Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Þeir tala blítt þessir frambjóðendur

Þessar kosningar eru er hið undarlegasta mál. Hvergi finnast frambjóðandur, þeir eru í felum nema örfáir sem reyna að auglýsa eða koma sér á framfæri með greinaskrifum. 

Um er að ræða persónukjör. Aragrúi frambjóðenda. Þeir keppast um að tala í frösum, tala blítt, gæta þess að tala eins og þeir halda að kjósendur vilji. Menn elska og dásama mannréttindi, þrískiptingu valdsins, heiðarleika, réttlæti, sólarlagið, náttúruna, hlýindin og allir eru á móti spillingu, ofríki framkvæmdavaldsins, ódæmum dómsvaldsins og ólögum löggjafarvaldsins. 

Einhver frambjóðandi sem var svo áfram um réttlætið að hann hélt því fram að fyrirtækin ættu að vera í eigu ríkisins og þjóðaratkvæði ætti að gilda um starfsemi hvers og eins ... Já, takk fyrir.

Og hvernig fara umræður fram á stjórnlagaþingi? Einhver gáfumaður í framboði talar um „samtöl á stjórnlagaþingi“. Dettur nokkrum í hug annað en rökræður og deilur. Ef ekki, er vandséð hvernig niðurstöðurnar geti orðið skynsamlegar. Verst af öllu ef allir varða nú sammála og setja okkur langhund fyrir stjórnarskrá. Við höfum enga þörf fyrir slíkt.

Þó ég hafi litla trú á stjórnlagaþinginu ætla ég að kjósa. Ég hef áður gert grein fyrir aðferðafræði minni og endurtek hana hér:

 Svona ætla ég að gera, hef feitletrað nokkur atriði til áhersluauka:

  1. Velj þann sem ég þekki persónulega og treysti
  2. Velja einn af hverri stétt
  3. Raða öllum frambjóðendum eftir starfsheiti
  4. Ekki velja fólk eftir útliti og alls ekki eftir því hveru vel þeir eru máli farnir.
  5. Sleppa öllum þrasstéttum, t.d. blaðamönnum, ritstjórum, stjórnmálafræðingum, fjölmiðlamönnum og -fræðingum og prestum. Að öðrum kosti endum við með lið sem hefur óskaplega mikla æfingu í að segja frá engu í löngu máli.
  6. Sleppa öllum sem titla sig forstjóra.
  7. Sleppa öllum sem eru háttsettir embættismenn, t.d. forstjóra Vinnumálstofnunar, talsmanni neytenda, þeir hafa nóg að gera, ef ekki þá eiga þeir að fá sér annað starf.
  8. Sleppa þeim sem eru með mörg starfsheiti. Þeir eru líklega að reyna að fleyta sér áfram á vafasömum forsendum
  9. Sleppa þeim sem eru með löng starfsheiti, þau eru bara til vandræða. Eitt starfsheiti er meira en nóg sama á við menntun. Sá sem er með mikla menntun er bara til óþurftar, veit ekkert hvað hann vill.
  10. Sleppa öllum nemendum, þeir hafa ekki næga reynslu eða þekking, þess vegna eru þeir í námi.
  11. Sleppum leikurum eða leikstjórum, hinir fyrrnefndu hafa aðeins reynslu af því að segja það sem aðrir hugsa og þeir síðarnefndu hafa aðeins reynslu af því að segja öðrum að haga eins og allt aðrir.
  12. Engir nafnar mega vera í úrvalinu, velja þarf á milli þeirra sem bera sama fornafn. Allt annað veldur ruglingi.
  13. Velja alla sem eru með fyrrverandi (fv.) í starfsheiti. Þetta eru yfirleitt fólk sem hefur mikla og góða reynslu. Þessi regla upphefur reglu nr. 3 til 8.
  14. Velja flesta af landsbyggðinni, við þurfum að hlusta á venjulegt fólk.
  15. Ekki velja neinn sem hefur auðkennistölu sem endar á þremur og sjö, 3 og 7. Af hverju? Jú, það fækkar þeim sem þarf að velja ...
  16. Velja þá sem eru atvinnulausir. Það þarf kjark til að titla sig þannig og slíkir lofa góðu.
  17. Sleppa öllum þeim sem era ættarnafnið Wium, annars er hætta á að fyrrverandi forsetaframbjóðandi setjist á stjórnlagaþing.

Nú, þegar þarna er komið sögu ætti ég að vera kominn með ca. 40 manna lista. Þá er kominn tími til að fara yfir kynninguna á þessu liði og strika þá miskurnarlaust út sem eru mannkynsfrelsarar, ætla sér að gjörbreyta og bylta og ekki síst strika þá út sem eru einfaldlega leiðinlegir. Það er nóg af slíkum á háttvirtu Alþingi. 


mbl.is Rúmlega 10 þúsund kusu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæra til Útvarpsréttarnefnar vegna RÚV

Meðfylgjandi bréf sendi ég til Útvarpsréttarnefndar í dag vegna þess að mér ofbjóða auglýsingar í RÚV og raunar öllum fjölmiðlum. Mér er þó málið skyldara með RÚV því gegn vilja mínum þarf ég að greiða áskrift að þessum fjölmiðli og það sem meira er ríkissjóður innheimtir en Alþingi ákveður ákskriftina.
 
Neiti ég að borga þá kemur til kasta innheimtuaðila ríkissjóðs sem dæmir mig án þess að taka tillit til þess sem ÉG vil. Ef ég kæri niðurstöðurnar þá dæma dómstólar mig samkvæmt gildandi lögum til að greiða skuld mína, sem líklega er kölluð skattaskuld. Ég á einskis annars úrkosta en að éta þetta allt ofan í mig og þegja.
 
Svo er verið að tala um spillingu í þjóðfélaginu.
 
Annars skýrir bréfið sig sjálft. Niðurstöður erindisins til útvarpsréttarnefndar birti ég á þessum stað þegar þar að kemur. 
 
Góðan daginn,
Auglýingar fyrir jólin eru neytendum sjónvarpsefnis árvisst til ama. Þá er þrengt að dagskrárefni með flóði auglýsinga. Þetta er verulegt vandamál hjá RÚV. 

Undirritaður telur að Útvarpsréttarnefnd þurfi að kanna afar vel hvernig Ríkisútvarpið stendur að sölu auglýsinga í sjónvarpi. Með skylduáskrift að þessum fjölmiðli tel ég mig mega til með að gagnrýna verklag þar á bæ sem gerir það að verkum að sjónvarpsáhorfendum er nánast drekkt í auglýsingum.
 
Nú þegar eru auglýsingatímar Sjónvarps RÚV orðnir afar langir og með hryllingi veltir maður því fyrir sér hvernig þeir verða um miðjan desember. Dreg ég í efa að nokkrir þættir rúmist þá á milli auglýsingatíma og þjóðinni verði einfaldlega drekkt í auglýsingum.
 
Ég hef þá vissu að með gylliboðum og endalausu auglýsingaplássi er Sjónvarpið orðinn eins og auglýsingablað sem flestir henda um leið og það kemur inn um bréfalúguna. 

Markmiðið hjá Sjónvarpinu virðist ekki að takmarka auglýsingaflæðið með hærra verði heldur lækka það úr öllu hófi og bjóða alla velkomna. Þetta bitnar líklega óhjákvæmilega á samkeppnisaðilum, veldur lægra verði og færri birtingum. Sá er ekki tilgangurinn með fjölmiðli sem fær stóran hluta rekstrarfjár frá almenningi í formi skatta.
 
Með verðstefnu Sjónvarpisins á auglýsingum hefur það óhjákvæmileg áhrif á verð annarra sjónvarpsstöðva til lækkunar vegna þess að það eru einfaldlega stærst og leiðandi á markaðnum. 

Ástandið er orðið þannig að auglýsendur velta því fyrir sér hvort rétt sé að eyða peningunum í eina heilsíðu í Fréttablaðinu eða 2 vikna keyrslu í sjónvarpi fyrir sama verð. 
 
Auðvitað á Rúv á að vera með stutta og dýra auglýsingatíma, sýna smá klassa og sjálfsvirðingu í stað þess að líta út eins og lítil sjónvarpsstöð á barmi gjaldþrots og gerir hvað sem er fyrir aurana.
 
Gott dæmi er hinn vinsæli sjónvarpsþáttur Útsvar sem var á dagskránni 12. nóvember sl.  Auglýsingar með kostunarskiltum, fyrir utan dagskrárkynningar voru alls 14.39 mínútur. Þar af voru auglýsingar fyrir þáttinn 6.24 mínútur og auglýsingatímar inni í þættinum 4.11 og 4.04 mínútur. 
 
Heildarlengd auglýsingatíma fyrir þáttinn, með dagskrárkynningum var 8.43 mínútur.
 
Þegar einstakir auglýsendur eru skoðaðir kemur í ljós að Forlagið er atkvæðamikið. Í þessum þremur auglýsingatímum í Útsvari voru auglýsingar Forlagsins alls 185 sekúndur. 
 
Verkskrá Rúv gefur upp flokk 12 eða 6.990 kr. fyrir hverja sekúndu hvort sem er fyrir þáttinn eða inni í honum sem þýðir 1.293.150 kr. án vsk. 
 
Ef hámarksafsláttinn er dreginn frá standa eftir 905.205 kr. án vsk.  
 
Afar ótrúverðugt er að Forlagið greiði fyrir auglýsingar á einu kvöldi tæpa milljón króna. Því fullyrði ég að RÚV hefur gefið mun meiri afslátt af auglýsingum sínum en fyrirtækið gefur upp í verðskrám sínum. Raunar er það bjargföst skoðun mín að auglýsendur geti prúttað við RÚV og fengið nánast að greiða það sem þeir vilja.

Af ofangreindu hljóta neytendur að gera þá kröfu til Útvarpsréttarnefndar að hún hlutist til um að RÚV reki auglýsingadeildir sínar á þann hátt sem eðilegt má telja, undirbjóði ekki markaðinn og drekki ekki eigin dagskrárefni í kaupmennsku.

Með skylduáskrift er RÚV í raun stofnun með forgjöf sem tekur virkan þátt í slagasmálum á auglýsingamarkaði, ekki aðeins við sjónvarpsstöðvar heldur einnig dagblöðin. Stefnan er greinilega lágt auglýsingaverð til að fá sem flesta til að auglýsa. 

Neytendur dagskrárefnis skipta RÚV engu máli, þeir eru þegar greiðandi hvort sem þeir nota þjónustuna eða ekki. Hér er greinilega þversögn sem afar nauðsynlegt er að leiðrétta. 

Sá aðili sem einna helst getur gert það fyrir utan hið pólitíska vald er Útvarpsréttarnefnd. Því leita ég til hennar.
 
Með kveðju,
Sigurður Sigurðarson 

Þversögn sem engu máli skiptir

Samkvæmt skoðanakönnunum styðja um 35% landsmanna Sjálfstæðisflokkinn. Nánast sama hlutfall telur sig ekki vilja fá flokkinn aftur í ríkisstjórn samkvæmt nýrri skoðanakönnun.

Þetta er nú ekki björgulegt og lítil ástæða til að gera veður út af svona þversögnun enda er þjóðfélagið ein tóm þversögn. Sumir stunda íþróttir en aðrir gera það ekki og jafnvel eru þeir til sem hatast við þá sem skokka á götum úti. Það þykir hollt að neyta grænmetis en samt er stór hluti þjóðarinn sem segist ekki „éta gras“. Sumir eru með ESB og aðrir á móti.

Þeir sem ekki vilja Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn hljóta fyrr eða síðar að lenda í pólitískum vanda. Raunar eru þeir margir þegar í slíkum. Samfylkingin vill ganga í ESB en ekki VG. Þessir flokkar „vinna saman“ þrátt fyrir að þeir stefni í gagnstæðar áttir. Fyrrnefndi flokkurinn leggur jafnvel, a.mk. í orðin kveðnu, áherslu á uppbyggingu atvinnulífs meðan sá síðarnefndi hamast gegn henni, leynt og ljós.

Það skiptir í raun engu máli hvað andstæðingar Sjálfstæðisflokksins segja. Þegar upp er staðið eru það kjósendur sem ráða og nú lítur út fyrir að fæstir þeirra vilji VG og Samfylkinguna í stjórn. Svo er það annað mál að varla svarr maður í svona skoðanakönnun nema á þá leið að maður vilji ekki í ríkisstjórn með pólitískum andstæðingum.


mbl.is Flestir vilja ekki Sjálfstæðisflokkinn í stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlegt vandamál sem lítt er sinnt

Hugmynd Einars Torfa er líklega sú skársta sem komið hefur fram. Illa líst flestum á svokölluð glápgjöld, en það eru gjöld sem innheimta á af gestum við komu þeirra inn á ákveðin svæði. Gallinn við slík gjöld er að kostnaðurinn við innheimtuna étur upp stóra hluta innkomunnar.

Gallinn við nefskatt á erlenda ferðamenn er hins vegar ríkið. Það mun án efa dauðsjá eftir þessum peningum í að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum og staðan verður áður en langt um líður sú að hann mun klípa af þeim til að kosta eitthvað allt annað. Það gerðist með gjald sem taka átti af fríhöfninni forðum daga. Ríkið innheimtir nú skatt af öllum til að fjármagna útvarp og sjónvarp en heldur eftir hluta af honum til annarra hluta. Líklegast er það sama með bifreiðagjöld og aðra innheimtu ríkissjóðs.

Þegar litið er á þá aðstöðu sem búin er ferðamönnum hér á landi blasir við gríðarlegur átroðningur. Nú er verið að tala um að nokkrir staðir þoli ekki ágang ferðamanna en það er bara lítill hluti af þeim.

Gönguleiðir víða um land eru illa farnar. Ekki þarf mikinn átroðning þangað til slóðar hafa myndast sem vatn tekur að renna í og skemmir enn frekar. Nefna má Fimmvörðuháls sem og fjölmargar gönguleiðir á fjöll eins Þverfellshorn í Esju. Enginn telur sér fært að bæta úr en allir vilja njóta. Þó ferðafélög og almenningur myndi vilja hjálpa til þá er kostnaðurinn öllum ofviða.

Vandamálið er svo gríðarlegt að nefskatturinn dugar hreint ekki til þess að bæta hér úr.  


mbl.is Nefskattur skásta lausnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir vilja ekki þjóðaratkvæðagreiðslu

Bretar og Hollendingar munu áreiðanlega gera þá kröfu til Íslendinga að nýtt samkomulag um Icesave verði ekki langt undir dóm þjóðarinnar. Opinberlega hafa þeir krafist þess að pólitísk samstaða verði um samningaviðræðurnar og við því var orðið þannig að stjórnmálaflokkarnir ákváðu sameiginlega hverjir yrðu í samninganefndinni.

Viðsemjendunum þykir afar óeðlilegt og óþægilegt að „smámál“ sem Icesave er þurfi að undir smásjá þjóðaratkvæðis. 

Víst er að margir hérlendir munu leggjast gegn öllum öðrum framgangsmáta en að nýr samningur fari í þjóðaratkvæði og er því treyst á atbeina forseta landsins. Eða ætla menn enn að samþykkja vaxtagjöldin? Hvað með Icesave í heild, á íslenskur almenningur að greiða skuldir vanskilamanna?


mbl.is Knýja á um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlitsstofnun sem þarf að vera opnari

Fjármálaeftirlitið býr við þann vanda að geta illa komið frá sér upplýsingum. Á stofnuninni liggja fréttamenn og fá eiginlega engin almennileg svör. Almannatengslin eru sem sagt slök.

Ætli stofnunin að ná þeim árangri sem starfsfólkið vill þarf að gjörbreyta viðhorfi gagnvart upplýsingamiðlun og hætta að vera stofnun í þröngri merkingu þess orðs og byrja á því að vera þjónustustofnun sem miðli jafnt og þétt upplýsingum um mál, stöðu þeirrar og niðurstöður rannsókna.

Geti stofnunin gert þetta kann að vera að hún nái virðingu meðal almennings.  


mbl.is FME hefur brugðist við gagnrýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má stunda skotveiði á gönguskíðum?

dsc_0081_-_version_2.jpg

Auðvitað er það óeðli hið mesta að stunda rjúpnaveiðar á vélknúnum ökutækjum. Freisting er þó mikil þegar snjóar eru djúpir og illfært er um hlíðar og fjöll.

Ég hóf rjúpnaveiðar eins og lög gera ráð fyrir í byrjun nóvemer. Hafði ekkert annað en erfiði út úr því, svita og vindtár, kafaði djúpan snjóinn upp í klof, varð votur þegar snjófrauð brast undan mér í tvígang þegar ég var á leið yfir á, lenti í minni háttar snjóflóðsspýju og svo má lengi telja.

Ekki veit ég hvort bannað er að ganga til rjúpna á gönguskíðum. Það hef ég þó nú gert í tvígang. Auk þess að hafa með mér myndavél verða veiðarnar miklu skemmtilegri, maður kemst auðveldlega yfir mikið svæði og ónefnt er að fara hátt upp í hlíðar og leyfa sér að renna niður á eftir rjúpunni, með haglabyssuna í mittisstað, fretandi eins og hinn hasarmyndahetja í banastuði ... Nei, auðvitað er það ekki svona.

Maður skíðar upp og á niðurleiðinni er maður í hrikalega óásjálegri stellingu, skíðin í breiðum plógi, stafirnir í varnarstöðu til þess að lenda nú ekki á hausnum þegar skíðað er úr foksnjó í harðfenni eða úr púðri í þjappaðan snjó.

Jú, skrokkskjóðurnar eru margar en þetta er miklu skemmtilegra og yfirferðin er meiri. Og myndirnar, maður lifandi. Gleymdi þó að hafa myndavélina með mér í gær í glannafínu veðri. Meðfylgjandi mynd tók ég á leið úr Hrafndal við Skagaströnd. Þar var ekki nokkur lifandi vera nema ég og nokkrir refir.


mbl.is Á vélsleðum við veiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er bankastjórinn glaður?

Hver trúir því að bankastjóri Landsbankans sé ánægður með samráðsfund stjórnvalda og hagsmunaaðila vegna þess eins að hann hafi fengið kremkex með kaffinu. Nei, líklegast hefur hann komist að því að hægt er að fá ríkissjóð til að kosta meginhlutan af lausn á skuldavanda heimilanna.

Einn af forsvarsmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna, Marínó G. Njálsson ,skrifaði í dag eftirfarandi: 

Því er einnig haldið fram að sértæk skuldaaðlögun muni nýtast best, en sértæk skuldaaðlögun er ekkert annað en eignaupptaka.  Hún gengur út á að fólk losi sig við eignir til að eiga fyrir stökkbreyttum skuldum.  Ekki á leiðrétta neitt fyrr en búið er að hafa af fólki flestar eignir á niðursettu verði.  Viljum við virkilega svipta tug þúsundir manna afrakstri ævistarfs síns?  Ef svo er, þá vitum við jafnframt að landflótti mun stóraukast og kreppan mun dýpka.  Verði þeim að góðu sem vilja þetta réttlæti. 

Munum það sem Marínó segir um þessa svokölluðu skuldaaðlögun. Nú er því haldið að okkur að í skýrslu sérfræðinefndarinnar sé falin allsherjarlausn. Þannig var þetta orðað í ríkisfjölmiðlunum að hægt væri að nota blöndu af nokkrum tillögum. Og forsætisráðherra segir með alkunnum pirringi að nú sé hægt að ganga frá skuldavandanum í eitt skipti fyrir öll. Hún talar eins og foreldri sem segir við barn sitt: Annað hvort borðarðu hafragrautinn þinn núna eða færð ekkert meira í allt kvöld.

Já, mismunandi leiðir, segir bankastjórinn og gleðst í hjarta sínu. Um leið á að hirða eignir af almenningi en bankarnir sem þó fengu íbúðalánin með miklu afslætti þurfa ekki að gera neitt nema makka örlítið með vonlausri ríkisstjórn.

Er almenningu sáttur við þessa skjaldborg sem slegin hefur verið um banakanna?  Erum við sátt með að tapa aleigunni svo bnakarnir megi „skrimta“?


mbl.is Gagnleg skýrsla um skuldavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að panta ákveðna niðurstöðu?

Hér er á ferðinni eitt mesta lýðskrum sem hugsast getur. Staðreyndin er einfaldlega sú að þingsályktunartillaga um málið hefur ekki nokkur áhrif. Hún hefur ekkert lagagildi og saksóknara ber ekki að taka neitt tillit til hennar.

Til hvers er þá verið að leggja fram tillögu um að atvik í Alþingishúsinu hafi verið hættulaust. Allt eins væri hægt að leggja fram ályktun um að hríðarbylur einhvern tiltekinn dagahafi ekki verið hríðarbylur heldur logndrífa.

Skoðun þingsins hefur ekki laga gildi nema samþykkt verði frumvarp til laga sem tekur á málefninu. Mörður Árnason ætlar að gera það sama og fyrrverandi samflokksmaður hans, Ögmundur Jónasson, að reyna að hafa áhrif á lögreglu og dómsvald.

Persónulega hef ég sáralítið út á þetta „atvik“ í Alþingishúsinu að setja. Geri ráð fyrir að sakborningar fái létta áminningu. Hitt finnst mér alvarlegra þegar löggjafarvaldið er misnotað til að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöður lögreglurannsóknar eða hreinlega á dómsvaldið. Það er einsdæmi.


mbl.is Ekki árás á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með eignarýrnunina?

Svo virðist sem sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar um skuldavanda heimilanna láti eins og eignarýrnun almennings í íbúðum sínum skipti engu máli. Það er kunnara en frá þarf að segja að í efnahagshruninu hefur eigið fé fólks í íbúðum sínum rýrnað gríðarlega mikið, jafnvel svo að það er hreinlega uppurið.

Þetta gengur alls ekki. Því er spurningin sú hver hagnaðist á eignarýrnun íbúðarhúsnæðis. Var það íbúðalánasjóðir og bankarnir?

Með beinni rökleiðslu hlýtur að mega taka aftur þessa eignarýrnun að öllu leiti. Ekki bjóða upp á 110% af markaðsverði íbúða, það er viðurkenning á þjófnaði.

Réttlátast er að færa með handhafli vísitölur og viðmið aftur til 1. janúar 2007 eða 8. Um leið verði öllum skuldabréfum, ekki bara gengistryggðum, fyrir íbúðum, bílum og öðrum fjárfestingum breytt einhliða og vextir settir fastir við 3%. Þetta er ekki meiri eða alvarlegri aðgerð en þegar skattlausa árið var ákveðið. Einn penni, eitt pennastrik.


mbl.is Vaxtabótahækkun árangursríkust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband