Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Í fréttum er þetta helst: Eldgos á Reykjanesi

Ég kveikti á sjónvarpinu. Fréttir voru að byrja og geðþekk fréttakona las upp það helsta sem var í fréttum:

  1. Gos á Reykjanesi
  2. Gos á Reykjanesi
  3. Gos á Reykjanesi
  4. Gos á Reykjanesi
  5. Gos á Reykjanesi
  6. Gos á Reykjanesi
  7. Gos á Reykjanesi

Gott kvöld, sagði svo fréttakonan geðþekka, brosti fallega og sagði: „Þó svo að gosóróinn hafi dvínað er enn búist við gosi suðvestan við Keili. Stína Jóns fréttamaður er stödd á Núpshlíðarhálsi og við skiptum yfir til hennar.“

„Já“, segir Stína Jóns og spyrnir með hægra fæti og hallaði sér upp 30 gráður í vindinn. Og að loknu jáinu segir hún: „Enn bólar ekkert á gosinu. Héddna þrjátíu og átta kílómetrum fyrir aftan mig er Keilir og skammt frá honum er Fagradalsfjall. Við sjáum auðvitað ekki þessi fjöll því annað fjall skyggir á þau og svo er næstum því komið myrkur. Ekki er enn farið að gjósa. Við segjum þessu lokið frá Núpshlíðarhálsi.

„Þakka þér fyrir Stína Jóns, segir fréttþulurinn. „Þetta var flott, næstum því eins og þegar Ómar Ragnarsson var hérna. Farðu nú varlega að bílnum. Margur hefur hrasað á skemmri vegalengd en tíu metrum. Í stjórnstöð Almannavarna er Gunni Jóns, fréttamaður og hann ætlar að tala við Albertínu Guðmundsdóttir jarðeðlissamtíningafræðing um nýafstaðinn fund gosstjórnenda.“

Á skjánum birtist vörpuleg kona.

„Já,“ sagði Gunni Jóns og hnyklar brýrnar. Og heldur svo áfram að loknu jáinu: „Albertína, er von á gosi á Reykjensskaga.“

„Tja, sko, það er nú það,“ segir Albertína. „Ef ekki gýs í kvöld, þá gæti gosið á morgun, hinn daginn, daginn þar á eftir eða síðar. Jafnvel eftir mánuð, ár eða aldir. Við vitum ekkert um hvað gerist fyrr en eftir að gosið hefur byrjað. Hafðu þá samband.“

„Já,“ sagði Gunni Jóns, fréttamaðurinn, og mislyfti brúnum. „En hvað kom fram á þessum fundi í stjórnstöð Almannavarna?“

„Afar fátt nema að ef ekki mundi hafa næstum því gosið í kvöld þá getur næstum því gosið á morgun ...“

„En hvaða líkur eru á gosi?“

„Í raun eru engar líkur á gosi nema eftir að gos hefur hafist,“ segir Albertína, alvarleg í bragði.

„Verður þetta hamfaragos?“

„Nei, varla. Ekki nema það verði afar stórt og mikið og hraun renni yfir fólk og bíla.“

„Verður þetta hættulegt gos?“

„Eldgos eru alltaf hættuleg nema þau sem eru lítil. Þess vegna verður maður að fara varlega. Nema gosið sé lítið.“

„Er Jesú Kristur væntanlegur?“

„Já, hann kemur og með honum englaher og hann mun ræsa eldgosið með viðhöfn á þeim stað þar sem fólki og mannvirkjum mun minnst hætta stafa af. Og þar mun hann í leiðinni dæma okkur öll hvort sem við erum lifandi eða ekki.“

„Hvernig dæmir hann Jesú?“

„Góða fólkinu í Samfylkingunni, Viðraunum og Pí Rötum mun verða fyrirgefnar allar stórkostlegu misgjörðir þeirra og þeir fá að koma í ESB, afsakið Himnaríki. Öðrum mun verða kastað í tólf km langa eldsprunguna enda var hún hönnuð til að taka á móti vondafólkinu og því þannig refsað fyrir syndir sínar og spillingu.

„Var einhvern tímann fólk á Mars, gróður, vegir, sundlaugar og soleiis?“

„Hvers konar asnaspurning er þetta. Þú veist að ég get bara tjáð mig um jarðeðlisfræði og trúmál ...“

Þarna slökkti ég á sjónvarpinu enda ekkert í fréttum nema ekkieldgos á Reykjanesi. Og ég veit ekki einu sinni hvar þetta Reykjanes er.

Athugið að nafni sjónvarpsstöðvarinnar er hér haldið leyndu svo og nöfnum þeirra sem koma við söguna sem byggir í stórum dráttum á sönnum atburðum.

 


Mynd af jarðskjálftasvæðinu suðvestan við Keili

DSC_0077 Keilir, toppur, S b

Jarðfræðingar segja að „betri“ staður fyrir eldgos á Reykjanesi sé vandfundinn en suðvestan við Keili. Þetta mun vera rétt. Þarna er afar fáfarið en víða ægifagurt og þarf ekki annað en að skoða loftmyndir.

Suðvestan við Keili eiga flestir jarðskjálftar undanfarinna daga upptök sín. Sagt er að þar í iðrum jarðar sé kvika að þrengja sér upp á við. Slíkt gerist jafnan þegar landrekið skilur eftir sprungur, kvikan fyllir þær. Óvíst er að hún komi nokkru sinni upp á yfirborð jarðar.

Myndin hér til hliðar er tekin af Keili. Hún er gerð úr þremur myndum og því er horft frá suðri til vesturs. Þarna er Þráinsskjöldur, dyngja sem varð til fyrir um 7.000 árum.

Á myndina hef ég sett nokkur örnefni og að auki tvær línur. Milli þeirra eru upptök langflestra jarðskjálfta sem skekið hafa Reykjanes og að auki höfuðborgarsvæðið. Ráðlegg lesendum að smella á myndina til að stækka hana og verður hún þá skýrari. 

Lengst til vinstri er Vesturháls sem líka nefnist Núpshlíðarháls. Handan hans er Móhálsadalur og einnig Austurháls sem nefnist líka Sveifluháls. Þessir tveir hálsar eru með stefnuna suðvestur-norðaustur. Og hvað er svo merkilegt við það? Jú, skjálftarnir umræddu hafa sömu stefnu. Verði eldgos verður það ábygglega á sprungu sem hefur þá stefnu. 

Munum samt að Vesturháls og Austurháls eru úr móbergi og urðu til við gos undir jökli á síðustu ísöld, svona í stuttu máli sagt.

Efst á Þráinsskildi eru „vatnaskil“ ef svo má að orði komast um nær vatnslaust svæði. Þetta þýðir að öllu skiptir hvar hugsanleg eldsprunga myndast. Sé hún norðarlega rennur hraun í áttina að Reykjanesbraut og byggðum þar. Sé hún aðeins sunnar rennur hraunið í áttina að Vesturhálsi og hugsanlega niður að Suðurstrandarvegi. Þarna má litlu skeika.

Myndist eldsprungan nálægt fjallinu sem nefnist Litli-Hrútur mun hraun renna inn í dalinn sem sést á myndinni og safnast þar saman þangað til það finni halla til suðurs eða vesturs.

Af þessu öllum má sjá að suðvestan við Keili er „góður“ staður fyrir eldgos. 

Svona í lokin er ekki úr vegi að nefna þann draumspaka kunningja minn sem ég hitti um daginn. Hann heldur því fram að annað hvort gjósi í sjó eða hraun renni í sjó fram. Segist ekki vita hvort verði raunin. Tek þessu mátulega trúanlegu, veðja þó frekar á jarðfræðinga um þessi efni.


Vera frelsissviptur og eldfjall sendir frá sér heitt rautt hraun

Sjá nánar á bloggsvæðinu málfar.


Bónus gjörbreytti matvöruverslun til hins betra

Þú gefur aldrei eftir lægsta verðið og þú skilar alltaf hluta af bættum ávinningi í innkaupum til neytenda. [...]

Ef aðeins annar aðilinn hefur eitthvað úr viðskiptunum er það ekki viðskiptasamband. Þá varir það yfirleitt stutt. Þetta þarf allt að haldast í hendur.

Opnuviðtalið í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 10 febrúar 2021, við Guðmund Marteinsson, framkvæmdastjóra Bónus, er frábært. Greinilega skýr maður, eldklár og duglegur. Fjölmargt í viðtalinu kemur á óvart. Ég hef margt lært í viðskiptum af bókum, í háskóla og á námskeiðum, en í viðtalinu er komið að kjarna málsins sem margorðir kennarar og prófessorar hafa týnt í fræðum sínum. Þeir gætu lært mikið af Guðmundi.

Jón Ásgeir Jóhannesson og faðir hans stofnuðu Bónus. Einhvers staðar las ég að ástæðan hafi verið sú að Jóhannes Jónsson hafi verið sagt upp störfum í SS verslun í Hafnarstræti. Feðgarnir ákváðu þá að stofna lágvöruverslun. Guðmundur Marteinsson tók við sem stjórnandi þegar Jón Ásgeir hvarf til annarra verkefna.

Ég man eftir því að hafa reynt að ráða ungum manni heilt sem framleiddi vörur fyrir Bónus á tíunda áratug síðustu aldar. Jón Ásgeir kvaðst vilja kaupa vöruna og selja í verslunum sínum en á ákveðnu verði sem var hrikalega lágt, miklu lægra en þurfti. Annað hvort eða ... sagði Jón Ásgeir, þurrlega. Hann var nagli í viðskiptum. Hvers vegna? Jú, hann vildi geta boðið neytendum sínum lægsta verðið. Hinar stóru verslanirnar virtust vera í einhverjum vináttusambandi við birgja sína og verðmyndunin bitnaði fyrst og síðast á neytendum.

Stefnumörkun Jóns Ásgeirs hefur verið notuð í Bónus frá því að Guðmundur Marteinsson tók við. Verslanirnar hafa frá upphafi verið með lægsta verðið og nú upp síðkastið kunna fleiri verslanir að vera með næstum því eins lág verð. Á því má sjá hversu arfleifð Jóns Ásgeirs og föður hans er mikil að jafnvel keppinautarnir feta í fótspor hans.

Guðmundur segir:

Síðan þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri árið 1998 fékk ég Herluf Clausen, hinn eina sanna, í lið með mér og hann ferðaðist um allan heim í leit að vörum á betra verði fyrir Bónus. [...]

Við horfðum upp á að innkaupsverð okkar á vörum sem við vorum að kaupa af íslenskum heildsölum var oft miklu hærra en út úr búð í löndunum í kringum okkur. Við lögðum gríðarlega hart að okkur að finna vörur, merkjavöru, á lægra verði og reyna að klippa út milliliðinn neytendum til hagsbóta.

Okkur neytendum var alltaf sagt að ástæðan fyrir hærra vöruverði á Íslandi sé flutningskostnaðurinn. Vissulega kann hann að skipta máli en fjölmargt annað. Innkaupsverðið er auðvitað aðalatriðið og Guðmundur leitaðist við að hafa það sem lægst jafnvel þó það kostaði átök við heildsala og erlenda framleiðendur.

Flottast í viðskiptum er að hafa fínar skrifstofur, einkaritara og fjölda manna sem gera eiga eitthvað sennilegt. Í Bónus er yfirbyggingin lítil, verslanir margar og hagkvæmnin mikil. Og verðið er hið sama í öllum verslunum Bónus, á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.

Við lestur viðtalsins reikaði hugur minn til þeirra ára er ég starfaði í Neytendasamtökunum með ágætum mönnum eins og Jóni Magnússyni, Jóhannesi Gunnarssyni og Guðsteini V. Guðmundssyni sem voru miklir frumkvöðlar í neytendamálum. Viðhorf alltof margra verslunareigenda á þessum tíma var að neytandinn hefði rangt fyrir sér. Megnaða kjötfarsið, ónýtu kartöflurnar og margt annað þurftu neytendur að gera sér að góðu. Engar bætur voru í boði ef fatnaður reyndist gallaður, verslunareigandinn þráaðist við. Verðmerkingar voru litlar sem engar og svo framvegis. Með tilkomu Bónus verslananna breyttist flest og allt til betri vegar. Barátta Neytendasamtakanna var oft erfið, enda við Golíat að etja.

Eitt af því athyglisverðasta í viðtalinu er hreinskilnin:

Að sögn Guðmundar hefur hann gert ótal mistök í innkaupum í gegnum tíðina og fái oft skot frá samstarfsfólki sínu þar um. Það sé eins og gengur og gerist í þessu en Jóhannes hafi alltaf talað um að gera ekki sömu mistökin of oft.

Allir gera mistök en varla viðurkenna margir stjórnendur slíkt og síst af öllu að leyfa undirmönnum að gagnrýna. 

Viðtalið við Guðmund tók Baldur Arnarsson, blaðamaður Moggans. Hann er líklega einn af þeim klárustu á blaðinu og jafnvel þó víðar væri leitað. Spyr áleitinna spurninga og Guðmundur svarar af hreinskilni. Fjöldi millifyrirsagna auðveldar lestur greinarinnar.


Skelkur í miðri Egils sögu og glíman við drauginn

En er þeir voru komnir upp í klifið, þá hljópu sjö menn úr skóginum og upp í kleifina eftir þeim og skutu að þeim. Þeir Egill snerust við, og stóðu þeir jafnfram um þvera götuna; þá komu aðrir menn ofan að þeim á hamarinn, og grýttu þeir þaðan á þá, og var þeim það miklu hættara.

... sagði lesari hljóðbókar Egilssögu með dimmri röddu, kvað að hverju orði, spennan jókst. Enn einu sinni sátu Norðmenn fyrir Agli og ætluðu ekkert annað en að drepa hann. Ég var niðursokkinn í söguna á göngu minni upp frá Elliðavatni, gekk greitt og álútur í norðaustanáttinni. Gerðist þá hvort tveggja í senn, lesarinn lauk ofangreindum orðum og ég heyrði hljóð sem var ekki vindgnauð. Leit örsnöggt við og sá að hjólreiðamaður var við það að anda ofan í hálsmálið á mér þarna á þröngum göngustígnum. Mér brá hrottalega, missti þvag, slefaði, kiknaði í hnjánum, argaði skrækróma og lá við yfirliði af skelfingu. Náði mér samt nokkrum sekúndum síðar og hjólamaðurinn rann fram hjá mér.

„Farðu í rassgat,“ tautaði ég. Hef líklega sagt þetta hærra en ég ætlaði enda er það oft háttur þeirra sem eru með síma eða tónlist í eyrum að tala nokkrum desíbeljum hærra en eðlilegt er. Hjólreiðamaðurinn hægði ferðina og gat ég greint að hann væri ekki sáttur við kveðjuna.

„Ég komst ekki framhjá þér,“ sagði hann. „Og hvað get ég gert að því þótt þú sért með eitthvað í eyrunum?“ sagði hann.

„Hvað get ég að því gert að þú sért að flækjast hér og skelfir saklausa göngumenn?“ ruglaði ég í algjöru fáti, fann ekkert gáfulegra að segja þar sem ég vissi upp á mig sökina.

Hann hjólaði áfram. Samræðurnar tóku aðeins nokkrar sekúndur en enn var skelkurinn ekki úr mér. Og hvað varð mér að orði? „Farðu í rassgat,“ tautaði ég sem var það nógu hátt til að hjólamaðurinn heyrði.

„Þú ert dóni,“ sagði sá hjólandi, og jók hraðann. Ég brást ekki við fullyrðingunni. Um leið og skelkurinn rjátlaðist loks af mér áttaði ég mig á því að hann hafði rétt fyrir sér. Hefði auðvitað átt að biðja hann afsökunar. Kannski var ég ekkert ólíkur sumum fornmönnum sem brugðu fyrst vopnum áður en þeir spurðu.

Mér hefur ekki brugðið jafn mikið síðan ég lenti í glímunni við drauginn utan við Fimmvörðuskála veturinn 1992. Þannig var að um miðja nótt fann ég knýjandi þörf að kasta af mér vatni enda höfðum við félagarnir dreypt örlítið á öli um kvöldið. Og þegar ég milli svefns og vöku opna austurdyrnar til þess að ganga erinda minna, grípur einhver í axlir mínar og kippir mér út í niðamyrkrið enda var hvorki tunglsljós né stjörnubjart. Draugurinn tuskaði mig til í nokkrar sekúndur og ég gat mér enga björg veitt því skelkurinn sat í mér. Enginn vaskleiki var í mér frekar en Friðgeiri þeim sem frá segir í Egilssögu:

921001-16 bFriðgeir var maður ekki mikill, grannlegur og fríður sjónum og ekki sterkur; hafði hann og ekki staðið í bardögum.

Þó ég telji mig mikinn mann, grannan og fríðan eru fjölmargir á annarri skoðun, jafnvel nánir vinir og ættingjar. Og enga reynslu hef ég í bardögum og allra síst við drauga. Víkur nú aftur að draugnum sem hristi mig allóþyrmilega. Var mér þá til happs að ég gat fálmað hendinni í skíði sem stóð upp á endann þarna við austurgaflinn. Ég greip það með hægri hendi og barði í fætur draugsa sem missti við það tökin á mér en ég flýði inn í skála, fór inn á kamarinn og greip þar litla tunnu fulla af mannasaur og vopnaður honum steig ég aftur út um dyrnar. Og þarna stóð Glámur á öðrum fæti grenjandi af heift og reiði. Ég skvetti saurnum að honum og hann hörfaði organdi. Hafði einhvern tímann lesið að hið eina sem gagnast gegn draugum er mannasaur. Gott er að vera víðlesinn. Og draugsi flýði sem fætur toguðu undan skítlegum köstum mínum, gott ef hann gufaði ekki upp í 920315-13 Fimmvörðuskálisvartnættið. Minnir það.

Svo gerist það morguninn eftir að við bjuggum við okkur til brottferðar og var ég byrjaður að segja frá viðureign næturinnar en félagar mínir hlusta aldrei á mig heldur flýttu sér út með sitt hafurtask. Fannst skiljanlega lítt áhugavert að hlusta á sögu um mann sem fer út að pissa.

Úti voru þeir alveg gáttaðir á harðfrosnum saurklessunum sem lágu á víð og dreif á hvítum snjónum. Ekki síður urðu þeir minna forviða að sjá þarna bakpoka og gönguskíði í reiðileysi. Þá fór mig ósjálfrátt að gruna ýmislegt. Sagði samt ekki orð, axlaði bara pokann minn og skíðaði niður Fimmvörðuhrygg á undan strákunum.

Þegar við vorum nærri því komnir að Fúkka sáum við mann sem gekk eftir austurleiðinni frá skálanum og upp í vegskarðið. Bakpoka hafði hann ekki og öslaði snjóinn án skíða og stafa. Félagar mínir veifuðu en hann svaraði ekki kveðjunni þótt hann sæi okkur fullvel. Eitthvað var þarna rætt um dónalega framkomu á fjöllum. Ég jók ferðina og skíðaði sem hraðast niður Hálsinn, langt á undan félögum mínum, sem þó eru allir betri skíðamenn en ég.

Söguna um viðureign mína við drauginn hef ég ekki sagt neinum fyrr en nú. Og það af gefnu tilefni. Velti því fyrir mér hvort hjólamaðurinn og draugurinn séu einn og sami, sko maðurinn. Skuldir afsakanna safnast fyrir hjá mér.

En svo ég víki aftur af sögunni um hjólreiðamanninn. Hann hvarf mér út í buskann. Ég tróð því nú hlustunargræjunum aftur upp í eyrun og hélt áfram að hlusta á Egils Sögu. Eitthvað hafði ég þó misst úr því þarna sagði:

Egill hafði mörg sár og engi stór; fóru þeir nú sína leið; hann batt sár förunauta sinna og voru engi banvæn; settust þeir þá í sleða og óku, það er eftir var dagsins.
En þeir hinir vermsku, er undan komust, tóku hesta sína og drógust austur af skóginum til byggða; voru þá bundin sár þeirra; fá þeir sér föruneyti, til þess er þeir komu á fund jarls, og segja honum sínar ófarar; þeir segja, að hvortveggi Úlfur er fallinn og dauðir voru hálfur þriðji tigur manna -- "en fimm einir komust undan með lífi og þó þeir allir sárir og barðir."

 

Efri myndin er af tunnu með mannasaur úr Fimmvörðuskála. Skálverðir er að hella úr henni í hyldjúpa sprungu á Mýrdalsjökli. Þar geymist hann uns Katla gýs honum. Það verður sjón að sjá.

Seinni myndin er af austurhlið Fimmvörðuskála. Skíðin hafa verið lögð niður enda örskammt í brottför.


Er markmiðið í stjórnmálum að ófrægja andstæðinginn?

Sé ætlunin að berja á andstæðingi í stjórnmálum, niðurlægja hann eða ófrægja er aðferðafræðin þessi:

  1. Vitna í orð andstæðinganna
  2. Fara rangt með tilvitnunina
  3. Leggja út af hinni röngu tilvitnun
  4. Fá fleiri til að gera hið sama

Þetta kann Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar flestum betur og fer nákvæmlega eftir þessum fræðum. Hún skrifar grein í Morgunblaðið 30. janúar 2021, sjá hér.

Og svona gerir hún:

Vitnar í orð andstæðinganna:

Það kom líka ber­lega í ljós á Alþingi í vik­unni þegar Logi Ein­ars­son, formaður Samfylking­ar­inn­ar, spurði Bjarna Bene­dikts­son, formann Sjálf­stæðis­flokks, út í af­stöðu hans til sí­fellt verri stöðu Íslands í þess­um mál­um. Því miður báru svör for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins með sér að hann tel­ur skýrsl­ur sem þess­ar, sem og niður­stöður GRECO, sam­taka ríkja Evr­ópuráðsins gegn spill­ingu, ekk­ert til að hafa áhyggj­ur af.

Fer rangt með tilvitnunina:

Svo virðist sem formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins telji það eng­in áhrif hafa á ís­lenskt at­vinnu­líf og efna­hag þjóðar að hér auk­ist spill­ing jafnt og þétt á valda­tíma hans, en þá er rétt að benda hon­um á að við ákvörðun um fjár­fest­ing­ar er­lendra aðila hér á landi er ein­mitt horft til stöðu ríkja er varðar spill­ingu.

Leggur út af hinni röngu tilvitnun:

Allt sam­fé­lagið tap­ar trú­verðug­leika á alt­ari sér­hags­muna­gæslu Sjálf­stæðis­flokks­ins. Rann­sókn­ir sýna að spill­ing er ill­víg mein­semd sem ógn­ar lýðræðinu, grund­vall­ar­mann­rétt­ind­um og lífs­gæðum al­menn­ings.

Fá fleiri til að gera hið sama

Þessu gleymdi þingmaðurinn en veit svo sem að upphlaupslið Samfylkingarinnar tekur undir orð hennar í athugasemdadálkum fjölmiðla. Og auðvitað gerist það.

DV segir frá Moggagrein Helgu Völu Helgadóttur, alþingismanns. Og í athugasemdadálkinum vantar ekki skítlegar athugasemdir.

Jón Hreggviður Helgason segir: 

Leggja þennan Sjálfstæðis NASISTA FLOKK NIÐUR hann byggist á spillingu auðvaldsins

Jóna Ástríður segir:

Djöfuls hroki og spilling í þessu bláa liði,nú er það ekki bláa hendin,það er bláar eiturtúngur.

Æsingurinn er slíkur að fólk sem svona talar er til alls víst komi það höndum yfir heykvíslar, hafnaboltakylfur, snæri og ... eitthvað enn hættulegra.

Þetta er skrifað á þeim dögum sem flestir stjórnmálamenn og gott fólk hvetja til hófsemi í orðræðu og fordæma skotárásir á stjórnmálaflokka, árás á bíl borgarstjóra og svo framvegis. Þá segist Helga Vala Helgadóttir alþingismaður vera góða fólkið. Lesendur taka eflaust undir það eftir að hafa lesið ofangreint.

Orð Bjarna

Og hvað sagði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, í tveggja mínútna svari í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Í frétt á mbl.is segir:

Mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við get­um gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eitt af því sem er áber­andi í skýrslu sem þess­ari, og það sama á við um GRECO-út­tekt­ir, er að það eru ekki endi­lega dæm­in um spill­ing­ar­mál sem menn hafa í hönd­un­um, held­ur til­finn­ing­in fyr­ir því að ein­hvers staðar grass­eri spill­ing, ein­hver svona óljós til­finn­ing. Oft ger­ist það nú þegar for­menn í stjórn­mála­flokk­um koma upp og tala ein­mitt inn í þá til­finn­ingu, að hún versn­ar,“ sagði Bjarni.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar er hún fullyrðir að Bjarni segi að skýrslan sé ekkert til að hafa áhyggjur af.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar og segir að Bjarni hafi engar áhyggjur af spillingu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, leyfir sér að draga rangar ályktanir af upploginni tilvitnun sinni er hún talar um sérhagsmuni Sjálfstæðisflokksins.

Markmið Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns, virðist ekki vera að vinna fyrir samfélagið heldur að ófrægja aðra. Hún gerir það af mikilli list.

 

 

 

 

 


Basic kúbein, ennþá og tímapunktur

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.


Er ekki þörf á að mála skrattann á vegginn?

200306 kortGóður vinur minn heldur því fram að draga mun úr Covid-19 veirunni á næstu sex mánuðum en þá komi önnur bylgja sem kemur frá Afríku eða Suður Ameríku og orsökin er stökkbreyttur vírus.

Þetta skrifaði ég í pistli sem birtist hér 6. mars 2020, fyrir tæpu ári. Þá birti ég meðfylgjandi kort frá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum. Ekki hafði ég neina trú á að vinur minn myndi reynast neitt sannspár en fannst að athyglisvert orðalagið „stökkbreyttur vírus“.

Svo hjaðnaði faraldurinn í byrjun sumars, allt virtist ganga svo vel og fólk slakaði á vörninni. Í ágúst fór allt á fleygiferð. Þá kom franska afbrigðið, í haust það breska og nú óttast sérfræðingarnir brasilísku útgáfuna og jafnvel eitthvað annað. Dreg þó í efa að þetta séu stökkbreytt afbrigði covid-19. 

Síðustu fréttir frá sóttvarnarlækni herma að til sé breytt covid-19 veira sem nýju bóluefnin ráða ekki að fullu við. Frést hefur um suður-Afrískt afbrigði covid-19 sem sé hættulegra en öll önnur.

Þó svo að ég sé nú yfirleitt frekar jákvæður og bjartsýnn ber ég ugg í brjósti. Nú hafa komið þrjá bylgjur farangursins og sú síðasta er langverst. Ástæðan kann að vera kæruleysi fólks um allan heim og veiran smitist hraðar og greiðar en áður. Mannkyndið kann að vera varnarlaust vegna þess að það vill ekki verjast.

Hvað gerðist veturinn 2020?

Athygli vakti að á kortinu frá 6. mars 2020 eru skráningar faraldursins ærið misjafnar. Ég hafði og hef enn þá trú að hér á landi hafi skráningar tilfella verið réttar, miklu betri en í flestum löndum. Sé það rétt er forvitnilegt að skoða kóvítið annars staðar með hliðsjón af hlutfallslegri útbreiðslu á Íslandi.

Andavaraleysi margra ríkja var greinilegt í mars. Þegar við lítum núna til baka var þetta hrópandi rugl, jafnvel glæpsamlegt. Svo virðist sem að þá hafi það meðvituð ákvörðun fjölmargra ríkja að gera sem minnst úr útbreiðslu covid-19? Margt bendir til að í upphafi hafi í mörgum löndum ekki verið rétt frá sagt um útbreiðsluna og ástandið. 

Á þessum tíma höfðu þrjátíu og sex Íslendingar veikst sem er 0,01% íbúafjöldans. Ég gekk út frá því að það væri „eðlileg“ staða í dreifbýlu eyríki. Með hliðsjón af hlutfallstölunni tók ég saman nokkrar staðreyndir. 

  • Þýskaland; 545 veikir, ættu að vera 8100
  • Pólland; einn veikur, ættu að vera 3.800
  • Frakkland; 423 veikir, ættu að vera 6.300
  • Bretland; 116 veikir, ættu að vera 6.000
  • Bandaríkin; 233 veikir, ættu að vera 35.000
  • Ítalía 3.858 veikir, ættu að vera 6.000
  • Austurríki 43 veikir
  • Rússland; fjórir veikir
  • Ungverjaland, einn veikur
  • Tyrkland enginn veikur

Trúir því einhver að tölur um útbreiðsluna í þessum löndum hafi verið réttar? Nei, auðvitað ekki. Annað hvort voru þær kolrangar eða vanhæfnin var svona óskapleg að stjórnvöld í þessum löndum vissu ekkert hvað var að gerast.

Nokkru síðar kom í ljós í fjölmörgum löndum létust mun fleiri en í meðalári. Heilbrigðisfólk og sérfræðingar bentu á að þó margir hafi látist úr covid-19 skýri það ekki fjölda dauðsfalla umfram meðaltalið. Ljóst er að fjöldi fólks hafi látist heima hjá sér vegna veirunnar en fullyrt að það hafi dáið vegna „flensu“ vegna þess að engar rannsóknir voru gerðar.

Afleiðingin af andvarleysi stjórnvalda varð sú að faraldurinn magnaðist svo ekkert var við ráðið. Þrautalendingin var að takmarka frelsi borgaranna. Gripið var víðast til fjölmargra ráða en ekkert gekk og því endað á útgöngubanni. Róttækustu aðgerð sem hugsast getur gegn útbreiðslu sjúkdóms.

Hræðileg staða kom upp á Ítalíu og Spáni. Af hroka sínum virtust stjórnvöld norðar í álfunni halda að útbreiðslan í þessum löndum væri vegna vanhæfni heilbrigðiskerfisins og stjórnvalda og í þessum löndum. Þetta átti fljótt eftir að breytast.

Screenshot 2021-01-21 at 13.44.14Þegar kom fram á haust var ljóst að stjórnvöld í norður hluta Evrópu réðu ekki heldur við neitt og brugðu þá á sama ráð og Suður-Evrópuríkin.

Útgöngubann var sett á. Fyrirtækjum var fyrirskipað að hætta starfsemi, fólk varð atvinnulaust og tekjulaust og lenti á framfæri hins opinbera. Og pestin breiddist út um allan heim eins og glögglega má sjá á næsta korti sem fengið var af John Hopkins háskólanum 21. janúar 2021.

Á kortinu sést að bæði Norður- og Suður-Ameríka eru undirlögð faraldrinum. Afleiðingin er mannlegur harmleikur sem varla kemst í fréttirnar. Fólk hefur misst atvinnu sína, er rekið út úr húsnæði sínu vegna vanskila og lifir á götunni. Sveltur. Þannig er þetta víða í Suður-Ameríku og einnig í Evrópu. Hvað hefur til dæmis orðið um flóttamenn sem flust hafa til Evrópu?

CovidÁstandið í Afríku á aðeins eftir að versna. Margir velta því fyrir sér hvort smitin séu útbreiddari en tölurnar gefa til kynna. Sagt er að þar geti veira stökkbreyst. „Aðeins“ 79.000 manns hafa hingað til látist í Afríku sem er afar fátt miðað við aðrar heimsálfur.

Samanburður

Þann 11. mars bar ég saman á einfaldan hátt upplýsingar frá John Hopkins háskólanum við tölur frá 21. janúar 2021.

Meðfylgjandi tafla er ekki flókin. Hún sýnir hversu furðuleg staðan faraldursins var víða um heim í mars. Takið eftir hlutfallstölunum.

Ekki hefur staðan mikið skánað en ljóst má þó vera að stjórnvöld í mörgum Evrópulöndum hafa nú skilið að faraldurinn er afar hættulegur. Í Bandaríkjunum er loksins kominn forseti sem tekur stöðuna alvarlega.

Hlutfallslegur fjöldi smita miðað við íbúafjölda er hér lykilatriði. Svo virðist sem að í kringum 2% þeirra sem smitast deyi. Sé talan lægri (appelsínugult) má gera ráð fyrir eftirfarandi:

  1. Heilbrigðiskerfið er gott og hefur getað annað þeim sem veikjast.
  2. Íbúar fara eftir reglum og varast smit.
  3. Tölulegar upplýsingar eru vafasamar, hugsanlega rangar jafnvel falsaðar.

Ofangreint á við Bahrein, Singapore, Malasíu, Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin (UA Em í töflunni).

Sé talan hærri en 2% (gullitað) má ætla að eftirfarandi sé staðreynd:

  1. Heilbrigðiskerfið er ekki gott og getur illa sinnt þeim sem veikjast.
  2. Íbúar fara ekki eftir reglum og trúa því ekki að þeir geti smitast.
  3. Tölulega upplýsingar standast ekki, smit reiknast of fá og því er hlutfall látinna ekki rétt.

Þetta á við Kína, Ítalíu, Íran, Bretland, Belgíu, Ástralíu, Grikkland og Egyptaland.

Heimskort covid-19Staðan

Vandmálið er tvíþætt:

  • Fjölmörg ríki gefa upp rangar tölur um útbreiðslu veirunnar, viljandi eða geta ekki betur.
  • Almenningur víða afar kærulaus og gefur covid-19 lítinn gaum.

Afleiðingin er einfaldlega sú að faraldurinn er enn í miklum uppgangi, fleiri eiga eftir að smitast og deyja.

Bóluefni

En hvað með bóluefnið? Já, það er einmitt þetta með bóluefnið sem veldur mörgum hvað mestum áhyggjum. Því má líkja við kjarnorkuvopnabúr stórveldanna í kalda stríðinu. Þá var fullyrt; þeim mun fleiri kjarnorkuvopn þeim mun meira öryggi. Var eða er eitthvað öryggi í því fólgið að hægt sé að sprengja jörðina upp margfalt?

Erum við eitthvað betur sett með bóluefni sem gefur falskt öryggi? Veiran kann að vera að breytast og alls óvíst er hvort nýju bóluefnin geta unnið á öllum afbrigðum veirunnar hvað þá ef hún stökkbreytist. Er eitthvað öryggi í því fólgið að bóluefnið gagnist aðeins gegn covid-19 en ekki öðrum jafnhættulegum eða hættulegri veirum?

Auðvitað er ég að mála skrattann á vegginn. En þurfum við ekki að skoða málin í stóru samhengi? Það þótti mikil fórn að 400.000 Bandaríkjamenn létust í seinni heimstyrjöldinni og nú hefur sami fjöldi dáið vegna veirunnar. Og fólk yppir bara öxlum.

Í Evrópu hafa 662.000 manns dáið vegna hennar. Í Asíu hafa helmingi færri látist, „aðeins“ 325.000 manns.

Takið eftir heimskortinu sem hér fylgir. Við skulum fylgjast með flestum þeirra landa sem lituð eru með gulu. Þar mun faraldurinn grassera næstu misseri og jafnvel mun veiran stökkbreytast þar.

Ágæti lesandi, þú mátt bóka það að langt er í að lífið í heiminum falli aftur í þær skorður sem það var árið 2019 og fyrr. Þó við getum vel við unað hér á Íslandi er víst að enginn er eyland þó á eylandi búi.

 

  

 

 

 

 

 


Hnífurinn keyrður í bak Ágústar krata

Ég hef ekki alltaf verið sammála Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. En ég ber virðingu fyrir honum í pólitíkinni. Hann er dugandi þingmaður, harður í horn að taka og á stundum rökfastur. Dálítið „pópúlískur“ en ekki til mikils skaða. Sé engan hans líka í þingliði flokksins.

Nú er bara tími Ágústar liðinn. Hann hlaut ekki náð fyrir augum uppstillingarnefndar sem er handhafi lýðræðisins í Samfylkingunni.

Ég er alveg sammála nefndinni. Burtu með Ágúst. Og við andstæðingar flokksins fögnum víginu.

Nei, ég held að handhöfum lýðræðisins í Samfylkingunni sé ekki sjálfrátt þegar þeir vísa Ágústi út í ystu myrkur.

Líkast til heldur flokkseigendafélagið að nýkjörinn þingmaður öðlist daginn eftir kosningar allan heimsins vísdóm og þekkingu. Reynsla og þekking skiptir varla neinu í þeirra augum.

Aðferðafræðin minnir á verklagið í ríkisstjórninni sem Samfylkingin og Vinstri grænir kölluðu „skjaldborg heimilanna“. Að henni kom sautján manns. Sumir voru kallaðir ráðherrar en voru bara í starfsþjálfun, fengu að máta ráðherrastólinn í skamman tíma.

Svo ör var skiptingin að enginn náði að setja sig inn í verkefnin enda ekki til þess ætlast. Prófa og fara svo. Nú er fullt af fólki í þessum flokkum sem kallar sig „fyrrverandi ráðherra“.

Ráðuneyti stjórna þeim sem eru í starfsþjálfun sem ráðherra, ekki öfugt. Það vantaði hins vegar ekki að daginn sem nýgræðingur tók við ráðherrastöðu byrjaði hann að tala eins og valdsmaður, vissi allt, gat allt og kunni allt. 

Sama virðist eiga við núna hjá Samfylkingunni. Hún byggir á því að skipta út fólki. Sækja lið í starfsþjálfun, láta það að máta rassförin í þingstólnum í þeirri von að þeir endist þangað til þeir verða reknir.

Sagan segir kratar séu fljótir að draga upp hníf sjái þeir óvarið bak samherja. Þetta er ástæðan fyrir því að þeir ganga með veggjum.

Lýðræðið Samfylkingarinnar byggist á því að velja þingmenn á lista í „reykfylltum bakherbergjum“ því almenningi er ekki treystandi fyrir því.

 


Komst í skiptimynt, Biden vígður og Harris brýtur blað um allan heim

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband