Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Meirihlutinn og vilji einstaklingsins

Gott er og gagnlegt að fólk komi saman og ræði stjórnarskrána og breytingar á henni. Það getur ekki verið nema til góðs. Hins vegar er ástæða til þess að minna á að engin krafa er uppi um að allir eigi að vera sammála niðurstöðum hans.

Jafnvel þó allir á þjóðfundinum séu t.d. þeirrar skoðunar að forsætisráðherra skuli vera þjóðkjörinn og ráðherrar skuli ekki sitja á Alþingi þýðir það ekki að þú, lesandi góður, þurfir að vera sammála. Skiptir þá engu hvort þú ert í kjöri til stjórnlagaþings eða ekki.

Niðurstöður þjóðfundarins eru einungis tilmæli eða ábendingar til stjórnlagaþingsins.

Ég á þá skoðun heitasta að þeir sem þar kunna að ná kjöri haldi sjálfstæði sínu og breyti ekki skoðunum sínum eða taki upp það sem þjóðfundurinn ályktar nema þeir séu fullkomlega á sama máli. Mikilvægast af öllu er að fólk myndi sér eigin skoðun en lepji ekki gagnrýnislaust upp það sem virðist vera skoðun meirihlutans. Staðreyndin er nefnilega sú að meirihlutinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér.

Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að auðvitað hlýtir maður niðurstöðum meirihlutans en ekki þar með að maður fyrirgeri rétti sínum til að reyna að afla fylgis fyrir öðru en meirihlutinn vill.

Þetta er í sjálfu sér það sem lýðræðið gengur út á og stjórnmál byggjast á. Þjóð getur seint verið sammála í öllum aðalatriðinum þó ef til vill náist samkomulag um grunnatriði.

Þar með er komið að því sem mikilvægast er. Stjórnarskrá má ekki vera of löng. Almenn lög eiga að vera framhald af því sem segir í stjórnarskránni vegna þess að hún er grunnlög ekki útlegging.

Svo er það allt annað mál að það sem þjóðfundurinn ályktar, stjórnlagaþingið tekur undir og leggur til, þarf ekki að fá brautargengi á Alþingi. Það verður vegna þess að fólk á að halda í skoðanir sínar af festu en ekki fórna þeim eftir því sem vindar almenningsálitsins blása.


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðisráðherra kemst ekki vegna veðurs ...

Það er kaldhæðnislegt að heilbrigðismálaráðherrann, Guðbjartur Hannesson, núna titlaður velferðaráðherra, þurfti að afboða komu sína á fund á Blönduósi vegna ófærðar. Þetta er ráðherra ríkisstjórnar sem ætlar að draga saman framlög til heilbrigðismála á landsbyggðinni um 40%. Látum nú vera að þetta er aðför að byggðum landsins.

Hvernig á að fara með slasaðan mann eða fárveikan eða konu sem komin er að því að fæða þegar veður er vont á landsbyggðinni? Á að hringja í Veðurstofuna og panta smá hlé meðan bíll fer suður eða til Akureyrar? 

Frétt um málið birtist í Feyki, vikublaði, sem gefið er út á Sauðárkróki. Fréttin er meinhæðin. Hún er svona:

Heilbrigðisráðherra boðaði forföll á fund á Blönduósi í gær sökum ófærðar. Á sama tíma búa íbúar á Norðurlandi vestra við skerta heilbrigðisþjónustu sem mun skerðast enn meir um áramót. Til dæmis er engin fæðingadeild á Norðurlandi vestra en við aðstæður eins og í gær var stysti tími á sjúkrahús í þessu tilviki til Akureyrar þetta 2 – 6 tímar.

Á Sauðárkróki fengust þær upplýsingar að sjúkrabíll væri á venjulegum degi rúman klukkutíma og upp í klukkutíma og tuttugu mínútur á leið til Akureyrar en það færi eftir hversu aðkallandi flutningurinn væri. Í veðri eins og í gær var sjúkrabíll á leið frá Akureyri 2,5   klukkutíma á leiðinniÁ Blönduósi fengust þær upplýsingar að ef fara þyrfti til Reykjavíkur með Holtavörðuheiðina lokaða þyrfti að fara Laxárdalsheiði en þá þarf Brattabrekka að vera opin. Það ferðalag lengir ferðina til Reykjavíkur um 1,5 – 2 klukkustundir.  Alls gæti ferðalagið til Reykjavíkur á sjúkrahús því tekið 4 – 6 klukkustundir. Til Akureyrar gæti ferðalagið tekið upp undir þrjár klukkustundir.

Á Hvammstanga er á fullum forgangsakstri hægt að ná til Reykjavíkur á einum og hálfum tíma. Í gær var ófært yfir Holtavörðuheiði og þá er nokk sama hvort farið er yfir Laxárdalsheiði og Bröttubrekku sé hún fær eða til Akureyrar. Ferðalagið mun því taka miðað við blindhríð og erfiðar aðstæður eins og var í gær 3,5 – 4 jafnvel fimm klukkustundir enda yfir marga fjallvegi að fara.

Tekið skal fram að erfitt að er meta tímalengd þar sem vont veður og vont veður er ekki það sama.

 


Ég man ekki hvað orðin heita einu sinni ...

 

Borgarstjóri: Ja það má búast við því, en það er samt ekkert útséð með það, það er nokkuð sem mig persónulega langar ekki að gera, og mig langar til þess að leita allra leiða, raunveruleikinn er samt sá að tekjur borgarinnar hafa dregist rosalega mikið saman og við þurfum að brúa eða fylla upp í stórt gat og erum að reyna að leita allra leiða til þess að gera það.

Fréttamaður: Í nýrri fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur er gert ráð fyrir fjögurra og hálfs milljarðs króna hagnaði á næsta ári. Fréttastofa spurði hvort uppsagnir og gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar væru nauðsynlegar í þessu ljósi.

Borgarstjóri: Þetta er svona einhverjir talnaleikir sem að, ég kann ekki einu sinni að útskýra þá sko.

Fréttamaður: Fjögurra og hálfs milljarðs króna hagnaður, það hljómar ekki eins og illa statt fyrirtæki, hvort sem þetta eru talnaleikir eða ekki.

Borgarstjóri: Nei ég bara ég skil ekki, skil ekki hvernig hægt er að fá þetta út, fá þetta út, ég man ekki hvað orðin heita einu sinni sem að eru notuð til þess að setja þetta svona upp.

Fréttamaður: En en en...

Borgarstjóri (snýr sér við): Björn, hvað heitir þetta aftur?

Björn Blöndal (aðstoðarmaður borgarstjóra, birtist undan vegg): Þið verðið náttúrlega að skoða skuldirnar, sko, áður en að þið spurjið svona...

Drengur með jólasveinahúfu hleypur í burtu.

Borgarstjóri: Já það er eitthvað svoleiðis, já þetta er eitthvað...

Björn Blöndal: Það eru talsvert stórir gjalddagar á næsta ári.

Borgarstjóri: Já.

Björn Blöndal: Sem þarf að eiga fyrir.“

 


Listi samkvæmt bestu leið til að velja

Óvinnandi vegur er að velja á milli frambjóðenda til stjórnlagaþings. Ástæðan er einfaldlega sú að ekki gefst tími til að mynda sér almennilega skoðun á hverjum og einum fyrir utan að það virðist vera óvinnandi vegur.

Þar af leiðandi verður að falla frá skynseminni og nota aðra aðferð, þá sem hefur lítið vit eða er einfaldlega vit-laus.

Um daginn skrifaði ég afar snjallan pistil hérna á bloggið um val á frambjóðendum. Lagði ég þar fram 17 reglur til að auðvelda valið. Tóku flestir undir með mér og hældu mikið fyrir skynsamlega vit-leysu.

Margir hafa nú þýfgað mig um niðurstöðuna og jafnvel haldið því fram að ég væri bara að reyna að vera fyndinn og ekkert meinti með þessu. Því fer nú víðs fjarri.

Til að sanna þetta þá birti ég hér niðurstöður mínar. Viðurkenni þó að konurnar eru þó heldur fáar en samt í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem eru í framboði. Takið eftir hversu starfsheitin eru margvísleg.

Hér er svo listinn:

NrNafnAuðk.talaStarfsheitiSveitarfélag
8Alda Davíðsdóttir2765framkvæmdastjóriVesturbyggð
45Árni Björn Guðjónsson2435listmálariReykjavík
31Axel Þór Kolbeinsson2336tölvutæknirHveragerði
70Bergljót Tulinius Gunnlaugsdóttir7869safnstjóriHafnarfirði
101Brynjar Gunnarsson9519ljósmyndariReykjavík
113Einar Magnús Einarsson3161vaktmaðurNorðurþingi
120Eiríkur Hans Sigurðsson5438ökukennariReykjavík
154Gísli Jökull Gíslason8958lögreglumaðurReykjavík
165Guðbrandur Ólafsson6857sauðfjárbóndiDalabyggð
177Guðmundur Guðlaugsson8892fv. sveitarstjóriSvf. Skagaf.
201Gylfi Garðarsson6626skrifstofumaðurReykjavík
217Haraldur Árnason9662öryrkiReykjavík
257Ingi Bæringsson9981sölumaðurKópavogi
260Ingibjörg Snorradóttir Hagalín8034húsmóðirÍsafjarðarbæ
326Kristinn Hannesson5493rafvirkiReykjavík
364Nils Erik Gíslason8474tæknimaðurReykjanesbæ
414Sigfríður Þorsteinsdóttir6362móttökustjóriReykjavík
435Sigvaldi Friðgeirsson5141eldri borgariMosfellsbæ
441Skafti Harðarson7649rekstrarstjóriReykjavík
444Soffía Sigurðardóttir9178umsjónarmaðurSvf. Árborg
449Stefán Pálsson4954sagnfræðingurReykjavík
517Þórunn M.J.H. Ólafsdóttir8694sjúkraliðiReykjavík
469Tryggvi Helgason7352fv. flugmaðurAkureyri
479Vigdís Erlendsdóttir3051sálfræðingurReykjavík
481Vignir Bjarnason6505verkamaðurStykkishólmi

Og nú er um að gera að fara eftir þessari skynsömu aðferð og hver veit hvort stjórnlagaþingið verði ekki jafn gáfulegt eða ...


mbl.is Frambjóðendur kynntir á vefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endursögn af korti Vegagerðarinnar

kort_vegager_arinnar.jpg

Hvar skyldi vera „snjóþekja“ á Norðurlandi? Og hvar er þetta Norðurland?Er átt við Öxarfjörð, Eyjafjörð, Skagafjörð Húnafjörð eða Hrútafjörð?

Fyrir þann sem ekki veit er langt á milli þessara staða og víða há fjöll. Staðreyndin er einföld. Af augljósum ástæðum er sjaldan hægt að segja að sama veður eða færð sé hin sama á öllu Norðurlandi.

Er nú ekki hallærisleg fréttmennska að endursegja það sem stendur á korti Vegagerðarinnar og taka upp ambögur og vitleysur sem þar eru? Væri ekki þess í stað betra að birta bara kortið?

Og fyrir alla muni, ekki gera ráð fyrir að veðrir sé eins á Selfossi og Kirkjubæjarklaustri, Hvammstanga og Kópaskeri, Vopnafirði og Hornafirði.


mbl.is Skafrenningur á Bröttubrekku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband