Kæra til Útvarpsréttarnefnar vegna RÚV

Meðfylgjandi bréf sendi ég til Útvarpsréttarnefndar í dag vegna þess að mér ofbjóða auglýsingar í RÚV og raunar öllum fjölmiðlum. Mér er þó málið skyldara með RÚV því gegn vilja mínum þarf ég að greiða áskrift að þessum fjölmiðli og það sem meira er ríkissjóður innheimtir en Alþingi ákveður ákskriftina.
 
Neiti ég að borga þá kemur til kasta innheimtuaðila ríkissjóðs sem dæmir mig án þess að taka tillit til þess sem ÉG vil. Ef ég kæri niðurstöðurnar þá dæma dómstólar mig samkvæmt gildandi lögum til að greiða skuld mína, sem líklega er kölluð skattaskuld. Ég á einskis annars úrkosta en að éta þetta allt ofan í mig og þegja.
 
Svo er verið að tala um spillingu í þjóðfélaginu.
 
Annars skýrir bréfið sig sjálft. Niðurstöður erindisins til útvarpsréttarnefndar birti ég á þessum stað þegar þar að kemur. 
 
Góðan daginn,
Auglýingar fyrir jólin eru neytendum sjónvarpsefnis árvisst til ama. Þá er þrengt að dagskrárefni með flóði auglýsinga. Þetta er verulegt vandamál hjá RÚV. 

Undirritaður telur að Útvarpsréttarnefnd þurfi að kanna afar vel hvernig Ríkisútvarpið stendur að sölu auglýsinga í sjónvarpi. Með skylduáskrift að þessum fjölmiðli tel ég mig mega til með að gagnrýna verklag þar á bæ sem gerir það að verkum að sjónvarpsáhorfendum er nánast drekkt í auglýsingum.
 
Nú þegar eru auglýsingatímar Sjónvarps RÚV orðnir afar langir og með hryllingi veltir maður því fyrir sér hvernig þeir verða um miðjan desember. Dreg ég í efa að nokkrir þættir rúmist þá á milli auglýsingatíma og þjóðinni verði einfaldlega drekkt í auglýsingum.
 
Ég hef þá vissu að með gylliboðum og endalausu auglýsingaplássi er Sjónvarpið orðinn eins og auglýsingablað sem flestir henda um leið og það kemur inn um bréfalúguna. 

Markmiðið hjá Sjónvarpinu virðist ekki að takmarka auglýsingaflæðið með hærra verði heldur lækka það úr öllu hófi og bjóða alla velkomna. Þetta bitnar líklega óhjákvæmilega á samkeppnisaðilum, veldur lægra verði og færri birtingum. Sá er ekki tilgangurinn með fjölmiðli sem fær stóran hluta rekstrarfjár frá almenningi í formi skatta.
 
Með verðstefnu Sjónvarpisins á auglýsingum hefur það óhjákvæmileg áhrif á verð annarra sjónvarpsstöðva til lækkunar vegna þess að það eru einfaldlega stærst og leiðandi á markaðnum. 

Ástandið er orðið þannig að auglýsendur velta því fyrir sér hvort rétt sé að eyða peningunum í eina heilsíðu í Fréttablaðinu eða 2 vikna keyrslu í sjónvarpi fyrir sama verð. 
 
Auðvitað á Rúv á að vera með stutta og dýra auglýsingatíma, sýna smá klassa og sjálfsvirðingu í stað þess að líta út eins og lítil sjónvarpsstöð á barmi gjaldþrots og gerir hvað sem er fyrir aurana.
 
Gott dæmi er hinn vinsæli sjónvarpsþáttur Útsvar sem var á dagskránni 12. nóvember sl.  Auglýsingar með kostunarskiltum, fyrir utan dagskrárkynningar voru alls 14.39 mínútur. Þar af voru auglýsingar fyrir þáttinn 6.24 mínútur og auglýsingatímar inni í þættinum 4.11 og 4.04 mínútur. 
 
Heildarlengd auglýsingatíma fyrir þáttinn, með dagskrárkynningum var 8.43 mínútur.
 
Þegar einstakir auglýsendur eru skoðaðir kemur í ljós að Forlagið er atkvæðamikið. Í þessum þremur auglýsingatímum í Útsvari voru auglýsingar Forlagsins alls 185 sekúndur. 
 
Verkskrá Rúv gefur upp flokk 12 eða 6.990 kr. fyrir hverja sekúndu hvort sem er fyrir þáttinn eða inni í honum sem þýðir 1.293.150 kr. án vsk. 
 
Ef hámarksafsláttinn er dreginn frá standa eftir 905.205 kr. án vsk.  
 
Afar ótrúverðugt er að Forlagið greiði fyrir auglýsingar á einu kvöldi tæpa milljón króna. Því fullyrði ég að RÚV hefur gefið mun meiri afslátt af auglýsingum sínum en fyrirtækið gefur upp í verðskrám sínum. Raunar er það bjargföst skoðun mín að auglýsendur geti prúttað við RÚV og fengið nánast að greiða það sem þeir vilja.

Af ofangreindu hljóta neytendur að gera þá kröfu til Útvarpsréttarnefndar að hún hlutist til um að RÚV reki auglýsingadeildir sínar á þann hátt sem eðilegt má telja, undirbjóði ekki markaðinn og drekki ekki eigin dagskrárefni í kaupmennsku.

Með skylduáskrift er RÚV í raun stofnun með forgjöf sem tekur virkan þátt í slagasmálum á auglýsingamarkaði, ekki aðeins við sjónvarpsstöðvar heldur einnig dagblöðin. Stefnan er greinilega lágt auglýsingaverð til að fá sem flesta til að auglýsa. 

Neytendur dagskrárefnis skipta RÚV engu máli, þeir eru þegar greiðandi hvort sem þeir nota þjónustuna eða ekki. Hér er greinilega þversögn sem afar nauðsynlegt er að leiðrétta. 

Sá aðili sem einna helst getur gert það fyrir utan hið pólitíska vald er Útvarpsréttarnefnd. Því leita ég til hennar.
 
Með kveðju,
Sigurður Sigurðarson 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Mikið er ég sammála. Auglýsingar RÚV eruorðnar verri en hjá Skjá einum!
Ég tek undir kröfuna um færri auglýsingar og að bannað verði að gera hlé á þáttum vegna auglýsinga. Það stefnir í að auglýsingar verði hin eiginlega dagskrá og auglýsingar því slitnar í sundur af föstum dagskrárliðum. Þetta er hvergi leyft annars staðar í skylduáskrift. Eins verður að taka fyrir áfengisauglýsingar með öllu. Auglýsingahórurnar á RÚV þurfa að hysja upp um sig næríurnar. Þetta er heiladrepandi fjandi. Vek svo athygli á undirskriftarsöfnuninni gegn Páli og Óðni á http://www.uppsogn.com/

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.11.2010 kl. 13:11

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Hjartanlega sammála.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 20.11.2010 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband