Besta flokksin hljóta að taka þetta til sín.
Má VG við því að missa Jón Bjarnason?
27.11.2011 | 22:02
Segi Jón Bjarnason af sér fellur ríkisstjórnin. Það er svo einfalt. Menn láta ekki hrekja sig úr embætti þannig að óvirðing fylgi. Það gerir ekki nokkur maður.
Og hvers vegna ætti hann að hætta og eftirláta sviðið harðsvíruðum andstæðinum sínum í Samfylkingunni sem á þá ósk heitasta að knésetja íslenskan sjávarútveg?
Málið er flóknara en svo að hægt sé að sparka Jóni Bjarnasyni án þess að það hafi ákveðnar afleiðingar. Ríkisstjórnarmeirihlutinn hangir á bláþræði og hefur gert það lengi. Hann gæti haldið með því að draga til sín einhverja flokkaflakkara úr öðrum flokkum.
Hins vegar er ekki vitað hvort Jón Bjarnason sé einn eða hann eigi sér stuðningsmenn í þingflokki VG. Hitt er þó heiðskýrt að hann á öflugt bakland í norðvesturkjördæmi. Má VG við því að missa það fólk fyrir óvissan tíma í mistækri ríkisstjórn?
Nei, Jón Bjarnason er ekki á förum. VG á eftir að strjúka honum og formaður þingflokksins er hættur við að berja hann.
Hlýtur að segja af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmálafræðingar bulla bara
27.11.2011 | 20:50
Það veltur svolítið á honum sjálfum, sagði Gunnar Helgi þegar hann var spurður um stöðu Jóns Bjarnasonar. Hann er augljóslega í svolitlum vanda.
Hvað hafa stjórnmálafræðingar fram að færa sem öðru fólki er hulið? Mér er það að minnsta kosti hulin ráðgáta. Lögfræðingar túlka lögin, guðfræðingar trúmál, veðurfræðingar rannsaka veðurfar og svo má lengi telja. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði veit ekkert meira en við hin, segir veit bara svolítið. Og við það er látið sitja.
Stjórnmálafræðingar segja svo sem ekki neitt, veltast svona frá einu í annað án þess að leggja nokkuð fram - nema auðvitað að þér séu þátttakendur í henni. Þá vantar nú ekki skoðanirnar, sleggjudómanna og jafnvel rökin - og þá hallar jafnan á þá með andstæða skoðun.
Eru þeir yfirnáttúrlegir?
Stjórnmálafræðingar eru fráleitt yfirnáttúrulegir. Þeir hafa ekki neina yfirskilvitlega hæfileika frekar en við hin enda spegla þeir ábyggilega þversnið þjóðfélagsins. Engu að síður virðast stjórnmálafræðingar eiga að vera spámenn samtímans, að minnsta kosti ef trúa má fjölmiðlum.
Til eru þeir sem spá í stjörnumerki fólks rétt eins og það séu í þau ritað hver framtíðin sé. Þeir finnast einnig sem spá í spil, rýna í kindagarnir. Svo eru það einsetumennina sem sagðir voru sitja á fjallstoppum eða á öðrum afskekktum stöðum og mæla fram vísdómsorð. Þegar nánar er athugað hafa stjórnmálafræðinarnir engu betri sýn á framtíðina en aðrir, hvorki langt né skammt. Fátt er um vísdóminn en meira um almennt tal rétt eins og hjá okkur hinum.
Auðvitað hafa stjórnmálafræðingar þekkingu á sögunni og þróun stjórnmála til lengri eða skemmri tíma. Hins vegar eru þeir ekkert skyndamari eða betri í að ráða í samtímann heldur en hver sá sem hefur snefil af heilbrigðri skynsemi. Og ekki eru allir skynsamir eða draga rökréttar ályktanir af því sem fyrir þeim liggur. Það á ekki síður við um stjórnmálafræðinganna.
Ekkert bitastætt
Verra er þegar hafa álitsgjafar fjölmiðla hafa ekki neitt bitastætt fram að færa. Sýnu verst er þó að sumir þeirra eru vilhallir ákveðnum stjórnmálaflokkum í útskýringum sínum og níðast á öðrum. Og þetta geta oft verið stjórnmálafræðingar sem reyna að dylja skoðanir sínar á bak við fræðihjalið.
Þetta hefur gengisfellt álitsgjafanna en engu að síður sækja fjölmiðlarnir í þá. Margir þeirra teljast vissulega fræðimenn en eru bullandi vanhæfir til að veita hlutlaust álit vegna tengsla við stjórnmálaflokka. Breytir þá engu hversu fróðir þeir eru.
Þvílíkir fræðimenn eða ..
Hvers vegna leita þá fjölmiðlar í stjórnmálafræðinga til að fá skýringu á niðurstöðum kosninga til sveitarstjórnar á síðasta ári? Er eitthvað í menntun þeirra sem gerir þá betur færa um að skilja aðstæður? Það getur meira en vel verið en lítum á umsagnir nokkurra stjórnmálafræðinga um nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar.
Stefánía Óskarsdóttir í Morgunblaðinu 31. maí 2010:
... að ágreiningurinn innan VG sé það alvarlegur að það sé raunveruleg hætta á að flokkurinn klofni. ... Hún vill þó ekki spá því að þetta gerist, en segir að hættan á klofningi VG sé fyrir hendi. ... Nú sjá menn hversu fylgið geti verið hverfult og það sé spurning hversu mikinn tíma ríkisstsjórnin hafi til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd.
Birgir Guðmundsson, dósent, í Morgunblaðinu 31. maí 2010:
... telur líklegt að úrslitin muni styrkja þau öfl innan VG sem gagnrýnt hafa stefnu ríkisstjórnarinnar. ... Frá því að kreppan reið yfir hafa stjórnmálin einkennst af viðbragðapólitík og hefðbundnu pólitísku þrasi. Þessu eru kjósendur að mótmæla. Enginn vafi er á að kosningaúrsliti eru mikið áfall fyrir fjórflokkinn, en það væri mikill barnaskapur að afskrifa hann. ... Haustið gæti orðið heitt.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í Rúv. 30. maí 2010:
... segir djarft að spá því að dagar fjórflokksins séu taldir. Fátítt sé að flokkar deyi, ... framtíð flokkanna og flokkakerfisins ráðist að miklu leyti af viðbrögðum þeirra við úrslitum kosninganna. Við höfum aldrei séð svona úrslit áður á Íslandi í nokkrum kosningum. Hann segir það vera náttúru stjórnmálaflokka að laga sig að breyttum aðstæðum.
Eiríkur Bergmann, doktor, dósent og forstöðumaður, í Pressupistli 2. júní 2010:
Fjórflokkurinn hagar sér eins og hrunið hafi aldrei átt sér stað. Hanna Birna heldur að hún sé drottning Reykjavíkur, Dagur brosir breitt og dreifir rósum, Sóley Tómasdóttir er upptekin við að endurskapa sjálfa sig og Einar Skúlason syndir yfir Nauthólsvíkina á meðan félagarnir góla; þú meinar Einar!
Hvar eru fræðin? Hvað leggja þeir til úr menntun sinni sem við hin höfum ekki þekkingu eða kunnáttu á? Í sannleika sagt eru þetta afar flatar skýringa ... BORING eins og krakkarnir eiga til að segja. Ekkert nýtt kemur fram í þeim umfram það sem þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita nú þegar.
Svo hefur allt þetta sem þessir fjórfræðingar sögðu reynst vera hjal eitt. Stefanía getur sosum enn haldið því fram með réttu að VG sé að klofna. Birgir er ekki meiri fræðimaður en það að hann setur fjóra stjórnmálaflokka undir einn hatt og kallar fjórflokk. Ólafur segir að stjórnmálaflokkar lagi sig að breyttum aðstæðum - nema hvað. Og Eiríkur reynir að gera lítið úr fólki.
Þvílíkir fræðingar sem þetta fólk er eða hitt þó heldur.
Verið að sýna Jóni vantraust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kínverji sprengir ríkisstjórnarsamstarfið ...
27.11.2011 | 18:41
Helgin sem nú er að líða hefur einkennst að miklum vígaferlum innan hinnar norrænu velferðarstjórnar. Athygli vakti að forsætisráðherra gerði lítinn ágreining við innanríkisráðherra vegna ákvörðunar þess síðarnefnda um jarðarkaup Kínverjans.
Þingmenn Samfylkingarinnar í norðausturkjördæmi tóku sér leikskólakennara til fyrirmyndar í almanntengslum og sögðust bandbrjálaðir. Vinstri grænir voru sammála sjúkdómsgreiningunni.
Af miklu offorsi hjólaði forsætisráðherra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna frumvarps um breytingar á fiskveiðilögum. Þótti stjórnmálaskýrendum víst að nú væri ráðist á Albaníu fyrir það sem gerðist í Sovétríkjunum. Með öðrum orðum, forsætisráðherra ræðst á sjávarútvegsráðherra til að fá útrás fyrir gremju sína vegna Kínverjans.
Fannst mörgum skrýtið að innanríkisráðherra mætti koma með fyrirframákveðin mál á ríkisstjórnarfundi en ekki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Formaður þingflokks Vinstri grænna, sem er þekktur mannasættir, telur annað hvort réttast; að berja Jón Bjarnason eða svifta hann ráðherradómi.
Þingmaður Samfylkingarinnar hyggst leggja fram frumvarp um breytingu á lögum svo Kínverjar megi framvegis kaupa jarðir á Íslandi.
Þingmaður Vinstri grænna hyggst leggja fram frumvarp um breytingu á lögum svo Kínverjar megi aldrei kaupa jarðir á Íslandi. Stjórnmálafræðingar telja að báðar breytingarnar verði samþykktar.
Þess má að lokum geta að leikmaður Mannséstersittí skoraði í dag sjálfsmark.
Bolmagn, hæfn og vilji og svarti hundurinn
25.11.2011 | 09:45
Á sama tíma og Ítalir takast á við kreppuna standa mikilvæg ríki frammi fyrir vaxandi hættu (til að mynda vegna vísbendinga um harða lendingu kínverska hagkerfisins og vegna áframhaldandi mikils atvinnuleysis í Bandaríkjunum). Þegar slíkar hættur eru metnar er gagnlegt að beina athyglinni að þremur breytum: bolmagni, hæfni og vilja. Hefur landið bolmagn til að takast á við vandamálin sem steðja að því? Hafa þeir sem bera ábyrgð á efnahagsstefnunni næga reynslu og þekkingu til að koma á nauðsynlegum umbótum? Átta yfirvöldin sig á þörfinni á því að sýna harðfylgi og taka með afgerandi hætti á vandamálunum?
Blaðamaður dæmdur, hver er ábyrgð fjölmiðilsins?
25.11.2011 | 09:02
Hver er munurinn á verkefnum blaðamanns og ábyrgð fjölmiðlisins réði hann í vinnu og stjórnar honum? Sá síðarnefndi er undir stjórn ritstjóra, ritstjórnarfulltrúa svo ekki sé minnst á rekstrarlega stjórnun. Allt sem fjölmiðill birtir þarf að fara í gegnum nálarauga stjórnenda hans.
Engu að síður virðist blaðamaðurinn eða fréttamaðurinn einn ábyrgur fyrir fréttunum sem hann flytur.
Fréttamaður á Ríkisútvarpinu var á dögunum dæmdur í Hæstarétti og hluti af frétt hans ómerkt. Honum var jafnframt gert að greiða manni út í bæ stórfé í miskabætur. Ríkisútvarpið sem hefur þennan mann í vinnu og ekkert virðist hafa haggað því, hvorki stofnuninni sem slíkri eða yfirmönnum fréttamannsins. Engu að síður var fréttin á ábyrgð þess, unnin og birt af frumkvæði þess.
Er ekki komin tími til að Blaðamannafélagið geri þá kröfu í næstu kjarasamningum að fjölmiðlar beri eðlilega ábyrgð á fréttum sínum verði deilt um þær fyrir dómstólum?