Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Gjörólík störf bæjarstjóra og borgarstjóra

Sá sem vill gera launum bæjarstjóra skil á að gera það á vitrænan hátt. Hið fyrsta sem hann gjörir ... er að taka Árbók sveitarfélaga sem Samband íslenskra sveitarfélaga gefur út. Í henni má sjá á samræmdan hátt stjórnunarkostnað allra sveitarfélaga. Þar má líka finna íbúafjölda sveitarfélaga og þá er óhætt að deilda kostnaðinum á íbúana.

Að vísu hef ég ekki gert þetta en gæti vel trúað, að þetta gefi sanngjarnari lýsingu á þessum málum, alla vega miklu betri en að deila launum eins embættismanns á íbúana. 

Tilgangslítið er að bera saman laun bæjarstjóra og íbúafjölda? Og í þokkabót er arfavitlaust að miða við laun borgarstjórans í Reykjavík. Fleira er í þessum málunum en það sem í fljótu bragði kann að virðast.

Lítum á laun borgarstjórans og það umhverfi sem hann hefur til stuðnings í starfi sínu. Stóra skrifstofu, aðstoðarmann, einkaritara, bílstjóra, skrifstofstjóra og fleiri. Til stuðnings er fjármálaskrifstofa, endurskoðendur, verkfræðingar, arkitekta, og hundruð annarra sem sjá um að veita embættismanninum upplýstum og auðvelda honum ákvarðanir.

Morgunblaðið er svo vinsamlegt að taka til skoðunar sveitarfélög eins og Sandgerði, Patreksfjörð og jafnvel Blönduós.

Og í hverju eru störf bæjarstjóra lítils sveitarfélags þá fólgin?

Hefa þeir sambærileg starfskilyrði og starfsumhverfi og borgarstjórinn í Reykjavík?

Nei, þau eru gjörólík enda eru umsvifin kannski minni. Hins vegar sinnir bæjarstjóri lítilla sveitarfélaga ótrúlega mörgum verkefnum sem þeir í þeim stærri líta ekki við, koma raunar aldrei nálægt og vita jafnvel ekki af því að þeim þurfi að sinna.

Í litlum sveitarfélögum skiptir þjónustan öllu máli. Bæjarstjórarnir þurfaf að vera vel að sér í öllum málum því þeir hafar ekki sérhæfða starfsmenn til að sinna þeim. Bæjarstjórar þurf að vera verkfræðilega þenkjandi, kunna góð skil á arkitektúr og vera snöggir að finna lausnir á aðknýjandi verkefnum. Þeir eru verkstjórar, fjármálastjórar, oft gjaldkerar, stundum félagsmálastjórar, auglýsingastjórar, hönnuðir, skipulagsstjórar. Í sannleika sagt þurfa þeir að vera mjög alhliða starfsmenn og jafnvel kunna góð skil á ljósritunarvélinni, ryksugunni, hella uppá kaffi, vera fljótir í sendiferðum, eyða ekki of miklum tíma í fundi, hafa dyrnar opnar fyrir íbúum og gefa þeim tíma til að tjá sig og svo framvegis. 

Sér einhvern Gnarr sinna þessum störfum. 

 


mbl.is Með svipuð laun og borgarstjórinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkar ár norðan Eyjafjallajökuls

hvanna.jpg

Hvanná er ólíkindatól. Hún getur vaxið afar hratt, ryðst þá fram með offorsi, ber með sér gríðarlega mikið efni, stóreflis grjót og möl, grefur sig svo nær ómögulegt getur verið að aka yfir hana hvað þá að vaða. Svo getur hún átt það til að kvíslast út um allar koppagrundir í mörgum álum og enginn þeirra vandamál.

Rétt um sjö leitið í kvöld jókst vatnshæðin í Hvanná um tæpa nítján centimetra. það er frekar lítið og alls ekki til að hafa áhyggjur af, - en þó ber að líta á aðstæður, hvernig áin hagar sér, hvort hún er í einum ál eða fleirum. Um leið og vatnið jóskt hækkaði hitastigið um 0,2 gráður. Þetta bendir til þess að um sé að ræða bráðvatn af jöklinum.

Hins vegar skil ég ekki hvers vegna leiðnin í vatninu minnkar. Hélt að vatnið væri mjög blandað ösku og því myndi leiðnin aukast.

Á sama tíma og vatnið jókst í Hvanná minnkaði rennslið í Krossá, en náði sér þó aftur á strik rúmum klukkutíma síðar. Þó er vatnið ekkert meira í ánni en verið hefur í allan dag. Á sama tíma lækkaði vatnshitinn um rúmar tvær gráður og hefur haldið sér þannig síðan. Leiðnin er hins vegar óbreytt.

Gaman væri nú að vita hvaðan vatnið í Krossá kemur, hvort það sé að meginstofni til úr Hrunaá eða Tungnakvísl. Veðja á Hrunaá.

Í Steinsholtsá hefur hitinn á sama tíma lækkað um tæpa eina gráðu, en leiðnin aukist nánast á sama tíma og hún féll í Hvanná. Í allan dag hefur vatnið aukist í Steinsholtsá en það hefur gerst hægt og sígandi, engar stökkbreytingar eins og í Hvanná.


mbl.is Hækkar í Hvanná
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB umsóknin veldur þjóðinni álitshnekki

Af öllu þeim hamförum sem núverandi ríkisstjórn hefur tekist að áorka á ekki lengri tíma en einu og hálfu ári lítur út fyrir að ESB umsóknin verði sú sem valdi þjóðinni mestum álitshnekki. Með látum og sýndarmennsku var leyft að leggja umsóknina fram og nú kemur í ljós, rétt eins og með Icesave samninginn, að hvorki er þingmeirihluti fyrir henni né gefa skoðanakannanir til kynna annað en að stór meirihluti sé gegn umsókninni.

Umsóknin er á ábyrgð Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, einnig þeirra sem eru á móti aðildarumsókn. Eins og alltaf vaknar órólega deildin í VG bæðu seint og illa og uppgötvar löngu eftir gjalddaga að meðan hún svaf vann flokkurinn að því að tryggja sér ráðherraembættin. Greiðslan var m.a. sú að leyfa aðildarumsókninni að ganga í gegnum þingið.

Þetta allt er svo sem í ágætu lagi. Stjórnin mun ekki halda lengi úr þessu. Þá verður umsóknin dregin til baka.


mbl.is Ekki þingmeirihluti fyrir ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær skýringar og báðar slæmar

Skýring Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra er líklega annað af tvennu:

 

  • Hann vissi um álit Seðlabanka Íslands um gengistryggð lán, sagði ekki frá álitinu, hélt því leyndu fyrir Alþingi og með því tafði hann þróun stjórnmálaumræðunnar í þrettán mánuði og hefur eflaust bakað ríkissjóði skaðabótaskyldu.
  • Hann vissi ekki af áliti Seðlabankans, vissi ekki af störfum lögfræðinga ráðuneytisins, vissi ekki það sem ráðuneytisstjórninn vissi alla tíða. Fyrir vikið má draga í efa stjórnunarhæfni hansef starfsfólk hans upplýsir hann ekki um svo gríðarlega mikilvægt mál.

 

Hvort tveggja er alvarlegt mál og bæði mikil ávirðing á þann mann sem krafðist í búsáhaldabyltingunni að allt skyldi vera uppi á borðum, engin leyndarhyggja. 

Hvað hefur komið fyrir Gylfa? Gekk hann í sömu björg og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon? 


mbl.is Bjarni: „Staða Gylfa í uppnámi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarna hefur fljótið margoft farið

Eftir myndinni að dæma sem fylgir með fréttinni þá er um að ræða veginn rétt innan við Langanes. Þar hefur Markarfljótið lengi verið til mikilla vandræða. Vegagerðin hófst handa fyrir nokkrum árum og byggði varnargarð á þessum slóðum. Hann reyndist þokkalega þar til kom að flóðinu úr Gígjökli. Þá slettist talsvert yfir varnargarðinn en það sem verra er að aurinn settist til fyrir framan hann og þar af leiðandi á sumarvatnið í fljótinu auðveldara með að komast yfir garðinn.

Lausnin er þess vegna ekki að hækka garðinn heldur að grafa aur og möl burtu fyrir utan hann. Landið fyrir innan verður alltaf í sömu hæð en smám saman lægra en fyrir utan garðinn.


mbl.is Þórsmerkurleið opnuð síðdegis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn fullur ökumaður á Hornströndum

Hef frétt að valdstjórnin hafi sent löggæslumenn í Kjaransvík og Smiðjuvík á Hornströndum og þar hafi ekki fundist ökumenn undir áhrifum áfengis. Telur ríkislögreglustjóri það til marks um mikið forvarnarstarf lögreglunnar ogað almenningur sé hættur að keyra fullur á Hornströndum. Þess er vænst að fleiri staðir á landinu verði án drukkinna ökumanna.

Þess er vænst að útvarp umferðaráðs verði með marga fróðleikspistla um umferð á Hornströndum á næstu vikum. 


mbl.is 36% ökumanna undir áhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðuneytið í feluleik fyrir ráðherranum?

Ráðherra efnahags- og viðskiptamála hrekst úr einu víginu í annað. Undarlegt með mann sem hefur að eigin sögn ekkert að fela. Ég trúi honum enda ætti hann manna best að vita hvaða afleiðingar ósannsögli getur haft í för með sér fyrir mann í hans embætti svo ekki sé talað um ráðuneytið sjálft. Núna á hann að hætta að kommentera um málið áður en almenningur hættir að skilja hvað hann er að gera í ráðuneytinu.

Hins vegar skil ég ekki hvernig stendur á því að niðurstaða lögfræðiálits Seðlabankans sé notað í annað lögfræðiálit í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og ráðherra fær án efa seinna álitið í hendur án þess að vita neitt um heimildir. Ég hefði spurt, hvaða heimildi hefur þú fyrir þessu áliti þínu, kæri ráðuneytislögfræðingur? 

Hafi ráðherra ekki spurt þessarar spurningar má draga í efa skilvirkni hans og ráðuneytisins til að vinna í þeim málum er heyra til þess. Hafi ráðherra hins vegar spurt þessarar spurningar eru allar líkur á því að ráðuneytislögfræðingurinn hafi svarað: Því miður, kæri ráðherra, mér er ekki heimilt að segja þér frá því.

Og hafi hvorug staðan komið upp þá eru starfsmenn ráðuneytisins, ráðherrann meðtalinn, í einhverjum skrýtnum leik sem á lítið skylt við ábyrga stjórnsýslu.

Fimm lögfræðingar í tuttugu og þriggja manna ráðuneyti og allir í feluleik fyrir ráðherra. Skilur þetta einhver?


mbl.is Mátti ekki dreifa minnisblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær ráðherrann ekki tímamóta upplýsingar?

Í efnahags- og viðskiptaráðuneyti Íslands eru tuttugu og þrír starfsmenn, þar af einn ráðherra og fimm sem titlaðir eru lögfræðingar. Er það virkilega svo að þegar lögræðingarnir fá tímamótaplagg frá Seðlabanka Íslands að þeir láti ekki ráðherrann heyra af því?

Boðleiðir í litlu ráðuneyti geta ekki verið svo langar að stórmerkilega upplýsingar rati ekki til yfirmannsins. Til hvers er það verið að vinna í deildum ef ekki til að einfalda vinnuna og auðvelda töku ákvarðana?

Að sjálfsögðu hlýtur Gylfi Magnússon að fara með rétt mál. Ráðherra lýgur ekki, svo einfalt er það. Hins vegar þarf ráðherrann að skoða vandlega skipulag ráðuneytisins. Ráðherrann fær greinilega ekki þær upplýsingar sem hann þarf á að halda. Þar af leiðandi getur hann ekki upplýst þingið, umræðan fer á villigötur og stjórnkerfið virkar ónýtt. Á þessu ber ráðherrann ábyrgð.


mbl.is Ranglega vitnað í ræðu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur þangað til næst snjóar

dsc_0928.jpg

Ekki þykir það fréttnæmt á Íslandi að aska falli á jökla. Við það verða þeir svartir og þannig verður þangað til næst snjóar. Þetta er eins og að fá flensuna, hún bráir af manni um síðir.

Snjólínan á jöklum færist ofar á sumrin. Þar fyrir neðan bráðnar vetrarsnjórinn og undirliggjandi ísinn kemur í ljós, oft skítugur og grár.

Fáir eru þeim hæfileikum gæddir að geta spáð fyrir um veðrið langt fram í tímann. Ég tel samt fullkomlega öruggt að í vetur komandi muni snjóa á Mýrdalsjökli. Þori jafnvel að éta fjallahúfuna mína upp á það. Þar með er ekki öruggt að askan verði þar með ósýnileg um eilífan aldur. Líklegra er að jökullinn verði köflóttur um tíma, vegna þess að veðráttan er mismunandi.

Í sumar gekk ég á Drangajökul. Á honum er engin aska og mikið óskaplega er gaman að koma á „skerin“ í þeim jökli, Hljóðabungu, Reyðarbungu og Hrolleifsborg. Myndin er af ferðafélögunum við Hrolleifsborg.


mbl.is Mýrdalsjökull enn biksvartur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er eitthvað bogið við stjórnun Seðlabankans?

Seðlabanki Íslands virðist hafa fyrirgert trausti almennings með því að láta ekki kanna til hlítar hvort gengistryggðu lánin hafi verið lögleg. Þegar allt er í óefni komið fer með bankann eins og margar aðrar stofnanir og fyrirtæki, þau flæmast undan umræðunni, afsaka ekkert, undaþiggja sig frá vandamálinu og kenna öðrum um.

Staðreyndin er einfaldlega sú að bankanum bar að kanna hvort gengislánin væru lögleg. Þegar minnsti vafi kom upp bar bankanum að kryfja málið. Til þess er lögfræðideildin. Hún útdeilir ekki verkefnum til fjögurra lögfræðistofa rétt eins og um fótbolta leik sé að ræða. 

„Niðurstaðan er 3:0 og gengistryggðu lánin eru lögleg.“

Ef þetta eru vinnbrögðin þá er eitthvað að stjórnunarháttum í bankanum. 

Er í raun enginn til í Seðlabankanum með bein í nefinu? Stendur upp og segir gerum allt til að reka þenan banka eins og lög gera ráð fyrir. 

 


mbl.is Seðlabankinn ekki dómstóll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband